Tilraun til að innleiða litakvarða í stað talnakvarða í leiðsagnarnámi
Hafsteinn Óskarsson og Sigurrós Erlingsdóttir
Í þessari grein er sagt frá starfendarannsókn í framhaldsskóla þar sem höfundar innleiddu litakvarða í stað einkunnakvarða með tölum í tengslum við innleiðingu leiðsagnarnáms.
Menntaskólinn við Sund hefur gengið í gegnum miklar breytingar undanfarinn áratug. Samfara því að fjögurra ára bekkjarkerfi var lagt niður og þriggja anna áfangakerfi tekið upp hefur námið verið stytt í þrjú ár. Með þessari kerfisbreytingu hafa yfirlitspróf horfið og í staðinn komið símat í áföngum sem spanna tólf vikur. Við tvö, höfundar þessarar greinar, höfum kennt lengi við skólann og höfum þurft að laga kennsluna að breyttu umhverfi. Kennslugreinar okkar eru íslenska og hagfræði. Leiðsagnarnám hentar vel til að bregðast við breytingum í skólanum þar sem áhersla er lögð á virkni nemenda í að móta nám sitt og axla ábyrgð á því. Skólinn hefur unnið markvisst að innleiðingu leiðsagnarnáms frá haustinu 2017 (sjá Hjördís Þorgeirsdóttir, 2020, 2023). Leiðsagnarnám miðar að því að nemendur og kennari velji leiðir sem séu árangursríkari en ef matið hefði ekki farið fram. Við innleiðinguna hefur verið stuðst við kenningar Wiliams (2018) um leiðsagnarmat (e. formative assessment) og Hattie og Clarke (2019) um markvissa endurgjöf. Lesa meira…