Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Óraunhæfir draumar, óhefðbundin lífsleiknikennsla og öðruvísi valgreinar

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Kristján Sturla Bjarnason og Guðlaug Sturlaugsdóttir

 

Í Árbæjarskóla höfum við verið að prófa eitt og annað í skólastarfi og félagslífi nemenda á undanförnum árum. Við höfum notið hæfileika fjölbreytts hóps kennara sem hafa komið mörgum góðum hugmyndum í framkvæmd sem flestar hafa lifnað og dafnað. Í þessari grein segjum við frá nokkrum þeirra sem tengjast beint eða óbeint lífsleiknikennslu á unglingastigi. 

Gengið á Reykjafjall í Mosfellsbæ með Þverfellið í augsýn.  Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Það sem gerir skólastarf skemmtilegt er ekki síst sú staðreynd að við höfum val um hvernig við nálgumst viðfangsefnin með nemendum. Aðalnámskrá grunnskóla stoppar okkur ekki af í að nálgast þau á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt heldur frekar vanafesta okkar og takmarkandi hugur. Við virðumst á stundum eiga auðveldara með að finna ástæður fyrir að framkvæma ekki hugmyndir okkar og sjá hindranir í öllum hornum í stað þess að leyfa okkur að hugsa „hvað ef …“ því með réttu hugarfari eru okkur allir vegir færir!

Í Árbæjarskóla höfum við stundum fengið hugmyndir sem sumir myndu kalla „óraunhæfa drauma“. Slíkar hugmyndir eru hins vegar mikilvægur hluti af tilveru skólans og þær hjálpa okkur að þróa hann. Við höfum vissulega lent í því að fara af stað með metnaðarfull verkefni sem síðan hafa þróast í aðrar áttir eða jafnvel lognast út af en mörgum höfum við hrint í framkvæmd og þau haldið lífi. Við erum svo lánsöm að hafa á að skipa frjóu og hæfileikaríku starfsfólki sem fær að margra mati „galnar“ hugmyndir en um leið starfa hér jarðbundnari einstaklingar sem hafa hjálpað okkur að koma þeim í framkvæmd.

Valgreinar – með lífsleikniívafi

Mikil vinna liggur að baki auglýsingum vegna söngleiksins.

Starfsfólk Árbæjarskóla hefur haft kjark og þor til að takast á við ný og spennandi verkefni á síðustu árum í þróun valgreina. Margir hafa eflaust veigrað sér við að fara af stað með sum þessara verkefna í byrjun en þau hafa notið fylgis í kennarahópnum og eru nú hluti af því sem við köllum hefðbundið skólastarf. Verkefnin eru fjölbreytt og hafa oft kallað á óhefðbundin kennslusvæði eins og mynd- og hljóðvinnslustofu, alvöru hljóðver og „Boxið“, litla svið Árbæjarskóla. Skólinn setur líka árlega upp stóran söngleik þar sem fjölbreytt og ólík verk hafa ratað á stóra sviðið svo sem Grease, Konungur ljónanna, Aladín og Footloose. Þar hefur stór hópur nemenda, með ólíkan bakgrunn, fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína, jafnt á sviði sem og í listrænum útfærslum á verkunum. Bugsy Malone fer á fjalirnar í vor og er mikill hugur í fólki þrátt fyrir aðstæðurnar í samfélaginu. Þessu til viðbótar hefur jafnt og þétt bæst í flóru valgreina nemenda á unglingastigi. Má þar nefna „Iðnir og tækni“ sem er samvinnuverkefni skólans og Orkuveitunnar, sönglist, lagasmíðar og upptökur, „Á toppinn“ og mynd- og hljóðvinnsla, auk fleiri greina sem vakið hafa áhuga nemenda og munu án efa nýtast þeim bæði í námi og starfi.

Það sem ýmsir gera sér ekki grein fyrir er að margar þessara valgreina, þar á meðal söngleikurinn, eru að hluta til lífsleiknikennsla. Nálgunin er þá ekki bara sú að haka við lífsleiknimarkmið úr aðalnámskrá heldur eru þær valgreinar öðrum þræði hugsaðar út frá lífsleikni. Við erum væntanlega öll sammála um mikilvægi lífsleiknikennslu en vitum jafnframt að það getur verið takmarkandi að kenna hana að öllu leyti innan fjögurra veggja hinnar hefðbundnu kennslustofu. Kennslan í stofunni takmarkast ekki aðeins  lengd kennslustundar heldur er oft erfitt að ímynda sér eða endurskapa aðstæður þar sem lífsleiknin nýtist. Að þessu sögðu er tilgangurinn ekki að varpa fræðilegu ljósi á stöðu lífsleikninnar . Hér er markmiðið frekar að kynna fyrir lesendum dæmi um hvernig hægt er að fást við lífsleikni í kennslu – án þess þó að „kenna“ lífsleikni, ef svo mætti að orði komast.

Lífsleikni – án þess að kenna lífsleikni – hvati í námi

Í framhaldi af því sem áður var sagt má til dæmis nefna valgreinarnar lagasmíðar og kvikmyndagerð. Nálgun greinanna byggir fyrst og fremst á sjálfstæðum vinnubrögðum þar sem nemendur fá verkefni sem þeir þurfa að leysa. Frelsið er talsvert og verkefnin eru hæfilega opin fyrir túlkun. Vissulega eru nemendur að velja sér þessar greinar og því má segja að þær byggi á áhugasviði þeirra. Í vinnunni koma því oft fram styrkleikar hjá nemendum sem sumir hafa kannski ekki fundið sig í hefðbundnum bóklegum greinum. Við höfum oft upplifað að nemendur hafa setið iðnir við kolann í hljóðverinu eða við að klippa myndbandið sitt á sama tíma og þeir hafa séð lítinn tilgang með öðru námi. Nemendur eru þarna að vinna á áhugasviði sínu og gera sér oft ekki grein fyrir að sú vinna teljist til náms. Þetta gerir það oft að verkum að þeir verða mun móttækilegri fyrir leiðsögn en ella og skyndilega verður vinnuálag eða krefjandi verkefni engin fyrirstaða. Tilgangurinn er skýr hjá nemendum og þeir vilja verða enn þá betri í því sem þeir hafa áhuga á.

Við höfum einnig tekið eftir því að áhugi á tiltekinni valgrein hefur oft smitast út í önnur viðfangsefni. Nemendur virðast allt í einu mun áhugasamari um efni sem ekki vakti áhuga þeirra áður ef þeir sjá tengingu við viðfangsefnið sem þeir hafa áhuga á. Sem dæmi má nefna nemanda sem sá almennt lítinn tilgang með námi í íslensku. Í samtali við kennara sinn kvaðst hann ekki skilja hvers vegna í ósköpunum hann þyrfti að læra íslensku þar sem hann ætlaði ekki að verða kennari eða skrifa bækur. Hann ætlaði að verða tónlistarmaður! Stuttu síðar kom nemandinn að máli við kennarann sinn í lagasmíðum og kvaðst vilja bæta sig í textagerð. Sagðist hann orðinn þreyttur á að endurtaka sömu setningarnar og spurði hvernig hann gæti bætt sig. Benti kennarinn honum þá á að lesa ljóð og útskýrði fyrir honum hvernig ljóð geta aukið orðaforða og skilning á textagerð. Við þetta stutta samtal breyttist viðhorf nemandans skyndilega til ljóða og íslenskukennslu. Í næsta lagasmíðatíma var farið yfir gömul ljóð, bragfræði og ljóðstafi. Sami nemandi fylgdist nú grannt með. Nokkrum dögum síðar sást til hans á bókasafninu að lesa ljóðabók.

Lífsleikni samofin áhugatengdum valgreinum

Í ljósi þessara staðreynda ákváðum við að prófa að tengja aðra námsþætti við áhugatengdar valgreinar, án þess þó að vekja athygli nemenda á því. Einn þeirra þátta var lífsleikni. Viðfangsefnin voru fjölbreytt og mörgum spurningum kastað fram. Hvernig má ná árangri í kvikmyndagerð eða tónlist? Hvernig skal takast á við hindranir eða mótbyr? Af hverju skipta tilfinningar máli í listsköpun? Öll þessi viðfangsefni voru brotin til mergjar og gekk það vel. Skyndilega var komin árangursrík leið til að kenna lífsleikni. Í huga nemenda voru þeir að læra lagasmíðar eða kvikmyndagerð og vildu bæta sig á því sviði. Nemendur vissu ekki að þeir væru um leið í lífsleikni, þetta tengdist áhugasviðinu þeirra og það virtist gera þá móttækilegri en ella.

Sérútbúið kennslurými skiptir máli

Við höfum rekið okkur á að námsumhverfið hefur einnig áhrif á nemendur. Þegar nemendur koma í kennslustund í lagasmíðum eða mynd- og hljóðvinnslu, þá eru þeir að stíga út úr skólanum inn í annað umhverfi þó það sé innan skólans. Kennslurýmið er sérútbúið með tilteknar valgreinar í huga. Búið er að mála veggi í öðrum litum, setja upp góða lýsingu og ýta öllu sem minnir á hefðbundna skólastofu til hliðar. Nafninu á skólastofunni er auk þess breytt því tíminn er ekki í E3 heldur í Hollywood eða hljóðverinu. Þetta gerir það að verkum að viðmótið gagnvart námsumhverfinu virðist breytast og nemendur fara að sýna á sér nýjar hliðar. Kennslustofan fór að verða eftirsóknarverður staður og á endanum þannig að erfitt var að fá nemendur til að hætta að vinna að afloknum skóladegi.

Mynd til vinstri: Í hljóðveri Árbæjarskóla fær tónlistarsköpunin að njóta sín.
Mynd til hægri: Hollywood, kvikmyndaver skólans, sem skartar alvöru „green-screen“ vegg.  Ljósmyndir: Kristján Sturla Bjarnason.

Út fyrir skólann – Á toppinn – lífsleiknival

Í þessu sambandi er einnig vert að minnast á nýja valgrein í Árbæjarskóla sem nýtur mikilla vinsælda og varð í raun til út frá ofangreindum uppgötvunum. Valgreinin heitir á „Á toppinn – hvernig lifa á af í óbyggðum“ og snýst í grunninn um að fara í fjallgöngur með lífsleikniívafi. Hugmyndin að valgreininni var eilítið djörf til að byrja með en þó það spennandi að ákveðið var að láta vaða. Hugmynd, sem þrátt fyrir spennandi viðfangsefni, gat auðveldlega mistekist.

Að ganga á Glym er svaðilför þar sem nemendur vaða m.a. yfir Botnsá. Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Kennarar valgreinarinnar hafa verið áhugamenn um fjallgöngur án þess þó að teljast til sérfræðinga á því sviði. Þeim finnast fjöll skemmtilegt viðfangsefni og telja að þar leynist margar áskoranir sem nýta mætti í kennslu. Stóra spurningin var bara hvernig hægt væri að selja unglingum þá hugmynd að fjallgöngur væru spennandi kostur þar sem frelsi væri til að staldra við, skoða umhverfið, klifra í klettum og gera hluti sem alla jafna gefst ekki svigrúm til í skólaferðum. Hvernig fengjum við unglingana til að velja þessa valgrein?

Fyrsta verkefnið var að finna nafn sem gæti höfðað til nemenda. Úr varð „Á toppinn – hvernig lifa á af í óbyggðum”. Gefið var í skyn, með kómískum undirtón, að ekki væri endilega víst að allir kæmust lifandi heim, svo hættulegar yrðu ferðirnar. Annað sem þótti vænlegt til árangurs var að kynna fyrir nemendum að fagið yrði kennt í lotum. Í stað vikulegra tíma væri einungis farið í nokkrar ferðir sem myndu jafngilda þeim tímafjölda sem áætlaður var í fagið yfir árið. Lotukennslan var ekki einungis leið til þess að selja nemendum hugmyndina heldur nauðsynleg forsenda því almennilegar fjallgöngur taka tíma og hin hefðbundna 60 mínútna kennslustund mætti ekki stoppa okkur af. Að endingu var það rúsínan í pylsuendanum – að fara í eina lengri ferð yfir nótt. Sölumennskan virkaði og fjölbreyttur hópur skráði sig í valgreinina.

Enginn stökkpallur í Skálafelli og lyfturnar voru lokaðar. Nemendur gripu þá til sinna ráða.  Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Leiðin á toppinn

Fyrsta ferðin var á Reykjafjall í Mosfellsbæ. Fyrir ferðina var haldinn fyrirlestur um búnað, skyndihjálp, samvinnu og hvaða hættur bæri að varast í gönguferðum. Undirliggjandi markmið var þó að efla félagsfærni með samvinnuverkefnum. Búin var til saga um landkönnuð sem hafði ferðast um á fjallinu á seinni stríðsárunum. Þar hafði hann mætt mörgum hindrunum og hitt fyrir ýmsar kynjaverur og fyrirbæri sem allar tengdust sögum af fjallinu. Má þar nefna orrustuþotur úr seinni heimsstyrjöldinni sem skullu saman á fjallinu og Nykra sem búa í Bjarnavatni. Örlög landkönnuðarins voru þó ekki betri en svo að hann varð úti á fjallinu. Hann hafði búið lengi í útlöndum og tók ekki íslenskt veðurfar með í reikninginn.

Nemendum var skipt í hópa og áttu þeir að fylgja slóð landkönnuðarins líkt og í ratleik. Með reglulegu millibili áttu nemendur að leysa þrautir sem voru í formi hópeflis eða annarra samvinnuverkefna. Á síðasta áfangastaðnum tók síðan landkönnuðurinn sjálfur á móti þeim en þá höfðu kennararnir klætt upp beinagrind sem fengin var að láni úr náttúrufræðistofunni og beið hún nemenda á toppnum.

Önnur ferð var síðan á Skálafell þar sem gist var eina nótt. Þá fengu nemendur að upplifa gamaldags skálaferð um miðjan vetur, í kolniðamyrkri. Eftir almennilega fjallgöngu á Skálafell var haldin kvöldvaka. Þar var kafað dýpra í félags- og tilfinningafærnina með því að fara í leiki sem kröfðust þess að nemendur myndu deila með öðrum og tjá sig, að sjálfsögðu allt á eigin forsendum. Þetta kvöld náðist ákveðin einlægni í samskiptum nemenda, eitthvað sem erfitt er að ná fram í umhverfi kennslustofunnar. Það er ekki sambærilegt að vera nánast ein í heiminum, seint um kvöld og í kolniðamyrkri í gömlum skála upp við fjall eða vera staddur í hefðbundinni kennslustofu klukkan 8.10 að morgni í 60 mínútna kennslustund. Það er ljóst að ekki hefði verið hægt að ná fram þessari einlægni án þeirra tengsla sem höfðu myndast í hópnum. Hópurinn varði miklum tíma saman og leysti verkefnin sem ein heild. Það skilaði sér í aukinni samkennd milli ólíkra einstaklinga sem annars hefðu líklega aldrei átt samskipti. Vert er að taka fram að gætt var að því að hafa ekki of marga í hverjum ferðahópi og með auknum vinsældum valgreinarinnar var frekar farin sú leið að bæta við hópum í stað þess að fjölga í þeim. Fleiri ferðir hafa verið farnar og má þar nefna ferð að fossinum Glym í Hvalfirði. Sú ferð reyndi mikið á hópinn því þar þurfti til dæmis að vaða, klifra í klettum og takast á við lofthræðslu, aðstæður sem erfitt er að endurskapa í skólastofu.

Tengslin meira virði en fjallgangan sjálf

Í lok áfangans var lögð könnun fyrir nemendur þar sem skoðað var hvernig þeir hefðu upplifað valáfangann og viðfangsefni hans. Í ljós kom að nemendum fannst fjallgöngurnar skemmtilegar en í huga þeirra voru þær þó ekki það sem stóð upp úr heldur tengslin sem mynduðust í hópnum. Nemendur nefndu vissulega hagnýt atriði eins og mikilvægi þess að mæta í góðum skóm eða taka með auka sokka en það var samheldni hópsins og sameiginlegur sigur þeirra á hindrununum sem stóð upp úr. Að læra að vinna saman, að vera hluti af heild og að finna að maður skipti máli.

Með því að kenna lífsleikni á þennan hátt erum við að tengja tilgang hennar beint við það sem nemendur eru að fást við hverju sinni. Orsakasamhengið milli þess að öðlast hæfni og nýta hana um leið verður auk þess bæði einfaldara og skýrara í augum nemandans. Í fjallgöngunum voru til dæmis mörg tækifæri til að takast á við hindranir og vinna um leið bæði með viðhorf og hugarfar nemenda. Þá gafst ekki síður tækifæri til að vinna með lífsleiknina þegar sest var niður, borðað nesti og litið yfir farinn veg. Bæði í umhverfinu og ferðlaginu sjálfu mynduðust ekki einungis kjöraðstæður til lífsleiknikennslu heldur einnig tækifæri til að þjálfa hæfnina í raunverulegu umhverfi. Hér væri eflaust hægt að kafa enn dýpra í fræðilega hlutann og tengja við þætti eins og óformlegt nám (e. non formal education) eða útinám en það er líklega efni í aðra grein. Látum því nægja að minnast á þessi hugtök og benda á þá þróun sem á sér oftar en ekki stað þegar ólíkar nálganir skarast.

Í lok síðasta tíma ársins var útskýrt fyrir nemendum út á hvað valgreinin gekk í raun og veru. Fjallið var lífið sjálft og þó við séum alltaf að stefna á toppinn þá sé það ferðalagið á toppinn sem skiptir mestu máli, ferðafélagarnir, hindranirnar sem þarf að yfirstíga, samheldnin, fegurðin og þrautseigjan svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur voru einnig minntir reglulega á mikilvægi þess að gefa sér tíma, staldra við og njóta útsýnisins.

Lærdómur kennaranna mikilvægur

Að lokum viljum við draga fram að kennararnir lærðu ekki síður en nemendur mikið á þessum verkefnum sem hér hefur verið lýst og þá ekki síst um mikilvægi þess að láta ekki hindranir hugans stöðva sig í að reyna nýja hluti í kennslu. Þegar vel tekst til geta svona hugmyndir orðið upphafið af einhverju alveg nýju í skólastarfinu og þó þær mistakist þá er það eins og með fjallgöngurnar, maður finnur bara aðra leið.

Á toppnum á Reykjafjalli, Reykjaborginni. Ljósmynd: Kristján Sturla Bjarnason.

Kristján Sturla Bjarnason er tónlistarmaður, tónskáld og grunnskólakennari við Árbæjarskóla. Kristján lauk kennaranámi haustið 2020 með samfélagsfræði sem aðalgrein. Lokaverkefni hans í meistaranáminu bar heitið Gildi þess að efla félags- og tilfinningahæfni nemenda (SEL) fyrir skólastarf á Íslandi. Kristján er með B.Sc í sálfræði og hefur unnið með unglingum um nokkurra ára skeið. Kristján er óhræddur við að fara ótroðnar slóðir í kennslunni þar sem áhersla hans er á eflingu félagsfærni nemenda.

Guðlaug Sturlaugsdóttir er skólastjóri Árbæjarskóla.  Guðlaug var fyrst skólastjóri á Hellissandi haustið 1997 og hefur einnig starfað sem slíkur í Reykjavík og á Seltjarnarnesi í yfir 20 ár.  Áður en hún tók við starfi skólastjóra Árbæjarskóla var hún skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.  Guðlaug er með meistarapróf í stjórnun menntastofnana frá KHÍ en meistaraprófsverkefni hennar fjallar um stefnumörkun í skólastjórnun og áhrif skólastjóra á námsárangur.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 19.3. 2021
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp