Greinar - Page 17

Skólaumbætur í deiglu – efni frá ráðstefnu um áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar 1966-1996

27. febrúar, 2019

Þann 12. maí 2018 var haldið í Veröld – húsi Vigdísar málþing sem var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966-1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Skólarannsóknadeildin var sett á laggirnar 1966 (hét fyrst Skólarannsóknir, þá Skólarannsóknadeild og síðar Skólaþróunardeild). Hún fékk fljótlega það verkefni að annast heildarendurskoðun náms og kennslu í grunnskólum og var þetta verkefni eitt umfangsmesta skólaþróunarverkefni sem í hefur verið ráðist hér á landi. Fjöldi sérfræðinga kom að starfinu, námstjórar, námsefnishöfundar og ráðgjafar. Auk námsefnisgerðar unnu starfsmenn að námskrárgerð, viðamikilli endurmenntun í samstarfi við Kennaraháskólann og útgáfu handbóka og leiðbeininga, auk þess að heimsækja skóla til ráðgjafar og eftirlits. Talsverðar deilur urðu þegar á leið um sumt í þessu starfi, t.d. um námsefni í samfélagsgreinum og má fræðast um þetta í bókinni Sögukennsluskammdegið – Rimman um sögukennslu og samfélagsfræði 1983–1984 sem gefin var út af Háskólaútgáfunni í ritstjórn Lofts Guttormssonar, sjá hér). (meira…)

Skólaumbætur í deiglu – inngangsorð Guðnýjar Helgu Gunnarsdóttur

27. febrúar, 2019
©Kristinn Ingvarsson
Starfsmannamyndir

Guðný Helga Gunnarsdóttir

Ég hóf minn kennsluferil á miðstigi í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og þar var mikið að gerast á þessum tíma. Þar var unnið að þróunarverkefni sem fólst í því að draga úr heimanámi nemenda og var sérstökum heimanámstímum bætt við stundaskrá allra nemenda. Einng fór fram tilraunakennsla á nýju námsefni í samfélagsfræði fyrir yngsta stig og starfaði fólk við skólann sem vann með hópi námsefnishöfunda hjá menntamálaráðuneytinu að að endurskoðun náms- og kennsluhátta í samfélagsfræði og var gjarnan kallaður samfélagsfræðihópurinn. Mikil áhersla var lögð á hópvinnu í öllum greinum og myndræna útfærslu á verkefnum nemenda. Mýrarhúsaskóli var einnig leiðandi í kennslu sex ára barna sem ekki var lögbundin þá þessum tíma og þar fór fram öflugt starf undir stjórn bæði menntaðra grunn- og leikskólakennara. Í skólanum fór einnig fram tilraunakennsla á nýju námsefni í stærðfræði. Ég kenndi meðal annars nýtt stærðfræðinámsefni eftir Agnete Bundgaard. Við þá kennslu fengum við kennarar stuðning frá námstjóra og kennsluráðgjöfum sem á sama tíma unnu að því að þróa og prófa nýtt íslenskt námsefni í stærðfræði. Á fræðslufundum sem haldnir voru reglulega hittum við líka kennara í öðrum skólum og heyrðum hvernig þeir voru að takast á við verkefnið sem mörgum fannst erfitt. Tónmenntakennari skólans tók virkan þátt í endurskoðun og gerð námsefnis í tónmennt. Einnig má geta þess að Mýrarhúsaskóli varð 100 ára 1975 og var haldin vegleg afmælishátíð af því tilefni þar sem nemendur unnu að ýmsum þematengdum verkefnum sem tengdust sögu skólahalds á Seltjarnarnesi. (meira…)

Aðlaðandi starfsumhverfi fyrir leikskólakennara

19. febrúar, 2019

Sigrún Sigurðardóttir og Ragnhildur Gunnlaugsdóttir

Í Garðabæ stendur leikskólum til boða að sækja um styrk í þróunarverkefni úr þróunarsjóði leikskóla. Markmið með sjóðnum er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi leikskólanna í bænum. Einstaka leikskólakennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við leikskóla í Garðabæ, einn leikskóli eða fleiri skólar í sameiningu geta sótt um styrk í sjóðinn. Umsóknir eru metnar af leikskólanefnd Garðabæjar með hliðsjón af tengingu verkefnis við skólastefnu Garðabæjar og skólanámskrá viðkomandi leikskóla. Auk þess er tekið mið af markmiðum verkefnisins, framkvæmdaáætlun, matsáætlun, kostnaðarmati og væntanlegum ávinningi þess fyrir skólastarf í bænum. Á síðastliðnum árum hefur átta milljónum verið úthlutað árlega úr sjóðnum til leikskóla innan sveitarfélagsins, sjá hér. (meira…)

Að ræða viðkvæm álitamál við nemendur

10. febrúar, 2019

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Menntamálastofnun hefur gefið út tvær rafrænar handbækur um viðkvæm álitamál í skólastarfi. Önnur ber yfirskriftina Viðkvæm álitamál og nemendur (Teaching Controversial Issues) og er einkum ætluð kennurum. Hin nefnist, Stjórnun á tímum ágreinings og átaka (Managing Controversy), og er handbók fyrir skólastjórnendur. Handbækurnar voru upphaflega unnar í tengslum við Aðgerðaáætlun um tilraunaverkefni um lýðræði og mannréttindi, í samvinnu við Evrópuráðið og Evrópska efnahagsbandalagið. Norræna ráðherranefndin styrkir íslensku útgáfuna. Handbókunum er ætlað að taka á þeim erfiðleikum sem upp kunna að koma þegar fjallað er um viðkvæm álitamál í skólum.

(meira…)

Látum draumana rætast

7. janúar, 2019

Fríða Bjarney Jónsdóttir

Í janúar 2017 var samþykkt einróma í borgarráði Reykjavíkur ályktun um að hefja mótun menntastefnu til ársins 2030. Vinnan hófst strax þá um vorið í víðtæku samráði fjölmarga aðila í skóla- og frístundasamfélagi borgarinnar. Gera má ráð fyrir að um 10.000 manns, börn, foreldrar, starfsfólk, stjórnendur og aðrir, hafi tekið þátt í samtali um mikilvægustu áherslur í menntun barna í borginni auk þess sem almenningur gat skilað inn hugmyndum í gegnum Betri Reykjavík. Leitað var til innlendra og erlendra ráðgjafa í ferlinu, en sú vinna var undir forystu dr. Pasi Sahlberg frá Finnlandi. (meira…)

Vinaliðaverkefnið – forvörn gegn einelti!

2. janúar, 2019

Guðjón Örn Jóhannsson

Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hefur það að markmiði að styrkja nemendur í að stuðla að góðu og traustu umhverfi í frímínútum í skólanum í gegnum skipulagða leiki. Einnig er markmið verkefnisins að hvetja til aukinnar hreyfingar nemenda og jákvæðra samskipta. Verkefnið er norskt að uppruna og í dag eru um 1400 grunnskólar í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi sem taka þátt í verkefninu.

Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli Vinaliðaverkefnisins hér á landi. Vinaliðaverkefnið var prufukeyrt í grunnskólum í Skagafirði árið 2012. Í framhaldi af því var allt efni þýtt og staðfært yfir á íslenskar aðstæður á vegum fræðsluþjónustu Skagafjarðar. Í dag eru 46 íslenskir grunnskólar þátttakendur í verkefninu sem þýðir að um 1500 íslenskir nemendur starfa sem vinaliðar á hverjum tíma. (meira…)

Áhrif í orði eða á borði? Skólarannsókna-/skólaþróunardeild 1966–1990

29. desember, 2018

Þann 12. maí 2018 var haldið í Veröld – húsi Vigdísar málþing sem ætlað var ætlað að varpa ljósi á áhrif skólarannsókna- og skólaþróunardeildar menntamálaráðuneytisins 1966–1996 á skólastarf og skólaþróun í landinu. Skólarannsóknadeildin var sett á laggirnar 1966 (hét fyrst Skólarannsóknir, þá Skólarannsóknadeild og síðar Skólaþróunardeild). Hún fékk fljótlega það verkefni að annast heildarendurskoðun náms og kennslu í grunnskólum og var þetta verkefni vafalítið eitt umfangsmesta skólaþróunarverkefni sem í hefur verið ráðist hér á landi. Fjöldi sérfræðinga kom að starfinu, námstjórar, námsefnishöfundar og ráðgjafar. Auk námsefnisgerðar unnu starfsmenn að námskrárgerð, viðamikilli endurmenntun í samstarfi við Kennaraháskólann og útgáfu handbóka og leiðbeininga, auk þess að heimsækja skóla til ráðgjafar og eftirlits. Talsverðar deilur urðu þegar á leið um sumt í þessu starfi, t.d. um námsefni í samfélagsgreinum (sjá um það t.d. í bókinni Sögukennsluskammdegið – Rimman um sögukennslu og samfélagsfræði 1983–1984 í ritstjórn Lofts Guttormssonar, sjá hér).

Á málþinginu flutti Gerður G. Óskarsdóttir erindi þar sem hún velti fyrir sér áhrifum þessa starfs. Ritstjórn Skólaþráða falaðist eftir að fá að birta erindið og varð Gerður góðfúslega við því. Fleiri greinar frá þinginu munu birtast í Skólaþráðum á næstunni.


(meira…)

Að verða meira við sjálf

14. desember, 2018

Ármann Halldórsson

 „Því ég er ekki ég, ég er annar.“ (Megas)

„Man, sometimes it takes you a long time to sound like yourself.“ (Miles Davis)

Undir lok fyrstu samræðu í bók austurríska heimspekingsins Paul K. Feyerabend Three Dialogues on Knowledge eiga persónur hans eftirfarandi samskipti um það hvað heimspeki og þekking sé.

Donald: Meinarðu þá að allt eigi bara að vera upp í loft?
Charles: Ekki upp í loft, en heldur ekki skráð á blað – frekar í huganum sem minning og viðhorf. (Feyerabend, 1991, bls. 45)

Þarna setur Feyerabend  fram ákveðna sýn á markmið heimspekikennslu og hugsanlega  menntunar yfirhöfuð; það eru ekki kenningarnar og staðreyndirnar sem eru í greinum og bókum sem eru aðalatriðið heldur sú menning, viðhorf og samskipti sem mótast þegar menntun fer fram með þeim hætti sem best er á kosið. Í starfi mínu sem kennari hef ég haft þetta að leiðarstefi. (meira…)

Lítil skref í átt að sjálfbærni í leikskólum og betri framtíð

13. desember, 2018

Bergljót Vala Sveinsdóttir og Lotta Sandroos

Loftslagsbreytingar hafa verið áberandi í umræðunni upp á síðkastið og brýnt hefur verið fyrir fólki að bregðast þurfi við sem fyrst með vissum breytingum í samfélaginu. Sjálfbærni mun gegna lykilhlutverki í því sambandi en sjálfbærni felur meðal annars það í sér að nýta auðlindir jarðar á ábyrgan hátt til að tryggja komandi kynslóðum aðgang að þessum sömu auðlindum í framtíðinni. Þessi breyting getur þó einungis orðið ef allt samfélagið tekur þátt í ferlinu og það þarf að ala börn upp í sjálfbærum lífsmáta því erfitt getur reynst að gera breytingar seinna á lífsleiðinni. Í þessari grein beinist því athyglin að börnum á leikskólaaldri. Greinin er hluti af verkefni sem höfundar unnu að í Uppsalaháskóla í Svíþjóð haustið 2018 í áfanga um loftslagsbreytingar. (meira…)

Brýnt er að breyta fjárveitingum til skóla í anda menntunar fyrir alla

15. nóvember, 2018

Anna Magnea Hreinsdóttir og Þorsteinn Hjartarson

Síðastliðið vor skrifuðu greinarhöfundar greinina Lærdómssamfélag og samræmd próf en þá höfðu samræmdu könnunarprófin verið til umræðu í fjölmiðlum. Í niðurlagi greinarinnar var rætt um mikilvægi dreifðrar forystu, styðjandi samvinnu og öflugrar starfsþróunar kennara og skólastjórnenda í innleiðingu á breytingum. Samábyrgð skóla, sveitarfélaga, kennarasamtaka, háskóla og menntamálayfirvalda skiptir einnig sköpum í skólaþróun hér á landi og bættum námsárangri og líðan nemenda.  Því ber að fagna umræðufundarröð sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur staðið fyrir í haust um mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030. Eitt af markmiðum menntastefnu verður alltaf að tryggja að allir í skólasamfélaginu líti á skólastarf án aðgreiningar sem grundvöll gæðamenntunar fyrir alla nemendur í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. (meira…)

1 15 16 17 18 19 22

Færslusafn

Fara íTopp