Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Verið sanngjörn, haldið í gleðina, fjörið og hafið gaman

í Viðtöl

Rætt við Mikael Marinó Rivera, kennara í Rimaskóla í Reykjavík, einn af fimm kennurum sem tilnefndir voru til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Íslensku menntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 2. nóvember sl. Sýnt var frá athöfninni í sjónvarpsþætti á RUV kvöldið eftir. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum: Framúrskarandi skólastarf, kennsla, þróunarverkefni og iðn- og verkmenntun. Að auki eru veitt hvatningarverðlaun (sjá nánar hér). Verðlaunahafar voru kynntir vel í fyrrnefndum sjónvarpsþætti (sjá hér), en ritstjórn Skólaþráða hafði áhuga á að fá að kynnast betur þeim kennurum sem tilnefndir voru fyrir framúrskarandi kennslu. Því var ákveðið að leita til þeirra og biðja þau að svara nokkrum spurningum um viðhorf sín og reynslu og urðu þau góðfúslega við þeirri beiðni.

Hér eru svör Mikaels Marinó Rivera, kennara við Rimaskóla í Reykjavík, sem tilnefndur var til menntaverðlaunanna fyrir áhugaverða kennslu, meðal annars fyrir að þróa fjölbreyttar valgreinar sem hafa höfðað til breiðs hóps nemenda.Mikael

Mikael lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 2008. Hann hefur kennt við leikskóla og grunnskóla, bæði hér á landi og á Spáni. Hann er nú upplýsingatækni- og umsjónarkennari við Rimaskóla í Reykjavík. Mikael hikar ekki við að fara óhefðbundnar leiðir í kennslu sinni og leggur mikla áherslu á að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum. Hann nýtir upplýsingatæknina á skapandi hátt og á auðvelt með að vekja áhuga nemenda og hvetja þá áfram og hefur náð sérstaklega góðum árangri, meðal annars með valnámskeiðum sem hann hefur verið að þróa og byggja á áhugasviðum nemenda.

Mikael var spurður hvort tilnefningin hefði haft einhverja þýðingu fyrir hann?

Þessi verðlaun eru frábær og gott væri að sjá að þau yrðu meira áberandi í íslenskum fjölmiðlum. Það er mjög mikilvægt að efla umfjöllun um það sem er að gerast í skólum landsins og menntaverðlaunin eru sannarlega liður í því. Það var mikill heiður að fá tilnefninguna og hún var vissulega óvænt en um leið mjög ánægjuleg. Þetta er viðurkenning á því sem maður er að gera í kennslunni og gott klapp á bakið.

Hvers vegna ákváðstu að að verða kennari?

Það voru kennarar sem höfðu þau áhrif á það að mig langaði að vera kennari. Ég verð að nefna Helgu Guðfinnu Hallsdóttir, sem kenndi mér í Ártúnsskóla og svo Auður Tryggvadóttir kennarinn minn í Árbæjarskóla. Þá hafði Ellert Borgar Þorvaldsson, sem lengi var skólastjóri Ártúnsskóla, mikil áhrif á mig. Og ekki má gleyma Ragnheiður Bóasdóttur sem var námsráðgjafi í Fjölbraut við Ármúla. Hvatningin þeirra og óbilandi trú á styrk nemenda sinna var það sem fleytti mér og fjölmörgum öðrum í gegnum námið. Þetta varð til þess að mig langaði að fara í þeirra spor og reyna að gera það sama fyrir aðra.


Í umsögn um Mikael sem fylgdi tilnefningu sagði meðal annars:

Mikael Marinó hefur unnið þrekvirki í að efla áhugasvið nemenda sem eru komnir með skólaleiða. Hann er jákvæður, uppbyggjandi og hefur jákvæða sýn á fjölbreytileika í nemendahópi … Hann hefur útbúið margvíslegar valgreinar til að kveikja áhuga nemenda og þar má nefna: Ökuskóli Mikaels (undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám), Stangveiði (nemendum eru fræddir um stangveiði, fara í kastkennslu, fá kennslu á veiðibúnað, læra fluguhnýtingar, læra um lífríki í ám og vötnum og fara í veiðiferðir), Gamlir tölvuleikir, Borðspil, Lord of the rings (Kafað dýpra í hugarheim Tolkiens), Hlaðvarp (læra að búa til hlaðvörp frá handriti í útgáfu), Evrópuknattspyrnan (farið yfir leiki vikunnar í stærstu deildum Evrópu). Mikael er boðinn og búinn að aðstoða þegar áskoranir koma upp og hefur verið stoð og stytta fyrir nemendur í unglingadeild.


Úr valgreinabæklingi Rimaskóla fyrir vorið 2023. Smellið á myndina til að lesa frétt á mbl.is um fluguveiðinámskeið Mikaels.

Hefur kennslan þín breyst með aukinni reynslu?

Reynslan hefur vissulega gert mér gott og með hverjum vetrinum sem líður eykst sjálfstraustið og maður þorir að fara nýjar leiðir til þess að ná til sem flestra með hugmyndum sínum. Ég var svolítið formfastur í byrjun, fór algjörlega eftir bókinni frá A til Ö. En með framþróun í tækninni og breyttu skólaumhverfi þá hef ég oftar stigið út fyrir boxið. Ég fer fjölbreyttar leiðir og hvet alltaf nemendur að fara sömu leið þegar þau læra. Tæknin býður upp á svo mikla möguleika sem ég reyni að láta sem flesta nýta sér.

Því er haldið fram að kennarastarfið sé að breytast. Auknar kröfur séu gerðar til kennara og álag að aukast. Hver er skoðun þín á þessu? 

Starfið hefur vissulega breyst á þeim 15 árum sem ég hef kennt og breytingarnar í tækninni vega þar mest. Upplýsingatækni hefur breytt skólastarfi og mun halda því áfram. Fjölbreytnin er mikil og möguleikarnir nánast endalausir. Það eru vissulega gerðar miklar kröfur til skólasamfélagsins. Kennarar eru oft að takast á við hluti sem eru ekki endilega í starfslýsingu þeirra. Síðustu tvö ár hafa verið einstaklega krefjandi með tilheyrandi álagi. Kennarar á öllum skólastigum hafa staðið vaktina fyrir nemendur og sýnt staðfestu og ábyrgð en hafa ekki fengið þær þakkir sem þeir eiga skilið.

Á hvað leggur þú megináherslu í kennslunni þinni?

Ég hef lagt áherslu á að fá nemendur mína til þess að hafa trú á sjálfum sér og að þeir geti náð eins langt og þá dreymir um þó svo að það verði hindranir á leið þeirra að settum markmiðum. Einnig hefur skipt mig miklu að fá nemendur til þess að tileinka sér tæknina og skila verkefnum á fjölbreyttan hátt. Tæknin skapar svo marga nýja möguleika og nemendur geta skilað verkefnum á ótal vegu. Ég er óhræddur að prófa nýja hluti og það hefur oft skilað frábærum hlutum.

Nemendur á unglingastigi voru uppteknir af fyrirbærinu níðstöng. Þá var hent í eina slíka. Mynd: Haraldur Hrafnsson.

Getur þú  nefnt dæmi um viðfangsefni í kennslu sem eru þér sérstaklega minnistæð? Stendur eitthvað upp úr?

Það eru mörg skemmtileg augnablik sem eru minnisstæð og erfitt að velja úr. En ef ég verð að nefna eitthvað eitt vil ég nefna skiptin þegar þú sérð að þú ert að hafa áhrif, ert að koma nýrri þekkingu til skila. Eða þegar þú færð góðar kveðjur frá gömlum nemendum sem eru komnir út í lífið. Það eru þessi augnablik sem standa upp úr.

Hvert er mat þitt á kennaramenntuninni og hvernig getum við gert hana (enn) betri?

Kennaranámið er gott og fjölbreytt en það mætti vera meira úti á vettvangi. Þess vegna þætti mér gagnlegt að tvö síðustu árin væru kandídatsár þar sem kennaranemar myndu fá meiri innsýn og reynslu og gætu mótað sig og fundið hvar styrkleikar þeirra eru.

Ef þú gætir komið einni breytingu á menntakerfinu til leiðar – hver yrði þá fyrir valinu?

Að endurskoða námsmatið og gera það aftur þannig að það sé skiljanlegt fyrir alla!

Hvaða skoðun hefur þú á aðalnámskrá? Viltu breyta henni?

Þessa aðalnámskrá þarf að endurskrifa og endurhugsa. Það hefur tekið allt of mikinn dýrmætan tíma fyrir kennara og skóla að komast í gegnum þessa aðalnámskrá síðustu ár með tilheyrandi rökræðum og túlkunum á því sem í henni stendur og þá helst í matsviðmiðum. Eins þarf að breyta námsmatinu svo allir séu þar á sömu blaðsíðu og séu að gera það sama.

Hvaða ráð myndir þú helst vilja gefa ungum kennurum?

Verið óhrædd að prófa fjölbreyttar kennsluaðferðir og nýtið ykkur tæknina. Fyrirfram er engin ein aðferð rétt eða önnur kolröng og það er hvers og eins að finna hvaða kennsluaðferðir hentar. Umfram allt verið sanngjörn, haldið í gleðina, fjörið og hafið gaman.

 

Tölvu- og upplýsingatæknitími hjá Mikael. Mynd: Mikael Marinó Rivera.

 


Viðtal:
Ingvar Sigurgeirsson og Anna Magnea Hreinsdóttir.

Viðtal birt 29. desember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp