Fríða Bjarney Jónsdóttir
Nýlega sótti ég þriðju ráðstefnu Multilingual Childhoods en það er alþjóðlegt tengslanet rannsakenda, kennara og áhugafólks um fjöltyngi ungra barna. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í Hamar í Noregi og var áhersla lögð á menntun, stefnumótun og aðferðir í tungumálanámi ungra barna. Þátttakendur komu víða að en það vakti athygli mína að fyrir utan að tengjast menntun og lífi fjöltyngdra barna, voru langflestir þátttakendur sjálfir fjöltyngdir og þá ekki einungis færir í tveimur tungumálum heldur frekar fjórum eða fleiri. Á ráðstefnukvöldverðinum sat ég til borðs með áhugaverðri ungri konu, Guzel en hún er doktorsnemi og aðstoðarkennari í rússnesku sem öðru máli, við háskólann í Kazan (höfuðborg lýðveldisins Tatarstan í Rússneska sambandsríkinu, sjá hér: https://en.wikipedia.org/wiki/Kazan). Alltaf jafn spennandi að hitta einhvern frá stað sem maður þekkir ekki.
Guzel er altalandi á rússnesku, tatarísku, tyrknesku og ensku auk þess sem hún hefur lært kínversku og getur skilið og bjargað sér á pólsku. Doktorsrannsókn hennar beinist að tungumálanámi fjöltyngdra ungra barna en hún hefur einnig sérhæft sig sem túlkur og þýðandi frá rússnesku og tyrknesku yfir á ensku. Hún vann einnig lengi í þyrlu- og flugbransanum, og kennir rússnesku sem annað mál. Að sjálfsögðu ræddum við fram og til baka um tungumál og tungumálakunnáttu en Guzel þótti afar áhugavert að við hér á Íslandi ættum okkar eigið tungumál og að menning okkar væri samofin tungumálinu, m.a. í gegnum fornsagnahandrit. Hún sagðist lítið vita um Ísland nema þekkja tónlist Bjarkar en oft hefði fólk orð á því að hún væri lík Björk í útliti, ég gat staðfest það.
Frá því að ég hóf störf sem leikskólakennari fyrir rúmum 20 árum hefur málþroski og bernskulæsi ungra barna, líðan þeirra, velferð og réttindi verið mér mjög hugleikin. Sérstaklega hafa málefni fjöltyngdra barna staðið hjarta mínu nærri. Árið 2001 fór ég að vinna að því að finna leiðir til að efla íslenskukunnáttu barnanna í leikskólanum Lækjaborg samhliða því að viðurkenna og styðja móðurmál þeirra í samstarfi við foreldra. Allar götur síðan hef ég litið svo á að með því að skapa rétta umgjörð utan um menntun ungra barna sé hægt að móta farveg fyrir ríkulega tungumálakunnáttu. Það sé bæði hægt að kenna íslensku sem annað mál og styðja og styrkja þróun móðurmálsins. Í starfi mínu sem deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur vinn ég ásamt starfsfólki og kennurum í borginni að innleiðingu menntastefnu borgarinnar „Látum draumana rætast“. Í því ferli erum við stöðugt að spyrja okkur að því hvaða hæfni, þekkingu og viðhorf séu börnum nauðsynleg inn í framtíðina. Eitt af því sem allir eru sammála um er mikilvægi félagsfærni og sjálfseflingar, en þetta eru tveir af grundvallarþáttum stefnunnar. Hluti af því er að geta átt frjó samskipti við fjölskyldu og vini og eignast rödd í því samfélagi sem maður tilheyrir.
Þátttaka í ráðstefnunni Multilingual Childhood hjálpaði mér að skerpa sýnina á það sem raunverulega skiptir máli í menntun og uppeldi fjöltyngdra barna. Um leið og við eigum að leggja okkur fram um að kenna nýjum íbúum okkar lands íslensku þá verðum við líka að styðja með öflugum og markvissum hætti við þau tungumál sem börnin í þessum hópi tala. Þetta snýst ekki um annað hvort.
Aldrei ætti að banna börnum að tala móðurmál sitt í leikskólanum
Inngangserindi ráðstefnunnar var flutt af fræðikonunni Annick De Houwer sem er vel kunn mörgum sem fylgst hafa með rannsóknum á fjöltyngi ungra barna. Annick benti á að vegna fólksflutninga og samfélagslegra breytinga á flestum stöðum í heiminum væri þróunin víðast hvar sú sama. Strax á leikskólaaldri alast sífellt fleiri börn upp við að heyra fleiri en eitt tungumál í daglegu lífi. Annick telur nauðsynlegt að strax frá fyrsta degi í leikskólanum sé hugað að þessum fjölbreytta tungumálabakgrunni barnanna, hann viðurkenndur og virtur ella sé hætta á að börn upplifi sig útundan og jaðarsett. Slík reynsla getur valdið vanlíðan og aukið líkur á félagslegri útskúfun. Um leið skapast hætta á að börn missi hvatann til að læra tungumál, bæði móðurmálið og tungumál samfélagsins og skólans á hverjum stað, hér íslensku. Annick horfir á leikskólagöngu og leikskólanám ungra barna m.a. út frá hugmyndum um félagslegt réttlæti og réttindi barna til menntunar en meðal þess er rétturinn til að viðhalda og efla eigin móðurmál eins og tekið er fram í 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Öll börn eiga að upplifa sig velkomin allt frá fyrsta degi í leikskólanum, segir Annick en til þess að svo megi verða þarf tilfinningaleg og félagsleg velferð sérhvers barns að vera miðpunktur athyglinnar. Börn sem upplifa sig útundan og á jaðrinum eru líklegri til að finna til streitu og álags sem hefur hamlandi áhrif á nám þeirra. Yngstu börnin eru sérstaklega viðkvæm fyrir slíku álagi. Börn eru hinsvegar ólík og búa við fjölbreyttar aðstæður þegar kemur að þróun máls og læsis. Sum börn hafa:
- Heyrt einhverja útgáfu af skólamálinu (íslensku) heima hjá sér og skilja það að einhverju leyti
- Heyrt bæði einhverja útgáfu af skólamálinu (íslensku) og annað tungumál heima
- Ekki heyrt skólamálið (íslensku) heima og skilja ekki skólamálið þegar þau byrja í skólanum
Hverjar sem aðstæður þessara barna eru ætti það að vera hlutverk okkar sem tökum á móti þeim að skapa aðstæður sem draga úr vanlíðan, streitu eða félagslegri útilokun. Aldrei ætti að banna börnum að tala móðurmál sitt í leikskólanum, segir Annick. Mikilvægt er að leita allra leiða til að skapa samtal við foreldra og nýta fjölbreyttar aðferðir til að virkja móðurmál barna í leikskólastarfinu samhliða vinnu með skólamálið.
Neikvæð sýn á eigin tungumál og ofuráhersla á að læra skólamálið án þess að tengja á nokkurn hátt við eigið móðurmál getur haft neikvæð áhrif á tilfinningaþroska barna sagði Annick. Einnig að þegar unnið væri með fjölbreytt tungumál og lögð áhersla á jákvætt viðhorf til þeirra sem tala fjölbreytt tungumál ykjust líkurnar á því að öll börnin þróuðu með sér aukna vitund um fjölbreytt tungumál og öðluðust hæfni til að eiga í samskiptum við þá sem ekki deila sama tungumáli. Um leið eflast þau í að hugsa um orð, bera saman orð og velta fyrir sér þýðingu þeirra en þannig verður málumhverfið meira örvandi og spennandi. Í lok fyrirlesturs síns benti Annick á fjölbreyttar hagnýtar leiðir til að styðja við fjöltyngi (sjá aftast í þessari grein). Hún segir gagnlegt fyrir kennara að skoða eigin viðhorf til tungumálanáms ungra barna. Byggjast viðhorfin á hugmyndum um eintyngi (e. monolingual view) eða fjöltyngi (e. plurilingual view)? Viðhorf kennara hafa áhrif á þær aðferðir sem þeir tileinka sér í vinnu með börnum sem búa við fjölbreytt tungumál. Mikilvægast er að tryggja ríkt málumhverfi fyrir börnin strax á leikskólaaldri þar sem markvisst er unnið að því að efla skólamálið (hér íslenska) um leið og stutt er við fjölbreytt móðurmál.
Fjöltyngi í norskum leikskólum
Þær Anna Sara Romøren og Elena Tkachenko, sem báðar eru kennarar og rannsakendur við kennaradeild Oslóarháskóla, sögðu í sínu erindi frá námskeiði sem þær hafa verið að þróa fyrir leikskólakennara en hluti þess felst í rannsókn sem nemendur þeirra taka þátt í að framkvæma. Í Noregi líkt og á Íslandi er lögð megináhersla á að börn læri skólamálið (norsku/íslensku) sem allra fyrst og kemur það skýrt fram í norsku aðalnámskránni fyrir leikskólastigið. Sú aðalnámskrá er mun gagnlegri en sú íslenska þegar kemur að því að skipuleggja menntun fjöltyngdra barna. Í norsku aðalnámskránni fyrir leikskóla segir m.a.:
Starfsfólki leikskóla ber að tryggja að litið verði á tungumálafjölbreytni sem auðlind fyrir öll börnin, fjöltyngd börn séu hvött til að nota móðurmál sitt um leið og lögð er áhersla á að virkja og efla norskukunnáttu/kunnáttu í samísku (Framework plan for Kindergartens, 2017, bls. 24)
Þrátt fyrir þetta telja þær Anna og Elena að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að vinnubrögð starfsfólks í leikskólum í Noregi byggi almennt á hugmyndum um eintyngi (e. monolingual view) en það sjónarhorn geti dregið úr möguleikum barna til að verða fjöltyngd. Þetta snúist þó ekki fyrst og fremst um eintyngi eða fjöltyngi heldur mikilvægi þess að leikskólastarf byggi á hugmyndum um félagslegt réttlæti og vellíðan barna.
Rannsókn þeirra fólst í því að leikskólakennaranemendur sátu námskeið og fengu þjálfun í aðferðum sem lúta að máltöku og tileinkun annars máls og fjöltyngi. Nemendurnir fengu síðan það verkefni að þróa spurningalista fyrir starfandi leikskólastjóra og leikskólakennara sem nemarnir tóku með sér á vettvang. Á vettvangi tóku þeir viðtöl, söfnuðu upplýsingum og skráðu niður vettvangsathuganir. Meðal þess sem leitað var svara við var hversu mörg tungumál starfsfólk talaði og hversu mörg tungumál það notaði í daglegu starfi. Einnig var kannað hversu mörg tungumál börnin þekktu og hversu mörg þau notuðu og í hvaða aðstæðum í leikskólanum var verið að vinna með fjölbreytt tungumál auk norsku.
Niðurstöður sýndu að bæði starfsfólkið og börnin bjuggu yfir mun meiri tungumálakunnáttu en þau nýttu í daglegu starfi og leik. Þá var afar misjafnt hvort og með hvaða hætti leikskólarnir studdu við eða komu í veg fyrir tungumálafjölbreytileika í daglegu starfi og í hvaða aðstæðum vinna með tungumál var helst sýnileg. Þær aðstæður sem virtust helst fela í sér að unnið væri með fjölbreytt tungumál voru t.d. frjálsi leikurinn, þegar foreldrarnir voru með börnunum í fataklefanum, matartímar og söngstundir. Þá kom í ljós að oftast réðu viðhorf leikskólastjóranna áherslum skólans í þessum efnum. Og útfærslan var afar misjöfn, allt frá því að banna börnum að tala önnur tungumál en norsku og yfir í að foreldrar og fjöltyngt starfsfólk tók þátt í að styðja við tungumál barnanna á fjölbreyttan hátt (eins og mælt er með í norsku aðalnámsskránni). Rannsóknin er á fyrstu stigum og hafa þær Elena og Anna áhuga á að þróa hana áfram og fjölga þátttakendum. Greinilegt var að nemendur Elenu og Önnu höfðu öðlast nýja sýn á fjölbreytt tungumál og vinnu með þau að námskeiðinu loknu
Í báðum þessum fyrirlestrum sem ég hef rætt hér að framan var vitnað í rannsóknir og aðferðarfræði Romu Chumak-Horbatsch en hún hefur gefið út tvær bækur um það sem hún kallar á ensku „Linguistically appropriate practice“ eða LAP. Hugtakið mætti þýða sem „viðeigandi aðferðir í vinnu með tungumál“. Roma hefur rannsakað starf fjölmargra leikskóla í Kanada og víðar og er málsvari þess að unnið sé markvisst með öll tungumál barnanna í leikskólastarfinu í nánu samstarfi við fjölskyldur þeirra um leið og skólamálið er kennt. Í leikskólanum Miðborg í Reykjavík hefur verið unnið þróunarverkefnið „Töfrandi tungumál“ sem byggir á hugmyndum Chumak-Horbatsch en hægt er að fræðast nánar um það í nýlegri meistaraprófsrannsókn Sögu Stephensen. Þá hefur leikskólinn Krílakot á Dalvík unnið að því að innleiða hugmyndafræði LAP á undanförnum árum.
Klæðskerasniðinn stuðningur
Ute Limacher-Riebold, sem starfar sem tungumálaleiðbeinandi fyrir fjölskyldur í Haag í Hollandi, flutti erindi á ráðstefnunni ásamt Evu J. Daussa sem er háskólakennari í sömu borg. Ute hefur rekið þjónustu fyrir fjöltyngdar fjölskyldur undanfarin fimm ár þar sem hún nýtir þekkingu sína á málvísindum, fjölbreyttum tungumálum og málþroska barna til þess að styðja við foreldra fjöltyngdra barna. Hún vinnur samhliða að rannsóknum á málþroska fjöltyngdra barna og nýtir niðurstöðurnar til að bæta aðferðir sínar í ráðgjöf og stuðningi við fjölskyldur. Ute hittir fjölskyldurnar og klæðskerasníður stuðninginn að þörfum fjölskyldnanna, sem eru afar ólíkar. Markmið Ute er að styrkja foreldra til að vera góðar málfyrirmyndir, vera meðvituð um tungumálastefnu fjölskyldunnar, þekkja leiðir til að efla tungumálaþekkingu barnanna og viðhalda þeim tungumálum innan fjölskyldunnar sem foreldrar og börn telja mikilvæg. Þá vinnur Ute náið með skólum barnanna, leiðbeinir foreldrum í samskiptum við þá og þjónar eins og n.k. menningar- og tungumálamiðlari á milli foreldra og skóla. Til viðbótar sinnir Ute fræðslu til kennara um fjöltyngi og nýlega hafa einnig starfsmenn mæðra- og ungbarnaverndar lýst yfir áhuga á því að nýta þjónustu Ute fyrir verðandi foreldra.
Eins og Ute bendir á þá þarf að byrja að undirbúa jarðveg málsþroskans strax þegar barn er í móðurkviði; það er of seint að byrja þegar skólagangan hefst. Ute fjallaði líka um mikilvægi þess að styðja foreldra við að horfa raunhæft á tungumálaþekkingu barnanna. Ekki mætti taka of hátíðlega niðurstöður málþroskaprófa sem leggja tungumálaþekkingu fjöltyngdra barna á sömu vogarskálar og eintyngdra barna. Öll börn geta orðið góð í þeim tungumálum sem þau búa við ef þau fá ríkulegt málumhverfi og æfingu. Best er að foreldrar og skóli vinni saman að því að styðja tungumálin og ákjósanlegt að börn alist upp við það viðhorf að fjöltyngi sé ekki vandamál. Háskólaprófessorinn Eva Daussa hefur rannsakað störf Ute og segir svo komið að nauðsynlegt sé að setja á laggirnar nýja námsleið í háskólanum Í Haag þar sem fólk fái þjálfun og kennslu í því að verða tungumálaráðgjafar. Báðar voru þær sammála um það að skóla- og heilbrigðisyfirvöld þyrftu í auknum mæli að ráða til sín slíka ráðgjafa en slíkt myndi auðvelda börnum tungumálanám og auka möguleika þeirra á að viðhalda og efla móðurmál sín um leið og þau ná tökum á skólamálinu.
Áhugavert er að bera störf Ute saman við störf þeirra Kriselle Lou Suson Jónsdóttur og Magdalenu E. Andrésdóttur sem starfa sem brúarsmiðir innan læsisteymis Miðju máls og læsis hjá Reykjavíkurborg. Mörg af þeim verkefnum sem Ute sinnir virðast sambærileg verkefnum Magdalenu og Kriselle sem veita kennurum, starfsfólki og foreldrum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar fræðslu og stuðning í tengslum við mál og læsi fjöltyngdra barna.
Að meta tungumálið að verðleikum
Að lokum langar mig til að minnast á erindi Lars Anders Kulbrandstad eins helsta sérfræðings Norðmanna þegar kemur að fjöltyngi og norsku sem öðru máli. Lars Anders fjallaði um sögulegt samhengi tungumála í Noregi og þróun norskunnar. Sérstaka athygli mína vakti umfjöllun hans um stöðu þeirra tungumála í Noregi sem lengst af áttu undir högg að sækja í norsku samfélagi. Þetta eru norska táknmálið og samíska (sem reyndar er yfirheiti yfir mörg ólík tungumál og mállýskur). Um áratugaskeið hafa börn í Noregi sem tala táknmál og samísku verið jaðarsett innan skólakerfisins, þeim hefur verið bannað að tala móðurmál sín ogþau hafa verið svipt sjálfsmynd sinni, tengslum við fjölskyldu og menningu. Í nafni þess að verið væri að gera það sem væri best fyrir börnin var lögð áhersla á gera „þau eðlileg“ eða með öðrum orðum „norskumælandi“. Enn í dag eru íbúar Noregs af samískum uppruna að berjast fyrir því að tungumál þeirra og menning séu metin að verðleikum. Þó að margt hafi áunnist varðandi réttindi barna sem nota norska táknmálið er víða pottur brotinn hvað varðar jafnræði þeirra og aðgengi að menntun. Erindi Lars Anders var afar góð áminning um það hversu mikilvægt það er að hafa félagslegt réttlæti, vellíðan barna og réttindi þeirra ávallt í fyrirrúmi.
—–
Ég langar að minnast aftur á ungu konuna Guzel frá Kazan sem ég nefndi hér í upphafi sem með blik í augum ber höfuðið hátt og er stolt yfir fjölbreyttri tungumálaþekkingu sinni sem veitir henni ótal tækifæri í lífinu. Það er óskandi að hér í okkar samfélagi verði framtíðin sú að stoltir Íslendingar af fjölbreyttum uppruna tali góða íslensku og hafi vald á sem flestum af þeim 100 tungumálum sem nú eru töluð hér á landi. Viðhorf okkar, sýn og tungumálastefna innan fjölskyldunnar, menntakerfisins og samfélagsins alls leggur þar grunninn.
Hér eru tenglar á efni sem er sérstaklega ætlað þeim sem vilja kynna sér málið betur og styðja við fjölbreyttar tungumálaauðlindir ungra barna:
- Tungumál er gjöf – stuðningsefni fyrir kennara sem vilja vinna með mál og læsi og fjölbreytt tungumál í samstarfi við foreldra.
- Tungumálið er gjöf frá mömmu og pabba – stuttmynd fyrir kennara og fjöltyngda foreldra á 9 tungumálum
- Gefðu 10 – einföld aðferð ætluð til þess að auka samræðu og samskipti við fjöltyngd börn sem eru að læra íslensku sem annað mál
- Sjálfsmatslisti um fjölbreytt tungumál Gátlisti fyrir starfsfólk til að efla stuðning við fjölbreytt tungumál.
- Miðja máls og læsis fræðsluefni m.a. um tvítyngi og fjöltyngi
- Læsi allra mál hugmyndabanki
- Bilingual monkeys Hugmyndir og aðferðir til að styðja við fjöltyngd börn
Heimildaskrá
Framework plan for kindergartens. (2017). Sótt af https://www.udir.no/globalassets/filer/barnehage/rammeplan/framework-plan-for-kindergartens2-2017.pdf
Fríða Bjarney Jónsdóttir er deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fríða er leikskólakennari í grunninn með meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu. Undanfarin ár hefur hún sinnt starfi sem verkefnastjóri fjölmenningar hjá leikskólum borgarinnar auk þess sem hún hefur stundað doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.