Ingvar Sigurgeirsson
Fyrir nokkrum árum kom ég að málum í sveitarfélagi þar sem áform voru uppi um nýja leikskólabyggingu. Hugmyndin var að reisa leikskólabygginguna við grunnskólann og að byggja um leið við grunnskólann, en þar vantaði m.a. náttúrufræðistofu, sal og aðstöðu fyrir bókasafn.
Í sveitarfélaginu hefur um skeið verið nokkur óstöðugleiki í stjórnun og nýr meirihluti skipaður þrisvar á kjörtímabilinu. Þetta hefur m.a. bitnað á áformum um leikskólabyggingu, en í vor ákvað sá meirihluti sem nú ræður málum að hætta við að byggja leikskólann við grunnskólann, og ráðast þess í stað í nýbyggingu leikskólans á núverandi stað. Rökin sem sett voru fram fyrir þessari breytingu voru öðru fremur fjárhagsleg, þ.e. að það væri ódýrara, en einnig skipulagsleg, þ.e. að ekki hefði fundist góð lausn á staðsetningu nýbyggingarinnar við grunnskólann. Eins var bent á umferðarmál og vísað til veðurfars – að skjólsælla væri á gamla staðnum. Rétt er að halda því til haga að meirihlutinn tók þessa ákvörðun án samráðs við starfsfólk skólanna og málið kom heldur aldrei fyrir fræðslunefnd. Talsverð ólga varð í kjölfar þessarar ákvörðunar og í nóvember 2017 var ákveðið að efna til íbúafundar til að ræða þessi mál og kynna hin nýju áform.
Til mín var leitað um að fjalla um samrekstur leik- og grunnskóla á fundinum. Ég hafði áður eindregið stutt það að ný leikskólabygging yrði reist við grunnskólann og sá fyrir því ýmis fagleg og rekstrarleg rök. Til að undirbúa ávarp mitt á fundinum ákvað ég að kanna hvernig samskipan leik- og grunnskóla hefur gengið, en ég þekkti til á nokkrum stöðum þar sem ákveðið hefur verið að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu. Raunar höfðu sveitarstjórnarmenn og skólafólk í umræddu sveitarfélagi heimsótt nokkrar aðrar byggðir þar sem leik- og grunnskólar eru í sömu byggingu þegar hugmyndir um þetta komu fyrst upp. Þessar heimsóknir höfðu styrkt þáverandi sveitarstjórn í ráðagerðum um að hafa skólana í nábýli.
Til að undirbúa framlag mitt á íbúafundinum ákvað ég að skrifa stjórnendum í skólum, þar sem ég vissi að leik- og grunnskóli væru í sama húsi og spyrja þá um kosti þess og galla. Alls brugðust níu skólastjórar við þessu erindi mínu og sex þeirra sendu mér all ítarleg svör (sjá hér á eftir). Fyrirfram átti ég vissulega von á því að fá langa lista yfir bæði kosti og galla. Niðurstaðan varð önnur, þ.e. að kostirnir reyndust miklu fleiri en gallarnir. Þessi niðurstaða var svo afgerandi að ég ákvað að skrifa þessa grein. Ég giska á að svipuð mál verði í deiglunni í fleiri sveitarfélögum og því gagnlegt að halda öllum rökum til haga. Fyrir fámennt sveitarfélag er skynsamlegt, bæði af rekstrarlegum og faglegum ástæðum, að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu, sé þess kostur. Margt bendir líka til þess að ávinningurinn af þessu fyrirkomulagi sé mestur þegar bæði stigin lúta sömu stjórn.
Auk þess að leita álits skólastjóranna rak á fjörur mínar tvær lokaritgerðir þar sem höfundar höfðu ráðist í athuganir á samrekstri leik- og grunnskóla. Hilmar Björgvinsson (2013) ræddi við tíu starfsmenn og stjórnendur í tveimur samreknum leik- og grunnskólum. Annar skólinn var í fjölmennu sveitarfélagi, hinn í fámennu sveitarfélagi. María Pálmadóttir (2015) skoðaði þrjá samrekna leik- og grunnskóla og ræddi við 13 viðmælendur. Niðurstöður rannsóknanna eru mjög á einn veg.
Allir viðmælendur Hilmars (2013) reyndust mjög hlynntir samrekstri leik- og grunnskóla og sáu ýmsan ávinning með rekstri slíkra skóla. Markviss samvinna fimm ára leikskólanemenda og sex ára grunnskólanemenda stuðlaði að samfellu í námi þeirra og var þá auðveldara að færast á milli skólastiga. Mat viðmælenda Hilmars var að menning samreknu skólanna einkenndist af jákvæðni, virðingu, vináttu og miklu samstarfi nemenda, starfsmanna og foreldra. Starfsmannahópurinn varð öflugri þar sem fleiri komu saman með ólíka reynslu, menntun og færni. Fjárhagslegur ávinningur var einhver og þá sérstaklega ef skólinn er í einni byggingu þar sem hægt er að samnýta alla aðstöðu. Hindranir fólust einkum í ólíkum kjarasamningum starfsmanna og eins ef skólinn var í fleiri en einni byggingu.
Viðhorf viðmælenda Maríu Pálmadóttur (2015) til samrekstrar reyndust einnig jákvæð. Helstu kostir voru: Betri nýting húsnæðis, aukin hagkvæmni, betri nýting upplýsinga milli skólastiganna, meiri samfella í námi, styttri boðleiðir, aukin þekking starfsfólks á því skólastigi sem fer á undan og á eftir og einfaldari samskipti foreldra við skólakerfið. Ókostir samrekstrar fólust að mati viðmælenda hennar einkum í ólíkum kjarasamningum og ólíkum starfstíma leik- og grunnskólakennara. Þá gætti tortryggni milli leik- og grunnskólakennara sem engu að síður mætti draga úr með aukinni samvinnu fagstéttanna. María birtir í grein sinni SVÓT-greiningu á samrekstri, sjá töflur neðst í þessari grein.
Mat þeirra skólastjórnenda sem ég hafði samband við reyndist mjög í samræmi við niðurstöður þeirra Hilmars og Maríu.
Jóna Björg Jónsdóttir (tölvupóstur, 8. nóvember, 2017), skólastjóri Kerhólsskóla í Grímsnesi svaraði erindi mínu með því að senda mér töflu yfir helstu kosti og galla þess að hafa leikskóla og grunnskóla í sömu byggingu (sjá Töflu 1).
Tafla 1 Kostir og gallar þess að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu að mati Jónu Bjargar Jónsdóttur, skólastjóra Kerhólsskóla í Grímsnesi, en skólastigin þar eru samrekin.
KOSTIR |
GALLAR |
|
|
Þegar vel er að gáð má sjá að Jóna tilgreinir alls 14 kosti við að hafa leik- og grunnskóla saman. Gallarnir eru í raun aðeins þrír að hennar dómi, þ.e. ólíkir kjarasamningar, skortur á gagnkvæmum skilningi milli skólastiganna og hugsanleg truflun á hvíldartíma litlu barnanna. Öll þessi atriði er væntanlega hægt að leysa. Eftir standa yfirgnæfandi faglegir kostir og betra faglegt starf.
Þess má geta að Jóna Björg er leikskólakennari að mennt. Elfa Birkisdóttir, skólastjóri Bláskógaskóla á Laugarvatni, er einnig með leikskólakennaramenntun og á Laugarvatni eru leik- og grunnskóli einnig samreknir. Elfa sendi mér ítarlegt svar við spurningu minni um kosti og galla samrekstrar (Elfa Birkisdóttir, tölvupóstur, 5. nóvember 2017). Mat Elfu er að kostirnir …
… séu ótvírætt fleiri en ókostir“ … Við getum nýtt sömu rými til kennslu ef þarf. Verk og listmenntastofur eru leikskólans af og til og elsti árgangur leikskólans fer í smiðjutíma með 1. og 2. bekk tvisvar í viku. Einnig kemur grunnskólinn, 1.‒3. bekkur eina kennslustund í viku í leikskólann þar sem þau leiðbeina og fá að njóta sín í frjálsum leik, spila eða fá í raun að hverfa aftur í tímann og rifja upp tengsl við leikskólann. Mjög vel hefur líka gefist að hafa skipulagðar stundir grunnskólanemenda í leikskólanum og í raun betur en okkur óraði fyrir en slíkt starf höfum við verið að þróa undanfarin tvö ár.
Þá leggur Elfa áherslu á að sér þyki sem leikskólakennara …
… vera mörg tækifæri í því að horfa til valdeflingar leikskólakennara með því að stuðla að frekari samskiptum kennara á leik og grunnskólastigi. Það hafa verið búin til teymi sem vinna saman í hringekju á skilum leik- og grunnskóla og einnig er einn kennari á leikskólastigi með í útikennsluteymi skólans þar sem vinna þeir kennarar sem koma að þróun útináms við skólann. Við erum að reyna að brjóta niður múrana sem liggja á milli þessarar tveggja skólastiga og í leiðinni að horfa til að leikskólastigið sé alltaf jafn mikilvægt og grunnskólastigið ef ekki mikilvægara …
Elfa telur að stærsti kosturinn við samreksturinn sé samfellan í námi barnanna. Ókostina telur hún, líkt og Jóna Björg, liggja í ólíkum kjarasamningum og segir m.a. um þetta að það sé „í raun óþolandi að við séum ekki komin nær hvort öðru þar, þ.e. leik- og grunnskólastigið. Ég trúi því að það sé ekki langt í að það lagist.“
Á Súðavík á samstarf leik- og grunnskóla sér langa sögu, en skólastigin þar eru nú samrekin í sömu byggingu. Anna Lind Ragnarsdóttir (tölvupóstur, 6., 7. og 8. nóvember 2017), skólastjóri Súðavíkurskóla, sagðist nánast eingöngu sjá kosti við þessa skipan:
Við erum með samkennslu 5 ára nemenda með 1.‒4. bekk eða með yngsta stigi. Þá erum við einnig með allar uppákomur sameiginlegar eins og í stærri viðburðum, t.d. þorrablót, árshátíð, jólagrín o.s.frv. Einnig í samsöng á sal, gróðursetningu, skólagörðum, norræna skólahlaupinu o.s.frv. og alltaf eru allir með, eins árs til 16 ára. J Starfsmenn leikskólans hafa aðgang að öllum skólastofum sem eru lausar hverju sinni, t.d. ef það á að vera myndmennt hjá leikskólanemendum og laus myndmenntastofa grunnskólann, þá er farið þangað og sú stofa notuð. Allt notað sem hægt er og hjálpar. Einnig er stutt fyrir unglingstigið okkar að leysa af í leikskólanum þegar á þarf að halda, en ég er að hugsa um að bjóða unglingunum upp á það sem val næsta vetur, að fara inn á leikskóla og vinna.
Sama á við um öll gögn, tól og tæki, allt samnýtt. Starfsmannafundir eru sameiginlegir hálfsmánaðarlega, tveir sameiginlegir starfsmannadagar á skólaárinu, og ekki gleyma starfsmannagleðinni eða partýunum.
Allt þetta gerist og getur gerst af því að það er sameiginlegt húsnæði. Virkar vel (betur) til þess að láta alla stefna í sömu átt, sameiginlega!
Aðspurð um ókostina nefndi Anna Lind eins og þær Jóna Björg og Elfa, kjarasamningana, sem og vandkvæði við að ná starfsfólki á báðum stigum saman á fundi. Eins taldi hún að ekki væri nægilega vel komið til móts við stjórnendur samrekinna skóla. Í seinna svari sínu áréttar Anna Lind kostina og segir það „snilld að sameina … ég fer aldrei ofan af því, ef fólk er almennt tilbúið til þess þá er ekki það ekki spurning í mínum huga“.
Ingveldur Eiríksdóttir (tölvupóstur, 10. nóvember, 2017) er skólastjóri Laugargerðisskóla, sem er lítill sveitaskóli í Eyja- og Miklaholtshreppi, segir kosti þess að hafa leik- og grunnskóla saman ótvíræða, en þessir séu helstir:
- Samfella leik og grunnskóla verður ,,alger“ og nemendur koma vel undirbúnir í 1. bekkinn og starfsfólk grunnskóladeildar þekkir stöðu þeirra vel. Samfella er góð í námi þeirra og kennslu og nemendur virðast vera öruggir þegar þeir færast á milli.
- Sérfræðiþjónusta er sameiginleg og ýmislegt er gott við að svo sé, t.d. sparast tími, auðveldara er að sæta lagi og aðgangur að starfsfólki skólans er auðveldari á einum stað en tveimur.
- Það styrkir jafnframt smærri skólana að starfsfólk vinni saman og njóti samvista sem og aðstöðunnar.
- Nemendur nýta sama mötuneyti og borða allir saman.
- Nemendur eru 1x á dag allir saman úti í frímínútum og nýtast þá starfsmenn sem eru í gæslu f. báða hópana. Eldri nemendur leika við þá yngri og öfugt.
- Nemendur leikskóladeildar og 1.–4. bekkur eru saman úti í lok dags og gengur það mjög vel.
- Nemendur nýta allir sama bókasafnið og stutt er fyrir alla að fara þangað. Starfsmaður nýtist báðum deildum.
- Nemendur leikskóla eru með í ýmsum verkefnum grunnskóladeildarinnar og yngsta deildin fer einnig í leikskólann og sýnir verk sín, les og syngur.
- Allir nemendur koma fram saman á tónlistardögum og skemmtunum. Tónlistarkennsla nýtist í báðum deildum.
- 4 – 6 ára nemendur fara 1 klst. á viku saman í íþróttir.
- Aðstaða grunnskóladeildar nýtist vel þegar létta þarf á leikskólanum, eða hópavinna krefst þess. Starfsmenn og kennara grunnskóladeildar taka til sín nemendur leikskóladeildar í vinnu ýmiskonar og hópastarf. Efniskaup til myndlistar og hönnunarvinnu ýmiskonar eru einföld og efni og þekking nýtist betur. Augljóst er að öll kennslurými standa leikskólanum til boða og eru nýtt. Skólalóðin er sameiginleg.
- Foreldrafélag er sameiginlegt.
- Skólabílar aka leikskólabörnum í leikskólann sé þess óskað.
Í Reykhólaskóla er samrekinn leik- og grunnskóli. Valgeir Jens Guðmundsson skólastjóri tekur í sama streng og hinir skólastjórarnir og segist ekkert sjá …
… nema jákvætt við það að hafa þetta fyrirkomulag. Það auðveldar skipulag og samvinnu og þá sérstaklega umskiptin úr leikskóla yfir í grunnskóla … . Leikskólakrakkarnir eru fljótari að aðlagast heldur en aðkomukrakkar sem koma í skólann og það er meiri samhugur í grunnskólanemendum gagnvart leikskólanum þar sem hann er innan veggja skólans.
Einn gallinn sem Valgeir nefnir í svari sínu er að stundum valdi það óþægindum þegar foreldrar leikskólabarna vinni í grunnskólanum. Það geti verið erfitt vegna nálægðarinnar.
Samrekstur leik- og grunnskóla eða það fyrirkomulag að hafa þá í sömu byggingu, undir aðskilinni stjórn, er ekki bundið við skóla í fámennum sveitarfélögum. Nefna má að í Norðlingskóla í Reykjavík er leik- og grunnskóli í sömu byggingu og hið sama gildir um Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Í báðum tilvikum eru stjórn skólanna aðskilin. Aðspurður um kosti þess og galla að hafa þessa skipan sagði Lars Imsland (tölvupóstur, 9. nóvember 2017) skólastjóri Hraunvallaskóla: „Fleiri kostir. Enginn vafi. Mörg vannýtt tækifæri hjá okkur. Ætlum að skoða það saman á næsta ári.“ Enn má nefna að Garðbæingar hafa ákveðið að hafa nýjan skóla sinn, Urriðaholtsskóla, fyrir nemendur á aldrinum eins til sextán ára.
Mosfellsbær hefur líklega gengið lengst fjölmennu sveitarfélaganna í samskipan leik- og grunnskóla. Krikaskóli er samrekinn fyrir tveggja til níu ára börn og nýjasti skólinn, Helgafellsskóli, verður samrekinn fyrir fyrir bæði stiginn upp í 10. bekk.
Ég sendi Þrúði Hjelm, skólastjóra Krikaskóla þessa sömu spurningu um kosti og þess og galla að samreka leik- og grunnskóla. Svör hennar (tölvupóstur, 15. nóvember 2917) voru mjög eindregin og ég leyfi mér að gera þau að lokaorðum ásamt því að lýsa von minni um að þessi samskipan verði rannsökuð betur:
Stærsti kosturinn er samfella í nám og líf barnanna. Hvernig hægt er að gera þeirra yfirfærslu milli skólastiga eins „þægilega“ og hægt er. Ef það er samfella í náminu ‒ í aðferðum og leiðum þá leiðir það til öruggari barna og betri árangurs. Samfella nýtist einnig þar sem ekki þarf að „uppgötva“ ákveðin börn í 1. bekk ‒ við þekkjum þau vel og getum komið til móts við þau. Börnin eru einnig á „heimavelli“ þekkja allt starfsfólk skólans vel ‒ hafa aðgengi að mörgum einstaklingum sem þau geta leitað til ‒ námslega og persónulega. Sama á reyndar við um foreldrahópinn.
Annar stór kostur eru aðstæður ‒ húsnæði sem býður upp á öll tækifæri grunnskólans og allt leikefni leikskólans. Gott útileiksvæði sem nýtist öllum aldurshópum. Sandkassi ‒ sleðabrekkur og rassaþotur fyrir alla aldurshópa skólans sem dæmi. List – og verkgreinakennsla sem samnýtir mannauð og aðstæður. Íþróttaaðstaða og kennsla sem nýtist öllum börnum. Útikennsla sem er sérgrein í leikskólastarfi sem nýtist öllum börnum. Þannig mætti lengi telja.
Þriðji kosturinn sem ég vil nefna er mannauður. Þegar við erum með leik- og grunnskólakennara í nánu samtali lærum við hvert af öðru. Við sjáum nýjar lausnir og leiðir ‒ við fáum fleiri sjónarhorn á málin og getum brugðist fljótt við. Fundir eru haldnir, t.d. um samræmt próf í 4. bekk með öllum kennurum skólans. Þar koma fram ákveðnir styrkleikar og veikleikar í starfi skólans sem gott er fyrir alla aldurshópa að vita. Við höfum lengi séð styrk í, t.d. reikniaðgerðum og þar teljum við okkur vera að vinna markvissa vinnu með þrautir og þrautalausnir barna frá 4ra ára aldri. Við sáum einnig eitt árið að við þurftum að vinna meira með rúmfræði og höfum tekið það markvisst fyrir ‒ frá leikskóla til grunnskóla.

Tafla 2 Samrekstur leik- og grunnskóla: Styrkleikar og veikleikar. Taflan er úr ritgerð Maríu Pálmadóttur (2015).
Tafla 3 Samrekstur leik- og grunnskóla: Ógnanir og tækifæri. Taflan er úr ritgerð Maríu Pálmadóttur (2015).
Heimildir
Hilmar Björgvinsson. (2013). „Það græða allir“: viðhorf starfsmanna tveggja skóla til samreksturs leik- og grunnskóla (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík. Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/16884/1/Hilmar%20Bj%C3%B6rgvinsson.pdf
María Pálmadóttir. (2015). Samrekstur leik- og grunnskóla: Verkefnamat (óútgefið lokaverkefni til MPA-gráðu). Háskóli Íslands, Reykjavík. Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/20278/1/María%20Pálmadóttir.pdf
Höfundur er prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi. Hann þakkar skólastjórunum sem lögðu af mörkum til greinarinnar.