Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

IÐN: Verknám á vinnustað

í Greinar

Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir og Signý Óskarsdóttir 

Á vormánuðum 2014 dafnaði sproti við  Grunnskólann í Borgarnesi sem varð að stærra verkefni. Sprotinn sem kominn var vel af stað innan skólans gaf nemendum á unglingastigi tækifæri til að vinna að endurgerð gamalla húsgagna undir handleiðslu smíðakennara skólans. Iðnmeistari úr sveitarfélaginu lagði mat á gæði vinnu nemenda áður en þeir  seldu húsgögnin og gáfu arðinn til góðgerðamála. Þeir nemendur sem tóku þátt í þessari vinnu voru ánægðir með fyrirkomulagið og samfélagsleg tenging vinnunnar var mjög skýr.

Forsagan

Grunnskólinn í Borgarnesi sótti um styrk til að þróa valnámskeiðið IÐN: Verknám á vinnustað. Námskeiðið byggir á sprotanum sem hér hefur verið lýst, og á þar sterkar rætur, en einnig þeirri hugmynd að samfélag utan skóla geti verið dýrmætur vettvangur til náms.  Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði og hefur IÐN: Verknám á vinnustað verið valgrein í skólanum frá hausti 2015 en þróunarvinnan og undirbúningur fór fram að mestu skólaárið 2014–2015. Valnámskeiðið hefur því fest rætur í skólastarfinu og þróast með hverju árinu sem líður.

Markmið og undirbúningur

Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið að efla enn frekar samstarf atvinnulífs og skóla í Borgarbyggð og búa þannig til vettvang þar sem nemendur geta þjálfað verkkunnáttu sína á vinnustað og tekist á við verkefni í aðstæðum sem mæta þeim þegar út á vinnumarkaðinn er komið.  Annað markmið er að þróa matsferli til að meta verklega hæfni á vinnustað, s.s. mat atvinnurekenda og sjálfsmat nemenda út frá matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Þá var hugmyndin að  nemendur fengju tækifæri til að byggja á styrkleikum sínum og áhugasviðum og einnig að gefa þannig aftur til samfélagsins með vinnuframlagi sínu. Að mörgu er að hyggja þegar farið er af stað í slíkt verkefni og til þess að geta metið árangur nemenda á vinnustað þarf bæði að skoða kennsluþáttinn á vinnustaðnum og þróa matsaðferðir á verklegri hæfni nemenda. Því var það einn af stóru verkþáttunum að skilgreina hæfniviðmið og matsviðmið fyrir valnámskeiðið. Einnig þurfti að tryggja að atvinnurekendur sem taka á móti nemendum væru meðvitaðir um hlutverk sitt í verknáminu og námsmatinu. Það var gert með því að útbúa handbók fyrir atvinnurekendur, samræmd matsblöð sem byggja á hæfniviðmiðum aðalnámskrár og sniðmát fyrir sjálfsmat nemenda. Heimasíða um verkefnið var sett upp og má sjá hana á heimasíðu skólans (sjá hér). Einnig unnu nemendur kynningarkvikmynd. Meginmarkmið þess hluta verkefnisins var  að kynna verkefnið með augum nemenda (myndina má sjá hér fyrir neðan). Það var strax styrkur verkefnisins að til staðar var þekking, reynsla og tengsl sem hægt var að byggja á. Vegna þessa var hægt að renna styrkari stoðum undir áframhaldandi þróun og auka líkur á að góð samvinna við hlutaðeigandi aðila héldist. Verkefnið var fljótlega kynnt fyrir félögum í Rótarý en meðlimir þess hafa um margra ára skeið boðið nemendum í 10. bekk starfskynningu að vori í samvinnu við skólann.

Framkvæmd valnámskeiðsins IÐN: Verknám á vinnustað

IÐN: Verknám á vinnustað fór af stað sem valgrein í 9. og 10. bekk en nú í vetur er hún einnig í boði fyrir 8. bekk. Nemendur geta lagt fram ósk um hvaða iðngrein þeir vilja kynnast og í flestum tilvikum er hægt að koma til móts við óskir þeirra. Gerð er krafa um að þeir sem leiðbeina nemendum á vinnustað séu með iðnmenntun. Valið stendur yfir í sjö vikur og er gert ráð fyrir að hver nemandi sé að jafnaði í tvær klukkustundir á viku í verknáminu. Hægt er að færa þessa tíma á milli vikna ef aðstæður eru þannig hjá nemanda eða fyrirtæki. Einnig er svigrúm í stundatöflu nemenda sem taka þátt í iðnnáminu þannig að það getur flætt inn í tíma annarra námsgreina. Þetta svigrúm er gefið til að nemendur fái sem mest út úr dvöl sinni á vinnustað. Annatími fyrirtækja, þar sem mest er hægt að sjá og gera, er ekki endilega á þeim tíma sem iðnnámið er skilgreint í stundatöflu. Sem dæmi mæta nemendur kl. 6 að morgni í bakaraiðn og mæta þá aðeins seinna í hefðbundna kennslu. Þeir sem velja sér matreiðslu fá að taka þátt í undirbúningi hádegisverðar og þurfa því svigrúm á þeim tíma. Foreldrar skrifa undir samþykki þess efnis að nemandi megi stunda nám á þeim vinnustað sem um ræðir. Nemendur skrifa undir samþykki þess efnis að virða vinnustaðareglur og öryggiskröfur á vinnustað og fulltrúi fyrirtækis skrifar upp á samþykki þess að taka á móti nemanda í iðnnám.

Þátttaka fyrirtækja

Þau fyrirtæki sem taka þátt í IÐN: verknám á vinnustað fá kynningu á verkefninu og hlutverki þeirra í verknáminu. Þau taka með þessum hætti þátt í mikilvægri menntun unglinga í Borgarbyggð og er þetta samstarf atvinnulífs og skóla ómetanlegt sem liður í uppeldi og menntun unglinga í sveitarfélaginu. Jákvætt viðmót fyrirtækja í Borgarbyggð og velvilji þeirra er eitt af því sem heldur verkefninu gangandi og stuðlar að fjölbreytni valmöguleika í IÐN. Þar sem reynt er eftir föngum að koma til móts við áhuga og óskir nemenda en sterkur kjarni samstarfsfyrirtækja hefur verið til staðar frá upphafi.

Verkefni og tenging við aðalnámskrá

Fyrirtækin í Borgarbyggð leggja mikið upp úr því að velja nemendum verkefni við hæfi hverju sinni. Sum þeirra búa til sérstök nemendaverkefni á meðan önnur bjóða upp á verkefni sem tengjast því sem er að gerast innan fyrirtækisins á hverjum tíma. Reynt er að tryggja tengingu við aðal- og skólanámskrá með því að kynna vel þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar náminu í IÐN: Verknám á vinnustað. En hæfniviðmiðin endurspeglast í þeim viðmiðum sem liggja til grundvallar námsmati í valgreininni og eiga rætur í aðalnámskrá grunnskóla.

Námsmat

Námsmatið fer fram með því að meta hvort nemandi hafi náð skilgreindum hæfniviðmiðum út frá matsþáttum sem tilgreindir eru í tilteknu matsfylki. Fulltrúi fyrirtækis fyllir út matsfylkið að loknu verknámi og nemandi fyllir út sjálfsmat sem einnig byggir á skilgreindum hæfniviðmiðum. Ekki er gefin einkunn fyrir verknámið en matsfylkin gefa góða mynd af því hvernig nemandi hefur staðið sig á tímabilinu.

Handbók

Til þess að auðvelda fyrirtækjum að tileinka sér matsaðferðir og móttöku nemenda á vinnustað var  útbúin lítil handbók sem greinir frá markmiðum verkefnisins, hlutverki hvers og eins í ferlinu og námsmati. Handbókina má sjá hér.

Öryggi nemenda

Vegna þess að iðnnámið fer fram á vinnustöðum sem eru utan skólalóðar og unnið er með verkfæri, tæki og efni sem eru nemendum mögulega framandi er mikilvægt að þeir séu tryggðir á vinnustað.  Hefðbundnar tryggingar skóla ná ekki yfir nám sem skipulagt er með því sniði sem hér er lýst og því er keypt sérstök trygging fyrir nemendur sem taka þátt í IÐN. Einnig er mikið lagt upp úr því að nemendur taki ábyrgð á eigin hegðun á vinnustað og tileinki sér öryggis- og vinnureglur vinnustaða, samanber það að skrifa undir samning þess efnis.

Virkni nemenda og áhugi á frekara námi

Þeir nemendur sem velja IÐN: Verknám á vinnustað sem valgrein mæta allir mjög vel. Hafi nemendur einhverra hluta vegna þurft leyfi þá hefur verið samið við fyrirtæki um að færa mætingu á milli daga. Enginn af þeim nemendum sem hafa valið IÐN: Verknám á vinnustað hefur óskað eftir því að skipta um valgrein, sem er algengt í hefðbundum valgreinum, né heldur kvartað yfir verkefnum eða aðbúnaði. Verkefnið hefur opnað dyr og aukið valmöguleika fyrir nemendur, hvort sem þeir hafi verið að reyna fyrir sér á alveg nýjum sviðum eða að styrkja sig á sviðum sem þeir hafa þegar nokkra innsýn eða færni í. Margir þeirra nemenda sem hafa tekið þátt í verknáminu hafa tekið sig á í bóknáminu mögulega vegna þess að þeir verða ákveðnari í hvað þá langar að gera í framtíðinni. Það hefur sýnt sig að verkefnið höfðar til allra nemanda sem áhuga hafa á því að styrkja sig verklega.

Viðhorf nemenda

Í könnun á viðhorfi nemenda kemur skýrt fram að þeim finnst valgreinin bæði áhugaverð og nytsamleg. Ástæður sem þeir tilgreina fyrir vali þeirra á IÐN: Verknám á vinnustað eru að þeim líki verkleg vinna, að þá hafi langað til að læra eitthvað nýtt, að þeir hafi viljað kynnast iðnaðinum og af því að þeim fannst fyrirkomulagið spennandi. Þeir nefndu líka að með þessu móti gætu þeir fundið út hvar áhugi þeirra liggi og hvað henti þeim. Það sem þeim fannst sérstaklega gott við valgreinina var uppbrotið í skóladeginum ásamt því að fá að læra og prófa ýmislegt nýtt. Sérstaklega var tekið fram að valgreinin henti jafnt þeim sem stefna á frekara iðnnám og þeim sem eru ekki að stefna þangað. Það sem nemendur nefndu að mætti bæta var enn meira úrval vinnustaða og að stundum gæti verið erfitt að mæta á tímum sem væru utan tímaramma skóladagsins.

Kostnaður við verkefnið

Helsti kostnaðurinn við verkefnið felst í akstri nemenda á vinnustaði og tryggingar. Nemendum sem ekki eru hjá fyrirtækjum í næsta nágrenni við skólann er ekið á vinnustaðinn og þeir sóttir þegar verknámstímum er lokið.

Kvikmynd sem nemendur gerðu haustið 2015

Haustið 2015 gerðu nemendur kvikmynd um verknám á vinnustað undir handleiðslu verkefnisstjóra og fengu ráðgjöf í upphafi frá þáttastjórnanda á RUV. Kvikmyndin sýnir að nemendum eru falin verðug verkefni á vinnustað, þeir nota viðeigandi öryggisbúnað og hafa ánægju af verkefninu (kvimyndin er því miður ekki lengur tiltæk á netinu).

Framtíðarsýn

IÐN – Verknám á vinnustað er dæmi um verkefni sem kemur vel til móts við fjölbreyttan hóp nemenda og hlúir þannig að og eflir skólastarf í sveitarfélaginu Það er stefna Grunnskólans í Borgarnesi að halda áfram að þróa valið IÐN: Verknám á vinnustað og vinna áfram að því góða samstarfi sem er til staðar við fyrirtæki í Borgarbyggð. Nú þegar verkefnið hefur fest sig í sessi  gefst rými til að skoða hvort hægt sé að meta markvisst árangur verkefnisins. Það væri hægt með því að skoða hvort IÐN hafi haft áhrif á val nemenda í áframhaldandi nám, greitt göngu þeirra að sumarvinnu í framhaldi af verknáminu eða eflt sjálfsöryggi þeirra og áræðni á einhvern hátt. Verkefnið opnar líka dyr að fleiri samfélagsverkefnum sem hægt væri að þróa og  hefur m.a. komið fram sú hugmynd að gera félags- og sjálfboðastörf hluta af vali á unglingastigi.


Um höfunda

Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir er hönnunar og smíðakennari við Grunnskólann í Borgarnesi og hefur haft umsjón með IÐN verkefninu.
Signý Óskarsdóttir er stofnandi fyrirtækisins Creatrix sem hefur sköpun, vitund og samvinnu að leiðarljósi. Hún hefur komið víða við í störfum sínum og hefur því starfs- og stjórnunarreynslu úr ýmsum geirum samfélagsins og má þar telja verslunarrekstur, stjórnun sveitarfélags og stjórnun í menntastofnunum ásamt kennslu og þróunarstarfi.

 


 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp