Hörðu málin í framhaldsskólunum

í Greinar

Grein (ávarp) birt til heiðurs dr. Jóni Torfa Jónassyni prófessor emeritus 75 ára

Súsanna Margrét Gestsdóttir

 

Þegar ég var beðin að tala hér í nokkrar mínútur um framhaldsskólann fann ég strax að mig langaði til að tala um hörðu málin í framhaldsskólanum. En hvað á ég við með því?

Við höfum alls konar  stefnumótunarskjöl sem hægt er að skoða og ræða í þaula – ég ætla ekki að gera það hér. Og svo hafa þessir rúmlega 30 framhaldsskólar sem  starfa hér á landi ýmiss konar námskrár og nálganir – ég ræði það ekki heldur.

Það sem mig langar að nota þetta tækifæri til að ræða og kalla hörðu málin í framhaldsskólanum eru þau sem skipta jafnvel meira máli en hvaða greinar eru kenndar og hversu miklum tíma er varið í hverja þeirra.

Ég tel að þetta rúmist undir grundvallarspurningunni: Hvernig fólk viljum við útskrifa úr íslenskum framhaldsskólum?

Lítum upp úr opinberum skjölum og ræðum þetta mál. Við viljum trúlega flest að nemendur sem ljúka framhaldsskólanámi

  • hafi öðlast gagnrýna hugsun og beiti henni, láti t.d. ekki auðveldlega blekkjast á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu.
  • séu meðvituð um mikilvægi samkenndar, sjái samhengi orða og gjörða í samskiptum fólks af öllu tagi, og átti sig á að lífsins gæði verða ekki minni þegar fleiri fá notið þeirra.
  • geri sér grein fyrir samhengi fyrirbæra og atburða, að allt á sér orsök og allt hefur afleiðingar. Hvernig það ætti t.d. ekki að koma neinum á óvart að opinber stuðningur við hernað í fjarlægum heimshluta leiði til þess að milljónir – já milljónir – missa heimili sín og þurfa að leita um langan veg að öryggi til okkar sem látum þá eins og við getum náðarsamlegast hlaupið undir bagga með fáeinum þeirra. Eins og þeirra vandi sé ekki okkar mál!

Þetta þrennt sem ég hef nefnt gerir allt kröfu um yfir-hugsun, að hugsa um það að hugsa.

Og þá komum við að kennurunum. Er ekki sjálfsagt að gera þá kröfu til framhaldsskólakennara að þau séu meira en faggreinakennarar, að þau hugi líka að stóru línunum í menntun nemenda sinna?

Ég segi við nemendur mína á námsbrautinni Menntun framhaldsskólakennara í upphafi náms þeirra að ég vilji að til starfa í framhaldsskólum landsins komi einungis fyrsta flokks kennarar sem hreyfi við nemendum með kennslu sinni á sama tíma og þau ljúka að sjálfsögðu upp dyrum að töfraheimum fræðigreinar sinnar. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum áherslu á virkar kennsluaðferðir og nemendamiðaða kennsluhætti, ekki vegna tískustrauma í kennslufræðum heldur vegna þess að nám á að hreyfa við nemendum, skilja eftir ummerki. Framhaldsskólakennarar verða að vera færir um að halda þessum bolta á lofti líka, rétt eins og kennslunni í sínu fagi.

Stundum er bent á hversu miklar kröfur eru gerðar til kennarastéttarinnar, að á henni standi öll spjót. Það er satt og rétt. En ég segi að þannig sé kennarastarfið, það er hluti starfsins að mæta kröfum og kennarar eiga að vera kröfuharðastir við sjálfa sig. Við sem menntum kennara eigum að leggja áherslu á þetta.

Við vitum að íslenskir framhaldsskólakennarar eru umhyggjusamir, þeir bera mikla umhyggju meðal annars fyrir andlegri velferð nemenda sinna, það sýna rannsóknir fyrr og nú. Við vitum að námsmati er nú almennt ætlað að styðja nemendur í að tileinka sér það námsefni sem um ræðir og hin gamla hugmynd um að tilgangur námsmats sé að hanka nemendur á því sem þau kunna ekki er hverfandi.

Þetta þýðir ekki að alltaf eigi að taka á nemendum með silkihönskum. Eiga kennarar ekki líka að knýja nemendur til að hugsa, hvetja þau til að taka þátt í samræðum sem byggja á rökum frekar en sleggjudómum, ögra þeim til fara lengra og dýpra en þau myndu gera ein og óstudd,  er það ekki þar sem nám fer fram? Þarna mega kennarar ekki hika og skólinn verður að veita þeim tækifæri til þessa þó að erfitt sé að mæla árangur.

Þar með erum við komin að umgjörðinni um þetta allt. Fyrir nokkrum árum var framhaldsskólanám á Íslandi stytt úr fjórum árum í þrjú. Við eigum eftir að sjá hvað það hefur haft í för með sér í raun og veru en mörgum hafði fram að því þótt einn helsti kostur íslenska stúdentsprófsins einmitt vera hversu fjölþætt það var, hvað nemendur höfðu gott tækifæri til að vera einskonar „dilettante“, með svolitla innsýn í hinar og þessar fræðigreinar sem aldrei er að vita hvaða ávöxt getur borið.  Einhvern tíma í sögunni hefur verið litið á slíkt sem aðalsmerki menntunar en nú erum við spenntari fyrir skilvirkni og hraða, einnig hvað varðar þroska ungs fólks en það hlýtur að vera mótsögn í sjálfu sér.

Auðvitað breytist framhaldsskólinn með breyttu samfélagi en þegar við reynum okkar besta til að rýna í menntun 21. aldarinnar ströndum við alltaf á því sama. Sem sé því að enginn veit fyllilega hvert stefnir, hvaða námsgreinar eru til þess fallnar að þjálfa þá færni sem fólk mun hafa mesta þörf fyrir á komandi áratugum. Við þekkjum það öll að til dæmis nauðsynleg tækniþekking breytist frá einum degi til annars en að vera skikkanleg í mannlegum samskiptum hlýtur að skipta máli á meðan mannkyn tórir. Og nefnið mér þá námsgrein sem býður ekki tækifæri til þess sem fyrr var nefnt, að ögra nemendum til að hugsa og taka þátt í samræðum sem byggja á rökum!

Nú veit ég ekki hvað ykkur finnst um þessi orð mín hér á hátíðafundi til heiðurs skólamanninum Jóni Torfa Jónassyni. En sannleikurinn er sá að við lifum á gríðarlega mikilvægum tímum. Sem sagnfræðingi finnst mér áhugavert að nú á þriðja áratug 21. aldarinnar séu sömu blikur á lofti og á þriðja áratug þeirrar tuttugustu, enn á ný er runninn upp blómatími fasisma og alræðishyggju.

Já, áhugavert frá sjónarhóli sagnfræðinnar en sem manneskju finnst mér það skelfilegt. Einu sinni sem oftar kemur í ljós að þegar harðnar á dalnum er grunnt á grimmd og voðaverkum sem enginn hefði áður getað gert sér í hugarlund. Og eins og margoft hefur verið bent á kemur menntun út af fyrir sig aldeilis ekki í veg fyrir það.

Og þær eru fleiri, blikurnar. Við höfum væntanlega öll veitt því athygli að bæði á heimsvísu og hér í okkar góða landi verðum við um þessar mundir vitni að hugmyndafræðilegri afturför á mörgum sviðum sem kann að koma verulega á óvart. Í skólum landsins hefur til að mynda verið mikið rætt undanfarið um aukna fordóma gagnvart fólki af erlendum uppruna og hinsegin fólki. Það kemur í ljós að árangur sem talinn var vera í höfn getur horfið ef menn ugga ekki að sér. Og þá er loftslagsváin ónefnd og þau brennandi viðfangsefni sem henni fylgja en þorri fólks lítur framhjá. Því að ekki er nóg með að fjöldi fólks láti gabbast nú á dögum falskra upplýsinga heldur virðist hluti þess beinlínis ekki hafa neinar áhyggjur af því, jafnvel kjósa að láta ljúga að sér, kjósa að hunsa ábendingar eða leiðréttingar.

Þegar litið er til skólamálaumræðu í sumum nágrannalanda okkar er deginum ljósara að til eru firnasterk öfl sem vilja ekki að nám ungs fólks sé tengt við veruleika þess og það látið skipta máli fyrir líf þess hér og nú. Sömu öfl vilja að námsgreinar hverfist um hefðbundinn kanón hverrar fræðigreinar fyrir sig, það hafi gefist best í gegnum tíðina og þannig sé rétt að hafa það áfram.

Þetta er skýrt merki um þróun í átt til svokallaðs anocracy, einhverskonar útþynntrar blöndu lýðræðisfyrirkomulags og einræðis þar sem fólk kann að halda að það hafi einhverja rödd því að valdhafar leyfa andó en taka það þó ekki til greina í raun. Þetta hefur verið kallað herraræði á íslensku.  Skóli í slíku umhverfi vill ekki mennta hugsandi fólk en viljum við búa við þetta?

Því vil ég enda þetta stutta spjall á að ítreka að til að framhaldsskólinn eigi farsæla framtíð sem raunveruleg menntastofnun má hann ekki gleyma hörðu málunum – hann má ekki láta undir höfuð leggjast að næra

  • gagnrýna hugsun,
  • samkennd,
  • skilning á samhengi hlutanna.
Dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor emiritus við Háskóla Íslands. Greinin byggir á ávarpi sem höfundur flutti á málþingi til heiðurs honum á málþingi 16. nóvember 2022.

 


Súsanna Margrét Gestsdóttir (susmar(hja)hi.is) er lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er sagnfræðingur og kennari að mennt og hefur starfað við sögukennslu, kennaramenntun og sem stjórnandi í framhaldsskóla. Súsanna Margrét hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu starfi þeirra sem standa að sögukennslu og menntun sögukennara og hún lauk doktorsnámi á því sviði við Háskólann í Amsterdam. Í starfi sínu leggur hún áherslu á tengsl háskólans við starfsvettvang kennara.


Grein birt 25. nóvember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal