Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

starfendarannsóknir

Tilraun til að innleiða litakvarða í stað talnakvarða í leiðsagnarnámi

í Greinar

Hafsteinn Óskarsson og Sigurrós Erlingsdóttir

Í þessari grein er sagt frá starfendarannsókn í framhaldsskóla þar sem höfundar innleiddu litakvarða í stað einkunnakvarða með tölum í tengslum við innleiðingu leiðsagnarnáms.

Menntaskólinn við Sund hefur gengið í gegnum miklar breytingar undanfarinn áratug. Samfara því að fjögurra ára bekkjarkerfi var lagt niður og þriggja anna áfangakerfi tekið upp hefur námið verið stytt í þrjú ár. Með þessari kerfisbreytingu hafa yfirlitspróf horfið og í staðinn komið símat í áföngum sem spanna tólf vikur. Við tvö, höfundar þessarar greinar, höfum kennt lengi við skólann og höfum þurft að laga kennsluna að breyttu umhverfi. Kennslugreinar okkar eru íslenska og hagfræði. Leiðsagnarnám hentar vel til að bregðast við breytingum í skólanum þar sem áhersla er lögð á virkni nemenda í að móta nám sitt og axla ábyrgð á því. Skólinn hefur unnið markvisst að innleiðingu leiðsagnarnáms frá haustinu 2017 (sjá Hjördís Þorgeirsdóttir, 2020, 2023). Leiðsagnarnám miðar að því að nemendur og kennari velji leiðir sem séu árangursríkari en ef matið hefði ekki farið fram. Við innleiðinguna hefur verið stuðst við kenningar Wiliams (2018) um leiðsagnarmat (e. formative assessment) og Hattie og Clarke (2019)  um markvissa endurgjöf. Lesa meira…

Fyrstu skref í samleik – Starfendarannsókn um samskipti ungra barna í ærslaleik

í Greinar

Ritrýnd grein

Hugrún Helgadóttir og Hrönn Pálmadóttir

Ágrip

Greinin er byggð á starfendarannsókn þar sem rýnt var í þróun nýrra starfshátta í leikskóla og áhrif þeirra á samskipti og leik yngstu barnanna. Gagnaöflun fór fram á tímabilinu október 2019 til febrúar 2020. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig breytingar á námsumhverfi og starfsháttum höfðu áhrif á samskipti og ærslaleik eins og tveggja ára barna á einni deild í leikskóla. Ærslaleikur ungra barna er skilgreindur sem leikstíll sem einkennist af hreyfingu, líkamstjáningu og hljóðum. Í starfendarannsókninni var sjónum beint að því hvernig ærslaleikurinn ýtti undir samskipti barnanna. Auk þess var kannað hvernig breytt fyrirkomulag á námsumhverfi og markviss stuðningur kennara við leikinn studdi við samleik barnanna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að breytt námsumhverfi deildarinnar ýtti undir samskipti barnanna og leik. Ærslahorn sem sett var upp á deildinni varð svæði fyrir börnin til að ærslast á og þróa samleik sinn. Á rannsóknartímabilinu sóttust börnin eftir að fara saman í hornið sem leiddi til þess að félagstengsl og samskipti þeirra efldust. Ærslaleikurinn, þar sem líkamstjáning var í forgrunni, studdi við samskipti barnanna. Leikurinn veitti bæði þeim börnum sem voru farin að nota tungumálið, sem og hinum sem lítið eða ekkert voru farin að nota málið til tjáningar, grundvöll til samskipta. Niðurstöður sýndu einnig að nærvera kennara og stuðningur við samskipti og leik barnanna skipti miklu máli, ekki aðeins til þess að leiðbeina þeim í leik, heldur jafnframt til að veita börnunum öryggi og stuðning í félagslegum aðstæðum. Lesa meira…

  Leiðsagnarnám eykur þátttöku og sjálfræði nemenda í námi sínu

í Greinar

Hjördís Þorgeirsdóttir

 

Í þessari grein er fjallað um starfendarannsókn sem hefur það markmið að þróa námshætti og námsmat í anda leiðsagnarnáms og byggja upp námsmenningu um námskraft nemenda í kennslu í félagsfræði í Menntaskólanum við Sund (MS). Ég var þátttakandi í starfendarannsóknarhópi kennara MS frá 2005 til 2022 en þar hefur verið stefna samkvæmt námskrá að byggt skuli á kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu (Hafþór Guðjónsson, 2013; Hjördís Þorgeirsdóttir, 2023b, 2016). Sjá grein um  starfendarannsóknarhóp MS í Skólaþráðum2023 hér.

Eftir að ný þriggja ára skólanámskrá til stúdentsprófs var innleidd í nýju þriggja anna kerfi í MS árið 2016 með megináherslu á verkefnabundið nám kom upp skýr þörf fyrir að innleiða leiðsagnarmat sem lið í símati sem viðhaft er í nýju kerfi í MS eftir að sérstakur prófatími í skóladagatalinu var lagður niður. Haustið 2017 var stofnaður þróunarhópur kennara um leiðsagnarmat í MS undir leiðsögn Sólveigar Zophoníusardóttur, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri. Ég sem félagsfræðikennari tók þátt í starfi þessa hóps og hóf að innleiða leiðsagnarmat byggt á hugmyndum Dylan Wiliam (Black og Wiliam 2009; Wiliam, 2018) og hélt ég áfram á þeirri braut skólaárin 2018 til 2022. Jafnframt innleiðingu leiðsagnarnáms byggði ég á hugmyndafræði Guy Claxton og fleiri um námskraft nemenda (2018; 2002; Glaxton og Powell, 2019) þar sem áhersla er lögð á að beina athyglinni að námsvenjum, hugsun og viðhorfum nemenda til náms en einblína ekki eingöngu á miðlun innihalds námsefnisins. Sjá umfjöllun um námskraftinn í Skólaþráðum 2023 hér og rannsóknarskýrslu 2020 um leiðsagnarnám og námskraftinn hér.

Í þessari grein lýsi ég helstu aðferðum sem ég nýtti í leiðsagnarnáminu frá 2017 til 2022 út frá fimm lykilaðgerðum leiðsagnarmats samkvæmt flokkun Wiliam (2018). Lesa meira…

Starfendarannsóknir efla starfsþróun kennara og stuðla að jákvæðum breytingum í skólastarfi

í Greinar

Hjördís Þorgeirsdóttir

 

Starfendarannsóknarhópur Menntaskólans við Sund (MS) hefur starfað í 18 ár og hér ætla ég að lýsa hópnum með áherslu á þá þætti sem styrkja hann og hafa stuðlað að því að hópurinn hefur lifað góðu lífi svo lengi sem raun ber vitni. Einnig ætla ég að lýsa þeim áhrifum sem starf hópsins hefur haft á starfsþróun kennara og grósku skólastarfs í MS. Að lokum fjalla ég um styrkleika starfendarannsókna sem og þá togstreitu sem fylgir þeim. Ég hef starfað með starfenda-rannsóknarhópnum frá upphafi, fyrst sem konrektor MS í tólf ár og síðustu fimm árin sem félagsfræðikennari, þangað til ég fór á eftirlaun fyrir ári síðan. Greinin er byggð á doktorsritgerð minni frá 2016, rannsóknarskýrslu minni frá 2020 um leiðsagnarnám og reynslu minni sem þátttakandi í hópnum. Doktorsverkefnið vann ég með starfendarannsóknarhópnum í MS og tengdum við saman starfendarannsóknir byggðar á aðferðafræði Jean McNiff (2016, McNiff og Whitehead, 2006) og starfsemiskenningu Yrjö Engestöm um útvíkkað nám (2007) til að efla starfsþróun kennara. Lesa meira…

Námskraftur eykur áhuga og ábyrgð nemenda á náminu

í Greinar

Hjördís Þorgeirsdóttir

 

Þessi grein er byggð á starfendarannsókn sem ég gerði sem félagsfræðikennari í Menntaskólanum við Sund frá 2017 til 2022 um leiðsagnarnám og námskraft nemenda. Hér beini ég athyglinni að námskraftinum sem er mjög mikilvægur til að auka áhuga og ábyrgð nemenda í fjölbreyttri verkefnavinnu sem leiðsagnarnám grundvallast á. Ég fékk rannsóknarstyrk frá Kennarasambandi Íslands, skilaði skýrslu um hana 2020 (sjá hér). Haustið 2017 var ég að hefja kennslu á ný eftir að hafa verið konrektor við MS í 15 ár.  Þá var nýbúið að taka upp nýtt þriggja anna kerfi í MS með þremur jafnlöngum önnum, haust-, vetrar- og vorönn. Hver önn hefur 50 kennsludaga og 10 námsmatsdaga sem er dreift yfir önnina. Við hættum með lokapróf og hefðbundinn prófatíma en höfum nú símat í öllum áföngum. Nemendur eru í fjórum til fimm námsgreinum á önn og aðeins þremur á hverjum degi í kennslustundum sem eru 80 til 120 mínútur að lengd. Þetta er mjög góður jarðvegur fyrir leiðsagnarnám byggt á verkefnabundnu námi. Þegar við breyttum yfir í verkefnabundið nám þá fluttist áherslan frá kennslu yfir í nám og við fórum að hugsa meira um að fá nemendur til að læra að læra. Það kom í ljós hvað það skipti miklu máli að nemendur hefðu trú á eigin getu, hefðu áhuga á náminu og gætu bæði unnið sjálfstætt og með öðrum nemendum. Þá kom hugmyndafræðin um námkraftinn sterk inn hjá okkur. Lesa meira…

Allir í bátana, gerum þetta saman – um starfendarannsóknir í Dalskóla

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Hildur Jóhannesdóttir

 

Í þessari grein segir Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla frá  starfendarannsóknum, en þær eru ein af undirstöðum þess að lærdómssamfélag hefur þróast í skólanum. Eins og hugtakið lærdómssamfélag ber með sér verður til aukin þekking ef næst að þróa starfsaðferðir sem fela í sér miðlun þekkingar og verklags á milli kennara, teyma og samstarfshópa. Tilgangur lærdómssamfélags í skólum er að auka gæði kennslunnar og alls starfs með nemendum. Starfendarannsóknir styðja við lærdómssamfélagið því hver rannsókn sem gerð er miðar að auknum gæðum kennslunnar og skólastarfsins. Ásetningur rannsakandans eða hvers rannsóknarhóps er að auka hæfni sína og þekkingu til hagsbóta fyrir nám nemenda og að hafa áhrif á þróun skólastarfs í skólanum með beinum hætti. Lesa meira…

Fyrirlesturinn sem ekki varð

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Fyrir stuttu var mér boðið að halda fyrirlestur um starfendarannsóknir í námskeiði fyrir iðngreinafólk á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þetta væri ekki í frásögur færandi ef hlutirnir hefðu gengið eðlilega fyrir sig. Það gerðu þeir nefnilega ekki. Það varð ekkert úr fyrirlestrinum, eða öllu heldur ekkert að ráði. Þetta átti að vera svona Power Point fyrirlestur. Ég hafði útbúið 25 glærur og sett þær á minniskubb. Kominn á staðinn spurði umsjónarkona námskeiðsins, hún Elsa, hvort ég væri með glærur. Ég játti því, lét hana hafa minniskubbinn sem hún stakk í samband við borðtölvuna og tók svo afrit af glærunum yfir á skjáborðið. Allt klárt og ekki laust við að ég hlakkaði til að sýna nemendum, iðgreinafólkinu, þessar frábæru glærur mínar. Ég er nefnilega ansi góður í Power Point! Lesa meira…

Að rýna í eigin rann. Mikilvægi sjálfsrýni í kennaranámi og starfsþróun kennara

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Starfendarannsóknir hafa fest rætur á Íslandi, bæði í skólum og í kennaranámi, ekki síst á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem vel á annað hundrað kennaranemar hafa lokið meistaraprófsverkefni með sniði starfendarannsóknar. Slíkar rannsóknir beinast ekki bara út á við eins og venja er heldur líka inn á við. Rannsakandinn tekur sjálfan sig til skoðunar í því skyni að átta sig betur á eigin viðhorfum, hvernig hann sjálfur hugsar. Slíka iðju kalla ég sjálfsrýni og hef orðið þess var að hún hreyfir oft við þeim sem í hlut eiga. Einar Sigurdór Sigurðsson sem lauk meistaraprófi með starfendarannsóknarsniði vorið 2019, skrifar í lokaorðum sínum:

Að hafa farið í gegnum svona starfendarannsókn hefur gefið mér mikið. Ég tel að allir hafi gagn af því að horfa inn á við í sínu starfi og þá gildir einu hver starfsaldurinn er. Rannsóknarvinnubrögðin sem slík er lærdómsrík reynsla sem ég bý að hér eftir og vonandi get ég miðlað þeirri þekkingu til annarra. En það er þó ekki það mikilvægasta sem ég tek með mér. Að hafa horft inn á við eins og hér hefur verið gert er dýrmætasta reynslan. Með því hef ég lært heilmikið inn á sjálfan mig, fundið styrkleika og veikleika en einnig fundið styrkleika í veikleikunum. Ég er því sannfærður um að starfendarannsóknin hafi eflt mig og þroskað á mörgum sviðum. Hún hefur eflt mig sem persónu, kennara og samstarfsmann en einnig sem fagmann. Ég er reynslunni ríkari.  (Bls.75) Lesa meira…

„Það er eins og það hafi verið skipt um rafgeymi í manni“

í Greinar

Gildi starfstengdrar leiðsagnar fyrir starfsþróun kennara

Birna María B. Svanbjörnsdóttir, Hildur Hauksdóttir og María Steingrímsdóttir

Starfstengd leiðsögn hefur öðlast ríkan sess í umræðu um skólamál á undanförnum misserum. Kennaraskortur, brotthvarf kennara úr starfi og álag í vinnuumhverfi þeirra hafa rennt frekari stoðum undir hugmyndir um markvissari leiðsögn með nýliðum í kennarastéttinni sem og kennaranemum. Rannsóknir, erlendar og íslenskar, hafa sýnt fram á með óyggjandi hætti að formleg leiðsögn skili sér í bættu skólastarfi enda felur hún í sér gagnkvæma starfsþróun jafnt hjá þeim sem veita leiðsögnina og þeim sem hana þiggja. Lesa meira…

Að þora að hætta að gera það sem skilar árangri til að gera það sem skilar enn betri árangri – Framsækið skólastarf í Lerum í Svíþjóð

í Greinar

Birna María B. Svanbjörnsdóttir

 

Sveitarfélagið Lerum skammt austan Gautaborgar í Svíþjóð hefur í samstarfi við Göteborgs Universitet (GU) unnið að umbótamiðuðum starfsháttum í leik- og grunnskólum á undanförnum árum undir forystu fræðslustjóranna í Lerum. Ulf Blossing dósent og rannsakandi við kennaramenntunardeild GU (Institut för pedagogik och specialpedagogik) leiddi starfið fyrir hönd GU með aðkomu rannsóknarhóps og doktorsnema. Ég fékk  tækifæri til að fylgjast með og fá innsýn í framsækið starf þeirra sem fram fer meðal annars í leshringjum, starfendarannsóknum og teymisvinnu.

Ég heyrði fyrst af þessu samstarfi vorið 2015 og fékk nánari upplýsingar um það hjá Blossing og fræðslustjórunum. Ég fór í tveggja daga heimsókn til Lerum og GU í nóvember 2015 og aftur í apríl 2016 og átti þá fundi með þessum aðilum. Þá hitti ég einnig skólastjóra Ljungviksskolan sem er nýlegur, heildstæður grunnskóli í Lerum og kynnti mér úttektir og önnur gögn um þann skóla. Ég fór í skoðunarferð um skólann og átti óformlegt spjall við kennara og nemendur. Á fjögurra mánaða tímabili haustið 2016 fékk ég heildstæðari mynd af samstarfinu með því að taka þátt í mismunandi fundum og vinnusmiðjum með rannsóknarhópnum í GU og fræðslustjórum og skólastjórum í Lerum, á teymisfundum í Ljungviksskolan og fundum með skólastjóra og teymisstjóra.

Hér verður greint frá nokkrum þáttum í fimm ára (2012–2017) samstarfi rannsóknarhópsins í Gautaborgarháskóla og fræðslustjórum Lerum með áherslu á umbótastarfið sjálft, frá tildrögum þess, markmiðum og umgjörð, einkennum og árangri. Gefin verða dæmi um það sem fyrir augu bar og horft til möguleika á að nýta upplýsingar við íslenskar aðstæður. Lesa meira…

Fara í Topp