Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Keilir – öðruvísi skóli

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Hjálmar Árnason

 

Ekki gerist það á degi hverjum að nýjum skóla er komið á koppinn. Slíkar stórákvarðanir fela í sér ótal ákvarðanir og ekki allar léttar. Þó að brekkurnar kunni að vera margar þá býður stofnun nýs skóla ótrúleg tækifæri til nýsköpunar. Reyndin er nefnilega sú að blessaðar hefðirnar eru svo magnaðar að mikið þarf til að hagga þeim. Líklega leikur fastheldnin skólakerfið hvað harðast. Í grunninn er ekki úr vegi að halda því fram að skólakerfið hafi lítt breyst frá dögum Forngrikkja þegar hinn fróði stóð uppi á kassa og predikaði – miðlaði þekkingu til lærisveina og -meyja. Skólabyggingar, kjarasamningar og hugsunarháttur halda okkur að mörgu leyti á blessuðum kassanum – þó að upplýsingaöldin með allri sinni tækni sé löngu gengin í garð. Okkur hættir svo til að vilja standa uppi á kassanum og predika. Eða eins og einn ágætur kennari orðaði það: „Ég óttast svo að krakkarnir læri ekkert í tímum ef ég er ekki að tala.” Þessi magnaða íhaldssemi kann að vera ein ástæða þess að það er ekki lengur leikur að læra og einnig að brottfall er alræmt fyrirbrigði í skólakerfinu.

Ingvar Sigurgeirsson hefur helgað starf sitt baráttunni gegn íhaldssemi. Hann hefur verið ötull við að ýta kennurum niður af kassanum og hvetja þá til að nálgast nútímann. Ódrepandi og gefandi.

Öðruvísi skóli

Keilir var stofnaður árið 2007. Ótrúlega skemmtilegt verkefni og einstakt. Fyrsta spurning okkar var þessi: „Hvernig skóla ætlum við að skapa?”  Og svarið var skýrt: „Öðruvísi skóla.” Þannig lögðum við upp í vegferð – áhugasöm en örlítið nervös. Keilir var í raun hvorki né. Starfaði sem háskóli en var ekki háskóli. Starfaði sem framhaldsskóli en samt … o.s.frv. Áhersla okkar var að byggja starfið á þjónustu við nemendur. Við vildum að nemendur fyndu fyrir vilja okkar til að þjóna þeim í lærdómsþránni. Ekki bara í skólastofum heldur í allri byggingunni. Þjónustulund og gleði áttu að vera einkenni kúltúrsins í Keili.

Nýr skóli bjó til allrar hamingju ekki yfir neinum hefðum. Þær urðum við að skapa. Mjög fljótlega sáum við að hefðbundin kennsla ætti engan veginn upp á pallborðið hjá okkur. Hópurinn velti vandlega vöngum yfir úrræðum. Í þeirri leit rákumst við á fyrirbrigðið vendinám. Til marks um hve hefðin er sterk þá var í fyrstu rætt um vendikennslu. Auðvitað, því skólastarf hefur einatt snúist um blessaðan kennarann – predikarann. Á ensku nefnist þetta flipped classroom. Orðið kennsla kemur þar hvergi nærri. Áherslan er á skólastofuna þar sem leitast er við að koma til móts við nemandann á hans forsendum fremur en kennarans. Í stuttri grein verður ekki vikið frekar að skýringum á vendináminu að öðru leyti en því að fyrirbrigðið einfaldlega hitti í mark. Og hvað höfum við til marks um það? Ótal umsagnir nemenda okkar sem allir höfðu fyrri reynslu af hefðbundnu skólastarfi til samanburðar.

Ný hugsun – nýjar leiðir

Vendinámið þurfti aðlögun og þróun (og er enn að gerjast). Mistök voru gerð og leyfð. Við vorum og erum stöðugt að læra af reynslunni. Skemmtilegustu afleiðingarnar urðu líklega þær að hin óhefðbundna leið opnaði vitund okkar allra fyrir því að skólastarf er hægt að þróa og því má breyta frá hefðinni. Kennarafundir snerust ekki um boð og bönn heldur umræður um hugmyndir og reynslu af tilraunum. Eitt leiddi af öðru og fyrr en varði spruttu upp alls kyns aðferðir sem allar áttu það sammerkt að veita nemendunum betri þjónustu. Sumar djarfari en aðrar en kennarar voru óhræddir við að stíga inn á nýjar og jafnvel framandi brautir. Þar skiptir máli að umbera mistök – þegar þau verða – því að í öllum tilraunum verða mistök (sem er í raun öfugmæli – ætti frekar að tala um viðfangsefni).

Myndin er fengin af heimasíðu Háskólabrúarinnar

Ingvar veitti okkur sjálfstraust

Ritari pistils leyfir sér að fullyrða að svonefndur Keilisandi einkennist af gífurlegum áhuga kennara á að skapa nemendum sínum sem bestar aðstæður til að læra og jafnframt af óbilandi kjarki við að feta nýjar slóðir. Slíkt getur aldrei orðið nema andrúmsloft vinnustaðarins hafi slíkan anda svífandi yfir vötnum en umfram allt þarf sjálfstraust kennara til að rífa sig frá hefðinni. Fullyrða má að Ingvar Sigurgeirsson eigi risastóran þátt í að skapa þetta sjálfstraust. Við vorum nefnilega svo lánsöm (og klók) að ráða hann til okkar á fyrstu árunum sem ráðgjafa. Vorum dálítið hrædd við hefðina (kassaskrattann) en vildum vera öðruvísi. Þess vegna var mikilsvert að fá utanaðkomandi álit. Beinast lá við að leita til Ingvars enda hafði hann getið sér orð fyrir þekkingu á kennsluháttum og skólaumbótastarfi. Skemmst er frá því að segja að verk sitt vann Ingvar af alúð og nákvæmni. Spurði á stundum óþægilegra spurninga. Talaði við nemendur og kennara, hitti okkur reglulega og veitti umsögn. Þetta samstarf við prófessorinn lagi grunninn að sjálfstrausti okkar til verka. Aðferðir Keilis virðast njóta vinsælda (aðsókn bendir til þess). Án sjálfstraustsins hefðu aðferðir okkar aldrei þroskast eða breyst.  Án þeirra væri Keilir líklega ekki til í dag.

Þykist undirritaður vita að Ingvari líki illa hrósið. Þáttur hans í að byggja upp Keili er samt svo stór að hann verður að þola að sér sé hrósað. Til hamingju með starfið, lífið og afmælið.


Hjálmar Waag Árnason er fyrrum framkvæmdastjóri Keilis, M.Ed. og skólamaður til nokkuð margra ára.


Grein birt: 26/11/2020

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp