Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

„Það drap alveg minn yndislestur að vera í skóla“

í Greinar

‒ um lestur og læsi í grunn- og framhaldsskólum

Þann 1. apríl sl. var haldin í Hörpu ráðstefna um stöðu og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður umfangsmestu rannsóknar á stöðu íslenskukennslu sem gerð hefur verið hér á landi. Ritstjórn Skólaþráða falaðist eftir því að fá að birta þau erindi sem flutt voru, enda eiga þau erindi við fleiri en sótt gátu ráðstefnuna. Einnig skal lesendum Skólaþráða bent á bókina Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum sem út er komin hjá Háskólaútgáfunni. Hér birtist fyrsta greinin sem byggð er á erindunum – þær verða vonandi fleiri.

Brynhildur Þórarinsdóttir

 

Það kom í minn hlut að fjalla um lestur og læsi í rannsókninni Íslenska sem námsgrein og kennslutunga (ÍNOK) (Brynhildur Þórarinsdóttir og Kristján Jóhann Jónsson, 2018). Þessi þáttur rannsóknarinnar varð býsna fyrirferðarmikill fyrir ýmsar sakir, enda kannski ekki skrýtið, læsi er einn af sex grunnþáttum menntunar, einn af rauðu þráðunum sem reima eiga saman allt skólastarf frá leikskóla til framhaldsskóla. Ég kemst því aðeins yfir hluta af viðfangsefninu hér en bendi á kafla okkar Kristjáns Jóhanns Jónssonar, Lestur og læsi, í bókinni Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum (Brynhildur Þórarinsdóttir og Kristján Jóhann Jónsson, 2018).

Samkvæmt sameiginlegum hluta aðalnámskrár snýst læsi um sköpun merkingar og sú merkingarsköpun á sér aldrei stað í tómarúmi heldur byggir á reynslu og þekkingu einstaklinganna (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls.18). Það er einmitt reynslan sem kennurum í rannsókninni varð tíðrætt um, reynsla eða öllu heldur reynsluleysi nemenda af lestri.

Í hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla um lestur segir: „Við lok grunnskólanáms eiga nemendur að geta valið sér lesefni til gagns og ánægju og komið fram sem sjálfstæðir lesendur sem gera sér grein fyrir gildi þess að lesa“ (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 102–103). Samkvæmt þessu eiga nemendur að koma inn í framhaldsskólana færir um að lesa margvíslega texta og velja sér lesefni sem þeir hafa gaman af. Við vildum vita hvort það væri reyndin. Við vildum kanna hvort grunnskólinn skilar sjálfstæðum, áhugasömum lesendum inn í framhaldsskólann, eins og aðalnámskráin ætlast til.

Og gerir hann það? Eru unglingar upp til hópa virkir lesendur?

Þessu svaraði nemandi í 9. bekk: „Ég hef held ég bara klárað tvær bækur, tvær heilar bækur allt mitt líf.“

Þessi nemandi er ekkert einsdæmi, kennarar hafa áhyggjur af lestrarvenjum nemenda og þeir velja gjarnan orð sem tengjast bardaga þegar rætt er um lestur. Hér er barist við samfélagsmiðlana, eins og þessi íslenskukennari í grunnskóla lýsir:

Og þetta er bara barátta núna við samfélagsmiðlana og svoleiðis, það er bara það, fá þau til að lesa og maður er svona að reyna að koma þeim í skilning um það, að án þess að vera eitthvað að heilaþvo þau, að það getur bara verið valkostur.

Nemendur staðfesta að þetta er raunin; þeir eru ekki hættir að lesa en lestrarvenjur þeirra hafa breyst. Þessi framhaldsskólanemandi var bókaormur:

Já, ég, ég las rosalega mikið þegar ég var yngri bara mér til skemmtunar og það voru alls konar bækur á íslensku og ensku og alls konar og bræður mínir voru duglegir að gefa mér bækur,

En nú les hann fyrst og fremst á netinu:

en núna er það ekkert nema þú veist þú lest það sem vinir þínir skrifa á facebook og þú lest fréttir, þú veist, á netinu þegar að einhver linkar á þær á facebook,

og jafnvel þegar kennarinn sér ekki til:

eða bara ef þér leiðist í tíma að þá les ég frekar vísi eða eitthvað svoleiðis, sko. 

Sumir kennarar eru orðnir örvæntingarfullir og nota ansi dramatískar lýsingar, eins og þessi dæmi úr framhaldsskólaviðtölum sýna:

… bara það að nefna það við þau að þau eigi að lesa fjórar bækur í vetur, þetta var bara eins og ég væri að taka af þeim handlegg …

… þetta er eins og dópsalinn, hann verður að troða fyrstu tveimur þremur skömmtunum í þig og svo þarftu að, og svo ertu orðin óseðjandi, í einhverja fíkn skilur þú? Þú verður að koma þessum lestraráhuga …

Kennarar hafa ekki bara áhyggjur af lestrarvenjum nemenda, þeir leita líka lausna og eru stöðugt að ígrunda. Þeir koma að lestri nemenda úr ýmsum áttum og setja reynsluleysi þeirra af lestri í samhengi. Þannig lýsa margir framhaldsskólakennarar hnignun í orðaforða nemenda á svipaðan hátt og tengja við lestrarvenjur þeirra utan skóla. Orðaforðinn berst margoft í tal í viðtölunum, bæði við grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Hann er auðvitað grunnur að lesskilningi og að því að hugsa stærri hugsanir eins og faggreinakennari í einum framhaldsskólanum kemst að orði:

… þá getur þú hugsað miklu stærri hugsanir ef þú hefur orðin og það sem mér finnst vanta í dag, krakkarnir lesa ekki nógu mikið.

Tungumálakennari í grunnskóla bendir á að í eldri bekkjunum séu nemendur farnir að læra flóknari orðaforða og þá skilji þau enska orðið en ekki alltaf það íslenska. Faggreinakennari í framhaldsskóla segir að nú sé endalaust verið að kalla á hann í prófum til að spyrja um merkingu íslenskra orða, og bætir við: … þetta er bara vegna þess að orðaforði þeirra er orðinn svo þröngur.

Og af því að kennurum finnst nemendur ekki lesa nógu mikið utan skóla ræða þeir hvað gera þurfi til að kveikja lestrarneistann; að fá nemendur til að langa til að lesa. Gott dæmi eru þessir tveir íslenskukennarar í 9. bekk:

… að reyna að fá þau til að lesa eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt þannig að þau fari að lesa bara svona að eigin hvötum.

… kannski á maður að fara miklu meira út í það að þau bara lesi það sem þau langi að lesa og geri einhverja stuttlega grein fyrir því …

Svipuð áhersla kemur fram í framhaldsskólunum þar sem enn er glímt við lestrarvandann, eins og lesa má úr orðum íslenskukennara:

… þegar þau eru að koma inn í framhaldsskólann, þá finnst mér að við ættum að læra meira, vera meira í lestrinum og láta þau gera bókaskýrslur og ýmislegt annað.

En eru nemendur móttækilegir fyrir lestrarboðskapnum? Kunna þeir að meta lestur? Það er auðvitað allur gangur á því. Nemendur eru þó ekki eins vonlausir og stundum má halda af opinberri orðræðu, flestum finnst gaman að lesa – það er bara ekki sama hvað þeir lesa. Nemandi í grunnskóla sagði:

… fer náttúrulega eftir því hvað maður er að lesa … Hvort það sé skemmtilegt, eitthvað sem maður hefur áhuga á eða eitthvað.

Annar grunnskólanemandi bætti við:

… svona þegar ég get og nenni því, þá er það alveg gaman.

Viðtölin við bæði nemendur og kennara sýna að bilið milli nemenda er breitt; sumir lesa mikið og af ánægju, aðrir opna aldrei bók. Í hverjum fjögurra manna hópi var að jafnaði einn nemandi sem viðurkenndi að hann hefði ekki gaman af bóklestri eða læsi aldrei bók af öðrum ástæðum. Þær ástæður voru oftast tímaskortur eða annir í vinnu eða tómstundum. Kennarar segjast finna mun á nemendum sem mikið lesa eða lesið er fyrir og hinum sem ekki alast upp við lestur. Aftur og aftur kemur fram hversu breitt bil er milli nemenda.

Það er merkilegt að þó að lestur veki almennt frekar jákvæðar tilfinningar hjá nemendum, er annað að segja um hugtakið bókmenntir. Þetta brot úr viðtali við hóp framhaldsskólanemenda bendir til þess að bókmenntirnar séu í krísu:

V2: Mér dettur í hug eitthvað mjög leiðinlegt, einhver leiðinlegur íslenskuáfangi eða eitthvað svoleiðis.

V4:  Já, ég er rosa sammála honum, það bara kemur upp leiðinlegur íslenskuáfangi eða eitthvað tengt skólanum, sko, að ég einmitt, það drap alveg minn yndislestur að vera í skóla sko.

V4: Ég hef ekki áhuga á því að lesa skyldulesningar sem sagt.

V3:  Ég er alveg sammála því, ég var með eina bók tilbúna til þess að lesa og síðan var ég látin lesa hana í, ég man ekki í einhverjum áfanga, og ég bara missti strax áhugann á henni. Um leið og þetta verður eitthvað svona þú verður að gera þetta.

Við getum ekkert fullyrt um hvað veldur þessum neikvæða stimpli en við getum þó dregið ályktanir (sjá nánar í kaflanum Bókmenntir og bókmenntakennsla: Dagný Kristjánsdóttir, Jón Yngvi Jóhannsson, Brynhildur Þórarinsdóttir og Kristján Jóhann Jónsson, 2018). Skoðum til dæmis hversu hvetjandi umhverfi nemenda er til lestrar. Hér koma nokkur dæmi úr vettvangsnótunum sem við skráðum lýsingar á úr öllum kennslustofum og kennslustundum sem við heimsóttum.

Fyrstu dæmin eru úr íslenskukennslustofum á unglingastigi:

Stofa 1: Nokkrar íslenskar orðabækur og nokkur eintök af Málfinni og Skriffinni í hillu, mörg eintök af Gísla og Hrafnkels sögu.

Stofa 2: Kennslubækur og möppur í hillu: Finnur, Málfinnur, Laxdæla, Gísla saga, verkefnamöppur merktar nemendum. Nemendur geyma íslenskubækurnar í skólanum. Bókahilla við kennaraborð með orðabókum og handbókum, m.a. Handbók um málfræði.

Barnabækur eru helst sýnilegar í skólastofum 3. bekkjar en hverfa eftir því sem ofar dregur, og unglingabækur eru hreinlega ósýnilegar. Þar sem um yndislestur er að ræða í grunnskólum taka nemendur bækurnar upp úr töskum. Þegar komið er í framhaldsskólana er enn minna af áhugavekjandi lesefni sýnilegt. Dæmin hér á eftir eru úr íslenskukennslustofum í framhaldsskólum:

Stofa 1 (1. ár): Engar skreytingar, engar bækur.

Stofa 2 (3. ár): Engar bókahillur eða myndir/veggskreytingar.

Stofa 3: (1. ár): Ýmsar skáldsögur eru í hillunni (aðallega glæpasögur, bæði íslenskar og þýddar), auk mappa og nokkurra binda af Encyclopedia Britannica.

Stofa 4: (1. ár): Skjávarpi og tjald en engar bækur í kennslustofu.

Stofa 5 (3. ár): Einn bókaskápur, tómur.

Stofa 6 (3. ár): Á einum vegg eru gamlir skápar með glerhurðum sem eru að mestu leyti tómir.

Við hljótum því að staldra við og spyrja: Búum við nemendum lestrarhvetjandi umhverfi?

En skólinn er ekki einn um að sinna lestraruppeldinu og þátt heimilanna skyldi ekki vanmeta. Þar er víða pottur brotinn, eins og orð þessa framhaldsskólanemanda eru til vitnis um:

… þetta var meira svona að þú veist fjölskyldan las mikið einu sinni, núna erum við upptekin bara, við erum öll að vinna mikið og og förum frekar til útlanda en að lesa bækur eða eitthvað.

Hvað sem veldur er ljóst að minnkandi bóklestur eða öllu heldur minnkandi úthald til bóklestrar hefur áhrif á skólastarf. ÍNOK-rannsóknin sýnir að kennarar hafa brugðist við með ýmsum hætti. Þeir hafa stytt lesefni, lagt af bækur og tekið upp staka kafla eða jafnvel blaðagreinar í staðinn. Þeir glósa fyrir nemendur, lesa fyrir nemendur eða leiklesa heilu sögurnar. Þeir hafa tekið upp yndislestrarstundir og ráðist í alls konar átök.

Skólarnir koma þannig til móts við reynslulitla lesendur með ýmsum hætti. En hvers vegna finnst nemandanum sem vitnað er til hér í fyrirsögn að skólinn hafi gengið af yndislestrinum dauðum? Þeirri spurningu verðum við að velta fyrir okkur.

ÍNOK-rannsóknin sýnir að lestrarmálin valda togstreitu í skólastarfinu. Mikil og hávær opinber umræða blossar upp aftur og aftur um slakan árangur íslenskra unglinga og kennurum finnst þeir verða að bregðast við. Einhvern veginn verður baráttan um bókina að neikvæðu áreiti þar sem ytri áhugahvöt hefur sigur yfir þeirri innri, þótt kennararnir þrái að virkja þá innri, því hún er lykillinn að því að nemendur lesi af eigin hvötum; að þá langi til að lesa.

Þann lærdóm mætti t.d. draga af ÍNOK-rannsókninni að hægt væri að nýta umhverfi nemenda mun betur til að kveikja áhuga þeirra á lestri. Greiða þyrfti leið barna- og unglingabóka inn í skólana því barnabækur er helst að finna í kennslustofum á yngsta stigi og unglingabækur sjást ekki í kennslustofum á unglingastigi. Í framhaldsskólum er lítið og skrýtið lesefni í stofum. Að sama skapi væri hægt að nýta skólasöfnin mun betur, en í viðtölum við bæði skólastjórnendur og kennara kemur fram að skólasöfnin hafa setið á hakanum. „Bókakostur nokkur en bæði gamall og lúinn“ skráir einn rannsakenda í grunnskólaheimsókn.

Kennarar hafa skiljanlega áhyggjur af lestri nemenda og þeir tala á tilfinningaþrunginn hátt um að kveikja neistann og fá nemendur til að lesa af eigin hvötum. Þegar athyglin í skólastofunni beinist með jafnafgerandi hætti að nemendum sem vilja ekki lesa og hér kemur fram er hætt við því að bókelskir nemendur fái ekki hvatningu við hæfi. Og þegar við bætist staða skólasafnanna og ósýnileiki barna- og unglingabóka í skólastofunum, má orða það svo að tveir hópar verði útundan í allri viðleitninni til að efla læsi: Bókaormar sem snúa sér að lestri á ensku, eins og fram kemur í rannsókninni, og nemendur sem læra íslensku sem annað mál. Ég lýk þessu eins og ég byrjaði, með því að líta í aðalnámskrána: Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eigum við að nota barna- og unglingabókmenntir í kennslu íslensku sem annars máls, því nemandi sem lærir íslensku sem annað mál á samkvæmt hæfniviðmiðum að geta lesið auðlesnar íslenskar barnabókmenntir og bókmenntir á móðurmáli sínu, túlkað þær og tjáð sig um þær (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 108 ).

Heimildir

Brynhildur Þórarinsdóttir og Kristján Jóhann Jónsson. (2018). Lestur og læsi. Í Kristján Jóhann Jónsson og Ásgrímur Angantýsson (ritstjórar) Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum (bls. 41-82). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Dagný Kristjánsdóttir, Jón Yngvi Jóhannsson, Brynhildur Þórarinsdóttir og Kristján Jóhann Jónsson. (2018). Bókmenntir og bókmenntakennsla. Í Kristján Jóhann Jónsson og Ásgrímur Angantýsson (ritstjórar) Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum (bls. 83-134). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: Höfundur.


Brynhildur Þórarinsdóttir er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri þar sem hún kennir íslenskar bókmenntir, barna- og unglingabókmenntir og ritun og skapandi skriftir. Hún situr í stjórn rannsóknarinnar Íslenska sem námsgrein og kennslutunga sem er samstarfsverkefni íslenskukennara við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Nýverið kom út bók með helstu niðurstöðum rannsóknarinnar; Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp