Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

Aðalnámskrá

Bestu kennslustundirnar eru þegar umræða skapast um þróun vísinda

í Viðtöl

Rætt við Valdimar Helgason einn af fimm kennurum sem tilnefndir voru til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Íslensku menntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 2. nóvember sl. Sýnt var frá athöfninni í sjónvarpsþætti á RUV kvöldið eftir. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum: Framúrskarandi skólastarf, kennsla, þróunarverkefni og iðn- og verkmenntun. Að auki eru veitt hvatningarverðlaun (sjá nánar hér). Verðlaunahafar voru kynntir vel í fyrrnefndum sjónvarpsþætti (sjá hér), en ritstjórn Skólaþráða hafði áhuga á að fá að kynnast betur þeim kennurum sem tilnefndir voru fyrir framúrskarandi kennslu. Því var ákveðið að leita til þeirra og biðja þau að svara nokkrum spurningum um viðhorf sín og reynslu og urðu þau góðfúslega við þeirri beiðni.

Hér eru svör Valdimars Helgasonar sem tilnefndur var fyrir framúrskarandi árangur í raungreinakennslu. Lesa meira…

Er okkur ekki treystandi?

í Pistlar

Anna Reynarsdóttir

 

Í daglegu tali  er talað um fagmennsku þegar eitthvað er gert vandlega og af mikilli færni (Sigurður Kristinsson, 2013). Þessi orð eiga mjög vel við um kennarastarfið því að í kennslu þurfum við stöðugt að vanda okkur og leita leiða til að gera hlutina á betri hátt í sífellt breytilegu samfélagi. Í Aðalnámskrá grunnskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011) er fagmennska kennara skilgreind sem sérfræðileg starfsmenntun, þekking, viðhorf og siðferði, ásamt því að snúast um nemendur, menntun þeirra og velferð. Þrátt fyrir sameiginlegan skilning yfirvalda á fagmennskunni er sannleikurinn samt sá að við kennarar þurfum að stöðugt að berjast fyrir fagmennsku okkar þar sem sífellt er horft framhjá henni af sérfræðingum sem vilja gera stéttina að starfsmönnum á plani og ítrekað hefur samfélagið  sent þau skilaboð að kennarar séu í farþegasætinu þegar kemur að eigin starfi. Lesa meira…

Að þjálfa nemendur í framtíðarhæfni – tilraun á unglingastigi í Hrafnagilsskóla

í Greinar

Ólöf Ása Benediktsdóttir, Óðinn Ásgeirsson og Páll Pálsson

Það er engum blöðum um það að fletta að helsta markmið grunnskóla er að mennta gagnrýna og ábyrga borgara sem spjara sig í veruleika sem við, sem nú lifum, þekkjum ekki – nefnilega í framtíðinni. Enginn veit nákvæmlega hvernig framtíðin verður en með því að þekkja söguna og ræturnar, fylgjast með framþróun og umræðu og ekki síst mæla og meta hvað virkar og hvað ekki, getum við reynt að spá fyrir um hvaða hæfni verði verðmætust og mikilvægust í framtíðinni. Það þarf kannski engan spámann til að nefna samskipti og lausnaleit. Einnig er skapandi hugsun ofarlega á blaði ásamt gagnrýninni hugsun. Á tímum falsfrétta og hjávísinda nefna líka flestir rökræður, samræður, tjáningu og frumkvæði. Í því samhengi þarf líka að læra að hlusta, gera málamiðlanir og taka tillit til annarra. Lesa meira…

Hæfniviðmið og framleiðsla á bulli og vitleysu

í Greinar

Atli Harðarson

 

 

Kennsluskrár háskóla lýsa markmiðum námskeiða og námsleiða með því að telja upp hæfniviðmið. Þessi viðmið eiga að segja hvað hver einstakur nemandi getur að námi loknu. Það sama gildir um lýsingar áfanga og námsbrauta í framhaldsskólum sem liggja frammi á vefnum namskra.is og líka um Aðalnámskrá grunnskóla þar sem „[k]röfur um sértæka og almenna menntun nemenda eru settar fram sem hæfniviðmið“ (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 40). Grunnskólanámskráin gerir raunar grein fyrir markmiðum skyldunáms með mjög löngum listum af hæfniviðmiðum sem nemendur skulu hafa uppfyllt við lok fjórða, sjöunda og tíunda bekkjar. Það tíðkast meira að segja að forráðamenn fái tilkynningar og skilaboð um að börn þeirra hafi nýlega öðlast alls konar hæfni, meðal annars til að sýna frumkvæði eða tala með skýrum framburði. Þetta er ef til vill fróðlegt fyrir þá sem hitta börn sín sjaldan eða aldrei.

Þessi ríkjandi stefna í námskrárgerð gerir ráð fyrir að við lok hvers stigs í grunnskóla, áfanga í framhaldsskóla eða námskeiðs í háskóla hafi nemandi náð að tileinka sér hæfnina sem tilgreind er í námskrá eða námskeiðslýsingu. Lesa meira…

Ráðuneytismaður af lífi og sál: Stefnumörkun menntamálaráðuneytis um grunnskólann í 35 ár – 1985 til 2020

í Viðtöl

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Guðni Olgeirsson í viðtali við Gerði G. Óskarsdóttur

 

Í þessu viðtali ræðir Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, vinnu við stefnumörkun ráðuneytisins um málefni grunnskóla á þeim 35 árum sem hann hefur starfað þar.

Eitt af meginverkefnum mennta- og menningarmálaráðuneytis er að móta stefnu um öll svið menntakerfisins frá leikskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu, ýmist með lagafrumvörpum til Alþingis, reglugerðum, útgáfu aðalnámskráa eða sérstakri stefnumörkun. Um þessar mundir er stefnumótun ráðuneytisins til ársins 2030 um allt menntakerfið að koma út. En hvernig ætli hafi verið staðið að stefnumörkun á undanförnum áratugum?

Guðni Olgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, hefur reynslu og yfirsýn yfir langt tímabil í störfum ráðuneytisins. Hann var fyrst ráðinn að skólaþróunardeild sem námstjóri í íslensku, en deildin var þá fyrst og fremst skipuð námstjórum í einstökum námsgreinum grunnskólans. Þá var unnið þar að nýrri aðalnámskrá grunnskóla og ráðgjöf við grunnskóla. Vettvangsheimsókn í deildina í kennsluréttindanámi við Háskóla Íslands vakti áhuga Guðna á að sækja um námstjórastarfið. Þar starfaði hann síðan á árunum 1985–1990 eða þar til deildin var flutt inn í húsnæði ráðuneytisins og varð hluti af nýrri grunnskóladeild. Sumir námstjórarnir hættu en aðrir fóru inn í ráðuneytið og var Guðni einn af þeim. „Þetta var allt annað umhverfi, skólaþróunardeildin hafði verið tiltölulega sjálfstæð fagleg eining og laustengd ráðuneytinu og viðhorf skólafólks til hennar almennt jákvæðara en til ráðuneytisins sjálfs,“ rifjar Guðni upp. Hann hefur sinnt margs konar stefnumótunarvinnu, undir stjórn 13 ráðherra, innlendu og erlendu nefndastarfi með megináherslu á skyldunámið og víðtækum tengslum við vettvanginn. Lesa meira…

Trúarbragðafræði: Tækifæri, áherslur og áskoranir

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Gunnar Jóhannes Gunnarsson

 

Í kjölfar grunnskólalaganna 2008 hófst vinna við gerð nýrrar aðalnámskrár. Árið 2013 var gefin út ný námskrá fyrir greinasvið grunnskólans og fylgdi hún í kjölfar almenna hluta aðalnámskrárinnar sem kom út tveim árum fyrr. Í námskránni var lögð áhersla á að námsgreinar grunnskólans mynduðu stærri heildir en áður og því var fleiri greinum en áður steypt saman í greinasvið. Þar á meðal er námskrá í samfélagsgreinum. Sú námskrá felur í sér verulegar breytingar á stöðu trúarbragðafræðslu í grunnskólum þar sem hún er nú ekki lengur með eigin námskrá heldur er hún hluti samfélagsgreinasviðs. Þegar námskráin er skoðuð kemur í ljós að samfélagsgreinasviðið er orðið mjög umfangsmikið en það samanstendur af landafræði, sögu, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni, jafnréttismálum, heimspeki og siðfræði (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013, bls. 194–207). Þetta víðfeðma svið fær síðan einungis 11,46% af heildarstundafjölda grunnskólans samkvæmt viðmiðunarstundaskrá (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, 2011, bls. 49). Því er eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort sá tími nægi til að sinna öllum viðfangsefnum þessara greina og hvort sú hætta sé ekki fyrir hendi að mikilvæg viðfangsefni eða jafnvel heilu greinarnar verði útundan þegar á reynir í knöppum tímafjölda. Þar gætu greinar eins og lífsleikni og trúarbragðafræði staðið veikt. Lesa meira…

„Það drap alveg minn yndislestur að vera í skóla“

í Greinar

‒ um lestur og læsi í grunn- og framhaldsskólum

Þann 1. apríl sl. var haldin í Hörpu ráðstefna um stöðu og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður umfangsmestu rannsóknar á stöðu íslenskukennslu sem gerð hefur verið hér á landi. Ritstjórn Skólaþráða falaðist eftir því að fá að birta þau erindi sem flutt voru, enda eiga þau erindi við fleiri en sótt gátu ráðstefnuna. Einnig skal lesendum Skólaþráða bent á bókina Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum sem út er komin hjá Háskólaútgáfunni. Hér birtist fyrsta greinin sem byggð er á erindunum – þær verða vonandi fleiri. Lesa meira…

Skólinn á að ganga á undan með góðu fordæmi

í Greinar

Aðalheiður Auðunsdóttir

 

Ég hóf störf sem námstjóri í heimilisfræði í skólaþróunardeild menntamálaráðuneytisins 1983 og vann þar til ársins 1992. Ég tók við góðu búi af forvera mínum Bryndísi Steinþórsdóttur. Það kom sér vel fyrir mig að hafa unnið í starfshópi með henni og fleiri góðum kennurum að framgangi heimilisfræðinnar, meðal annars að því að nemendur í yngri aldurshópum fengju kennslu í heimilisfræði.

Ég er menntaður heimilisfræðikennari, kenndi matreiðslu, næringar- og neytendafræði við Húsmæðrakóla Reykjavíkur, næringarfræði við framhaldsdeild Víghólaskóla og var síðan búin að kenna heimilisfræði í grunnskólum í níu ár þegar ég hóf störf í Menntamálaráðuneytinu. Ég hafði áhuga og metnað til að vinna að framgangi heimilisfræði á Íslandi og var reiðubúin í þetta skemmtilega verkefni sem námstjórastaðan bauð.

Með nýjum grunnskólalögum árið 1974 var brotið blað í íslenskri skólasögu. Kveðið var á um jafnan rétt pilta og stúlkna til náms í öllum námsgreinum grunnskólans.  Heimilisfræði varð skyldunámsgrein fyrir pilta og smíðar skyldunámsgrein fyrir stúlkur. Lesa meira…

„Þú getur ekki sagt að þetta sé leiðinlegt því þú ákveður hvað þú ert að gera.“ Ferilmöppur – leið til að efla sjálfstæði og ábyrgð nemenda

í Greinar

Björk Pálmadóttir

 

Sýnt hefur verið fram á að nemendasjálfstæði, eða það sem á ensku er kallað learner autonomy, sé  mikilvægur þáttur í að byggja upp áhugahvöt nemenda en hún er talin vera lykillinn að árangri og metnaði  í námi. Ég hef ódrepandi áhuga á nemendasjálfstæði og valdeflingu nemandans og því valdi ég að skrifa meistararitgerð um nemendasjálfstæði í enskukennslu og notkun ferilmappa (e. portfolio) sem leið að aukinni ábyrgð og sjálfstæði nemenda.

Ástæðan fyrir því að þetta efni varð fyrir valinu var að fyrir nokkrum árum sagði mér framhaldsskólakennari að það sem honum þætti mest ábótavant við undirbúning grunnskólanemenda undir nám í framhaldsskóla væru vinnubrögð. Nemendur væru ekki nógu skipulagðir í vinnubrögðum og þeim gengi ekki vel að halda utan um gögn sín. Þá hafði ég verið enskukennari í grunnskóla í mörg ár og þó svo að umræddur kennari hafi ekki verið að tala um nemendur mína sérstaklega ákvað ég að leggja mitt af mörkum og kenna bætt vinnubrögð. Ég hafði kynnst ferilmöppum og notað þær talsvert í kennslu minni á unglingastigi.  Ég  ákvað því að rannsaka áhrif þeirra í tveimur hópum sem ég hafði kennt. Lesa meira…

Punktar um læsi (í víðum skilningi)

í Greinar/Pistlar

Baldur Sigurðsson

 

Menntastefna Reykjavíkurborgar er nú í undirbúningi. Hluti þessarar stefnumörkunar beinist að læsi í víðum skilningi eins og það er kallað í drögum sem lögð hafa verið fram til umræðu (sjá hér). Þess var óskað að ég tæki að mér að skoða þessi áform, greina þau og ræða, auk þess að setja fram hugmyndir um sóknarfæri.

Læsi í hefðbundnum skilningi eða læsi í víðum skilningi. Það skiptir töluverðu máli hvaða skilningur er lagður í læsishugtakið, og það ætla ég að ræða í byrjun, en víkja svo að öðru. Lesa meira…

Fara í Topp