Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu?


Sólveig Jakobsdóttir

 

Um langt skeið hefur verið ljóst hversu mikilvæg starfsþróun og símenntun er fyrir kennara ekki síst á sviði upplýsingatækni og í síbreytilegu stafrænu landslagi (Sólveig Jakobsdóttir, McKeown og Hoven, 2010). Leiðir og möguleikar til starfsþróunar hafa jafnframt verið að þróast í takt við tæknina (Sólveig Jakobsdóttir, 2011). Kennarar og annað skólafólk hefur til dæmis haft góð tækifæri til að gefa hugmyndir og fá ráðgjöf og ábendingar á samfélagsmiðlunum en þar hafa myndast nokkurs konar stafræn kjörlendi (e. digital habitats, sjá Wenger, White og Smith, 2009) fyrir fjölmarga faghópa sem tengjast menntun, námi og kennslu. Þá hafa svokallaðar menntabúðir notið sívaxandi vinsælda um allt land til að deila þekkingu og reynslu.

Menntabúðir eru óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru og læra saman til dæmis á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur geta skipst á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Á ensku hafa hugtökin educamp (Leal Fonseca, 2011), edcamp og unconference (Carpenter, 2016; Carpenter og Linton, 2018; Carpenter og MacFarlane, 2018) eða teachmeet (Turner, 2017) verið notuð um þessa gerð fræðslu. Hún hefur reynst vel í starfsþróun kennara.

Hér á landi hófust tilraunir með menntabúðir haustið 2012 með 21 framhaldsnema í staðlotum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (HÍ) en margir þeirra voru jafnframt starfandi kennarar. Mynd 1 er samsett og sýnir nokkra hópa nemenda að fræðast af hver öðrum í þeim búðum. Um svipað leyti stóðu samtökin 3f – félag um upplýsingatækni í menntun fyrir ráðstefnu með menntabúðasniði um tækni í sérkennslu með 85 þátttakendum. Vorið 2013 voru svo haldnar menntabúðir með 18 framhaldsnemum á námskeiðinu Fjarnám og kennsla við Menntavísindasvið HÍ. Menntabúðirnar mæltust mjög vel fyrir hjá viðkomandi hópum og hafa þar af leiðandi verið áfram í boði í staðlotum viðkomandi námskeiða undanfarin ár, oft með þátttöku utanaðkomandi gesta. Fóru sumir nemendur strax haustið 2012 að prófa sig áfram að nýta leiðina í sínum skólum með samkennarahópum (Sólveig Jakobsdóttir, 2014; Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Svava Pétursdóttir, 2014). Þá voru spjaldtölvur farnar að ryðja sér til rúms sem nýstárleg tækni með fjölmarga möguleika í námi og kennslu og mikill áhugi á starfsþróun fyrir kennara í því sambandi. Virtust menntabúðir vera mjög hentug leið til að deila reynslu á því sviði. Á mynd 2 og 3 sjást hópar nemenda og kennara ræða saman um spjaldtölvunotkun og að prófa sig áfram með spjaldtölvusett Menntavísindasviðs og eigin spjaldtölvur í staðlotum í september og október 2012. Á myndum sjást ágæt dæmi um „nám-yfir-öxlina“ (e. over-the-shoulder learning) sem einmitt er oft einkenni náms í menntabúðum.

Mynd 1 – Framhaldsnemar í fyrstu menntabúðunum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun 20. september 2012.

Mynd 2 – Rætt um spjaldtölvur og möguleika þeirra í menntabúðum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun 20. september 2012.

Mynd 3 – Nemendur, starfsfólk og gestir að ræða um og læra saman á spjaldtölvur í menntabúðum á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun, 25. október 2012.

Nokkru áður en þessar fyrstu menntabúðir voru haldnar höfðu Tungumálatorg (Þorbjörg Þorsteinsdóttir, Brynhildur Ragnarsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2011), Náttúrutorg og Sérkennslutorg verið sett af stað til að styðja við starfssamfélög kennara með ýmsum leiðum. Tungumálatorgið fór fyrst af stað 2010 undir forystu Þorbjargar St. Þorsteinsdóttur og Brynhildar Ragnarsdóttur en Svava Pétursdóttir og Hanna Rún Ragnarsdóttir komu í kjölfarið með Náttúru- og Sérkennslutorg. Menntamiðja var svo sett á laggirnar 2012 til að halda utanum þessa þróun með Tryggva Thayer sem verkefnisstjóra og UT-torg kom fram nokkru síðar (Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2013) í forsvari Bjarndísar Fjólu Jónsdóttur. Haustið 2013 höfðu aðilar að RANNUM – Rannsóknarstofu um upplýsingatækni og miðlun við Menntavísindasvið HÍ, frumkvæði að því að efna til opinna menntabúða fyrir starfandi kennara í samstarfi við Menntamiðju (https://menntamidja.is) og áðurnefnd torg. Tóku framhaldsnemar við Menntavísindasvið virkan þátt í að móta hugmyndir um hvernig hægt væri að standa að slíkum viðburðum en sú þátttaka var verkefni á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun. Einnig var auglýst á samfélagsmiðlum eftir áhugasömu skólafólki sem vildi koma að undirbúningsvinnunni og var um tugur manns sem brást við kallinu og hittist viku fyrir fyrstu búðirnar. Nokkrar menntabúðir voru haldnar síðar það skólaár á fimmtudögum í húsnæði Menntavísindasviðs undir yfirskriftinni „Frjóir fimmtudagar,“ en fyrstu búðirnar voru á hrekkjavöku 31. október 2013 með þemanu „Trix, tækni og tengslanet“ (sjá mynd 4). Um 25-40 manns mættu hverju sinni og voru framlög frá um 8 til 16 manns að staðaldri (Sólveig Jakobsdóttir, 2014; Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2014). Á þessum tíma var Menntavísindasvið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið við að skoða og þróa leiðir í starfsþróun kennara í upplýsingatækni og má segja að menntabúðirnar hafi verið liður í þeirri samvinnu.

Mynd 4 – Þátttakendur í fyrstu opnu menntabúðunum í húsnæði Menntavísindasviðs 31. október 2013.

Veturinn 2013 til 2014 stóðu aðilar að Náttúrutorgi (https://www.natturutorg.is) fyrir fjölmörgum menntabúðum fyrir náttúrufræðikennara og voru yfirleitt um 12 til 20 manns sem mættu í hvert skipti en þátttakendur skiptust á að halda búðir í skólum á höfuðborgarsvæðinu. Áherslan þar var á verklega efna- og eðlisfræði, líffræði mannslíkamans, sýndartilraunir, upplýsingatækni í náttúrufræðikennslu o.fl. (Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2014; Sólveig Jakobsdóttir, 2014).

Vorið 2014 fékk RANNUM styrk úr Kennslumálasjóði HÍ til að standa að opnum menntabúðum með þátttöku kennara af vettvangi skólaárið 2014-2015 og var áfram samvinna við Menntamiðju, UT-torg, Tungumála-, Náttúru- og Sérkennslutorg og fleiri varðandi skipulag og framkvæmd búðanna (Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Svava Pétursdóttir, 2015; Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir, 2015). Haldnar voru níu búðir þetta skólaár, fimm að hausti og fjórar að vori. Að staðaldri voru 5 til 12 framlög og yfirleitt mættu nokkrir tugir kennara (23 til 47 forskráðir). Valin voru þemu fyrir hverjar búðir fyrir sig og fjallað sérstaklega um snjall- og fartækni, rafrænt skólasamstarf (eTwinning), sköpun, vendikennslu, skýjalausnir, samfélagsmiðla og hvað fólk hafði lært af þátttöku á BETT ráðstefnunni í Bretlandi. Gögnum var safnað sumarið 2015 meðal einstaklinga sem höfðu forskráð sig í opnu menntabúðirnar. Af 256 skráðum einstaklingum voru 53% tengdir grunnskólastiginu, 11% framhaldsskólastiginu, 6% háskólastiginu og 4% leikskólastiginu en 7% voru nemendur. Um 64% hafði skráð sig í eitt skipti, 18% í tvö skipti og 15% í þrjú til fjögur skipti, en 4% í fimm eða fleiri. Flestir voru af höfuðborgarsvæðinu en þó voru dæmi um fólk sem kom lengra frá til dæmis af Snæfellsnesi. Um fjórðungur (66) af forskráðu þátttakendunum var valinn tilviljunarkennt og boðið í símaviðtal sumarið 2015 til að greina frá reynslu sinni af menntabúðunum. Það náðist í um þriðjung (23) af því úrtaki (Sólveig Jakobsdóttir, Svava Pétursdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir, óbirt gögn). Meirihluti svarenda taldi sig hafa mjög mikið eða mikið gagn af þátttökunni (65%) um fjórðungur nokkuð og 10% lítið. Um 80% sagðist líka mjög vel við  þetta form símenntunar en 20% vel. Dæmi um það sem fólk líkaði var að geta rölt um, rætt saman, spurt spurninga og aflað upplýsinga að vild. Tengslamyndun (ný tengsl við aðra þátttakendur) var nokkuð algeng og var rúmlega fjórðungur (26%) sem sagðist hafa myndað tengsl við marga aðila (fimm eða fleiri), tæplega þriðjungur (32%) við nokkra (þrjá eða fjóra) og 16% við einn eða tvo. Af þeim sem svöruðu voru tveir þriðju sem höfðu ekki verið með kynningu sjálfir en meirihluti þeirra sem hafði ekki verið með kynningu sögðust vel geta hugsað sér að bjóða upp á kynningu í framtíðinni. Um 90% svarenda hafði hvatt aðra til þátttöku í menntabúðum og meirihlutinn taldi líklegt eða öruggt (75%) að þeir mættu í menntabúðir ef þær yrðu í boði næsta skólaár. Áhugavert var var að um 17% sögðust hafa prófað að skipuleggja nám með þessari aðferð með nemendahópum sem þeir höfðu kennt og 39% með samkennurum/samstarfsfólki. Um 44% sögðust hins vegar ekki hafa prófað þessa aðferð en hefðu áhuga á því í framtíðinni en hefðu áhuga á því í framtíðinni. Framhald varð á samstarfi um opnar menntabúðir milli aðila að RANNUM, UT-torgs og Menntamiðju og hafa viðburðirnir þá yfirleitt verið tengdir við staðlotur í framhaldsnámi við Menntavísindasvið. Hefur sviðið stutt við þetta framtak meðal annars með því að láta húsnæði í té endurgjaldslaust.

Vorið 2015 var farið að bjóða upp á menntabúðir í staðlotu meðal grunnnema (í 60-100 manna hópum) á öðru misseri við Menntavísindasvið HÍ. Um er að ræða námsþátt sem metinn er til einkunnar. Nemendur kynna verkfæri og hugmyndir sínar um nýtingu þeirra í námi og kennslu í menntabúðum og senda upplýsingar um kynningarnar á netið. Þeir fá aðgang að öllum kynningum hópsins (nokkurs konar verkfærakistu) og fjalla um kynningar annarra í síðari hluta verkefnisins. Nemarnir hafa verið hæstánægðir með þessa reynslu og talið sig læra mikið eða töluvert af því að hittast í staðlotu og taka þátt í jafningjafræðslu um tæknimöguleika í námi og kennslu (Sólveig Jakobsdóttir, 2018, 2019). Mynd 5 er úr menntabúðum vorið 2018 hjá nemendum á námskeiðinu Upplýsingatækni í námi og kennslu.

Mynd 5 – Grunnnemar og gestir á námskeiðinu Upplýsingatækni í námi og kennslu í menntabúðum 23. mars 2018.

Á undanförnum árum hefur borið æ meira á því að menntabúðir hafi verið haldnar um allt land með margvíslegum hópum og ekki síst í starfsþróun kennara til dæmis á vegum Eymennt. Þá hafa þær verið notaðar í staðlotum meðal nemenda við Háskólann á Akureyri (HA) í nokkur ár. Þegar þetta er skrifað koma um 14.200 niðurstöður upp ef „menntabúðir“ er slegið inn sem leitarorð í Google. Ljóst er að stórir hópar skólafólks um allt land hafa orðið reynslu af þátttöku í menntabúðum þó það sé rannsóknarefni út af fyrir sig hvernig staðið er að slíkum viðburðum. Af útbreiðslu og vinsældum má þó ráða að þetta þyki vera árangursrík leið til þess að læra um og kynnast nýrri tækni.

Sum okkar sem staðið hafa fyrir menntabúðum hafa rætt saman um að áhugavert væri að prófa að hafa sambærilega viðburði á netinu og kanna hvernig og hvort þeir gætu virkað með svipuðum hætti og menntabúðir á staðnum. Líklega hefur það ekki verið reynt hér á landi fyrr en nú í vor þegar landið – og reyndar öll heimsbyggðin- stendur frammi fyrir skólalokunum eða samkomubanni sem hefur haft í för með sér að nám og kennsla hefur flust hratt yfir á netið. Kennarar um allt land hafa orðið að breyta kennslufyrirkomulagi sínu með nær engum fyrirvara. Því tóku aðilar frá Menntavísindasviði HÍ og Kennaradeild HA sig saman um að gera tilraun með að bjóða upp á menntabúðir á neti – eða fjarmenntabúðir – þar sem áhersla væri á að kynna möguleika og tæknilausnir í fjar- og netnámi. Tildrögin voru meðal annars þau að kennarar[1] við báða skólana höfðu ætlað að hafa menntabúðir í staðlotum með sínum nemendahópum en höfðu vegna samkomubanns ákveðið að gera tilraun í staðinn með menntabúðir á netinu.

Hugmyndavinnan um opnar menntabúðir um fjar- og netlausnir fyrir skólafólk á vettvangi hófst um miðjan mars og var haft samráð við aðila frá Menntamiðju, Nýsköpunarmiðju menntamála við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Kennarasambandi Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Menntamálastofnun (alls um 20 manns). Voru allir tilbúnir að styðja við þessa tilraun með ýmsu móti og tók þrengri hópur við keflinu til að gera hugmyndina að veruleika. Sett var upp síða á netinu þar sem áhugasamir gátu skráð hugmyndir að framlögum beint inn í dagskrá. Í stað þess að hittast í stofum eða á stöðvum í ákveðnu húsnæði voru sett upp veflæg fundarherbergi (í fjarfundakerfinu Zoom). Vinnuhópur (fimm frá HÍ og tveir frá HA)[2] tók að sér að setja upp stofurnar og halda fjarmenntabúðirnar fimmtudaginn 26. mars, 2020 Þessi tilraun heppnaðist vonum framar. Í boði voru 24 kynningar í fjórum námslotum (sex framlög í hverri lotu). Yfir 200 manns tóku þátt og gátu valið sér kynningar að vild. Þátttakendum stóð til boða að koma saman og ræða reynsluna í lokin og einnig að meta reynsluna. Um sextíu manns svöruðu könnun á vegum aðstandenda búðanna. Voru langflestir mjög ánægðir með þetta framtak og töldu sig hafa lært mikið. Áhugavert var að meirihluti þátttakenda sem svaraði könnuninni hafði fyrri reynslu af menntabúðum. Sjá nánar um þessar fjarmenntabúðir hér.

Í sömu viku voru menntabúðir haldnar 23. mars 2020 á neti meðal framhaldsnema við HA sem tókust með miklum ágætum. Fjarmenntabúðir meðal grunnnema við HÍ voru enn fremur haldnar 27. mars 2020 með aðstoð framhaldsnema og gengu einnig afar vel að mati þátttakenda. Myndir 6 og 7 eru úr þessum búðum.

Mynd 6 – Hluti framhaldsnema í námskeiðinu Þróun náms og kennslu og upplýsingatækni við HA hittast á ZOOM að loknum vel heppnuðum fjarmenntabúðum 23. mars 2020.

Mynd 7 – Tveir grunnnemar á námskeiðinu Upplýsingatækni í námi og kennslu við HÍ í fjarmenntabúðum í Zoom með kynningu á Sphero. Framhaldsnemi á námskeiðinu Fjarnám og -kennsla er með umsjón með viðkomandi fundi.

Ljóst er að tengslamyndun gengur mögulega ekki eins vel þegar menntabúðir eru haldnar á netinu, sérstaklega ef um stóra hópa er að ræða sem sækja hverja kynningu. Á móti kemur að aðgengi að slíkum búðum er greiðara, til dæmis fyrir fólk á landsbyggðinni og þá sem eiga ekki heimangengt, ekki síst nú á tímum samkomubanns. Þá er möguleiki á að taka upp kynningar og umræðu, fyrir þá sem ekki geta nýtt sér að mæta á tilteknum tíma, þó slíkt dragi hugsanlega úr persónulegra spjalli og óformlegri samskiptum.

Þar sem reynslan hefur verið svona jákvæð ákvað vinnuhópurinn (sjá mynd 8) sem stóð að menntabúðunum í mars að bjóða upp á fleiri opnar menntabúðir á vormisseri 2020 vegna þess ástands sem nú ríkir en einnig í von um að skólafólk líti á þetta framtak sem ákveðna fyrirmynd, tilrauna- og þróunarstarf. Vonandi taka margir við boltanum og prófa sig áfram með þessa vænlegu leið í starfsþróun og námi með stærri og minni hópum.

Mynd 8 – Vinnuhópur (Ingvar Sigurgeirsson, Sólveig Jakobsdóttir, Sólveig Zophoníasdóttir, Svava Pétursdóttir, Kristín Dýrfjörð og Hróbjartur Árnason) í umræðu í lok fjarmenntabúða 26.3. Á myndina vantar Salvöru Gissurardóttur.

Við sem stöndum að tilraunum um fjarmenntabúðir vonumst eftir að sem flestir verði með okkur til að styðja og læra með kollegum hvar sem er á landinu!

Á vefsvæði bakhjarla Menntavísindasviðs og samstarfsaðila (bakhjarl.menntamidja.is) eru upplýsingar að finna um þessar opnu menntabúðir vorið 2020 Frjóa fimmtudaga. 

Heimildir

Carpenter, J. P. (2016). Unconference professional development: Edcamp participant perceptions and motivations for attendance. Professional Development in Education, 42(1), 78-99. doi:10.1080/19415257.2015.1036303

Carpenter, J. P. og Linton, J. N. (2018). Educators’ perspectives on the impact of Edcamp unconference professional learning. Teaching and Teacher Education, 73, 56-69. doi:https://doi.org/10.1016/j.tate.2018.03.014

Carpenter, J. P. og MacFarlane, M. R. (2018). Educator perceptions of district-mandated Edcamp unconferences. Teaching and Teacher Education, 75, 71-82. doi:https://doi.org/10.1016/j.tate.2018.06.002

Leal Fonseca, D. (2011). EduCamp Colombia: Social networked learning for teacher training. The International Review Of Research In Open And Distance Learning, 12(3), 60–79. Sótt af http://www.irrodl.org/index.php/irrodl/article/view/884

Sólveig Jakobsdóttir. (2011). Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni. Tölvumál, 36(1), 7–8. Sótt af http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf

Sólveig Jakobsdóttir. (2014, apríl). Menntabúðir – tækifæri til að læra nýja tækni. Erindi á ráðstefnu Samstarfs opinberu háskólanna: Háskólakennsla í takt við tímann – færni og tækifæri í blönduðu námi, Reykjavík.

Sólveig Jakobsdóttir. (2018). Educamps in distance education: professional development and peer learning for student teachers in ICT. Í A. Volungeviciene og A. Szucs (ritstj.), Exploring the Micro, Meso and Macro: Navigating between dimensions in the digital learning landscape – Conference Proceedings of the EDEN 2018 Annual Conference (bls. 501-507). Genoa: European Distance and E-Learning Network. Sótt af http://www.eden-online.org/

Sólveig Jakobsdóttir. (2019). ICT in teacher education: Educamps and peer learning. Í E. M. Varonis (ritstj.), International conference on information communication technologies in education – proceedings (bls. 1-9). Chania, Crete: ICICTE. Sótt af http://www.icicte.org/

Sólveig Jakobsdóttir, Anna Kristín Sigurdardóttir, Tryggvi Thayer, Svava Pétursdóttir, Þorbjörg Þorsteinsdóttir og Hanna Rún Eiríksdóttir. (2013). EducationaPlaza – Teachers’ professional development. Í M. F. Paulson og A. Szucs (ritstj.), EDEN 2013 annual conference. The Joy of learning: Enhancing learning experience improving learning quality. Conference proceedings (bls. 975–986). Budapest: European Distance and E-Learning Network.

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2015). Skýrsla vegna úthlutunar úr kennslumálasjóði Háskóla Íslands árið 2014 fyrir verkefnið Menntabúðir – trix, tækni og tengslanet. Reykjavík: RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun. Sótt af http://skrif.hi.is/rannum/rannsoknir/menntabudir/

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir. (2015, október). Menntabúðir með margs konar hópum: Reynsla og þróun.  Erindi á Menntakviku árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Reykjavík. Sótt af https://uni.hi.is/soljak

Sólveig Jakobsdóttir,  Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2014, mars). The Educamp model: experience and use in professional development for teachers. Erindi á NERA (Nordic Educational Research Association), Lillehammer.

Sólveig Jakobsdóttir, McKeown, L. og Hoven, D. (2010). Using the new information and communication technologies for the continuing professional development of teachers through open and distance learning. Í P. A. Danaher og A. Umar (ritstj.), Teacher education through open and distance learning (bls. 105–120). Vancouver, Canada: Commonwealth of Learning. Sótt af http://oasis.col.org/handle/11599/115

Turner, K. (2017, 20. apríl, 2019). How to organise a successful TeachMeet [bloggfærsla]. Sótt af https://eic.rsc.org/ideas/how-to-organise-a-successful-teachmeet/3007851.article

Wenger, E., White, N. og Smith, J. D. (2009). Digital habitats: stewarding technology for communities. Portland, OR: CPsquare.

Þorbjörg Þorsteinsdóttir, Brynhildur Ragnarsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir. (2011). The Language Plaza: online habitat and network to promote language skills and icrease equity. Í A. Gaskell, R. Mills og A. Tait (ritstj.), The fourteenth Cambridge International Conference on Open, Distance and E-Learning 2011: Internationalisation and social justice: the role of open, distance and e-learning (bls. 62–67). Milton Keynes, UK: The Open University

 

[1] Sólveig Zophoníasdóttir við HA og Sólveig Jakobsdóttir við HÍ.

[2] Sólveig Jakobsdóttir, Hróbjartur Árnason, Ingvar Sigurgeirsson, Salvör Gissurardóttir, Svava Pétursdóttir frá HÍ og Sólveig Zophoníasdóttir og Kristín Dýrfjörð frá HA.

 


Sólveig Jakobsdóttir er prófessor í fjarkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún stýrir jafnframt RANNUM – Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við sama svið.Grein birt 9.4.2020
Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni

Kolbrún Pálsdóttir

 

Nýlega var haldin á Menntavísindasviði Háskóla Íslands ráðstefnan Snjallt skólastarf möguleikar og áskoranir nýrrar tækni. Fjölbreyttur hópur fyrirlesara fjallaði um þær fjölmörgu leiðir sem tæknin býður upp á í námi og kennslu. Um 300 kennarar, skólastjórnendur, sérfræðingar og áhugafólk sóttu ráðstefnuna og tóku þátt í vinnustofum og menntabúðum, enda er viðfangsefni ráðstefnunnar aðkallandi fyrir alla sem starfa á vettvangi menntunar, náms og kennslu.

Tæknin er verkfæri, tæknin er aðferð

Ábyrgð menntakerfisins er hér tvenns konar: annars vegar að taka tæknina í þjónustu sína, að kenna ungu fólki að nýta hana, leiðbeina þeim í umgengni við tæknina og ekki síður að þjálfa okkur sjálf til að nýta nýja miðla sem tæknin hefur skapað. Hins vegar er það líka hlutverk menntakerfisins að setja tækninni mörk og mið; að láta tæknina ekki stýra innihaldinu eða láta okkur missa sjónar á því sem er markmið menntunar.

Heimsmyndin er breytt, heimurinn hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu internetsins, skýjalausna, hugbúnaðar, gervigreindar og sjálfvirknibúnaðar. Mannkynið virðist vera að sigra heiminn, við ferðumst um himingeiminn, köfum á dýpstu sjávarbotna, og virðumst sífellt vera nær því að kryfja dýpsta sannleik veruleikans. Á sama tíma er mannkynið í ákveðinni tilvistarkreppu; átök og fólksflutningar eru tíðir; tekist er á um grundvallargildi samfélaga og jörðinni sjálfri er ógnað vegna lifnaðarhátta okkar, neyslu og ofgnóttar.

Hvers vegna dreg ég upp svo þversagnakennda og dökka mynd á svo fallegum og björtum sumardegi? Ég finn mig knúna til þess að minna á að tæknin sjálf er hlutlaus um þessa þætti; tæknin sjálf hugsar ekki um jöfnuð, frelsi og kærleik. Tæknin sjálf hugsar ekki um sannleika, manngildi og virðingu. Falskar og tilbúnar fréttir eru daglegt brauð á vefmiðlum nútímans; Pólitískar sjónhverfingar, ósannar vísindagreinar, óhróður um náungann. Við þekkjum mörg slík dæmi af öllum sviðum mannlífsins.

Tækni í skólastarfi má aldrei verða markmið í sjálfu sér, heldur verðum við ávallt að líta á tæknina sem verkfæri til að stuðla að námi nemenda og efla þá sem borgara. Hjálpa þeim að verða einstaklingar sem hafa kraft, þekkingu, hæfni og siðvit til að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið. Tæknin hefur opnað fyrir okkur dyr að lífsgæðum sem forfeður okkur hefði aldrei órað fyrir en tæknin hefur líka kynnt okkur fyrir dekkstu hliðum mannkyns.

Virkjum hug, hönd og hjarta

Það er ótrúlega margt spennandi að gerast í samfélaginu og í skólum landsins – og bar dagskrá ráðstefnunnar svo sannarlega vott um það. Íslenskt menntakerfi hefur alla burði til að vera framúrskarandi og á ýmsum sviðum er íslenskt menntakerfi og skólarnir okkar nú þegar framúrskarandi. Vissulega þarf að gefa í og meðal annars tryggja öllum skólum landsins, nemendum og kennurum aðgengi að nútíma tækniútbúnaði og nauðsynlegum innviðum, ekki eingöngu í skóla framtíðar heldur í skólum dagsins í dag.

Það er samt margt sem má gera, breyta og prófa, stundum með tiltölulega litlum tilkostnaði og með því að hugsa skóla- og frístundastarfið aðeins upp á nýtt. Kraftaverk, lítil og stór, gerast í skólum og félagsmiðstöðvum landsins þegar tekst að virkja hug, hönd og hjarta barna og ungmenna; þegar þau finna að á þau er hlustað, og að þau verða aðilar að starfinu, gerast rannsakendur, uppfinningamenn og listamenn; þau verða gerendur en ekki eingöngu þiggjendur.

Nýtum tæknina á skapandi hátt

Það var áhugavert að hlusta á kanadísku fræðikonuna Jennifer Rowsell sem flutti inngangserindi ráðstefnunnar. Hún sagði meðal annars frá ungum manni sem fann rannsóknar- og sköpunarþrá sinni farveg í gegnum snillismiðjur eða „makerspacers“. Hann lýsti sjálfsnámi sem fór einkum fram í gegnum Youtube og aðra vefmiðla – og hvernig hann fann sínar hvetjandi fyrirmyndir sjálfur og án milligöngu skólans. Þetta er sá veruleiki sem við búum við í dag og það hlýtur að vera hlutverk okkar sem störfum innan menntakerfisins að brúa þetta bil, brúa bilið á milli veruleika unga fólksins og hins formlega skólaumhverfis. Það merkir ekki að við eigum að sleppa takinu og gefa tækninni lausan tauminn innan skólastofunnar, við verðum þvert á móti að standa vörð um siðferðilegt innihald menntunar, umgengni við tæknina og mörk hennar og þess mannlega. Nýtum tæknina til að gera skólastarf merkingarmeira, innihaldsríkara og virkjum þátttöku nemenda í eigin námi, innan og utan skóla.

 

Greinin byggir á ávarpi sem höfundur flutti á ráðstefnunni Snjallt skólastarf – tækifæri og möguleikar nýrrar tækni. Að ráðstefnunni stóðu Félag áhugafólks um skólaþróun og RANNUM, Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun.

 


Kolbrún Þ. Pálsdóttir (kolbrunp@hi.is) er dósent og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi í heimspeki árið 1996, meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði árið 2001 og doktorsprófi í menntunarfræðum árið 2012, öllu frá Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið Kolbrúnar eru einkum tengsl formlegs og óformlegs náms, samvinna í skóla- og frístundastarfi og hlutverk frístundaheimila.


Frá ráðstefnunni Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni
Átak í breyttum kennsluháttum – innleiðing spjaldtölva í Kópavogi

bjorn_gunnlaugssonBjörn Gunnlaugsson, verkefnisstjóri


Niðurstöður samræmdra prófa voru tilefni fréttar sem birt var á vef Kópavogsbæjar seint í mars 2015, fáeinum dögum áður en höfundur þessa greinarkorns hóf störf sem verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar í grunnskólum bæjarins. Í fréttinni kom fram að grunnskólar í Kópavogi hefðu verið yfir landsmeðaltali í öllum greinum og árgöngum þetta árið. Það mátti því líta svo á að skólastarf í Kópavogi væri í miklum blóma, að minnsta kosti miðað við þennan mælikvarða.

Bæjaryfirvöld höfðu hins vegar áttað sig á því löngu fyrr að breytinga væri þörf og höfðu viljann til að hrinda þeim í framkvæmd. Undirbúningur hafði staðið yfir um þó nokkurt skeið. Í Salaskóla var farið af stað með þróunarverkefni í notkun spjaldtölva í kennslu árið 2012, sem varð meðal annars til að vekja áhuga bæjaryfirvalda. Skólinn var með 30 spjaldtölvur auk þess sem nemendum bauðst að koma með sín eigin tæki í skólann og var verkefnið unnið í samstarfi við tölvudeild bæjarins.

Ný stefna sveitarfélagsins um upplýsingatækni í skólum leit dagsins ljós árið 2012 og þá var hafist handa við uppbyggingu innviða, sér í lagi þéttingu þráðlauss nets í skólunum. Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2014 var gerður málefnasamningur nýs meirihluta þar sem kveðið var á um stórtæka tæknivæðingu grunnskólanna. Öllum grunnskólakennurum sem og öllum nemendum á mið- og unglingastigi skyldu afhentar spjaldtölvur til einkanota áður en kjörtímabilið væri á enda. Einnig var ákveðið að ráðinn skyldi verkefnastjóri til að stýra innleiðingunni, kerfisstjóra sveitarfélagsins var falin ábyrgð á tæknihlið verkefnisins og ráðnir skyldu þrír kennsluráðgjafar í fullt starf til stuðnings kennurum.

Aðdragandi og markmið

Haustið 2014 var skipaður undirbúningshópur sem stýrt var af menntasviði og hafði það hlutverk að leggja fyrstu drög að kennslufræðilegum markmiðum innleiðingarinnar. Hópnum var falið að gæta þess að hér yrði ráðist í skólaþróunarverkefni fyrst og fremst en ekki tæknivæðingu eingöngu. Í vinnu hópsins urðu til leiðarljós sem síðar áttu eftir að taka á sig skýrari mynd og verða að skilgreindum markmiðum átaks í breyttum kennsluháttum. Rýnt var í notkunarmöguleika spjaldtölvunnar sem náms- og kennslutækis og áhersla lögð á að færa í orð hvernig ná mætti fram skólabót með tilstuðlan spjaldtölvunnar og annarrar tækni.

Spjaldtölvur hafa víða rutt sér til rúms í skólastarfi á undanförnum árum en aðgengi nemenda að þeim er með ólíkum hætti. Margir skólar eiga spjaldtölvur sem kennarar og nemendur geta fengið að láni til afnota við tiltekin verkefni. Í öðrum skólum tíðkast að nemendur komi í skólann með sín eigin snjalltæki, ýmist spjaldtölvur eða síma. Þessar nálganir hafa ýmsa kosti en eiga það þó sameiginlegt að ávinningur nemandans af spjaldtölvunni er takmarkaður, meðal annars vegna þess að verkefni hafa tilhneigingu til að vera smá í sniðum og einföld vegna tímatakmarkana. Þá verður oft lítil samfella milli ólíkra verka nemandans þegar ávallt þarf að skila tækinu að verki loknu og verkefnin því oft háð því að úr verði vistanlegur afrakstur. Færa má rök fyrir því að ávinningur nemandans af spjaldtölvunni aukist því meiri afnot sem hann hefur af henni. Víða er því farin sú leið að hver og einn nemandi hafi sína eigin spjaldtölvu sem enginn annar notar og varð sú leið fyrir valinu í Kópavogi. Þannig er stuðlað að því að nemandi geti sniðið nám sitt að eigin þörfum og áhugasviði. Einnig gerist nemendum þannig kleift að stunda ýmiskonar óformlegt nám utan skóla. Spjaldtölvan er létt og meðfærileg og geta nemendur því nýtt hana nánast hvar og hvenær sem er til náms og afþreyingar.

Þessir eiginleikar spjaldtölvunnar falla vel að þeim markmiðum átaks í breyttum kennsluháttum að nemendur hafi meira um nám sitt að segja en áður hefur tíðkast. Börn og unglingar eru fróðleiksfúst og forvitið fólk og með spjaldtölvu í farteskinu gefst þeim kostur á að afla sér upplýsinga og þekkingar, kunnáttu og færni á óteljandi mismunandi vegu. Spjaldtölvur stuðla að fjölbreytni í námsvinnu og strax á fyrstu misserum átaksins hefur það færst í aukana að kennarar leyfi nemendum að velja hvers konar nálgun henti því verkefni sem lagt er fyrir í skólanum hverju sinni. Þannig er einnig ýtt undir aukna einstaklingsmiðun náms og kennurum gert auðveldara að nálgast hvern og einn nemanda á sínum forsendum.

Aukin fjölbreytni, einstaklingsmiðun og valdefling nemenda eru hornsteinarnir sem markmið innleiðingarinnar byggja á. Einnig ber að hafa hugfast að daglegt líf íslenskra grunnskólabarna er nú þegar að miklu leyti orðið rafrænt. Snjallsímaeign fer sívaxandi, samskipti og tómstundir barna fylgja þeirri þróun og börn eru vön því að vera sítengd. Taki skólinn ekki mið af því er ekki von á góðu. Takist á hinn bóginn að færa nám nemenda nær daglegum veruleika þeirra er von til þess að námsáhugi þeirra glæðist og þeir verði virkari þátttakendur í náminu. Hvers kyns skapandi verkefni eru einnig vel til þess fallin að auka ánægju og áhuga nemenda af skólastarfinu og er aukið vægi sköpunar (e. creativty) og nýsköpunar (e. innovation) mikilvægt markmið verkefnisins. Notkunarmöguleikar spjaldtölvunnar eru töluverðir, því hún er í senn myndavél, hljóðnemi og auk þess nettengd. Henni fylgir ýmiskonar hljóð- og myndvinnsluhugbúnaður og er auðvelt að deila verkefnum milli nemenda og til kennara og foreldra. Þess konar verkefni eru vel til þess fallin að haldnar séu kynningar í skólastofunni eða á sal, þar sem nemendur sýna afrakstur vinnu sinnar og greina frá niðurstöðum. Það er dýrmæt færni að geta tjáð sig fyrir framan hóp og útskýrt hugleiðingar sínar og niðurstöður, færni sem eykur sjálfstraust og eflir sjálfsmynd nemenda. Oft liggur beint við að nemendur vinni verkefni af þessu tagi í hópum og ekki er samvinnufærnin síður mikilvæg þegar horft er til framtíðar.

Fyrir kennara getur spjaldtölvan verið bæði tíma- og vinnusparandi tæki, þótt ekki skuli gera lítið úr því að auðvitað þurfa kennarar að verja umtalsverðum tíma og vinnu í að tileinka sér notkun hennar. Til lengri tíma litið má þó gera ráð fyrir að ávinningur kennara verði nokkur og þegar hefur komið fram hjá mörgum kennurum að spjaldtölvan hafi auðveldað yfirferð verkefna og endurgjöf. Ýmiskonar hugbúnað og kerfi er hægt að nýta til að halda utan um afrakstur og árangur nemenda í námsvinnunni og er það stefnan að minnka vægi skriflegra prófa í námsmati. Þegar slíkur fjöldi nemenda hefur fengið í hendur tæki sem veitir þeim aðgang að ótakmarkaðri þekkingu hlýtur afleiðingin að verða sú með tímanum að utanbókarlærdómur hafi minna vægi í námi og kennslu.

Spjaldtölvuátakið í Kópavogi er stærsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi og þó víðar væri leitað, ekki síst ef hin séríslenska höfðatala er höfð í huga. Það stappar nærri því að hundraðasti hver Íslendingur sé með spjaldtölvu á vegum Kópavogsbæjar. Verkefnið er þó ekki það fyrsta á Íslandi og varð ekki til í tómarúmi. Áður hafa ýmsir íslenskir skólar tekið spjaldtölvuna upp á sína arma og má þar nefna Norðlingaskóla og Hólabrekkuskóla í Reykjavík, Árskóla á Sauðárkróki og Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit, auk Salaskóla sem áður er getið. Horft var til reynslu þessara skóla við undirbúning innleiðingarinnar í Kópavogi og einnig var leitað fanga erlendis. Fjölmennur hópur skólafólks heimsótti sveitarfélagið Odder á Jótlandi en þar var spjaldtölvuvæðingu grunnskóla hleypt af stokkunum fyrir fimm árum. Einnig hafa verið heimsóttir nokkrir enskir skólar, ráðstefnur sóttar hérlendis sem erlendis og þannig mætti áfram telja. Sérstök áhersla var lögð á það í aðdraganda innleiðingarinnar að skólastjórar hlytu sem bestan stuðning og fræðslu um þá möguleika sem spjaldtölvan býður upp á við þróun skólastarfs, svo hver þeirra hefði tök á að stýra innleiðingunni í sínum skóla eftir aðstæðum á hverjum stað. Grunnskólarnir í Kópavogi eru níu talsins og innbyrðis nokkuð ólíkir. Þótt helstu markmið átaks í breyttum kennsluháttum séu sameiginleg öllum skólunum er áherslu- og blæbrigðamunur. Hver skóli hefur því tekið sér fyrir hendur að setja saman innleiðingaráætlun þar sem styrkleikar og áherslur skólans koma fram og skilgreindar eru leiðir sem skólinn ætlar að fara að sínum markmiðum.spjaldtolvur_1

Ákvarðanir

Fjölmargir koma að ákvörðunum á ýmsum sviðum átaks í breyttum kennsluháttum. Eins og við er að búast hafa menntasvið og upplýsingatæknideild sveitarfélagsins töluverða aðkomu að verkefninu en strangt til tekið heyrir verkefnið þó undir hvoruga deildina. Frekar mætti segja að það stæði mitt á milli þeirra en samstarfið er þó nokkuð. Skólanefnd Kópavogs er upplýst reglulega um það sem er efst á baugi og hefur tvíþætt hlutverk, annars vegar að leggja mat á framgang verkefnisins en hins vegar er nefndin ráðgefandi á ýmsum sviðum. Allra veigamestu ákvarðanirnar eru teknar af stýrihópi um spjaldtölvuverkefnið en hann skipa, auk verkefnastjóra, bæjarstjóri og bæjarritari, forstöðumaður upplýsingatæknideildar og forstöðumaður menntasviðs. Áðurnefndur undirbúningshópur er enn starfandi en kallast nú verkefnahópur. Hlutverk hans er fyrst og fremst að vinna að faglegri stefnumörkun en einnig hefur fulltrúi foreldra tekið sæti í hópnum. Þá er samstarf og samráð við skólastjórnendur mikið, fundað er í hverjum skóla á mánaðarfresti og einnig er innleiðingin til umræðu á sameiginlegum fundum allra skólastjóranna sem einnig eru haldnir mánaðarlega.

Ástæða er til að greina sérstaklega frá því hvernig var staðið að því að velja hvers konar spjaldtölvur skyldu notaðar í verkefninu í Kópavogi. Frá upphafi var það stefnan að samskonar tæki skyldu notuð í öllum skólum, í því skyni að flækja ekki líf nemenda og kennara um of með ólíku tækniumhverfi. Settur var saman rýnihópur nokkurra fulltrúa frá skólunum, sem fékk það hlutverk að setja saman lista yfir þá þætti sem hafa þyrfti í huga við val á tegund spjaldtölvu. Voru fjölmargir þættir nefndir til sögunnar, allt frá tæknilegum eiginleikum á borð við rafhlöðuendingu og gæði myndavéla til úrvals kennsluforrita, framboðs á námskeiðum fyrir kennara og þannig mætti áfram telja. Hverjum og einum þætti var svo gefið vægi og þannig varð til matslíkan sem sent var til söluaðila. Fjórir söluaðilar fengu síðan tækifæri til að kynna vöru sína fyrir öðrum og fjölmennari rýnihópi sem samanstóð af nemendum og kennurum úr öllum grunnskólum Kópavogs. Þannig var lagt mat á iPad, Android, Chromebook og Surface spjaldtölvur og varð niðurstaðan sú að iPad-spjaldtölvan varð hlutskörpust miðað við þær forsendur sem gefnar voru. Í framhaldi af þeirri niðurstöðu var ákveðið að fyrir valinu yrði iPad Air 2 spjaldtölva með 64 GB minni.

Fyrrnefndur málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar fól í sér að spjaldtölva til einkanota skyldi afhent öllum nemendum á mið- og unglingastigi. Áður höfðu spjaldtölvur verið teknar í notkun á leikskólum bæjarins og því þótti eðlilegt að nemendur á yngsta stigi grunnskóla gætu einnig notið góðs af möguleikum spjaldtölvunnar. Því var ákveðið að úthluta skólunum samtals 315 spjaldtölvum sem ættu að nýtast yngstu nemendunum. Var þessum tækjum úthlutað til skólanna í samræmi við nemendafjölda á yngsta stigi nú í haust, þegar síðasta áfanga afhendingar á mið- og unglingastigi var lokið. Fyrsta skólaárið voru þessi tæki aðgengileg öllum þeim árgöngum sem ekki höfðu fengið úthlutað sínum spjaldtölvum og var markmiðið að kennarar og nemendur fengju tækifæri til að kynnast tækjunum og notkun þeirra í námi og kennslu.

Undirbúningur kennara

Lögð var áhersla á að kennarar gætu hafið undirbúning sem allra fyrst og stóðu vonir upphaflega til að hægt yrði að afhenda þeim spjaldtölvur fljótlega upp úr áramótum 2015. Ekki gekk það eftir, en þegar búið var að velja gerð spjaldtölvunnar tók við undirbúningur útboðs, sem unnið var með ómetanlegri aðstoð starfsfólks Ríkiskaupa. Þegar niðurstöður lágu fyrir var loks hægt að panta búnaðinn og á endanum fór það svo að kennurum voru afhentar spjaldtölvur á næstsíðasta vinnudegi skólaársins, eða 11. júní. Ákveðið var að afhending til fyrstu nemendanna færi fram strax í upphafi næsta skólaárs og að það yrðu nemendur sem væru þá að hefja nám í áttunda og níunda bekk. Reynslan hefur sýnt að námslegur ávinningur af spjaldtölvuvæðingu skóla skilar sér ekki strax og var því tekin sú afstaða að nemendum sem væru að hefja sitt síðasta ár í grunnskóla væri lítill greiði gerður ef farið yrði í umfangsmiklar breytingar á námi þeirra. Nemendum í tíunda bekk voru því ekki afhentar spjaldtölvur þetta haust. Nemendur í sjötta og sjöunda bekk fylgdu í kjölfarið á miðjum vetri og síðustu tveir árgangarnir næsta haust. Innleiðingin var því nokkuð hröð, svo ekki sé meira sagt og tíminn sem kennarar fengu til undirbúnings ekki ýkja mikill. Því var ljóst að tryggja þyrfti mikinn stuðning við kennara, meðal annars í formi margskonar námskeiða. Einnig var nauðsynlegt að kennarar fengju sem mest svigrúm og næði til að aðlaga kennsluhætti fyrstu mánuðina.

Sá kennarahópur sem hvað stystan tíma fékk til undirbúnings voru unglingadeildarkennarar, en þeim til stuðnings var boðið upp á opin hús í Kópavogsskóla alla föstudaga í sumarleyfinu 2015. Kennarar gátu komið og rætt við tæknimenn og kennsluráðgjafa, auk þess sem stuttar kynningar á algegnum kennsluforritum fóru fram. Aðsókn á þessa viðburði var töluverð og þótti lýsa metnaði og jákvæðni í kennarahópnum. Þegar leið að upphafi skólaárs voru undirbúningsdagar nýttir til hins ýtrasta og boðið upp á fjölmörg námskeið, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Í októberbyrjun var sameiginlegur skipulagsdagur allra grunnskóla tileinkaður spjaldtölvunni og gátu kennarar þá valið um á þriðja tug vinnustofa og námskeiða. Auk kennsluráðgjafanna þriggja komu íslenska fyrirtækið Skema og danska fyrirtækið Kompas að námskeiðahaldinu, en það er stefna Apple að styðja vel við notkun spjaldtölva í skólastarfi og voru námskeið Dananna því sveitarfélaginu nánast að kostnaðarlausu. Langt fram á haust voru öll tækifæri nýtt til kynninga, menntabúða, námskeiða og fyrirlestra og reynt eftir fremsta megni að styðja kennara í að nýta spjaldtölvurnar sem mest í námi og kennslu.spjaldtolvur_2

Væntingastjórnun

Þrátt fyrir töluverða viðleitni voru ekki væntingar um það meðal aðstandenda innleiðingarinnar að björninn yrði unninn á nokkrum vikum. Meginmarkmið var að hvetja kennara til þess að prófa sig áfram, leggja fyrir einföld, skapandi verkefni þar sem nemendur gætu nýtt sér spjaldtölvurnar á sem fjölbreyttastan hátt, til gagnaöflunar, mynd- og hljóðvinnslu og til að sýna og kynna afrakstur vinnu sinnar. Notkun tækjanna var mismikil hjá kennurum eins og við mátti búast og fóru sumir hratt af stað meðan aðrir létu sér nægja að leyfa nemendum að sækja námsbækurnar á vef Menntamálastofnunar og lesa þær á skjánum í stað prentuðu útgáfunnar. Talsvert var um jafningjafræðslu meðal kennara og mátti ósjaldan heyra umræður á kaffistofum um sniðug öpp eða verkefni. Nemendur tóku því undantekningalítið fegins hendi þegar bryddað var upp á nýjum verkefnum þar sem spjaldtölvurnar komu við sögu og vildu flestir fá að nota þær sem oftast.

Spjaldtölvan er fjölhæft afþreyingartæki auk þess að nýtast í námi og á tímabili þótti sumum foreldrum að unglingarnir eyddu fullmiklum tíma í leiki og nethangs, en að minna færi fyrir námsvinnu. Þegar líða fór að jólum og styttist í að spjaldtölvur yrðu afhentar í næsta nemendahópi var því leitað samstarfs við foreldrafélög skólanna um aukna upplýsingagjöf til foreldra um átakið. Að sama skapi var hlustað eftir viðhorfum foreldrasamfélagsins og komu þá fram ýmsar ábendingar sem hægt var að nýta þegar kom að afhendingu. Má þar nefna að ákveðið var að lengja afhendingarferlið og fengu allir nemendur meðal annars fræðslu um ábyrga notkun tækninnar áður en spjaldtölvurnar fóru heim í skólatöskum nemenda. Þá útbjó hver og einn bekkur sáttmála með nokkrum einföldum reglum sem nemendur komu sér saman um, svo sem að birta ekki myndir hver af öðrum í óleyfi, fara eftir fyrirmælum kennara og foreldra og að eiga ekki við spjaldtölvur hvers annars. Enn þykir þó mörgum spjaldtölvan einoka tíma margra nemenda í kennsluhléum. Vinna skólar nú að því að bregðast við þessum vanda, gjarnan í samstarfi við nemendur, enda er slíkt samstarf líklegt til að skapa sátt um þær reglur sem til kunna að verða um notkun spjaldtölvanna sem leiktækja í skólanum.

Undirbúningur kennara hófst nokkrum vikum áður en afhending fór fram og voru haldnir sérstakir umræðufundir og námskeið fyrir umsjónarkennara í sjötta og sjöunda bekk. Einnig var sérstök áhersla lögð á að kennarar nýttu sér aðgang að bekkjarsettum og prófuðu að leggja fyrir einföld verkefni. Kom skýrt fram á þessum tíma að stafræn borgaravitund var kennurum ofarlega í huga. Flestum kennurum var ljóst hve mikilvægt væri að sinna þessum þætti en um leið bar á því að kennara skorti kunnáttu á því sviði. Var því ákveðið að útbúa sérstök verkefni þar sem fjallað yrði um hluti eins og samfélagsmiðla, höfundarétt, netávana og fleira. Sú venja var tekin upp að eitt verkefni skyldi lagt fyrir í hverjum mánuði og fengu kennarar sendar kennsluleiðbeiningar. Hefur þessari vinnu verið haldið áfram nú í haust, á öðru skólaári innleiðingarinnar. Smám saman er því að verða til verkefnabanki sem kennarar munu geta nýtt sér á næstu árum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að með þeirri ákvörðun að afhenda þúsundum nemenda spjaldtölvur hefur sveitarfélagið bakað sér hluta ábyrgðarinnar á því að nemendur nýti þær skynsamlega. Á móti má benda á að yfirgnæfandi meirihluti nemendahópsins hefur þegar aðgang að tölvu á heimilinu og þar að auki á talsverður fjöldi þeirra snjallsíma eða spjaldtölvu. Það er því ekki svo að aðgengi nemenda að tækniheiminum sé gjörbylt með átakinu í Kópavogi, heldur er eins og áður segir verið að færa nám þeirra nær þeim sítengda veruleika sem þau eru þátttakendur í. Engu að síður er það ætlunin að sinna fræðslu í stafrænni borgaravitund af þeim metnaði sem óneitanlega er þörf. Stefnt er að því að innan fárra ára muni útskrifast nemendur úr grunnskólum Kópavogs sem kunna sig í hinum stafræna heimi.


Upplýsingar um verkefnið er einnig að finna hér:


Um höfund

Björn Gunnlaugsson hefur starfað sem kennari og stjórnandi við Norðlingaskóla í Reykjavík, sem skólastjóri Dalvíkurskóla og aðstoðarskólastjóri Smáraskóla í Kópavogi. Hann stýrir nú innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs.