Að móta sitt eigið nám

Aðalheiður Halldórsdóttir, Erla Gígja Garðarsdóttir, Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir og Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir

Í Kópavogi hafa verið starfandi sérdeildir í um 20 ár. Í Kópavogsskóla heitir sérdeildin Námsver, í Snælandsskóla Smiðja og í Álfhólsskóla Einhverfudeild. Hlutverk námsversins er að veita nemendum með skilgreindar sérþarfir nám við hæfi í sérhæfðu umhverfi í lengri eða skemmri tíma. Nemandi innritast í deildina þegar sýnt þykir að almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum hans (sjá nánar hér). Allir nemendur Námsvers eru skráðir í almenna bekki og taka þátt í bekkjarstarfi og sameiginlegum athöfnum skólans eins og kostur er.

Skólaárið 2020-2021 eru 13 nemendur skráðir í Námsveri frá 6.–10. bekk, 4 stúlkur og 9 drengir. Þrír kennarar í fullu starfi kenna í Námsveri og einn í hálfu starfi. Tveir stuðningsfulltrúar starfa við deildina.

Fyrir ári var ákveðið að brjóta upp ríkjandi kennsluhætti í Námsveri Kópavogsskóla og nálgast námsmarkmið með þátttöku nemenda.

Hugmyndir að þessum breytingum fæddist í samræðum okkar kennaranna. Við höfðum allar nýhafið störf við námsverið og fórum að skiptast á skoðunum um starfskenningar okkar og hugsa saman um það hvert við vildum stefna. Í ljós kom að við höfum allar áhuga á að stíga skref í þá átt að auka ábyrgð nemenda á námi sínu, það er að þeir væru aðilar að eigin námskrárgerð. Við vildum að námið væri meira á þeirra forsendum, að þeim væru veitt tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, sæju tilgang með náminu og að það væri í tengslum við þeirra veruleika. Niðurstaða samræðna okkar var að sækja um styrk til Sprotasjóðs til að skapa okkur svigrúm til að fara í þessa átt og fór umsóknin frá okkur á síðustu stundu, rétt áður en frestur rann út. En styrkinn fengum við.

Markmiðið með breytingum á kennsluháttum var að gefa nemendum með frávik í hegðun og námi aukið vald til að móta, með aðstoð kennara, sitt eigið nám með tilliti til þess hvernig þeir sjá að nám sitt og styrkleikar geti valdeflt þá og aukið færni þeirra til framtíðar. Einnig var ákveðið að til yrði vel útfærð námskrá sem hentaði fyrir breiðan nemendahóp þar sem nemendur, foreldrar og kennarar kæmu saman. Þannig yrði möguleiki á sameiginlegum ákvörðunum um næstu skref til skemmri eða lengri tíma, með það í huga hver framtíðarsýn nemandans sjálfs er.

Nemendum gafst tækifæri til að koma með hugmyndir að námi sínu og hvað þá langaði að leggja mesta áherslu á. Kennari skráði niður hugmyndirnar og fékk nemandann til að sjá fyrir sér hvernig hann vildi vinna með þær áfram. Nemendur voru sjálfir látnir finna hvar væru opnar leiðir og hvar væru hindranir. Þeir voru þannig áhrifavaldar í eigin ákvörðunum, það var hlustað á þá og þeim treyst til að finna lausnir með það fyrir augum að efla þrautseigju og seiglu þeirra.

Verkefnið var kynnt foreldrum sem tóku þessum áformum vel. Því miður varð samstarf við þá minna en vænst var vegna Covid, en hugmyndin var að nemendur kynntu verkefni sín meðal annars fyrir foreldrum. Í foreldraviðtölum voru foreldrar beðnir um að ræða við nemendur heima um áhugasviðsverkefnin.

Afmarkaður tími var lagður til tvisvar í viku til að vinna sérstaklega að þessu, annars vegar föstudagsmorgnar og einnig á miðvikudögum. Eins er nemendum oft gefinn kostur á að grípa í áhugasviðsverkefnin þegar það hentar og stundum biðja nemendur um að fá að sinna þeim. Fleiri kennarar leggja þessu lið, meðal annars smíðakennari skólans sem býður þeim, sem eru að fást við slík verkefni, til sín í smíðastofuna og eins útvegaði hann einum nemanda eigin hefilbekk meðan unnið var við smíðar.

Misjafnt var hversu skýr sýn nemenda var á framtíðina eftir þroska og getu. Á meðan sumir byrjuðu að æfa sig fyrir framtíðarnám og starf, nutu aðrir sín við áhugasvið er sneru að listum eða einstökum námsgreinum.

Afar mismunandi er hvernig nemendur standa að áhugasviðsverkefnunum. Sumir verja öllum tíma sínum í sama viðfangsefni en aðrir hafa fengist við mörg verkefni. Hvort tveggja er leyft. Nemendur fylgjast oft vel með því sem hinir eru að gera og áhuginn getur smitast.

Við reynum líka að grípa þau tækifæri sem upp koma. Sem dæmi má nefna að í samræðum við foreldra eins nemanda komumst við að því að þau voru áhugafólk um kappakstur og nú er barnið þeirra að fást við viðfangsefni um bíla og það sér tilgang með náminu.

Annar nemandi, hefur sýnt ljósmóðurstarfinu sérstakan áhuga. Við veltum fyrir okkur mikilvægum þáttum í starfinu og nemandinn benti á að ljósmæður þyrftu að vita mikið um hreinlæti og við ákváðum að byrja þar. Nemandinn er nú að semja bók í Book Creator um hreinlæti í starfi ljósmæðra. Svona munum við vinna áfram í áföngum.

Einn nemandi ákvað sjálfur að ráðast í átak til að bæta sig í stærðfræði og gerði það í tengslum við áform sínum um nám í framhaldsskóla.

Mig langar að verða betri í stærðfræði sagði stúlka í 9. bekk. Innri áhugahvöt og vaxandi trú á eigin getu fleyttu henni áfram. Hún fann út hvernig þekking hennar jókst og hafði áhrif á hvaða aðgerðir hún vildi leggja áherslu á í þekkingarleitinni.

Það má ef vill skipta á milli áhugasviðsverkefna. Þessi nemandi var með margar hugmyndir og það var æfing út af fyrir sig að staldra við verkefnin. Meðal hugmynda voru að þýða texta yfir á fjögur framandi tungumál, teikna myndasögu, teikna upp og saga út teiknimyndafígúru og margt fleira.

Þegar nemendur telja sig hafa lokið verkefnum sínum halda þeir gjarnan kynningar fyrir skólafélagana, setja upp sýningu eða kynna munnlega. Sumir nemendur hafa notið sín mjög vel í þessum kynningum.

Vinnan við þessa kennsluhætti var ekki síst áskorun fyrir okkur kennarana sem að þessu komu. Við vorum ekki lengur þeir sem höfðu öll svörin, heldur fólst starf okkar í því að leita lausna með nemanda og finna hvar styrkleikar hans liggja. Kennari þurfti að vera tilbúinn til að fara með nemanda hindrunarlaust af stað og reyna að sjá það sem hann sá og læra þar af leiðandi með nemandanum, en ekki að vera sá sem stýrði för. Þetta er mesta áskorunin fyrir kennarann að honum finnist ekki að hann sé að missa vald á kennslunni heldur sé valdeflingin gagnkvæm með þessum breyttu kennsluháttum. Helsta ástæðan fyrir vinnu með nemendum að þeirra hugmyndum er sú að hún kveikir innri áhugahvöt hjá þeim og trú á eigin getu ásamt því að hvetja þá áfram í þekkingarleitinni. Þegar fólk kemur saman að hugmyndavinnu án eignarhalds einhvers sérstaks þá ná hugmyndirnar flugi, vaxa og dafna.

Segja má að við kennararnir í Námsveri Kópavogsskóla höfum náð að vinna sem samhent teymi á sömu forsendum og nemendur. Þessir kennsluhættir hafa skilað umtalsverðum árangri. Margir nemendur hafa fundið nýjan metnað í náminu og skilað góðum verkefnum. Vitaskuld ekki allir – en flestir. Við erum ákveðnar í að halda áfram að þjálfa okkur með þessa nálgun í kennslu. Við erum líka, eins og nemendur að þróa okkar viðfangsefni. Við munum halda áfram að þreifa okkur áfram og höfum til dæmis ákveðið að gefa þessu meiri tíma í vetur en við gerðum á síðasta skólaári. Við erum líka stöðugt vakandi yfir því að við séum að styðja nemandann í að þróa eigin hugmyndir en ekki að stýra honum. Okkur finnst að okkur sé að takast þetta stöðugt betur. Við sjáum líka fjölmörg sóknarfæri við að nýta okkur upplýsingatæknina. Við höfum öðlast enn sterkari trú á þessari nálgun og hún er að festast í sessi. Mat okkar er engu að síður að það geti tekið jafnvel nokkur ár að skapa traust nemenda gagnvart því að þau fái að vera virkir þátttakendur í eigin námi.

Sjá nánar um verkefnið í skýrslu til Sprotasjóðs.

Fleiri sýnishorn af vinnu nemenda:

Það hefur ekki vafist fyrir þessum dreng í 9. bekk að leggja rafvirkjabrautina fyrir sig. Hann vann við að taka í sundur raftæki, skrásetja innvolsið, finna teikningar og útskýra virkni tækjanna á formlegri kynningu.

Eftir að hafa skoðað byssur kviknaði áhugi á rafvirkjanámi hjá dreng í 7. bekk enda með góða fyrirmynd í eldri nemanda með skýra sýn. Þeir unnu svo saman um hríð að verkefninu og miðluðu þekkingu sín á milli. Hann vann úr teikningum og var með formlega kynningu.

Myndlistarhæfileiki og þekking í myndbandagerð voru hvati að frábærum verkefnum hjá þessari stúlku í 10. bekk. Hún hélt reglulega kynningar yfir veturinn og kynnti sér ný forrit um leið og aðra tæknilega möguleika.

Ég ætla að verða dýralæknir, nemandi í 6. bekk með þetta alveg á tæru. Hér er hann að læra um dýr og útbúa þekkingarbanka í Book Creator.

Tveir nemendur í 6. og 7. bekk ákváðu að smíða víkingasverð og skildi sem þeir hönnuðu sjálfir og unnu með aðstoð smíðakennara.

Nemandi í 7. bekk sem tálgar í tré.

Af vinnu nemanda í 10. bekk sem hannar lampaskerm.

 


Aðalheiður Halldórsdóttir er grunnskólakennari og hefur einnig lokið námi ljósmyndum. Hún hefur fengist við sérkennslu síðan 2015.

Erla Gígja Garðarsdóttir er M.Ed í sérkennslufræðum og starfar í Kópavogsskóla sem deildarstjóri sérúrræða.

Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir er sérkennari, jógakennari og ökuleiðsögumaður og hefur starfað við sérkennslu á öllum stigum grunnskóla, í framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu.

Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir er með M.Ed. í heimspeki og menntunarfræðum og diplomanám í sérkennslufræðum. Jóhanna hefur kennt heimspeki í leik- og grunnskólum frá 2010 og haldið fjölda námskeiða fyrir kennara sem hafa áhuga á að nýta sér samræðuaðferð heimspekinnar í kennslu.


Grein birt 27.10. 2020




Nemendur selja útivistarferðir – verkefni á lærdómsríku valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra

Ingvar Sigurgeirsson og Magnús Eðvaldsson

 

 

 

 

Þú rekur ferðaskrifstofu og átt að skipuleggja útivistarferð.

Um er að ræða tveggja til þriggja daga ferð um Húnaþing vestra, þú ræður hvernig ferð þetta er. Þetta getur verið gönguferð, hjólaferð, jeppaferð, hestaferð eða hvað sem þér dettur í hug. Það á allt að vera innifalið í ferðinni til dæmis matur og gisting.

Það sem þarf að koma fram:

Nákvæm lýsing á ferðinni, ferðatilhögun; hvað er gert á hverjum degi í ferðinni?

Útbúnaður, hvað þarf að hafa með sér í ferðina?

Matur, hvað er í matinn í ferðinni?

Hvað kostar ferðin, hvað er innifalið í verðinu (sundurliðun á kostnaði)?

Svona hljóma fyrirmæli sem nemendur á valnámskeiði í Grunnskóla Húnaþings vestra fá í upphafi námskeiðs um útivist sem þeim stendur til boða annað hvert haust. Námskeiðið, sem hefur verið kennt sjö sinnum, hefur verið sótt af 10‒15 nemendum hverju sinni. Kennarinn er Magnús Eðvaldsson. Magnús er virkur björgunarsveitarmaður og námskeiðið er haldið í góðu samstarfi við björgunarsveitina Húna. Námskeiðið stendur yfir í eina önn, 80 mínútur í hverri viku.

Í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga er boðið upp á fjölbreytt valnámskeið. Nefna má námskeið í smíðum, upplýsingatækni, heimilisfræði, myndmennt, þýsku, prjónaskap, um borðspil og hlutverkaleiki, Skólahreysti, heilsurækt, kvikmyndir, hestamennsku, rokksögu (þar sem farið er í tónlistarsögu og fjallað um helstu hljómsveitir síðustu ára, auk þess sem nemendum stendur til boða að stofna hljómsveit) og sviðslistir. Enn má nefna námskeið sem kennt er við skólavini og veitir nemendum tækifæri til að taka þátt í samfélagslegum verkefnum, til dæmis aðstoða nemendur í íþróttaskóla, styðja nemendur yngri bekkja, hjálpa til við lestrarþjálfun eða sinna öldruðum.

Aðalverkefnið á útivistarnámskeiðinu er, eins og fram kemur hér að ofan, að nemendur hugsa sér að þeir reki ferðaskrifstofu sem selur ferðir um Húnaþing vestra. Þeir þurfa að ákveða hvaða ferðir eru í boði. Nemendur mega vinna einir, í pörum eða litlum hópum. Ferðin verður að standa í tvo til þrjá daga og hana verður að selja þannig að allt sé innifalið (ferðir, matur, gisting). Gerð er krafa um nákvæma tímaáætlun, greinargerð um hvaða staði á að heimsækja og dagleiðir, sem og hvaða matur verður í boði hverju sinni. Þá þurfa að koma fram upplýsingar um allan útbúnað og huga þarf að öryggismálum.

Áhersla er lögð á að nemendur skipuleggi ferðirnar í þaula. Þeir þurfa m.a. að reikna með öllum vistum og ganga þarf úr skugga um allan kostnað. Enginn afsláttur er gefinn af þessu. Allar kostnaðartölur verða að vera raunverulegar og nemendur afla þeirra gjarnan hjá verslunum og ferðaþjónustuaðilum í héraðinu. Þá þurfa nemendur að huga að samþættingu, til dæmis að kynna ferðina á íslensku, ensku og dönsku og tengja hana hreyfingu og náttúrufræði (náttúrufari á svæðinu sem farið er um).

Sem dæmi um ferðir sem nemendur hafa valið að skipuleggja eru göngu- og veiðiferð um Arnarvatnsheiði, hestaferð um Víðidalstunguheiði, hjólaferð um Vatnsnesið, gönguferð í nágrenni Vesturhópsvatns, fjórhjólaferð, jeppaferð þar sem fléttað var inn heimsóknum á sveitabýli og skoðunarferð með rútu á helstu ferðamannastaði.

Segja má að aðalnámsefnið á námskeiðinu sé útivistarkort sem Ferðamálafélag Vestur-Húnavatnssýslu gaf út (er nú ófáanlegt). Kortið hangir uppi í stofunni meðan á námskeiðinu stendur og nemendur skoða það mikið og velta fyrir sér möguleikum.

Nemendur sækja upplýsingar einnig mikið af netinu. Þá er stuðst við efni úr bókinni Góða ferð – Handbók um útivist eftir Helenu Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur og Útilíf eftir Helga Grímsson en þangað er meðal annars sótt námsefni fyrir bóklega tíma. Þá leysa nemendur fjölda verkefna, m.a. um notkun landakorta og áttavita. Sum verkefnanna hafa verið gerð í samstarfi við björgunarsveitarmenn.

Ferðina þurfa nemendur vitaskuld að kynna í lok námskeiðsins, þ.e. þeir þurfa að selja öðrum nemendum ferðina og stundum hafa aðrir gestir verið viðstaddir kynningarnar. Að sjálfsögðu þarf að búa til kynningargögn. Nemendur hafa lagt sig mjög fram við þessar kynningar. Dæmi hafa verið um nemendur, sem ekki hafa þótt mjög áhugasamir um bóknám, en hafa skilað frábærum úrlausnum á þessu námskeiði – hafa beinlínis blómstrað við að skipuleggja ævintýraferðir sínar.

Auk þess að fást við þetta verkefni fá nemendur tækifæri til að glíma við fjölbreyttar æfingar sem valdar hafa verið í samstarfi við Björgunarsveitina Húna. Nefna má köfunaræfingar í sundlauginni, siglingu á björgunarsveitarbátnum, gönguferðir og sigæfingar. Inn í námskeiðið er að sjálfsögðu fléttað kynningu á starfsemi björgunarsveitarinnar.

Sérstaklega er vandað til lokadaganna á námskeiðinu. Annar lokadagurinn er kynningardagurinn, en hinn byggist á ferðalagi. Sem dæmi má nefna ferð þar sem nemendur áttu að ganga eftir korti að Laugarstapa og bera einn í sjúkrabörnum hluta leiðarinnar. Þegar komið var að Laugarstapa fengu nemendur að æfa sig við að síga. Eftir að hafa borðað grillaðar pylsur var farið í siglingu!

Vart þarf að taka fram að nemendur eru hæstánægðir með að eiga kost á námskeiði sem þessu og gaman er að segja frá því að þegar námskeiðið hafði verið kennt í fyrsta sinn, var meðbyrinn nýttur og til varð unglingadeild í Björgunarsveitinni sem starfaði í nokkur ár.

Þetta valnámskeið er gott dæmi um námskeið þar sem kennari byggir á þekkingu sinni og áhugamáli, tengir það nærumhverfi nemenda og býður þeim raunveruleg og áhugaverð verkefni sem hafa tilgang. Ekki verður betur séð en að vinnubrögð sem þessi séu í góðu samræmi við aðalnámskrá grunnskóla. Í skólanum er lögð mikil áhersla á tengsl við atvinnulífið. Skólinn hefur til dæmis lengi verið svokallaður GERT skóli (sjá http://gert.menntamidja.is/#pricingtable) og þróað öflugt samstarf við fyrirtæki og háskóla. Þar má nefna þriggja ára háskólakynningaráætlun þar sem nemendur í 8.–10. bekk heimsækja tækni- og nýsköpunarfyrirtæki og háskóla með áherslu á verklega vinnu og þátttöku í raunvísindum og tækni. Fyrsta árið er farið tvo daga í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, annað árið í Háskóla Íslands og fyrirtæki í Reykjavík og þriðja árið er farið í Háskólann á Akureyri og fyrirtæki þar. Að vori og hausti fá nemendur um það bil viku í starfsnám eftir áhugasviðum hjá fyrirtækjum, stofnunum og bændum allan skóladaginn.


Ingvar Sigurgeirsson er prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi.

Magnús Eðvaldsson er kennari við Grunnskóla Húnaþings vestra þar sem hann kennir m.a. íþróttir og ýmsar valgreinar.

 




Val á miðstigi í Grunnskólanum á Ísafirði

Jóna Benediktsdóttir

 

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur um nokkurra ára skeið verið sett upp val fyrir nemendur á miðstigi sem kallast hræringur. Nafnið var valið vegna þess að í þessu vali blandast allir nemendur miðstigs eftir áhuga nemenda á viðfangsefnum hverju sinni. Valið nær til þriggja kennslustunda á viku og veturinn skiptist í fjögur valtímabil, annars vegar eru tvær samliggjandi kennslustundir og hins vegar einn stakur tími. Til að koma þessum tímum fyrir í stundatöflu nemenda fækkum við stundum í bóklegum greinum um þrjár og sveitarfélagið hefur veitt skólanum viðbótar skiptistundir til að vinna þetta verkefni. Viðfangsefni í valinu eru ólík eftir því hvort um er að ræða einfaldan eða tvöfaldan tíma. Nemendur velja sér því tvær valgreinar fyrir hvert tímabil eða átta valgreinar alls yfir skólaárið. Hugmyndin var ekki síst að leita leiða til að fyrirbyggja námsleiða sem oft verður vart við á miðstigi og þá sérstaklega hjá strákum.

Drengir á námskeiði um tálgun.

Markmið verkefnisins er þríþætt. Í fyrsta lagi að stuðla að auknum samskiptum nemenda milli bekkja, að efla vinnugleði og að sýna nemendum að hægt sé að nálgast skólaviðfangsefnin á fjölbreyttan hátt. Námsmat í þessum verkefnum byggist á þátttöku og nemendur fá matið lokið eða ólokið. Verkefnið byggist meðal annars á þeirri sannfæringu okkar að ekki skipti öllu máli við hvað nemendur eru að fást í kennslustundum svo framarlega sem viðfangsefnin eru gagnleg, uppbyggileg og fela í sér áskorun.

Á skyndihjálparnámskeiði.

Endurlífgun æfð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Almennt reynum við að passa að viðfangsefnin á hverri önn séu blanda af tækniverkefnum, verklegri vinnu, hreyfingu og verkefnum sem fela í sér eitthvað sem nemendur gleyma sér í dundi við. Nokkur viðfangsefnanna eru þó svo vinsæl að þau eru alltaf í boði. Þar má nefna vinnu í Fablab smiðju þar sem nemendur byrja á að búa til sína eigin límmiða og þróa síðan vinnu sína yfir í ýmiskonar þrívíddar- og tæknivinnu. Tæknilegóið er líka mjög vinsælt og ekki má gleyma því sem við köllum matur og menning þar sem nemendur læra að elda rétti frá framandi löndum og fræðast um menningu sem er ólík okkar. Önnur viðfangsefni sem hafa verið í hræringi hjá okkur eru: spænska, nýsköpun, leðurvinna, vinna með MaKey MaKey, teiknimyndasögugerð, fimleikar, skartgripagerð, útivist, smíðar, skák, leiklist, skrautskrift, tónlist úr heimabyggð, myndlist, raftónlist, dans, umhirða gæludýra, spil, hljóðfæragerð, yndislestur, þýska, samspil, stuttmyndagerð og Börn og umhverfi sem er samstarfsverkefni skólans og Rauða krossins.

MaKey MaKey er app sem á uppruna sinn í MIT háskólanum en með því er hægt að tengja ýmsa hversdagslega hluti við tölvuna og gera þá til dæmis að stjórntækjum. Hægt er að fræðast um þennan hugbúnað og möguleika hana á vefsíðum sem Styrmir Barkarson, kennari við Holtaskóla heldur úti, sjá hér.

Á námskeiði um Makey Makey. Nemendur kanna leiðni í rusli sem þeir fundu á skólalóðinni.

Kannanir sem gerðar hafa verið hafa sýnt að að milli 90-98% nemenda og foreldra eru ánægðir með þetta fyrirkomulag. Vinnugleði, samskipti og þátttaka er einkennandi fyrir þessa tíma og hefur einnig smitandi áhrif yfir í aðrar kennslustundir og með því teljum við að meginmarkmiði verkefnisins sé náð.

Á námskeiði um umhirðu gæludýra.


Um höfund

Jóna Benediktsdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Jóna lauk M.Ed prófi frá HÍ haustið 2012. Áherslur Jónu í náminu voru á skóla án aðgreiningar og lýðræði í skólastarfi.




Smiðjuhelgar í Grunnskóla Borgarfjarðar

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir


Grunnskóli Borgarfjarðar starfar á þremur stöðum, á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Þetta voru áður sjálfstæðir skólar en voru sameinaðir árið 2010.  Smiðjuhelgar hafa  frá upphafi verið hluti af skólastarfinu. Áður höfðu þær verið við lýði í Varmalandsskóla frá árinu 2007. Smiðjurnar eru haldnar tvisvar sinnum á hverju skólaári, fyrir og eftir áramót og eru ætlaðar nemendum á unglingastigi. Unglingarnir eru einum tíma skemur  á viku í skólanum en viðmið gera ráð fyrir, en í staðinn vinna þeir með þessum hætti eina helgi á önn.

Tilgangur smiðjanna  er að mæta vali fyrir unglingana með öðrum hætti en almennt tíðkast  og gefa þeim kost á að hafa meira um val sitt að segja. Í fámennum skólum byggjast valgreinarnar oft á því sem kennarar innan hvers skóla treysta sér til að bjóða upp á að kenna og vill valið þá stundum verða einsleitt. Með smiðjuhelgunum fá nemendur fleiri tækifæri. Þeir setja fram hugmyndir sínar um það sem þeim finnst áhugavert og langar að hafa í vali. Unnið er út frá þeirra hugmyndum og leitast við að bjóða smiðjur sem flestir hafa áhuga á hverju sinni.

Fjöldi smiðja fer eftir fjölda nemenda. Að undanförnu hafa unglingar úr Reykhólaskóla og Laugargerðisskóla verið með okkur í þessari vinnu og nú á þessu skólaári bættust unglingar úr Flóaskóla í hópinn. Þetta er skemmtileg viðbót við nemendaflóru smiðjuhelganna og gengur nemendum vel að aðlagast og vinna saman. Nemendur allra skólanna hafa átt þátt í að velja og koma með hugmyndir um smiðjur. Smiðjurnar hafa verið kostaðar af skólunum og þátttökugjöld engin.

Þegar dagskrá liggur fyrir sendum við út valblað sem nemendur fylla út og skila til okkar. Hver nemandi velur eina smiðju. Hér má sjá dæmi um upplýsingar um smiðjur sem nemendur fá í hendur til að velja!

Unnið er í smiðjum frá 14.30 á föstudegi til 14.30 á laugardegi.

Dæmi um dagskrá fyrir smiðjuhelgi

Nemendur gista í skólanum eina nótt, eiga saman skemmtilegt kvöld þar sem nemendafélögin sjá um að vera með kvöldvöku, ratleiki, sundsprell eða hvaðeina sem þeim þykir skemmtilegt. Foreldrar nemenda hjálpa til og taka kvöld- og næturvaktir.

Í lok smiðjuhelgarinnar koma foreldrar að sækja börn sín og gefst þeim þá tækifæri til að kynnast því sem unnið var að. Nemendur og kennarar gera grein fyrir verkefnum helgarinnar og afrakstur þeirra er sýndur. Vinna nemenda er metin af kennara eða leiðbeinenda hverrar smiðju fyrir sig í lokin (sjá hér).

Skólinn hefur verið einkar heppinn með það að nærsamfélag hans  hefur lagt honum  lið og  komið að smiðjunum með einum eða öðrum hætti. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur t.d. lagt til  aðstöðu fyrir kennslu í logsuðu, pinnasuðu, járnsmíði og stálsmíði. Björgunarsveitir héraðsins hafa  kennt nemendum heilmargt sem lýtur að starfi björgunarsveitanna svo sem leitarstarfi, snjóflóðaleit, sigi, klifri, björgun úr vatni, farið í hella-  og jöklaferðir og farið yfir fyrstu hjálp og margt fleira. Bridgefélögin, skákfélögin og leikfélögin hafa komið að vinnu í smiðjum, ásamt mörgum einstaklingum í héraði sem hafa margt fram að færa. Með þessu aukum við þekkingu nemenda á því sem  fram fer og unnið er að í samfélaginu okkar í Borgarbyggð.

Hér er verið að kenna nemendum á nýjar spelkur í björgunarsveitarsmiðju

Hér á eftir má sjá dæmi um það sem í í boði var á smiðjuhelgum veturinn 2016‒2017. Sjö smiðjur voru í boði hvort skipti og tæplega 90 nemendur  tóku þátt.

Haustsmiðja:

  • Fatahönnunarsmiðja sem var í höndum ungs fatahönnuðar, Halldóru Sifjar Guðlaugsdóttur, sem nýverið lauk námi í Listaháskólanum.
  • Spilasmiðja sem var í höndum Töru Brynjólfsdóttur, kennara frá Spilavinum, þar sem alls konar borðspil sem miða að samskiptafærni og hópefli voru kennd.
  • Forritunarsmiðja sem var í höndum Tómasar Alexanders Árnasonar.
  • Myndlistarsmiðja í höndum Evu Lindar Jóhannsdóttur, myndlistarkennara í Grunnskóla Borgarfjarðar. Hún hefur oft komið að smiðjum um frjóa og skapandi vinnu.
  • Danssmiðja var í höndum eins af vinsælustu danskennurunum hjá World Class, Bergdísar Rúnar Jónasdóttur.
  • Grjót- og torfhleðslusmiðja í höndum Unnsteins Elíassonar hleðslumeistara frá Ferjubakka.
  • Amerískur fótbolti, smiðja sem var í höndum Brynjars Björnssonar og Viðars Gauta Önundarsonar en þeir eru brautryðendur í útbreiðslu og kennslu þessarar íþróttagreinar hér á landi.

Klárir í ameríska fótboltann

Vorsmiðja:

  • Björgunarsveitarsmiðja í höndum Björgunarsveitarinnar Heiðars í Stafholtstungum í Borgarfirði.
  • Tie dye fatalitunar- og stimpilsmiðja var í höndum Þórleifar Guðjónsdóttur tómstundafræðings.
  • Hipp hopp, street dance danssmiðja var í höndum Söndru Simo Erlingsdóttur danskennara.
  • Handknattleikssmiðja sem stýrt var af Gunnari Magnússyni handknattleiksþjálfara.
  • Marokósk matarlist. Smiðja undir stjórn Helenar Rutar Hinriksdóttur sem er  áhugamaður um matargerðarlist.
  • Járn- og stálsmíðasmiðja þar sem Haukur Þórðarson, kennari við LBHI á Hvanneyri, lagði okkur lið með aðstöðu og kennslu.
  • Dalila Lirio snyrtifræðingur leiddi smiðju um umhirðu húðar og förðun.

Brugðið á leik í lok dags þar sem nemendur sjá um skipulag

Hér má sjá lista yfir allar smiðjur sem hafa verið í boði:

  • Frétta-og fjölmiðlasmiðja
  • Glerlistasmiðja
  • Sjálfsvörn
  • Skylmingar
  • Reiðtygjasmiðjur
  • Kvikmyndagerð
  • Ljósmyndun
  • Pinna- og logsmiðjusmiðjur
  • Járn- og stálsmíði
  • Eldsmiðjur
  • Vélvirkjun
  • Fatahönnun
  • Forritun
  • Söng- og tónlistasmiðjur
  • íþróttasmiðjur (handknattleikur, körfuknattleikur, knattspyrna, blak og amerískur fótbolti)
  • Grjót- og torfhleðsla
  • Matreiðsla (ítölsk, mexikönsk, austurlensk, marókósk matargerðarlist)
  • Bakarasmiðjur
  • Leiklistarsmiðjur
  • Stumpsmiðja (ásláttur, líkamstjáning og frumlegar hreyfingar)
  • Myndlist
  • Skyndihjálp
  • Nýsköpunar og legosmiðjur
  • Vísinda- og tilraunasmiðjur
  • Silfursmíði
  • Skartgripasmiðja
  • Tie dye taulitun
  • Ýmiss konar listasmiðjur, s.s. dans, fjöllist, afrískur trommuleikur, afródans, magadans, hipp hopp, street dance
  • Skák
  • Hárgreiðslu- og fléttusmiðjur
  • Förðun-og húðumhirða
  • Bridge
  • Spilasmiðjur
  • Kik box smiðjur
  • Rafiðnaðarsmiðja
  • Kransaskreyting
  • Leðurlistasmiðja

Þeir sem velja matreiðslu hafa séð um að elda mat fyrir hópinn meðan á smiðjunni stendur; kvöldverð á föstudegi og hádegisverð á laugardegi. Það er gaman að sjá hversu vel nemendur leggja sig fram um  að bjóða skólafélögum og gestum upp á góðan og framandi mat, ásamt því að vanda framreiðsluna. Oft skapa þeir skemmtilegan blæ í matsalnum sem tengist því að hafa viðeigandi tónlist eða eitthvað sem minnir á þann stað  sem matreiðslan á uppruna til.

Nemendur í matargerðarlist
Nemendur kynnast nýrri gerð af sjúkrabörum

Það er alltaf spenna fyrir smiðjunum og virkilega gaman að fylgjast með áhuga nemenda, sem og þeirra sem taka að sér að sjá um smiðjurnar hverju sinni. Það má segja að sjá megi nemendur blómstra í verkefnum sínum. Þeir gleyma stund og stað þar sem tímarammi venjubundinna kennslustunda gleymist algerlega.

Almenn ánægja er með verkefnið bæði hjá nemendum og foreldrum sem hefur komið fram í könnunum og mati nemenda eftir helgarnar. Þeir sem hafa kennt í  smiðjunum kveðja okkur yfirleitt með þeim orðum að þeir séu tilbúnir í aðra smiðjuhelgi ef áhugi sé fyrir því. Það eru góð meðmæli með nemendum okkar og verkefninu sjálfu.

Hér má að lokum sjá nokkur dæmi um umsagnir nemenda sjálfra um smiðjuhelgarnar:

  • Er búin að bíða svo lengi eftir að fá að taka þátt í smiðjum, þetta var frábært.“
  • Vildi að ég ætti möguleika á að taka þátt í fleiri en einni smiðju yfir helgina svo margt áhugavert í boði.“
  • Amerískur fótbolti er frábær íþrótt ‒ getur skólinn ekki boðið upp á kennslu í þessari grein alltaf.“
  • Tókst að klára að gera beisli og taum, ég ætla að gefa vini mínum þetta í fermingargjöf. Binni kennari frábær.“
  • Við kynnumst á nýjan hátt krakkarnir.“

Danshópur Söndru




Að hugsa út fyrir rammann: Áhugasviðsverkefni á unglingastigi í Borgarhólsskóla

Halla Rún Tryggvadóttir og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, kennarar við Borgarhólsskóla á Húsavík

 


Hér er sagt frá áhugasviðsverkefnum sem nemendur á unglingastigi í Borgarhólsskóla á Húsavík fá tækifæri til að glíma við. Þessi verkefni hafa vakið athygli út fyrir skólann og orðið öðrum hvatning til að fara inn á svipaðar brautir. Athygli er vakin á því að í greininni eru hlekkir sem vísa á ýmis gögn sem kennararnir hafa þróað (námssamnings- og dagbókarform, verklýsingar og matsblöð).

Borgarhólsskóli er grunnskóli með um 300 nemendur. Á unglingastigi eru um 90 nemendur í 8.10. bekk og taka allir unglingarnir þátt áhugasviðsverkefnunum, ásamt nokkrum kennurum.

Hugmyndin að þessum verkefnum varð til eftir heimsóknir kennara Borgarhólsskóla til Reykjavíkur árið 2010. Segja má að hugmyndin sé soðin saman úr mörgum sem fengnar voru í þessum heimsóknum. Markmiðið er að fá nemendur til að taka meiri ábyrgð á eigin námi, vinna sjálfstætt og um leið að gera námið áhugaverðara. Árið 2011 hlaut Borgarhólsskóli styrk frá Sprotasjóði til að þróa og vinna að verkefni sem nefnt var Að færa út landamæri getu sinnar og þekkingar og var styrkurinn m.a. notaður til að þróa vinnubrögð í kringum áhugasviðsverkefnið.

Verkefnið er hugsað í þremur lotum:

  • Kveikja – kennarar kynna áhugasvið sín
  • Nýsköpun – vinnulota nemenda
  • Opið verkefni – vinnulota nemenda

Kveikjan er framkvæmd þannig að þeir kennarar sem tengjast áhugasviðsverkefnunum hverju sinni undirbúa kynningu á áhugamáli sínu og kynna fyrir nemendum. Kveikjan er í hringekjuformi. Áhugamál kennara eru fjölbreytt. Nefna má björgunarsveitarstarf, zumba-dans, spilið Kubb, Eurovision, drauga, Star Wars, pílukast, leiklist og skutlugerð.

Í þessum fyrsta hluta áhugasviðsverkefnisins er nemendum unglingastigs skipt í jafn marga hópa og kennararnir eru, yfirleitt fimm til sex hópar, þvert á stigið. Hver kennari hittir hvern hóp í klukkustund einu sinni í viku og segir frá áhugamáli sínu og leyfir nemendum jafnvel að prófa, ef áhugamálið er þess eðlis. Markmiðið er að hrista hópinn saman því nemendur mega vinna að hinum hlutum áhugasviðsverkefnisins þvert á stigið. Markmiðið með kveikjunni er einnig að gefa nemendum mismunandi hugmyndir fyrir framhaldið. Nemendur meta hverja stöð eftir hvern tíma (sjá hér).

Kveikjan er alltaf fyrsti hluti áhugasviðsverkefnisins og byrjar strax og skóli hefst að hausti.

zumba
Zumbadans undir stjórn kennara.

Í nýsköpunarhlutanum fá nemendur ákveðið verkefni eða þema til að hafa til hliðsjónar. Nemendur geta fengið frjálsar hendur og unnið út frá þema eða þá að afurðin er ákveðin fyrirfram en leiðin að henni og útlit hennar er undir þeim komin.

Fyrsta þemað var forvarnir eða fordómar. Nemendur völdu sér svið og í boði var myndvinnsla, hljóðvinnsla eða hönnun. Þeir máttu velja sér viðfangsefni til að kynna og áttu allir að setja upp kynningarbás fyrir verkefnið sitt.

Dæmi um viðfangsefni voru kynþáttafordómar, heilbrigður lífsstíll og skaðsemi reykinga. Skólinn bauð foreldrum og öðrum nemendum að koma og skoða afraksturinn. Mjög fjölbreytt vinna fór af stað og voru gerð myndbönd, lög, púsl, veggspjöld, bæklingar, húðmaski og fleira.

pusl

hudin
Púsl og húðvörur

Næsta verkefni var að hanna stól. Nemendur höfðu þá unnið ýmsar æfingar í litlum hópum úr heftinu Nýsköpunarmennt – æfingar sem Námsgagnastofnun gefur út.

Í upphafi var unnið út frá starfsheiti og tveimur lýsingarorðum sem nemendur drógu og stóllinn hannaður með hliðsjón af þeim. Sem dæmi má nefna að ef nemendur drógu orðin sjómaður, sætur og latur þurfti stóllinn að endurspegla þessi orð.

Nemendur þurftu að gera skissur af stólnum sínum og skila svo einni sem var í réttum hlutföllum. Eitt af skilyrðum hönnunarinnar var að stóllinn ætti að vera úr endurunnum efnum (nánari lýsingu á þessu verkefni má lesa hér). Aftur voru settir upp kynningarbásar og foreldrum boðið að koma og skoða. Einnig mætti dómnefnd á svæðið til að meta stólana með hliðsjón af matsblaði sem við höfðum útbúið, sjá hér.

stollÞriðja verkefnið í þessum hluta var skólablað. Nemendum stóð til boða að vinna á eftirfarandi sviðum: Með skapandi skrifum, ljósmyndun, uppsetningu og hönnun. Nemendum var skipt í þrjá hópa og hver hópur gaf út sitt blað. Einnig fengu nemendur viðeigandi fræðslu. Ljósmyndari kom og ræddi við þá og kenndi þeim ýmislegt um myndatöku og myndvinnslu. Nemendur sem völdu skapandi skrif fengu fræðslu frá rithöfundi og fréttamanni og nemendur sem völdu uppsetningu og hönnun fengu leiðbeiningar hjá arkitekt og hönnuði sem sér um að setja upp fréttablað. Í lokin var haldið útgáfuteiti og mat á vinnu við skólablaðið var bæði kennura og svo sjálfsmat nemenda.

baeklingar kassabill uppskriftabaeklingar jolabaekur

Opna verkefnið er síðasti hluti áhugasviðsverkefnisins en þá velja nemendur sér verkefni með tilliti til áhuga síns. Gerð er vinnuáætlun fyrir fyrir hvert verkefni sem undirrituð er af kennara (sjá eyðublað hér).

Mikið frelsi er um val á viðfangsefni. Nemendur raða sér í hópa, einn til fjórir nemendur eru í hverjum hópi. Nemendur ákveða sjálfir hvernig þeir vinna verkefnið og í hvaða formi þeir skila því. Dæmi um verkefni sem nemendur hafa valið: Kardashian fjölskyldan, fluguveiði, frjálsar íþróttir, sælgætisuppskriftir, tímarit, þjóðbúningar, skjaldbökur og uppskriftabók.

Í lokin eru kynningar á verkefnum nemenda á sal. Þar mæta nemendur og hlýða á kynningar skólafélaga sinna. Eins hefur foreldrum verið boðið að koma og hlusta á kynningarnar. Þær hafa verið með ýmsu sniði: Glærukynningar, lög og kvikmyndir svo dæmi séu tekin.

Verkefnið hefur ýmist verið á stundatöflum nemenda eða tekið fyrir í heilan dag. Á stundatöflum hefur það verið ein klukkustund á viku. Nemendur hitta þá kennarann sinn og segja frá hvar verkefnið er statt þann daginn. Ef verkefnið er þess eðlis að nemendur þurfa að fara út af örkinni og afla sér upplýsinga eða vinna á einhvern annan hátt fyrir utan skólann þá er þeim treyst til þess. Nemendur verða að láta kennara vita hvert á að fara og hvað þeir ætla að gera. Kennari gengur úr skugga um það í næsta tíma að nemendur hafi unnið það sem skipulagt var í tímanum á undan.

Hver nemandi eða hópur skrifar reglulega í leiðarbók sem kennarinn fylgir eftir. Þar er allt skrifað sem gert er í hverjum tíma og hvernig verkefnið og vinnan gengur. Allar hugmyndir skulu skráðar niður í leiðarbókina.

Nemendur eru með safnmöppu fyrir áhugasviðsverkefnið og þangað fara öll skjöl og öll vinna sem unnin er. Kennari skoðar safnmöppuna að verkefninu loknu.

Matið byggist á leiðarbók, kynningu, sjálfsmati og frammistöðumati kennara.

Hver er ávinningurinn?

Mat okkar er að þessi verkefni skili góðum árangri. Nemendur eru almennt skipulagðari og taka meiri ábyrgð á náminu. Þeir gera fjölbreyttari verkefni sem fær þá til að hugsa aðeins út fyrir rammann. Þeir fá tækifæri til að vinna með nemendum úr öðrum bekkjum, kynnast því bæði sér eldri nemendum eða yngri. Skólinn er ekki fjölmennur en samt hafa nemendur áttað sig á því, í gegnum áhugasviðsverkefnið, að aðrir í skólanum geta átt sömu áhugamál og þeir. Þannig hafa skapast ný vináttusambönd sem halda enn mörgum árum síðar.

Ávinningur verkefnisins er líka fólgin í því að það setur líka þrýsting á kennara í bóknámsgreinum að gera kennsluna fjölbreyttari, sem og námsmatið. Hér má nefna að matslistarnir sem gerðir voru fyrir þetta verkefni hafa einnig notaðir í öðrum greinum.

Eins og lesendum er væntanlega ljóst er auðvelt að færa rök fyrir viðfangsefnum af þessu tagi með því að vísa í aðalnámskrá. Verkefnin tengjast lykilhæfni, t.d. tjáningu, skapandi hugsun, vinnu með ólíka miðla, samvinnu og ábyrgð á eigin námi. Líklega er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að verkefni af þessu tagi ættu að skipa enn stærri sess í námi en nú er.