1

Menntabúðir í starfsþróun kennara – Þær virka á netinu! 

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Höfundar ásamt Ingvari Sigurgeirssyni á vinnufundi um fjarmenntabúðir. Efst: Sólveig Zophoníasdóttir, Salvör Gissurardóttir, Sólveig Jakobsdóttir. Fyrir miðju: Ingvar Sigurgeirsson, Hróbjartur Árnason, Kristín Dýrfjörð. Neðst: Svava Pétursdóttir.

Sólveig Jakobsdóttir, Hróbjartur Árnason, Kristín Dýrfjörð, Salvör Gissurardóttir, Sólveig Zophoníasdóttir og Svava Pétursdóttir  

Upplýsingatækni í menntun, fjarnám og netkennsla hafa verið óvenju mikið í deiglunni á undanförnum misserum vegna COVID-19 faraldursins. Það er ekki bara heilbrigðiskerfið sem reynt hefur á og heilbrigðisstarfsmenn sem hafa staðið í eldlínunni heldur einnig skólakerfið og kennarar. Margir kennarar, ekki síst á framhaldsskólastiginu, hafa mikla eða töluverða reynslu af fjarkennslu (Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2020). En mjög mörgum var á hinn bóginn hent út í djúpu laugina varðandi fjar- og netnám og aukna nýtingu stafrænnar tækni þegar skólalokanir og samkomutakmarkanir skullu fyrst á nær fyrirvaralaust í mars 2020.

Stjórnendur við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands skoruðu á starfsfólk  að setja fram hugmyndir að verkefnum sem gætu stutt við skóla- og frístundastarf við þessar breyttu aðstæður og voru nokkrir sem svöruðu kallinu (sjá https://bakhjarl.menntamidja.is). Við sem þetta skrifum, starfsfólk við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, ákváðum að vinna saman að því að bjóða upp á menntabúðir á neti – eða fjarmenntabúðir – þar sem áherslan væri á jafningjafræðslu um möguleika í fjar- og netnámi (Sólveig Jakobsdóttir, 2020). Vorum við svo heppin að fá Ingvar Sigurgeirsson í lið með okkur í þessum ráðagerðum en hann reyndist lykilmaður í verkefninu og studdi það dyggilega. Við sem mynduðum þennan „fjarmenntabúðahóp“ áttum samráð við fleiri aðila við skipulagningu búðanna og birt var grein í Skólaþráðum sem fjallaði um fyrirbærið menntabúðir og möguleika þeirra í starfsþróun kennara og kennaramenntun á Íslandi frá 2012 (sama heimild). Eins og þar kemur fram eru menntabúðir óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru og læra saman til dæmis á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur geta skipst á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Ekki er um að ræða hefðbundna fyrirlestra heldur oft byggt á sýnikennslu og spjalli í smærri hópum.

Menntabúðir hafa notið sívaxandi vinsælda sem námsform hér á landi. Ýmsir faghópar kennara hafa staðið fyrir menntabúðum, til dæmis í náttúrufræði og sérkennslu (Sólveig Jakobsdóttir o.fl. 2014, 2015) eða í stærðfræði. Námsformið virðist ekki síst vera nýtt af þeim sem eru að vinna með upplýsingatækni í skólastarfi eða hafa áhuga á því. Ástæðurnar fyrir því eru margar. Í fyrsta lagi hefur verið mikil þörf fyrir símenntun á sviði upplýsingatækni og að þróa árangursríkar leiðir sem ekki eru of kostnaðarsamar til að fylgjast með örri tækniþróun. Enn fremur er mikil þekking og reynsla víða til staðar hjá kennurum en hún er dreifð. Í menntabúðum er boðið upp á tækifæri til að deila þessari reynslu og hugmyndum, sýna og ræða um tæknimöguleika og verkfæri og mynda tengsl við aðra „á sömu bylgjulengd“. Jafningjafræðsluformið hentar fullorðnum vel, þar sem þeir hafa stjórn á sínu námsferli og geta átt í samskiptum við aðra á jafningjagrundvelli. Þá hefur það sýnt sig að kennaranemar hafa verið mjög ánægðir með að nýta staðlotur að hluta í jafningjafræðslu í menntabúðum og talið það gagnlegt (Sólveig Jakobsdóttir, 2015, 2018, 2019). 

Í titli áðurnefndrar greinar í Skólaþráðum (Sólveig Jakobsdóttir, 2020) var sett fram spurningin „Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu?“ Þegar sá pistill var birtur í byrjun apríl 2020 höfðum við, höfundar þessarar greinar (ásamt ógleymdum Ingvari Sigurgeirssyni), haldið fyrstu opnu fjarmenntabúðirnar fyrir starfandi kennara. Þær voru haldnar þann 26. mars og gengu ljómandi vel. Þá höfðu tveir háskólakennarar í fjarmenntabúða-hópnum einnig fært menntabúðir kennaranema, sem  halda átti í staðlotum, yfir á netið þá sömu viku með góðum árangri. Frá því greinin í Skólaþráðum var skrifuð höfum við haldið nokkrar fleiri fjarmenntabúðir. Við héldum tvennar til viðbótar á vormisseri 2020 í apríl og maí til að styðja við kennara í faraldrinum. Þá fengum við í kjölfarið styrk til að vinna rannsóknar- og þróunarverkefni um fjarmenntabúðir á skólaárinu 2020–2021. Hópurinn er nú í þeirri stöðu að geta eindregið svarað „Menntabúðir í starfsþróun kennara – Þær virka á netinu!“ Í þessum pistli munum við fjalla nánar um fjarmenntabúðir, á hverju við byggjum þetta svar og hvað hafa þurfi í huga þegar þær eru skipulagðar miðað við þá reynslu sem við höfum aflað okkur fram að þessu.

Fjarmenntabúðir á vormisseri 2020 

Við fjöllum fyrst um skipulag, þátttöku og reynslu þátttakenda í þrennum fjarmenntabúðum sem haldnar voru á okkar vegum í mars, apríl og maí 2020.

Skipulagið 

Grunnskipulag menntabúða og þar með fjarmenntabúða byggir í byrjun á auðum dagskrárramma sem væntanlegir þátttakendur taka þátt í að fylla. Dagskrárrammann settum við upp í opnu ritvinnsluskjali (Google Docs). Allir sem höfðu áhuga á að kynna efni tengt fjar- og netnámi gátu skráð sjálfir upplýsingar um væntanleg framlög. Vísað var á sex aðskildar netfundastofur (í Zoom) þar sem hver sem var gat skráð framlag sitt. Boðið var upp á nokkrar 25-30 mínútna lotur: Fjórar í fyrstu búðunum í mars, þrjár í þeim næstu í apríl og tvær í þeim síðustu í maí. Þá buðum við upp á samverustund í lokin á hverjum búðum þar sem allir gátu komið inn og spjallað. Í aprílbúðunum prófuðum við að nota sjöttu Zoom stofuna sem kaffistofu. Nánari upplýsingar um dagskrá og skipulag má finna á https://sites.google.com/view/fjarmenntabudir.

Þátttaka í búðum og könnunum 

Þátttakendur, sem ekki ætluðu að bjóða framlag, þurftu ekki að skrá sig sérstaklega til leiks en viðburðir voru settir upp í Facebook á vegum MVS og í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Þar gat fólk gefið til kynna þátttöku eða áhuga á mætingu en hvorki var um eiginlega þátttakendalista að ræða né þátttökugjöld.

Búðirnar voru auglýstar á samfélagsmiðlum, meðal annars í vinsælum Facebook hópum skólafólks (ekki síst á Skólaumbótaspjalli Ingvars Sigurgeirssonar) en einnig var vakin athygli á þeim á ýmsum póstlistum kennara á vegum samstarfsaðila. Þótt fyrirvarinn væri stuttur var mjög góð þátttaka ekki síst í fyrstu tveimur búðunum í mars og apríl en þá voru vel yfir 200 þátttakendur í hvort skipti, sjá Töflu 1. Innan við 100 voru í þeim þriðju í maí þegar skólastarf var aftur að færast í eðlilegt horf. Fjarmenntabúðahópurinn hafði haft efasemdir um að halda þriðju búðirnar en þátttakendur skoruðu á okkur í lok búðanna í apríl að bæta við þeim þriðju því æskilegt væri að festa þetta námsform betur í sessi. Þegar upp var staðið voru  429 þátttakendur víðs vegar af landinu í búðunum þremur (einni eða fleirum). Samtals var 51 kynning haldin í búðunum þremur: 24 kynningar í búðum 1, 15 í búðum 2 og 12 í búðum 3. Kynnendur voru 22 í búðum 1, 17 í búðum 2 og 14 í búðum 3. Samtals voru 39 kennarar með framlög. Sumir voru með tvö eða fleiri framlög en í sumum tilvikum voru tveir eða fleiri með sameiginlegt framlag. 

Tafla 1. Fjöldi þátttakenda og kynnenda í fjarmenntabúðum 2020 og könnunum um þær. 

* Því miður er ekki er unnt að gefa upp alveg nákvæma tölu um þátttöku en þessar tölur ættu að vera nærri lagi miðað við skráningarlista í Zoom og talningar á fundunum. Viðbótartalan 7 vísar til okkar sjömenninganna sem skipulögðu búðirnar. Ekki er hægt að leggja saman þátttakendatölur í búðum til að fá heildarfjölda þar sem sumir voru að mæta á tvennar eða þrennar búðir.

Þátttakendum var boðið að taka þátt í könnunum um reynslu sína af fjarmenntabúðum strax í kjölfar allra búðanna þriggja. Því miður var þátttökuhlutfall í könnunum ekki mjög hátt en þó var rúmur fimmtungur (57 af 231, 22%) sem svaraði eftir fyrstu búðirnar og um þriðjungur eftir búðir 2 (70 manns, 32%) og eftir búðir 3 (21, 35%).  Hér á eftir munum við lýsa svörum þátttakenda þrátt fyrir lágt svarhlutfall.

Bakgrunnur þátttakenda sem svöruðu könnunum var fjölbreyttur en fjölmennasti hópurinn tengdist grunnskólastiginu. Talsverður hópur var einnig af framhaldsskólastiginu, háskólastiginu og tengdur fullorðinsfræðslu og nokkrir af leikskólastiginu. Mynd 1 sýnir niðurstöður varðandi bakgrunn þátttakenda í könnunum. Hægt var að merkja við fleiri en eitt svið.

Mynd 1. Bakgrunnur þátttakenda í fjarmenntabúðum á vormisseri 2020. Hlutfall sem merkir við tengsl við mismunandi starfssvið.

Um kynningarnar 

Kynningarnar voru alls 51 eins og áður hefur komið fram. Innihald þeirra var mjög fjölbreytt og spannaði það helsta sem fólk var að glíma við í tengslum við að flytja kennslu sína á vefinn. Rúmlega fjórðungur kynninganna var tekinn upp í fyrstu búðunum og næstum allar kynningar í búðum 2 og 3. Við greindum kynningarnar í fjóra flokka:

 1. Kynningar sem tengjast stofnunum og verkefnum þeirra 
 2. Skjákynningar og sýningar á verkfærum 
 3. Kynningar á þróunarverkefnum þar sem ferli er lýst og prófun með nemendum 
 4. Umræður og hugflæði 

Flokkarnir falla ágætlega að hugmyndum um menntabúðir fyrir utan flokk 1. Nokkuð mörg framlög voru á vegum stofnana en fremur fá voru kynningar kennara á þróunarverkefnum þar sem ferli með nemendum var lýst. Kynningar á vegum stofnana og verkefni þeirra voru oftast á glærum eða kynning á vefgáttum með rafrænu efni eða veflægum lausnum. Almennt voru kynningar settar fram á myndrænan hátt. 

Virkni þátttakenda gat verið mikil í kynningum í öllum fjórum flokkunum en það var með ólíkum hætti eftir því hvers eðlis framlagið var. Þar skipti máli hvernig kynnendur lögðu upp framlög sín, reynsla þeirra af að virkja þátttakendur og tæknileg umgjörð. 

Viðbrögð þátttakenda 

Viðhorfakannanir sýndu að þátttakendur sem svöruðu þeim voru flestir ánægðir með framtakið, töldu sig hafa haft mikið eða mjög mikið gagn af þátttökunni og langflestum líkaði þetta námsform mjög vel eða vel, sjá Mynd 2 og 3. 

Mynd 2. Viðhorf þátttakenda varðandi gagnsemi.

 

Mynd 3. Viðhorf þátttakenda varðandi fyrirkomulag.

Langflestir þeirra sem svöruðu könnununum töldu öruggt eða líklegt að þeir mættu aftur á sambærilega viðburði (sjá Mynd 4). Þá voru nokkrir sem höfðu áhuga á að skipuleggja sjálfir viðburði af þessu tagi. 

Myndi 4. Áhugi þátttakenda á að mæta á sambærilega viðburði í framtíðinni.

Svör þátttakenda í könnunum við opnum spurningum sýndu meðal annars ánægju varðandi skipulag, áherslur og aðgengi á neti, ekki síst meðal landsbyggðarfólks. Dæmi um svör eru eftirfarandi: 

 • Mjög gott þegar maður býr úti á landi. Eins gott þegar maður vill bara kynna sér eitt efni. Maður myndi aldrei gera sér ferð fyrir hálftíma kynningu en mjög þægilegt að geta valið kynninguna á netinu. 
 • Þetta var frábært. Ekkert vesen með stærð húsnæðis, fólk ekki að keyra út um allan bæ og ekkert mál að hlusta og spyrja. 
 • Maður deilir hugmyndum og fær nýjar hugmyndir. 
 • Rosalega gott á þessum tímum að fá smá kynningu á möguleikum í fjarkennslu, kemur manni af stað til að prófa sig sjálf áfram. 
 • Frábært aðgengi og þægindi. Myndi gjarnan vilja ítarlegri og dýpri kennslu og kynningu á verkfærum sem hægt er að nota í fjarkennslu. Mjög áhugavert. 
 • Stuttar og hnitmiðaðar kynningar. Auðvelt að koma spurningum að. Persónulegt þótt ótrúlegt sé. 

Eins og fram hefur komið var þátttökuhlutfall í könnunum ekki mjög hátt og álitamál til dæmis hvort þeir sem eru ánægðari sendi frekar inn svör heldur en þeir sem óánægðari eru. Það má þó nefna að kennaranemar við Menntavísindasvið sem tóku þátt í fjarmenntabúðum í mars 2020, með svipuðu skipulagi í Zoom og hér hefur verið lýst, voru mjög ánægðir með þá reynslu sína en mikill meirihluti þeirra (92% svarhlutfall, 36 af 39) svaraði viðhorfskönnun. Mikill meirihluti kennaranemanna (86%) taldi reynsluna hafa verið mjög áhugaverða/skemmtilega og 14% töluvert áhugaverða/skemmtilega. Jafnframt töldu 47% sig hafa lært mjög mikið, 14% mikið og 33% töluvert. Þetta eru svipaðar niðurstöður og hjá fyrri kennaranemahópum (2014–2019) varðandi viðhorf til menntabúða á staðnum.

Fjarmenntabúðir skólaárið 2020–2021 

Styrkur fékkst frá Háskóla Íslands sumarið 2020 úr sjóði til að styðja við samfélagsvirkni fyrir framhaldsverkefnið „Fjarmenntabúðir: Stuðningur háskóla við skólastarf með stafrænni tækni“. Markmiðið með verkefninu er að festa fjarmenntabúðir betur í sessi hér á landi og þróa þær áfram sem leið til starfsþróunar. Í verkefnishópnum eru nú átta manns.[1]

Við höfum nýtt hönnunarmiðaða nálgun (e. design-based) þar sem við prófum mismunandi leiðir, skoðum hvern viðburð og þau gögn sem verða til í tengslum við fjarmenntabúðirnar. Tekið verður mið af þeim upplýsingum til að sníða af hnökra og búa til góð módel um hvernig hægt er að standa að slíkum viðburðum í skólasamfélaginu. 

Stefnt er að umtalsverðri miðlun kynningarefnis og náms- og kennslugagna í stafrænu formi um fjarmenntabúðir. Við höfum komið afrakstri úr búðunum sjálfum á framfæri (upptökur úr kynningum). Við höfum skrifað um þetta námsform og reynsluna af því og kynnt á ráðstefnum. Þá er stefnt að því að gera rafræna handbók með hagnýtum upplýsingum um skipulag fjarmenntabúða (online educamps) og netráðstefna (online conferences). 

Nálgun og reynsla hópsins nýttist vel haustið 2020 þegar flytja þurfti Menntakviku – árlega ráðstefnu MVS – á netið. Jafnframt var áhugavert að fylgjast með fjölmennum fjarmenntabúðum sem Eymennt stóð fyrir í október 2020 (200+ þátttakendur). Haldnar voru fjarmenntabúðir á vegum verkefnishópsins 10. desember sl. með áherslu á fjarkennslu og netlausnir og var markhópur búðanna framhalds- og háskólakennarar. Þessar desemberbúðir þóttu takast vel. Settur var upp viðburður á Facebook í samstarfi við starfsfólk MVS og var upplýsingum um búðirnar deilt á samfélagsmiðlum og póstlistum í samstarfi við Kennarasambandið,  Félag framhaldsskólakennara og starfsfólk eða stjórnendur fjögurra háskóla. Í boði voru 12 framlög í sex Zoom stofum í tveimur lotum og voru  þátttakendur á milli 60 og 70. Sjá yfirlit um framlög og upptökur á https://sites.google.com/view/fjarmenntabudir

Tvennar fjarmenntabúðir eru á dagskrá hjá okkur á vormisseri 2021. Í fyrri búðunum í febrúar er markhópur sá sami og 10. desember sl. og sama áhersla á fjar- og netnám. Í þeim seinni er markhópur grunn- og leikskólakennarar.

Hópurinn keypti lénið https://fjarmenntabudir.is sem verður nýtt fyrir verkefnið. Þá stóðum við fyrir málstofu og hringborðsumræðu á Menntakviku (Salvör Gissurardóttir og Sólveig Zophoníasdóttir, 2020; Sólveig Jakobsdóttir, 2020b) og fjarmenntabúða-verkefnið var kynnt á European Distance og Elearning Network ráðstefnunni sem haldin var í október 2020 á netinu (Sólveig Jakobsdóttir og Hróbjartur Árnason, 2020). Einnig var verkefnið kynnt á UT-messu 2021 en það var eitt af verkefnum Háskóla Íslands sem valið var í kynningarefni skólans á ráðstefnunni.

Ábendingar til þeirra sem vilja skipuleggja fjarmenntabúðir 

Við vinnum nú að gátlista sem getur gagnast öðrum við framkvæmd fjarmenntabúða þegar þeir vilja prófa slíkt form í starfsþróun og jafningjafræðslu. Þar verða meðal annars eftirfarandi atriði: 

 • Val á tæknilegu umhverfi/netrýmum 
 • Þjálfun og færni stjórnenda, kynnenda, þátttakenda 
 • Kynningar og auglýsingar 
 • Kostnaður og vinnuframlag: tól, vefur, vinnutímar, líka þeirra sem vinna ókeypis 
 • Ytri umgjörð: lög, öryggismál, friðhelgi, aðgengi, upptökur 
 • Skráning framlaga og flokkun þeirra 
 • Góð sýnidæmi, fyrirmyndir og dæmi um virkni 
 • Aðgreining á fjarmenntabúðaframlagi og vefstofuerindi (e. webinar) 
 • Skipulag: upphaf, kynningarlotur, endir 
 • Félagslegi þátturinn: gleðistundir, kaffistofusamvera 
 • Kynning á afrakstri (upptökur) 
 • Þemu og markhópar 

Loka- og þakkarorð 

Menntabúðir eru, eins og fram hefur komið, skipulagsform fyrir starfsþróun jafningja þar sem þátttakendur kynna leiðir sem þeir hafa sjálfir nýtt í kennslu sinni. Gæði  slíkra viðburða liggja að miklu leyti í umræðum þátttakenda, spurningum, svörum og sameiginlegum vangaveltum. Þess vegna skiptir máli fyrir þann sem stýrir ferlinu í hverri netfundastofu, að laða fram þátttöku frá öllum sem eru „til staðar”. Vandinn við það liggur í að margir sem ekki þekkja til eru vanari að nýta fræðsluviðburði á netinu sem neytendur og hika jafnvel við að koma fram í mynd og grípa hljóðnemann til að spyrja eða gera athugasemdir. En þegar fundarstjórar gengu ákveðið til verks og nýttu þekktar leiðir til að fá fólk til að kynna sig, kveikja á myndavél og segja jafnvel stuttlega frá reynslu sinni af umræðuefninu, gekk iðulega mjög vel að laða fram fjörugar umræður í tengslum við þær kynningar sem boðið var upp á. 

Fjarmenntabúða-námsformið er ekki síst mikilvægt á þeim óvissutímum sem við lifum á þar sem nýting stafrænnar tækni og netlausna í skólum getur verið lykill að velgengni nemenda og þess að skólar geti áfram boðið upp á sem besta menntun og fræðslu. Verkefni eins og menntabúðir hefði ekki getað orðið að veruleika nema með samvinnu og gjafmildi þeirra sem að komu. Eins og áður er getið var fjöldi þeirra kynninga sem áhugasamir gátu nýtt sér mikill. Ekki má gleyma að á bak við hvert framlag stendur einn eða fleiri kennarar og oft nemendur þeirra sem voru hluti af þróunarferlinu. Bak við kennara eru líka samstarfsmenn og stjórnendur sem margir styðja og styrkja sitt fólk. Starfsfólk hjá MVS hefur meðal annars komið að verkinu varðandi kynningar, tæknimál og fleira. Fjarmenntabúðir hafa verið hluti af ferli í lærdómssamfélagi sem hefur náð til allra skólastiga og til ýmissa deilda innan skólanna. Sannarlega er það von okkar sem að komu að ferlið eigi eftir að dafna og þróast og jafnvel  öðlast eigið líf. Einn lærdómurinn hefur verið að hvert skólastig getur veitt öðrum skólastigum aðgengi að sérhæfingu og hugmyndum. Fyrir alla þessa samvinnu og velvilja erum við þakklát. 

Að lokum langar okkur til að þakka Ingvari Sigurgeirssyni fyrir að hafa verið með okkur í þessari vegferð. Ekki er ónýtt að hafa reynslubolta í mismunandi kennsluaðferðum, mann sem hefur verið með puttann á hinum kennslufræðilega púlsi í áratugi, sem hefur lagt sig fram um að þróa skólastarf á mismunandi skólastigum og verið óþreytandi í að deila góðum hugmyndum og iðulega vera aflvaki lífs þeirra. Öll stöndum við að lokum á tímamótum og horfum yfir farinn veg. Við, sem höfum starfað með Ingvari, værum nokkuð glöð ef okkar starfsakur væri nærri eins gefandi og hans hefur verið. 

Kæri Ingvar, við munum hiklaust taka tilboði þínu um að stökkva inn í fjarmenntabúðirnar með okkur og redda málum ef á þarf að halda – höfum þig stöðugt í huga og munum vafalaust nýta okkur það í framtíðinni. Takk fyrir samstarfið! 

Hamingjustund í lok fjarmenntabúða 10.12. 2020 nýtt til að heiðra okkar frábæra félaga Ingvar Sigurgeirsson.

 

Heimildir 

Salvör Gissurardóttir og Sólveig Zophoníasdóttir. (2020). Hvaða form og skipulag er heppilegt fyrir fjarmenntabúðir – gátlisti. Erindi á Menntakviku – árlegu þingi Menntavísindasviðs, Reykjavík. https://menntakvika.hi.is/malstofa/fjarmenntabudir-studningur-haskola-vid-skolastarf/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2015). Educamps in education: Enjoyable “over-the-shoulder learning” to show and share ICT practices. Erindi og vinnustofa á EDEN 2015 annual conference: Expanding learning scenarios, Barcelona. https://uni.hi.is/soljak 

Sólveig Jakobsdóttir. (2018). Educamps in distance education: professional development and peer learning for student teachers in ICT. Í A. Volungeviciene og A. Szucs (ritstj.), Exploring the Micro, Meso and Macro: Navigating between dimensions in the digital learning landscape – Conference Proceedings of the EDEN 2018 Annual Conference (bls. 501-507). Genoa: European Distance and E-Learning Network. http://www.eden-online.org/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2019). ICT in teacher education: Educamps and peer learning. Í E. M. Varonis (ritstj.), International conference on information communication technologies in education – proceedings (bls. 1-9). Chania, Crete: ICICTE. http://www.icicte.org/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2020a). Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu? Skólaþræðir, 9/4. https://skolathraedir.is/2020/04/09/menntabudir-i-starfsthroun-kennara-geta-thaer-virkad-a-netinu/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2020b). Fjarmenntabúðir í starfsþróun kennara: Viðhorf og reynsla þátttakenda. Erindi á Menntakviku – árlegu þingi Menntavísindasviðs, Reykjavík. https://menntakvika.hi.is/malstofa/fjarmenntabudir-studningur-haskola-vid-skolastarf/ 

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2014, mars). The Educamp model: experience and use in professional development for teachers. Erindi á NERA (Nordic Educational Research Association), Lillehammer.

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir. (2015, október). Menntabúðir með margs konar hópum: Reynsla og þróun. Erindi á Menntakviku árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Reykjavík. https://uni.hi.is/soljak

Sólveig Jakobsdóttir og Hróbjartur Árnason. (2020). Development of online educamps during the COVID-19 pandemic. Í S. K. Softic, A. Teixeira og A. Szucs (ritstj.), Enhancing the human experience of learning with technology: New challenges for research in digital, open, distance & networked education (bls. 59-63). Lisbon: European Distance and E-Learning Network. http://www.eden-online.org/wp-content/uploads/2021/01/RW11_SPB_v5.pdf 

Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir. (2020). Fjarkennsla og stafræn tækni í framhaldsskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sjónarhóll kennara og stjórnenda. Netla, Sérrit – Menntakerfi og heimili á tímum COVID-19. https://netla.hi.is


[1] Í fjarmenntabúða-verkefnishópnum eru þegar þetta er skrifað Sólveig Jakobsdóttir prófessor, Hróbjartur Árnason lektor, Salvör Gissurardóttir lektor, Svava Pétursdóttir lektor og Sólveig Zophoníasdóttir doktorsnemi og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Ingvar Sigurgeirsson prófessor starfaði með hópnum fram í nóvember en þá bættist Ingileif Ástvaldsdóttir aðjúnkt við sem samstarfsaðili ásamt Sigurbjörgu Jóhannesdóttur verkefnisstjóra við Kennslumiðstöð HÍ. Valgerður Ósk Einarsdóttir kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð Háskólann á Akureyri kom í stað Kristínar Dýrfjörð dósents í ársbyrjun 2021.


Sólveig Jakobsdóttir (soljak(hja)hi.is) er prófessor í fjarkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-prófi 1989 frá University of Minnesota og doktorsprófi frá sama skóla 1996 í kennslufræðum með áherslu á tölvunotkun í menntun. Sólveig hóf störf við Kennaraháskóla Íslands 1997 og hefur stýrt Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun frá stofnun stofunnar 2008. Rannsóknir hennar og kennsla hafa snúið að upplýsingatækni í námi og kennslu og fjar- og netnámi. Vefsíða: https://uni.hi.is/soljak

Hróbjartur Árnason (hrobjartur(hja)hi.is) er lektor í kennslufræði fullorðinna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk kandidatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1987 og stundaði í kjölfarið rannsóknir í biblíufræðum við hebreska háskólann í Jerúsalem og Otto Friedrich Háskólann í Bamberg, Þýskalandi. Árið 1997 lauk hann Aufbau Studium Andragogik  frá sama skóla. Hróbjartur starfaði við fullorðinsfræðslu og kennslustjórn við menntakerfi rafiðnaðarmanna til 2003 þegar hann hóf störf við Kennarahákóla íslands. Rannsóknir Hróbjarts hafa snúið að notkun upplýsingatækni við nám og kennslu fullorðinna, þátttöku fullorðinna í námi og sambandi sköpunar og náms svo eithvað sé nefnt. Vefsíða: https://Namfullordinna.is 

Salvör Gissurardóttir (salvor(hja)hi.is ) er lektor í upplýsingatækni við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk Cand. Oceon prófi frá Háskóla Íslands 1981, M.A. prófi frá University of Iowa í námsefnisgerð og námshönnun með áherslu á tölvur í skólastarfi árið 1990. Salvör hefur starfað sem framhaldsskólakennari í Reykjavík og sem námstjóri í tölvugreinum í grunnskólum og framhaldsskólum í menntamálaráðuneyti og sem sérfræðingur í málefnum upplýsingasamfélagsins í forsætisráðuneyti. Salvör hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1991. Rannsóknir hennar og kennsla hafa tengst upplýsingatækni í námi og kennslu, opnu menntaefni(OER), netnámi, forritun, stafrænni sögugerð og tölvuleikjum í námi.

Svava Pétursdóttir (svavap(hja)hi.is) er  lektor í yngri barna kennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og doktorsprófi frá University of Leeds 2013. Hún kenndi í 15 ár yngri bekkjum auk náttúrufræði og stærðfræði á unglingastigi í Grunnskólanum í Sandgerði og Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Rannsóknir hennar beinast að kennslufræði, sköpunarsmiðjum í skólastarfi, kennslu náttúrugreina og upplýsingatækni.

Kristín Dýrfjörð (dyr(hja)unak.is) er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Kristín starfaði sem leikskólastjóri í um áratug og var virk í félagsstörfum fyrir Félag leikskólakennara. Hún tók þátt í að rita síðustu tvær aðalnámskrár leikskóla. Rannsóknir hennar snúa að lýðræði í starfi leikskóla, skapandi starfi í leikskólum og áhrifum stefnumótunar og hugmyndafræði á leikskólastarf.

Sólveig Zophoníasdóttir (sz(hja)unak.is) er aðjúnkt við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún lauk grunnskólakennaraprófi með áherslu á myndmennt frá kennaradeild Háskólans á Akureyri, framhaldsnámsdiplómu í tölvu- og upplýsingatækni frá Kennaraháskóla Íslands og meistaraprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Hún stundar nú doktorsnám í menntavísindum við Háskóla Íslands. Sólveig hefur hannað og stýrt starfsþóunarverkefnum víða um land og hefur um langt skeið starfað með kennurum og stjórnendum að fjölbreyttri starfsþróun í tengslum við leiðtoganám í stærðfræði, leiðsagnarmat, samræður í námi og upplýsingatækni. Rannsóknir Sólveigar snúa að gæðum kennslu í skólastarfi með sértakri áherslu á upplýsingartækni og nemendaþátttöku. 


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 26.2. 2021

 
Menntun og nám – sameiginleg vegferð nemenda og kennara: Um menntabúðir í Menntaskólanum á Akureyri

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, Arnfríður Hermannsdóttir og Eva Harðardóttir

 

Umbætur í skólastarfi tengjast nú í auknum mæli  miðlun þekkingar og upplýsinga sem og samskiptum kennara og nemenda. Á tímum heimsfaraldursins COVID-19 hefur upplýsinga- og samskiptatækni fengið umtalsvert stærri sess í skólahaldi en áður og það á undraskömmum tíma. Margir kennarar og nemendur hafa nú stigið inn í nýjan veruleika náms og kennslu þar sem stafrænar lausnir, samspil og samvinna leika stærra hlutverk en öllu jafna. Kórónuveiran hefur minnt alla, sem að skólahaldi koma, á hversu mikilvægt það er að deila reynslu okkar og upplifunum á jafningagrundvelli. Læra hvert af öðru og vera óhrædd við að kanna nýjar slóðir. Í þessari grein verður rætt um nýsköpunar- og þróunarverkefni í ofangreindum anda sem unnið hefur verið í Menntaskólanum á Akureyri á undanförnum þremur árum og hefur nú skipað sér mikilvægan sess í skólahaldinu.

Áherslan á umbætur og gæði í skólastarfi hafa ekki eingöngu tengst framförum í upplýsingatækni heldur einnig aukinni meðvitund um mikilvægi samvinnu allra þeirra sem að skólasamfélaginu koma. Hugmyndir Shirley Hord (2009) um faglegt lærdómssamfélag (e. professional learning community) og Fullan og Hargreaves (2016) og Hargreaves og Shirley (2009) um fjórðu leiðina í skólaþróun hafa meðal annarra varpað ljósi á mikilvægi samskipta og samvinnu kennara um sameiginleg gildi í skólastarfi sem og hlutverk nemenda við að móta markmið menntunar og skapa jákvæða skólamenningu. Í þeirri vegferð að efla þekkingu og samráð um mótun skólastefnu og -starfs hafa sprottið upp fjölmörg afbrigði af svo kölluðum menntabúðum þar sem góðum hugmyndum og  verkefnum á sviði náms og kennslu er deilt á meðal kennara og starfsfólks skóla eða á milli skóla.

Í Menntaskólanum á Akureyri kviknaði sú hugmynd á meðal upplýsingatækniráðgjafa, sem einnig eru kennarar í ólíkum deildum skólans, að koma á fót menntabúðum meðal starfsfólks. Markmið þeirra var m.a. að skapa tíma og vettvang fyrir kennara til að ræða málin og læra hver af öðrum. Menntabúðirnar voru skipulagðar í kringum stuttar málstofur eða erindi um ýmsar nýjungar, ráðstefnur sem kennarar höfðu sótt annars staðar frá og tækni í kennslu. Takmarkið var að gera menntabúðir að eðlilegum hluta skólastarfsins og með því skapa virkt og gefandi lærdómssamfélag þar sem kennurum gæfist aukinn möguleiki á að öðlast nýja þekkingu og færni með því að skapa, miðla og taka þátt í umræðum um nám og kennslu.

Samstarf og samvinna

Fyrstu menntabúðir skólans voru haldnar í nóvember árið 2017 og fylgdu þrjár aðrar í kjölfarið yfir skólaárið 2017–2018. Ýmis mál voru tekin fyrir en meginþema búðanna féll yfirleitt að tæknilegum þáttum kennslu og náms svo sem notkun ólíkra forrita eða námstækja. Upplýsingatæknifulltrúar skólans sáu að mestu um að leggja inn efni og stýra málstofum. Veturinn 2018 til 2019 var verkefninu fram haldið og markvisst sóst eftir því að fleiri kennarar og starfsfólk skólans tækju þátt í að miðla efni í menntabúðum. Málstofurnar urðu þannig fjölbreyttari með tímanum þar sem m.a. var fjallað um skapandi kennslu, áhættuhegðun unglinga og niðurstöður rannsókna á lýðræðislegum bekkjarumræðum.

Auk hefðbundinna menntabúða innan Menntaskólans á Akureyri var einnig ákveðið að efna til sameiginlegra menntabúða allra SAMNOR framhaldsskólanna.[1] Þær búðir tókust sérlega vel þar sem stjórnendur og kennarar skólanna skiptust á góðum hugmyndum ásamt því að ræða ýmis álitaefni í kennslu og námi út frá ólíku samhengi skólanna. Þá voru einnig haldnar í fyrsta skiptið svokallaðar nemendamenntabúðir sem sérstaklega verður fjallað um hér á eftir. Þar bauðst nemendum Menntaskólans á Akureyri að sjá um og stýra málstofum um þau efni sem helst brunnu á þeim í sambandi við nám og kennslu.

Í þessar grein, sem birtist í Skólaþráðum 9. apríl s.l., segir Sólveig Jakobsdóttir frá þróun menntabúða hér á landi

Í lok þessa reynslutíma var ljóst að menntabúðir voru komnar til að vera enda mikil og almenn jákvæðni fyrir stærri og virkari vettvangi kennara, starfsfólks og nemenda til að hafa áhrif á skólaþróun, stefnu og starf. Í kjölfarið var sótt um styrk til tveggja ára í Sprotasjóð til þess að útvíkka og efla menntabúðir innan Menntaskólans á Akureyri og einnig á milli SAMNOR skólanna. Á vordögum 2019 bárust þær gleðifréttir að verkefnið hefði hlotið styrkinn. UT-ráðgjafar héldu því ótrauðir áfram að vinna að menntabúðum innan Menntaskólans á Akureyri með sérstaka áherslu á aðild og þátttöku nemenda í gegnum ofangreindar nemendamenntabúðir.

Að hlusta á og efla raddir nemenda

Nemendur standa oft utan við þá umræðu sem beinist að skólamálum og skólaþróun þrátt fyrir að líta megi svo á að allar skólaumbætur hafi það að markmiði að tryggja velferð og heill þeirra. Hópurinn sem stóð að þróun menntabúðanna varð strax sammála um mikilvægi þess að skapa nemendum sambærilegan vettvang og kennurum til þess að geta tekið þátt í lærdómssamfélaginu og stuðlað með markvissum hætti að skólaþróun og umbótum. Fyrstu nemendamenntabúðirnar í Menntaskólanum á Akureyri voru haldnar vorið 2019 og stýrðu nemendur þeim alfarið. Þannig völdu áhugasamir nemendur og nemendafélög sjálf þau efni sem tengdust skólanum á einhvern máta og voru þau tekin til umfjöllunar í fjórum málstofum auk þess sem nemendur sinntu málstofustjórn og umræðum. Vinsælasta málstofan í fyrstu nemendamenntabúðunum var um kennsluaðferðir og sýn nemenda á ólíkar kennsluaðferðir kennara en fjórir nemendur, sem höfðu allir ólíkar skoðanir á kennsluaðferðum, héldu mjög líflegt erindi og stýrðu málstofunni. Kennarar lögðu til ritara fyrir hverja málstofu sem sá um að skrifa formlega samantekt á þeim umræðum sem fram fóru. Þessari samantekt var síðan deilt með öllu starfsfólki, kennurum og nemendum.

Nemendur jafnt sem kennarar sóttu búðirnar og mætti segja að í þessum fyrstu búðum hafi verið fámennt en góðmennt þar sem afar áhugasamur hópur bæði nemenda og kennara tók þátt í þýðingarmiklum umræðum um skólastarf og skólabrag. Eftir búðirnar fóru nemendur yfir ferlið með upplýsingatækniráðgjöfum þar sem fram kom að mikil ánægja ríkti með verkefnið en hópurinn var þó sammála um að nemendur gætu komið enn frekar og fyrr að verkefninu.

Með þessa þætti í huga voru haldnar nemendamenntabúðir í annað skiptið í febrúar 2020. Mjög vel tókst til í þetta skiptið og var þátttaka til að mynda umtalsvert betri. Málstofurnar að þessu sinni voru fjórar en farið verður stuttlega yfir þær hér til að varpa ljósi á þann fjölbreytileika sem ríkti í efnistökum og áherslum nemenda.

Aðgengismál í MA var heiti á málstofu þar sem fjallað var um hvernig MA stendur sig í aðgengismálum og hvernig hægt er að gera betur. Nemendur sem stóðu að þessari málstofu höfðu gert góða úttekt á húsnæði skólans, hugað að formlegu starfi sem og félagslífi nemenda auk þess að draga fram raddir þeirra nemenda sem þurfa til dæmis á hjólastól að halda. Á málstofunni kom fram að mikilvægt er að gera breytingar á aðgengi – ekki út af nemendum heldur fyrir nemendur og alla aðra sem á eftir koma.

Hinseginleikinn í MA var heiti á málstofu þar sem fram kom að þótt ekki væri beint misrétti í skólanum væri samfélagslegt misrétti þó til staðar. Meðal annars var fjallað var um neikvæða orðræðu og fordóma sem leynast undir yfirborðinu og mikilvægi þess að allir taki höndum saman til að vinna gegn fordómum innan skólans.

Jákvæð samskipti í skólastarfi var þriðja málstofan þar sem rætt var um samskipti meðal nemenda og nemenda og kennara í skólanum. Þar töldu nemendur að ýmislegt mætti bæta og var m.a. fjallað um formlegar leiðir til þess að tilkynna eineltismál, áreiti og áreitni auk þess sem fjallað var um leiðir til að bæta skólabraginn með gleði og jákvæðni að leiðarljósi.

Skipulag nemenda var heiti á fjórðu málstofunni þar sem nemendur miðluðu gagnlegum aðferðum til samnemenda og kennara til þess að skipuleggja sig. Farið varið yfir ýmis forrit sem gott væri að hafa sem og þá hugarfarsbreytingu sem þyrfti að eiga sér stað til að koma á góðu námsskipulagi. Það er sannarlega mikilvægt að vera með allt á hreinu í krefjandi námi og láta ekkert koma sér á óvart í þeim málum.

Lærdómurinn

Í kjölfar tveggja vel heppnaðra nemendamenntabúða er ljóst að þetta fyrirkomulag er komið til að vera. Allir sem hafa tekið þátt, með einum eða öðrum hætti, eru sammála um að verkefnið stuðli að góðu og mikilvægu samtali á milli kennara og nemenda og efli möguleika þeirra til þess móta skólastefnu og starf með virkum hætti. Nemendamenntabúðir gefa auk þess nemendum tækifæri á að láta raddir sínar heyrast sem hefur óneitanlega bein og jákvæð áhrif á skólasamfélagið. Lýðræðislegar umræður og þátttaka í þeim efla ekki einungis víðsýni og viðhorf nemenda (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007; Sigrún Aðalbjarnardóttir og Eva Harðardóttir, 2018) heldur eru þær mikilvæg leið til þess að miðla reynslu og upplifun kynslóða og skapa þannig þýðingarmikið samtal um hvernig við mótum lýðræðislegt og réttlátt skólasamfélag.

Þá hefur vettvangurinn verið mikilvægur til að benda á fjölbreytileika innan skólans og á meðal nemenda. Oft eru nemendur ekki sammála um alla hluti og sem dæmi mynduðust afar áhugaverðar umræður um gildi og vægi kennsluaðferða á fyrstu nemendamenntabúðunum þar sem ólík viðhorf nemenda fengu að njóta sín á grundvelli gagnrýnnar hugsunar og virðingar.

Þátttaka nemenda í menntabúðum skólans er mikilvægt innlegg inn í skólaþróun, stefnumótun og starf og hefur verið afar áhugavert lærdómsferli. Ekki síst fyrir kennara og starfsfólk skólans sem hefur gefið sér aukinn tíma til þess að hlýða á og taka þátt í umræðum á jafnréttisgrundvelli. Þannig höfum við saman hlúð að mikilvægum grunnþáttum í skólastarfi er snúa að lýðræði og mannréttindum og jafnrétti. En ekki síður að læsi og sköpun þar sem nemendur hafa kynnt sér skólastarf og stefnu með ólíkum hætti, dregið ályktanir og miðlað með fjölbreyttum hætti í menntabúðum. Þá er ljóst að heilsa og vellíðan nemenda fær aukið vægi á þessum vettvangi þar sem umfjöllunarefnin beinast að þeirra hugðarefnum og vellíðan.

Við, sem staðið höfum að menntabúðum innan Menntaskólans á Akureyri, vonumst til þess að verkefnið stuðli að sjálfbæru og öflugu skólastarfi sem heldur áfram að þróast með aðkomu allra sem í því lifa og hrærast, ekki síst nemenda, sem hafa yfir að búa óþrjótandi krafti og möguleikum til að gera gott starf enn betra. Þessi kraftur sást glögglega þegar allir þurftu á einni helgi að skipta yfir í fjarkennslu- og nám þegar samkomubann vegna COVID-19 skall á. Bæði nemendur og kennarar tókust á við það verkefni af æðruleysi og samviskusemi tilbúin að vinna saman að þeirri sameiginlegu vegferð sem nám og kennsla er.

[1] Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Húsavík og Framhaldsskólinn á Laugum.

Heimildir

Fullan, M. og Hargreaves, A. (2016). Bringing the profession back in: Call to action. Oxford: OH: Learning Forward.

Hargreaves, A. og Shirley, D. (2009). The fourth way: The inspiring future for educational change. London: SAGE.

Hord, S. (2009). Professional learning communities. Educators work together toward a shared purpose – improved student learning. NSDC. http://www.ecapvideos.ca/ecap/resources/Hord2009.pdf

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar. Reykjavík: Heimskringla Háskólaforlag Máls og Menningar.

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Eva Harðardóttir. (2018). Students’ attitudes towards immigrants’ rights: The role of democratic classroom discussions. Í Hanna Ragnarsdóttir og Samúel C. Lefever (ritstj.) Iceland studies on diversity and social justice in education (bls 130–155). UK: Cambridge Scholars Publishing.

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Eva Harðardóttir. (2012). Lýðræðislegar bekkjarumræður og viðhorf til réttinda innflytjenda: Sýn nemenda. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.hi.is/menntakvika2012/013.pdf

 


Arnfríður Hermannsdóttir er efnafræðikennari og UT-ráðgjafi í Menntaskólanum á Akureyri.

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir er frönskukennari og UT-ráðgjafi í Menntaskólanum á Akureyri. Hún er einnig faggreinastjóri annarra erlendra tungumála en ensku.

Eva Harðardóttir er félagsgreinakennari, jafnréttisfulltrúi og UT-ráðgjafi við Menntaskólann á Akureyri. Hún stundar auk þess doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og sinnir stundakennslu við HA og HÍ.

Störf þeirra sem UT-ráðgjafa felast í því að aðstoða aðra kennara og nemendur við tæknileg vandamál, að leita að tækninýjungum sem gætu nýst samstarfsfólki í kennslu og að aðstoða við að skipuleggja menntabúðir innan sem utan skólans.Grein birt 4.5.2020
Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu?


Sólveig Jakobsdóttir

 

Um langt skeið hefur verið ljóst hversu mikilvæg starfsþróun og símenntun er fyrir kennara ekki síst á sviði upplýsingatækni og í síbreytilegu stafrænu landslagi (Sólveig Jakobsdóttir, McKeown og Hoven, 2010). Leiðir og möguleikar til starfsþróunar hafa jafnframt verið að þróast í takt við tæknina (Sólveig Jakobsdóttir, 2011). Kennarar og annað skólafólk hefur til dæmis haft góð tækifæri til að gefa hugmyndir og fá ráðgjöf og ábendingar á samfélagsmiðlunum en þar hafa myndast nokkurs konar stafræn kjörlendi (e. digital habitats, sjá Wenger, White og Smith, 2009) fyrir fjölmarga faghópa sem tengjast menntun, námi og kennslu. Þá hafa svokallaðar menntabúðir notið sívaxandi vinsælda um allt land til að deila þekkingu og reynslu.

Menntabúðir eru óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru og læra saman til dæmis á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur geta skipst á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Á ensku hafa hugtökin educamp (Leal Fonseca, 2011), edcamp og unconference (Carpenter, 2016; Carpenter og Linton, 2018; Carpenter og MacFarlane, 2018) eða teachmeet (Turner, 2017) verið notuð um þessa gerð fræðslu. Hún hefur reynst vel í starfsþróun kennara.

Hér á landi hófust tilraunir með menntabúðir haustið 2012 með 21 framhaldsnema í staðlotum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (HÍ) en margir þeirra voru jafnframt starfandi kennarar. Mynd 1 er samsett og sýnir nokkra hópa nemenda að fræðast af hver öðrum í þeim búðum. Um svipað leyti stóðu samtökin 3f – félag um upplýsingatækni í menntun fyrir ráðstefnu með menntabúðasniði um tækni í sérkennslu með 85 þátttakendum. Vorið 2013 voru svo haldnar menntabúðir með 18 framhaldsnemum á námskeiðinu Fjarnám og kennsla við Menntavísindasvið HÍ. Menntabúðirnar mæltust mjög vel fyrir hjá viðkomandi hópum og hafa þar af leiðandi verið áfram í boði í staðlotum viðkomandi námskeiða undanfarin ár, oft með þátttöku utanaðkomandi gesta. Fóru sumir nemendur strax haustið 2012 að prófa sig áfram að nýta leiðina í sínum skólum með samkennarahópum (Sólveig Jakobsdóttir, 2014; Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Svava Pétursdóttir, 2014). Þá voru spjaldtölvur farnar að ryðja sér til rúms sem nýstárleg tækni með fjölmarga möguleika í námi og kennslu og mikill áhugi á starfsþróun fyrir kennara í því sambandi. Virtust menntabúðir vera mjög hentug leið til að deila reynslu á því sviði. Á mynd 2 og 3 sjást hópar nemenda og kennara ræða saman um spjaldtölvunotkun og að prófa sig áfram með spjaldtölvusett Menntavísindasviðs og eigin spjaldtölvur í staðlotum í september og október 2012. Á myndum sjást ágæt dæmi um „nám-yfir-öxlina“ (e. over-the-shoulder learning) sem einmitt er oft einkenni náms í menntabúðum.

Mynd 1 – Framhaldsnemar í fyrstu menntabúðunum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun 20. september 2012.

Mynd 2 – Rætt um spjaldtölvur og möguleika þeirra í menntabúðum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun 20. september 2012.

Mynd 3 – Nemendur, starfsfólk og gestir að ræða um og læra saman á spjaldtölvur í menntabúðum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun, 25. október 2012.

Nokkru áður en þessar fyrstu menntabúðir voru haldnar höfðu Tungumálatorg (Þorbjörg Þorsteinsdóttir, Brynhildur Ragnarsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2011), Náttúrutorg og Sérkennslutorg verið sett af stað til að styðja við starfssamfélög kennara með ýmsum leiðum. Tungumálatorgið fór fyrst af stað 2010 undir forystu Þorbjargar St. Þorsteinsdóttur og Brynhildar Ragnarsdóttur en Svava Pétursdóttir og Hanna Rún Ragnarsdóttir komu í kjölfarið með Náttúru- og Sérkennslutorg. Menntamiðja var svo sett á laggirnar 2012 til að halda utanum þessa þróun með Tryggva Thayer sem verkefnisstjóra og UT-torg kom fram nokkru síðar (Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2013) í forsvari Bjarndísar Fjólu Jónsdóttur. Haustið 2013 höfðu aðilar að RANNUM – Rannsóknarstofu um upplýsingatækni og miðlun við Menntavísindasvið HÍ, frumkvæði að því að efna til opinna menntabúða fyrir starfandi kennara í samstarfi við Menntamiðju (https://menntamidja.is) og áðurnefnd torg. Tóku framhaldsnemar við Menntavísindasvið virkan þátt í að móta hugmyndir um hvernig hægt væri að standa að slíkum viðburðum en sú þátttaka var verkefni á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun. Einnig var auglýst á samfélagsmiðlum eftir áhugasömu skólafólki sem vildi koma að undirbúningsvinnunni og var um tugur manns sem brást við kallinu og hittist viku fyrir fyrstu búðirnar. Nokkrar menntabúðir voru haldnar síðar það skólaár á fimmtudögum í húsnæði Menntavísindasviðs undir yfirskriftinni „Frjóir fimmtudagar,“ en fyrstu búðirnar voru á hrekkjavöku 31. október 2013 með þemanu „Trix, tækni og tengslanet“ (sjá mynd 4). Um 25-40 manns mættu hverju sinni og voru framlög frá um 8 til 16 manns að staðaldri (Sólveig Jakobsdóttir, 2014; Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2014). Á þessum tíma var Menntavísindasvið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið við að skoða og þróa leiðir í starfsþróun kennara í upplýsingatækni og má segja að menntabúðirnar hafi verið liður í þeirri samvinnu.

Mynd 4 – Þátttakendur í fyrstu opnu menntabúðunum í húsnæði Menntavísindasviðs 31. október 2013.

Veturinn 2013 til 2014 stóðu aðilar að Náttúrutorgi (https://www.natturutorg.is) fyrir fjölmörgum menntabúðum fyrir náttúrufræðikennara og voru yfirleitt um 12 til 20 manns sem mættu í hvert skipti en þátttakendur skiptust á að halda búðir í skólum á höfuðborgarsvæðinu. Áherslan þar var á verklega efna- og eðlisfræði, líffræði mannslíkamans, sýndartilraunir, upplýsingatækni í náttúrufræðikennslu o.fl. (Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2014; Sólveig Jakobsdóttir, 2014).

Vorið 2014 fékk RANNUM styrk úr Kennslumálasjóði HÍ til að standa að opnum menntabúðum með þátttöku kennara af vettvangi skólaárið 2014-2015 og var áfram samvinna við Menntamiðju, UT-torg, Tungumála-, Náttúru- og Sérkennslutorg og fleiri varðandi skipulag og framkvæmd búðanna (Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Svava Pétursdóttir, 2015; Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir, 2015). Haldnar voru níu búðir þetta skólaár, fimm að hausti og fjórar að vori. Að staðaldri voru 5 til 12 framlög og yfirleitt mættu nokkrir tugir kennara (23 til 47 forskráðir). Valin voru þemu fyrir hverjar búðir fyrir sig og fjallað sérstaklega um snjall- og fartækni, rafrænt skólasamstarf (eTwinning), sköpun, vendikennslu, skýjalausnir, samfélagsmiðla og hvað fólk hafði lært af þátttöku á BETT ráðstefnunni í Bretlandi. Gögnum var safnað sumarið 2015 meðal einstaklinga sem höfðu forskráð sig í opnu menntabúðirnar. Af 256 skráðum einstaklingum voru 53% tengdir grunnskólastiginu, 11% framhaldsskólastiginu, 6% háskólastiginu og 4% leikskólastiginu en 7% voru nemendur. Um 64% hafði skráð sig í eitt skipti, 18% í tvö skipti og 15% í þrjú til fjögur skipti, en 4% í fimm eða fleiri. Flestir voru af höfuðborgarsvæðinu en þó voru dæmi um fólk sem kom lengra frá til dæmis af Snæfellsnesi. Um fjórðungur (66) af forskráðu þátttakendunum var valinn tilviljunarkennt og boðið í símaviðtal sumarið 2015 til að greina frá reynslu sinni af menntabúðunum. Það náðist í um þriðjung (23) af því úrtaki (Sólveig Jakobsdóttir, Svava Pétursdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir, óbirt gögn). Meirihluti svarenda taldi sig hafa mjög mikið eða mikið gagn af þátttökunni (65%) um fjórðungur nokkuð og 10% lítið. Um 80% sagðist líka mjög vel við  þetta form símenntunar en 20% vel. Dæmi um það sem fólk líkaði var að geta rölt um, rætt saman, spurt spurninga og aflað upplýsinga að vild. Tengslamyndun (ný tengsl við aðra þátttakendur) var nokkuð algeng og var rúmlega fjórðungur (26%) sem sagðist hafa myndað tengsl við marga aðila (fimm eða fleiri), tæplega þriðjungur (32%) við nokkra (þrjá eða fjóra) og 16% við einn eða tvo. Af þeim sem svöruðu voru tveir þriðju sem höfðu ekki verið með kynningu sjálfir en meirihluti þeirra sem hafði ekki verið með kynningu sögðust vel geta hugsað sér að bjóða upp á kynningu í framtíðinni. Um 90% svarenda hafði hvatt aðra til þátttöku í menntabúðum og meirihlutinn taldi líklegt eða öruggt (75%) að þeir mættu í menntabúðir ef þær yrðu í boði næsta skólaár. Áhugavert var var að um 17% sögðust hafa prófað að skipuleggja nám með þessari aðferð með nemendahópum sem þeir höfðu kennt og 39% með samkennurum/samstarfsfólki. Um 44% sögðust hins vegar ekki hafa prófað þessa aðferð en hefðu áhuga á því í framtíðinni en hefðu áhuga á því í framtíðinni. Framhald varð á samstarfi um opnar menntabúðir milli aðila að RANNUM, UT-torgs og Menntamiðju og hafa viðburðirnir þá yfirleitt verið tengdir við staðlotur í framhaldsnámi við Menntavísindasvið. Hefur sviðið stutt við þetta framtak meðal annars með því að láta húsnæði í té endurgjaldslaust.

Vorið 2015 var farið að bjóða upp á menntabúðir í staðlotu meðal grunnnema (í 60-100 manna hópum) á öðru misseri við Menntavísindasvið HÍ. Um er að ræða námsþátt sem metinn er til einkunnar. Nemendur kynna verkfæri og hugmyndir sínar um nýtingu þeirra í námi og kennslu í menntabúðum og senda upplýsingar um kynningarnar á netið. Þeir fá aðgang að öllum kynningum hópsins (nokkurs konar verkfærakistu) og fjalla um kynningar annarra í síðari hluta verkefnisins. Nemarnir hafa verið hæstánægðir með þessa reynslu og talið sig læra mikið eða töluvert af því að hittast í staðlotu og taka þátt í jafningjafræðslu um tæknimöguleika í námi og kennslu (Sólveig Jakobsdóttir, 2018, 2019). Mynd 5 er úr menntabúðum vorið 2018 hjá nemendum á námskeiðinu Upplýsingatækni í námi og kennslu.

Mynd 5 – Grunnnemar og gestir á námskeiðinu Upplýsingatækni í námi og kennslu í menntabúðum 23. mars 2018.

Á undanförnum árum hefur borið æ meira á því að menntabúðir hafi verið haldnar um allt land með margvíslegum hópum og ekki síst í starfsþróun kennara til dæmis á vegum Eymennt. Þá hafa þær verið notaðar í staðlotum meðal nemenda við Háskólann á Akureyri (HA) í nokkur ár. Þegar þetta er skrifað koma um 14.200 niðurstöður upp ef „menntabúðir“ er slegið inn sem leitarorð í Google. Ljóst er að stórir hópar skólafólks um allt land hafa orðið reynslu af þátttöku í menntabúðum þó það sé rannsóknarefni út af fyrir sig hvernig staðið er að slíkum viðburðum. Af útbreiðslu og vinsældum má þó ráða að þetta þyki vera árangursrík leið til þess að læra um og kynnast nýrri tækni.

Sum okkar sem staðið hafa fyrir menntabúðum hafa rætt saman um að áhugavert væri að prófa að hafa sambærilega viðburði á netinu og kanna hvernig og hvort þeir gætu virkað með svipuðum hætti og menntabúðir á staðnum. Líklega hefur það ekki verið reynt hér á landi fyrr en nú í vor þegar landið – og reyndar öll heimsbyggðin- stendur frammi fyrir skólalokunum eða samkomubanni sem hefur haft í för með sér að nám og kennsla hefur flust hratt yfir á netið. Kennarar um allt land hafa orðið að breyta kennslufyrirkomulagi sínu með nær engum fyrirvara. Því tóku aðilar frá Menntavísindasviði HÍ og Kennaradeild HA sig saman um að gera tilraun með að bjóða upp á menntabúðir á neti – eða fjarmenntabúðir – þar sem áhersla væri á að kynna möguleika og tæknilausnir í fjar- og netnámi. Tildrögin voru meðal annars þau að kennarar[1] við báða skólana höfðu ætlað að hafa menntabúðir í staðlotum með sínum nemendahópum en höfðu vegna samkomubanns ákveðið að gera tilraun í staðinn með menntabúðir á netinu.

Hugmyndavinnan um opnar menntabúðir um fjar- og netlausnir fyrir skólafólk á vettvangi hófst um miðjan mars og var haft samráð við aðila frá Menntamiðju, Nýsköpunarmiðju menntamála við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Kennarasambandi Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Menntamálastofnun (alls um 20 manns). Voru allir tilbúnir að styðja við þessa tilraun með ýmsu móti og tók þrengri hópur við keflinu til að gera hugmyndina að veruleika. Sett var upp síða á netinu þar sem áhugasamir gátu skráð hugmyndir að framlögum beint inn í dagskrá. Í stað þess að hittast í stofum eða á stöðvum í ákveðnu húsnæði voru sett upp veflæg fundarherbergi (í fjarfundakerfinu Zoom). Vinnuhópur (fimm frá HÍ og tveir frá HA)[2] tók að sér að setja upp stofurnar og halda fjarmenntabúðirnar fimmtudaginn 26. mars, 2020 Þessi tilraun heppnaðist vonum framar. Í boði voru 24 kynningar í fjórum námslotum (sex framlög í hverri lotu). Yfir 200 manns tóku þátt og gátu valið sér kynningar að vild. Þátttakendum stóð til boða að koma saman og ræða reynsluna í lokin og einnig að meta reynsluna. Um sextíu manns svöruðu könnun á vegum aðstandenda búðanna. Voru langflestir mjög ánægðir með þetta framtak og töldu sig hafa lært mikið. Áhugavert var að meirihluti þátttakenda sem svaraði könnuninni hafði fyrri reynslu af menntabúðum. Sjá nánar um þessar fjarmenntabúðir hér.

Í sömu viku voru menntabúðir haldnar 23. mars 2020 á neti meðal framhaldsnema við HA sem tókust með miklum ágætum. Fjarmenntabúðir meðal grunnnema við HÍ voru enn fremur haldnar 27. mars 2020 með aðstoð framhaldsnema og gengu einnig afar vel að mati þátttakenda. Myndir 6 og 7 eru úr þessum búðum.

Mynd 6 – Hluti framhaldsnema í námskeiðinu Þróun náms og kennslu og upplýsingatækni við HA hittast á ZOOM að loknum vel heppnuðum fjarmenntabúðum 23. mars 2020.

Mynd 7 – Tveir grunnnemar á námskeiðinu Upplýsingatækni í námi og kennslu við HÍ í fjarmenntabúðum í Zoom með kynningu á Sphero. Framhaldsnemi á námskeiðinu Fjarnám og -kennsla er með umsjón með viðkomandi fundi.

Ljóst er að tengslamyndun gengur mögulega ekki eins vel þegar menntabúðir eru haldnar á netinu, sérstaklega ef um stóra hópa er að ræða sem sækja hverja kynningu. Á móti kemur að aðgengi að slíkum búðum er greiðara, til dæmis fyrir fólk á landsbyggðinni og þá sem eiga ekki heimangengt, ekki síst nú á tímum samkomubanns. Þá er möguleiki á að taka upp kynningar og umræðu, fyrir þá sem ekki geta nýtt sér að mæta á tilteknum tíma, þó slíkt dragi hugsanlega úr persónulegra spjalli og óformlegri samskiptum.

Þar sem reynslan hefur verið svona jákvæð ákvað vinnuhópurinn (sjá mynd 8) sem stóð að menntabúðunum í mars að bjóða upp á fleiri opnar menntabúðir á vormisseri 2020 vegna þess ástands sem nú ríkir en einnig í von um að skólafólk líti á þetta framtak sem ákveðna fyrirmynd, tilrauna- og þróunarstarf. Vonandi taka margir við boltanum og prófa sig áfram með þessa vænlegu leið í starfsþróun og námi með stærri og minni hópum.

Mynd 8 – Vinnuhópur (Ingvar Sigurgeirsson, Sólveig Jakobsdóttir, Sólveig Zophoníasdóttir, Svava Pétursdóttir, Kristín Dýrfjörð og Hróbjartur Árnason) í umræðu í lok fjarmenntabúða 26.3. Á myndina vantar Salvöru Gissurardóttur.

Við sem stöndum að tilraunum um fjarmenntabúðir vonumst eftir að sem flestir verði með okkur til að styðja og læra með kollegum hvar sem er á landinu!

Á vefsvæði bakhjarla Menntavísindasviðs og samstarfsaðila (bakhjarl.menntamidja.is) eru upplýsingar að finna um þessar opnu menntabúðir vorið 2020 Frjóa fimmtudaga. 

Heimildir

Carpenter, J. P. (2016). Unconference professional development: Edcamp participant perceptions and motivations for attendance. Professional Development in Education, 42(1), 78-99. doi:10.1080/19415257.2015.1036303

Carpenter, J. P. og Linton, J. N. (2018). Educators’ perspectives on the impact of Edcamp unconference professional learning. Teaching and Teacher Education, 73, 56-69. doi:https://doi.org/10.1016/j.tate.2018.03.014

Carpenter, J. P. og MacFarlane, M. R. (2018). Educator perceptions of district-mandated Edcamp unconferences. Teaching and Teacher Education, 75, 71-82. doi:https://doi.org/10.1016/j.tate.2018.06.002

Leal Fonseca, D. (2011). EduCamp Colombia: Social networked learning for teacher training. The International Review Of Research In Open And Distance Learning, 12(3), 60–79. Sótt af http://www.irrodl.org/index.php/irrodl/article/view/884

Sólveig Jakobsdóttir. (2011). Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni. Tölvumál, 36(1), 7–8. Sótt af http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf

Sólveig Jakobsdóttir. (2014, apríl). Menntabúðir – tækifæri til að læra nýja tækni. Erindi á ráðstefnu Samstarfs opinberu háskólanna: Háskólakennsla í takt við tímann – færni og tækifæri í blönduðu námi, Reykjavík.

Sólveig Jakobsdóttir. (2018). Educamps in distance education: professional development and peer learning for student teachers in ICT. Í A. Volungeviciene og A. Szucs (ritstj.), Exploring the Micro, Meso and Macro: Navigating between dimensions in the digital learning landscape – Conference Proceedings of the EDEN 2018 Annual Conference (bls. 501-507). Genoa: European Distance and E-Learning Network. Sótt af http://www.eden-online.org/

Sólveig Jakobsdóttir. (2019). ICT in teacher education: Educamps and peer learning. Í E. M. Varonis (ritstj.), International conference on information communication technologies in education – proceedings (bls. 1-9). Chania, Crete: ICICTE. Sótt af http://www.icicte.org/

Sólveig Jakobsdóttir, Anna Kristín Sigurdardóttir, Tryggvi Thayer, Svava Pétursdóttir, Þorbjörg Þorsteinsdóttir og Hanna Rún Eiríksdóttir. (2013). EducationaPlaza – Teachers’ professional development. Í M. F. Paulson og A. Szucs (ritstj.), EDEN 2013 annual conference. The Joy of learning: Enhancing learning experience improving learning quality. Conference proceedings (bls. 975–986). Budapest: European Distance and E-Learning Network.

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2015). Skýrsla vegna úthlutunar úr kennslumálasjóði Háskóla Íslands árið 2014 fyrir verkefnið Menntabúðir – trix, tækni og tengslanet. Reykjavík: RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun. Sótt af http://skrif.hi.is/rannum/rannsoknir/menntabudir/

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir. (2015, október). Menntabúðir með margs konar hópum: Reynsla og þróun.  Erindi á Menntakviku árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Reykjavík. Sótt af https://uni.hi.is/soljak

Sólveig Jakobsdóttir,  Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2014, mars). The Educamp model: experience and use in professional development for teachers. Erindi á NERA (Nordic Educational Research Association), Lillehammer.

Sólveig Jakobsdóttir, McKeown, L. og Hoven, D. (2010). Using the new information and communication technologies for the continuing professional development of teachers through open and distance learning. Í P. A. Danaher og A. Umar (ritstj.), Teacher education through open and distance learning (bls. 105–120). Vancouver, Canada: Commonwealth of Learning. Sótt af http://oasis.col.org/handle/11599/115

Turner, K. (2017, 20. apríl, 2019). How to organise a successful TeachMeet [bloggfærsla]. Sótt af https://eic.rsc.org/ideas/how-to-organise-a-successful-teachmeet/3007851.article

Wenger, E., White, N. og Smith, J. D. (2009). Digital habitats: stewarding technology for communities. Portland, OR: CPsquare.

Þorbjörg Þorsteinsdóttir, Brynhildur Ragnarsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir. (2011). The Language Plaza: online habitat and network to promote language skills and icrease equity. Í A. Gaskell, R. Mills og A. Tait (ritstj.), The fourteenth Cambridge International Conference on Open, Distance and E-Learning 2011: Internationalisation and social justice: the role of open, distance and e-learning (bls. 62–67). Milton Keynes, UK: The Open University

 

[1] Sólveig Zophoníasdóttir við HA og Sólveig Jakobsdóttir við HÍ.

[2] Sólveig Jakobsdóttir, Hróbjartur Árnason, Ingvar Sigurgeirsson, Salvör Gissurardóttir, Svava Pétursdóttir frá HÍ og Sólveig Zophoníasdóttir og Kristín Dýrfjörð frá HA.

 


Sólveig Jakobsdóttir er prófessor í fjarkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún stýrir jafnframt RANNUM – Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við sama svið.Grein birt 9.4.2020