Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Greinasöfn úr efnisflokkum

Pistlar- síða 3

Hvers vegna skilar gagnvirkur lestur árangri?

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Á níunda áratug síðustu aldar urðu þáttaskil í rannsóknum á lesskilningi. Palinscar og Brown (1984) hófust þá handa með rannsókn sem fól í sér að aðstoða nemendur á miðstigi sem gátu afkóðað texta en áttu í vandræðum með að skilja þá og muna. Þróuðu það sem á ensku nefnist reciprocal teaching en á íslensku gagnvirkur lestur og felst í því að kenna nemendunum að nálgast texta með skipulegum hætti (Anna Guðmundsdóttir, 2007; Guðmundur Engilbertsson, 2013; Rósa Eggertsdóttir, 1998). Palinscar og Brown höfðu áður komist að raun um að góðir lesarar hafa (án þess að vera meðvitaðir um það) tileinkað sér ákveðið lestrarlag. Þeir spyrja sjálfa sig spurninga um textann, um hvað hann snúist, staldra við þegar þeim finnst þeir ekki vera með á nótunum, leitast við að greina aðalatriði og lesa á milli lína í leit að merkingu. Lesa meira…

Alþýðukennslufræði og forhugmyndir

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

… þegar við búumst til að rannsaka það sem á sér stað í kennslustofu … er eins gott að við tökum mið af þeim alþýðukenningum sem þar eru við lýði (Bruner, 1996, bls. 46).

Drjúgan hluta starfsferils míns fékkst ég við að kenna fólki að kenna og þá sérstaklega verðandi framhaldsskólakennurum á sviði náttúrufræðigreina. Ég kom á laggirnar sérstöku námskeiði fyrir þessa kennaranema en fylgdist líka með þeim á vettvangi þegar þeir voru að taka sín fyrstu skref í kennslu. Í námskeiðinu kynnti ég þeim „fræðin“ eins og vera ber og þá sérstaklega svokallaða hugsmíðahyggju sem hefur átt vinsældum að fagna meðal fræðimanna á sviði náttúrufræðimenntunar undanfarna áratugi. Eins og nafnið gefur til kynna lítur hún á nemandann (og fólk yfirleitt) sem þekkingarsmið. Frá blautu barnsbeini, segir hún, er einstaklingurinn stöðugt að leitast við að koma reglu á það sem hann sér, heyrir og finnur og smíðar þá úr reynslu sinni og af samskiptum sínum við annað fólk hugmyndir um fyrirbæri eins og ljós, hita, rafmagn, erfðir, loft, krafta og hreyfingu hluta. Slíkar forhugmyndir eins og þær eru oft kallaðar (preconceptions) virðast oft lífsseigar, halda velli jafnvel þó þær gangi í berhögg við vísindalegar hugmyndir. Í bók sem kom út á vegum Bandaríska vísindaráðsins (National Research Council) árið 1999 og ber heitið How People Learn er bent á þetta og því beint til kennara að þeir taki forhugmyndir barna alvarlega:

Nemendur koma í skólastofuna með forhugmyndir um það hvernig heimurinn virkar. Ef þessi skilningur þeirra er látinn óhreyfður er hætta á að þeir skilji ekki ný hugtök og upplýsingar eða að þeir læri þessi hugtök og upplýsingar eingöngu til að nota á prófi en að forhugmyndirnar ráði utan kennslustofunnar (bls. 10). Lesa meira…

Að skrifa til að skilja: Ritun sem rannsókn

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson 

We don´t simply think first and then write. We write to think (Estrem, 2015, bls. 19)

 

Hinn 7. júní 2017 birtist á netmiðlinum Vísi grein eftir Kristjönu Björgu Guðbrandsdóttur þar sem hún fjallar um og á viðtal við norska metsöluhöfundinn Karl Ove Knausgard sem var staddur hér á landi í tilefni alþjóðlegrar ráðstefnu óskáldaðra bókmennta. Umfjöllun Kristjönu ber yfirskriftina Skrifar til að skilja tilvistina (sjá hér). Hér er auðvitað átt við Karl Ove. Lesa meira…

Þungir textar og ungir viðtakendur

í Pistlar

 

Helgi Skúli Kjartansson

 

 

 

Ég las fyrir skemmstu á Skólaþráðum merkilegan pistil deildarforseta míns, Baldurs Sigurðssonar, um læsi (sjá hér), bæði um furðuvíðáttur þess margteygða hugtaks og um gildi þeirrar færni sem læsi í eiginlegustu merkingu felur í sér. Baldur víkur m.a. að

umræðu um Kardimommubæinn, síðast þegar hann var sýndur í Þjóðleikhúsinu. Þá höfðu einhverjir orð á því að börnin skildu ekki textann, að orðin og setningarnar væru of erfið fyrir nútímabörn. … Og hvað var lagt til? Jú, að þýða leikritið aftur á einfaldara mál.

Í þeirri tillögu „birtist í hnotskurn,“ segir Baldur, viðhorf sem hann lýsir svo:

Þegar við mætum hinu auðuga og óvenjulega, einhverju sem reynir á, finnst okkur sjálfsagt að láta undan, hörfa með tungumálið, fækka orðunum í stað þess að fjölga þeim, taka tungumálinu sem áskorun, og glíma við það, eða nota það sem tækifæri til að læra meira

Tillagan um einfaldari þýðingu er í stíl við röksemd sem ég heyri iðulega um kennslubækur eða annað námsefni: að það þurfi að vera „á máli sem börnin skilja“ – þannig meint að í því komi helst ekki fyrir orð, orðasambönd eða setningagerðir sem ekki sé öruggt að þorri nemenda þekki og skilji fyrirfram. Lesa meira…

Að ljá textum merkingu

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Í þættinum Blaðað í sálmabókinni  hinn 5. október síðastliðinn segir umsjónarmaðurinn, Una Margrét Jónsdóttir, frá því hvernig hún sem barn skildi eða öllu heldur misskildi aðra ljóðlínuna í öðru erindi sálmsins Ó, Jesú bróðir besti:

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái‘ að spilla.

Þegar Una Margrét var barn voru blandaðir ávextir í dós, stundum nefndir „kokteil ávextir“, afar vinsælir enda nýmæli þá hér á landi. Þegar hún söng „og góðan ávöxt bera“ sá hún sjálfa sig bera fram þessa ávexti í fallegri skál. Þannig túlkaði hún ljóðlínuna. Lesa meira…

Punktar um læsi (í víðum skilningi)

í Greinar/Pistlar

Baldur Sigurðsson

 

Menntastefna Reykjavíkurborgar er nú í undirbúningi. Hluti þessarar stefnumörkunar beinist að læsi í víðum skilningi eins og það er kallað í drögum sem lögð hafa verið fram til umræðu (sjá hér). Þess var óskað að ég tæki að mér að skoða þessi áform, greina þau og ræða, auk þess að setja fram hugmyndir um sóknarfæri.

Læsi í hefðbundnum skilningi eða læsi í víðum skilningi. Það skiptir töluverðu máli hvaða skilningur er lagður í læsishugtakið, og það ætla ég að ræða í byrjun, en víkja svo að öðru. Lesa meira…

SAMræður í skólastarfi

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

Aðeins straumur samræðunnar glæðir orð merkingarlegu lífi (Vološinov, 1929/1994, bls. 36)[i]

Líklega efast fáir um það að samræður gegni mikilvægu hlutverki í skólastarfi. Það blasir jú við að kennarar og nemendur tala mikið saman og ósjaldan er nemendum skipað í hópa í þeim tilgangi að ræða saman um tiltekið viðfangsefni og í þeirri trú að samræðan skili árangri og að nemendur læri af því að tala saman. Sumir kennarar telja samræðuna lykil að góðum skilningi á námsefn og að án samræðu verði enginn eða takmarkaður skilningur. Nemendur verði, segja þessir kennarar, að fá tækifæri til að ræða málin, setja fram hugmyndir, skiptast á skoðunum, spyrja, leita skýringa og heyra ólík sjónarmið. Að öðrum kosti er hætt við að námið verði yfirborðskennt. Aðrir eru fullir efasemda, telja að oftar en ekki komi lítið sem ekkert út úr samræðum í hópavinnu. Nemendur séu oft ófúsir til slíkra samræðna (vilji frekar láta mata sig) og ekki nógu vel að sér til að geta rætt málin af einhverju viti. Lesa meira…

Tungumálið sem stýriafl og vitsmunalegt verkfæri

í Pistlar


Hafþór Guðjónsson: 

Arfur liðinna kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda (Marx, 1869/1968, bls. 119).

Tungumálið er meginskilyrði þekkingarsköpunar. Það er í gegnum tungumálið sem reynsla verður að þekkingu (Halliday, 1993, bls. 94).

Okkur er tamt að hugsa um tungumálið sem eitthvað aðskilið frá æðri vitsmunum, til dæmis skynjun. Michael Tomasello, þróunarsálfræðingur við Max Planck stofnunina í Leipzig í Þýskalandi, lítur öðrum augum á málið:

Í mínum huga er tungumálið sérstakt form vitsmuna sérstaklega hannað í þeim tilgangi að  auðvelda samskipti manna … Menn vilja deila reynslu sinni hver með öðrum og hafa því, með tímanum, skapað tákn og málvenjur til að gera það. Þegar börn tileinka sér þessi tákn og þessar málvenjur fara þau að skynja hluti á ákveðna vegu sem þau hefðu annars ekki getað … (Tomasello, 1999, bls. 150).

Lesa meira…

Nám og meðnám

í Pistlar


Hafþór Guðjónsson, dósent


Skólastarf, frá og með miðstigi grunnskóla, snýst að verulegu leyti  um að kenna ákveðnar námsgreinar. Þá koma námsbækurnar inn með fullum þunga og námið felst einkum í því að tileinka sér það sem stendur í námsbókunum og kunna það til prófs. Dewey (1938/2000) víkur að þessu í bókinni Experience and Education, gagnrýnir þar hefðbundið skólastarf fyrir að vanrækja að taka með í reikninginn það sem lærist óbeint og er hvass í máli:

Ef til vill er hin mesta af öllum kennslufræðilegum villum fólgin í þeirri hugmynd að maður læri einungis þann sérstaka hlut sem hann er að læra um þá stundina. Það sem lærist óbeint eins og t.d. myndun varanlegra viðhorfa, jákvæðra og neikvæðra, getur verið og er oft langtum mikilvægara en sú lexía í stafsetningu, landafræði eða sögu sem lærð var. Því þessi viðhorf koma til með að skipta mestu máli í framtíðinni. Langmikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra (bls. 58). Lesa meira…

Nám sem þátttaka

í Pistlar

myndHafþór Guðjónsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands


Since the dawn of civilization, human learning is conceived of as an aquisition of something. Indeed the Collins English Dictionary defines learning as “the act af gaining knowledge”  (Sfard, 1998, bls. 5).


Hefðin kennir okkur að hugsa um nám sem viðtöku eða upptöku þekkingar. Þekking er þá eitthvað sem fyrri kynslóðir hafa skapað og sett í letur, yrðingar um hluti og fyrirbæri, eitthvað sem staðist hefur tímans tönn og við köllum ýmsum nöfnum, til dæmis staðreyndir, kenningar, lögmál, reglur eða formúlur. Kennslubækur eru fullar af svona yrðingum og það gefur þeim sérstaka virðingarstöðu. Fullkomin kennslubók geymir allt sem ungur nemandi þarf að vita, sagði kennari í rannsókn sem Ingvar Sigurgeirsson (1992, bls. 279) gerði á notkun námsgagna á miðstigi grunnskólans. Að minni hyggju endurspegla þessi orð kennarans ríkjandi viðhorf til náms. Að læra námsgrein í skóla felur í sér að tileinka sér það sem stendur í námsbókinni og leggja það á minnið. Um þetta hverfist skólastarfið að verulegu leyti, nokkuð sem endurspeglast í þungri áherslu á skrifleg próf sem ganga jafnan út á að kanna hvort og í hve ríkum mæli nemendur hafa tileinkað sér það sem stendur í námsbókinni. Lesa meira…

Fara í Topp