1

Lærdómur páfagauksins

Rabindranath Tagore

 

Rabindranath Tagore (1861–1941) er þekktur sem höfundur indverska þjóðsöngsins, listamaður og hugsuður. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1913  og höfðu þau þá ekki áður verið veitt skáldi utan Evrópu. Tvær af þekktustu ljóðabókum hans komu út í íslenskum þýðingum Magnúsar Á. Árnasonar 1919 og 1922.

Sagan um lærdóm páfagauksins, sem hér birtist í þýðingu Atla Harðarsonar, var upphaflega gefin út á móðurmáli höfundar, bengali, árið 1918. Af öðrum skrifum Tagore um menntamál er ljóst að hann unni lærdómi og listum en var afar gagnrýninn á hefðbundið skólahald.

Það var einu sinni fugl. Hann var fávís. Hann gat svo sem sungið, en hann fór aldrei með neitt úr ritningunum. Hann hoppaði talsvert, en kunni ekki að haga sér.
Landstjórinn[1] hafði orð á þessu og sagði við sjálfan sig: „Til langs tíma litið er fávísi kostnaðarsöm því heimskingjar skila engum arði þótt þeir éti jafnmikið og hinir sem eru vel að sér.“ Hann kallaði svo á frændur sína og sagði að fuglinn þyrfti ærlega skólagöngu.

Nú var blásið til fundar með skriftlærðum vitringum sem komust strax að kjarna málsins. Þeir afréðu að fávísi fugla stafaði af því að náttúran hefði komið þeim upp á að búa í lélegum hreiðrum. Þeir sögðu það frumforsendu fyrir menntun fuglsins að hann fengi hentugt rimlabúr. Fyrir þetta tóku þeir sín laun og héldu ánægðir heim á leið.

Nú var smíðað gullbúr með dýrlegu skrauti. Úr öllum heimshornum dreif að fjölda fólks til að sjá það. „Hér hefur tekist að fanga sjálfa siðmenninguna!“ hrópuðu sumir í hrifningu sinni og tárfelldu af fögnuði. Aðrir sögðu: „Þótt menningin fari fyrir lítið verður búrið áfram
til og það er alltént nokkuð. Fuglinn má sannarlega prísa sig sælan!“

Gullsmiðurinn fyllti pyngju sína af fé og beið ekki boðanna heldur sigldi rakleiðis heim til sín.

Skriftlærður vitringur settist nú við að mennta fuglinn. Íhugull eins og vera bar fékk hann sér í nefið og sagði: „Það er aldrei of mikið af kennslubókunum!“

Frændur landstjórans hóuðu saman óheyrilegum fjölda skrifara sem afrituðu upp úr bókum og tóku svo afrit af afritunum þar til handritastaflinn varð himinhár. Fólk tautaði í undrun sinni: „Ó hve menningin teygir sig hátt! Hún er sem turn og gnæfir skýjum ofar!“

Ritararnir önduðu léttara og skunduðu heim til sín með fulla vasa fjár.

Frændurnir hömuðust og höfðu sig alla við svo búrið liti vel út. Meðan þeir skrúbbuðu og fægðu sagði fólkið með ánægjurödd: „Þetta eru vissulega framfarir!“

Mikill fjöldi manna var ráðinn til starfa og stjórnendur voru enn fleiri. Ásamt ættingjum sínum, bæði náskyldum og fjarskyldum, byggðu þeir höll til að búa í og lifðu þar í vellystingum æ síðan.

Þótt veröldina vanti sitt af hverju er aldrei skortur á aðfinnsluröddum. Þær fóru á kreik og sögðu að þeir sem störfuðu við rimlabúrið eða kæmu þar einhvers staðar nærri hefðu það betra en yrði með orðum lýst, allir nema fuglinn sjálfur.

Þegar þessi orðrómur náði eyrum landstjórans kallað hann frændur sína til fundar og sagði: „Kæru frændur, hvað er að heyra?“

Frændurnir svöruðu og sögðu: „Hlusta þú herra á vitnisburð gullsmiðsins, skriftlærðu vitringanna, skrifaranna og stjórnendanna og þá færðu að heyra sannleikann. Aðfinnsluraddirnar eru beiskar vegna þess að það er matarlítið hjá þeim.“

Svör frændanna upplýstu málið svo vel að landstjórinn heiðraði þá með fágætum eðalsteinum úr fjárhirslu sinni.

Sem tímar liðu langaði landstjórann að sjá með eigin augum hvernig menntamálaráðuneytið legði sig í líma fyrir litla fuglinn. Dag einn birtist hann því í Hásal lærdóms og menningar.

Frá hliðinu ómuðu kuðungsýlur og skjaldargjöll, horn og herlúðrar, trompet og básúnur, bumbur og trumbur af öllum gerðum, flautur, blístrur, orgel og sekkjapípur. Skriftlærðu vitringarnir tóku að kyrja þulur sínar á hæstu nótum meðan gullsmiðir, skrifarar, stjórnendur og herskari af ættingjum þeirra, bæði náskyldum og fjarskyldum, fögnuðu með gleðiraust.

Frændur landstjórans brostu og sögðu: „Herra, hvernig líst þér á?“

Landstjórinn svaraði: „Hér virðist Menntunin reist á ógnarlega traustum grunni.“

Landstjórinn var ánægður í meira lagi, en þegar hann var í þann mund að setjast upp á fíl sinn heyrðist aðfinnsluröddin hrópa bak við runna: „Mikli þjóðhöfðingi, hefur þú séð fuglinn sjálfan?“

„Nei, það hef ég ekki“ sagði landstjórinn, „ég steingleymdi að huga að fuglinum.“

Hann sneri til baka og spurði skriftlærðu vitringana um kennsluaðferðirnar sem þeir notuðu til að fræða fuglinn. Þeir sýndu honum hvernig þeir fóru að og landstjórinn var djúpt snortinn. Aðferðin var svo mikilfengleg að í samanburði við hana var fuglinn fráleitt nokkurs virði. Hann var þess nú fullviss að kerfið væri óaðfinnanlegt. Fuglinn gat heldur ekki kvartað því hann var með hálsinn troðinn af kennslubókarblöðum og kom ekki upp nokkru hljóði. Það hríslaðist sæluhrollur um hvern þann sem augum leit þessa miklu dýrð.

Þegar landstjórinn steig aftur upp á fíl sinn skipaði hann eyrnastrekki ríkisins að toga sem fastast í bæði eyrun á manninum með aðfinnsluröddina.

Fuglinum miðaði áfram eins og vera bar og rænuleysi hans varð bjargfast og gulltryggt eða því sem næst. Raunar voru framfarirnar undraverðar í hæsta máta. Eigi að síður bar náttúran menntunina stundum ofurliði og í morgunsárið þegar dagskíman gægðist inn í búrið átti fuglinn það til að blaka vængjunum með öldungis forkastanlegum tilburðum. Þótt ótrúlegt virtist tók hann líka stundum upp á því að höggva veikburða goggi sínum í rimlana á búrinu. Það var aumkunarvert á að líta.

„Hvílíkur skortur á háttvísi!“ drundi reiðilega í lögreglumanninum.

Nú fékk járnsmiður með afl sinn og steðja embætti í menntamálaráðuneyti landstjórnarinnar. Hvílík högg og hvílík hljóð! Senn var keðja úr járni gerð og vængfjaðrir fuglsins líka stýfðar.

Mágar landstjórans litu upp svartir á svip, hristu höfuð sín og sögðu: „Ekki er nóg með hvað þessir fuglar eru vitlausir, þeir eru líka fullir af vanþakklæti!“

Skriftlærðu vitringarnir létu til sín taka með kennslubók í annarri hönd og prikið í hinni. Það sem fuglinn fékk að reyna, það má svo sannarlega kalla ærlega skólagöngu!

Lögreglumaðurinn var heiðraður fyrir árveknina og járnsmiðurinn fyrir lagni sína við keðjusmíði.

Fuglinn drapst.

Aðfinnsluröddin var fyrst með fréttina, en enginn hefur um það græna glóru hvað fuglinn lá lengi dauður áður en orðrómurinn komst á kreik.

Landstjórinn kallað frændur sína til fundar og spurði: „Kæru frændur, hvað er að heyra?“

Frændurnir svöruðu: „Herra, fuglinn er fullnuma.“

„Hoppar hann?“ spurði landstjórinn.

„Aldrei!“ svöruðu frændurnir.

„Flýgur hann?“

„Öðru nær.“

„Færið mér fuglinn“ sagði þá landstjóri.

Fuglinn var dreginn fram í fylgd lögreglumannsins og innlendu málaliðanna og riddara heimsveldisins. Landstjórinn potaði í hann með fingri sínum. Það heyrðist ekkert nema
skrjáfið í kennslubókarblöðunum sem fylltu búk hans.

Utan við gluggann þutu vorvindar í nývöxnu asokalaufinu [2] og gáfu aprílmorgninum angurværan blæ.


[1] Í frumtextanum er landstjórinn kallaður raja en það orð var lengi vel notað um bresk yfirráð á Indlandi. Aðrir indverskir titlar er líka þýddir á íslensku þannig að pundit verður skriftlærður vitringur, kotwal verður lögreglumaður, sepoy innlendur málaliði og sowar kallast riddari heimsveldisins.

[2] Nafnið „asoka“ merkir sorglaus og asoka-tré tengjast helgihaldi meðal Indverja.


Íslensk þýðing Atla Harðarsonar er gerð eftir enskri þýðingu í The Complete Works of Rabindranath Tagore sem kom út 2017 hjá forlaginu General Press í Nýju Delhi. Þar heitir þessi saga „The Parrot’s Training“.