Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Ég og bærinn minn – verkefni í Salaskóla

í Greinar

Hrafnhildur Georgsdóttir

 

Ég og bærinn minn er þróunarverkefni sem unnið var í Salaskóla síðastliðinn vetur. Verkefnið var unnið á miðstigi og tóku um 200 nemendur þátt í því. Verkefnisstjórar voru Hrafnhildur Georgsdóttir og Þorvaldur Hermannsson kennarar við skólann. Hafsteinn Karlsson skólastjóri var þeim innan handar í ferlinu.

Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði í ferð sem verkefnisstjórarnir fóru í til Finnlands ásamt skólastjóra og fleiri kennurum Salaskóla í febrúar 2016. Þar sáum við mjög áhugaverða útfærslu á verkefnum í frumkvöðla- og fjármálafræðum. Við hrifumst af þeim og ákváðum að búa til verkefni í svipuðum dúr. Við lögðumst í mikla vinnu við að búa til námsefni og skipulag sem byggðist að einhverju leyti á því sem við sáum í Finnlandi en svo að mestu á okkar reynslu og þekkingu og ekki síst íslenskum aðstæðum. Markmið verkefnisins voru m.a. efla frumkvöðlahugsun og nýsköpun hjá nemendum, hjálpa þeim að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum, hvetja þá til að vera óhræddir að hrinda hugmyndum í framkvæmd, efla þekkingu þeirra og skilning á fjármálum, atvinnulífi, stofnunum í samfélaginu og lýðræði.

Verkefnið var skipt í þrjá hluta; smiðjur, þematíma og dag í „Bænum okkar“.

Smiðjur voru kenndar tvisvar í viku á miðstigi í 5.-7. bekk allan veturinn. Alls voru um tvöhundruð nemendur sem fengu kennslu í smiðjunum. Í hverjum námshópi voru tólf nemendur og hver hópur vann ýmis verkefni í 6 vikur.  Verkefnin í smiðjunum voru margskonar, öll tengd nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Nemendur bjuggu til sínar eigin afurðir og uppfinningar, farið var í ferlið frá hugmynd að tilbúinni afurð, spjaldtölvur voru nýttar og ýmis smáforrit.  Við fengum einnig heimsóknir m.a frá Team Spark frá Háskóla Íslands, horfðum á ýmis myndbönd tengd nýsköpun og fleira. Verkefnisstjórarnir unnu námsefnið sjálfir og kenndu smiðjurnar.

Í Salaskóla eru nemendur á miðstigi og unglingastigi með fjórar kennslustundir í þemavinnu í hverri viku. Við nýttum þematímana í 6. og 7. bekk í þema um fjármál og atvinnulíf að vori í fjórar vikur. Þar lærðu þeir ýmislegt um fyrirtæki, störf og þjónustu af ýmsu tagi, efnahagsmál, atvinnumál, lýðræði, banka, peninga, mismunandi störf, menntun og fleira. Þeir fóru í gegnum námsefni sem verkefnisstjórarnir sömdu og bjuggu til sérstaklega fyrir þetta verkefni. Verkefnaheftið var um 30 blaðsíður og var það kennt af umsjónarkennurum bekkjanna. Þetta var mikilvægur undirbúningur fyrir dag í “Bænum okkar” og endaði þematímabilið á því að nemendur fylltu út starfsumsókn og sóttu um starf sem þeir höfðu mestan áhuga á í “Bænum okkar”.

Í framhaldi af þemanu var sett upp heilt bæjarfélag, „Bærinn minn”,  í hátíðarsal skólans og fengu nemendur í 6. og 7. bekk, eða um 120 nemendur, að sinna ákveðnum störfum í einn dag. Verkefnisstjórarnir settu bæinn upp og var mikil eftirvænting hjá nemendum að fá loks að sjá bæinn og fá að kynnast honum í einn dag. 16 fyrirtæki voru starfandi í þessu bæjarfélagi með 33 mismunandi störfum. Skilrúmum/básum var komið fyrir þannig að hvert fyrirtæki hafði sitt rými. Áður höfðu nemendur sótt um þau störf sem þeir óskuðu helst eftir. Vinna þurfti eftir ítarlegri starfslýsingu og ljúka ýmsum verkefnum, fara jafnvel til „læknis“, á kaffihús, „klippingu” eða á kjörstað, auk þess að vera almennur þátttakandi í samfélaginu þennan dag. Nemendur höfðu peninga til umráða yfir daginn, gátu keypt sér vörur og þjónustu eins og bakkelsi í bakaríinu eða drykki í matvörubúðinni. Einnig þurfti að greiða skatt og nota þar með hluta peninganna í það og gæta þess að eiga peninga ef um óvænt útgjöld yrði að ræða.

Þegar líða fór nær deginum í „Bænum okkar“ leyndi eftirvænting nemenda sér ekki. Þeir biðu spenntir eftir að fá að búa og starfa í bænum og eins og kemur vel fram í heimildamyndinni sem fylgir þessari grein var dagurinn í bænum var frábær. Þar fengu nemendur að blómstra. Þeir þurftu að fylgja starfsáætluninni sinni, sýna sjálfstæði og samvinnu. Þennan dag fengu þeir tækifæri á að spreyta sig í litlu samfélagi og sinna starfi við eins raunverulegar aðstæður og hægt var. Bakarar voru til dæmis að baka vöfflur, búa til kókoskúlur, raða brauði og bakkelsi í hillur sem komu frá Reyni bakara. Það þurfti að afgreiða, halda bakaríinu snyrtilegu og passa uppá að allt væri í lagi. Bæjarstjórinn vann m.a. að skipulagsmálum í hverfinu og hitti fólk á fundum til að ræða ákveðin málefni og sendibílstjórinn kom vörum og sendingum í fyrirtækin, starfsmenn Nettó röðuðu vörum í hillur, fylgdust með lager, afgreiddu í verslun svo eitthvað sé nefnt. Börnin tóku virkan þátt í verkefninu, tóku hlutverkum sínum alvarlega, framkvæmdu þau með sóma og tóku þátt í samfélaginu af virðingu og ábyrgð.

Í þessu verkefni vorum við í samstarfi við fjölda fyrirtækja sem veittu okkur aðstoð með ýmsum hætti og einnig lögðu foreldrar okkur lið. Stuðningur fyrirtækja fólst í að útvega okkur ýmsa muni í fyrirtækin og vörur og einnig hlupu þau undir bagga varðandi kostnað við að leigja búnað sem notaður var í að setja upp bæinn. Mikið líf var í „Bænum okkar“ þessa viku í maí og komu margir í heimsókn til okkar að skoða þegar bærinn var fullur af lífi og nemendur að vinna. Við fengum góða gesti, m.a. kom bæjarstjóri Kópavogs, fulltrúar úr bæjarstjórn, fulltrúar í menntaráði, starfmenn Kópavogsbæjar og fjölmiðlar.

Markmiðin náðust að okkar dómi og vel það. Nemendur voru mjög áhugasamir í öllum hlutum verkefnisins. Þeir unnu vel saman, fengu að hrinda í framkvæmd hugmyndum og nýjum uppfinningum, fengu innsýn í alvöru verkefni í þeim anda sem þau sjálf voru að vinna og hvatningu frá nemendum Háskóla Íslands við að hrinda hugmyndum í framkvæmd, prófa sig áfram og gefast ekki upp. Þemað, sem nemendur fengust við, um fjármál, samfélag, mismunandi störf og menntun og lýðræði gaf nemendum betri skilning á fjármálum, námi og því hvernig samfélag virkar og var mikilvægur undirbúningur undir dag í „Bænum okkar“. Dagurinn sjálfur var ekki bara óvenjulegur og skemmtilegur, heldur fróðlegur, áhugaverður og eftirminnilegur. Margar spurningar vöknuðu hjá nemendum um fjármál, peninga, lýðræði og samfélag og umræður urðu bæði í skólanum og heima, m.a. um laun fyrir mismunandi störf, skuldir og greiðslu skatta. Við teljum okkar hafa náð mun fleiri markmiðum þegar upp var staðið en við lögðum af stað með og það besta var líklega hversu glaðir, spenntir og áhugasamir nemendur voru í þessu verkefni.

Verkefnið var nokkuð kostnaðarsamt en við fengum styrk frá Sprotasjóði í upphafi og svo lögðu mörg fyrirtæki okkur lið, bæði með fjárstuðningi og ýmsum búnaði sem þurfti.

Við gerðum kvikmynd um síðasta hluta verkefnisins og hvetjum alla til að horfa á hana. Hún segir meira en mörg orð:

Við munum halda áfram með þetta verkefni og draumur okkar er að fleiri skólar geti notið góðs af þeirri vinnu sem við höfum lagt í þetta. T.d. gætu margir skólar sameinast um að setja upp bæ eins og við gerðum og sent nemendur sína í hann einn dag, en talsverður kostnaður felst í því verkefni. Í Finnlandi var slík miðstöð rekin í samstarfi sveitarfélaga og atvinnulífsins. Það væri öflugur stuðningur við þetta mikilvæga verkefni ef sömu aðilar hér á Íslandi kæmu að verkefni að þessu tagi.


Hrafnhildur Georgsdóttir er kennari í Salaskóla í Kópavogi. Hún er með BEd próf með áherslu á myndlist en auk þess hefur hún lokið diplómaprófi í markaðsfræðum frá Berkley háskólanum í Bandaríkjunum. Hún var, ásamt Þorvaldi Hermannssyni, verkefnisstjóri þróunarverkefninsins „Ég og bærinn minn“ sem unnið var í Salaskóla skólaárið 2016-2017.

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp