1

Trúarbragðafræði: Tækifæri, áherslur og áskoranir

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Gunnar Jóhannes Gunnarsson

 

Í kjölfar grunnskólalaganna 2008 hófst vinna við gerð nýrrar aðalnámskrár. Árið 2013 var gefin út ný námskrá fyrir greinasvið grunnskólans og fylgdi hún í kjölfar almenna hluta aðalnámskrárinnar sem kom út tveim árum fyrr. Í námskránni var lögð áhersla á að námsgreinar grunnskólans mynduðu stærri heildir en áður og því var fleiri greinum en áður steypt saman í greinasvið. Þar á meðal er námskrá í samfélagsgreinum. Sú námskrá felur í sér verulegar breytingar á stöðu trúarbragðafræðslu í grunnskólum þar sem hún er nú ekki lengur með eigin námskrá heldur er hún hluti samfélagsgreinasviðs. Þegar námskráin er skoðuð kemur í ljós að samfélagsgreinasviðið er orðið mjög umfangsmikið en það samanstendur af landafræði, sögu, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni, jafnréttismálum, heimspeki og siðfræði (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013, bls. 194–207). Þetta víðfeðma svið fær síðan einungis 11,46% af heildarstundafjölda grunnskólans samkvæmt viðmiðunarstundaskrá (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, 2011, bls. 49). Því er eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort sá tími nægi til að sinna öllum viðfangsefnum þessara greina og hvort sú hætta sé ekki fyrir hendi að mikilvæg viðfangsefni eða jafnvel heilu greinarnar verði útundan þegar á reynir í knöppum tímafjölda. Þar gætu greinar eins og lífsleikni og trúarbragðafræði staðið veikt.

Aldís Ingvadóttir (2010) hefur bent á að ummæli nokkurra þátttakenda í rannsókn hennar á lífsleiknikennslu, sem gerð var 2008, geti bent til að ekki sé allt sem skyldi, „kennslan í skötulíki“ eða „lífsleiknitímarnir oft hálfgerðar ruslakistur“. Ekki er til sambærileg nýleg rannsókn á kristinfræði- eða trúarbragðafræðikennslu í grunnskólum, en gamlar kannanir benda til að þegar kennarar lentu í tímaþröng með viðfangsefni annarra námsgreina virtist töluvert um að kristinfræðitímarnir væru notaðir í aðrar námsgreinar. Hér má líka til gamans benda á að Ingvar Sigurgeirsson (1988) komst að því á 9. áratug sl. aldar í tengslum við rannsókn á viðhorfum kennara til nýs námsefnis, að í sumum skólum væru kristin fræði varla á dagskrá. En hér er um að ræða gamlar rannsóknir og því þörf á nýjum rannsóknum og í raun tímabært að rannsaka hvernig samfélagsgreinar hafa þróast í grunnskólum í kjölfar námskrárinnar 2013 og hvernig kennurum gengur að sinna fjölmörgum viðfangsefnum þessara greina.

Hvað sem um það má segja er ljóst að sameining allra greina samfélagsgreinasviðsins í eina námskrá felur í sér áskoranir og tækifæri til að flétta saman margvísleg viðfangsefni þessara greina. Í þeim efnum bjóðast ýmsir möguleikar en um leið er ljóst að það er ekki sama hvernig það er gert. Forsendur kennara eru ólíkar og menntun þeirra og sérhæfing margvísleg. Það hefur áhrif á hvernig þeir nálgast viðfangsefnið. Stefnumörkun einstakra skóla sem birtist meðal annars í skólanámskrám hefur jafnframt áhrif á stöðu trúarbragðafræðslunnar og framkvæmd hennar í einstökum skólum sem hluta samfélagsgreina.

Hér verður athyglinni beint sérstaklega að trúarbragðafræðiþætti núgildandi námskrár í samfélagsgreinum. Leitað verður svara við spurningunum hvaða áskoranir og tækifæri felast í því að trúarbragðafræðin er nú orðin hluti af námskrá í samfélagsgreinum. Hugað verður að fræðilegri umræðu í nágrannalöndum og rökum fyrir hlutverki þessarar greinar og mikilvægi vandaðrar trúarbragðakennslu á tímum fjölmenningar og margbreytileika.

Aðalnámskrá samfélagsgreina 2013

Með aðalnámskrá 2011 og 2013 verður trúarbragðafræðslan hluti svokallaðra samfélagsgreina (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013, bls. 194–207). Það felur meðal annars í sér að hlutverki trúarbragðafræðslunnar er fyrst og fremst lýst í samhengi þeirra námsgreina sem falla þar undir. Samfélagsgreinum er lýst sem greinum sem fjalla um samfélög og menningu á upplýsandi og gagnrýninn hátt. Þær eigi sér grundvöll í þeirri skyldu hvers samfélags að fræða nemendur um gildi eins og jafnrétti, lýðræði, umhyggju og virðingu og þýðingu þessara gilda fyrir farsælt líf. Í almennri lýsingu á markmiðum samfélagsgreina er lögð áhersla á að þær stuðli að skilningi nemenda á mörgum þeim hugmyndum og hugsjónum sem liggja til grundvallar viðhorfum okkar til umhverfis, auðlinda, menningar og sögu. Þeim sé ætlað að gera nemendum kleift að nálgast samfélagsleg og siðferðileg álitamál með hjálp samræðunnar og láta afstöðu sína mótast af rökum. Jafnframt að nemendur tileinki sér réttsýni, gildismat og ábyrgð, sem meðal annars byggi á hæfni til þess að setja sig í spor annarra og hæfni til þess að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna fyrir eigin hag, umhverfið og þjóðfélagið í heild. Megináherslurnar beinast því að ýmsum þáttum þeirra námsgreina sem mynda samfélagsgreinasviðið og tengjast bæði menningu, sögu, samfélagi, umhverfi og auðlindum, ásamt siðferðislegum álitamálum og gildum. Um þátt trúarbragðafræðinnar er sagt að henni sé ætlað að auka skilning á ríkjandi trúarbrögðum og ólíkum trúarhefðum með umburðarlyndi og víðsýni að leiðarljósi (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið, 2013, bls. 194–196). Á tímum aukins margbreytileika og fjölbreytts bakgrunns nemenda eru þessar áherslur afar mikilvægar.

Hæfniviðmið samfélagsgreina lýsa síðan nánar að hverju er stefnt. Þau eru flokkuð í þrjá meginflokka, reynsluheim og hæfni nemenda til að skilja veruleikann, hugarheim og hæfni nemenda til að skilja sjálfa sig, og félagsheim og hæfni nemenda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra. Í fyrsta flokkunum um reynsluheiminn er meðal annars vikið að trú og trúarbrögðum og þætti þeirra í mannlífinu. Þannig eigi nemendur að geta ígrundað víxlverkun samfélags, stjórnmála, náttúru, trúar og lífsviðhorfa í tímans rás, í samhengi nærsamfélags og hnattvæðingar, þeir eigi að geta fengist við og greint viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og tengjast spurningum um merkingu og tilgang lífsins, og þeir eigi að geta útskýrt margbreytileika trúarbragða og lífsviðhorfa og greint áhrif þeirra á líf einstaklinga, hópa og samfélaga. Jafnframt er lögð áhersla læsi nemenda á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims og hæfni þeirra til að greina áhrif Biblíunnar og helgirita annarra helstu trúarbragða á menningu og samfélög. Loks er talað um hæfni nemenda til að geta rætt og borið saman ólík trúar- og lífsviðhorf og gert sér grein fyrir hvað er sameiginlegt og hvað sérstætt. Í þeim þætti markmiðanna sem snúa að hugarheimi og skilningi á sjálfum sér er meðal annars talað um að nemandi geti hugleitt og tjáð hver hann er í augum sjálfs sín og annarra og útskýrt hvernig sjálfsmynd hans mótast af umhverfi og búsetu, stjórnmálum og félagslegum aðstæðum, sögu og menningu, trúar- og lífsviðhorfum. Einnig er lögð áhersla á hæfnina til að rökstyðja gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats, sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund. Í þeim flokki markmiða sem snúa að félagsheimi er meðal annars talað um að nemendur geti útskýrt með dæmum margbreytileika mannlífsins og ólíkan bakgrunn fólks, borið virðingu fyrir frelsi fólks til mismunandi trúar, lífsgilda, skoðana og lífshátta, og jafnframt vegið og metið skoðanir og upplýsingar og brugðist við þeim á fordómalausan og réttsýnan hátt (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið, 2013, bls. 194–203).

Hér eru á ferðinni háleit markmið og ljóst að þeim verður ekki náð með trúarbragðakennslunni einni, heldur í samspili þeirra mörgu greina sem mynda samfélagsgreinasviðið. Það býður upp á samþættingu námsþátta úr ólíkum greinum, svo sem sögu, landafræði, trúarbragðafræði, lífsleikni og siðfræði. Auðvelt er að sjá fyrir sér samþættingu viðfangsefna þegar fjallað er um og unnið með tiltekin menningarsvæði og lönd þar sem trúarbrögð hafa haft áhrif á sögu, mótun menningar og samskipti einstaklinga og hópa. Sem dæmi má nefna Mið-Austurlönd og þá staðreynd að stóru eingyðistrúarbrögðin, gyðingdómur, kristni og islam eiga öll rætur sínar þar, en hafa síðan með margvíslegum hætti mótað sögu og menningu ólíkra landa víða um heim. Einnig má nefna lönd Asíu og áhrif hindúasiðar og búddisma á menningu margra þeirra.

Þegar námskráin frá 2013 er borin saman við eldri námskrár í kristinfræði og trúarbragðafræði má segja að áherslan hafi að  einhverju marki flust frá  inntakslegum skilningi (e. substantive definition) á trúarbrögðum, með áherslu á inntak og hefðir einstakra trúarbragða yfir í hlutverksskilning (e. functional definition) á trúarbrögðum, með áherslu á sögulegt, menningarlegt og samfélagslegt samhengi og hlutverk trúarbragðanna (sjá nánar McGuire, 1992, bls. 9–15 og Skeie, 1998, bls. 144–150). Áhersla er lögð á hæfni nemenda til að geta útskýrt margbreytileika trúarbragða og lífsviðhorfa, og geta greint áhrif þeirra á líf einstaklinga, hópa og samfélaga. Markmiðið er aukinn skilningur á margbreytileika mannlífsins og ólíkum bakgrunni fólks, og virðing fyrir frelsi fólks til mismunandi trúar, lífsgilda, skoðana og lífshátta. Þótt þessi atriði sé líka að finna í eldri námskrám í trúarbragðafræðslu er áherslan á þau ríkari í námskránni frá 2013, auk þess sem þau eru betur tengd viðfangsefnum sögu, landafræði, félagsfræði, lífsleikni og siðfræði. Þessar áherslubreytingar eru m.a. rökstuddar með vísan til samfélagsbreytinga síðustu ára með vaxandi margbreytileika og fjölhyggju.

Eftir sem áður er þó jafnframt lögð áhersla á inntaksþætti  trúarbragða, þ.e. læsi nemenda á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims, og hæfni þeirra til að greina áhrif Biblíunnar og helgirita annarra helstu trúarbragða á menningu og samfélög. Ýmsar hefðir, frásagnir og tákn trúarbragða birtast víða í kringum okkur, t.d. í bókmenntum, listum, kvikmyndum, arkitektúr og víðar. Því er ljóst að læsi á þessu sviði er mikilvægt og stuðlar að auknu menningarlæsi, þ.e. betri skilningi og aukinni færni í að njóta margs þess sem fyrir augu og eyru ber í samtímanum.

Tækifæri  og áskoranir

Nýja samfélagsgreinanámskráin býr yfir ýmsum möguleikum sem vert er að huga að og samspilið við aðrar greinar samfélagsgreinasviðisins felur í sér áhugaverðar áskoranir þegar unnið er með trúarbragðafræðslu á tímum trúarlegs margbreytileika. Í nágrannalöndunum hefur átt sér stað mikil umræða um stöðu og hlutverk trúarbragðafræðslu í fjölmenningarlegum samfélögum nútímans. Benda má á að Evrópuráðið hefur sent frá sér skýrslur og greinargerðir sem árétta mikilvægi trúarbragðafræðslu sem þátt í almennri menntun á tímum vaxandi menningarlegs og trúarlegs margbreytileika. Rauður þráður í þessum skýrslum er mikilvægi þess að vinna gegn staðalímyndum og misskilningi á trúarbrögðum, auka umburðarlyndi og efla þekkingu og skilning á ólíkum trúarbrögðum, bæði eigin og annarra, með markvissri fræðslu á öllum skólastigum. Jafnframt er bent á nauðsyn þess að mennta hæfa kennara á þessu sviði (sjá nánar Sigurður Pálsson, 2011, Gunnar J Gunnarsson, 2012, og Jackson, 2014). Sérstök ástæða er til að benda á skýrsluna Toledo Guiding Principles on Teaching About Religions and Beliefs in Public Schools, sem hefur að geyma ítarlegar leiðbeiningar um kennslu um trúarbrögð og lífsviðhorf í opinberum skólum (ODHIR, 2007, bls. 13–14). Meginniðurstöður skýrslunnar fela í sér ríka áherslu á gildi þekkingar á trúarbrögðum. Í henni er því haldið fram að sú þekking geti stuðlað að viðurkenningu á mikilvægi þess að virða rétt allra til að ástunda trúarbrögð sín eða lífsviðhorf. Hún geti aukið skilning á félagslegum margbreytileika, eflt félagslega samloðun og dregið úr ágreiningi og átökum sem stafa af skorti á skilningi á trú annarra. Jafnframt stuðli hún að betri skilningi á sögu, bókmenntum og listum, og efli menningarlega víðsýni. Árangursríkast er að trúarbragðafræðslan haldist í hendur við að innræta fólki virðingu fyrir réttindum annarra, jafnvel þótt ágreiningur ríki um trúarbrögð og lífsviðhorf. Trúfrelsi séu algild mannréttindi og það feli í sér skuldbindingu til að virða réttindi og jafngildi allra manna.

Ljóst er að ef grunnskólar taka bæði námskrána í samfélagsgreinum og niðurstöður Toledo-skýrslunnar alvarlega felur það í sér veigamikið verkefni. Það fer ekki á milli mála að rík áhersla er lögð á mikilvægi vandaðrar trúarbragðafræðslu í Toledo-skýrslunni. Á grundvelli ofangreindra niðurstaðna eru í henni settar fram leiðbeinandi meginreglur sem leggja línurnar um hvers beri sérstaklega að gæta þegar trúarbragðafræðsla í opinberum skólum er skipulögð (ODHIR, 2007, bls. 16–17). Þar er lögð áhersla á atriði eins og sanngirni, nákvæmni og fræðilega fagmennsku, virðingu fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi (e. fundamental freedoms) og borgaralegum gildum, trúfrelsi, gagnkvæma virðingu og skilning. Ábyrgð skólans á trúarbragðakennslunni er áréttuð um leið og bent er á að kennsluaðferðir megi hvorki grafa undan né líta framhjá hlutverki fjölskyldu og trúfélaga í að miðla gildum til komandi kynslóða. Við gerð námskrár, námsbóka og námsgagna um trúarbrögð og lífsviðhorf sé mikilvægt að taka tillit til bæði trúarlegra og trúlausra sjónarmiða af sanngirni og virðingu, um leið og miðað sé við viðurkennda staðla. Jafnframt er lögð áhersla á að kennarar hafi fullnægjandi menntun, bæði í trúarbragðafræðum og kennslufræði, til að annast þessa fræðslu og tryggja þurfi þeim tækifæri til frekari þjálfunar og þróunar á þekkingu sinni. Öll kennaramenntun eigi að mótast af grundvallarreglum lýðræðis og mannréttinda og fela í sér innsýn í menningarlegan og trúarlegan margbreytileika í samfélaginu. Námskrá og námsefni í trúarbragðafræði eigi að gefa gaum að bæði sögulegri og samtímaþróun trúarbragða og lífsviðhorfa og endurspegla bæði alþjóðleg og staðbundin málefni. Jafnframt beri að taka tillit til fjölbreytileikans í trúarlegri og veraldlegri tjáningu eins og hún birtist í skólanum og nærsamfélaginu.

Íslenskt samfélag var lengst af tiltölulega einsleitt og kristin trúararfleifð mótandi afl í menningu og samfélagi. Því er eðlilegt að kristni hafi skipað veigamikinn sess í trúarbragðafræðslunni hér á landi. Á síðustu árum hefur myndin hins vegar breyst og nú einkennist samfélagið æ meir af trúarlegri fjölhyggju og margbreytileika, bæði innan hinnar kristnu trúarhefðar og vegna vaxandi áhrifa annarra trúarbragða og lífsskoðana. Taka þarf tillit til þess í trúarbragðafræðslunni og gæta þess að eðlilegt jafnvægi ríki milli ríkjandi trúarbragða samfélagsins og annarra trúar- og lífsviðhorfa. Í takt við Toledo-skýrsluna hafa þeir sem skrifað hafa um trúarbragðafræðslu á tímum trúarlegs margbreytileika gjarnan lagt áherslu á mikilvægi þess að nemendur öðlist þekkingu og skilning á öðrum trúarhefðum og lífsviðhorfum en þeirra eigin, en um leið leggja þeir áherslu á að til þess þurfi þeir jafnframt að dýpka skilning sinn á eigin trúarhefðum. Þeir benda líka á að margbreytileiki sé einnig fólginn í hefðum einstakra trúarbragða og að skilningur á margbreytileikanum hjálpi nemendum að forðast staðalímyndir (Jackson og Fujiwara, 2008). Hér á landi er ekki óeðlilegt að lögð sé sérstök áhersla á kristni í trúarbragðafræðslu vegna áhrifa hennar í sögu og menningu landsins, en um leið þarf að tryggja vandaða fræðslu um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf. Nemendur í skólum landsins taka með sér inn í skólastofuna mismunandi reynslu, skilning og afstöðu sem mótast af bakgrunni þeirra. Þetta er sá veruleiki sem kennarar þurfa að vinna með í trúarbragðafræðslu skólans. Um leið er mikilvægt að með hann sé unnið í samspili við inntak og hefðir trúarbragðanna. Þannig vinnum við gegn staðalímyndum og fordómum.

Áherslur og nálganir

Þeir sem hafa skrifað hvað mest um áherslur og nálganir í trúarbragðafræðslu skólanna á síðustu einum til tveim áratugum hafa bent á mikilvægi þess að taka margbreytileikann alvarlega í kennslunni. Í því sambandi leggja margir áherslu á að nota samræðuna sem kennsluaðferð. Sem dæmi má nefna rannsóknir og skrif Heid Leganger-Krogstad (2003; 2011) í Noregi, Julia Ipgrave (2003) í Englandi og Wolfram Weisse (2003) í Þýskalandi, sem öll árétta mikilvægi þess að nemendur kynni sér trúarbrögðin í sínu menningarlega samhengi um leið og þau leggja áherslu á virka þátttöku og áhrif nemenda í náminu þannig að persónuleg þekking þeirra og reynsla verði ásamt námsefninu í trúarbragðafræðslunni uppspretta náms, skoðanaskipta og ígrundunar.

Svipaðar áherslur má sjá í sjónarmiðum Roberts Jackson (1997; 2004; 2008) og Andrews Wright (1996; 2004; 2008). Þeir leggja báðir áherslu á að viðurkenna margbreytileikann og að trúarbragðafræðslan eigi að vera aðgengileg fyrir alla, óháð trúar- eða lífsskoðunum, að þátttaka nemenda sé mikilvæg í kennslunni, og að hún feli í sér sveigjanleika. Munurinn á nálgun þeirra felst einkum í því að Jackson leggur megináherslu á bakgrunn og reynslu nemendanna eða það sem kalla má samhengismiðaða nálgun (e. contextual approach), og byggir hann þar á áðurnefndum hlutverksskilningi á trúarbrögðum. Er hann þar á svipaðri línu og Leganger-Krogstad, Ipgrave og Weisse. Jackson kallar sína aðferð túlkandi nálgun (e. interpretive approach). Innihald trúarbragðafræðslunnar sé þá ekki bara það efni sem er í námsbókum eða það sem kennarinn leggur til, heldur feli það einnig í sér bakgrunn, þekkingu og reynslu nemendanna og gagnvirkt samspil þarna á milli. Hann telur að slík nálgun hjálpi nemendum að dýpka eigin viðhorf og skilning með því að læra um afstöðu annarra. Wright á hinn bóginn leggur meiri áherslu á frásagnir og hefðir trúarbragðanna eða það sem kalla má inntaksmiðaða nálgun (e. essential approach), og byggir á inntakslegum skilningi á trúarbrögðum. Hann kallar sína nálgun „gagnrýna trúarbragðafræðslu“ (e. critical religious education). Í hans augum þurfa nemendur fyrst og fremst á trúarlegu læsi að halda til að skilja trúarbrögðin og það öðlist þeir öðru fremur með því að komast í kynni við og ræða þær frásagnir sem trúarhefðirnar nota til að lýsa veruleikanum og fást við hann. Báðir leggja Jackson og Wright áherslu á að það sé ekki markmiðið með trúarbragðafræðslu í opinberum skólum í lýðræðissamfélagi að innræta nemendum einhverja tiltekna trúarlega eða veraldlega lífsskoðun. Mikilvægt sé að viðurkenna rétt einstaklinga til að hafa mismunandi trúar- og lífsskoðanir og að hluti nemendanna taki óhjákvæmilega með sér inn í skólastofuna trúar- eða lífsviðhorf fjölskyldu sinnar. Nálgunin þarf með öðrum orðum að tryggja trúfrelsi einstaklinganna og stuðla á virkan hátt að trúarlegu umburðarlyndi og virðingu fyrir ólíkum viðhorfum.

Þegar hæfniviðmið, sem tengjast sérstaklega trúarbrögðum og lífsviðhorfum í námskrá í samfélagsgreinum frá 2013, eru skoðuð vaknar sú spurning hvort samhengismiðuð nálgun, þar sem tekið er tillit til menningarlegs samhengis trúarbragða og margbreytileikinn viðurkenndur, sé ekki gagnlegur útgangspunktur. Í námskránni er t.d. talað um að nemendur geti að loknu námi útskýrt margbreytileika trúarbragða og lífsviðhorfa, og greint áhrif þeirra á líf einstaklinga, hópa og samfélaga, og geti fengist við viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði, og tengjast spurningum um merkingu og tilgang lífsins (sjá nánar Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið, 2013, bls. 196–203). Áhersla er sem sé lögð á hið menningarlega, sögulega og félagslega samhengi og hlutverk trúarbragðanna um leið og margbreytileikinn og hæfnin til að takast á við hann er áréttuð. Því er mögulega rökrétt að leggja áherslu á samhengismiðaða nálgun í kennslunni. En um leið eru í námskránni markmið sem snúast um inntak trúarbragðanna og hæfni til að takast á við það. Námskráin talar t.d. um að nemendur geti sýnt fram á læsi á frásagnir, hefðir, kenningar, hátíðir, siði og tákn kristni og annarra helstu trúarbragða heims, og að þeir geti greint áhrif Biblíunnar og helgirita annarra helstu trúarbragða á menningu og samfélög (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið, 2013, bls. 196–203). Hér eru á ferðinni hæfniviðmið sem byggja á þekkingu á inntaki kristninnar og annarra helstu trúarbragða heims. Af þeim sökum má færa rök fyrir því að einnig verði að taka mið af inntaksmiðaðri nálgun í trúarbragðafræðslunni. Þrátt fyrir að þeir Jackson og Wright, haldi fram ólíkri nálgun í trúarbragðafræðslu má draga þann lærdóm af sjónarmiðum þeirra  að skynsamlegt sé að fara milliveg milli samhengismiðaðrar nálgunar Jacksons og inntaksmiðaðrar nálgunar Wrights. Það þurfi einfaldlega að gefa gaum að hvoru tveggja, þ.e. innihaldi trúarbragðanna annars vegar og menningarlegu, sögulegu og félagslegu samhengi þeirra hins vegar.

Það vekur athygli að þrátt fyrir mismunandi nálgun í trúarbragðafræðslunni eiga þeir Jackson og Wright ýmislegt sameiginlegt. Ef við setjum það sem þeir eiga sameiginlegt í brennidepil felur það í sér að kennslan eigi að vera aðgengileg fyrir alla, óháð trúar- eða lífsskoðunum, og að hún feli í sér sveigjanleika og líti á þátttöku nemendanna sem mikilvægan þátt í kennslunni. Jafnframt að trúarbragðafræðslan taki tillit til mannréttinda og trúfrelsis og að hún hafi það að markmiði að skapa umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólíkar trúar- og lífsskoðanir. Það er einnig mikilvægt sjónarmið að skólinn skapi með trúarbragðafræðslunni þekkingargrundvöll fyrir nemendur til að skýra, gagnrýna, móta og verja eigin afstöðu samhliða því sem hún stuðli að auknum skilningi á lífsviðhorfi og afstöðu annarra. Sjónarmið þeirra beggja, Jacksons og Wrights, eiga sér þannig ágætan samhljóm í ýmsum þeim hæfniviðmiðum sem er að finna í námskrá samfélagsgreina frá 2013 og sú áhersla sem ofangreindir höfundar leggja á samræðuna í kennslunni rímar vel við þá áherslu námskrárinnar að samfélagsgreinum sé ætlað að gera nemendum kleift að nálgast samfélagsleg og siðferðileg álitamál með hjálp samræðunnar og láta afstöðu sína mótast af rökum. Námsefni og kennsla í trúarbragðafræði þarf því að endurspegla samspil milli inntaks trúarhefðanna og reynslu nemendanna, þannig að lögð sé áhersla á hæfni nemenda til að fást við og ræða frásagnir, kenningar, siði og hefðir ólíkra trúarbragða og lífsviðhorfa um leið og þeir vinna með reynslu sína, hugmyndir og tilvistarspurningar. Í tengslum við aðrar samfélagsgreinar aukast jafnframt möguleikar á að fást við trúarbrögð og lífsviðhorf í sögulegu, menningarlegu og félagslegu samhengi, bæði á vettvangi nærsamfélags og veraldarinnar í heild.

Lokaorð

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi á undanförnum árum þar sem þróunin hefur verið frá tiltölulega einsleitu samfélagi í trúarefnum yfir í samfélag margbreytileika og fjölhyggju. Þær breytingar fela í sér margvíslegar áskoranir og tækifæri fyrir skólastarf sem birtast meðal annars í námskrá grunnskólans frá 2011/2013. Samfélagsgreinanámskráin felur meðal annars í sér að skólunum er ætlað að sinna trúarbragðafræðslu þannig að hún stuðli að þekkingu á ólíkum trúarbrögðum og lífsviðhorfum, og virðingu fyrir rétti fólks til að aðhyllast ólík trúar- og lífsviðhorf. Ályktanir, skýrslur og fræðileg umræða um trúarbragðafræðsluna í nágrannalöndum leggja áherslu á vandaða fræðslu á þessu sviði þar sem tekið er tillit til menningarlegs og trúarlegs margbreytileika. Samfélagsgreinanámskráin er með svipaðar áherslur en í ljósi viðamikilla viðfangsefna þeirra greina þarf að gæta þess að þessi þáttur verði ekki útundan. Fjölmenningarleg kennsla þarf ekkert síður að horfa til margbreytileika trúarbragða og lífsviðhorfa en ýmissa annarra þátta margbreytileikans. Börn og unglingar eiga sér í auknum mæli ólíkan bakgrunn þegar kemur að trúar- og lífsviðhorfum, siðum og venjum heimilanna. Nemendur í skólum taka með sér viðhorf sín, hugmyndir og reynslu inn í skólana og taka þar þátt í umræðum um ólík trúarviðhorf og lífsskoðanir. Mikilvægt er að tekið sé mið af þessum veruleika í kennslu samfélagsgreina.

Myndin er tekin af vef The Conversation (https://theconversation.com/should-religious-education-prepare-people-to-choose-between-faiths-41722)

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti /2011.

Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið /2013.

Aldís Ingvadóttir. (2010). „Ruslakista eða raunhæf menntun? Viðhorf skólastjórnenda og kennara til lífsleikni í grunnskólum“, Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2010/011/index.htm.

Gunnar J. Gunnarsson. (2012). Trúarbragðafræðsla í samfélagi margbreytileikans. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/006.pdf

Ingvar Sigurgeirsson. (1988). Viðhorf kennara til nýs námsefnis: rannsókn: námsgögn á Íslandi. Reykjavík: Höfundur.

Ipgrave, J. (2003). Dialogue, citizenship and religious education.  Í R. Jackson (ritstj.), International perspectives on citizenship, education and religious diversity, bls. 147–168. London: Routledge Falmer.

Jackson, R. (1997). Religious education. An interpretive approach. London: Hodder & Stoughton.

Jackson, R. (2004). Rethinking religious education and plurality. London: Routledge Falmer.

Jackson, R. (2008). Contextual religious education and the interpretive approach. British Journal of Religious Education, 30(1), 13–24.

Jackson, R. og Fujiwara, S. (2008). Towards religious education for peace. British Journal of Religious Education, 29(1), 1-14.

Jackson, R. (2014). ‚Signposts‘: Policy and practice for teaching about religions and non-religious world views in intercultural education. Strasbourg: Council of Europe. Sótt af https://www.researchgate.net/publication/282656989_%27Signposts%27_Policy_and_Practice_for_Teaching_about_Religions_and_Non-Religious_Worldviews_in_Intercultural_Education 

Leganger-Krogstad, H. (2003). Dialogue among  young citizens in a pluralistic  religious education classroom.  Í R. Jackson (ritstj.), International Perspectives on Citizenship, Education and Religious Diversity, bls. 170–190. London: Routledge Falmer.

Leganger-Krogstad, H. (2011). The religious dimension of intercultural education: Contributions to a contextual understanding. Münster: LIT Verlag.

McGuire, M.B. (1992). Religion. The social context. Belmont, CA: Wadsworth.

ODHIR. (2007). Toledo guiding principles on teaching about religions and beliefs in public schools. Warsaw: OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (ODHIR). Sótt af http://www.osce.org/odihr/29154

Sigurður Pálsson. (2011).Trúarbragðafræðsla í skólum. Af vettvangi Evrópuráðsins og ÖSE. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/menntakvika2011/alm/007.pdf

Skeie, G. (1998). En kulturbevisst religionspedagogik. Trondheim: Norges teknisk-naturvetenskaplige universitet.

Weisse, W. (2003). Difference without discrimination: Religious education as a field of learning for social understanding?  Í R. Jackson (ritstj.), International perspectives on citizenship, education and religious diversity, bls. 191–208. London: Routledge Falmer.

Wright, A. (1996). Language and experience in the hermeneutics of religious understanding. British Journal of Religious Education, 18(3): 166–180.

Wright, A. (2004). Religion, education and post-modernity. London: Routledge Falmer.

Wright, A. (2008). Contextual religious education and the actuality of religions. British Journal of Religious Education, 30(1), 3–12.

 


Gunnar Jóhannes Gunnarsson er prófessor emeritus í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.


Grein birt: 10/12/2020