Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að þjálfa nemendur í framtíðarhæfni – tilraun á unglingastigi í Hrafnagilsskóla

í Greinar

Ólöf Ása Benediktsdóttir, Óðinn Ásgeirsson og Páll Pálsson

Það er engum blöðum um það að fletta að helsta markmið grunnskóla er að mennta gagnrýna og ábyrga borgara sem spjara sig í veruleika sem við, sem nú lifum, þekkjum ekki – nefnilega í framtíðinni. Enginn veit nákvæmlega hvernig framtíðin verður en með því að þekkja söguna og ræturnar, fylgjast með framþróun og umræðu og ekki síst mæla og meta hvað virkar og hvað ekki, getum við reynt að spá fyrir um hvaða hæfni verði verðmætust og mikilvægust í framtíðinni. Það þarf kannski engan spámann til að nefna samskipti og lausnaleit. Einnig er skapandi hugsun ofarlega á blaði ásamt gagnrýninni hugsun. Á tímum falsfrétta og hjávísinda nefna líka flestir rökræður, samræður, tjáningu og frumkvæði. Í því samhengi þarf líka að læra að hlusta, gera málamiðlanir og taka tillit til annarra.

Í Hrafnagilsskóla leggjum við áherslu á þessa þætti eins og líklega allir grunnskólar landsins. Að menntast er ekki það sama og að fræðast og það er ekki gert einn með sjálfum sér. Það þarf samvinnu, samtal og samskipti til þess að ná þeim markmiðum sem lúta að þessari „framtíðarhæfni”.

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2013) er meðal annars lögð áhersla á lykilhæfni í menntun nemenda. Menntagildi lykilhæfni felst t.d. í því að þroska sjálfsvitund og samskiptahæfni nemenda og einnig er lögð áhersla á virka þátttöku nemenda í eigin námi. Með þessum áherslum í námskránni er lagður grunnur að ábyrgum þegnum í lýðræðissamfélagi. Lykilhæfni er sú hæfni sem stuðlar að alhliða þroska nemenda og sumt er erfitt að meta enda er um að ræða hæfni sem fólk þroskar með sér alla ævi.

  • Lykilhæfni, eins og hún er skilgreind í aðalnámskrá, er skipt í fimm þætti:
  • Tjáning og miðlun.
  • Skapandi og gagnrýnin hugsun.
  • Sjálfstæði og samvinna.
  • Nýting miðla og upplýsinga.
  • Ábyrgð og mat á eigin námi.

Í Hrafnagilsskóla er sem sagt daglega unnið með lykilhæfni í öllum bekkjum. Ekki líður sá dagur að nemendur vinni ekki annað hvort að markmiðum tengdum sjálfstæði í vinnubrögðum eða samvinnu svo dæmi sé tekið. Allt starfsfólk skólans leggur sig fram við að stuðla að jákvæðum og hvetjandi skólabrag þar sem við leggjum m.a. áherslu á lykilhæfni. Við erum stolt af daglegum samverustundum og dygðauppeldi svo dæmi sé tekið.

Á unglingastigi þótti okkur kennurum þurfa að gera markmið lykilhæfni sýnilegri og að nemendur og foreldrar vissu að hverju er stefnt. Námsmat í lykilhæfni var einnig of tilviljunarkennt. Í haust bjuggum við því til verkefni, sem heitir Draumalandið, þar sem nemendur á unglingastigi unnu í aldursblönduðum hópum. Það er gaman að segja frá því að við fengum hugmyndina í Skólaþráðum og notuðum hugmyndir frá Grunnskólanum í Borgarnesi (sjá hér) og Grundaskóla á Akranesi. Þetta verkefni var unnið í 80 mínútna lotum á fimmtudögum alla haustönnina.

Í Draumalandinu eiga nemendur að hanna sitt eigið land og taka í leiðinni þátt í allskonar æfingum, verkefnum, umræðum og rökræðum um ýmislegt sem þarf að taka afstöðu til þegar skilgreina á land, þjóð og menningu. Við segjum nemendum hvaða markmiðum við stefnum að og kennarar meta virkni þeirra, t.d. í umræðum með skipulögðum hætti. Nemendur meta sig einnig sjálfir með sjálfsmati og jafningjamati og um miðbik annar eru einstaklingsviðtöl með kennara sem nemendur undirbúa sig fyrir. Allt leiðir þetta að sama takmarkinu; að gera nemendur hæfari í að vinna saman, hlusta á aðra, tjá sig, færa rök fyrir máli sínu og efla skapandi og gagnrýna hugsun.

Mynd 1 – Hæfnikortið. Smellið á myndina til að nálgast allt efnið.
Mynd 2- Hluti af markmiðum lykilhæfni. Í haust lögðum við mikla áherslu á tjáningu, samvinnu og frumkvæði.

Við tókum ákvörðun um að einbeita okkur að markmiðum lykilhæfni. Við notuðum hæfnikort unnið út frá hæfniviðmiðum lykilhæfni sem Ólöf Ása og Lilja Friðriksdóttir kennari við Borgarhólsskóla unnu í sameiningu á síðasta ári (sjá mynd 1). Hæfnikortin héngu uppi í öllum stofum og á upplýsingatöflu unglingastigs, nemendur fengu eintak og það var rækilega kynnt fyrir foreldrum á rafrænum kynningarfundi í upphafi annar. Við héldum markmiðum lykilhæfni á lofti alla önnina og útskýrðum að allt sem nemendur lærðu í samfélagsfræði, íslensku, upplýsingatækni og öðrum námsgreinum yrði þeirra gróði en ekki metið inn í þessar námsgreinar. Það hefði þó verið auðvelt og margir kjósa að vinna álíka samþætt verkefni þvert á allar námsgreinar og með lykilhæfnina að auki. Þetta tilraunaverkefni gekk út á að lyfta lykilhæfninni og gera markmið hennar sýnilegri og merkingarbærari en áður hefur tíðkast.

Það er skemmst frá því að segja að tilraunin tókst! Nemendur voru áhugasamir og duglegir og þjálfuðu svo sannarlega með sér lykilhæfni. Dæmi um viðfangsefni voru kort, mælingar og landafræði en nemendur unnu einnig með menntakerfi og ræddu í þaula hvað sé mikilvægast í því. Nemendur þurftu einnig að búa til fána fyrir landið sitt, finna kennileiti eða eitthvað sem landið er þekkt fyrir, skilgreina menninguna í landinu og taka þátt í ýmsum rökræðu- og samræðuleikjum sem við notuðum til að brjóta upp kennsluna. Allir hópar þurftu að búa til líkan og margir ákváðu að baka eða gera eitthvað aukalega fyrir kynningu sem var haldin í desember fyrir starfsfólk, foreldra og forráðamenn.

Mynd 3 – Samvinnusáttmáli. Allir hópar þurftu að útbúa samvinnusáttmála fyrir hópinn og skrifa undir hann.

Þrátt fyrir að leggja almennt mikla áherslu á samræður og tjáningu í Hrafnagilsskóla þá komumst við að því að það var svo sannarlega rými fyrir meiri þjálfun í þessum þáttum. Við ákváðum að leggja mikla áherslu á námsgleði og hófum verkefnið á ýmsum þrautum fyrir hvern hóp sem við vorum viss um að myndi hrista nemendur saman. Hver hópur átti t.d. að búa til slagorð og taka upp fagnaðarlæti sem einkenndu hópinn. Í þessari fyrstu lotu gerði hver hópur einnig samvinnusáttmála (sjá mynd 3). Að þessu loknu fórum við í hugtakavinnu á grunn hugtökum með púslaðferðinni. Hver fjögurra nemenda hópur gerðist sérfræðingar í einu hugtaki sem kennarar voru búnir að velja. Hóparnir voru 10 og dæmi um hugtök sem unnið var með voru menning, innviðir og heilbrigðiskerfi. Hver nemandi fékk númer og svo hittust ásarnir, tvistarnir o.s.frv. í 10 manna hópum. Við höfðum valið einn nemanda í hverjum 10 manna hópi til þess að stjórna umræðunum sem gengu út á það að útskýra sitt hugtak fyrir hinum í hópnum. Að lokum hengdu nemendur upp útskýringar á hugtökunum frammi á gangi sem þeir gátu skoðað alla önnina. (Sjá nánar um púslaðferðina hér.)

Mynd 4 – Í upphafi fór fram hugtakavinna þar sem nemendur gerðust sérfræðingar í ákveðnum hugtökum og deildu svo þekkingu sinni með öðrum. Hugtökin sem nemendur unnu með og ræddu í umræðuhópum voru m.a. samfélag, stjórnskipulag, menning, velferðarkerfi, menntakerfi, innviðir og umhverfismál.Púslaðferðin tókst mjög vel og nemendur nýttu sér þessi hugtök alla önnina.
Mynd 5 – Í Draumalandinu var lögð mikil áhersla á að nemendur þjálfuðust í að tjá sig og hlusta af virðingu hvert á annað.
Mynd 6 – Niðurstöður úr nemendastýrðum umræðum um hvað sé mikilvægast í menntakerfinu. Hjá hluta nemenda var sú skoðun ríkjandi að tilgangur menntakerfis væri að undirbúa nemendur undir atvinnulífið en aðrir töldu að markmiðið hlyti að vera að nemendur yrðu hamingjusamir.

Áhugavert var að skoða markmið lykilhæfni með hliðsjón af þessum verkefnum. Það var svo margt sem hver hópur þurfti að taka afstöðu til og sammælast um – og margir lentu í talsverðum átökum. En það er nú þannig að enginn fæðist fullnuma í samskiptum og mistök eru ómetanleg tækifæri til þess að læra, það vitum við fullorðna fólkið. Við ræddum opinskátt um samskiptavanda og málamiðlanir og reyndum að leiða hópa sem lentu í vandræðum áfram að lausn en leystum ekki málin fyrir nemendur.

Námsmatið byggðist á virkni- og þátttökuskráningum, sjálfsmati, jafningjamati og viðtölum. Við skráðum hjá okkur hvernig ágreiningur var leystur og í lok annar fengu allir einkunn í lykilhæfni og markmiðin voru einnig metin.

Mynd 7 – Hér má sjá kort af tveimur löndum; Broslandi með vogskornar strendur og djúpa firði og Fjóluland með stórum þéttbýliskjörnum.

Kynningin fyrir starfsfólk, foreldra og forráðamenn var mjög mikilvægur þáttur í Draumalandinu. Við sögðum bæði nemendum og foreldrum frá henni strax í upphafi annar og nemendur voru mjög meðvitaðir um að þeir þyrftu að vera með góða kynningu og eitthvað til þess að sýna í desember. Allt verkefnið varð merkingarbærara og hafði meiri tilgang vegna kynningarinnar. Sem betur fer var svigrúm til þess að bjóða fólki að koma í skólann og það var mjög góð mæting. Hver hópur setti upp eins konar kynningarbás fyrir landið sitt og hóparnir tíu dreifðu sér þannig að einungis þrír voru í hefðbundinni kennslustofu. Gestirnir voru mjög áhugasamir og við tókum eftir því að þeir spurðu fjölmargra spurninga um hvernig nemendur ákváðu að landið ætti að vera svona eða hinsegin. Löndin voru mjög ólík og gaman að bera saman ólíkar útfærslur hjá nemendum. Gestir fengu að sjá eldfjall gjósa, margir höfðu bakað í anda menningar síns lands og einhverjir hópar voru með óskasteina og þrautir fyrir gesti. Eitt land bjó til sitt eigið tungumál og gestir máttu spreyta sig á að þýða orð og texta yfir á íslensku.

Mynd 8 – Stoltir nemendur kynna landið sitt. þar var meðal annars eldfjall sem nemendur létu gjósa á kynningunni.

Fyrir utan markmið lykilhæfni voru markmið okkar í kennarateyminu að búa til skapandi og glaðlegt námsumhverfi og stuðla að góðum og jákvæðum samskiptum. Við vildum einnig efla jákvæða leiðtoga og námsgleði skipti okkur miklu máli. Varðandi samstarf okkar þá höfum við unnið lengi saman og vildum í raun meiri samvinnu. Við festum tíma í hverri viku þar sem við undirbjuggum næstu tíma – eða unnum í námsmati og ræddum síðasta tíma. Við vildum hrista upp í eigin starfsháttum og ögra sjálfum okkur með nýjum nálgunum.

Við erum gríðarlega ánægð með Draumalandið og höfum ákveðið að vinna áfram með lykilhæfni á samskonar hátt. Nú liggur á teikniborðinu stórt verkefni með öðru þema en markmiðin eru þau sömu og aðferðirnar verða svipaðar. Áfram verður áhersla á samvinnu, samskipti, tjáningu og sköpun.

Myndir 8 og 9 – Áhugi og starfsgleði leynir sér ekki!

Ólöf Ása Benediktsdóttir er kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Hún lauk B.Ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og hefur kennt á unglingastigi við Hrafnagilsskóla frá útskrift. Ólöf Ása hefur tekið þátt í fjölbreyttum þróunarverkefnum og hefur lagt áherslu á skapandi kennsluhætti og jákvæð samskipti ásamt heilsueflandi verkefnum og leiðum að bættri heilsu og líðan nemenda.

Óðinn Ásgeirsson er kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Hann lauk B.Ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2007 og hefur kennt á mið- og unglingastigi við Hrafnagilsskóla frá útskrift. Helsta kennslugrein Óðins er náttúrufræði og hann leggur áherslu á skapandi kennsluhætti og verklega nálgun nemenda. Óðinn hefur mest unnið í styðjandi teymum og líkar það mjög vel. Hann hefur tekið þátt í fjölbreyttum þróunarverkefnum, m.a. tengt upplýsingatækni.

Páll Pálsson er kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Hann lauk B.Ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2008 og hefur kennt við Hrafnagilsskóla frá útskrift. Páll hefur tekið þátt í fjölbreyttum þróunarverkefnum og hans helsta kennslugrein er samfélagsfræði og íslenska. Hann hefur lagt áherslu á samskipti og dygðir og nýtt sér m.a. upplýsingatækni til þess að ná markmiðum í kennslu.


Myndirnar í greininni eru höfunda.


Grein birt 14. janúar 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp