Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Smiðjuhelgar í Grunnskóla Borgarfjarðar

í Greinar

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir


Grunnskóli Borgarfjarðar starfar á þremur stöðum, á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Þetta voru áður sjálfstæðir skólar en voru sameinaðir árið 2010.  Smiðjuhelgar hafa  frá upphafi verið hluti af skólastarfinu. Áður höfðu þær verið við lýði í Varmalandsskóla frá árinu 2007. Smiðjurnar eru haldnar tvisvar sinnum á hverju skólaári, fyrir og eftir áramót og eru ætlaðar nemendum á unglingastigi. Unglingarnir eru einum tíma skemur  á viku í skólanum en viðmið gera ráð fyrir, en í staðinn vinna þeir með þessum hætti eina helgi á önn.

Tilgangur smiðjanna  er að mæta vali fyrir unglingana með öðrum hætti en almennt tíðkast  og gefa þeim kost á að hafa meira um val sitt að segja. Í fámennum skólum byggjast valgreinarnar oft á því sem kennarar innan hvers skóla treysta sér til að bjóða upp á að kenna og vill valið þá stundum verða einsleitt. Með smiðjuhelgunum fá nemendur fleiri tækifæri. Þeir setja fram hugmyndir sínar um það sem þeim finnst áhugavert og langar að hafa í vali. Unnið er út frá þeirra hugmyndum og leitast við að bjóða smiðjur sem flestir hafa áhuga á hverju sinni.

Fjöldi smiðja fer eftir fjölda nemenda. Að undanförnu hafa unglingar úr Reykhólaskóla og Laugargerðisskóla verið með okkur í þessari vinnu og nú á þessu skólaári bættust unglingar úr Flóaskóla í hópinn. Þetta er skemmtileg viðbót við nemendaflóru smiðjuhelganna og gengur nemendum vel að aðlagast og vinna saman. Nemendur allra skólanna hafa átt þátt í að velja og koma með hugmyndir um smiðjur. Smiðjurnar hafa verið kostaðar af skólunum og þátttökugjöld engin.

Þegar dagskrá liggur fyrir sendum við út valblað sem nemendur fylla út og skila til okkar. Hver nemandi velur eina smiðju. Hér má sjá dæmi um upplýsingar um smiðjur sem nemendur fá í hendur til að velja!

Unnið er í smiðjum frá 14.30 á föstudegi til 14.30 á laugardegi.

Dæmi um dagskrá fyrir smiðjuhelgi

Nemendur gista í skólanum eina nótt, eiga saman skemmtilegt kvöld þar sem nemendafélögin sjá um að vera með kvöldvöku, ratleiki, sundsprell eða hvaðeina sem þeim þykir skemmtilegt. Foreldrar nemenda hjálpa til og taka kvöld- og næturvaktir.

Í lok smiðjuhelgarinnar koma foreldrar að sækja börn sín og gefst þeim þá tækifæri til að kynnast því sem unnið var að. Nemendur og kennarar gera grein fyrir verkefnum helgarinnar og afrakstur þeirra er sýndur. Vinna nemenda er metin af kennara eða leiðbeinenda hverrar smiðju fyrir sig í lokin (sjá hér).

Skólinn hefur verið einkar heppinn með það að nærsamfélag hans  hefur lagt honum  lið og  komið að smiðjunum með einum eða öðrum hætti. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur t.d. lagt til  aðstöðu fyrir kennslu í logsuðu, pinnasuðu, járnsmíði og stálsmíði. Björgunarsveitir héraðsins hafa  kennt nemendum heilmargt sem lýtur að starfi björgunarsveitanna svo sem leitarstarfi, snjóflóðaleit, sigi, klifri, björgun úr vatni, farið í hella-  og jöklaferðir og farið yfir fyrstu hjálp og margt fleira. Bridgefélögin, skákfélögin og leikfélögin hafa komið að vinnu í smiðjum, ásamt mörgum einstaklingum í héraði sem hafa margt fram að færa. Með þessu aukum við þekkingu nemenda á því sem  fram fer og unnið er að í samfélaginu okkar í Borgarbyggð.

Hér er verið að kenna nemendum á nýjar spelkur í björgunarsveitarsmiðju

Hér á eftir má sjá dæmi um það sem í í boði var á smiðjuhelgum veturinn 2016‒2017. Sjö smiðjur voru í boði hvort skipti og tæplega 90 nemendur  tóku þátt.

Haustsmiðja:

 • Fatahönnunarsmiðja sem var í höndum ungs fatahönnuðar, Halldóru Sifjar Guðlaugsdóttur, sem nýverið lauk námi í Listaháskólanum.
 • Spilasmiðja sem var í höndum Töru Brynjólfsdóttur, kennara frá Spilavinum, þar sem alls konar borðspil sem miða að samskiptafærni og hópefli voru kennd.
 • Forritunarsmiðja sem var í höndum Tómasar Alexanders Árnasonar.
 • Myndlistarsmiðja í höndum Evu Lindar Jóhannsdóttur, myndlistarkennara í Grunnskóla Borgarfjarðar. Hún hefur oft komið að smiðjum um frjóa og skapandi vinnu.
 • Danssmiðja var í höndum eins af vinsælustu danskennurunum hjá World Class, Bergdísar Rúnar Jónasdóttur.
 • Grjót- og torfhleðslusmiðja í höndum Unnsteins Elíassonar hleðslumeistara frá Ferjubakka.
 • Amerískur fótbolti, smiðja sem var í höndum Brynjars Björnssonar og Viðars Gauta Önundarsonar en þeir eru brautryðendur í útbreiðslu og kennslu þessarar íþróttagreinar hér á landi.
Klárir í ameríska fótboltann

Vorsmiðja:

 • Björgunarsveitarsmiðja í höndum Björgunarsveitarinnar Heiðars í Stafholtstungum í Borgarfirði.
 • Tie dye fatalitunar- og stimpilsmiðja var í höndum Þórleifar Guðjónsdóttur tómstundafræðings.
 • Hipp hopp, street dance danssmiðja var í höndum Söndru Simo Erlingsdóttur danskennara.
 • Handknattleikssmiðja sem stýrt var af Gunnari Magnússyni handknattleiksþjálfara.
 • Marokósk matarlist. Smiðja undir stjórn Helenar Rutar Hinriksdóttur sem er  áhugamaður um matargerðarlist.
 • Járn- og stálsmíðasmiðja þar sem Haukur Þórðarson, kennari við LBHI á Hvanneyri, lagði okkur lið með aðstöðu og kennslu.
 • Dalila Lirio snyrtifræðingur leiddi smiðju um umhirðu húðar og förðun.
Brugðið á leik í lok dags þar sem nemendur sjá um skipulag

Hér má sjá lista yfir allar smiðjur sem hafa verið í boði:

 • Frétta-og fjölmiðlasmiðja
 • Glerlistasmiðja
 • Sjálfsvörn
 • Skylmingar
 • Reiðtygjasmiðjur
 • Kvikmyndagerð
 • Ljósmyndun
 • Pinna- og logsmiðjusmiðjur
 • Járn- og stálsmíði
 • Eldsmiðjur
 • Vélvirkjun
 • Fatahönnun
 • Forritun
 • Söng- og tónlistasmiðjur
 • íþróttasmiðjur (handknattleikur, körfuknattleikur, knattspyrna, blak og amerískur fótbolti)
 • Grjót- og torfhleðsla
 • Matreiðsla (ítölsk, mexikönsk, austurlensk, marókósk matargerðarlist)
 • Bakarasmiðjur
 • Leiklistarsmiðjur
 • Stumpsmiðja (ásláttur, líkamstjáning og frumlegar hreyfingar)
 • Myndlist
 • Skyndihjálp
 • Nýsköpunar og legosmiðjur
 • Vísinda- og tilraunasmiðjur
 • Silfursmíði
 • Skartgripasmiðja
 • Tie dye taulitun
 • Ýmiss konar listasmiðjur, s.s. dans, fjöllist, afrískur trommuleikur, afródans, magadans, hipp hopp, street dance
 • Skák
 • Hárgreiðslu- og fléttusmiðjur
 • Förðun-og húðumhirða
 • Bridge
 • Spilasmiðjur
 • Kik box smiðjur
 • Rafiðnaðarsmiðja
 • Kransaskreyting
 • Leðurlistasmiðja

Þeir sem velja matreiðslu hafa séð um að elda mat fyrir hópinn meðan á smiðjunni stendur; kvöldverð á föstudegi og hádegisverð á laugardegi. Það er gaman að sjá hversu vel nemendur leggja sig fram um  að bjóða skólafélögum og gestum upp á góðan og framandi mat, ásamt því að vanda framreiðsluna. Oft skapa þeir skemmtilegan blæ í matsalnum sem tengist því að hafa viðeigandi tónlist eða eitthvað sem minnir á þann stað  sem matreiðslan á uppruna til.

Nemendur í matargerðarlist
Nemendur kynnast nýrri gerð af sjúkrabörum

Það er alltaf spenna fyrir smiðjunum og virkilega gaman að fylgjast með áhuga nemenda, sem og þeirra sem taka að sér að sjá um smiðjurnar hverju sinni. Það má segja að sjá megi nemendur blómstra í verkefnum sínum. Þeir gleyma stund og stað þar sem tímarammi venjubundinna kennslustunda gleymist algerlega.

Almenn ánægja er með verkefnið bæði hjá nemendum og foreldrum sem hefur komið fram í könnunum og mati nemenda eftir helgarnar. Þeir sem hafa kennt í  smiðjunum kveðja okkur yfirleitt með þeim orðum að þeir séu tilbúnir í aðra smiðjuhelgi ef áhugi sé fyrir því. Það eru góð meðmæli með nemendum okkar og verkefninu sjálfu.

Hér má að lokum sjá nokkur dæmi um umsagnir nemenda sjálfra um smiðjuhelgarnar:

 • Er búin að bíða svo lengi eftir að fá að taka þátt í smiðjum, þetta var frábært.“
 • Vildi að ég ætti möguleika á að taka þátt í fleiri en einni smiðju yfir helgina svo margt áhugavert í boði.“
 • Amerískur fótbolti er frábær íþrótt ‒ getur skólinn ekki boðið upp á kennslu í þessari grein alltaf.“
 • Tókst að klára að gera beisli og taum, ég ætla að gefa vini mínum þetta í fermingargjöf. Binni kennari frábær.“
 • Við kynnumst á nýjan hátt krakkarnir.“
Danshópur Söndru
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Skildu eftir svar

Your email address will not be published.

*

Fara í Topp