Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Leikandi málörvun í leikskóla – lengi býr að fyrstu gerð

í Greinar

Ingibjörg Sif Stefánsdóttir og Árdís H. Jónsdóttir

 

Í þessari grein verður stiklað á stóru um mál og læsisnám yngstu barnanna í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ. Fjallað verður um mikilvægi orðaforðanáms og hvernig markviss málörvun fer fram frá upphafi leikskólagöngunnar með stigbundnum hætti. Rætt verður um málörvun fyrir börn með seinkaðan málþroska og ört stækkandi hóp fjöltyngdra barna á Íslandi.

Í Tjarnarseli tvinnast leikur barnanna saman við allt skólastarfið. Litið er á leikinn sem rauðan þráð í þétt ofinni fléttu margra námsþátta. Enginn vafi leikur á mikilvægi hans fyrir þroska barna, þau gleyma sér í skemmtilegum og sjálfsprottnum leik sem einkennist af krafti, gleði og áhuga. Leikurinn byggir undir nám og hæfni til að takast á við áframhaldandi skólagöngu. Ef börnum leiðist læra þau lítið sem ekkert. Þess vegna er brýnt að námsumhverfi barna veki forvitni og áhuga (Shalberg og Doyle, 2019). Í Tjarnarseli er meðal annarra horft til hugmynda John Dewey, sem benti á að börn lærðu mest með því að byggja ofan á fyrri reynslu sína og öðluðust þannig óbeina menntun. Einnig er litið til hugmynda Ingrid Pramling um að börn séu leikandi námsmenn (Ingrid Pramling, 2006) og Lev Vygotsky sem jók skilning manna á mikilvægi leiksins með skrifum sínum um leikinn sem leiðandi afl í uppeldi og þroska barna (Dale, 1997).

Kenningar þessara fræðimanna birtast til að mynda í að sjálfsprottnum leik er gefinn langur samfelldur tími bæði úti og inni. Leitast er við að skapa umgjörð um leikinn þar sem börnin geta fylgt eftir eigin áhugahvöt hverju sinni. Fjölbreytt leikefni er í boði með áherslu á opinn og skapandi efnivið eins og kubba af margvíslegum stærðum og gerðum, efni til listsköpunar, leir, stærðfræðileg viðfangsefni, bækur og spil. Verðlaus efniviður sem til fellur í leikskólanum og á heimilum kennara og barna er notaður til listsköpunar sem og leikja innandyra og í garði skólans.

Námið í leikskólanum fer fram jafnt inni sem úti við.

Í nýútkominni Menntastefnu Reykjanesbæjar (sjá hér) segir að með því að veita börnum tækifæri til sköpunar sem byggir á forvitni, ímyndunarafli, áhuga, leit og leik öðlast þau aukna sjálfsþekkingu, hæfni og áræðni til að hafa áhrif á heiminn í kringum sig (Reykjanesbær, 2021). Þessi staðhæfing samræmist hugmyndafærði Tjarnarsels vel þar sem sköpun teygir anga sína inn í öll námssviðin.

Þekking, leikni og hæfni

Læsi í víðum skilningi þess orðs er mikilvægur þáttur samskipta. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Í leikskóla ber að skapa aðstæður þar sem börn fá meðal annars tækifæri til að kynnast tungumálinu og möguleikum þess, njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri. Einnig að öðlast skilning á að ritað mál og tákn hafi merkingu og velta vöngum yfir eigin samfélagi, menningu og menningu annarra þjóða (Aðalnámskrá leikskóla, 2011). Ótal rannsóknir sýna að  mikill gróskutími er í þroska barna fyrstu æviárin og því ber að efla mál, vitsmuna- og hreyfiþroska þeirra eftir öllum bestu leiðum sem hugsast getur. Ein slíkra leiða er að leggja ríka áherslu á faglega uppbyggðar málörvunar- og sögustundir í leikskólum. Tungumálið er verkfæri eigin hugsunar og því samofið vitsmuna- og félagsþroska barna. Að hafa gott vald á tungumálinu varðar því leiðina að velfarnaði hvers einstaklings og þátttöku hans í samfélaginu (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2013).

Mál og læsi er þess vegna annar af meginþáttum uppeldisstarfsins í Tjarnarseli ásamt vettvangs- og útinámi. Áhersla er lögð á að skipuleggja umhverfið með þeim hætti að það örvi mál- og læsisþroska barnanna.

Markmið:

  • Að vekja áhuga barnanna á tal- og ritmáli og veita þeim tækifæri til að kynnast því eftir margvíslegum leiðum.
  • Að efla orðaforða, hlustunarskilning og frásagnarhæfni barnanna.
  • Að efla hljóðkerfisvitund barnanna.
  • Að efla máltjáningu barnanna.
  • Að börnin kynnist táknum og hljóðum bókstafanna.
  • Að kynna börnin fyrir óþrjótandi ævintýraheimi og viskubrunni bókaheimsins.

Leiðir:

Málörvun hefst á yngstu deildinni af fullum krafti. Áhersla er lögð á sögulestur, söngva og hreyfileiki og byrjað er að nota aðferðina Orðaspjall sem er leið til að efla orðaforða barna með bóklestri og samræðum. Á yngstu deildinni eru lögð inn orð úr nánasta umhverfi barnanna og smátt og smátt bætist í orðaforðann. Á næst yngstu deild læra börnin að þekkja nafnið sitt á prenti, klappa í atkvæði og leika með tungumálið eftir margvíslegum leiðum. Á eldri deildunum er unnið markvisst með hljóðkerfisvitund, hlustunarskilning, orðaforða og frásagnarhæfni. Á elstu deildinni er boðið upp á Stafastundir þar sem leikið er með nöfn og hljóð stafanna með sköpun að leiðarljósi innan- sem utandyra. Málörvunin fer því stigvaxandi eftir því sem líður á skólagönguna og smýgur inn í allt starf skólans. Þegar lagt er við hlustir má heyra klóka kennara leggja inn orðaforða í öllum mögulegum aðstæðum. Dæmi um það er þegar heyrðist á tal eins kennara í fataklefanum nýlega, sem tönglaðist á því að eitthvað væri rannsóknarefni. Þegar lagt var við hlustir kom í ljós að skór hafði týnst og kennarinn og börnin leituðu að honum í krók og kima. Kennarinn síendurtók orðið rannsóknarefni við leitina að dularfulla skónum sem dúkkaði svo upp á endanum og rannsókn málsins lauk því farsællega.

Orðaforðanám fer líka fram í vettvangsferðum. Hér fræðast börnin um gróðursetningu í Aldingarði æskunnar.

Orðaforði og tjáningarhæfni er lykilþáttur í samskiptafærni okkar á öllum aldri en aðalverkfæri okkar í samskiptum við aðra er nefnilega tungumálið. Þeir sem hafa ríkan orðaforða eiga auðveldara með samskipti við aðra. Að vera leikin í samskiptum er svo mikill kostur að það þarf vart að fara nánar út í það. Það vita þeir sem hafa sjálfir baslað í mannlegum samskiptum eða átt börn eða nemendur sem hefur skort þessa hæfni, að hún er afar mikilvægur hluti af farsæld í lífinu. Að byggja undir þessa færni nemenda er því eitt mikilvægasta hlutverk okkar sem kennara (Armstrong, 2001).

Orðaspjall brýnir verkfæri hugans

Orðaspjall er eins og áður hefur komið fram leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning leikskólabarna með bóklestri. Aðferðin hefur verið í þróun í Tjarnarseli frá haustinu 2009 og hófst með þróunarverkefninu Bók í hönd og þér halda engin bönd. Orðaspjallið skipar stóran sess í öllu mál- og læsisstarfi skólans og fléttast inn í alla grunnþætti menntunar og daglegt starf.

Í tengslum við þróunarverkefnið var gefin út bókin Orðaspjall – Að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bókalestri eftir Árdísi H. Jónsdóttur leikskólastjóra. Þar er ítarlega fjallað um aðferðina og gefin dæmi úr starfi leikskólans (Árdís H. Jónsdóttir, 2013).

Fjölmargar rannsóknir sýna að orðaforðinn er undirstaða lesskilnings og að hann tengist beint eða óbeint öllu sem varðar læsi á öllum aldri. Einnig hefur verið sýnt fram á í fjölda rannsókna að orðaforði barna á leikskólaárunum spáir fyrir um lesskilning og námsárangur þeirra langt fram í tímann (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2013).

Byrjað er á yngstu deild skólans en þá er Orðaspjallið mjög myndrænt og leikið er með orð úr nánasta umhverfi barnanna. Lögð er rík áhersla á að sýna börnunum myndir og leyfa þeim að skoða og handfjatla þær. Smátt og smátt þyngjast orðin eftir því sem börnin eldast og erfiðari og flóknari orð sem leynast í barnabókum verða aðalkveikjan að innlögn nýrra orða. Orðaspjallið fléttast í raun inn í allt starfið með einum eða öðrum hætti. Tækifærin eru allt um kring og möguleikar til að læra ný og spennandi orð eru óþrjótandi. Í vettvangsferðum, listsköpun, hlutverkaleik og samræðum við börnin um allt milli himins og jarðar (Árdís Hrönn Jónsdóttir, 2013).

Öflugur liðsmaður í Orðaspjalli

Bára hvalastelpa er öflugur liðsmaður í Orðaspjallinu. Hver deild í Tjarnarseli er með Báru upp á vegg hjá sér og orðasíli til að skrifa orðin á sem börnin eru að læra hverju sinni. Börnin fóðra Báru með orðasílunum en hún er sísvöng og mikið matargat og þarf því að fá ný orð með reglulegu millibili. Markmiðið með Báru hvalastelpu er að skapa  skemmtilega leiki og fallega umgjörð í kringum Orðaspjallið sem höfðar til barna og auka þannig áhuga þeirra á að læra ný orð sem vekja áhuga og forvitni.

Hvalastelpan Bára er sísvöng og borðar orð af bestu lyst.

Foreldrar upp á orðavagninn

Einn af mikilvægum þáttum orðaforðanámsins er fræðsla til foreldra. Í hverri viku senda deildarstjórar foreldrum póst þar sem farið er yfir það sem helst var á döfinni í vikunni. Í póstunum kemur fram hvaða orð voru lögð inn í Orðaspjallinu og eru orðin höfð í hástöfum svo foreldrum af erlendu bergi brotnu sé ljóst hvaða nýju orð börnin voru að læra  og geti glöggvað (googlað) orðin og skilið merkingu þeirra. Þetta er gert til að auðveldara sé fyrir  foreldra að fylgja eftir þróun orðaforðans hjá börnum sínum um leið og þeir eru hvattir til að nota orðin í samræðum. Því endurtekin notkun nýrra orða er afar mikilvæg svo orðin festist í minni barnanna og verði hluti af orðaforðabanka þeirra (Karmiloff og Karmiloff-Smith, 2001).

Í skólanum er Orðaspjalli beitt með markvissum hætti, af miklum eldmóð. Grunnurinn að því að kveikja þennan metnað er að allir kennarar skólans séu meðvitaðir um mikilvægi orðaforðanáms. Þeir vita til hvers er að vinna fyrir barnahópinn og gera sér grein fyrir hve mikil áhrif þeir geta haft á að byggja upp sterkan grunn hjá nemendum sínum. Óhætt er að segja að kennarahópurinn í Tjarnarseli sé hreinlega óstöðvandi í að úða börnin með nýjum orðum.

Lestrarstund með góðum kennara er gulls ígildi.

Leikskólakennarar líkt og kennarar annarra skólastiga eru uggandi yfir áhrifum enskrar tungu á íslenskuna. Í auknu mæli verðum við vör við að sum lítil börn kunna ekki einföld orð á íslensku en geta þulið upp t.d. litaheiti á ensku. Þetta kemur fljótt fram í sögustundum þar sem allt niður í tveggja ára gömul börn hrópa upp „purple“ í stað þess að segja fjólublár svo dæmi sé tekið. Áhrif enskunnar í málumhverfi ungra barna gefa okkur því enn meiri ástæðu til að auka málörvun í leikskólum.

Í haust var nokkur umræða í barnahópnum um hrekkjavökuna eða „halloween“ eins og mörg barnanna segja og þá bar orðið „creepy“ oft á góma hjá elstu börnunum. Kennari barnanna brá þá á það ráð að lesa söguna um Mjóna rauðref þar sem kemur margt óhugnanlegt við sögu og lagði inn orðið óhugnanlegt. Ekkert barnanna gat útskýrt hvað orðið óhugnanlegt þýðir, en öll vissu þau hvað „creepy“ þýddi. Í kjölfarið ræddu kennarinn og barnahópurinn um allt sem var óhugnanlegt í sögunni og á hrekkjavökunni. Næstu daga hömruðu kennararnir svo á orðinu og notuðu orðið í fjölbreyttu samhengi. Í kjölfarið heyrðist æ oftar á tal barnanna þar sem orðið óhugnanlegt bar á góma – og þá er tilganginum náð.

Útvíkkun orðaforðans er stór hluti af Orðaspjallinu í leikskólanum. Það er til að mynda gott að vita hvað orðið hissa þýðir en enn betra að vita líka hvað það er að vera forviða eða undrandi, því það eru orð sem börn eiga eftir að rekast á við bóklestur. Kennarar sem nota Orðaspjallsaðferðina eru mjög meðvitaðir um þennan þátt og nýta hvert tækifæri til að fylla á orðakistil barnanna.

Nýlegt dæmi um þetta er þegar lesin var Grýlusaga fyrir 4-5 ára börnin nú í desemberbyrjun. Nokkur ærslagangur hafði verið í barnahópnum enda aðventuspennan að gera vart við sig. Sagan fjallar um afa litla sem gat verið ólátabelgur mikill og lýsingarnar á honum í bókinni voru á þann veg að hann var ekki húsum hæfur. Kennarinn greip því tækifærið og lagði þetta orðatiltæki inn og nokkur umræða varð í kjölfarið um fólk sem ekki er húsum hæft. Ekkert barnanna vildi þó kannast við að þessi lýsing gæti átt við um sig, jafnvel þó einn drengjanna fengi ábendingu frá vinum sínum um að hann væri nú stundum ekki húsum hæfur. Þá kannaðist sá hinn sami ekki við þessar ásakanir og hvítþvoði sig af þeim í bak og fyrir svo það stirndi af honum sakleysið.

Bókelsk börn

Það er afar mikilvægt að það sé lesið fyrir börn, því með lesturinn sem námsleið er hægt að auka þekkingu og færni barna til að tileinka sér mál. Börn sem hlusta á bóklestur fá tækifæri til að upplifa og heyra orð og hvernig þau eru notuð í texta. Bóklestur sýnir börnum einnig hvernig eitt orð getur haft fleiri en eina þýðingu einfaldlega eftir því í hvaða samhengi það er notað.

Mál-, hreyfi- og vitsmunaþroski tvinnast saman og hafa áhrif hver á annan. Því er nauðsynlegt að eiga góð samskipti við barnið frá upphafi og hefjast handa sem fyrst við að skapa grunn að góðri þekkingu og þroska barnsins. Það gerist til að mynda með jákvæðum samskiptum, raddbeitingu, endurtekningu og góðum samræðum. Mikilvægt er að lestri og hlustun sé bæði sinnt vel í leikskólanum og heima fyrir. Leikskólinn getur lagt sitt af mörkum með því að kynna fyrir foreldrum mikilvægi lesturs. Rannsóknir hafa sýnt fram á að lestur fyrir börn á heimilum hefur áhrif á lestraráhuga þeirra, eflir læsi í víðara samhengi og leggur grunn að því að börnin njóti þess að lesa sjálf síðar meir.

Börn búa við mjög mismunandi aðstæður bæði heima og í skóla og rannsóknir sýna að orðaforði barna endurspeglar fyrst og fremst hversu mikinn og góðan aðgang þau hafa að fullorðnu fólki (og eldri börnum) sem er tilbúið til að stilla sig inn á þeirra bylgjulengd og ræða um það sem áhugi þeirra beinist að hverju sinni; bregðast við því sem þau segja og bæta þar við og svara ótal spurningum (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2015). Því er mikilvægt að leikskólinn sinni sínu hlutverki af kostgæfni og reyni að tryggja að hvert barn innan hans hafi gott aðgengi að bóklegu uppeldi og fái tækifæri til að öðlast þekkingu og færni í gegnum bóklestur.

Gott aðgengi að bókum er hluti af mál- og læsisumhverfi leikskólans. Í Stofunni þar sem eldri börnin borða er bókasafn skólans. Einnig eru bækur inni á hverri deild og miðast bókavalið við aldur, þroska og áhuga hvers aldursstigs. Börnunum er boðið upp á daglegar lestrarstundir og jafnframt fá þau næði til að taka sér bók í hönd þegar þau langar til. Viðhorf til bóka og bóklesturs í skólanum er afar jákvætt og litar í raun skólabraginn. Litið er á barnabækur sem mikilvægt námsgagn og gripið í þær, bæði til gagns og gamans.

Einn af kennurum skólans kynnir hér bókakistilinn fyrir nemendum sínum.

Bókakistlar eru staðsettir bæði á yngri og eldri barna gangi skólans. Kistlarnir eru smávaxin útibú frá bæjarbókasafninu þar sem börnin geta fengið bækur lánaðar heim. Foreldrar eru hvattir til að staldra við kistlana með börnum sínum og velja bækur til láns og hefur þetta mælst vel fyrir og án efa aukið bóklestur heima fyrir á mörgum heimilum.

Málörvun fyrir fjöltyngd börn og börn með seinkaðan málþroska

Í doktorsrannsókn Sigríðar Ólafsdóttur (2015) var þróunarhraði íslensks orðaforða og lesskilnings barna á grunnskólaaldri skoðaður hjá fjöltyngdum börnum og borinn saman við börn sem höfðu íslensku að móðurmáli. Í ljós kom að fjöltyngdu börnin höfðu minni íslenskan orðaforða en jafnaldrar þeirra í 4. bekk og að þau auka hægar við orðaforða sinn í 8. bekk. Einnig hefur komið fram í fleiri rannsóknum að takmarkaður orðaforði í svokölluðu skólamáli er ein aðalástæða þess að börn af erlendum uppruna dragast aftur úr jafnöldrum sínum í lesskilningi og í almennu námi þegar líða fer á skólagönguna. Verulega getur farið að bera á þessum mun í kringum 4. bekk grunnskólans en þá eru börn farin að lesa til að læra (Sigríður Ólafsdóttir o.fl. 2016).

Rannsóknin sýndi einnig fram á að því eldri sem börn eru þegar þau flytjast til landsins því hraðari eru framfarir þeirra í íslenskum orðaforða á miðstigi grunnskólans. Það er skiljanlegt þar sem þau hafa meiri þekkingu og reynslu því eldri sem þau eru. Það virðist því flóknara fyrir yngri börn að tileinka sér nýtt tungumál (Sigríður Ólafsdóttir o.fl., 2016). Í ljósi þessara niðurstaðna, sem einnig koma fram í niðurstöðum fleiri rannsókna, er brýnt að efla orðaforða með markvissum hætti í leikskólum. Á þeim árum er mikill gróskutími í málþroska barna, orðaforða, hlustunarskilningi og máltjáningu (Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2013). Ef vel er að málum staðið bæta þau hressilega við orðaforða sinn í leik og daglegu lífi og þá er mikilvægi fagmenntunar kennara á fyrsta skólastiginu áríðandi. Huga þarf sérstaklega vel að fjöltyngdum börnum, veita þeim aukin tækifæri til að læra íslensku á lifandi og skemmtilegan hátt eftir margvíslegum leiðum, í stórum og litlum hópum. Bakgrunnur íslenskra barna er einnig mismunandi, líkt og í öðrum löndum. Alltaf er nokkur fjöldi þeirra sem þurfa meiri stuðning en jafnaldrar sem búa við betri uppeldiskilyrði eða strögla við að læra tungumálið af öðrum ástæðum.

Fjöltyngdum börnum og börnum með seinkaðan málþroska, sem ná ekki greiningarviðmiðum fyrir sérkennslu eða tíma hjá talmeinafræðingi, hefur fjölgað hratt í samfélaginu síðasta áratug. Þau börn fara í málörvunarstundir í litlum hópum í leikskólanum þar sem áhersla er lögð á að efla málþroska þeirra eftir fjölbreyttum leiðum. Meðal annars er stuðst við handbókina Lengi býr að fyrstu gerð og Málörvunarstundir (Theodóra Mýrdal, 2017) sem þróaðar voru í tengslum við handbókina.

Lengi býr að fyrstu gerð

Snemmtæk íhlutun í málörvun felst í því að byrja nógu snemma að greina málþroskafrávik. Það felur í sér að kennarar leikskólans leggja fyrir ákveðnar skimanir og próf og nýta sína sérfræðiþekkingu til þess að bregðast strax við með viðeigandi íhlutun eftir þörfum. Einnig er lögð áhersla á samvinnu við talmeinafræðinga og aðra sérfræðinga. Til þess að árangur verði sem bestur, verður að vera markviss vinna bæði í leikskóla og heima. Góð samvinna á milli heimilis og skóla skiptir sköpum.

Í snemmtækri íhlutun er lögð áhersla á aðgerðir sem stuðla með markvissum hætti að þroska-framvindu barna, hvort sem um ræðir málörvun eða örvun annarra þroskaþátta. Því fyrr sem íhlutun hefst, því meiri líkur eru á því að þjálfunin skili árangri (Ásthildur Bj. Snorradóttir, Anney Ágústsdóttir, Bergrós Ólafsdóttir, Margrét Þ. Jónsdóttir og Sigurður Sigurjónsson, 2014). Það sem skiptir hvað mestu máli þegar gæði snemmtækrar íhlutunar eru metin er aldur barnsins í upphafi, þátttaka foreldra ásamt magni og gæði íhlutunarinnar. Setja verður skýr markmið og leiðin að markmiðunum þarf að vera vel skilgreind (Jóna G. Ingólfsdóttir, 2003)

Í haust gaf leikskólinn Tjarnarsel út kennsluefnið Málörvunarstundir – lengi býr að fyrstu gerð. Efnið er afrakstur þróunarvinnu um snemmtæka íhlutun í málþroska barna og er útkoman málörvunarspjöld sem skipt er í 4 aldursflokka. Í hverjum flokki eru 12 spjöld með markvissum málörvunarstundum. Markmið þeirra er að auka gæði málörvunar í leikskólum í gegnum leik, bóklestur og fjölbreytt námsefni. Verkefnið hlaut styrk frá Þróunarsjóði námsgagna og Barnavinafélaginu Sumargjöf.

Kennsluefnið Málörvunarstundir sem gefið var út haustið 2021.

Hugmynd að kennsluefninu kviknaði hjá Theodóru Mýrdal sérkennslustjóra skólans við vinnu að þróunarverkefninu. Hana langaði að búa til kennslugagn sem gæti nýst til þess að efla leiðbeinendur í leikskólum sérstaklega. En einnig gefa kennurum verkfæri til þess að nota þegar lítill tími er til undirbúnings, vegna manneklu eða annarra aðstæðna sem geta auðveldlega skapast í leikskólum. Miklar umræður í kennarahópnum eru reglulega um mikilvægi gæðamálörvunar og áralöng áhersla á mál og læsi lagði grunninn í skólanum að þessum stundum. Hönnun Málörvunarstunda var í höndum annars kennara skólans, Oddnýjar Svövu Steinarsdóttur, sem er grafískur hönnuður.

Gleði er góð námsleið

Innihaldsríkar lestrarstundir þar sem fagmennska og áhugi kennara á mikilvægi bóklesturs svífur yfir er gulls ígildi. Samspil margra þroskaþátta styrkist hjá börnum við það að hlusta á vandaðar og vel lesnar sögur þar sem góður tími er gefinn í samræður og vangaveltur. Tilfinninga- og félagsþroski eflist þegar börnin setja sig í spor sögupersóna og upplifa með þeim gleði og sorgir. Þau auka jafnframt við þekkingu sína á lífinu og tilverunni um leið og þau hlusta á fjölskrúðugan orðaforða. Í barnabókum úir og grúir af áhugaverðum og spennandi orðum sem gott og gaman er að kunna, en ritað mál er að öllu jafna mun blæbrigðaríkara en talað mál (Hrafnhildur Ragnarsdóttir,2013;Cummins,1982). Það að lesa fyrir börn skapar tækifæri fyrir hinn eldri til að skapa börnum öryggi, hlýju og nálægð og ýta þar með undir vellíðan og ró. Jafnframt örvar lesturinn ímyndunaraflið og eykur skilning og þekkingu á fjölbreytileika lífsins.

Eins og fram hefur komið læra börn á leikskólaaldri best með því að leika meira í dag en í gær. Ef þeim leiðist og umhverfið vekur ekki áhuga og forvitni læra þau lítið sem ekki neitt. Þess vegna er brýnt að gleðin sé við völd í málörvun sem og í öðrum stundum dagsins. Það er góðs viti þegar hlátrasköll berast frá börnum og kennurum úr Spilastofunni svokölluðu. Þar er unnið með börnum í litlum hópum, lesið, farið í skemmtilega leiki, þrautir sem reyna á huga og hönd og spilað og spilað. Þá duga engin vettlingatök. Skólinn státar af góðu spilasafni sem þroska mismunandi hæfni og getu. Auk þess að börnin læri aragrúa af nýjum orðum eflist fyrrgreindur tilfinninga- og félagsþroski þegar setið er saman yfir spennandi spili. Sýna þarf þolinmæði og biðlund, oft þarf að telja fram og tilbaka, sjá fram í tímann, ígrunda, spá og spekúlera. Börnin takast á við flóknar tilfinningar og læra að setja orð á þær. Við getum verið tapsár en um leið reynt að samgleðjast félaga okkar sem vann spilið í dag. Það getur verið strembið og þá er nú gott að ræða saman með kennara sér við hlið sem getur miðlað af eigin reynslu. Því þegar á öllu er á botninn hvolft byggist farsælt skólastarf á öllum stigum á hæfni kennarans og sterkri fagþekkingu.

Í Spilastofunni fer margt gott og gagnlegt fram.

Kennari sem brennur fyrir starfi sínu er óþrjótandi uppspretta í málörvun, sem og í öllu skólastarfinu. Hann tvinnar málörvun saman við námssviðin og grunnþætti menntunar af listfengi og grípur hverja stund sem gefst. Með aukinni reynslu í að nota til dæmis Orðaspjall verður það góðum kennara eðlislægt. Í Tjarnarseli er hlutfall fagfólks hátt og leiðbeinendur skólans búa flestir yfir langri starfsreynslu. Nokkrir þeirra eru í námi í leikskólakennarafræðum og aðrir eru að mennta sig sem leikskólaliða. Skóli sem býr yfir ríkulegum mannauði sem þessum hefur öll tækifæri í hendi sér til að byggja upp málörvunarstarf þar sem leikur, gleði, sköpun og nám renna saman í eina heild til farsældar fyrir börnin.

Heimildaskrá

Aðalnámskrá leikskóla 2011/2011

Armstrong, T. (2001). Fjölgreindir í skólastofunni. Forlagið.

Árdís Hrönn Jónsdóttir. (2013). Orðaspjall – að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Leikskólinn Tjarnarsel.

Ásthildur Bj. Snorradóttir, Anney Ágústsdóttir, Bergrós Ólafsdóttir, Margrét Þóra Jónsdóttir og Sigurður Sigurjónsson. (2014). Snemmtæk íhlutun tveggja til þriggja ára barna. Höfundar.

Cummins, J. (1982).Tests, achievement and bilingual students: focus, n9. https://files.eric.ed.gov/fulltext/ED238907.pdf

Dale, Erling Lars (1996). Læring og utvikling i lek og undervisning. Í I. Braten (Ritstj.), Vygotsky i pedagogikken. Cappelen Akademisk Forlag.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir. (2013). Málþroski leikskólabarna. Í Árdís Hrönn Jónsdóttir. Orðaspjall – að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Leikskólinn Tjarnarsel.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir. (2015). Málþroski leikskólabarna: Þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings milli fjögra og fimm ára aldurs. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. http://netla.hi.is/2015/ryn/007.pdf

Jóna G. Ingólfsdóttir.(2003). Íhlutun fyrstu árin. Í Bryndís Halldórsdóttir, Jóna G. Ingólfsdóttir, Stefán J. Hreiðarsson og Tryggvi Sigurðsson (ritstjórar), Þroskahömlun barna: Orsakir – eðli – íhlutun (bls 126-133). Háskólaútgáfan.

Karmiloff, K og Karmiloff-Smith, A. (2001). Pathways tol Language: From Fetus to Adolescent. Harvard University Press.

Pramling, I. (2006). Teaching and learning in preschool and the first years of elementary school in Sweden. Í J. Einarsdóttur og J. Wagner (ritstj.), Nordic childhoods and early education (bls. 1-13). Information Age Publishing Inc.

Reykjanesbær. (2021). Menntastefna Reykjanesbæjar 2021-2030. Með opnum hug og gleði í hjarta. Reykjanesbær. https://www.reykjanesbaer.is/is/moya/news/menntastefna-reykjanesbaejar-til-2030

Sahlberg, Pasi & Doyle, William (2019). Let the children play – how more play will save our schools and help children thrive. Oxford University Press.

Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2016). Orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. Netla -Veftímarit um uppeldi og menntun. Sérrit 2016 – Um læsi. Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  http://netla.hi.is/serrit/2016/um_laesi/03_16_laesi.pdf

Theodóra Mýrdal. (2017). Lengi býr að fyrstu gerð – Þróunarverkefni í snemmtækri íhlutun. Mál og læsi í leikskólum Reykjanesbæjar (óútgefin handbók). Leikskólinn Tjarnarsel.

Theodóra Mýrdal (2021). Málörvunarstundir – Lengi býr að fyrstu gerð. Leikskólinn Tjarnarsel.

Myndirnar með greininni eru úr myndasafni skólans.


Ingibjörg Sif Stefánsdóttir er aðstoðarskólastjóri Tjarnarsels. Hún lauk B.Ed. prófi í leikskólakennarafræðum frá K.Í. 1998 og hefur starfað í leikskólum í 24 ár sem leikskólakennari, deildar-, verkefna- og nú sem aðstoðarskólastjóri. Hefur tekið þátt í nokkrum þróunarverkefnum er tengjast málþroska og lýðræðislegri þátttöku barna og foreldra í umbreytingum á útisvæði Tjarnarsels. Inga Sif hefur haldið námskeið fyrir leikskólakennara ásamt Árdísi H. Jónsdóttur um kennsluaðferðina Orðaspjall, leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning barna frá árinu 2012.

Árdís H. Jónsdóttir er leikskólastjóri í Tjarnarseli og hefur starfað í leikskólum Reykjanesbæjar sem deildar- verkefna og sérkennslustjóri frá útskrift sem leikskólakennari árið 1991. Þess fyrir utan vann hún á árunum 2008-2010 á Rannsóknarstofu um Þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið HÍ.  Hún útskrifaðist með meistaragráðu árið 2008 í menntunarfræði með áherslu á mál og læsi. Árdís er höfundur bókarinnar Orðaspjall – að efla orðaforða og hlustunarskilning barna sem kom út árið 2013 og hefur hún haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um Orðaspjallsaðferðina. Hún hefur jafnframt tekið þátt í og stýrt þróunarverkefnum sem tengjast meðal annars máli og læsi, útinámi og vettvangsferðum.


Greinin hlaut viðurkenningu í samkeppni Samtaka áhugafólks um skólaþróun um ritun greina um frjótt og skapandi leikskólastarf til birtingar í Skólaþráðum. Dómnefnd skipuðu: Anna Magnea Hreinsdóttir, Bryndís Garðarsdóttir, Kristín Dýrfjörð og Sveinlaug Sigurðardóttir.


Grein birt 18. febrúar 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp