Fjórar myndir: Kennslukona leitar fótfestu
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum
Súsanna Margrét Gestsdóttir
September 1985
„Reyðarfjörður, Eskifjörður, Fráskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður!“ kallar rútubílstjórinn yfir flugvöllinn á Egilsstöðum með skrolli sem slær allt út sem áður hefur heyrst. „FRÁskrúðsfjörður? Heitir hann það?“ spyrja tveir táningar sem eru að troða farangri sínum inn í rútuna þetta blauta haustkvöld. Þau vita ekkert um það og reyndar ekkert um staðinn yfir höfuð, hafa aldrei komið þangað. Engu að síður hafa þau ráðið sig til kennslu við grunnskólann á staðnum þennan vetur og þó að skólinn hafi reyndar verið settur án þeirra nokkrum vikum fyrr þótti fagnaðarefni að fá þau til starfa því að þau eru nefnilega með glóðvolgt stúdentspróf. Þau gátu ekki mætt fyrr því að þau þurftu auðvitað að fara á Interrail með félögum sínum að sumarvinnu lokinni og í farangrinum er gott safn af vínilplötum, beint frá London – má þar nefna Cure, Stranglers og Talking Heads. Steinsnar er frá kjallaraíbúðinni í Skólabrekku yfir í grunnskólann og næsta dag má sjá þau skottast þangað. Stúlkan er rúmlega einn og hálfur metri á hæð, með leifar af unglingabólum í kinnum þó að hún sé orðin 19 ára og hefur vissulega áhyggjur af því að eiga að kenna 11 ára gömlum börnum að reikna. En hún er ekki fyrr komin inn í skólastofuna en hún fyllist vellíðan og gleði: Nemendur reynast gríðarlega skemmtilegir, námsefnið er allt viðráðanlegt og hún skrifar foreldrum sínum sendibréf í fyrstu viku þar sem segir í algerri einlægni: „Ég er fædd til að kenna.“ Þessi ummæli slá svo í gegn í Seljahverfinu að systir hennar nýtir sér aðstöðuna hjá Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins og býr til barmmerki með sömu orðum sem enn er til. Lesa meira…