Skapandi námsumhverfi í leikskólanum Jörfa

í Greinar

Vessela  Stoyanova Dukova

 

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til samkeppni um áhugavert námsumhverfi. Meðal þeirra sem sendu inn framlag var Vessela Dukova leikskólastjóri í leikskólanum Jörfa í Reykjavík. Vessela tilnefndi breytingar sem gerðar hafa verið á sameiginlegu leiksvæði innan leikskólans.

Vessela Dukova leikskólastjóri hóf störf við leikskólann sumarið 2024 og hóf innleiðingu á nýrri skólastefnu í anda Reggio Emilia. Ein af megi áherslum Reggio Emilia hugmyndafræðinnar er að virða sjónarhorn barna, hvetja þau til sköpunar og efla rannsóknargleði þeirra í gegnum leik og samskipti.  Umhverfið leikur mikilvægt hlutverk í námi barnanna þar sem það getur ýtt undir rannsóknarvinnu og sköpun barna. Þessi hugmyndafræði dregur fram að vel skipulagt umhverfi getur stutt við nám með því að vera hvetjandi og opið fyrir ýmsum aðferðum. Áhersla er lögð á skapandi starf í öllum listgreinum, á jákvæða sjálfsmynd, sjálfstæði og frumkvæði í uppeldinu. Áhugi, sköpun og skoðanir eru virtar í samspili barna við önnur börn, fullorðna og umhverfi sitt.

Bókasafnið

Í leikskólanum Jörfa var ákveðið að skipta miðrými leikskólans í smærri svæði og skapa þar rólegt og notalegt umhverfi fyrir bókasafn. Með bókasafninu er verið að styðja við þroska barna og vekja áhuga þeirra á lestri strax frá unga aldri. Bókasafnið er búið þægilegum sófa og litlum hægindastól ásamt fallegri mottu þar sem börnin geta setið, legið og skoðað bækur. Einnig er gólflampi sem skapar notalegt andrúmsloft á svæðinu. Bækur eru hafðar í þeirri hæð sem auðveldar börnunum aðgengi að þeim. Bókahillur eru með skýrum merkingum og leiðbeiningum sem auðveldar börnunum að velja og setja bækur aftur á sinn stað að lokinni notkun.

Fjölbreytt úrval bóka er á safninu sem er aðgengilegt fyrir öll börn leikskólans. Bækur með stuttum texta og stórum litríkum myndum, bækur sem fjalla um tilfinningar og hið daglega líf, bækur sem kenna, liti, form og tölur. Einnig má finna bækur sem tengjast náttúru og vísindum.

Til að börnin kynnist og þekki höfunda barnabóka á borð við Astrid Lindgren, Ásthildi Bj. Snorradóttur, Sigrúnu Eldjárn o.fl. hafa verið settar upp myndir af höfundum sem börnin geta skoðað og það hjálpar þeim að tengja höfund við bók.

Um þetta segir Vessela:

Við sjáum að þegar börn hafa aðgang að fjölbreyttu úrvali bóka sem höfða til þeirra geta þau lært og skemmt sér á sama tíma. Við erum mjög glöð að sjá hvað börnin sækja í bókasafnið þar sem þau geta átt notalega stund með vinum sínum og beðið kennara og jafnvel foreldra að lesa fyrir sig.

 

Kubbasvæðið

Í miðrými leikskólans er einnig byggingarsvæði sem í daglegu tali er kallað kubbasvæðið; svæði þar sem börnin leika sér með kubba úr mismunandi efni, stærð og í ólíkum litum til að skapa byggingar, mynstur og önnur verk. Þetta er frábær leið til að örva skapandi hugsun, samhæfingu handa og augna, fínhreyfingar auk þess að hjálpa börnum að læra um form, jafnvægi og rýmisskilning. Byggingarsvæðið er aðgengilegt börnum á öllum deildum ásamt því að vera sýnilegt fyrir foreldra. Börnin eru mjög stolt af byggingum sínum og vilja sýna foreldrunum verk sín. Foreldrar gefa sér stundum tíma og staldra við á svæðinu og byggja með börnum sínum.

Við breytingar á kubbasvæðinu var haft í huga að hafa kubbana úr mismunandi efni og í ólíkum litum til að geta boðið upp á fjölbreytni. Svæðið er afmarkað með grænni mottu til þess að hafa möguleika á að börnin geti geymt byggingar sínar til að þróa þær áfram seinna.

Kubbarnir eru fjölbreyttir að lögun, ferhyrningar, sívalningar, þríhyrningar o.fl. og eru aðgengilegir öllum börnum svo þau þurfi ekki að biðja um hjálp við sköpun sína. Veggspjald hefur verið sett upp með heitum og myndum af kubbunum sem auðveldar börnum og starfsfólki að læra heiti þeirra. Hugmyndir að byggingum eru sýnilegar – það eru einfaldar myndir og spjöld með leiðbeiningum til að veita börnunum fyrirmynd um hvað þau geta byggt.

Börnin eru hvött til að vinna saman og byggja stórar byggingar eða leika sér í hlutverkaleik í kringum þær. Á svæðinu eru bækur og sögukort með þemum sem ýtir undir hugmyndir barnanna. Börnin eru hvött til að fara á kubbasvæðið og það eru teknar ljósmyndir af þeim og byggingum þeirra sem eru prentaðar út og hafðar til sýnis á kubbasvæðinu. Þetta virkar hvetjandi fyrir önnur börn þar sem þau sjá byggingar félaga sinna ásamt því að spennandi er að eiga mynd við hlið félagans.

Aðspurð um það hvernig hún sjái fyrir sér að starfið og námsumhverfið þróist næstu misseri  vísar Vessela til innleiðingar Reggio Emilia stefnunnar og segir:

Aðaláskorun fyrir mig er fyrst og fremst að efla fagmennsku starfsfólks með fræðslu og faglegu samtali. Að kennarar og starfsfólk sé meðvituð um hugmyndafræði Reggio Emilia. Þetta getur leitt til sterkari fagvitundar og aukinnar hæfni í að styðja börn í skapandi og gagnrýnu námi.

Að halda áfram að breyta námsumhverfinu sem „þriðja kennarann“ og að það fái meira vægi með áherslu á að skapa opið og innblásandi námsrými. Þetta gæti þýtt sveigjanlegra skipulag, fjölbreyttari efnivið og hvetjandi svæði sem stuðla að sköpunargleði og sjálfstæðu námi; að börnin verði virkari þátttakendur í ákvörðunum sem  varða nám sitt og verkefni. Þetta gæti ýtt undir aukið sjálfstæði og sjálfstraust þeirra.

Ef stefnan er innleidd markvisst og í samræmi við gildi hennar, gæti þetta stuðlað að ríkara námsumhverfi, auknum tengslum og djúpstæðari þátttöku bæði barna og starfsfólks í námsferlinu.

Einnig tengist sjálfstæði barna og virkri þátttöku þeirra í skólalífi í samræmi við Barnasáttmálann.

————————————

Vessela  Stoyanova Dukova er búlgörsk að uppruna. Hún lauk námi í viðskiptafræði í Búlgaríu 21 árs gömul en flutti ári síðar til Íslands. Eftir að hafa unnið við ýmis störf hóf hún að vinna í leikskóla sem leiddi til þess að hún fór í leikskólakennaranám sem hún lauk með M.Ed. gráðu 2016. Hún er nú  leikskólastjóri í leikskólanum Jörfa í Reykjavík. Auk þess kennir hún leikskólafræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Vessela heldur úti vefsíðu með leikjum fyrir börn á aldrinum þriggja til fimm ára, sjá á þessari slóð:  https://www.leikidmedsjalfbaerni.com/leikjabankinn

Sjá nánar um Vesselu í viðtali sem birtist við hana í Skólavörðunni 16. maí 2024: „Það er ævintýri að vera leikskólakennari“.


Grein birt 21. desember 2024

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal