1

Stærðfræðikennslan, námsefnið og kennsluaðferðirnar: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum

Í febrúar, fyrr á þessu ári heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada, Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu, sjá hér, fjallaði hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku. Í annarri greininni, sjá hér, fjallaði hún um skólana, stærðfræðikennara og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja, sem hér birtist er um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira.

Sigrún Lilja Jónasdóttir

 

Í WTCS skólanum og CTA skólanum er unnið með nemendur á fjölbreyttan hátt. Reynt er að koma til móts við þarfir nemanda eins og framast er unnt. Eins og áður hefur komið fram er kennslustundin í þessum tveimur framhaldsskólum sem ég heimsótti 75 mínútur nema á miðvikudögum þá eru þær 60 mínútur vegna funda sem haldnir eru í skólunum alla miðvikudaga á milli kl. 8.00–10.00. Einn fundur í mánuði er helgaður faggreinakennslunni í skólunum. Hér á eftir ætla ég að leyfa ykkur að kíkja inn í nokkrar kennslustundir með mér. Hvaða námsefni er notað og hvernig eru kennsluaðferðirnar? Í lok greinarinnar segi ég stuttlega frá félagslífinu og samskiptum við foreldra.

Kennslustundirnar í WTCS skólanum

Kennari í 9. bekk er að rifja upp eitt og annað varðandi flatarmál og ummál ýmissa forma. Hann lætur nemendur hafa verkefni sem er þrjár blaðsíður með myndum. Fyrst leiðir hann nemendur áfram og útskýrir algengustu reiknireglur fyrir flatarmál og dregur nemendurna vel inn í umræðuna. Hann spyr hvort þeir hafi lært regluna um flatarmál hrings o.s.frv. Nemendur nota flestir vasareikna í símunum sínum. Einn drengur þarf að nota fartölvu við vinnu sína. Nemendur vinna sjálfstætt seinni hluta tímans en eiga síðan að klára verkefnið heima. Nemendur sitja ýmist einir eða tveir saman. Kennari gengur á milli og aðstoðar. Nemendur eru duglegir að hjálpast að.

Kennari í 12. bekk byrjar á að fara yfir heimavinnu. Kennarinn notar lesvarpann og reiknar á blað með nemendum. Krakkarnir eru mjög áhugasamir enda um skemmtilega þrautalausn að ræða. Þeir eru að skoða Pascal þríhyrninginn út frá tiltekinni formúlu. Sumir nemendur eru með drykki inni í stofu og margir með síma uppi á borðum. Krakkarnir hafa greinilega eitthvað verið að vinna með hugmyndir Pascal áður og fá nú nýtt verkefni á þremur blöðum. Á einu eru tvær þrautalausnir, önnur er götumynd og eiga nemendur að lýsa á hve marga vegu þeir geta komist á milli ákveðinna gatnamóta með ákveðnum flutningum og hitt er um flutninga á taflborði. Á næsta blaði er lína sem segir: Hvað lærði ég í dag? Þar verða nemendur að skrá nokkrar setningar um það sem þeir voru að læra. Síðasta blaðið er svo heimavinna dagsins. Kennarinn fer í gegnum sum verkefnin á blaðinu með nemendum bæði á lesvarpa og töflu og dregur þá mikið inn í umræðuna með sér:  Hvaða tölur vantar? Notið Pascal aðferðina o.s.frv. Hann spyr skemmtilegra og áhugavekjandi spurninga. Nemendur komast langt með allt verkefnið, líka heimavinnublaðið, en eiga að klára verkefnið heima og fá svör með heim. Nemendur hjálpa hver öðrum.

Stærðfræðigangur í WTCS

Kennari í 10. bekk byrjar á að fara yfir heimavinnu, dæmi úr bókinni. Hann lætur suma nemendur segja frá því hvernig þeir unnu verkefnið. Viðfangsefni tímans er að kynna innsetningaraðferð við lausn jöfnuhneppis. Hann tekur nemendur með í umræðuna með því að spyrja: Hvort er betra að einangra x eða y? Skiptir það e.t.v. ekki máli? Einn nemandi setur snöggvast símann sinn í hleðslu. Kennarinn hvetur nemendur til að prófa hvort lausn þeirra sé rétt og tengir hana við punkt í hnitakerfinu. Hann setur svo fyrir nokkur dæmi úr námsbókinni. Hún heitir Nelson Principles of Mathematics 10. Bókinni fylgir heimasíða sem nemendur nota. Aðgangurinn er merktur inn í bækurnar s.s. „This is your access Code nelson 5567LQLZ og to www.mynelson.com.“ Nemendur fara á milli borða og hjálpast að.

Kennari í 9. bekk er að vinna með neikvæðar tölur og hefur sett upp á veggi stofunnar ýmsar bjargir um efnið. Hér fá nemendur verkefni sem þeir eiga að vinna saman í hópum. Kennarinn útskýrir verkefnið vel í byrjun. Nemendur þurfa að beita rökum og sýna fram á hvernig reglurnar virka. Hóparnir biðja um fleiri verkefni þegar þeir eru búnir. Bókin sem þessi hópur notar er McGraw – Hill Ryerson. Principles of Mathematics 9

Kennari í 10. bekk notar skjávarpa og fer í jöfnur og skurðpunkt. Við útskýringar sínar tengir kennarinn jöfnurnar við daglega lífið og ber saman kostnað við að taka leigubíl eða lest á flugvöllinn. Ræddar eru líka spurningar eins og: Er minni mengun að fara með lestinni? Hvað sparast margir leigubílar ef hraðlestin upp á flugvöll er full? Nemendur fá verkefnablað sem þeir eiga að vinna og líka heimavinnublað. Kennarinn segist munu fara lauslega yfir heimavinnu á morgun. Kennari útdeilir þessu næst námsbók til nemenda og þurfa þeir að merkja við að þeir hafi fengið bók sem þeir eiga svo á að skila inn í vor. Þurfa að borga 100 kanadíska dollara ef þeir skila henni ekki. Bókin heitir Nelson Principles of Mathematics 10. Krakkarnir hjálpast svolítið að á milli borða og reyna að vinna sem mest í tímanum.

Kennari í 11. bekk fer að æfa nemendur fyrir spurningakeppni með Quiz sem á að vera á morgun þar sem reynir á lausnir á annars stigs jöfnum. Hann sýnir hvernig finna má lausnirnar með þáttun og fer mikið í ferningsrætur og lausnir. Í stofunni er snjalltafla sem hann er að nota. Það verður smátruflun þegar kona kemur inn til að kynna valáfanga sem verður í boði á næstu önn. Kennarinn segist vera með Quiz svona átta sinnum yfir veturinn og segir að krökkunum líki þessi keppni vel. Nemendur eiga að æfa sig heima fyrir keppnina. Í stofunni sitja nemendur í tvöföldu U og þessi kennari notar ekki námsbók, bara verkefnablöð og Google Classroom.

Kennari í 12. bekk útskýrir stuttlega afleiður og reglur sem hægt sé að nota til að auðvelda vinnu með þær. Hann hefur greinilega verið búinn að fara í þetta efni áður. Síðan fara nemendur að vinna í bók sem heitir Nelson Calculus and Vectors 12 solutions sem er tekin saman af Chris Kirkpatrick. Hér er áhuginn mikill og nemendur vinna mjög vel saman í bókinni. Þeir eru að vinna með afleiður og reyna að komast í að byrja á heimaverkefninu. Heimaverkefnið er á tveimur blöðum. Lýsa á þremur reglum, reikna nokkur dæmi og segja frá því hvernig lausnir þeirra eru hugsaðar.

Nokkrar kennslustundir í CTA skólanum

Kennari í 9. bekk, þar sem nemendur stefna á háskólanám, sýnir mér tvö próf sem hann hefur látið nemendur taka til að kanna stöðu þeirra. Fyrra prófið var tekið í byrjun annar og sýnir stöðuna eftir 8. bekk og hitt er staðan eftir tveggja vikna kennslu í 9. bekk. Hann telur of mikinn þrýsting frá foreldrum ráða því að í þennan hóp séu settir nemendur sem ekki hafa nægilega góðan grunn. Það eru 27 nemendur í hópnum. Reglan er að allir símar séu niðri í tösku á meðan kennt er, en nemendur mega hlusta á tónlist þegar þeir vinna sjálfstætt ef þeir trufla ekki aðra. Hann er að byrja að kenna algebru út frá hlutföllum. Hann gerir þetta listilega vel, allir eru með og læra. Umfjöllunarefnið er einfaldasta útlit. Hann dregur nemendur vel inn í umræðuna með vönduðum spurningum um styttingu og styttingarmöguleika. Krakkarnir eru áberandi glaðir hjá þessum kennara. Hér er allt hlaðið af reynslu, bæði stofan og kennarinn. Hann segir að töfraorðið í jöfnum sé að skoða, horfa og hugsa hvert svarið gæti verið. Hann tengir mjög vel við efni í grunnskólanum sem nemendur hafa lært áður. Þegar nemendurnir eru svo til allir búnir að ná þessu segir hann að svona sé nú algebran, ekki flókið fyrirbæri. Einn nemandi hafði verið með smá kjánalæti. Kennarinn sagði honum að hlusta aðeins betur og finna hvernig þetta fari inn í heilann. Hann spyr nemandann nokkurra spurninga sem strákur getur svarað. Strákurinn verður mjög ánægður og virkur það sem eftir er af tímanum. Nemendur fá handskrifað verkefnablað með æfingu í hlutföllum og jöfnum. Kennari gengur á milli, nemendur sitja einir en hjálpast svolítið að. Kennarinnn brýtur svo upp og er þá búinn að setja jöfnudæmi á aðra krítartöfluna, tekur upp nemendur og lætur þá vinna lausnina þar.

Bjargir á veggjum í CTA

Kennari í 10. bekk er að kenna lausnir jafna með tveimur breytum. Aðalatriðið segir hann vera að lesa dæmið og hafa í huga þau atriði sem fram koma á verkefnablaðinu. Á verkefnablaðinu sem hann lætur nemendur hafa eru lesdæmi um  jöfnuhneppi. Kennari hvetur nemendur til að lesa dæmið vel, finna mismunandi tvo hluti sem þeir eiga að leita eftir, láta x tákna annan og y hinn, skrá tvær jöfnur sem sýna samband stærðanna og velja lausnaraðferð. Kennarinn vinnur vel með snjalltöfluna sem hann er með og tekur góð dæmi. Krakkarnir eru mjög duglegir að vera með. Þeir giska aldrei heldur nota rök. Næst er farið í gegnum dæmi á blaðinu sem nemendur fengu. Nemendur eiga að vinna næstu tvö dæmi sjálfstætt, svörin eru fyrir aftan hvert dæmi, en nemendur þurfa að rökstyðja lausn sína. Allir sitja við einstaklingsborð en krakkarnir fara svolítið á milli til að hjálpast að. Þegar nemendur hafa glímt við verkefnið nokkra stund vill kennarinn fara að fá umræður um hvernig á að leysa dæmin. Næst eiga nemendur að svara spurningum úr námsbók og þá þurfa þeir að fara í símana til að skoða þær. Allir eru að vinna og engin spenna í stofunni. Kennslubækur skólans eru rafrænar inni á Google Classroom.

Ég fylgist með kennara í 11. bekk (e. college). Í upphafi tímans fer einn strákur að skrifa á töfluna, önnur stúlka þurrkar út og fer líka að skrifa á töfluna. Þau eru að skila heimavinnu sem gildir inn í einkunn. Nemendur þurfa að skila 15 heimaverkefnum af þessu tagi yfir önnina og þau gilda 50%. Það á að vera Quiz á föstudag. Tveir drengir fara út úr kennslustofunni því þeir eiga að búa til dæmi í Quiz. Kennarinn er að rifja upp línurit. Síðan útskýrir hann stuttlega jöfnu beinnar línu og línurit sem tengjast raunverulegum aðstæðum. Hann fer inn á netsíðu sem hann er með í tölvunni sem sýnir fjölgun í heiminum á hverri sekúndu. Hve margir fæðast á hverri sekúndu? Það eru 2,7 börn. Síðan lætur hann nemendur reikna hlutfall fjölmennustu landanna af mannfjölda heims og teikna það í skífurit. Nemendur eiga að klára verkefnið heima.

Nemendur fylla út  aðgangskort í byrjun tímans og skila til kennara

Ég fylgist með kennara í 11. bekk (e. academy). Krakkarnir byrja á að vinna aðgangskort (e. entrance card). Á þeim eru lítil verkefni sem nemendur vinna í byrjun tímans og skila til kennara þegar þeir eru búnir. Úrlausnir verkefnanna gilda inn í lokaeinkunn. Þarna eru nemendur að finna lausn á annars stigs jöfnu. Síðan fá þeir verkefni sem vinna á í tímanum að hluta. Þarna eru almenn brot með óþekktum stærðum, margföldun og deiling. Kennarinn byrjar á að þátta á krítartöflu og sýna hvernig hægt er að stytta brotin. Síðan kallar kennarinn verkefnið sem nemendur fengu fram á snjalltöflu. Hann segir krökkunum að þeir fái sama Quiz og hinir bekkirnir í vikulokin. Hann fyllir út verkefnið á töflunni, gerir villu, en einn nemandinn tekur strax eftir því og þá fylgja góðar umræður í kjölfarið. Á blaðinu eru þrepin sem nemendum er ráðlagt að vinna eftir. Hér vinna allir í hópum nema tveir vinna einir. Nemendur eiga svo að leysa næstu tvö dæmi sjálfir. Kennari gengur á milli og nemendur hjálpast að. Kennari fer að skrá lausnir hinna dæmanna inn á snjalltöfluna. Þetta er duglegur hópur og allir að vinna. Kennari keppist við að klára verkefnið, merkir, og flytur það svo inn í Google Classroom. Hann segir nemendum að þeir verði að skilja nógu vel þannig að þeir geti notað kunnáttuna seinna.

Ég tek eftir því að kennararnir nota margar kennsluaðferðir í sömu kennslustund. Þeir breyta um aðferðir nokkuð oft, en leiða kennsluna og umræðurnar áfram með því að búa til nokkurs konar tilgátuandrúmsloft með nemendum í anda Mason (Mason og Wilder, 2004). Þeir nota hvetjandi spurningar, nemendur læra með spurningum og ná fram námi með því að: segja frá – ræða – hlusta. Í leiðinni kemur tengingin við fyrra nám. Þrautalausnir eru líka mikið notaðar og þá hjálpast nemendur að. Kennararnir segja mér að samvinnunám hafi farið vaxandi undanfarin ár en það séu frekar yngri kennararnir sem nota það markvisst. Einnig eru kennarar að nota leiðsagnarnám því þeir tala mjög mikið við einstaka nemendur þegar þeir eru á gangi í bekknum og gefa þeim góða endurgjöf. Það virðist mikið um það að kennarar séu með heimatilbúin verkefni fyrir kennslustundina, ásamt heimanámi. Þó voru nokkrir að nota kennslubækurnar líka. Nemendur þurfa að skila heimavinnu í stærðfræði. Quiz er notað í báðum skólunum og líka rúmfræðiforrit, þó ekki GeoGebra.

Einkunnir eru ekki gefnar í bókstöfum eða einni tölu, heldur í hlutfalli, t.d. 72/100. Prófabanki fylgir námsbókunum og kennari sýndi mér hvernig hann gat valið þung eða létt dæmi í þessum flokki og búið til próf á nokkrum mínútum til útprentunar. Samræmd lokapróf eru send í skólana ásamt mörgum litlum prófum til að kanna stöðu nemenda.

Nokkur orð um félagslífið

Félagslífið í skólunum er öflugt, virkt nemendalýðræði og stefnan er að hver nemandi geti fundið sér þar eitthvert áhugamál við hæfi. Margir klúbbar þeirra eru þess eðlis að ELL nemendur geta tekið þátt í þeim, t.d. leiklistarklúbbar og klúbbar sem leggja áherslu á að kynna nemendur fyrir öðrum sem tala sama tungumál. Í WTCS skólanum eru 38 nemendaklúbbar og tímasetningar starfs þeirra eru ljósar strax í upphafi skólaárs. Sumir þeirra eru árstíðabundnir, til dæmis við ákveðnar íþróttir, aðrir byggjast á  samvinnu eins og árbókargerð, fréttaklúbbar og menningarklúbbar af mörgum gerðum (Western Technical-Commercial School, Program Book 2018– 2019). Í skólabók CTA skólans eru líka taldir upp 36 klúbbar en sagt að þeir séu jafnvel fleiri (Central Toronto Academy, Program Book 2018–2019). Sumir nemendur vildu halda því fram að það skipti máli hvaða kennari stjórnaði með þeim í klúbbnum, það hefði mikla þýðingu fyrir vinsældir hans.

Klúbbastarf

Skólarnir leggja áherslu á að vera í góðu samstarfi við foreldra. Samskipti við þá eru jákvæð og þeir alltaf boðnir velkomnir í skólana. Það eru ákveðnir foreldradagar í skólunum þar sem foreldrum gefst tækifæri til að koma með nemendum og ræða við kennara. Oft eru þeir hafðir á fimmtudegi og svo gefið frí í skólunum daginn eftir. Þá eru flestar búðir og fleiri þjónustustaðir einnig lokaðir og foreldrum gefið færi á að gera eitthvað með sínum börnum og nærsamfélagið tekur tillit til þess. Kennarar reyna að koma foreldrum í samband við aðra foreldra sem tala sama tungumál. Skólinn er með kynningu á skólastarfinu fyrir foreldra í ákveðnum árgöngum. Bréf og aðrar tilkynningar frá skólunum eru þýdd yfir á algengustu tungumálin. Á heimasíðu Skólaskrifstofu Torontó-héraðs er auglýst eftir sjálfboðaliðum úr hópi foreldra eða annarra í skólasamfélaginu til að aðstoða við ýmis verkefni í skólunum. Margir foreldrar koma inn í ýmis konar sjálfboðavinnu fyrir skólana, hjálpa til við að koma nemendum í starfsnám, vinna við kökubakstur og fleira þegar safnað er fyrir ákveðnum ferðum eða fyrir hjálparsamtök.

Dyrnar á kennslustofum í skólunum eru svo til alltaf opnar. Kennarinn ræður sjálfur hvernig hann meðhöndlar símanotkun og hvort hann leyfir nemendum að hafa nesti meðferðis í kennslustund. Í þessum skólum er, eins og áður hefur komið fram, öflugt klúbbastarf og þar kynnast kennararnir nemendum oft á tíðum á öðrum vettvangi. Áhersla er á hugulsemi gagnvart hverjum nemenda og samræður um námið. Ávextir og kex er í boði handa nemendum fyrir utan skrifstofuna í CTA skólanum. Mikil áhersla er lögð á kynningar á því námi sem er í boði á næsta skólastigi og upplýsingar um námsmöguleika víða að finna á veggjum.

Eftir þessa ferð mína í kanadískt skólakerfi verð ég að segja að margar spurningar vakna um skólakerfið hér hjá okkur á Íslandi. Væri ef til vill æskilegra að grunn- og framhaldsskólar væru undir sömu stjórn? Þurfum við ekki að auka valmöguleika nemenda í 9. og 10. bekk svo nemendur geti betur notið sín í skóla margbreytileikans? Væri ekki æskilegra að hafa meira klúbbastarf í unglingadeildum í stað þess að bjóða nemendum einungis upp á samveru í félagsmiðstöðvum?

Efni greinarinnar er að miklu leyti byggt á samræðum mínum við þá 10 stærðfræðikennara þessara tveggja skóla sem leyfðu mér að vera með sér í kennslustundum og frímínútum þennan febrúarmánuð 2019. Hafi þeir ásamt skólastjórum skólanna þökk fyrir frábærar móttökur. Einnig vil ég þakka Dagnýju Marinósdóttur og Guðbjörgu Pálsdóttur fyrir aðstoð og góðar ábendingar.

Heimildir

Central Toronto Academy, Program Book 2018–2019.

Mason, J. og Johnson-Wilder, S. (2004). Designing and using mathematical tasks (2. útgáfa). Milton Keynes: Open University.

Western Technical-Commercial School, Program Book 2018–2019.


Sigrún Lilja Jónasdóttir er stærðfræðikennari við Austurbæjarskóla þar sem hún hefur kennt í 33 ár. Meðfram kennslu sinni í Austurbæjarskóla hafði Sigrún Lilja lengi umsjón með samræmdum prófum í stærðfræði hjá Námsmatsstofnum sem þá var. Sigrún Lilja er ein af stofnendum Hollvinafélags Austurbæjarskóla sem meðal annars hefur komið upp skólamunastofu í risi skólans.


Sigrún Lilja Jónasdóttir. (2019, júní). Stærðfræðikennslan, námsefnið og kennsluaðferðirnar: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum. Skólaþræðir – Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Sótt á https://skolathraedir.is/2019/06/26/staerdfraedikennslan-namsefnid-og-kennsluadferdirnar-skoli-margbreytileikans-i-toronto-med-staerdfraedigleraugum/ 


 




Stærðfræðikennslan, kennararnir og vinnuaðstaða þeirra: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum

Í febrúar, fyrr á þessu ári heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada, Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu fjallaði hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku, sjá hér. Önnur greinin, sem hér birtist, fjallar um skólana, stærðfræðikennarana og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja, sem birt verður fljótlega, er um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira.

Sigrún Lilja Jónasdóttir

Þessi grein er byggð á samtölum mínum við stærðfræðikennara skólanna tveggja og heimsóknum mínum í kennslustundum hjá þeim. Hvaða skoðun hafa þeir á skólamálum og vinnuaðstöðu sinni? Greinar, sem hafðar voru til hliðsjónar, eru í heimildaskrá.

Í samræðum mínum við kennara skólanna segja þeir frá samvinnu og samstöðu milli skólayfirvalda, kennara og foreldra. Viðmiðið er að allar framfarir í skólanum eigi að stuðla að þvi að styrkja nemendur og námsaðstæður þeirra. Kennararnir segjast vera hafðir með í ráðum þegar gera á breytingar á skólakerfinu. Þeim finnst að mikil virðing sé borin fyrir kennurum, þeim séu sköpuð tækifæri og þeir studdir í starfi sínu eins og mögulegt er. Í skólaþróun er lögð áhersla á fá markmið í einu og stórstígar framfarir hafa orðið í lestri, ritun og stærðfræði undanfarin ár (Þorsteinn Hjartarson, 2015). Kennararnir segja að það sé ekki mikið fjármagn í kerfinu og meiri áhersla lögð á að hugsa um þarfir nemenda með því að setja stuðningsaðila inn í hópa, aðstoðarmenn með nemendum sem hafa mikla greiningu, búa til litla námshópa og fleira af því tagi, heldur en að endurnýja húsgögn eða búnað í skólunum.

Í Kanada er ekki eitt skólakerfi fyrir allt landið heldur falla skólarnir undir stjórn hvers héraðs fyrir sig, líka háskólastigið. Báðir skólarnir sem ég dvaldi í eru framhaldsskólar og hefja nemendur nám almennt árið sem þeir verða 14 ára og þeir byrja þá í 9. bekk. Þeir ljúka námi árið sem þeir verða 18 ára og þá eftir 12. bekk. Í lok 10. bekkjar þurfa nemendur að velja sér brautina sem þeir ætla að vera á. Margt er í boði í þessum skólum, bóklegt nám fyrir háskóla eða þá að nemendur stefna á nám í starfsmenntaskóla. Hluti nemenda fer í sérhæft nám (e. specialist high skills major) sjá nánar í fyrstu grein. Í lok 10. bekkjar taka nemendur nokkurs konar samræmt próf sem þeir þurfa að standast til að geta farið, t.d. á bóklega braut í stærðfræði. Nemendur fá þó tækifæri til að taka prófið aftur í lok 11. bekkjar. Ég heyrði á sumum stærðfræðikennurunum að þeir voru óhressir með það að árið 2000 var skólinn styttur og 13. bekkur lagður af. Þeim fannst nemendurnir of ungir 18 ára til að fara í háskólanám. Á skólaárinu eru tvær annir frá 1. september til 31. janúar og 1. febrúar til 30. júní. Próf eru haldin í janúar og júní. Gefin eru vetrarleyfi, eina viku í mars, hefðbundið jóla- og páskaleyfi ásamt einstaka lengri helgarfríum með leyfi á föstudegi og mánudegi (Western Technical-Commercial School, Program Book 2018 – 2019).

Til að útskrifast úr framhaldsskóla þurfa nemendur að ljúka 30 áföngum. Þar af þurfa að vera að lágmarki þrír stærðfræðiáfangar. Ef nemandi stefnir á bóklegt nám tengt raungreinum tekur hann fjóra til fimm áfanga. Kennslustundir í skólunum eru 75 mínútur og það eru fimm mínútur á milli tíma. Kennari í fullu starfi þarf að kenna þrjár kennslustundir alla virka daga til að uppfylla kennsluskyldu sína.

Dæmigerð kennslustofa í WTCS með tilheyrandi gögnum

Það eru a.m.k. sjö mismunandi námsáfangar í stærðfræði í boði í WTCS skólanum. Kennararnir segja að mikil áhersla sé lögð á að nemendum og kennurum líði vel í skólanum. Komnar eru snjalltöflur í einstaka stofur en kennarar nota gömlu krítartöflurnar með. Margir kennaranna nota lesvarpa sem er ódýrari lausn en að kaupa snjalltöflu. Þeir nota hann þannig að þeir eru til dæmis að leysa skriflegt verkefni með nemendum og sitja þá jafnvel í sínu sæti, varpinn sýnir blaðið og lausnirnar uppi á töflu. Yfirleitt er hver kennari með sína eigin stofu og nemendur fara á milli.

Hér er lesvarpinn, armurinn tekinn upp og kennarinn skrifar á verkefnablaðið

Flestir kennararnir nota Google Classroom og setja verkefnin þar inn fyrir þá nemendur sem e.t.v. eru veikir heima og hina til að skoða betur. Borð og annar búnaður er frekar  gamaldags, en í CTA skólanum er verið að endurnýja húsgögn. WTCS skólabyggingin er líka gömul og þarfnast viðhalds. Í báðum skólunum eru nemendaverkefni uppi á veggjum ásamt ýmiss konar stærðfræðiupplýsingum. Kennarar segjast hafa gott aðgengi að fjölbreyttu efni til að nýta í starfi sínu. Skólayfirvöld í héraðinu gefa út námskrár og námsefni og auk þess ýmis konar gátlista, kannanir og próf. Kennarnir telja mikinn stuðning af þessu og þeir nota þetta efni eftir því sem hentar nemendahópum þeirra.

Stærðfræðikennarar allra skóla í fylkinu hittast á fundum tvisvar á ári. Þar miðla þeir upplýsingum sín á milli og deila verkefnum og reynslusögum af því sem vel gengur. Kennararnir telja þessa fundi mjög mikilvæga og að þeir þjappi þeim saman um kennslu greinarinnar.

Mikið af verkefnum á veggjum

Ég fylgdist með kennurum að starfi í báðum skólum og gef hér nokkur dæmi. Í WTCS skólanum fylgdist ég með reyndum kennara í sérkennslutíma (e. special needs). Í hópnum eru nemendur úr öllum árgöngum skólans, en flestir þó úr 9. og 10. bekk. Kennarinn segir mér að þeir mæti mjög illa og þetta úrræði sé sérsniðinn hjálparbekkur. Kennari byrjar á að sýna pappírsstrimil, býr til hring og mælir ummál. Síðan opnar hann hringinn og límir öfugt saman þannig að snúningur myndast, þ.e. Möbíusar-band. Hann klippir bandið í miðju, tekur í sundur og þá hefur ummál hringsins tvöfaldast. Kennarinn sýnir líka hvað gerist ef hann klippir bandið út frá einum þriðja af breiddinni en þá myndast upphaflegi hringurinn og einn tvöfaldur hringur líka. Nemendur fá að prófa verkefnið og hafa gaman af. Fimm nemendur mæta í tímann ásamt einum aðstoðarmanni. Kennarinn lætur síðan nemendur alla hafa mismunandi verkefni, þrír eru að vinna með peninga, einn er að æfa sig í að telja og einn er að vinna við margföldun og deilingu brota. Kennarinn segir að þessi síðastnefndi nemandi ætti í raun ekki að vera í hópnum en vegna þess hve litla skólagöngu hann hefur fengið sé hann í vanda þó hann eigi ekki við námsörðugleika að stríða. Kennarinn telur að nemandinn hafi ekki fengið rétta greiningu á Skólaskrifstofu Torontó-héraðs þegar hann kom til landsins. Mikil einstaklingshjálp er í boði fyrir nemendur. Kennarinn segir að skólaskrifstofan vilji að allir þessir nemendur séu í venjulegum blönduðum  bekkjum, en skólinn hafi ennþá komist upp með að hafa þá í sérstökum bekk. Kennarinn tilkynnir nemendum að skólinn bjóði upp á tvo stuðningstíma í stærðfræði á mánudögum og miðvikudögum. Foreldrar þurfi að kvitta ef nemendur ætli að nýta sér þetta tilboð. Aðstoðarfólk er sett inn í þá bekki þar sem nemendur eru illa staddir og jafnvel er ein manneskja með einum nemanda, sem er þá að glíma við mikinn námsvanda. Þó er algengast að stuðningsfulltrúi sé allan daginn í bekkjardeildum þar sem margir nemendur glíma við samskiptavanda eða námsörðugleika. Í öðrum bekkjum þar sem námsáhugi er meiri eru oftast fleiri nemendur, jafnvel allt að 30 í bekk. Í báðum skólunum voru fámennir nemendahópar þar sem staða nemenda í stærðfræði var slæm.

Í WTCS  skólanum fylgist ég með kennslustund hjá mjög sterkum hópi nemenda í 10. bekk. Í hópnum eru nemendur sem komu mjög vel út í einhvers konar greindarprófi. Þeim, sem eru í hópi þeirra hæstu (2%) á prófinu, stendur til boða að fara í nokkurs konar hraðferð í stærðfræði. Kennarinn segir þó að það sé ekki endilega þannig að allir þessir nemendur séu sérstaklega sterkir í stærðfræði. Þarna eru allir með sama námsefnið og unnið er með jöfnur með tveimur breytum. Ég hlustaði á sérstaklega skemmtilegar umræður um efnið og námsáhugi var greinilega mikill.

Ég sat í kennslustundum hjá sjö stærðfræðikennurum í þessum skóla og fylgdist með sumum þeirra heilan skóladag og stundum lengur. Það vakti sérstaklega athygli mína hvað þeir voru áhugasamir um sitt starf og samheldnin mikil. Í skólanum höfðu þeir sérstaka vinnuaðstöðu fyrir sig saman. Þar voru líka geymdar námsbækur, grafískar reiknivélar á kerru og fleiri hjálpargögn sem þeir gátu tekið með sér út í stofurnar.

Í CTA skólanum sat ég í tímum hjá þremur stærðfræðikennurum, tveir þeirra voru með mjög mikla reynslu, en einn var nýlega byrjaður að kenna stærðfræði. Skólinn gefur sig út fyrir að bjóða upp á 21. aldar nám og kennslu (e. 21st century learning).  Þarna eru allar námsbækur rafrænar, allir kennarar nota Google Classroom og mjög margir eru komnir með snjalltöflur, þó ekki allir, sumir vilja þær ekki. Þessi skóli tekur marga kennaranema í vettvangsnám (Central Toronto Academy, Program Book 2018 – 2019).

Lifandi blóm í glugga kennslustofu

Í stærðfræðinni er í hverjum árgangi einn bekkur sem er almennt fyrir nemendur með stærðfræðiörðugleika. Þarna eru bæði ELL nemendur og aðrir sem eiga í erfiðleikum í stærðfræði. Svo er líka námsleið sem þeir kalla nám í grunnþáttum (e. general learning skills) og er þar veitt aðstoð ef nemendur eru illa staddir. Síðan eru a.m.k. sex mismunandi stærðfræðiáfangar í boði eftir því á hvaða námsbraut nemendur eru. Í skólanum er sérstök aðstaða fyrir þá sem standa mjög illa. Námsumhverfið þar er aðlaðandi, mikið af blómum og bjargir uppi um alla veggi og einstaklingshjálp mikil. Krakkarnir fá líka að vera inni í stofunni í hádegishléi ef þeir vilja. Í hópnum eru núna  sex nemendur.

Stærðfræðikennararnir eru viljugir að aðstoða nemendur við heimanámið. Kínversku og víetnömsku nemendurnir eru sérstaklega duglegir við að nýta sér þessa hjálp, en þessi hópur þykir áhugasamur um námið ‒ kominn í skólann til að læra. Þessir nemendur leita mikið til elsta stærðfræðikennara skólans. Hann hefur kennt í 40 ár og nemendur hans hafa náð góðum námsárangri í stærðfræði. Hann leggur áherslu á að vera til staðar og styðja nemendur en hefur ekki trú á að tækninýjungar eins og snjalltöflur séu til bóta. Hann hefur gott orðspor og var áhugavert að fylgjast með kennslu hans og samskiptum við nemendur.

Mér fannst áberandi hvað kennararnir voru sterkir raungreinamenn. Þeir unnu vel saman og greinilegt að þeir lögðu mikla áherslu á framfarir nemenda og náðu árangri. Hver einasti kennslutími var nýttur eins vel og hægt er. Kennslustundir eru oftast 75 mínútur og kennararnir brjóta þær reglulega upp. Þeim tókst vel að ná til nemenda og höfðu þá mikið með í umræðunni um námið. Góður andi milli kennara og nemenda var það sem vakti mesta athygli mína og nemendurnir bera greinilega virðingu fyrir kennurum sínum. Vinnuaðstæður voru mismunandi en það var eins og kennurunum væri nokkuð sama þó borðin í stofunum væru léleg og að þeir þyrftu jafnvel að hafa pappír á rúðunum svo hægt væri að sjá á snjalltöfluna. Vinnuaðstaða kennarana var ekki góð en áberandi var að það var lögð áhersla á að þeir nýttu nýja tækni og fjármunir höfðu verið settir í tæknina sjálfa og ýmis námsgögn því tengd. Tíminn mun leiða í ljós hvert notagildi hennar verður til framtíðar. Mun hún skila betri árangri hjá nemendum og létta kennurum starfið?

Í næstu grein mun ég fjalla um námsefnið, kennsluaðferðir og fleira.

Heimildir

Borgarholtsskóli. (2010). Ferð starfsfólks til Torontó. Sótt af https://www.bhs.is/skolinn/frettir/nr/1551

Central Toronto Academy, Program Book 2018 – 2019.

Western Technical-Commercial School, Program Book 2018 – 2019.

Þorsteinn Hjartarson. (2015). Tölum vel um kennarana og náum betri árangri í skólastarfi. Sótt af https://www.arborg.is/tolum-vel-um-kennara-og-naum-betri-arangri-i-skolastarfi/


Sigrún Lilja Jónasdóttir er stærðfræðikennari við Austurbæjarskóla þar sem hún hefur kennt í 33 ár. Meðfram kennslu sinni í Austurbæjarskóla hafði Sigrún Lilja lengi umsjón með samræmdum prófum í stærðfræði hjá Námsmatsstofnum sem þá var. Sigrún Lilja er ein af stofnendum Hollvinafélags Austurbæjarskóla sem meðal annars hefur komið upp skólamunastofu í risi skólans.


 

 




Horft á móttöku nemenda með annað móðurmál en ensku eða frönsku: Skóli margbreytileikans í Torontó með stærðfræðigleraugum

Í febrúar síðastliðinn heimsótti Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari við Austurbæjarskóla, tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada; Western Technical-Commercial School (WTCS) og Central Toronto Academy School (CTA). Í þremur greinum sem Sigrún Lilja hefur skrifað fyrir Skólaþræði, segir hún frá heimsókn sinni. Í þeirri fyrstu, sem hér birtist, fjallar hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku. Önnur greinin, sem birt verður fljótlega, fjallar um skólana, stærðfræðikennara og vinnuaðstöðu þeirra og sú þriðja um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira.

Sigrún Lilja Jónasdóttir

 

Skólaskrifstofa Torontó-héraðs (e.The Toronto Distric School Board, TDSB) er stærsta skólaskrifstofan í Kanada og ein sú stærsta í Norður Ameríku með rúmlega 450 grunnskóla (e. elementary schools eða primary schools), meira en 100 framhaldsskóla (e. secondary schools eða high schools) og fimm fullorðinsskóla (e. learning for life). Í viðtölum við skólastjórann, Anthony Vandyke, í Western Technical-Commercial School.kemur fram að stór hópur nemenda er með ensku sem viðbótartungumál.

Í stefnu frá ráðuneyti fræðslumála í Ontario um menntun má sjá að lögð er áhersla á menntun fyrir alla nemendur. Koma skal til móts við þarfir þeirra, þeim hjálpað eins og kostur er og þeir hvattir til að stunda lærdóminn af kappi. Þá er menningu og bakgrunni foreldra sýnd virðing og þeir boðnir velkomnir í skólana. Allir meðlimir skólasamfélagsins skulu vera öruggir, virða skal fjölbreytileikann, sýna öðrum virðingu og helga sig því að búa til réttlátt og umhyggjusamt þjóðfélag (Ontario Ministry of Education, 2009).

Í Kanada er mikill fjöldi innflytjenda og margir þeirra hafa annað móðurmál en ensku eða frönsku. Í enskumælandi hluta Kanada er talað um ELL nemendur, þ.e. english language learners, því svo margir nemendanna eru með mörg tungumál fyrir og þeim þykir ekki rétt að tala um ensku sem annað tungumál þeirra. Bekkirnir þar sem einungis er verið að kenna ensku og veita stuðning við tungumálið eru þó kallaðir ESL (e. english as a second language) bekkir. Það er Skólaskrifstofa Torontó-héraðs (TDSB) sem tekur á móti nýjum nemendum sem koma til héraðsins erlendis frá og þar fara þeir í nokkurs konar greiningu á stöðu sinni. Greiningarprófin fara einungis fram á skólaskrifstofunni, en mappa með verkefnum nemandans fylgir til þess skóla sem hann fer í. Skólaskrifstofan hefur síðan samband við skólana ef nemandinn býr í nágrenninu og hentugt úrræði fyrir viðkomandi er fundið. Hér á eftir mun ég segja frá því hvernig þessir tveir skólar sem ég dvaldi í taka á móti erlendum nemendum sem hafa annað móðurmál en ensku. Ég tók viðtöl við skólastjóra skólanna tveggja, fékk tækifæri til að vera með í mörgum kennslustundum og átti óformleg viðtöl og samræður við starfsfólk skólanna.

WTCS í Torontó

Western Technical-Commercial Schoolsecondary school er með um 1200 nemendur. Þetta er framhaldsskóli þar sem nemendur eru í 9.–12. bekk. Þar af eru 400 með ensku sem viðbótartungumál. Það eru sex nemendahópar á vorönn með ELL nemendur. Hér er átt við litla hópa nýkominna nemenda með litla enskukunnáttu sem skipt er eftir námsgreinum. Nemendur eru hafðir sér í stærðfræði, náttúrufræði og fleiri greinum en eru í list- og verkgreinum með öðrum nemendum. Það eru einungis tveir til sex nemendur í hverjum svona hópi, en þeir eru síðan settir inn í fjölmennari hóp eins fljótt og hægt er. Þarna er lögð áhersla á að kenna enskuna í vinnu með faggreinar. Þessir nemendur eru svo líka saman í ESL hópum til að fá stuðning við tungumálið og æfa enskuna. Í byrjun vorannar 2019 eru um það bil 16 ELL nemendur í skólanum. Þarna eru á ferðinni nemendur sem enn kunna sáralitla ensku. Stærð nemendahópanna er mismunandi til að mæta þörfum ELL nemenda við innritun. Þegar ráðgjafar búa til stundatöflu fyrir erlenda nemendur, sem læra ensku á haust- og vorönn, eru þeir settir inn í ESL bekki eftir því sem hentar miðað við enskukunnáttu þeirra. ELL nemendur eru líka skráðir í áfanga um margvísleg efni. Þeir fara ýmist í áfanga sem eru sérstaklega ætlaðir nemendum sem eru að læra ensku eða áfanga þar sem þeir taka þátt með innfæddum enskumælandi nemendum. Með þessum fjölbreyttu áföngum í bóklegu námi og list- og verkgreinum er vel haldið utan um umrædda ELL nemendur bæði faglega og félagslega.

Hér á eftir er dæmi um kennslustund í ELL bekk í stærðfræði. Þótt bekkurinn tilheyri 10. bekk þá eru nemendur í honum á mismunandi aldri. Kennarinn er ungur en þó með mikla reynslu í að kenna ELL nemendum stærðfræði. Tíminn hefst á því að í gegnum innanhúskerfi skólans koma nokkrar tilkynningar og svo standa allir upp til að syngja saman. Þema mánaðarins er saga fólks af afrískum uppruna og tengist lagið því þema. Mættir eru þrír nemendur af sex, tvær stúlkur frá Sómalíu og drengur frá Eþíópíu sem hefur annað móðurmál en stúlkurnar. Þegar tíminn er meira en hálfnaður koma tveir spænskumælandi drengir inn. Nemendur tala litla sem enga ensku en kennarinn notar greinilega stærðfræðina til að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á tungumálinu. Hann hefur verið að kenna þeim á peninga og heldur því áfram í þessari kennslustund. Kennarinn reynir að ná nemendunum með um leið og hann útbýr verkefni á töfluna. Á veggjum kennslustofunnar eru miðar sem gefa til kynna að nemendur kunni litla ensku. Heiti daga og mánaða, helstu veðurlýsingar og margt fleira er sett upp bæði á ensku og á myndrænan hátt. Þegar kennarinn er búinn að vinna töluvert með námundun með peningum og láta nemendur finna út hve miklir peningar eru á myndum og fleira leggur hann lítið prófverkefni um peninga fyrir þá. Í prófinu eru myndir af peningum og eiga nemendur að námunda upphæðina að heilum dollurum og svo framvegis. Þetta er verkefni sem kennarinn útbýr sjálfur fyrir nemendur og hann er greinilega búinn að útbúa mörg góð verkefni af þessu tagi sem hann hefur líka látið aðra kennara fá.

Í kennslustund í sama bekk nokkrum dögum seinna eru sömu þrír nemendurnir frá Afríku mættir í upphafi tímans. Nú þekkja þeir mig og eru meira tilbúnir til að reyna að spjalla. Það kemur í ljós að foreldrar stelpnanna frá Sómalíu eru ekki með þeim í Kanada. Önnur kom fyrir ári og byrjaði hún þá í öðrum skóla. Hin byrjaði fyrir sex mánuðum og eru þrjú systkini hennar líka í Torontó. Báðar búa þær hjá frændfólki sínu. Strákurinn frá Eþíópíu talar aðeins meiri ensku, segist hafa lært hana svolítið í skólanum heima. Móðir hans dó þegar hann var kornabarn og hann er alinn upp hjá föðurforeldrum í Eþíópíu. Pabbi hans hefur verið í Kanada í 15 ár og tók hann til sín fyrir þremur mánuðum. Hann saknar heimalandsins. Stuttu eftir að kennslustundin hefst mætir strákur sem hefur náð þokkalegum tökum á ensku, þ.e. götumálinu, en vill ekkert læra. Það sama má segja um stúlku sem einnig bætist í hópinn, hún vill ekkert læra. Þessir tveir nemendur búa víst í einhvers konar kommúnu með ættingjum sínum. Kennarinn er enn að kenna nemendum að námunda og versla í búðum. Hann segir þeim hvar ódýrast sé að kaupa inn, lætur þá velja hvað á að kaupa og nemendur leggja svo saman í huganum. Kennarinn togar nemendur eins mikið inn í umræðuna og hann getur. Hann æfir þá einnig í að gefa til baka og lætur þá þjálfa hugarreikning með vinnu í búð í huga. Kennarinn þjálfar bara samlagningu og frádrátt því nemendur hafa enn ekki lært að margfalda. Hann fer yfir verkefni með nemendum, námundar að heilu hundraði eða þúsundi leggur svo saman og dregur frá. Kennarinn leggur fyrir mörg góð verkefni sem virðast henta nemendum. Hann nær að draga flesta inn í umræðuna. Hann notar mikið almenn orð eins og sækja, senda o.fl. Í lokin notar kennarinn símann og tekur mynd af verkefninu (notar App Cam Scanner) sem hann var að vinna með nemendum, fær skjöl og býr til pdf. Þetta sendir hann svo inn á Google Classroom þannig að allir nemendur sjái það og geti skoðað betur heima. Þessi bekkur er bara fyrir ELL nemendur en kallaður ELD (e. english language development) þá er búist við að staðan sé slæm. Nemendur gætu farið seinna í mismunandi stærðfræðiáfanga eins og MAT2LL, þá þýðir seinna ellið að þeir séu slakir í ensku, eða MAT2LI sem er hærri staðall og þau komin mun lengra með tungumálið. Áfangar sem enda á L eru ætlaðir fyrir ELL nemendur.

Auglýsingaskilti fyrir utan CTA

Central Toronto Academysecondary school er með um 700 nemendur. Þetta er líka framhaldsskóli fyrir 9.–12. bekk. Þar af eru rúmlega 150 með ensku sem viðbótartungumál. Hér er líka talað um ELL nemendur og ESL fyrir hópana sem eru fyrst og fremst að læra enskuna. Þeim er skipt í A-B-C-D-E bekki þar sem A er fyrir þá sem ekkert kunna í ensku. Margir koma frá Kína og Víetnam. Þetta eru nemendur sem fara til Kanada til að hljóta betri alhliða menntun. Sumir nemendur koma til landsins með foreldrum sínum en aðrir eru í nokkurs konar skólabúðum þar sem við stjórn er maður sem talar þeirra tungumál. Í skólanum er ELL nemendum blandað inn í nemendahópa í námsgreinum eins og mögulegt er. Í stærðfræðinni er bara einn bekkur í hverjum árgangi sem er almennt fyrir nemendur með stærðfræðiörðugleika. Þarna er blanda af ELL og öðrum nemendum sem eiga erfitt með stærðfræðina. Það eru þó nokkrir ESL hópar í skólanum þar sem nemendur læra ensku á mismunandi stigum. Skólastjórinn, Iwona Kurman, er mjög ánæg með að fá inn þessa nemendur frá Kína og Víetnam. Hún segir að þeir séu svo duglegir námsmenn. Kennarar segja þessa erlendu nemendur fljóta að ná enskunni í gegnum stærðfræðina og að stærðfræðihugtökin lærist fljótt ef þeir séu í námi með innfæddum.

Kennari hjálpar nemendum við heimanám

Hér á eftir er dæmi um kennslustund í ESL þar sem hópur nýkominna nemenda er að læra ensku. Um kennsluna sér ungur kennari með góða reynslu á þessu sviði. Í stofunni er hópborð og miklar enskubjargir út um allt. Má þar nefna: mynd af sól og orðið á ensku, tölustafirnir, dagatal, helstu sagnir. Námsumhverfið er vinalegt og kennarinn þolinmóður. Hann byrjar á að tala um hvaða dagur sé í dag og hvernig veðrið sé. Hann spjallar almennt við nemendur um þeirra daglega líf, hvað þeir hafi verið að gera í gær o.s.frv. Kennarinn notar lesvarpa til að varpa upp æfingu með því sem hann er að þjálfa í dag. Þarna er greinilega verið að bæta við orðaforða nemenda í ensku, notaðar eru stuttar setningar og svo fylgir verkefni með svipuðum orðum á eftir. Krakkarnir eru yfirleitt eina til tvær annir í umræddu ESL prógrammi og þá eingöngu í list- og verkgreinum að auki. Síðan fara þeir inn í stærðfræðina og byrja þeir þá oftast í áfanganum fyrir þá sem lítið geta, en þó ekki alltaf. Það tekur oftast eina til tvær annir fyrir nemendur að komast úr A og B bekkjunum í enskunáminu.

Ég varð vör við það í báðum skólunum að kennarar reyna að nýta sér ákveðið fyrirkomulag við kennslu nemenda sem eru með annað móðurmál. Í þessu fyrirkomulagi er unnið með fjóra lykla til fræðilegrar velgengni með ELL nemendur (e. four keys to academic success). Þessir lyklar byggjast á rannsókn Freeman og Freeman (2007) sem þeir gerðu í samvinnu við kennara í ensku sem viðbótartungumáli í kringum 2001. Lyklarnir heita eftir höfundum sínum og eru kallaðir Freeman og Freemans lyklar.

Fyrsti lykillinn felst í að fá nemendur með í námið. Notað er námsefni sem grundvallað er á fræðilegum hugtökum úr mismunandi námsgreinum sem hægt er að tengja við orðaforða og endurtaka eðlilega við ýmsar aðstæður. Efnið er skipulagt í kringum hugtök sem gefa nemendum tækifæri til að flytja til þekkingu og skilning sem þeir hafa í farteskinu. Þannig yfirfæra þeir fyrri þekkingu sína á annað tungumál.

Annar lykillinn hvetur kennara til að nota bakgrunn nemanda, þar með reynslu þeirra, menningu og tungumál. Kennarar eiga þá markvisst að fá nemendur til að nýta bakgrunn sinn og tengja síðan við enskuna. Kennurunum er ætlað að leggja áherslu á að gera hlutina skiljanlegri fyrir ELL nemendur með því að tengja viðbótarhugtök og hugmyndir við reynsluheim þeirra.

Þriðji lykillinn hvetur kennara til að skipuleggja samvinnu nemenda og reyna að byggja undir og efla enskan orðaforða í námsgreinunum. Heppilegt er að kennarar komi á góðum umræðum, vitrænu spjalli við nemendur og bæti við stuðningi til að vera vissir um að það sem sagt er sé skiljanlegt. Gott er að nota hjálpartæki s.s. myndir, leikræna tjáningu o.fl.

Fjórði lykillinn hvetur kennara til að styðja nemendur í að byggja upp sjálfstraust sitt. Mikilvægt er að ELL nemendur líti á sig sem hverja aðra námsmenn og að kennarar læri að þekkja hæfileika sérhvers nemanda og viðurkenna menningu og persónuleg sérkenni þeirra. Kennarinn þarf að byggja upp aðstæður og námsrými þar sem nemendur leggja sig fram um að læra (Freeman og Freeman, 2007).

Í báðum skólunum er boðið upp á sérhæft nám (e. specialist high skills major). Þessi sérhæfing er í 11. og 12. bekk. Þá geta nemendur sérhæft sig í ýmsum greinum s.s. matreiðslu, tækni, listum o.fl. Nemendur velja sér viðfangsefni sem henta getu þeirra og áhugasviði. Nemendur fá síðan útskriftarskjal frá skólunum um að þeir hafi sérhæfingu (e. Ontario Secondary School Diploma) í tilteknu fagi. Þetta er kallað OSSD útskrift. Nemendur þurfa að ljúka átta til tíu áföngum í fagi til að útskrifast. Þeir hafa þá tekið áfanga eins og skyndihjálp  o.fl. sem tengist atvinnulífi og hafa með fjölmenningarlegri kennslu öðlast mikilvægan skilning á vinnu á sviði sérhæfingar sinnar. Í þessu námi felst starfsnám hjá fyrirtækum og er gott samstarf við fyrirtæki og stofnanir í nærumhverfinu. Erfitt er fyrir ungmenni að fá vinnu ef þau hafa ekki a.m.k. lokið slíkri sérhæfingu.

Í skólunum er áberandi hvað skólastjórarnir eru mikið á ferðinni um skólann. Þeir koma inn í stofur, eru á göngunum og fylgjast vel með starfseminni frá degi til dags. Þeir eru jákvæðir og hrósa bæði nemendum og kennurum. Mjög er vandað til þess efnis sem fer inn á hátalarakerfin í skólunum. Þau er notuð til að þjappa saman hópnum, skapa skemmtilegan skólabrag og vera upplýsandi og fræðandi. Saga skólanna er sýnileg á veggjum þeirra, því þar má finna útskriftarmyndir nemenda, myndir af gömlum kennurum og stjórnendum. Sagan á staðnum er sýnd í bland við nýleg verkefni nemenda.

Mikil áhersla er lögð á fjölmenningarlega menntun og skóla margbreytileikans í báðum skólunum. Kennarar fá fræðslu um hvernig hentugt sé að vinna með nemendur með annað móðurmál en ensku og byggja á hugmyndafræðinni sem fram kemur í lyklunum fjórum (Gagné og Gordon, 2014). Reynt er eftir bestu getu að láta alla nemendur njóta sín og líða vel. Kennarar eru til staðar fyrir nemendur í kennslustofum sínum eftir kennslu eða í hádegi eftir samkomulagi. Á heildina litið virðast skólar í Kanada taka vel á móti nemendum af erlendum uppruna og reyna eins fljótt og hægt er að koma þeim inn í þjóðfélagið á allan hátt. Í 2. grein mun verða horft meira á stærðfræðikennarana og vinnuaðstöðu þeirra.

Á ganginum við skrifstofuna í CTA

 

Heimildir

Gagné, A. og Gordon S.S. (2014). Social justice for English language learners at Parkdown Secondary School in Toronto. Í Hanna Ragnarsdóttir og Clea Schmidt (ritstjórar). Learning spaces for social justice: International perspectives on exemplary practices from preschool to secondary school. London: A Trentham book. IOE Press. Learning Spaces for social justice.

Freeman, D. and Freeman, Y. (2007). English language learners: The essential guide. New York: Scholastic.

Ontario Ministry of Education (2009). Equity and inclusive education in Ontario schools guidelines for policy development and implementation. Toronto.

 


Sigrún Lilja Jónasdóttir er stærðfræðikennari við Austurbæjarskóla þar sem hún hefur kennt í 33 ár. Meðfram kennslu sinni í Austurbæjarskóla hafði Sigrún Lilja lengi umsjón með samræmdum prófum í stærðfræði hjá Námsmatsstofnum sem þá var. Sigrún Lilja er ein af stofnendum Hollvinafélags Austurbæjarskóla sem meðal annars hefur komið upp skólamunastofu í risi skólans.