Anna Gréta Guðmundsdóttir
Þessi grein er útdráttur úr bókinni Ég get ákveðið hvað ég bý til, ég hugsa það mjög vel með huganum sem unnin var í Sæborg vorið 2016. Í henni segir frá því hvernig jólagjöf barnanna í Sæborg hefur þróast frá því að vera kennarastýrð yfir í það að börnin ákveða hvað sjálf viðfangsefnið og hvaða efnivið þau vilja nota. Bókina sjálfa er að finna hér.
Í Sæborg er unnið í anda Reggio Emilia en uppruna stefnunnar má rekja til bæjarins Reggio Emilia á Ítalíu. Frumkvöðull þessarar stefnu, Loris Malaguzzi, sagði að börn fæðist með hundrað tungumál en að við rænum af þeim níutíu og níu. Það sem hann átti við er að tjáningarleiðir barna eru ákaflega fjölbreyttar og við, kennarar og foreldrar, verðum að gefa þeim tækifæri til að tjá sig á margvíslegan hátt. Litið er á hvert barn sem sterkan einstakling sem hefur mikið fram að færa; hugmyndir, tilfinningar, reynslu og þekkingu.
Líkt og í flestum leikskólum var sú tíðin í Sæborg að kennarar á hverri deild ákváðu hvað börnin skyldu búa til handa foreldrum sínum. Ekkert eða lítið samráð var haft við börnin um hvað þau vildu eða hverju þau hefðu áhuga á. Því var jólagjöfin að mestu leyti merkingarlaus í augum barnanna þar sem þau höfðu lítið eða ekkert um gjöfina að segja.
Haustið 2008 ákváðu kennarar á næstelstu deild Sæborgar að hlusta á raddir og skoðanir barnanna í tengslum við jólagjöfina. Eftir á að hyggja er það okkur óskiljanlegt að okkur hafi ekki dottið þetta í hug fyrr þar sem starf okkar gekk að miklu leyti út á að hlusta á raddir og skoðanir barnanna, eða við stóðum a.m.k. í þeirri trú. Stundum eru hefðir og venjur svo rótgrónar að fólk hættir að velta því fyrir sér hvers vegna þær haldast eins árum saman og hvaða ástæður lágu að baki þeim. Sennilega hefur hugmyndin um að börnin byggju til jólagjöf handa foreldrum sínum þótt skemmtileg en mest áhersla lögð á að gefa en ekki skapa. Eins er mun fljótlegra og praktískara að láta öll börnin gera eins. Jafnvel er hægt að klára allar gjafirnar á tveimur dögum. En við vildum breyta því.
Þetta fyrsta ár héldum við fund með börnunum í nóvember og viðruðum þessa hugmynd. Þau voru að sjálfsögðu spennt og flest höfðu ýmsar hugmyndir. Við spurðum börnin á fundinum hvað hver vildi búa til, úr hvaða efnivið og skráðum það hjá okkur. Ýmsar sniðugar hugmyndir komu fram eins og StarWarsBlóm með Storm Troopers á, bækur og málaðar myndir. Svo hófst gríðarlega skemmtileg vinna við að aðstoða börnin að framkvæma allar þessar frábæru hugmyndir á skapandi hátt þar sem börnin sjálf voru við stjórnvölinn. Það er vissulega talsvert meiri vinna fyrir kennara og börn að skipuleggja hvernig hægt er að búa til 24 ólíkar gjafir í stað þess að allir gefi handafar úr leir eða barnamatskrukku með salti á.
Þetta tók og tekur tíma en þessum tíma er ótrúlega vel varið. Þennan fyrsta vetur var það bara næstelsta deildin sem vann jólagjafirnar á þennan hátt en þar með var komið fordæmi. Næsta ár unnu tvær elstu deildirnar jólagjafir á þennan hátt og tveimur vetrum síðar bættist næstyngsta deildin við. Það eru því bara yngstu börnin sem hafa ekki bein áhrif á hvað þau gefa foreldrum sínum í jólagjöf. Hins vegar höfum við alveg hætt að „láta“ þau búa eitthvað til heldur gefa þau yfirleitt foreldrum sínum stóra ljósmynd af sér sjálfum að „mála á bleiunni“. Þótt þau hafi ekki áhrif á hver gjöfin er má samt með mikilli vissu segja að gjöfin sé merkingarbær fyrir þau. Ljósmyndin er tákn og minning um upplifun, undrun, reynslu og gleði.
Leiðin að hugmyndinni hjá hverju barnið er ólík. Sum börn ákveða fyrst viðfangsefnið og svo efniviðinn í framhaldi af því en önnur fara hina leiðina. Fyrst er efniviðurinn valinn og hann dregur fram viðfangið. Sumir ákveða að búa til kranabíl úr leir á meðan aðrir hnoða og úr leirnum fæðist álfur. Oft breytist hugmyndin og viðfangið eftir því sem barnið á í meiri samskiptum við efniviðinn.
Við áttuðum okkur einnig smám saman á því að börnin urðu að þekkja efniviðinn vel til að geta og vilja vinna með hann. Sem dæmi má nefna að fyrstu árin völdu afar mörg börn að mála mynd, búa til úr leir eða teikna enda var þetta efni og aðferðir sem þau þekktu vel. Þegar við fórum að rýna í ástæðurnar áttuðum við okkur á því að ekkert barn stingur upp á því að búa til Súperman úr ull ef barnið hefur ekki áður unnið með efniviðinn. Í framhaldi af þeirri uppgötvun varð skapandi vinna með efnivið markvissari á allan hátt. Börnin umgengust, léku og unnu með fjölbreyttari efnivið, bæði í listasmiðju og á deildum. Þannig mynduðu þau tengsl við efniviðinn og uppgötvuðu fleiri áhugasvið.
Á þessum árum vorum við sífellt að ígrunda hugmyndir okkar í tengslum við skapandi ferli barnsins við jólagjöfina. Vorum við t.d. að stýra of mikið? Lokuðum við á einhverjar hugmyndir af því að okkur fannst þær of erfiðar eða jafnvel óframkvæmanlegar? Upplifðu börnin raunverulegt frelsi í vinnunni? Vissulega gerðumst við sek um slíkt í einhverjum tilvikum en smám saman lærðum við að sleppa takinu og treysta börnunum. Einn drengur ákvað að búa til skyrtu handa foreldrum sínum úr plasti en það er virkilega frumleg og metnaðarfull hugmynd sem við hefðum vissulega stoppað á einhverjum tímapunkti. Þessi plastskyrta varð hins vegar að veruleika eftir að drengurinn teiknaði hugmyndina sína, sneið plastið í þá stærð sem hann taldi rétta og skreytti skyrtuna með línum og doppum sem hann klippti út og límdi á hana. Foreldrar hans fengu því skósíða plastskyrtu í jólagjöf frá barninu og voru að vonum ánægðir með frumlegheitin. Mestu máli skipti hins vegar hversu stoltur og ánægður drengurinn var. Þar liggur einmitt kjarni málsins, þ.e. hvaða tilfinningar bera börnin til verksins? Eftir því sem þau hafa meira um gjöfina að segja og stýra ferlinu öðlast þau trú á sig sjálf og finna gleðina í því að skapa.
Líkt og fram kemur að ofan vinna kennarar ýmsar skráningar um hugmyndavinnuna, rannsókn barnanna á efniviðnum, samskipti og ýmislegt fleira. Í þemavinnu er mikið af skráningum úr umræðum í hópum og samvinnuverkefni þótt börn vinni samt einhver verkefni sjálf. Að mestu eru þó skráningarnar skrár hópsins þar sem horft er á samvinnu og hugmyndavinnu hópsins.
Skráningar á vinnunni við jólagjafirnar gefa okkur hins vegar einstakt tækifæri til að fylgjast með ferli hvers barns, frá því að það fær hugmynd og þar til hugmyndin er fullunnin. Við leggjum mikla áherslu á að halda vel utan um skráningu ferlisins hjá hverju barni, skanna skissur og taka reglulega ljósmyndir af vinnunni. Við horfum á sjálfstæði barnanna í þessum skráningum, lausnaleit þeirra, ímyndunarafl og frumleika.
Grein birt 15.12.2015
Anna Gréta Guðmundsdóttir er deildarstjóri í leikskólanum Sæborg