Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Farsæl samstarfsverkefni foreldra og kennara

í Greinar

Nanna Kristín Christiansen

 

Á ráðstefnu áhugafólks um skólaþróun og Heimilis og skóla sem haldin var 3. nóvember síðastliðinn var ég beðin um að segja frá samstarfsverkefnum skóla og foreldra sem gengið hafa vel. Fyrst þarf að svara því hvað „vel“ merkir. Þýðir það að þátttaka foreldra á fundum í skólanum sé góð, að þeir standi fyrir blómlegu félagslífi, að upplýsingar frá skólanum séu reglulegar og góðar eða merkir samstarf sem gengur vel ef til vill eitthvað allt annað?

Almenn sátt er um að tilgangur samstarfs foreldra og skóla sé að auka velferð nemendanna. Þar sem gott samstarf ríkir milli foreldra og kennara líður nemendum betur í skólanum og þeir ná betri námsárangri (Desforges og Abouchaar, 2003; Hattie, 2009). Því miður er mér ekki kunnugt um íslenskar rannsóknir sem sýna mælanleg áhrif samstarfsverkefna foreldra og skóla á nemendur en ég ætla hér að segja ykkur frá þremur verkefnum sem hafa að mínu mati tekist vel, þegar gengið er út frá skilgreiningu norska fræðimannsins Thomasar Nordahl (2007). Hann telur samstarf vera á þremur þrepum, á fyrsta þrepinu eru upplýsingar, á öðru þrepinu samræða og á þriðja þrepinu hlutdeild. Það er ekki fyrr en á þriðja þrepinu sem um raunverulegt samstarf er að ræða. Þar taka samstarfsaðilarnir sameiginlegar ákvarðanir um mikilvæg málefni og deila ábyrgð. Í því felst munurinn á samskiptum og samstarfi. Þessi þrepaskipting á ekki einungis við um samstarf foreldra og skóla heldur um allt samstarf hvort sem það er á heimilinu, í sameigninni, í tómstundum eða í vinnunni.

Haustfundur

Eins og nafnið gefur til kynna þá eru haustfundir haldnir í upphafi skólaársins. Þátttakendur á fundinum eru nemendur bekkjarins, foreldrar þeirra og kennarinn. Áþekkir fundir tíðkuðust lengi en  tilgangurinn var að kynna námsefni vetrarins fyrir foreldrum. Upplýsingatæknin gerir þannig fundi óþarfa, auðveldara er að senda upplýsingarnar í tölvupósti og vista þær á heimasíðu skólans. Markmið nýju haustfundanna er, auk upplýsingamiðlunar, að stuðla að samræðum og sameiginlegri ákvarðanatöku um mikilvæg málefni sem tengjast bekkjarstarfinu / nemendahópnum.

Nýr kennari ætti að segja nemendum sínum og foreldrum þeirra frá því hvernig kennari hann er, hvaða væntingar hann gerir til nemenda sinna í námi og í samskiptum og hvernig samstarf hann langar til að eiga við foreldra, hvaða kennsluaðferðir hann notar í kennslunni, hvernig hann metur námsárangur og annað sem hann telur mikilvægt að koma á framfæri. Síðan er fundarmönnum skipt í hópa sem ræða áleitnar spurningar, eins og hvernig eigi að byggja upp góðan bekkjarbrag, hvernig nemendur eigi að haga sér í skólanum, hver ábyrgð foreldra ætti að vera á því sem gerist í skólanum, hvernig eigi að tryggja að allir nemendur nái góðum námsárangri í skólastofunni og hvernig eigi að haga samskiptum í foreldrahópnum og milli kennara og foreldra. Upp úr umræðunum má semja bekkjarreglur. Fundurinn er undirbúinn af umsjónarkennara og fulltrúum foreldra en þeir þurfa að taka afstöðu til þess hvort nemendur eigi að taka þátt í fundinum eða ekki. Enda þótt nemendur ættu að vera sem virkastir þátttakendur í umræðum um eigið líf er hollt að minnast orða Nordahl (2007) þegar hann segir að börn eigi ekki að taka ákvarðanir um uppeldi sitt.

Námsmat foreldra

Annað verkefnið sem ég nefni hér er námsmat foreldra. Með verkefninu er foreldrum gefin hlutdeild í námi og námsárangri barna sinna auk þess sem þeir fá innsýn í námsmatsaðferðir skólans. Nemendur finna fyrir áhuga foreldra sinna og skynja að það skiptir máli að standa sig vel í náminu. Eitt af námsmatsverkefnunum, sem notað var í þróunarverkefni Vesturbæjarskóla 2004-2005 „Allir í sama liði,“ fólst í því að nemendur undirbjuggu ljóðaflutning heima hjá sér. Nemendur máttu sjálfir velja ljóðið og hvort þeir lærðu það utan að eða læsu það upp. Foreldrar fengu skriflegar leiðbeiningar ásamt matsblaði sem þeim var ætlað að fylla út og skila til kennarans. Foreldrar mátu áhuga barnsins, frumkvæði og flutning, s.s. hvort barnið stæði beint í baki, horfði fram fyrir sig, kynnti ljóðið fallega og flytti það skýrt og áheyrilega.  Reynslan af verkefninu var ánægjuleg, margir foreldrar lýstu því hvernig umræðurnar við kvöldverðarborðið snerust um ljóð og þjóðskáldin og ófáar ferðir voru farnar á bókasafnið eða að bókaskáp ömmu og afa. Þannig fékk nám barnanna mikla og jákvæða athygli foreldra og stundum líka ömmu og afa. Foreldrar sýndu einnig lifandi áhuga á sjálfu matinu, og í þessu verkefni líkt og öðrum námsmatsverkefnum, sem foreldar tóku þátt í,  kom ósjaldan fram að þeir fögnuðu því að fá tækifæri til að sjá barnið sitt með augum kennara. Mat foreldranna var haft til hliðsjónar á samráðsfundum foreldra og kennara.

Heimaverkefni fjölskyldunnar

Loks er það heimaverkefni fjölskyldunnar. Markmið þess er að nemendur finni að nám þeirra sé áhugavert og mikilvægt í augum foreldra þeirra og að gefa foreldrum hlutdeild í námi barna sinna á eigin forsendum. Verkefnið felst í því að nemendur eiga að undirbúa heima, með aðstoð foreldra/ ömmu og afa, stutta kynningu á tilteknu málefni fyrir bekkinn/nemendahópinn. Sem dæmi um málefni má nefna; manneskja sem ég hef mikið dálæti á, uppáhalds staðurinn minn eða skemmtilegt safn.  Að sjálfsögðu má einnig velja málefni úr námskrá bekkjarins. Í leiðbeiningum, sem kennarinn sendir fjölskyldunni með góðum fyrirvara, er hún hvött til að fara sínar eigin leiðir í kynningunni. Allt er mögulegt þar á meðal upplestur, sýning á gripum, myndband, glærukynning og/eða ljósmyndir. Kennarinn býður jafnframt aðstoð eftir því sem þörf er á. Hver nemandi  fær úthlutað tíma til kynningar í upphafi skóladags, sem er valinn í samráði við foreldra, enda er gert ráð fyrir að þeir komi með barninu sínu og aðstoði eða fylgist með.

Ég minnist föður sem ég hitti á skólaganginum í Vesturbæjarskóla eftir að hann hafði tekið þátt í kynningu á áhugaverðu safni með syni sínum. Faðirinn ljómaði þegar hann sagði mér að síðasta vika hefði verið sú besta sem hann hefði átt með syni sínum „ever“.  Þeir höfðu gefið sér góðan tíma í verkefnið, notið þess að útfæra það saman og báðir voru jafn áhugasamir. Á fundi um foreldrasamstarf lýsti faðir stúlku í 1. bekk  verkefninu sem hann vann með dóttur sinni, en þau settu upp ljósmyndasýningu af uppáhalds staðnum sínum, Elliðaárdalnum. Faðirinn lýsti því hvernig þetta verkefni hefði breytt sambandi þeirra feðgina, í stað þess að vera pabbi að ala upp ungt barn urðu þau félagar, þau skiptust á skoðunum og tóku sameiginlegar ákvarðanir þar sem tillögur hennar höfðu ekki minna vægi en hans. Þannig sagðist hann hafa séð nýjar hliðar á dóttur sinni sem gerði þau enn nánari en áður.

Þegar heimaverkefni fjölskyldunnar heppnast svona vel má ætla að það gefi foreldrum mikilvæga hlutdeild í nám barna sinna og að börnin upplifi að nám þeirra sé áhugavert og mikilvægt. Öll börn hafa þörf fyrir áhuga og stuðning foreldra sinna, ekki aðeins þegar þau æfa íþróttir eða stunda listnám. Það ætti einmitt að vera eitt mikilvægasta hlutverk skólaforeldra að senda þau skilaboð til barna sinna að nám sé mikilvægt og að þau hafi væntingar um að börnin leggi sig fram í náminu og í samskiptum.

Eins og ég nefndi í upphafi þá tel ég þessi verkefni hafa heppnast vel þegar þau eru skoðuð frá sjónarhorni Nordahl (2007). Þau innihalda upplýsingar, samræðu og síðast en ekki síst hlutdeild foreldra. Auk þess lýstu margir foreldrar og kennarar, sem ég ræddi við, ánægju með verkefnin.

Heimildir

Desforges, C., og Abouchaar, A. (2003). The impact of parental involvement, parental support and family education on pupil achievement and adjustment: A literature review. London: Department of Education and Skills.

Hattie, J. (2009). Visible learning. A synthesis of over 800 meta-analyses relating to achievement. London og New York: Routledge.

Nanna K. Christiansen. (2010). Skóli og skólaforeldrar. Ný sýn á samstarfið um nemandann. Reykjavík: Höfundur

Nordahl T. (2007). Hjem og skole. Hvordan skape et bedre samarbejd? Osló: Universitetsforlaget.


Nanna Kristín Christiansen er verkefnastjóri á skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Hún hefur einnig starfað sem kennari, ráðgjafi og stjórnandi við grunnskóla, auk þess hefur hún verið gestakennari við HÍ og haldið námskeið og fræðsluerindi fyrir starfandi kennara og foreldra, einkum um samstarf foreldra og kennara. Nanna er annar af tveimur ritstjórum Krítarinnar, höfundur bókarinnar; Skóli og skólaforeldrar, ný sýn á samstarfið um nemandann og er annar af höfundum handbókarinnar: Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla. 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp