Heimsókn í skóla – minning frá Malaví

í Greinar

Eva Harðardóttir

Þrátt fyrir að hafa lagt af stað löngu fyrir sólarupprás virðast nær allir borgarbúar hafa vaknað á undan okkur. Ógrynni af fólki, ýmist hjólandi eða gangandi, með fangið fullt af pinklum og pökkum, gengur á undan eða við hlið bílsins sem ég sit í. Við silumst áfram, stýrumst bæði af mönnum og dýrum sem teppa göturnar. Glugginn er opinn og ég anda að mér morgunlyktinni sem mér er farið að þykja undarlega vænt um. Minningar um reykjarlykt og ryk í bland við morgunsöng nágrannakvenna minna eiga eftir að lifa með mér um ókomna tíð.

Ég er á ferðalagi með norska sendiherranum og leið okkar liggur í lítið þorp rétt utan við höfuðborg Malaví. Þar ætlum við að heimsækja grunnskóla og ná tali af kennurum og skólastjóra. Skólinn var nýlega valinn til þátttöku í verkefni sem snýr að því að efla menntun stúlkna í landinu. Reyndar verða hátt í 300 skólar með í verkefninu en í þessum tiltekna skóla er ætlunin að hefja verkefnið formlega innan fárra vikna ‒ að viðstaddri Ernu Solberg nýkjörnum forsætisráðherra Noregs. Sendiherrann er þar af leiðandi helst upptekinn af því að mæla tímann sem það tekur að keyra frá borginni, leggja mat á holóttan og illfæran veginn að skólanum og finna út úr því hvar hægt væri að gera pissustopp á leiðinni – ef til þess kæmi að forsætisráðherranum yrði mál.

Ég er hins vegar í öðrum þönkum. Sokkin djúpt í hugsanir sem verða sífellt ágengari. Ég er búin að starfa á skrifstofu UNICEF í Malaví í rétt tæpa fjóra mánuði og hef þegar kynnst því hversu slæmt ástandið er fyrir börn og ungmenni í landinu, sér í lagi stúlkur. Tölur og staðreyndir sem ég las um áður en ég steig upp í flugvél raungerðust fyrir augum mér strax á leiðinni heim frá flugvellinum og urðu enn áþreifanlegri á fyrstu vikum mínum í starfi. Hér eru fleiri en 100 börn að meðaltali í bekk, skólastofur fáar og að hruni komnar, engar bækur eða skrifföng, kennarar alltof fáir, lítils metnir og nær ólaunaðir. Mikill meirihluti stúlkna í Malaví fellur frá námi áður en þær ná 10 ára aldri. Einungis tæp 30% stúlkna ná að ljúka átta ára skólagöngu. Flestar eru giftar nauðugar og ófrískar fyrir 18 ára aldur. Nýleg skýrsla[1] frá UNICEF um ofbeldi gegn börnum í Malaví sýnir að börn eru síst örugg í skólum landsins. Kennarar beita enn líkamlegu ofbeldi og margar stúlkur verða fyrir kynferðislegri áreitni á leið í skólann eða í nágrenni hans.

Við erum komin út fyrir borgarmörkin og þjótum nú áfram á malbikuðum þjóðveginum. Frá veginum má greina aragrúa af litlum húsaþyrpingum, ýmist hlaðin múrsteinshús með bárujárnsþaki eða hringlaga leirkofar með stráþökum. Blaktandi fánar, húsdýr á vappi og fólk að sinna morgunverkunum. Landið er hrjóstrugt enda fá tré orðin eftir sökum mikilla skógareyðingar.[2] Þrátt fyrir ýmis lög og reglur sem takmarka skógarhögg er erfitt fyrir íbúa Malaví að ná sér í eldivið annan en þann sem fellur til af trjám. Ástandið er hins vegar grafalvarlegt sem birtist meðal annars í því að náttúruhamfarir á borð við flóð og þurrka verða sífellt skæðari[3] og afdrifaríkari fyrir fleira fólk.

„Þetta snýst um að forgangsraða“ sagði yfirmaður minn við mig í síðustu viku þegar ég kom inn á skrifstofu til hans og lýsti því yfir að vandinn væri bara hreinlega of stór til þess að það væri hægt að finna skynsamlegar og varanlegar lausnir. Hvar byrjum við þegar rót vandans er allt í senn kerfislæg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og ekki síst pólitísk? Forgangsröðun! Hugsa ég þegar við leggjum bílnum og norski sendiherrann hrópar ánægður: „What a lovely mountain view“. Já, fjöllin í þessum hluta Malaví eru svo sannarlega falleg og það eru börnin sem taka á móti okkur með hrópum og köllum líka. Ég dreg andann djúpt og einbeiti mér að verkefninu. Skólinn samanstendur af gamalli byggingu sem rúmar fjórar skólastofur og skrifstofu skólastjórans, einni nýlegri skólastofu sem var byggð fyrir nokkrum árum fyrir tilstuðlan bandarískrar þróunarsamvinnu, bambusskýli þar sem krakkar á aldrinum 10 til 12 ára halda til og stóru tréi sem þjónar hlutverki skólastofu fyrir yngri börnin. Forgangsröðun, hugsa ég og hripa niður lýsingu á staðháttum.

Ég er búin að fara í nokkrar skólaheimsóknir nú þegar og er farin að kannast við rútínuna. Fyrst göngum við inn á skrifstofu skólastjórans þar sem hann býður okkur sæti á trébekkjum og bendir okkur á handskrifuð blöð sem hanga uppi á veggjum með ýmsum tölum úr skólastarfinu. Hér eru tæplega 2000 nemendur skráðir og 8 starfandi kennarar; þar af 6 með kennsluréttindi. Forgangsröðun, hugsa ég og tek mynd af upplýsingunum á veggnum. Skólastjórinn segir að nemendum hafi fjölgað eftir að nýja skólastofan kom og þess vegna vanti ennþá fleiri hús sem og salernisaðstöðu. Við skólann eru nú 4 salerni fyrir bæði kynin, stúlkur veigra sér hins vegar við að nota klósettin sökum þess að þau snúa beint að skólanum. Forgangsröðun, hugsa ég og bý til sérstakt minnisblað í símanum mínum um staðsetningu salerna. Þá deilir skólinn vatnsbrunni með kirkjunni og vatnið því oft af skornum skammti.

Menntamálaráðuneytið hefur ekki sent skólanum bækur eða skrifföng í þrjú ár. Á síðasta ári fékk skólinn um það bil 20,000 íslenskar krónur í viðhaldsstyrk. Skólastjórinn ákvað að nota féð til að kaupa skólabækur á svörtum markaði fyrst enginn sending barst frá ráðuneytinu. Hann réttir mér eina bók og opnar fyrstu síðuna: „This book is not for sale“ les hann af blaðsíðunni og hlær. Mér er ekki hlátur í huga en hlæ honum til samlætis enda varla annað hægt þegar aðstæður eru þessar. Forgangsröðun, hugsa ég og ákveð símtal upp í ráðuneyti um leið og ég kem til baka. Fæstir kennaranna fengu útborgað um síðustu mánaðarmót eða þarsíðustu og margir eru í annarri vinnu – sem oft gengur fyrir kennslunni, að sögn skólastjórans. Skólastjórinn leggur til að byggja fleiri kennarahús á skólalóðinni – þá kæmu þeir kannski oftar til vinnu segir hann. Nú þurfa flestir að leigja sér húsnæði í þorpinu og leigan er ekki ódýr. Forgangsröðun, hugsa ég og skrifa niður athugasemdir skólastjórans.

Skólastjórinn vill sýna okkur nýju skólastofuna og notagildi hennar. Við göngum því þvert yfir lóðina í átt að nýju skólastofunni. Ég fæ smá kvíðahnút í magann því ég kannast líka orðið við þessar aðstæður. Hér hefur alltof mörgum börnum verið komið fyrir inni í nýlegri en afskaplega hrörlegri skólastofu. Þau sitja í mannlegri hrúgu á steingólfinu. Um það bil 150 líkamar 6 til 8 ára barna í rými sem er líklega hugsað fyrir um það bil 40 nemendur. Inni fyrir stendur kennarinn, snýr baki í börnin, skrifar á töfluna og snýr sér svo öðru hvoru við til að láta börnin endurtaka einstök orð sem hann kallar yfir hópinn. Börnin eru hvorki með bækur né skriffæri. Í stofunni er ekkert sem minnir á líflega og skapandi skólastofu, engar myndir á veggjum, engir litir, form, kubbar, leir eða annar efniviður. Í stofunni er gamalt kennaraborð, þrír stólar og krítartafla. Forgangsröðun, hugsa ég og brosi afsakandi til kennarans þegar við komum í dyragættina.

„Good morning“ segi ég og lít yfir hópinn. Á sama augnabliki sprettur mannlega hrúgan samtaka á fætur og æpir fullum hálsi – langt yfir hávaðamörk: „Good morning madam, how are you?“ Í fyrstu skólaheimsókninni minni brá mér óneitanlega við þessar móttökur þar sem ég vissi ekki hvernig ætti að bregðast við þessu herópi. En nú er ég undirbúin og hrópa hátt á móti: „I am fine thank you, please sit down“. Þau setjast aftur í hrúgu, klessast saman og mæna á kennarann sem heldur einhæfri kennslunni áfram. Forgangsröðun, hugsa ég enn og aftur.

Í lok þessarar heimsóknar, sem var að mörgu leyti eins og margar aðrar fyrri og síðari skólaheimsóknir mínar í sveitum Malaví, gerðist hins vegar dálítið merkilegt. Ég sat á skólalóðinni og hugsaði í vonleysi mínu um ómögulegustu forgangsröðun í heimi. Þá sé ég hvar kennari, kona á mínum aldri, kemur út úr einni skólastofunni með um það bil 100 börn á eftir sér. Hún gengur með þau yfir á stórt opið svæði og skiptir þeim þar í nokkra hringi. Þau klappa og stappa á leiðinni og syngja lag sem þau virðast flest kunna. Börnin mynda hringina þannig að innri hringurinn snýr að ytri og þau horfast í augu. Þau halda áfram að syngja og ganga í hringi – í sitt hvora áttina. Kennarinn klappar og börnin stöðva – finna sér félaga og ræða eitthvað á sínu tungumáli við þann sem þau lentu á móti. Þau brosa, hlægja og nota handahreyfingar til að tala saman. „Kokkurinn“ hugsa ég og brosi út að eyrum. Þau eru að dansa kokkinn og síðan eru þau að ræða eitthvað við félaga sinn. Við klapp kennarans halda þau áfram að ganga í hring, dansa og klappa þangað til að þau stöðva að nýju og ræða málin við nýjan félaga. Á einu augnabliki breytist vonleysi mitt og vantrú í gleði og tiltrú á skólastarfi og kennslu – óháð aðstæðum. Á þessu litla augnabliki varð ég vitni að umhyggju, virðingu, samvinnu og góðri kennslu. Rétti barna til að vera til, njóta, læra og taka þátt í samfélagi jafningja

Forgangsröðun, hugsaði ég og smellti af þeim mynd.

Um höfund:

Eva Harðardóttir starfaði sem sérfræðingur á sviði áætlunargerðar, eftirfylgni og rannsókna við menntadeild UNICEF í Malaví á árunum 2013–2016. Verkefni Evu snéru að því að vinna náið með menntamálaráðuneyti, héraðsyfirvöldum og þróunaraðilum í landinu að eflingu menntakerfisins, sér í lagi í tengslum við menntun stúlkna, menntun í neyð (e. education in emergencies) og langtímastefnumótun í menntamálum (Malawi Education Sector and Implementation Plan 2013–2017). Eva er doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og vinnur nú að rannsókn á reynslu ungs flóttafólks á Íslandi af menntun og þróun borgaravitundar, undir leiðsögn dr. Jo-Anne Dillabough við Cambridge háskóla og dr. Berglindar Rósar Magnúsdóttur við Háskóla Íslands.


Viðtal við Evu í Kvennablaðinu, sjá hér.

Og hér (smellið hér eða á myndina) má sjá upptöku af söng nemenda í skólanum þar sem kór er að æfa fyrir hátíð. Takið eftir því hvernig stóra tréð í garðium er notað sem bókasafn fyrir þær fáu bækur sem til eru í skólanum.


[1] Violence against Children and young women in Malawi (2013). https://www.unicef.org/malawi/resources_16305.html

[2] Kerr (2005). Skýrsla um skógareyðingu í Malaví https://www.unicef.org/malawi/resources_16305.html

[3] Save the Children (2016). The effects on El Nino in Malawi https://malawi.savethechildren.net/news/struggling-survive-effects-el-ni%C3%B1o-malawi

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*