Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

KYNið í Borgó 10 ára: Upphaf, þróun og framtíðarsýn

í Greinar

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

… ég lærði … hversu mikilvægt það er að brjóta þessar staðalímyndir sem ríkja um karlmenn og kvenmenn. Draumarnir mínir eru t.d. að vera flugmaður, lögreglukona og með því atvinnukona í fótbolta. Þetta eru allt rosalega karlmannsleg störf en í einum tímanum í kynjafræði fékk ég einhverja tilfinningu, svona sigurtilfinningu, um það hvað mig langaði miklu meira að rústa þessum köllum í þessum störfum og ekki láta neitt svona stoppa mig … (18 ára nemandi í KYN 103).

Fyrir sléttum tíu árum hafði ég starfað í eitt ár sem kennari við Borgarholtsskóla, en þangað réði ég mig strax eftir útskrift frá Háskóla Íslands, með MA gráðu í kennslufræðum. Áhugi minn á jafnréttismálum hafði leitt mig áfram í námi mínu þar, en í einu verkefnanna ákvað ég að gera óvísindalega könnun á því hvort jafnréttisfræðsla væri hluti af námi nemenda í framhaldsskólum. Í ljós kom að hvergi var kenndur áfangi um þetta málefni sérstaklega þó vissulega væru margir kennarar sem fjölluðu um jafnréttismál í kennslu sinni, t.d. í lífsleikni og félagsfræði, en það var hvorki kerfisbundin né markviss, heildstæð jafnréttisfræðsla. Verandi femínisti til margra ára þekkti ég jafnréttislögin frá 1975, sem voru endurskoðuð árið 2008, þar sem kveðið er á um að jafnréttisfræðsla skuli fara fram á öllum skólastigum (sjá hér).

Með þessa niðurstöðu í farteskinu þá byrjaði strax í upphafi kennsluferilsins að gerjast í mér hugmynd um að bæta úr þessari stöðu og fara að lögum, ég hafði þá vissu að átaksverkefni dygðu ekki til að vinna með viðhorf – ítarlegri fræðsla þyrfti að fara fram og verða markviss og kerfisbundin hluti af menntakerfinu

Á fundi með þáverandi kennslustjóra bóknáms fór ég þess á leit að fá að þróa jafnréttisfræðsluáfanga og bjóða nemendum sem valáfanga. Því var strax vel tekið. Ég skrifaði áfangalýsingu þar sem ég rammaði inn flest svið samfélagsins þar sem kynjunum er mismunað – sem eru flest eða hreinlega öll. Ég hafði lýsinguna opna því ég vissi að ég yrði að leika af fingrum fram. Áfangastjóri hjálpaði mér síðan að finna nafn á nýja barnið – og úr varð KYN 103. Ekki tókst þó að fá lágmarksfjölda nemenda í fyrsta kastinu, en það tókst í annarri tilraun. Fimmtán nemendur urðu brautryðjendur í ævintýri sem hefur ekki enn tekið enda. Ég kalla þetta ferðalag sannarlega ævintýri, því ekki óraði mig fyrir því í upphafi, að viðbrögðin yrðu þau sem raun bar vitni.

Það sem blasti við óreyndu kennslukonunni, þegar tókst að smala í hóp, var að búa til áfanga. Eftir á að hyggja þá reyndist mér best að hafa hugrekki til að gera tilraunir og vera óhrædd við að mistakast – því mistökin urðu lærdómur. Ég var líka alveg viss um að KYNið yrði að vera óhefðbundið, þar sem viðhorf, tilfinningar og gildi nemenda yrðu í forgrunni í stað hefðbundinna þekkingarmarkmiða. Ég vildi nota samtalið til að læra og fá nemendur til að taka þátt, koma með hugmyndir, ræða, hlusta og ígrunda. Lýðræðishugmyndin var frá upphafi tengd áfanganum; að nemendur upplifðu að þeir „ættu“ hlut í honum, fengju að hafa áhrif á námsmat, hefðu val í náminu, borgaravitund þeirra væri virkjuð og þeir yrðu valdefldir.

Námsefnið var í upphafi samtíningur og verkefnin stóðust engan veginn kröfur sem hefðbundið framhaldsskólanám gerði. KYN 103 var öðruvísi og átti að vera öðruvísi, en áfanginn gekk og gengur enn út á að höfða til tilfinninga og viðhorfa nemenda og ögra viðteknum hugmyndum þeirra og gildum.

Ég áttaði mig mjög fljótlega á því að ég væri með verðmæti í höndunum. Stúlkurnar í fyrsta hópnum (það byrjaði einn strákur hann hafði aðeins misskilið titilinn og hætti) brugðust svo vel við tilrauninni að áfanginn skapaði sér strax sess í námskrá skólans sem valáfangi.

Upplifun nemenda á KYNinu er vitaskuld nákvæmasti og besti mælikvarðinn á hann. Gefum einni orðið:

Kynjafræði er að mínu mati lífsnauðsynlegur áfangi, og mér finnst að hann ætti helst að vera kenndur í öllum grunnskólum líka. Þetta er eitthvað sem allir þurfa að læra. Með því að taka þennan áfanga hefur maður lært að tileinka sér mótunarhyggju og losnað við fullt af fordómum sem maður hafði kannski áður, ómeðvitað. Maður gerði sér í rauninni ekki grein fyrir því hvað við værum komin stutt á leið að jafnrétti kynjanna. Nú hef ég augun alltaf opin og tek eftir því þegar verið er að mismuna fólki eftir kynjum, og það er, sko, ekki sjaldan. Ég hafði heldur aldrei áður gert mér grein fyrir þessum óraunhæfu staðalmyndum sem maður er alltaf að reyna að fylgja, og get í rauninni sagt það að hafa setið í kynjafræði hafi gert mig ánægðari með sjálfa mig og styrkt sjálfsmyndina mína verulega.

Það kom fljótt í ljós að nemendur höfðu ákveðnar skoðanir á áfanganum og langflestir nemendur hafa ítrekað í dagbókarskrifum sínum, sem eru hluti af námsmati, að þeim finnist að áfanginn eigi að vera skylda og kenndur á fleiri skólastigum. Þetta sagði 19 ára piltur:

… Þegar ég byrjaði í kynjafræði var ég smá karlremba í mér, ég skaut mikið á kvenmenn, t.d. eins og hvernig þær keyra (sem er virkilega heimskulegt út af því að karlkynið veldur fleiri slysum í umferðinni en kvenmenn), ég notaði orðið kelling mjög mikið, þegar einhver gat ekki gert einhvern ákveðinn hlut. Þessi áfangi sýndi og kenndi mér líka hluti sem ég hafði ekki einu sinni hugsað útí áður eins og hvernig kvenmönnum er stillt upp í auglýsingum, hvernig líkami þeirra er notaður eins og í mörgum bjórauglýsingum. Hvað það er illa farið með fólk, aðallega konur í klámmyndum og hvað er skrifað um þær aftan á coverinu. Ég hafði heldur ekki hugmynd um hversu auðveldlega er hægt að verða sér úti um vændi hér á landi. Svo að jafnrétti náist í landinu þarf að fræða fólk, og fróðleikurinn kemur með lærdómi. Það ætti að byrja með kynjafræði á grunnskólastigi ….

Ég hef verið dugleg að gera allskonar tilaunir með ýmsa efnisþætti, til dæmis lokaverkefni. Stundum hef ég hvatt nemendur til að skrifa greinar í fjölmiðla eða sökkva sér ofan í afmarkað efni og kynna fyrir öðrum nemendum. Nemendur hafa líka fengið frjálsar hendur og verið mjög skapandi og hugmyndaríkir. Til dæmis hafa þeir farið í fræðsluferðir í gamla grunnskólann sinn, búið til borðspil, skrifað um sára reynslu á uppbyggjandi hátt, búið til vitundarvekjandi plaköt sem hafa oft verið mikil listaverk, gert viðhorfakannanir meðal nemenda skólans um jafnréttismál og búið til bæklinga um kynferðisofbeldi. Facebook er notað kerfisbundið með hópunum og þar eru nemendur virkir, þjálfa sig í notkun á kynjagleraugunum, deila dæmum af kynjaskekkju og eiga samtal.

Hinseginfræðsla hefur komið meira inn í áfangann á síðari árum, sem ég tel mjög mikilvæga fræðslu og nemendur hafa tengt mjög sterkt við. Eins hef ég fengið gesti sem hafa á einhvern hátt unnið með jafnréttismál og víkkað þannig vitund nemenda um málefnið og ljáð þeim aðra sýn en mína. Einnig hef ég notið þeirra forréttinda að hafa haft kennaranema frá HÍ í gegnum tíðina sem hafa veitt mér mikinn innblástur og kennt mér óhemju mikið. Að fylgjast með kennaranemum æfa sig má segja að sé endurmenntandi fyrir leiðsagnarkennara og að eiga kennslufræðilegt samtal reglulega er eins og vítamínskammtur fyrir fagvitundina.

Það má segja að samstarf kynjafræðikennara á skólastiginu sé einstakt. Við höldum úti Facebooksíðu sem er mjög lifandi og miðlar endalausum hugmyndum og efni til að vinna með. Nýir kennarar í faginu fá á síðunni verkfæri og endurgjöf frá eldri kennurum, enda getur verið erfitt að kenna fag þar sem enginn eiginleg kennslubók er til staðar. Kynjafræðikennarar hafa líka haldið nemendaþing (sjá t.d. hér, hér eða hér), þar sem kynjafræðinemendur ólíkra skóla koma saman. Á þessum nemendaþingum hafa kynjafræðikennarar beitt ótrúlegri útsjónarsemi við að gera áhugaverða dagskrá fyrir nemendur sem kostar ekkert. Það er valdeflandi og skemmtilegt fyrir nemendur ólíkra skóla að koma saman og skipast á skoðunum, hlýða á erindi og eiga samtal.

Það var og er endalaus innblástur og hvatning að sjá og heyra hvað nemendum finnst um áfangann svo ég byrjaði strax að breiða út boðskapinn og hef gert æ síðan. Nú, eftir nokkur hundruð fyrirlestra og námskeið hér heima og erlendis um kynja- og jafnréttisfræðslu, er KYNið kennt í flestum framhaldsskólum landsins – og einhverjum grunnskólum. Áfanginn hefur vaxið, dafnað og breyst í tímans rás og á 10 ára afmælinu hefur annar sigur unnist og KYNið verður skyldufag á öllum bóknámsbrautum í Borgarholtsskóla frá haustinu 2017. Það gerðist ekki af sjálfu sér heldur hafa nemendur unnið með mér að þessu í gegnum tíðina. Við þessi tímamót er við hæfi að þakka þeim fjölmörgu nemendum Borgó sem hafa vakið athygli á KYNinu og talað fyrir því að áfanginn yrði skyldufag og að innihald hans væri svo mikilvægt að allir ættu að hafa það í farteskinu út í lífið.

Leiðarstef í orðum nemenda er að ef jafnrétti á að nást í samfélaginu þá þurfi skólakerfið að vera virkur aðili að því með heildstæðri jafnréttismenntun.

Þessi stúlka orðar þetta vel…

… Ef meirihluti Íslendinga væri sömu skoðnar og ég, og ábyggilega allir hinir krakkarnir sem tóku þennann áfanga, þá væri staðan ekki eins og hún er í dag. Ég held að aukin kynjafræðsla í skólum, og jafnvel grunnskólum, sé ein besta leiðin til þess að koma á jafnstöðu í samfélaginu.

Mín sýn á framtíð kynjafræðslu í skólakerfinu er einföld. Við þurfum að mennta alla kennara á öllum skólastigum í kynjafræðum til að þeir verði færir um að vinna samkvæmt bæði landslögum og námskrám. Jafnframt gegna nemendur mikilvægu hlutverki í innleiðingu á jafnrétti í skólum, ekki síst þeir sem eru í forsvari nemendafélaga. Félagslíf nemenda þarf að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllu sínu starfi, hvort heldur sem er í vali á atriðum eða samsetningu kynjanna í forystu fyrir nemendur. Metnaðarfull jafnréttisáætlun ætti að vera sjálfsögð í hverju nemendafélagi og kröftug eftirfylgni og utanumhald í störfum hvers skóla.

Kennarar þurfa allir að vakna til vitundar um eðli mismununar og hvernig henni er viðhaldið – í samskiptum, með andvaraleysi og með ranghugmyndum. Skólakerfið ber mikla ábyrgð og jafnréttishugsjónin þarf að vera rauður þráður í öllu skólastarfi, innan og utan skólastofunnar. Bein og óbein kynjafræðsla ætti jafnframt að vera samþætt öllu námi á öllum skólastigum. Það má ekki gerast að einn kennari vinni að jafnrétti með sínum nemendum og annar kennari grafi undan því í næstu kennslustofu.

Nemendur og kennarar hafa rödd og það er mikilvægt að þessi rödd sé öflug og stöðug. Reynslan og sagan hefur sýnt okkur að jafnrétti verður ekki náð án samstöðu, samvinnu og baráttu. Menntakerfið í heild sinni á að vera og verður að vera leiðandi afl í jafnréttisbaráttunni – samfélaginu öllu til heilla.

—-

Hanna Björg er kennari við Borgarholtsskóla. Hún er femínisti til margra ára, áhugakona um skólastarf og menntun. Hanna er líka mamma Vilhjálms og Kristu og með MA próf í kennslufræðum.

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp