Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Skólinn á að ganga á undan með góðu fordæmi

í Greinar

Aðalheiður Auðunsdóttir

 

Ég hóf störf sem námstjóri í heimilisfræði í skólaþróunardeild menntamálaráðuneytisins 1983 og vann þar til ársins 1992. Ég tók við góðu búi af forvera mínum Bryndísi Steinþórsdóttur. Það kom sér vel fyrir mig að hafa unnið í starfshópi með henni og fleiri góðum kennurum að framgangi heimilisfræðinnar, meðal annars að því að nemendur í yngri aldurshópum fengju kennslu í heimilisfræði.

Ég er menntaður heimilisfræðikennari, kenndi matreiðslu, næringar- og neytendafræði við Húsmæðrakóla Reykjavíkur, næringarfræði við framhaldsdeild Víghólaskóla og var síðan búin að kenna heimilisfræði í grunnskólum í níu ár þegar ég hóf störf í Menntamálaráðuneytinu. Ég hafði áhuga og metnað til að vinna að framgangi heimilisfræði á Íslandi og var reiðubúin í þetta skemmtilega verkefni sem námstjórastaðan bauð.

Með nýjum grunnskólalögum árið 1974 var brotið blað í íslenskri skólasögu. Kveðið var á um jafnan rétt pilta og stúlkna til náms í öllum námsgreinum grunnskólans.  Heimilisfræði varð skyldunámsgrein fyrir pilta og smíðar skyldunámsgrein fyrir stúlkur.

Það varð mín fyrsta kennslureynsla í grunnskóla að kenna strákunum í Réttarholtsskóla heimilisfræði. Kennarar, sem vanir voru að kenna prúðum stúlkum, veigruðu sér við að kenna strákum heimilisfræði. En þetta voru óþarfar áhyggjur, flestir strákarnir tóku heimilisfræðinni fagnandi og voru glaðir að fá eitthvað hollt og gott að borða.

Þegar ég lít yfir störf mín í menntamálaráðuneytinu standa nokkrir hlutir upp úr. Gerð nýrrar aðalnámsskrár er þar efst á blaði en sú vinna stóð yfir í mörg ár með hléum. Stefnt var að því að aðalnámskráin kæmi út í einni bók í staðinn fyrir hefti fyrir hverja námsgrein eins og útgáfan var árið 1976‒1977.

Almenni hlutinn varð yfirkafli sem varðaði allar námsgreinar, námsgreinakaflarnir voru hluti af stærri heild og gátu ekki staðið einir. Námskráin varð í einni bók, heildræn, samstæð og aðgengileg. Eiginlega sameiningartákn námsgreina grunnskólans.

Þetta var mikil og krefjandi vinna sem allir starfsmenn skólarannsóknadeildarinar tóku þátt í. Teknar voru vinnutarnir, oft úti á landi, í næði frá daglegu amstri í deildinni. Það var pælt og puðað frá morgni til kvölds, rökrætt og rifist. En þetta var ekki tómt puð, fólk rétti líka úr sér inn á milli og t.d. var sungið í Skálholtskirkju við undirleik Njáls námstjóra í tónmennt, við mikla hrifningu viðstaddra.

Vinnufundur skólaþróunardeildarfólks að hefjast. Frá vinstri: Þórir Sigurðsson (námstjóri í mynd- og mandmennt), Njáll Sigurðsson (tónmennt), Sigríður Jónsdóttir (samfélagsfræði), Þórleif Drífa Jónsdóttir (handmennt), Hrólfur Kjartansson (deildarstjóri), Aðalheiður Auðunsdóttir (heimilisfræði) og Júlíus Sigurbjörnsson (smíðar). Mynd: Guðni Olgeirsson.

Þegar drög að aðalnámskrá voru tilbúin fóru þau til umsagnaraðila, unnið var úr þeim athugasemdum sem bárust og þær ýmist teknar til greina eða þeim hafnað. Þar lögðu allir sitt af mörkum og gátu komið sjónarmiðum sínum að sem vissulega voru oft ólík en styrktu plaggið.

Til gamans ætla ég að nefna eina setningu sem ég þráaðist við að halda inni í almenna hlutanum. Henni var hent út af umsagnaraðilum tvisvar eða þrisvar en ég gaf mig ekki. Taldi mjög mikilvægt að fá viðhorf manneldisfræðinnar í almennan hluta námskrár.

Skólinn á að ganga á undan með góðu fordæmi, meðal annars með því að virða þau manneldismarkmið sem Íslendingar hafa sett sér.

Aðalnámskráin kom út í maí 1989 í  einni bók, almenni hlutinn fremst og síðan komu greinakaflarnir á eftir í stafrófsröð.

Takið eftir í stafrófsröð – ekki virðingar röð („goggunarröð“).

Þá tók við kynning á námskránni á haustþingum og fræðslufundum vítt og breitt um landið.

Mér hefur orðið tíðrætt um aðalnámskrá grunnskóla mér þótti vænt um hana og þekkti hana vel.  Mitt álit er að þetta hafi verið tímamótaplagg. Þegar ég fór aftur að kenna notaði ég hana í kennslunni, sýndi nemendum hvernig námsþættirnir væru hugsaðir og að námið byggðist á þeim fræðum sem réttust voru talin á hverjum tíma. Oft spunnust fjörugar umræður um tilgang náms og kennslu og hvaða þýðingu það hefði fyrir nemendur.

Viðmiðunarstundaskrá var einnig gefin út af menntamálaráðuneytinu og var hluti af aðalnámskrá, en þar er kennslustundum skipt niður á námsgreinar. Hún sýnir lágmarks stundafjölda sem hver nemandi á rétt á í einstökum námsgreinum, þ.e. hún sýnir nemendatíma. Hver skóli fær jafnframt skiptitíma til skipta bekkjardeildum í minni hópa í verklegri kennslu.

Við úttekt á stöðu heimilisfræðikennslu í grunnskólum, sem unnin var upp úr haustskýrslum um kennslu í grunnskólum árið 1987, kom í ljós að 37,5% af þeim tíma sem nemendur áttu að fá í  heimilisfræði var ekki nýttur eða nýttur til kennslu í öðrum námsgreinum. Þetta var sláandi staðreynd um stöðu námsgreinarinnar og þær vanefndir sem nemendur máttu þola.

Það var því verk að vinna fyrir námstjóra í heimisfræði að reyna að bæta úr þessu ástandi. Víða úti á landi vantaði kennsluaðstöðu og kennara til þess að kenna heimilisfræði og í sumum skólum ríktu hefðir sem erfitt var að hrófla við.

Margir fræðslustjórar og skólastjórar leituðu eftir aðstoð við að koma á kennslu í heimilisfræði. Víða úti á landi fólst sú aðstoð og ráðgjöf í því hvernig hægt væri að lagfæra og nýta húsnæði sem var fyrir hendi, til dæmis mötuneytiseldhús og eldhús í samkomuhúsum svo hægt væri að kenna þar verklegan þátt námsgreinarinnar. Ég fór margar ferðir í því skyni út um allt land.

Þetta voru oft erfið ferðalög í misjöfnum veðrum að vetri til en á móti kom tækifæri til að tala við kennara og skólastjórnendur, skoða kennsluaðstöðu og gera tillögur um úrbætur. Ég minnist þessa tíma með ánægju. Ég held að þegar upp var staðið hafi ég komið í allflesta skóla á landinu.

Mörg fleiri áhugaverð verkefni komu í minn hlut, til dæmis að vinna í starfshópi í heilbrigðisráðuneytinu að framgangi manneldis- og neyslustefnu í skólum undir stjórn Unnar Stefánsdóttur, þeirri miklu áhugakonu um bætt manneldi. Vinna með Neytendasamtökunum, vinna við að skipuleggja endurmenntunarnámskeið á vegum Kennaraháskóla Íslands, fræðslufundir fyrir heimilisfræðikennara og aðra kennara sem kenndu heimilisfræði. Þá fór mikill tími í námsefnisgerð og að glíma við að koma því út. Það var mjög torsótt og tímafrek barátta.

Ég náði að láta kaupa og þýða sænskt kennsluforrit í næringarfræði „Mad dags“ og kenndi fjölmörgum að nota það. Sjálf notaði ég það fyrir nemendur í 8. og 9. bekk og það reyndist mér vel. Nemendur héldu matardagbók í nokkra daga og völdu síðan einn dag til þess að reikna út hvort þeir næðu ráðlögðum dagskammti næringarefna. Með því móti fengu nemendur meiri skilning á þýðingu þess að borða hollan og rétt matreiddan mat.

En það fjaraði fljótt undan þessu forriti þegar enginn var til þess að fylgja því eftir.

Þegar fagnámstjórn var lögð niður í menntamálaráðuneytinu kom það verst niður á verklegum námsgreinum. Þær áttu undir högg að sækja og eiga enn, þrátt fyrir lög og reglugerðir, sem eiga að tryggja rétt nemenda til náms í þessum greinum.

Að lokum: Neysluvenjur hafa meiri áhrif á heilsufar okkar en margt annað. Hver einstaklingur þarf að verða sjálfbjarga, öðlast þekkingu og færni til að skapa sér gott líf og skaða ekki umhverfi sitt.

Ef til vill væri matarsóun minni ef fleiri kynnu til verka í eldhúsinu og væru vel upplýstir og ábyrgir neytendur.

Það var góður skóli að vinna í skólaþróunardeild menntamálaráðuneytisins. Hrólfur Kjartansson stýrði deildinni með lipurð og prúðmennsku. Ég er ævarandi þakklát fyrir að hafa kynnst því frábæra fólki sem ég vann með. Við komum úr ýmsum áttum ef svo má segja, með ólíkan bakgrunn og ólíka aðkomu að grunnskólanum. En við áttum sameiginlegan áhuga á skólamálum og skólaþróun, að ekki sé nú talað um brennandi áhuga á eigin námsgrein og framgangi hennar.


Aðalheiður Auðunsdóttir fæddist 1941 í Reykjarfirði í Ísafjarðardjúpi. Hún ólst þar upp og síðar meðal annars á Hornbjargsvita og á Dalatanga. Hún hefur helgað manneldismálum lífsstarf sitt og kennt á öllum skólastigum, frá grunnskóla- framhaldsskóla- og á háskólastigi, auk þess að starfa sem námstjóri í heimilisfræði. Heilbrigður lífsstíll, gildi fjölskyldunnar og skynsamleg nýting náttúruauðlinda eru leiðarljós í ævistarfi hennar.


Aftur á aðalsíðu


image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp