Súsanna Margrét Gestsdóttir
Mörg þekkjum við til nemenda sem koma uppveðraðir heim úr skólanum eftir líflegar samræður um brennandi málefni sem hátt ber. Spennandi er að fá tækifæri til að lyfta umræðu sem hvort eð er á sér stað utan skólastofunnar upp fyrir karp sem gjarnan snýst um að „vinna“ samtalið og taka þess í stað þátt í rökstuddum samræðum þar sem mörg sjónarhorn eru skoðuð, án þess að markmiðið sé að ákvarða hvert þeirra sé best. Því má slá föstu að líklegra sé að nám eigi sér stað ef viðfangsefnin tengjast reynsluheimi nemenda og tilgangurinn með því að fjalla um þau sé því auðsær. Áratugum saman hafa þau sem aðhyllast hugsmíðahyggju varpað ljósi á mikilvægi þessa (sjá t.d. Bada og Olusegun, 2015), bæði til þess að nemendur geti byggt ofan á eða í kringum fyrirliggjandi þekkingu sína og til að þeir séu virkir þátttakendur í eigin námi, frekar en óvirkir viðtakendur. Að færa samtímaumræðu og dægurmenningu inn í skólastofuna er upplögð leið að þessum markmiðum.
Margvíslegur tilgangur
Rétt er að vekja athygli á því að sú krafa er gerð til kennara að þeir efli gagnrýna hugsun og ræði siðferðileg álitamál (Siðareglur KÍ, 2022) og fátt getur verið betur til þess fallið en umræða um samtímamálefni. Hún getur farið fram á margvíslegum forsendum, hvort sem er sem hluti af námsþætti, til að örva rökstuddar umræður (sem eru þá markmið í sjálfum sér) eða sem kveikja til að hefja eða brjóta upp kennslu og grípa athygli nemenda. Í slíkri kennslustofu eru góðar líkur á því að skapandi kennsluhættir séu hafðir að leiðarljósi en sköpun er einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt íslenskum aðalnámskrám (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011; Aðalnámskrá grunnskóla, 2024). Þar finna nemendur til þess öryggis sem nauðsynlegt er til að geta spurt erfiðra spurninga og orðað óljósar vangaveltur því að þar er tilraunamennsku fagnað og sveigjanleiki nægur til að koma til móts við það sem hæfir nemendahópnum hverju sinni (Starko, 2018; Zevin, 2013). Að nýta samtímaumræðu í námi og kennslu hjálpar kennurum að koma enn betur til móts við fjölbreyttan nemendahóp þar sem sjónarmið eru mörg og ólík. Nemendur setja mark sitt á það sem tekið er fyrir í kennslunni þegar þeir fá að velja umræðuefni eða viðra ólíkar skoðanir og rökstyðja þær. Þar er nemendum séð fyrir nauðsynlegri vitsmunalegri áskorun en um þörfina fyrir að efla hana í íslenskum kennslustofum er fjallað í nýlegri bók um gæði kennslu (Jóhann Örn Sigurjónsson og Berglind Gísladóttir, 2025). Það skal tekið fram að hér er ekki átt við kennslu ágreiningsefna og álitamála sem töluvert hefur verið fjallað um, ekki síst í samhengi við sögukennslu, og er efni í aðra grein.
Stuðningur við kennara
Ekki er nóg að brydda einfaldlega upp á umræðuefni eða varpa fram spurningu og sjá svo til hvað gerist. Nauðsynlegt er að æfa nemendur í samræðum þar sem þátttakendur hlusta, svara, rökstyðja, meta, bera saman, einbeita sér að málefnum fremur en mönnum og svo mætti áfram telja. Gríðarlegt úrval er af vönduðu efni sem styður kennara við að efla þennan þátt kennslu sinnar. Þar má til að mynda leita til samtakanna Facing history and ourselves sem bjóða upp á mikið safn góðra verkfæra og leiðbeininga fyrir kennara sem vilja takast á við samtímamálefni (Current events toolkit, 2025). Hafa má gagn af Litrófi kennsluaðferðanna (Ingvar Sigurgeirsson, Súsanna Margrét Gestsdóttir og Svava Pétursdóttir, 2025), einkum 4. kafla, og Listinni að spyrja (Ingvar Sigurgeirsson, 2016). Ekki má gleyma bók Jóns Thoroddsen, Gagnrýni og gaman. Samræður og spurningalist (2016) en Jón náði frábærum árangri í að þjálfa nemendur sína í unglingadeild í vönduðum umræðum um hvers kyns málefni. Lykilorðið hér er þjálfun og kennarar mega ekki missa kjarkinn þó að nemendur birtist ekki sem fimir þátttakendur í umræðum í fyrstu tilraun, og jafnvel ekki annarri eða þriðju.

Hætta á ferðum?
Gera má ráð fyrir því að það sem hér hefur verið nefnt komi mörgum lesendum fyrir sjónir sem almæltur sannleikur og að þeim finnist lítið koma til kennslu sem ekki fagnar tækifærum til að grípa spennandi samtímamálefni og nýta þau til að auðga kennslustundirnar. Tilefni þessara skrifa er þó það að reglulega blossar upp harðorð gagnrýni, jafnvel árásir, á kennara sem gera einmitt þetta (Súsanna Margrét Gestsdóttir, 2023). Oftast er það á þeim forsendum að með því að taka málefni líðandi stundar fyrir í kennslu hljóti kennarar að vera að misnota aðstöðu sína til að stunda innrætingu á ógeðfelldum viðhorfum. Þau sem grípa til yfirlýsinga á þeim nótum hafa þó sjaldnast nokkra hugmynd um samhengi umfjöllunarinnar, hvaða tökum viðkomandi kennarar taka málin, hvernig þau eru lögð upp og hvað gerist í kennslustofunni. Nýjustu dæmum hefur verið svarað efnislega annars staðar (sjá t.d. Ása Lind Finnbogadóttir, 2025; Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, 2025) en einnig er rétt að vísa aftur í siðareglur Kennarasambands Íslands þar sem kveðið er á um að kennari sé meðvitaður um valdastöðu sína og misnoti hana ekki (Siðareglur KÍ, 2022). Að sjálfsögðu þarf að gera þá kröfu til kennara að halda faglega á málum í þessari kennslu sem annarri og að sjálfsögðu þarf að bregðast við ef misbrestur er þar á. En engu að síður er full ástæða til ítreka, og margítreka, að það er til fyrirmyndar að gefa nemendum tækifæri til að fjalla um brýn samtímamál í skólastofunni og meiri hætta á því að kennarar sem skauta fimlega framhjá eldfimum málefnum bregðist samfélagsábyrgð sinni og svipti nemendur frábærum námstækifærum.
Heimildir
Aðalnámskrá framhaldsskóla. (2011). https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Adalnamskra%20framhaldsskola_2_utg_breyt_2015_.pdf
Aðalnámskrá grunnskóla. (2024). https://www.adalnamskra.is/grunnskoli
Ása Lind Finnbogadóttir. (2025, 25. september). Sumt er bara ekki hægt að rökræða. Vísir. https://www.visir.is/g/20252780180d/sumt-er-bara-ekki-haegt-ad-rokraeda
Bada, S. O., & Olusegun, S. (2015). Constructivism learning theory: A paradigm for teaching and learning. Journal of Research & Method in Education, 5(6), 66-70. https://iosrjournals.org/iosr-jrme/papers/Vol-5%20Issue-6/Version-1/I05616670.pdf
Current events toolkit. (2025). Facing history and ourselves. https://www.facinghistory.org/resource-library/current-events-toolkit
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir. (2025, 30. september). Um kynjafræði og pólitík. Vísir. https://www.visir.is/g/20252781874d/um-kynjafraedi-og-politik
Ingvar Sigurgeirsson, Súsanna Margrét Gestsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2025). Litróf kennsluaðferðanna. Iðnú.
Ingvar Sigurgeirsson. (2016). Listin að spyrja: Handbók fyrir kennara. Sögur.
Jóhann Örn Sigurjónsson og Berglind Gísladóttir. (2025). Vitsmunaleg áskorun. Að virkja hugsun nemenda. Í Anna Kristín Sigurðardóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson (ritstj.). Gæði kennslu. Námstækifæri fyrir alla nemendur. Háskólaútgáfan.
Jón Thoroddsen. (2016). Gagnrýni og gaman. Samræður og spurningalist. Iðnú.
Siðareglur Kennarasambands Íslands. (2022). https://www.ki.is/um-ki/stefna-ki/sidareglur/
Starko, A.J. (2018). Creativity in the classroom. Schools of curious delight. Routledge.
Súsanna Margrét Gestsdóttir. (2023, 17. janúar). Á að ritskoða kennara? Vísir. https://www.visir.is/g/20232366085d/a-ad-ritskoda-kennara-
Zevin, J. (2013). Creative teaching for all. In the box, out of the box, and off the walls. Rowman & Littlefield education.
Um höfund
Súsanna Margrét Gestsdóttir (susmar(hja)hi.is) er dósent við Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er sagnfræðingur og kennari að mennt og hefur starfað við sögukennslu, kennaramenntun og sem stjórnandi í framhaldsskóla. Súsanna Margrét hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu starfi þeirra sem standa að sögukennslu og menntun sögukennara og hún lauk doktorsnámi á því sviði við Háskólann í Amsterdam. Í starfi sínu leggur hún áherslu á tengsl háskólans við starfsvettvang kennara.
