Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

Netla – veftímarit

Augnabliksmynd af fagmennsku kennara

í Greinar
©Kristinn Ingvarsson

Helgi Skúli Kjartansson

 

Þau skiptu máli heitir nýútkomið vefrit, sérrit veftímaritsins Netlu, greinasafn þar sem sagt er frá starfi tíu athyglisverðra grunnskólakennara. (Slóð: https://netla.hi.is/serrit-thau-skiptu-mali-sogur-grunnskolakennara/.) Þar er sjónum beint að brautryðjendum eða fyrirmyndum í kennarastétt sem skiptu máli fyrir skólastarf í landinu. En fyrirsögnin, „þau skiptu máli“, hittir ekki síður í mark þó hugsað sé um kennarastéttina í heild. Eða um nemendahópinn, þ.e. um okkur öll, sem einhvern tíma höfum verið á grunnskólaaldri og þá sannarlega skipt máli fyrir okkur hvert og eitt að njóta góðrar, frjórrar og faglegrar kennslu.

Hér ætla ég þó ekki að leggja út af þeirri kennslu sem ég naut sjálfur á barnsaldri eða hrósa happi að hafa á hentugum aldri fengið framsækinn og áhugasaman bekkjarkennara.[i] Heldur rifja upp aldarfjórðungs gamalt minningarbrot, augnabliksmynd sem ég hugsaði ekki út í fyrr en löngu seinna að sýnir einmitt dæmi um yfirlætislausa fagmennsku í hinu daglega starfi bekkjarkennarans.

Ég var þá nýfluttur til Stokkhólms með konu og barn, strák tæplega sex ára sem varð skólaskyldur örskömmu eftir komuna til landsins. Til að sú reynsla yrði ekki of ný og óvænt höfðum við komið honum í fimm ára bekk Ísaksskóla veturinn áður, svo að hann var bæði orðinn vanur skólalífinu og læs á íslensku. En í sænskunni kunni hann ekki orð, kom því inn í skólann og bekkinn gersamlega mállaus. Lesa meira…

Griðastaður þess seinlega

í Ritdómar

Ólafur Páll Jónsson

Atli Harðarson. (2019) Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Reykjavík: Menntavísindasvið og Heimspekistofnun.

Á síðasta ári kom út lítil bók eftir Atla Harðarson um heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Við nánari athugun er þessi bók reyndar ekki svo lítil. Að vísu telur hún einungis 150 blaðsíður í litlu broti en við lestur bókarinnar fann ég að síðurnar áttu það til að tímgast í huga mér þannig að þegar ég lagði hana loks frá mér fannst mér ég ekki bara hafa lesið lítið kver um menntun og skólastarf heldur stóra bók, eiginlega margar bækur eftir ólíka höfunda. Atli hefur einstakt lag á að leiða lesandann inn í rökræður annarra fræðimanna og sjá síðan á þeim fleti sem gera þær í senn áhugaverðari og flóknari en mann hafði órað fyrir. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir hvern þann sem vill hugsa um menntun og skólakerfi, en þeim sem sækjast eftir skjótfengnum svörum ráðlegg ég að forðast þetta rit. Tvímælis er bók sem leggur manni til fleiri spurningar en svör. Lesa meira…

Fara í Topp