Vinátta – verkfæri sem virka

í Greinar

Margrét Júlía Rafnsdóttir

 

Það var á vordögum 2014, sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi skrifuðu undir samning við systursamtökin Red barnet- Save the Children og Mary Fonden stofnunina í Danmörku um útgáfu og notkun á Fri for mobberi efninu, forvarnarefni gegn einelti fyrir leik- og grunnskóla.

Hafist var handa við þýðingu og útgáfu á efni fyrir þriggja til sex ára börn í leikskólum. Efnið fékk nafnið Vinátta á íslensku. Veturinn 2014–2015 var efnið tilraunakennt í sex leikskólum í jafnmörgum sveitarfélögum; Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Borgarbyggð. Þrjár kannanir voru lagðar fyrir starfsfólk; í upphafi, eftir ár og eftir 18 mánuði. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands vann úr könnununum og má finna niðurstöður þeirra á vefsíðu Barnaheilla. Svo var efnið yfirfarið og gefið út að nýju í janúar 2016. Vorið 2018 eru 107 leikskólar að nota efnið, sem er rúmlega 40% leikskóla á Íslandi. Mörg sveitarfélög hafa ákveðið að Vinátta fari í alla leikskóla sveitarfélagsins, þar sem börnin munu síðar koma saman í grunnskólum og tómstundum og mikilvægt sé að þau hafi öll verið nestuð með forvörnum gegn einelti. Alls 15 grunnskólar tilraunakenna efni fyrir fyrsta til þriðja bekk grunnskóla veturinn 2017–2018 og í haust er stefnt að því að gefa út efni fyrir allra yngstu börnin, eða börn yngri en þriggja ára. Þá munu Barnaheill bjóða upp á forvarnarefni gegn einelti fyrir börn að átta ára aldri.

Vinátta byggir á þeirri nálgun að einelti sé félagslegs, menningarlegs og samskiptalegs eðlis  en ekki einstaklingsbundið vandamál. Í Vináttu er lögð áhersla á að skoða hópinn sem heild og samskiptamynstur innan hans, en ekki einblínt á  geranda eða þolanda. Sami einstaklingur getur verið í mismunandi hlutverki í mismunandi aðstæðum innan hópsins; gerandi, þolandi eða sá sem stendur hjá. Menningin í hópnum er það sem þarf að skoða og vinna með.

Rannsóknir að baki Vináttu og árangur

Vinátta – Fri for mobberi byggir á nýjustu rannsóknum á einelti frá eXbus stofnuninni (Exploring Bullying in School), sem hefur staðið fyrir rannsóknum á einelti og félagslega einangrun meðal barna frá árinu 2007.

Þegar verkefnið var í mótun í Danmörku á árunum 2007–2009 var því fylgt eftir með rannsóknum á vegum Center i Barndoms- og Ungdomsforskning í Háskólanum í Hróarskeldu, meðal annars af Jan Kampmann. Rannsóknirnar beindust meðal annars að skilningi og reynslu fjögra til átta ára barna af stríðni og reynslu foreldra og kennara af verkefninu og þátttöku í því. Niðurstöður rannsóknanna birtust í átta áfangaskýrslum, sýndu ótvíræðan árangur verkefnisins, ef unnið var markvisst með það.

Síðari kannanir og rannsóknir á notkun efnisins hafa einnig sýnt ótvíræðan árangur í að koma í veg fyrir einelti, að auka félagsfærni barna og bæta skólabrag. Árið 2011 var gerð rannsókn meðal 275 leikskólakennara og stjórnenda þar sem níu af hverjum tíu töldu efnið hafa jákvæð áhrif á börn; þau væru umhyggjusamari og hjálpsamari. Nánast allir leikskólakennararnir í rannsókninni mæltu með efninu og vildu vinna áfram með það.

Í rannsókn sem gerð var árið 2013, sögðu 88% af 500 starfsmönnum sem sótt höfðu Fri for mobberi námskeið, að efnið stuðlaði að meiri samkennd meðal barnanna og að starfsfólk væri hæfara til að leiðbeina börnunum til að leysa vanda og árekstra. Það kom jafnframt skýrt fram að kennarar og aðrir fullorðnir eru í lykilhlutverki við að byggja upp góðan skólabrag og samskipti.

Árið 2017 voru 10 ár frá því að Fri for mobberi hóf göngu sína í Danmörku og þá birti Red barnet og Mary Fonden í Danmörku niðurstöður nýrrar rannsóknar um árangur verkefnisins. Í rannsókninni voru meðal annars bornir saman hópar barna í leikskólum, annars vegar þar sem unnið var með efnið í fimm mánuði og samanburðarhópur þar sem ekki var unnið með efnið. Niðurstöðurnar sýndu að börnin í hópnum þar sem unnið var með efnið tjáðu í auknum mæli tilfinningar sínar, voru mun jákvæðari í samskiptum sínum við önnur börn og sýndu meiri samkennd samanborið við börnin í viðmiðunarhópnum. Áhrifin voru tölfræðilega marktæk.

Rannsóknin styður jafnframt það sem áður hefur komið í ljós að einelti sé félagslegs menningarlegs og samfélagslegs eðlis en ekki einstaklingsbundinn vandi. Þar kemur meðal annars fram að í hópum þar sem einelti nær að festa rætur og þrífast, upplifa nemendur frekar einsemd og félagslega útilokun en í hópum þar sem samskipti eru góð. Öll börn hafi sterka þörf fyrir að tilheyra og með hugmyndafræði Vináttu að leiðarljósi er unnið að því að tryggja það.

Ýmsir sérfræðingar standa að baki rannsóknum á verkefninu. Þar má nefna dr. Dorte Marie Søndergaard, prófessor í félagssálfræði við menntavísindasvið háskólans í Árósum og Helle Helle Rabøl Hansen aðjúnkt við sama háskóla.

Nánar er hægt að finna og lesa um rannsóknirnar hér.

Við hjá Barnaheillum fögnum niðurstöðum þessara rannsókna sem styrkja okkur enn frekar í vinnunni með Vináttu.  En það er ekki síður umsagnir og árangur frá íslenskum skólum sem eru okkur hvatning og stuðningur. Enda hefði Vinátta aldrei orðið að veruleika án skólanna og þess starfsfólks sem þar starfar. Vináttu hefur verið einstaklega vel tekið á Íslandi og breiðst hratt út. Orðrómurinn um hversu gott og árangursríkt efnið er berst frá skóla til skóla. Fjölmargar sögur af börnum, starfsfólki og foreldrum vitna um árangur efnisins. Starfsfólki finnst efnið mjög gott og auðvelt að aðlaga öðru starfi skólans. „Verkefnið er sem himnasending til okkar,“ og „Frábært verkefni, það besta sem ég hef unnið með,“ er vitnisburður  leikskólakennara. Starfsfólk sér breytingu á samskiptum barnanna eftir einungis fárra vikna notkun efnisins, félagsfærni eykst og skólabragur og samskipti í hópnum batnar. Grunnskólakennarar sjá mikinn mun á börnum sem koma úr leikskólum þar sem unnið er með Vináttu og öðrum skólum, hvað varðar samkennd og samskipti. Mikil áhersla er lögð á þátttöku foreldra og eru þeir mjög ánægðir með að verið sé að vinna með félagsfærni, samskipti og forvarnir gegn einelti í skólum, því fátt er foreldrum mikilvægara en að börnum þeirra líði vel í skólanum og þau eigi félaga og vini.

Verkfærin í töskunum

Vinátta byggist á ákveðinni hugmyndafræði og gildum, en einnig raunhæfum verkefnum til að takast á við aðstæður sem upp geta komið í skólastarfi og til að auka félagsfærni barna. Verkefni fyrir leikskóla eru í grænni tösku en fyrir grunnskóla í blárri. Verkefni fyrir börn yngri en þriggja ára verða í boði haustið 2018 í lítilli gulri tösku. Öll verkefnin byggjast á gildum og hugmyndafræði Vináttu. Meðal verkefna er nuddhefti, sögubók, útinámsbók, tónlistarefni og samræðuspjöld með skýrum og litríkum teikningum af aðstæðum sem geta komið upp í samskiptum. Á bakhlið spjaldanna eru hugmyndir að spurningum eða umræðum um myndirnar. Að auki fylgir leiðbeiningahefti þar sem hugmyndafræði Vináttu er lýst, fjallað um einelti á fræðilegan hátt og hvernig hægt er að innleiða verkefnið í skóla. Í leiðbeiningunum er einnig að finna fjölda hugmynda að verkefnum. Ekki má gleyma bangsanum Blæ, sem fylgir hverri tösku. Blær er táknmynd Vináttu og fylgja honum hjálparbangsar fyrir hvert barn sem vinnur með efnið.

Þegar unnið er með efnið er það grundvallaratriði að allir aðilar komi með reisn út úr aðstæðum og að ekki séu búnir til þolendur og gerendur.

Við hjá Barnaheillum eigum þá von að með tímanum munu einelti heyra sögunni til og við erum sannfærð um að þátttaka sem flestra leik- og grunnskóla í Vináttu, sé stórt lóð á þær vogaskálar.

Nánar má lesa um Vináttu hér. Þar má m.a finna niðurstöður kannana sem voru gerðar meðal starfsfólks leiks- og grunnskóla á Íslandi.


Um höfund

Margrét Júlía Rafnsdóttir er verkefnastjóri Vináttu hjá Barnaheillum ‒ Save the Children á Íslandi. Hún er með B.Ed próf frá Kennaraháskóla Íslands og meistarapróf í umhverfisfræði frá Háskóla Íslands. Margrét Júlía hefur starfað sem grunnskólakennari í 20 ár, stundakennari við menntavísindasvið Háskóla Íslands, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun og hefur skrifað námsefni um náttúrufræði, umhverfismál og mannréttindi. Siðast liðinn 11 ár hefur hún unnið að mannréttindum barna hjá Barnaheillum.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*