Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að hugsa út fyrir rammann: Áhugasviðsverkefni á unglingastigi í Borgarhólsskóla

í Greinar

Halla Rún Tryggvadóttir og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, kennarar við Borgarhólsskóla á Húsavík

 


Hér er sagt frá áhugasviðsverkefnum sem nemendur á unglingastigi í Borgarhólsskóla á Húsavík fá tækifæri til að glíma við. Þessi verkefni hafa vakið athygli út fyrir skólann og orðið öðrum hvatning til að fara inn á svipaðar brautir. Athygli er vakin á því að í greininni eru hlekkir sem vísa á ýmis gögn sem kennararnir hafa þróað (námssamnings- og dagbókarform, verklýsingar og matsblöð).

Borgarhólsskóli er grunnskóli með um 300 nemendur. Á unglingastigi eru um 90 nemendur í 8.10. bekk og taka allir unglingarnir þátt áhugasviðsverkefnunum, ásamt nokkrum kennurum.

Hugmyndin að þessum verkefnum varð til eftir heimsóknir kennara Borgarhólsskóla til Reykjavíkur árið 2010. Segja má að hugmyndin sé soðin saman úr mörgum sem fengnar voru í þessum heimsóknum. Markmiðið er að fá nemendur til að taka meiri ábyrgð á eigin námi, vinna sjálfstætt og um leið að gera námið áhugaverðara. Árið 2011 hlaut Borgarhólsskóli styrk frá Sprotasjóði til að þróa og vinna að verkefni sem nefnt var Að færa út landamæri getu sinnar og þekkingar og var styrkurinn m.a. notaður til að þróa vinnubrögð í kringum áhugasviðsverkefnið.

Verkefnið er hugsað í þremur lotum:

  • Kveikja – kennarar kynna áhugasvið sín
  • Nýsköpun – vinnulota nemenda
  • Opið verkefni – vinnulota nemenda

Kveikjan er framkvæmd þannig að þeir kennarar sem tengjast áhugasviðsverkefnunum hverju sinni undirbúa kynningu á áhugamáli sínu og kynna fyrir nemendum. Kveikjan er í hringekjuformi. Áhugamál kennara eru fjölbreytt. Nefna má björgunarsveitarstarf, zumba-dans, spilið Kubb, Eurovision, drauga, Star Wars, pílukast, leiklist og skutlugerð.

Í þessum fyrsta hluta áhugasviðsverkefnisins er nemendum unglingastigs skipt í jafn marga hópa og kennararnir eru, yfirleitt fimm til sex hópar, þvert á stigið. Hver kennari hittir hvern hóp í klukkustund einu sinni í viku og segir frá áhugamáli sínu og leyfir nemendum jafnvel að prófa, ef áhugamálið er þess eðlis. Markmiðið er að hrista hópinn saman því nemendur mega vinna að hinum hlutum áhugasviðsverkefnisins þvert á stigið. Markmiðið með kveikjunni er einnig að gefa nemendum mismunandi hugmyndir fyrir framhaldið. Nemendur meta hverja stöð eftir hvern tíma (sjá hér).

Kveikjan er alltaf fyrsti hluti áhugasviðsverkefnisins og byrjar strax og skóli hefst að hausti.

zumba
Zumbadans undir stjórn kennara.

Í nýsköpunarhlutanum fá nemendur ákveðið verkefni eða þema til að hafa til hliðsjónar. Nemendur geta fengið frjálsar hendur og unnið út frá þema eða þá að afurðin er ákveðin fyrirfram en leiðin að henni og útlit hennar er undir þeim komin.

Fyrsta þemað var forvarnir eða fordómar. Nemendur völdu sér svið og í boði var myndvinnsla, hljóðvinnsla eða hönnun. Þeir máttu velja sér viðfangsefni til að kynna og áttu allir að setja upp kynningarbás fyrir verkefnið sitt.

Dæmi um viðfangsefni voru kynþáttafordómar, heilbrigður lífsstíll og skaðsemi reykinga. Skólinn bauð foreldrum og öðrum nemendum að koma og skoða afraksturinn. Mjög fjölbreytt vinna fór af stað og voru gerð myndbönd, lög, púsl, veggspjöld, bæklingar, húðmaski og fleira.

pusl

hudin
Púsl og húðvörur

Næsta verkefni var að hanna stól. Nemendur höfðu þá unnið ýmsar æfingar í litlum hópum úr heftinu Nýsköpunarmennt – æfingar sem Námsgagnastofnun gefur út.

Í upphafi var unnið út frá starfsheiti og tveimur lýsingarorðum sem nemendur drógu og stóllinn hannaður með hliðsjón af þeim. Sem dæmi má nefna að ef nemendur drógu orðin sjómaður, sætur og latur þurfti stóllinn að endurspegla þessi orð.

Nemendur þurftu að gera skissur af stólnum sínum og skila svo einni sem var í réttum hlutföllum. Eitt af skilyrðum hönnunarinnar var að stóllinn ætti að vera úr endurunnum efnum (nánari lýsingu á þessu verkefni má lesa hér). Aftur voru settir upp kynningarbásar og foreldrum boðið að koma og skoða. Einnig mætti dómnefnd á svæðið til að meta stólana með hliðsjón af matsblaði sem við höfðum útbúið, sjá hér.

stollÞriðja verkefnið í þessum hluta var skólablað. Nemendum stóð til boða að vinna á eftirfarandi sviðum: Með skapandi skrifum, ljósmyndun, uppsetningu og hönnun. Nemendum var skipt í þrjá hópa og hver hópur gaf út sitt blað. Einnig fengu nemendur viðeigandi fræðslu. Ljósmyndari kom og ræddi við þá og kenndi þeim ýmislegt um myndatöku og myndvinnslu. Nemendur sem völdu skapandi skrif fengu fræðslu frá rithöfundi og fréttamanni og nemendur sem völdu uppsetningu og hönnun fengu leiðbeiningar hjá arkitekt og hönnuði sem sér um að setja upp fréttablað. Í lokin var haldið útgáfuteiti og mat á vinnu við skólablaðið var bæði kennura og svo sjálfsmat nemenda.

baeklingar kassabill uppskriftabaeklingar jolabaekur

Opna verkefnið er síðasti hluti áhugasviðsverkefnisins en þá velja nemendur sér verkefni með tilliti til áhuga síns. Gerð er vinnuáætlun fyrir fyrir hvert verkefni sem undirrituð er af kennara (sjá eyðublað hér).

Mikið frelsi er um val á viðfangsefni. Nemendur raða sér í hópa, einn til fjórir nemendur eru í hverjum hópi. Nemendur ákveða sjálfir hvernig þeir vinna verkefnið og í hvaða formi þeir skila því. Dæmi um verkefni sem nemendur hafa valið: Kardashian fjölskyldan, fluguveiði, frjálsar íþróttir, sælgætisuppskriftir, tímarit, þjóðbúningar, skjaldbökur og uppskriftabók.

Í lokin eru kynningar á verkefnum nemenda á sal. Þar mæta nemendur og hlýða á kynningar skólafélaga sinna. Eins hefur foreldrum verið boðið að koma og hlusta á kynningarnar. Þær hafa verið með ýmsu sniði: Glærukynningar, lög og kvikmyndir svo dæmi séu tekin.

Verkefnið hefur ýmist verið á stundatöflum nemenda eða tekið fyrir í heilan dag. Á stundatöflum hefur það verið ein klukkustund á viku. Nemendur hitta þá kennarann sinn og segja frá hvar verkefnið er statt þann daginn. Ef verkefnið er þess eðlis að nemendur þurfa að fara út af örkinni og afla sér upplýsinga eða vinna á einhvern annan hátt fyrir utan skólann þá er þeim treyst til þess. Nemendur verða að láta kennara vita hvert á að fara og hvað þeir ætla að gera. Kennari gengur úr skugga um það í næsta tíma að nemendur hafi unnið það sem skipulagt var í tímanum á undan.

Hver nemandi eða hópur skrifar reglulega í leiðarbók sem kennarinn fylgir eftir. Þar er allt skrifað sem gert er í hverjum tíma og hvernig verkefnið og vinnan gengur. Allar hugmyndir skulu skráðar niður í leiðarbókina.

Nemendur eru með safnmöppu fyrir áhugasviðsverkefnið og þangað fara öll skjöl og öll vinna sem unnin er. Kennari skoðar safnmöppuna að verkefninu loknu.

Matið byggist á leiðarbók, kynningu, sjálfsmati og frammistöðumati kennara.

Hver er ávinningurinn?

Mat okkar er að þessi verkefni skili góðum árangri. Nemendur eru almennt skipulagðari og taka meiri ábyrgð á náminu. Þeir gera fjölbreyttari verkefni sem fær þá til að hugsa aðeins út fyrir rammann. Þeir fá tækifæri til að vinna með nemendum úr öðrum bekkjum, kynnast því bæði sér eldri nemendum eða yngri. Skólinn er ekki fjölmennur en samt hafa nemendur áttað sig á því, í gegnum áhugasviðsverkefnið, að aðrir í skólanum geta átt sömu áhugamál og þeir. Þannig hafa skapast ný vináttusambönd sem halda enn mörgum árum síðar.

Ávinningur verkefnisins er líka fólgin í því að það setur líka þrýsting á kennara í bóknámsgreinum að gera kennsluna fjölbreyttari, sem og námsmatið. Hér má nefna að matslistarnir sem gerðir voru fyrir þetta verkefni hafa einnig notaðir í öðrum greinum.

Eins og lesendum er væntanlega ljóst er auðvelt að færa rök fyrir viðfangsefnum af þessu tagi með því að vísa í aðalnámskrá. Verkefnin tengjast lykilhæfni, t.d. tjáningu, skapandi hugsun, vinnu með ólíka miðla, samvinnu og ábyrgð á eigin námi. Líklega er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að verkefni af þessu tagi ættu að skipa enn stærri sess í námi en nú er.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp