Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

stefnumótun

Raddir af vettvangi

í Greinar

Anna María Gunnarsdóttir, Valgerður S. Bjarnadóttir og Jón Torfi Jónasson

 

Í þessari grein segir af tilraunaverkefni sem Kennarasamband Íslands réðist í með fulltingi Jóns Torfa Jónassonar og Valgerðar S. Bjarnadóttur vorið 2021. Að hálfu KÍ vann Anna María Gunnarsdóttir að verkefninu í samráði við Framkvæmdarstjórn skólamálaráðs KÍ og skólamálanefndir og fagráð aðildarfélaga.

Hlutverk Kennarasambands Íslands er margþætt. Það gætir ekki einungis hagsmuna og réttinda félaga sinna heldur hefur aukinheldur þau hlutverk að auka samstarf kennara, efla fagvitund, efla skólastarf og stuðla að framförum í skólamálum (Kennarasamband Íslands, 2022). Til að sinna þessum hlutverkum eru sjálfsagt margar leiðir en mjög mikilvægt er fyrir forystufólk í Kennarasambandinu að vera í sterkum tengslum við sitt félagsfólk og byggja umræður og stefnumótun á því sem sprettur úr dagsins önn í skólastarfinu sjálfu.

Megintilgangur verkefnisins var að þróa aðferð fyrir samtök kennara til að tengjast vettvangi og rækta umræðu um fagleg málefni við kennara og skólastjórnendur og virkja þannig raddir skólafólks af vettvangi innan raða KÍ , meðal annars til að það heyri hvert í öðru og að sjónarmið fagfólks sem í skólunum vinnur berist víðar. Slíkt samtal getur hvort tveggja nýst Kennarasambandinu við stefnumótun og vinnu að faglegum málefnum og tengt starfandi kennara við samtök sín, vettvang og faglega umræðu. Lesa meira…

Hugsa þarf hefðbundið hlutverk skólans upp á nýtt: Rætt um sjálfbærnimenntun við Allyson Macdonald og Ólaf Pál Jónsson

í Viðtöl

Súsanna Margrét Gestsdóttir ræðir við Allyson Macdonald og Ólaf Pál Jónsson

 

Í bókinni Tsjernóbylbæninni vitnar höfundur, Svetlana Aleksejevna, í aðalforstöðumann rannsóknarstofu Kjarnorkustofnunar Hvíta-Rúss sem lýsir ást sinni á eðlisfræði og þeirri ofurtrú sem hann eitt sinn hafði á framtíð mannkyns: „Lífið er stórmerkilegt fyrirbæri! Ég tilbað eðlisfræðina og hugsaði: Ég vil ekkert gera annað en að þjóna eðlisfræðinni en í dag langar mig til að skrifa. Til dæmis um það að maðurinn stendur í vegi fyrir vísindunum – heitt blóðið í æðum hans hindrar framgang þeirra. Litlar manneskjur með sín litlu vandamál“ (bls. 297). Leiðarstef bókarinnar er hvernig mannleg mistök (að ekki séu notuð sterkari orð) trompa vísindalega þekkingu sem liggur ljós fyrir en er ekki nýtt öllum til hagsbóta.

Allyson Macdonald og Ólafur Páll Jónsson eru á svipuðum slóðum í nýrri grein um sjálfbærnimenntun, „Pack for Sustainability: Navigating through Uncharted Educational Landscapes“, sem birtist nýlega (sjá hér). Fulltrúi Skólaþráða, Súsanna Margrét Gestsdóttir, hitti þau að máli til að ræða efni greinarinnar. Lesa meira…

Grunnskólinn hjá sveitarfélögum í 25 ár: Ávinningar og áskoranir 

í Greinar

Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Gerður G. Óskarsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Þorsteinn Sæberg 

Hvatann að flutningi á heildarrekstri grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996 má einkum rekja til fyrirmynda frá Norðurlöndum, hugmynda frá OECD um frumkvæði og sjálfstæði einstakra skólaumdæma og skóla og ríkjandi strauma um valddreifingu í ríkisrekstri, þ.m.t. flutningur á verkefnum til sveitarfélaga. Með því að færa stefnumótun og ábyrgð á opinberum viðfangsefnum, s.s. rekstri grunnskóla, nær vettvangi var vænst skilvirkara starfs og aukinnar aðkomu foreldra og íbúa, auk áherslu á sjálfstæði skólanna (Fjármálaráðuneyti, 1993; Jón Torfi Jónasson, 2008; Ólafur G. Einarsson, 1994; Ómar H. Kristmundsson, 2003).  

Fyrir flutninginn var kennslu- og stjórnunarkostaður grunnskóla greiddur úr ríkissjóði og yfirstjórn á hendi menntamálaráðuneytis (Lög um grunnskóla, nr. 49/1991). Stofnkostnaður og rekstur skólahúsnæðis grunnskóla hafði aftur á móti verið á höndum sveitarfélaga, auk efniskaupa og fleira, í nokkur ár (Lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87/1989). Á árunum 1975–1996 var landinu skipt í átta fræðsluumdæmi. Þeim var stýrt af fræðslustjórum sem voru ríkisstarfsmenn og á hverri fræðsluskrifstofu störfuðu að auki nokkrir starfsmenn, s.s. ritari, fjármálafulltrúi og sérkennsluráðgjafi einn eða fleiri, auk sálfræðinga og almennra kennsluráðgjafa í sumum umdæmanna.   Lesa meira…

Ráðuneytismaður af lífi og sál: Stefnumörkun menntamálaráðuneytis um grunnskólann í 35 ár – 1985 til 2020

í Viðtöl

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Guðni Olgeirsson í viðtali við Gerði G. Óskarsdóttur

 

Í þessu viðtali ræðir Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, vinnu við stefnumörkun ráðuneytisins um málefni grunnskóla á þeim 35 árum sem hann hefur starfað þar.

Eitt af meginverkefnum mennta- og menningarmálaráðuneytis er að móta stefnu um öll svið menntakerfisins frá leikskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu, ýmist með lagafrumvörpum til Alþingis, reglugerðum, útgáfu aðalnámskráa eða sérstakri stefnumörkun. Um þessar mundir er stefnumótun ráðuneytisins til ársins 2030 um allt menntakerfið að koma út. En hvernig ætli hafi verið staðið að stefnumörkun á undanförnum áratugum?

Guðni Olgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, hefur reynslu og yfirsýn yfir langt tímabil í störfum ráðuneytisins. Hann var fyrst ráðinn að skólaþróunardeild sem námstjóri í íslensku, en deildin var þá fyrst og fremst skipuð námstjórum í einstökum námsgreinum grunnskólans. Þá var unnið þar að nýrri aðalnámskrá grunnskóla og ráðgjöf við grunnskóla. Vettvangsheimsókn í deildina í kennsluréttindanámi við Háskóla Íslands vakti áhuga Guðna á að sækja um námstjórastarfið. Þar starfaði hann síðan á árunum 1985–1990 eða þar til deildin var flutt inn í húsnæði ráðuneytisins og varð hluti af nýrri grunnskóladeild. Sumir námstjórarnir hættu en aðrir fóru inn í ráðuneytið og var Guðni einn af þeim. „Þetta var allt annað umhverfi, skólaþróunardeildin hafði verið tiltölulega sjálfstæð fagleg eining og laustengd ráðuneytinu og viðhorf skólafólks til hennar almennt jákvæðara en til ráðuneytisins sjálfs,“ rifjar Guðni upp. Hann hefur sinnt margs konar stefnumótunarvinnu, undir stjórn 13 ráðherra, innlendu og erlendu nefndastarfi með megináherslu á skyldunámið og víðtækum tengslum við vettvanginn. Lesa meira…

Látum draumana rætast

í Greinar

Fríða Bjarney Jónsdóttir

 

Í janúar 2017 var samþykkt einróma í borgarráði Reykjavíkur ályktun um að hefja mótun menntastefnu til ársins 2030. Vinnan hófst strax þá um vorið í víðtæku samráði fjölmarga aðila í skóla- og frístundasamfélagi borgarinnar. Gera má ráð fyrir að um 10.000 manns, börn, foreldrar, starfsfólk, stjórnendur og aðrir, hafi tekið þátt í samtali um mikilvægustu áherslur í menntun barna í borginni auk þess sem almenningur gat skilað inn hugmyndum í gegnum Betri Reykjavík. Leitað var til innlendra og erlendra ráðgjafa í ferlinu, en sú vinna var undir forystu dr. Pasi Sahlberg frá Finnlandi. Lesa meira…

Punktar um læsi (í víðum skilningi)

í Greinar/Pistlar

Baldur Sigurðsson

 

Menntastefna Reykjavíkurborgar er nú í undirbúningi. Hluti þessarar stefnumörkunar beinist að læsi í víðum skilningi eins og það er kallað í drögum sem lögð hafa verið fram til umræðu (sjá hér). Þess var óskað að ég tæki að mér að skoða þessi áform, greina þau og ræða, auk þess að setja fram hugmyndir um sóknarfæri.

Læsi í hefðbundnum skilningi eða læsi í víðum skilningi. Það skiptir töluverðu máli hvaða skilningur er lagður í læsishugtakið, og það ætla ég að ræða í byrjun, en víkja svo að öðru. Lesa meira…

Árborgarmódelið í skólamálum – hvað gerðum við?

í Greinar

thorsteinnÞórdísÞorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg og Þórdís H. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar


Í tengslum við umræðuna um PISA og þann samanburð sem hefur verið birtur milli átta stærstu sveitarfélaga landsins hefur margt verið ritað og rætt að undanförnu. Því hefur jafnvel verið haldið fram að bæting hjá Árborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ í PISA sé vegna þess að sveitarfélögin séu að vinna nánast eins í skólamálum. Einn forsvarsmanna vefritsins Skólaþráða hafði samband við fræðslustjóra til að spyrja nánar út í skólamálaáherslur Árborgar og í kjölfarið var ákveðið að skrifa grein í ritið sem gæti kynnt í stuttu máli það sem gert hefur verið í skólamálum sveitarfélagsins á undanförnum misserum. Greinarhöfundar hafa báðir tekið virkan þátt í breytingastarfinu í Sveitarfélaginu Árborg. Þorsteinn Hjartarson frá haustdögum 2011 og Þórdís H. Ólafsdóttir sem kennsluráðgjafi frá haustdögum 2013 fram undir mitt ár 2016 er hún færði sig í Hafnarfjörð. Þar tók hún við starfi verkefnastjóra í bættum námsárangri hjá skólaskrifstofu bæjarins. Greinarhöfundar eru sammála um að þeir geti ekki sagt nákvæmlega til um hvað það er sem hefur skilað bættum árangri Árborgar í PISA en bætinguna megi þó vafalaust rekja til samspils margra þátta sem hér fá nokkra umfjöllun. Lesa meira…

Fara í Topp