Jóna Benediktsdóttir
Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur um nokkurra ára skeið verið sett upp val fyrir nemendur á miðstigi sem kallast hræringur. Nafnið var valið vegna þess að í þessu vali blandast allir nemendur miðstigs eftir áhuga nemenda á viðfangsefnum hverju sinni. Valið nær til þriggja kennslustunda á viku og veturinn skiptist í fjögur valtímabil, annars vegar eru tvær samliggjandi kennslustundir og hins vegar einn stakur tími. Til að koma þessum tímum fyrir í stundatöflu nemenda fækkum við stundum í bóklegum greinum um þrjár og sveitarfélagið hefur veitt skólanum viðbótar skiptistundir til að vinna þetta verkefni. Viðfangsefni í valinu eru ólík eftir því hvort um er að ræða einfaldan eða tvöfaldan tíma. Nemendur velja sér því tvær valgreinar fyrir hvert tímabil eða átta valgreinar alls yfir skólaárið. Hugmyndin var ekki síst að leita leiða til að fyrirbyggja námsleiða sem oft verður vart við á miðstigi og þá sérstaklega hjá strákum.
Markmið verkefnisins er þríþætt. Í fyrsta lagi að stuðla að auknum samskiptum nemenda milli bekkja, að efla vinnugleði og að sýna nemendum að hægt sé að nálgast skólaviðfangsefnin á fjölbreyttan hátt. Námsmat í þessum verkefnum byggist á þátttöku og nemendur fá matið lokið eða ólokið. Verkefnið byggist meðal annars á þeirri sannfæringu okkar að ekki skipti öllu máli við hvað nemendur eru að fást í kennslustundum svo framarlega sem viðfangsefnin eru gagnleg, uppbyggileg og fela í sér áskorun.
Almennt reynum við að passa að viðfangsefnin á hverri önn séu blanda af tækniverkefnum, verklegri vinnu, hreyfingu og verkefnum sem fela í sér eitthvað sem nemendur gleyma sér í dundi við. Nokkur viðfangsefnanna eru þó svo vinsæl að þau eru alltaf í boði. Þar má nefna vinnu í Fablab smiðju þar sem nemendur byrja á að búa til sína eigin límmiða og þróa síðan vinnu sína yfir í ýmiskonar þrívíddar- og tæknivinnu. Tæknilegóið er líka mjög vinsælt og ekki má gleyma því sem við köllum matur og menning þar sem nemendur læra að elda rétti frá framandi löndum og fræðast um menningu sem er ólík okkar. Önnur viðfangsefni sem hafa verið í hræringi hjá okkur eru: spænska, nýsköpun, leðurvinna, vinna með MaKey MaKey, teiknimyndasögugerð, fimleikar, skartgripagerð, útivist, smíðar, skák, leiklist, skrautskrift, tónlist úr heimabyggð, myndlist, raftónlist, dans, umhirða gæludýra, spil, hljóðfæragerð, yndislestur, þýska, samspil, stuttmyndagerð og Börn og umhverfi sem er samstarfsverkefni skólans og Rauða krossins.
Kannanir sem gerðar hafa verið hafa sýnt að að milli 90-98% nemenda og foreldra eru ánægðir með þetta fyrirkomulag. Vinnugleði, samskipti og þátttaka er einkennandi fyrir þessa tíma og hefur einnig smitandi áhrif yfir í aðrar kennslustundir og með því teljum við að meginmarkmiði verkefnisins sé náð.
Um höfund
Jóna Benediktsdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Jóna lauk M.Ed prófi frá HÍ haustið 2012. Áherslur Jónu í náminu voru á skóla án aðgreiningar og lýðræði í skólastarfi.