Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

skólaþróunarverkefni

Litið yfir farinn veg 25 árum eftir flutning grunnskólans frá ríki til sveitafélaga: Hverju hefur helst farið fram og hvað er brýnast að bæta?

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson

 

Á síðasta ári voru 25 ár síðan rekstur grunnskólans var fluttur yfir til sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að Skólaþing sveitarfélaga árið 2021 yrði helgað umræðu um farinn veg og horft fram á veginn til næstu 25 ára. Óskað var eftir því að ég ávarpaði þingið og fékk erindið heitið Hverju hefur helst farið fram og hvað er brýnast að bæta? (Erindið, sem er að finna hér, var raunar ekki flutt fyrr en 21. febrúar 2022 þar sem fresta þurfti þinginu af kunnum ástæðum.)

Á undanförnum árum og áratugum hef ég unnið með mörgum skólum og sveitarfélögum að verkefnum sem meðal annars hafa tengst kennsluháttum, skólaþróunarverkefnum, námsmati, samskiptum, skólaskipan, skólabyggingum og mótun skóla- og menntastefnu. Í þessari vinnu hef ég átt þess kost að eiga samræður við kennara og starfsfólk skóla, fulltrúa í sveitarstjórnum, nemendur, foreldra og íbúa og var hugmynd mín að byggja erindið á þessari reynslu og velja dæmi um það sem vel hefur verið gert, sem og um það sem mikilvægast væri að bæta.

Fljótlega eftir að ég fór að velta efninu fyrir mér og velja dæmi fæddist sú hugmynd að leita álits fólks sem vel hefur fylgst með skólamálum á undanförnum árum og sendi ég 25 skólamönnum beiðni um álitsgjöf og bað þá að svara fjórum spurningum:

  1. Getur þú tilgreint stuðning sveitarfélags við grunnskólastarf sem þér finnst vera til fyrirmyndar? Settu gjarnan stutt rök.
  2. Koma þér í hug skólaþróunarverkefni sem sveitarfélög hafa efnt til og eru til eftirbreytni? Eru einhver framúrskarandi?
  3. Hverjar eru stærstu áskoranir sem sveitarfélög standa nú frammi fyrir gagnvart grunnskólanum?
  4. Hvaða lærdóma má helst draga af reynslunni af flutningi grunnskólans frá ríki og yfir til sveitarfélaganna?

Lesa meira…

Hvernig smáfræ verður að meginstoð í sköpun lærdómssamfélags: Um áhugasviðsverkefni í Grunnskólanum á Suðureyri

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Jóna Benediktsdóttir

 

Grunnskólinn á Suðureyri er pínulítill skóli, svo lítill að þar þurfa kennarar að kenna fleiri greinar en sínar óskagreinar og eru yfirleitt ekki í samstarfi við neinn um sína kennslu. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og meira en helmingur þeirra á annan eða báða foreldra af erlendum uppruna og greiningar vegna frávika eru ekki sjaldgæfari hjá okkur en öðrum. Þessar aðstæður hafa litað skólastarfið gegnum árin og eins og við vitum öll sem störfum í grunnskólum er auðvelt að festast í ákveðnu fari sem skapast bæði af ytri og innri aðstæðum í skólasamfélagi. Lesa meira…

Ræktun mennskunnar: Hvernig eflum við samskiptahæfni?

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Sigrún Aðalbjarnardóttir

 

Við skulum líta inn í skólastofu í grunnskóla. Kennarinn varpar fram klípu í samskiptum:

Erna og Dísa eru vinkonur. Dag nokkurn eru þær að undirbúa leikrit í skólanum. Dísa vill bjóða nýrri stelpu í bekknum að vera með þeim í leikritinu en Erna vill það ekki. Hún vill bara vera með vinkonu sinni einni í leikritinu.

      • Hver er vandinn hér? Hvers vegna er það vandi?
      • Hvernig ætli A (Ernu) líði? Hvers vegna ætli henni líði þannig?
        Hvernig ætli B (Dísu) líði? Hvers vegna ætli henni líði þannig?
      • Hvernig geta A og B leyst vandann (ýmsar tillögur)? Af hverju væri það góð leið?
        Væri sú leið sanngjörn? Að hvaða leyti/Að hvaða leyti ekki?
      • Hver er besta leiðin til að leysa vandann? Af hverju er það besta leiðin?

Með þessu dæmi um samskiptaklípu og spurningum kennara kemur fram að hann leitar eftir því að nemendur greini vandann, hugi að líðan hlutaðeiganda, finni ýmsar leiðir til að leysa vandann, hugi að sanngirni og velji bestu leiðina. Nemendur eru hvattir til að tjá sig og færa rök fyrir hugsun sinni. Lesa meira…

Slökun í anda lærdómssamfélagsins – þróunarverkefni á framhaldsskólabrautum Borgarholtsskóla

í Greinar

Hrönn Harðardóttir 

 

Í Borgarholtsskóla eru tvær framhaldsskólabrautir. Nemendur sem koma á framhaldsskólabraut eru þeir sem ekki hafa náð tilskildum árangri til þess að hefja nám á öðrum brautum framhaldsskólanna. Framhaldsskólabraut 2 er fyrir nemendur sem hafa fengið eitt D eða eru með eina stjörnumerkta einkunn úr grunnskóla og framhaldsskólabraut 1 er fyrir nemendur sem hafa fengið tvö eða fleiri D eða eru með fleiri en tvær stjörnumerktar einkunnir úr grunnskóla. Framhaldsskólabrautum er ætlað að koma til móts við fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og að framhaldsskólarnir bjóði upp á menntun sem hentar hverjum og einum, enda eiga allir rétt á að hefja nám í framhaldsskóla óháð því hvernig þeim hefur gengið í grunnskóla (Mennta og menningaráðuneytið, 2015). Nemendur framhaldsskólabrautanna geta valið á hvaða línu þeir vilja hefja nám. Í boði eru verknámslína, bóknámslína og listnámslína. Þannig tengjast nemendurnir strax þeim brautum sem þeir stefna á að loknu námi á framhaldsskólabraut. Nám á framhaldsskólabraut tekur eitt ár.  Lesa meira…

„Við lærum að hugsa út fyrir kassann.“ Um K2 – verkefnastýrt nám í Tækniskólanum

í Greinar

Ingvar Sigurgeirsson í samstarfi við Nönnu Traustadóttur, Jón B. Stefánsson, Úlfar Harra Elíasson, Sigríði Halldóru Pálsdóttur og Þorstein Kristjáns Jóhannsson

Haustið 2016 var opnuð ný námsbraut til stúdentsprófs í Tækniskólanum sem ber heitið K2 – með tilvísun til þessa næst hæsta fjalls í heimi. Námið á brautinni er tengt tækni og vísindum og er um margt óvenjulegt, sem og starfshættir allir og umgjörð.

Segja má að námsbrautinni sé ætlað að höfða til nemenda sem vilja nútímalegan, óhefðbundin vinnudag, sem og til þeirra sem ekki hafa notið sín í hefðbundinni kennslu „en finnst þeir eiga mikið inni“. Í kynningu er þetta orðað svo að markmiðið sé að gefa sterkum náms­mönnum ein­stakt tæki­færi til þess að fá krefj­andi verk­efni og þjálfast í því að hugsa út fyrir rammann, tengjast háskóla-umhverfinu og efla tengslanet sitt í atvinnu­lífinu. Í námskrá brautarinnar er lögð áhersla á að námið eigi að vera áhugavekjandi, ögrandi og krefjandi og að nemendur sem útskrifast af brautinni hafi öðlast hagnýta menntun í raunvísindagreinum, tjáningu og frumkvöðlafræðslu. Lesa meira…

“We have this thing called sprellifix” – Samþætting námsgreina í 9. og 10. bekk Langholtsskóla

í Greinar

Björgvin Ívar Guðbrandsson, Dögg Lára Sigurgeirsdóttir, Hjalti Halldórsson og Sandra Ýr Andrésdóttir

We have this thing called sprellifix,“ svaraði nemandi í 10. bekk Langholtsskóla þegar hún, í samtali við Pasi Salhberg og Andy Hargreaves, var beðin um að útskýra breytta kennsluhætti í unglingadeild. Hún þurfti síðan nokkrar atrennur til að útskýra það nánar hvað um væri að ræða. Orðið sprellifix hefur nefnilega öðlast sérstaka þýðingu fyrir nemendur og kennara sem ekki er auðvelt að útskýra, en nær í stuttu máli yfir breytt vinnulag í unglingadeild Langholtsskóla í nýrri námsgrein sem kallast smiðja. Smiðjan í skapandi skólastarfi 2017-2019 er sett upp sem þróunarverkefni sem gengur út á að breyta kennsluháttum í unglingadeild, samþætta námsgreinar, auka samstarf kennara og nemenda með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi. Verkefnið er sett upp eins og þróunarverkefni en hefur ekki hlotið neina styrki enn sem komið er. Sótt hefur verið um hvort tveggna í Þróunarsjóð námsgagna og í Þróunarsjóð skóla- og frístundaráðs.

Í greininni verður er sagt frá þessu verkefni – og um leið frá því hvernig vangaveltur kennara um nám á 21. öldinni urðu að námsgrein með áherslu á verkefnatengda nálgun, samþættingu námsgreina og nýtingu upplýsingatækni í námi í Langholtsskóla.

Lesa meira…

Nám og meðnám

í Pistlar


Hafþór Guðjónsson, dósent


Skólastarf, frá og með miðstigi grunnskóla, snýst að verulegu leyti  um að kenna ákveðnar námsgreinar. Þá koma námsbækurnar inn með fullum þunga og námið felst einkum í því að tileinka sér það sem stendur í námsbókunum og kunna það til prófs. Dewey (1938/2000) víkur að þessu í bókinni Experience and Education, gagnrýnir þar hefðbundið skólastarf fyrir að vanrækja að taka með í reikninginn það sem lærist óbeint og er hvass í máli:

Ef til vill er hin mesta af öllum kennslufræðilegum villum fólgin í þeirri hugmynd að maður læri einungis þann sérstaka hlut sem hann er að læra um þá stundina. Það sem lærist óbeint eins og t.d. myndun varanlegra viðhorfa, jákvæðra og neikvæðra, getur verið og er oft langtum mikilvægara en sú lexía í stafsetningu, landafræði eða sögu sem lærð var. Því þessi viðhorf koma til með að skipta mestu máli í framtíðinni. Langmikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra (bls. 58). Lesa meira…

Fara í Topp