Skynreiða að leiðarljósi í námi barna
Anna Sofia Wahlström, Hildur Vilhelmsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir
Hver einasta mannvera uppgötvar heiminn í gegnum skynfæri. Í Gefnarborg leitum við leiða til að viðhalda þessari eðlislægu leið barna til að læra og þroskast. Við leggjum áherslu á að vinna með skilningarvitin fimm: heyrn, sjón, lykt, bragð og snertingu, ásamt jafnvægisskyni, líkamsstöðuskyni og líffæraskyni. Hugtakið „skynreiða“ vísar til úrvinnslu, samþættingar og skipulags skynupplýsinga frá líkamanum og umhverfinu. Með öðrum orðum: Hvernig við upplifum, túlkum og bregðumst við upplýsingum sem koma frá skynfærum okkar. Skynreiða þroskast samhliða eðlilegum þroska hjá börnum, þegar börn byrja að velta sér, skríða, ganga og leika. Skynreiða er mikilvæg í öllu því sem við gerum daglega.
Í leikskólanum Gefnarborg eru margir kennarar og starfsfólk með langa og víðtæka reynslu af starfi með börnum. Við upplifum að þrátt fyrir reynslu okkar höfum við ekki verið nægjanlega meðvituð um þann möguleika að vinna með skynjun í leikskólastarfi á skipulagðan hátt. Skynjun fer fram án þess að við gefum því sérstakan gaum alla daga, ótal sinnum á dag. Ljóst er að allt frá fæðingu nýta börn skynfærin og skynjun til að áskapa sér þekkingu og skilning. Svo virðist sem við höfum haft tilhneigingu til að „gleyma“ að nýta okkur þessa eðlislægu aðferð barna til náms og förum ósjálfrátt að leggja meiri áherslu á talað mál. Þegar við kynntumst hugtakinu skynreiða og þeim fræðum sem að baki búa fundum við að þar var komin aðferð sem við gátum nýtt okkur til þróa leikskólastarfið.