1

Þróun og nýsköpun í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson

 

Menntastefna Reykjavíkur- „Látum draumana rætast“, var samþykkt í lok árs 2018 eftir tæplega tveggja ára mótunarferli með aðkomu um 10.000 aðila innan og utan borgarinnar. Í þeim hópi voru börn, foreldrar, kennarar og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi, erlendir og íslenskir sérfræðingar um menntamál og almenningur í gegnum Betri Reykjavík. Áhugaverða samantekt á opnu samráði við mótun menntastefnunnar má lesa í niðurstöðum rannsóknarinnar Crowdsourcing Better Education Policy in Reykjavik (King, 2019).

Samhliða voru samþykktar almennar aðgerðir til þriggja ára þar sem lögð er rík áhersla á að „fagfólk á vettvangi í skóla- og frístundastarfi útfæri stefnuna miðað við aðstæður á hverjum stað, í náinni samvinnu sín á milli, í samstarfi við aðra fagaðila og síðast en ekki síst með virkri þátttöku barna og unglinga.“ Ein þessara aðgerða var ákvörðun um að stofna þróunar- og nýsköpunarsjóð til að styðja við sjálfsprottin verkefni á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs (í þessari umfjöllun er yfirheitið starfsstaður notað um leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og skólahljómsveitir). Tilgangur sjóðsins var frá upphafi að stuðla að framgangi menntastefnunnar með því að byggja upp frumkvæði, faglega forystu, traust og lærdómssamfélag með aukinni samvinnu starfsfólks og stofnana, en þannig er stuðlað að samvirkni í menntakerfi borgarinnar. Fræðimenn hafa bent á að á meiri líkur séu á að samvirkni náist í þróunar- og umbótastarfi þar sem sú hugmyndafræði er lögð til grundvallar (Helga S. Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir, 2020). Um skeið hafði þróunarsjóður borgarinnar fyrir skóla- og frístundastarf verið 20 milljónir króna með hækkun í 40 milljónir árið 2018. Samþykkt var að 200 milljónum yrði úthlutað árlega fyrstu þrjú ár innleiðingarinnar.

Í almennum aðgerðum var lagt upp með að veita starfsfólki skóla- og frístundasviðs ríkari tækifæri til starfsþróunar og tryggja þeim markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Þar var sérstaklega lögð áhersla á að efla fjölbreytt samstarf, ekki síst við Menntavísindasvið HÍ og aðrar menntastofnanir, sem hefur skilað sér í margvíslegu framboði á starfsþróun. Samhliða hefur verið lögð áhersla á markvissa þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði mennta- og æskulýðsmála með því að styðja við virka þátttöku grunnskóla, leikskóla og frístundamiðstöðva í evrópskum samstarfsverkefnum. Árin 2019 og 2020 hafa fengist rúmlega 125,5 m.kr í alþjóðlega styrki fyrir 33 verkefni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu menntastefnunnar.

Önnur af almennum aðgerðum við innleiðingu stefnunnar var að setja á fót Nýsköpunarmiðju menntamála sem hefur það hlutverk að styðja starfstöðvar við innleiðingu stefnunnar, skapa vettvang fyrir þróun lærdómssamfélags og veita stuðning við þróun og nýsköpun í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Nýsköpunarmiðjan fékk jafnframt það hlutverk að leiða vinnu við að endurskoða og þróa viðmið, eyðublöð, umsóknarferli og verklagsreglur um hinn nýja sjóð. Í þeirri vinnu var leitað fyrirmynda erlendis, auk þess sem erlendir og innlendir sérfræðingar gáfu góð ráð. Finnski menntunarfræðingurinn Pasi Sahlberg, sem verið hafði ráðgjafi stýrihóps um mótun menntastefnunnar, vakti athygli á þeim áherslum sem Alberta fylki í Kanada hafði lagt til að efla traust í menntakerfinu og skapa sameiginlegan metnað fyrir nýsköpun og þróun en þær áherslur höfðu ekki síst áhrif á útfærslur þróunar- og nýsköpunarsjóðsins.

Þróunar- og nýsköpunarsjóður skóla- og frístundaráðs lítur dagsins ljós

Hinn 21. febrúar 2019 samþykkti borgarráð reglur fyrir nýjan sjóð, „Látum draumana rætast“ þróunar- og nýsköpunarsjóð skóla- og frístundaráðs. Ákveðið var að skipta sjóðnum í tvennt, A og B hluta, og móta reglur fyrir hvorn hluta fyrir sig, ekki síst til að skapa svigrúm á hverjum starfsstað til að hefja vinnu við innleiðingu menntastefnunnar í anda samstarfs og samvirkni.

Eins og segir í reglum sjóðsins er tilgangur hans að:

stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, í leikskólastarfi, grunnskólastarfi og frístundastarfi. Með verkefnum er átt við þróunar- og nýsköpunarverkefni sem stuðla að fagmennsku, auknu samstarfi og styðja við rannsóknir. Verkefnin styðji við eða stuðli að bættu fagstarfi með aukinni þátttöku barna og unglinga á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Styrkir eru veittir í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru fram í Menntastefnu Reykjavíkur „Látum draumana rætast“.

Talsverður munur er á þessum tveimur hlutum sjóðsins. A-hlutinn er fyrst og fremst ætlaður til að styrkja þróunar- og nýsköpunarstarf innan starfsstaða en í B-hluta er gerð krafa um þverfaglegt samstarf að lágmarki tveggja starfsstaða. Þá skal í umsóknum vegna B-hluta gera grein fyrir því hvernig verkefnið tengist rannsóknum eða samstarfi við háskólasamfélagið, hvers konar samstarfi eða teymishugsun verkefnið byggi á og hvernig nýta eigi hringferli stöðugra umbóta og þróunar með það að markmiði að byggja upp lærdómssamfélag. Umsóknarferlið vegna A- og B-hluta er ólíkt þar sem gerðar eru mun meiri kröfur í B-hluta umsóknum heldur en í A- hluta umsóknum, enda er þar um að ræða viðameiri samstarfsverkefni og hærri styrki. Þrátt fyrir það er byggt á samskonar spurningum og gengið út frá því að í undirbúningi umsóknar hafi verið stofnað til lýðræðislegs samtals barna og fullorðinna við að greina helstu viðfangsefni á hverjum stað. Í umsókn þarf meðal annars að gera grein fyrir eftirfarandi:

 • Hvaða áskorunum er verið að bregðast við með þessu verkefni?
 • Af hverju er verkefnið mikilvægt?
 • Hvaða aðstæður í félagslegu og námslegu umhverfi starfsstaðarins valda því að mikilvægt er að fara í þetta verkefni?
 • Hverjir tóku þátt í samtali við að greina áskoranir og mikilvægi verkefnisins eða hvaða gögn lágu til grundvallar?
 • Hvaða þætti menntastefnunnar verður fyrst og fremst unnið að í verkefninu?
 • Hver eru helstu markmið verkefnisins og hvernig endurspegla þau þætti menntastefnunnar?
 • Hver verður væntanlegur ávinningur fyrir börn í skóla- og frístundastarfi?
 • Hvernig verður árangur verkefnisins metinn?

Í A-hluta eru 150 milljónir sem skiptast á milli allra starfsstaða út frá reiknireglu sem tekur til rekstrarumfangs, starfsmannafjölda og barnafjölda sem starfsstaðir sækja um á vormisseri ár hvert. Í B-hluta eru 50 milljónir, en starfsstaðir borgarinnar geta sótt þangað um allt að 8 milljónir fyrir verkefni í samstarfi við aðra starfsstaði og stofnanir. Sjá: https://menntastefna.is/throunarsjodur/.

Samvinna um þróun og nýsköpun

Lögð var áhersla á að kynna sjóðinn og menntastefnuna vel strax í upphafi og var nálgunin styðjandi en ekki stýrandi. Haldnir voru hverfafundir í öllum borgarhlutum fyrir starfsstaði þar sem lagt var upp með samræður út frá hugmyndafræði samfélagslegrar nýsköpunar. Þátttakendur settu sig meðal annars í spor barna og ræddu brýnustu áskoranir og tækifæri í tengslum við grundvallarþætti menntastefnunnar og áhrif hennar á framtíð menntunar. Gegndu fundirnir veigamiklu hlutverki við að tryggja að allir sæju hag í því að taka strax fullan þátt í innleiðingu menntastefunnar og að styrkjafjármagnið yrði nýtt til þess að styðja við það ferli.

Auk hverfafunda buðu fulltrúar Nýsköpunarmiðju menntamála og skrifstofu SFS upp á kynningar og fræðslu á stjórnendafundum og á starfsstöðum og ráðgjöf við stjórnendur starfsstaða vegna undirbúnings umsókna og skipulags verkefna. Tvisvar hefur verið haldið stefnumót stjórnenda hjá skóla- og frístundasviði og fræðasamfélagsins í samstarfi SFS og menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Markmiðið með þeim var að skapa afslappaðan vettvang fyrir samtal hópanna þar sem stuðlað var að „fæðingu” fjölbreyttra samstarfsverkefna. Stefnumótið reyndist spennandi vettvangur fyrir samtal fræðasamfélagsins og stjórnenda og hefur leitt af sér fjölbreytt samstarf.

Kynningarfundur í Laugalækjarskóla 15. febrúar 2019.

Í öllu ferlinu við að kynna þróunar- og nýsköpunarsjóðinn hefur mikilvægi samvinnu, samvirkni og samtals um þróun menntakerfisins í nútíð og framtíð verið tíundað. Þrátt fyrir að ekki megi vanmeta gildi lítilla og stakra þróunarverkefna hafa skilaboðin frá upphafi verið þau að líta beri á þróunar- og nýsköpunarstarf sem vegferð en ekki afmarkað verkefni með upphaf og endi. Unnið er að því að þróa lærdómssamfélag þar sem leitast er við að koma auga á og styðja leiðtoga og skapa menningu sem styður við þróunar- og nýsköpunarstarf. Slík menning felur í sér að innan hvers starfsstaðar, á milli starfsstaða og í menntakerfinu öllu er leitast við að byggja upp traust til að taka áhættu, prófa, þróa, þora að mistakast, ígrunda og prófa aftur.

Valdið til breytinga liggur í höndum kennara og starfsfólks en ekki þeim stefnum eða fyrirheitum sem stjórnvöld gefa, þrátt fyrir að þau geti verið góð leiðarljós og nauðsynlegur stuðningur við útfærslu verkefna. Jón Torfi Jónasson leggur áherslu á það í nýlegri grein hér í Skólaþráðum að fátt muni breytast í menntamálum sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurunum sjálfum. Breytingar þurfa að hans mati að felast í „ásetningi þeirra, vitneskju og kunnáttu til að þróa menntunina þannig að þeir geti sinnt því flókna og margslungna uppeldis- og menningarhlutverki sem þeir eiga í raun að gegna“ (Jón Torfi Jónasson, 2020). Að hans mati þurfa stjórnendur og stjórnvöld að skilja „hve takmarkað áhrifavald þeirra er til að koma á breytingum ef ásetningur þeirra er ekki samofinn hugmyndum þeirra sem sjá um menntunina frá degi til dags“. Með þróunar- og nýsköpunarsjóðnum má segja að borgaryfirvöld hafi skapað dýrmætt svigrúm til að styðja við frumkvæði elju og framsýni stjórnenda og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi borgarinnar.

Þróunar- og nýsköpunarverkefni árið 2019 og 2020

A-hluti þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Árið 2019 bárust í A-hluta 171 umsókn um styrki og 170 umsóknir árið 2020. Öllum starfsstöðum var gert að skila inn einfaldri rafrænni umsókn þar sem gerð var grein fyrir því hvaða áskorunum væri verið að bregðast við, mikilvægi verkefnisins, tengingu þess við menntastefnuna, markmið þess og að lokum framkvæmdaáætlun. Ástæða þess að stjórnendur þurftu að skila inn umsókn frekar en að fjármagni væri einfaldlega útdeilt til starfsstaða var sú að talið var mikilvægt að allir fengu tækifæri til að máta eigið starf við áhersluþætti menntastefnunnar og greina þær áskoranir sem eru til staðar á hverjum stað. Í einhverjum tilvikum höfðu stjórnendur litla reynslu af því að sækja um styrki og fyrir þá reyndist umsóknarferlið fela í sér gagnlegt lærdómsferli. Þá hafa upplýsingarnar sem fengist hafa úr umsóknunum nýst til að fá betri yfirsýn yfir áherslur starfsstaða en þær nýtast meðal annars til að skipuleggja ráðgjöf og starfsþróun.

Mynd 1. Fjöldi umsókna í A-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs.

Eins og sjá má endurspeglar fjöldi umsókna fjölda starfsstaða. Flestir leikskólar skila inn einni umsókn í A-hluta en einstaka grunnskólar hafa kosið að skila inn fleiri en einni umsókn þegar þeir eru að nýta fjármagnið í tvö aðskilin verkefni. Í Reykjavík starfa fimm frístundamiðstöðvar, ein í hverjum borgarhluta, en mikill fjöldi umsókna frá þeim kemur til vegna þess að þar hefur fjármagninu verið úthlutað til þeirra frístundaheimila og félagsmiðstöðva sem tilheyra viðkomandi miðstöð. Þá hafa skólahljómsveitir borgarinnar skilað inn einni umsókn hvort ár og samreknir starfsstaðir (leikskóli, grunnskóli, frístundaheimili) hafa einnig skilað sameiginlegum umsóknum. Í umsóknarformi í A-hluta þurfa allir umsækjendur að svara því hvaða grundvallarþætti stefnunnar verður fyrst og fremst unnið að í viðkomandi verkefni. Með því að rýna í þær upplýsingar sem fengust úr umsóknum starfsstaðanna má t.d. bera saman áherslur í umsóknum eftir því hvort um grunnskóla, leikskóla eða frístundastarf sé að ræða.

Mynd 2. Samanburður á fyrsta vali á menntastefnuþáttum í A-hluta verkefnum skólaárið 2020-2021.

Í þeim samanburði sem sýndur er á mynd 2 má sjá að skólaárið 2020-2021 leggja margir leikskólar og frístundamiðstöðvar áherslu á félagsfærni í sínum verkefnum og þá er áhugavert að sjá hversu margir leikskólar eru að vinna með læsi. Í ár er algengast að grunnskólar leggi áherslu á fagmennsku og samstarf og ánægjulegt er að sjá fjölgun á verkefnum sem miða að því að auka virkni barna og þátttöku. Einn af kostunum við að hafa samanburðarhæf rafræn umsóknarform fyrir þróunar- og nýsköpunarverkefni yfir nokkurra ára tímabil er að þau veita mikilvægar upplýsingar um þróun yfir tíma í áherslum verkefnanna og um leið innleiðingu stefnunnar.

Mynd 3. Samanburður milli ára á fyrsta vali leikskóla í A-hluta umsóknum.

Mynd 4. Samanburður milli ára á fyrsta vali grunnskóla í A-hluta umsóknum.

Mynd 5. Samanburður milli ára á fyrsta vali frístundamiðstöðva í A-hluta umsóknum.

Það hversu margir starfsstaðir hafa lagt áherslu á sjálfseflingu og félagsfærni í verkefnum sínum hefur skilað sér inn í framboð á fræðslu og tilboðum um stuðning við þessa þætti. Boðið hefur verið upp á fjölbreytt námskeið og fræðslu um sjálfseflingu og félagsfærni og stór hluti verkfæra í verkfærakistu menntastefnuvefsins lýtur að þessum tveimur grundvallarþáttum. Jafnframt er reynt að tengja saman starfsstaði sem vinna að sambærilegum verkefnum en þannig má skapa vettvang fyrir starfsfólk til að hittast og læra með og hvert af öðru. Þá hefur öllum verkefnum og áherslum þeirra verið miðlað á vef menntastefnunnar sem gerir starfsstöðum kleift að fá innsýn inn í hverjir aðrir vinna að sambærilegum verkefnum og mynda í framhaldi eigin lærdómssamfélög.

Yfirlit á vef menntastefnunnar sýnir að mikill fjöldi áhugaverðra verkefna hefur fengið styrk síðustu tvö ár þó að samkomutakmarkanir og raskanir á skólastarfi tengdar COVID-19 hafi vissulega sett strik í reikninginn. Dæmi eru um að starfsstaðir hafi tekið sig saman til að auka umfang og áhrif sinna A-hluta verkefna líkt og verkefnið Allir blómstra sem unnið var í samstarfi leikskólanna Hólaborgar, Engjaborgar, Sunnufoldar og Funaborgar. Markmið þess var að tryggja að öll börn í leikskólunum fengju að blómstra í starfi þeirra og að valdefling allra yrði hluti af daglegu starfi. Ein leið að markmiðum verkefnisins var að útbúa myndbönd þar sem leiðbeint var um leiðir til sjálfseflingar og eru myndböndin bæði hugsuð fyrir starfsfólk leikskóla og foreldra leikskólabarna. Myndböndunum hefur verið miðlað á vef leikskólanna sem skipulögðu verkefnið og í verkfærakistu á vef menntastefnunnar. Þetta verkefni endurspeglar vel kjarnamarkmið sjóðsins. Þarna fær fagfólk í leikskólum tækifæri til að greina eigin áskoranir, taka af skarið af eigin frumkvæði og útbúa bjargir sem svo nýtast öllum leikskólum borgarinnar.

Bæði árin hefur verið leitað eftir athugasemdum frá stjórnendum og starfsstöðum vegna fyrirkomulags styrkjanna. Stjórnendur eru almennt sammála um að A-hluta styrkirnir séu mikil innspýting inn í starfið og auðveldi þeim að beina sjónum markvisst að þáttum menntastefnunnar og innleiðingu hennar. Þá kemur fram að með styrkjunum skapist betra svigrúm hjá starfsfólki til að vinna að innleiðingu stefnunnar og tengja við daglegt starf með börnunum. Stjórnendur starfsstaða SFS lögðu enn fremur áherslu á að með A-hluta styrkjunum væri tryggt jafnræði á milli starfsstaða en þannig fengju allir tækifæri til að hefja innleiðingu menntastefnunnar. Nú seinna árið höfðu margir áhyggjur af því að COVID-19 drægi úr þeim tækifærum sem væru til þróunar- og nýsköpunar í skóla- og frístundastarfinu og er ljóst að mörg verkefni hafa tafist eða farið hægar af stað en áætlað var. Samt sem áður er mikill hugur í stjórnendum sem vilja halda ótrauðir áfram og telja nauðsynlegt að njóta þeirrar hvatninga til framþróunar sem felst í styrkjunum.

B-hluti – Fjölbreytt samstarfsverkefni leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs og háskólasamfélagsins

Eins og áður segir eru B-hluta verkefnin stærri í sniðum en A-hluta verkefnin. Í B-hlutanum er gerð krafa um samstarf milli starfsstaða og að verkefni tengist rannsóknum eða sé unnið í samstarfi við fræðimenn. Í B-hluta sjóðsins fengu átján verkefni styrk 2019 en alls bárust 40 umsóknir. Í kjölfar samráðs við stjórnendur haustið 2019 var tekin ákvörðun um að fækka styrkjum og hækka styrkupphæðir í einstaka verkefnum fyrir skólaárið 2020–2021. Helstu rök fyrir því voru að árið 2019 fengu mörg verkefni umtalsvert lægri styrkupphæðir en sótt var um fyrir. 24 umsóknir bárust fyrir skólaárið 2020–2021 en tíu verkefni hlutu styrk og voru lægstu styrkir það ár fjórar milljónir og hæstu styrkir átta milljónir. Þrjú þessara verkefna höfðu einnig fengið styrk árið 2019 og hafa því alls 25 stærri þróunarverkefni fengið styrk þessi fyrstu tvö ár. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir B-hluta verkefni 2019–2021 en af verkefnunum 25 eru sextán verkefni unnin í samstarfi við fræðasamfélagið, langflest í samstarfi við Menntavísindasvið HÍ. Þá er athyglisvert að skoða hversu fjölbreytt samstarf er fyrir hendi í mörgum þessara verkefna (sjá töflu 1).

Tafla 1. Umsóknir um styrki í B-hluta

Heiti verkefnis Umsækjandi Samstarfsaðilar Skólaár
Allir með – valnámskeið Hagaskóli Laugalækjarskóli, Frosti félagsmiðstöð, Kolbrún Þ. Pálsd. HÍ 2019-2020
Betri Bústaðir – Svefn, orkudrykkir og rafrettur Kringlumýri Réttarholtsskóli, Fossvogsskóli, Breiðagerðisskóli, Þjónustum. Laugardals og Háaleitis, Víkingur íþróttafélag, Skátafélagið Garðbúar, Foreldrafélag Réttarholtsskóla, Foreldrafélag Fossvogsskóla, Foreldrafélag Breiðagerðisskóla 2019-2020
Leiðir til að efla tjáskipti Klettaskóli Aðrir grunnskólar í borginni 2019-2020
Mikilvægi gagnreyndra aðferða ífélagsmiðstöðvastarfi Kringlumýri Miðberg, Háskóli Íslands, Vinnuskólinn 2019-2020
Rafíþróttir í 110 og 113 Ársel Íþróttafélagið Fylkir, Ártúnsskóli, Norðlingaskóli, Dalskóli, Ingunnarskóli, Sæmundarskóli, Þjónustumiðstöð Árbæjar 2019-2020
Vísindaleikir – Varmi og hitastig Bjartahlíð Stakkaborg, Háskóli Íslands 2019-2020
Það þarf heilt þorp; Samstarfsverkefni um félagsfærni og sjálfseflingu Leikskólinn Borg Breiðholtsskóli, Bakkaborg, Bakkasel frístundaheimili, Bakkinn félagsmiðstöð, KVAN, Háskóli Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts 2019-2020
Draumasviðið – Tækifæri sköpunar Tjörnin 100og1, Austurbæjarskóli, Háskóli Íslands 2019-2020
Efling siðfræðikennslu í frístundastarfi Undraland Tjörnin og Háskóli Íslands 2019-2020
Föruneyti félagsmiðstöðvar Tjörnin Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Lögreglan, Barnavernd, Kringlumýri, Ársel, Gufunesbær, Miðberg 2019-2020
Markviss íslenskukennsla fjöltyngdra nemenda með áherslu á ríkan orðaforða, sterka sjálfsmynd og félagsfærni í leik og starfi Foldaskóli Hamraskóli, Húsaskóli, Frístundaheimilin Simbað, Regnboga- land, Kastali og Háskóli Íslands 2019-2020
Rafíþróttaver Tjörnin Gleðibankinn og Hlíðaskóli 2019-2020
Skólafélagsfærni PEERS Hlíðaskóli Eldflaugin frístundaheimili, Barnaskóli Hjallastefnunnar, Suðurhlíðarskóli, Gleðibankinn félagsmiðstöð, Tjarnarskóli, Landakotsskóli, Melaskóli, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða 2019-2020
Ungmennaráð sértækra félagsmiðstöðva í Reykjavík Miðberg Gufunesbær, Kringlumýri, Tjörnin og Öryrkjabandalag Íslands 2019-2020
Útivist og útinám Gufunesbær Frístundaheimilin Brosbær, Galdraslóð, Hvergiland, Kastali, Regnbogaland, Simbað, Tígrisbær, Ævintýraland, Miðstöð útivistar og útináms og Háskóli Íslands 2019-2020
Skapandi námssamfélag í Breiðholti Fab Lab Reykjavík Þjónustumiðstöð Breiðholts, Fellaskóli, Seljaskóli, Hólabrekkuskóli, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Fjölbrautarskólinn í Breiðholti, Mixtúra, RG Menntaráðgjöf og Vísindasmiðja Háskóla Íslands 2019-2021
Austur- Vestur. Sköpunar-og tæknismiðjur Ingunnarskóli Selásskóli, Vesturbæjarskóli og Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2019-2021
Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag Reynisholt Brákarborg, Stakkaborg, Tjörn og RannUng 2019-2021
Orð eru til alls fyrst Dalskóli Geislabaugur, Ingunnarskóli, Maríuborg, Reynisholt og Sæmundarskóli 2020-2021
Lærdómssamfélag stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga Fossvogsskóli Vesturbæjarskóli, Dalskóli, Kelduskóli og Háskóli Íslands 2020-2021
Frístundafræðingur á miðstigi Gufunesbær Foldaskóli, Engjaskóli, Hamraskóli, Rimaskóli, Klébergsskóli, Borgaskóli, Víkurskóli, Háskóli Íslands og Íslenskuþorpið 2020-2021
Vertu velkomin í hverfið okkar – viltu tala íslensku við mig Húsaskóli Foldaskóli, Engjaskóli, Hamraskóli, Rimaskóli, Klébergsskól, Borgaskólai, Víkurskóli og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 2020-2021
VAXANDI Tjörnin Menntavísindasvið Háskóla Íslandsí, Núvitundarsetrið, félagsmiðstöðvarnar Frosti, 105, 100og1, Gleðibankinn, Hofið, Hinsegin félagsmiðstöð samtakanna 78 og Tjarnarinnar, frístundaheimilin Frostheimar, Undraland, Selið, Skýjaborgir, Eldflaugin, Halastjarnan og Draumaland 2020-2021
Betra Breiðholt fyrir unglinga Skóla- og frístundadeil Breiðholts Miðberg og allir grunnskólar í Breiðholti 2020-2021
Öll sem eitt Tjörnin Háskóli Íslands, RannTóm, Samtökin 78, Ársel, Gufunesbær, Kringlumýri, Miðberg og félagsmiðstöðvar í Reykjavík 2020-2021

 

Verkefnin endurspegla vel gróskuna í þróunar- og nýsköpunarverkefnum og hvernig sjóðurinn þjónar sem hvatning fyrir fjölbreytt samstarf. Til þess að tryggja að verkefnin hafi sem víðtækust áhrif og að niðurstöður þeirra nái til sem flestra hefur frá upphafi verið lagt mikið upp úr sýnileika verkefna og víðtækri miðlun á niðurstöðum þeirra.

Sýnileiki verkefna – kynning og miðlun

Strax í upphafi var lögð rík áhersla á að hafa allar upplýsingar um sjóðinn aðgengilegar. Frá því að vefur menntastefnu Reykjavíkur www.menntastefna.is opnaði sumarið 2019 hefur allt efni tengt sjóðnum verið vistað þar. Þar er hægt að finna lista yfir þau 340 þróunarverkefni sem fengið hafa styrk í A-hluta sjóðsins fyrstu tvö árin eftir stofnun hans. Þá eiga þau 25 samstarfsverkefni sem fengið hafa styrk í B-hluta sjóðsins hvert sína síðu þar sem finna má upplýsingar um markmið verkefnisins, styrkupphæð, samstarfsaðila, skýrslur og afurðir. Áhugavert dæmi um gildi þessara heimasíðna er verkefnið Skapandi námssamfélag í Breiðholti. Auk skýrslu um verkefnið má þar finna eftirfarandi afurðir þess: vínil uppskriftarbók, leiðbeiningar um mýsli og leiðbeiningar um hvernig búa eigi til endurskinsmerki í vínilskera.

Þær afurðir sem verða til í verkefnum er einnig miðlað í gegnum verkfærakistu menntastefnuvefsins auk þess sem skapaður er vettvangur fyrir kynningar á námskeiðum, málþingum og ráðstefnum sem tengjast skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Ánægjulegt er hversu viljugir kennarar og starfsfólk eru að miðla af eigin reynslu og verkefnum með þessum hætti. Þarna er að byggjast upp dýrmætur grunnur af upplýsingum um það sem starfsfólkið sjálft telur gagnast til að efla menntun í eigin ranni.

Kynning og miðlun á verkefnum hefur ekki einungis átt sér stað á vef menntastefnunnar og á samfélagsmiðlum tengdum skóla- og frístundastarfi heldur hefur verið markvisst unnið að því að gera þróunarverkefni sýnileg bæði innan borgarinnar og á vettvangi menntamála á Íslandi. Dæmi um það eru Höfuð í bleyti, rafræn ráðstefna frístundastarfs í Reykjavík, þar sem hægt var að kynna sér yfir 20 áhugaverð verkefni. Mörg erindi á Menntakviku Háskóla Íslands fjölluðu um þróunar- og nýsköpunarstarf í borginni og þar voru meðal annars áberandi verkefni sem snúa að innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarfi og samspili list-, verkgreina og náttúruvísinda. Þá er í undirbúningi Mennta-stefnumót sem haldið verður 10. maí næstkomandi á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Þar verður boðið upp á fjölbreyttar kynningar á þróunar- og nýsköpunarstarfi í borginni, auk fróðleiks frá innlendum og erlendum sérfræðingum í menntamálum.

Aukin áhersla á starfsþróun og stuðning við starfsstaði

Frá samþykkt menntastefnunnar hefur áhersla á starfsþróun aukist verulega. Í skýrslu um innleiðingu menntastefnunnar júní – desember 2019 kemur fram að það ár hafi verið haldin hátt í 650 námskeið og fræðslufundir með þátttöku tæplega 17.000 starfsmanna SFS. Það er ígildi þess að allt starfsfólk sviðsins, 5.000 einstaklingar, hafi sótt fræðslu rúmlega þrisvar sinnum árið 2019. Einnig hefur verið lögð áhersla á að setja á fót fjölbreytt lærdómssamfélög ákveðinna faghópa þvert á skóla. Þegar eru starfandi tíu slík lærdómssamfélög með meira en 200 þátttakendum.

Unnið hefur verið að aukinni starfsþróun og fjölgun námskeiða á vegum fræðimanna og sérfræðinga af vettvangi. Stórt skref í þeim efnum var tekið með undirritun samstarfssamnings SFS við Menntavísindasvið Háskóla Íslands Samningurinn kveður á um gagnvirkt samstarf um starfsþróun sem byggir á grunni menntastefnunnar annars vegar og kynningum á starfi borgarinnar á vettvangi háskólans hins vegar. Þá felur samningurinn í sér möguleika á því að starfsstaðir fái hjá kennurum og öðru starfsfólki Menntavísindasviðs ráðgjöf og leiðsögn við þróunar- og nýsköpunarstarf.

Stuðningur við þróunar- og nýsköpunarstarf

Nýsköpunarmiðjan, sem var sett á fót 2018, samanstendur af þverfaglegu teymi tíu sérfræðinga sem hefur það meginhlutverk að fylgja eftir innleiðingu menntastefnunnar. Henni er sérstaklega ætlað að styðja við þróunar- og nýsköpunarstarf í borginni, tengja saman starfsstaði þvert á leikskóla, grunnskóla og frístundastarf og skapa farveg fyrir fjölbreytta nýsköpun sem endurspeglar áherslur menntastefnu borgarinnar. Þá hefur miðjan það hlutverk að samræma og veita yfirsýn yfir starfsþróun á sviðinu. Skipulag og framkvæmd starfsþróunar er síðan unnin þvert á deildir fagskrifstofu skóla og frístundastarfs og mannauðsdeildar auk Miðju máls og læsis og Miðstöðvar útvistar og útináms.

Í vinnu við mótun menntastefnunnar urðu til viðamikil gögn um hugmyndir og áherslur þeirra sem tóku þátt í samráðinu. Þessi gögn voru meðal annars nýtt til að þróa gátlista sem starfsstaðir nýta til að meta hvernig þeim gengur að efla grundvallarþætti menntastefnunnar. Margir skólar og margar frístundamiðstöðvar hafa nýtt gátlistana meðal annars til að skoða hversu vel sé unnið að einstökum þáttum og hvar sé svigrúm til umbóta. Þessi vinna hefur verið nýtt til að móta þróunar- og nýsköpunarverkefni.

Lokaorð og framtíðin

Þróunar- og nýsköpunarsjóður skóla- og frístundaráðs „Látum draumana rætast“ er fjöreggið í innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar. Þau verkefni sem sprottið hafa upp fyrir tilstilli hans bera þess vott að stefnan er lifandi veruleiki. Svo vísað sé aftur til orða Jóns Torfa Jónassonar í áðurnefndri grein hér í Skólaþráðum þá telur hann nauðsynlegt að byggja upp sterka faglega heild innan skóla, sveitarfélaga og annarra þar sem miðlað er þekkingu á þeim straumum og stefnum sem eru efst á baugi í menntakerfinu innanlands sem utan. Enginn einn getur haft þekkingu á öllu því sem þarf að gera og engin ein leið virkar til að tryggja framúrskarandi menntun á 21. öldinni. Með faglegum og fjárhagslegum stuðningi við þróun og nýsköpun, samvinnu, samvirkni og þann drifkraft sem býr í kennurum og starfsfólki borgarinnar er skapaður grundvöllur til athafna. Jón Torfi telur forsendu slíkrar þróunar fólgna í því að þeir sjóðir sem standi til boða séu öflugir:

En þetta verður að móta, sbr. það sem Reykjavíkurborg hefur bryddað upp á í þróunarverkefni sínu, Látum draumana rætast, og uppfyllir að mörgu leyti þau skilyrði sem ég er sannfærður um að þurfi að vera fyrir hendi. Sú leið felur í sér samráð um meginlínur, stuðningskerfi sem er nauðsynlegt og tryggir jafnframt að verulegur hluti frumkvæðis og fjármuna liggi hjá þeim sem taka ábyrgð á þróunarstarfinu sjálfu.

Hvort vel hafi til tekist, líkt og Jón Torfi bindur vonir við, verður tíminn að skera úr um. Gríðarlegar áskoranir hafa mætt starfsfólki í skóla- og frístundastarfi borgarinnar vegna COVID-19. Þessar áskoranir hafa víða tafið upphaf og framkvæmd verkefna, líkt og minnst var á hér að framan. Um leið hefur komið í ljós hversu mikil nýsköpun, þrautseigja og fagmennska einkennir starfið í borginni. Stjórnendur og starfsfólk hefur stigið fram, unnið saman þvert á starfsstaði, prófað nýja tækni, gert breytingar, gert mistök, lært af þeim og haldið áfram að leiða skóla- og frístundastarf við aðstæður sem fyrir örfáum mánuðum hefðu þótt óhugsandi. Inntak menntastefnunnar og áherslur hafa í þeim verkefnum sem öðrum verið leiðarljós og stuðlað að sameiningarkrafti sem er undirstaða þeirrar samvirkni sem hér hefur verið lýst. Hluti af því er hæfnin til að skapa nýjar lausnir til þess að bregðast við flóknum áskorunum.

Í bókinni The Innovator‘s Mindset: Empower Learning, Unleash Talent, and Lead a Culture of Creativity heldur George Couros (2015) því fram að nýsköpunarhugsun snúist ekki um efnislega hluti eða tækni heldur felist í gróskuhugarfari og þeirri trú að fjölbreytt þekking, hæfni og eiginleikar móti jarðveg þar sem ólíkir einstaklingar skapi saman nýjar lausnir. Couros telur mikilvægt að öll þau sem vinna að menntun barna tileinki sér nýsköpunarhugsun. Þau eru líklegust til að skilja og þekkja þarfir barnanna, geta sett sig í þeirra spor og vita hvað virkar og hvað virkar ekki. Drifkraftur þeirra kennara sem þróa lausnir til að bregðast við áskorunum er stærsta hreyfiaflið í þróun menntakerfisins, eins og Jón Torfi bendir einnig á. Við lifum í sífellt flóknari veröld og mögulega er það þessi nýsköpunarhugsun og samvinna sem hjálpar okkur að takast á við menntun til framtíðar fyrir fjölbreyttan barna og ungmennahóp.

Þær almennu aðgerðir sem hefur verið fjallað um hér að framan eru liður í innleiðingu Menntastefnu Reykjavíkur sem hófst 2019 en fyrsta áfanga hennar lýkur haustið 2021. Stefnan sjálf gildir til ársins 2030. Nýlega hefur skóla- og frístundaráð samþykkt að stofnaður verði Framtíðarhópur sem ætlað er að leggja grunn að nýrri aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Í þeirri vinnu verður litið til þess hvernig til hefur tekist þessi fyrstu ár.

Heimildir:

Couros, G. (2015). The Innovator‘s Mindset: Empower Learning, Unleash Talent, and Lead a Culture of Creativity Dave Burgess Consulting, Inc.

Jón Torfi Jónasson. (2020). Fátt mun breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum. Skólaþræðir 21. desember https://skolathraedir.is/2020/12/21/jon-torfi-drifkraftur-kennara/

Helga Sigríður Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir. (2020). Samvirkni og samvinna í þróunar- og umbótastarfi. Netla 26. mars https://ojs.hi.is/netla/article/download/3146/1861

 


Fríða Bjarney Jónsdóttir Fríða Bjarney Jónsdóttir er deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fríða er leikskólakennari í grunninn með meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu og starfaði um árabil sem leikskólakennari, ráðgjafi og verkefnastjóri fjölmenningar. Hún hefur unnið að rannsóknum á sviði fjölmenningarlegs skólastarfs og komið að útgáfu námsefnis og fræðigreina á því sviði auk þess að sinna kennslu og stunda doktorsnám við Menntavísindasvið HÍ.

Hjörtur Ágústsson er verkefnastjóri alþjóðasamstarfs og styrkja hjá Nýsköpunarmiðju Menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Hjörtur hefur víðtæka reynslu af umsýslu styrkja og alþjóðasamvinnu í æskulýðsstarfi og menntamálum hjá Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, fyrst hjá Evrópu unga fólksins og síðar hjá Rannís. Hjörtur er með BA gráðu í Nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómu í Evrópufræðum og Alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands þar sem hann hefur einnig sinnt stundarkennslu í tómstunda og félagsmálafræði við menntavísindasvið.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt: 20/1/2021
Látum draumana rætast

Fríða Bjarney Jónsdóttir

 

Í janúar 2017 var samþykkt einróma í borgarráði Reykjavíkur ályktun um að hefja mótun menntastefnu til ársins 2030. Vinnan hófst strax þá um vorið í víðtæku samráði fjölmarga aðila í skóla- og frístundasamfélagi borgarinnar. Gera má ráð fyrir að um 10.000 manns, börn, foreldrar, starfsfólk, stjórnendur og aðrir, hafi tekið þátt í samtali um mikilvægustu áherslur í menntun barna í borginni auk þess sem almenningur gat skilað inn hugmyndum í gegnum Betri Reykjavík. Leitað var til innlendra og erlendra ráðgjafa í ferlinu, en sú vinna var undir forystu dr. Pasi Sahlberg frá Finnlandi.

Menntastefna Reykjavíkur „Látum draumana rætast“ var samþykkt í borgarstjórn 20. nóvember 2018. Sú dagsetning, afmælisdagur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, er einkar vel við hæfi þar sem menntastefnan hvílir m.a. á samningnum. Í framtíðarsýn stefnunnar segir:

Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

Stefnan byggir á aðalnámskrám, fyrri stefnumörkun borgarinnar á ýmsum sviðum og starfsáætlunum frístundamiðstöðva. Sjónum er beint að börnum og menntun þeirra í formlegu og óformlegu námsumhverfi borgarinnar en þarfir barna, styrkleikar, áhugasvið og möguleikar til að ná árangri sem virkir borgarar eru þarna í forgrunni. Með menntastefnunni er leitast við að ná saman öllum þeim sem koma að menntun barna nú og til framtíðar innan skóla- og frístundastarfsins. Litið er svo á að menntun eigi sér stað í víðu samhengi. Þar er samstarf við foreldra lykilatriði auk þess sem lögð er áhersla á gagnvirkt samstarf við stofnanir og samtök, innan sem utan borgarinnar. Þessi heildræna áhersla á menntun barna í Reykjavík hefur vakið athygli, en bent hefur verið á að það sé einstakt, hérlendis sem og erlendis, að draga fram mikilvægi bæði formlega og óformlega námsins í menntastefnu.

Með stefnunni er lagður grunnur að framsæknu skóla- og frístundastarfi sem byggir á styrkleikum íslensks samfélags. Um leið er henni ætlað að mæta þeim áskorunum og tækifærum er felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum sem umbreyta uppeldisaðstæðum barna og hefðbundnum hugmyndum um menntun. Tilgangur stefnunnar er þríþættur að:

 • Ná víðtækri samstöðu um framtíðaráherslur,
 • Skerpa á forgangsröðun um mikilvægustu umbótaverkefni,
 • Þróa skóla- og frístundastarf í skapandi lærdómssamfélag sem mætir þörfum 21. aldarinnar.

Með hinu víðtæka samráði sem fór fram við mótun menntastefnunnar átti ákveðin grasrótarvinna sér stað, en það vakti athygli hversu sammála flestir þeir sem að samráðinu komu voru um lykiláherslur stefnunnar. Leiðarljós stefnunnar felast í því að líta á barnið sem virkan þátttakanda í mótun samfélags þar sem fagmennska og samstarf eu í öndvegi. Meginmarkmið stefnunnar hvíla á fimm grundvallarþáttum; félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði. Markmiðin fela m.a. í sér að „öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs“.

Hér má sjá dæmi um framlag nemenda til stefnunnar. Þessi atriði voru meðal þeirra sem fram komu á hugarflugsfundi þar sem þeir lýstu skoðunum sínum.

Með samþykkt menntastefnunnar má segja að vegferðin sé hafin, búið er að ákveða hvert skal stefna, en stærsti hluti verkefnisins, innleiðingin sjálf er framundan. Gera má ráð fyrir að á næstu þremur árum verði unnið að fyrsta hluta hennar. Í mars 2019 mun liggja fyrir innleiðingaráætlun unnin í samstarfi starfsfólks og stjórnenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Nú þegar hefur verið samþykkt að auka verulega framlög í þróunarsjóð skóla- og frístundaráðs þannig að allir geti hafið vinnu við innleiðingu stefnunnar. Þá hefur verið sett á laggirnar Nýsköpunarmiðja menntamála (NýMið) hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Hlutverk hennar er að styðja við nýsköpun í skóla- og frístundastarfi á grunni menntastefnu borgarinnar, auka og samræma ráðgjöf og fagþjónustu við skóla- og frístundastarf, efla símenntun og starfsþróun fyrir starfsfólk í samstarfi við háskóla og miðla niðurstöðum rannsókna í þágu skóla- og frístundastarfs í Reykjavík.

Að mínu mati felast fjölmörg tækifæri í því að innleiða framsækna menntastefnu þar sem raunveruleg áhersla er lögð á að jafna tækifæri allra barna til náms en þar þurfa margir og flóknir þræðir að vefast saman. Leggja þarf alúð við menntun og starfsþróun þeirra sem starfa í skóla- og frístundastarfi, tryggja þarf að úthlutun fjármagns taki tillit til félagslegs fjölbreytileika og vinna þarf að snemmtækri íhlutun og forvörnum alla skólagönguna. Þar gildir miklu að stuðningur og ráðgjöf sé á forsendum barnanna sjálfra og þeirra sem vinna með þeim. Erlendir fræðimenn hafa bent á að góð menntun snúist ekki um að börn séu svo heppin að lenda hjá góðum kennara eða í góðum skóla. Gott menntakerfi stuðlar markvisst að því að börn hljóti framúrskarandi menntun frá leikskóla til fullorðinsára. Slíkt menntakerfi felur í sér sameiginlega ábyrgð allra þar sem unnið er að því að efla kennaramenntun og starfsþróun, þróa fjölbreytta starfs- og kennsluhætti og tryggja samstarf menntastofnana við foreldra, aðrar stofnanir og félagasamtök (Hargreaves og Fullan, 2012; Sahlberg, 2017).

Það eru hinsvegar þrír þættir sem ég lít svo á að liggi til grundvallar en þeir eru samstarf, sjálfsþekking og trú á getu.  Allir fela þeir í sér mikilvægi þess að hver og einn sem starfar við menntun tileinki sér vaxtarhugarfar og vilja til þess að ígrunda eigið starf. Tengjast þessi atriði m.a. fjórðu leiðinni svokölluðu sem Oddný Sturludóttir (2018) fjallaði um á skemmtilegan og áhugaverðan hátt hér í Skólaþráðum. Minn draumur er að þessir þættir geti orðið grunnur að öflugu menntakerfi í Reykjavík þar sem fagmennska allra þeirra sem koma að menntun barna í borginni er í öndvegi.

Samstarf

Anna Kristín Sigurðardóttir (2018) hefur bent á að innan þeirra menntakerfa sem hafi náð góðum árangri sé lögð áhersla á samvirkni og markvisst umbótastarf sem byggir á faglegri ígrundun í rannsóknir og aðferðir. Grundvöllur að slíku menntakerfi byggist að stórum hluta upp í gegnum markvisst samstarf, teymisvinnu og fjölbreytt samtal. Opnum dyrnar í orðsins fyllstu merkingu, inn í skólann, inn í skólastofuna og um leið út í samfélagið. Í því sambandi er nærtækt að benda á niðurstöður norrænu rannsóknarinnar Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Education in multicultural societies  sem sýndu að með því að skapa traust á milli foreldra og kennara og eiga samtal um nám og velferð barna var byggð brú yfir í samfélagið sem auðveldaði fjölskyldum innflytjenda þátttöku (Hanna Ragnarsdóttir, 2015). Samtalið, samvinnan og sameiginlegur skilningur á menntun sem viðfangsefni þarf að eiga sér stað. Til þess að slíkt samtal megi þróast þurfum við að breyta ýmsu í menningu okkar innan menntakerfisins. Öll viljum við börnum það besta en okkur hættir stundum til þess að vera of fastheldin á eigin hugmyndir eða aðferðir og gleyma því að samtal um leiðir sem byggja á ólíkri sýn og reynslu leiða oft til bestu lausnanna. Grundvöllurinn að slíku samtali er „traust“ en áðurnefndur Sahlberg benti á það í vinnu við mótun menntastefnu í Reykjavík að breytingar gerist á hraða traustsins, þegar við erum farin að tala saman og treysta hvert öðru þá eru komin raunveruleg sóknarfæri til breytinga. Slíkt samtal þarf að mínu mati að vera marglaga, eiga sér stað innan barnahópanna, innan deildarinnar í leikskólanum, bekkjarins í grunnskólanum og hópsins í frístundastarfinu. Það þarf einnig að eiga sér stað innan kennarahópsins og starfsmannahópsins alls á hverjum stað en líka á milli foreldra og starfsfólks, vettvangs og fræðasamfélags, stefnumótenda, kennarafélaga og annarra.

Í tengslum við þróun menntakerfisins í Kanada, m.a. Alberta[1] og Edmonton, hefur verið unnið markvisst að því undanfarin ár að auka samvirkni og leiða nýsköpun í menntun með markvissum hætti undir formerkjum þess sem á íslensku mætti kalla samfélagslega nýsköpun (e. social innovation). Hún tengist í mínum huga lýðræðisstarfi og þróun lærdómssamfélagsins en gengur öllu lengra því hún felur í sér aukna samvirkni með því að skapa samtal við mikilvæga hagsmunaaðila í hvert sinn sem verið er að þróa leiðir til að takast á við áskoranir. Þannig er ekki hægt að leysa flóknar samfélagslegar áskoranir (svo sem eins og menntun fyrir alla, nám innflytjenda eða áhrif nýrrar tækni á líðan og heilsu ungmenna) með einföldum lausnum án þess að fara í samtal við börnin sjálf, foreldra þeirra, kennara eða aðra sem þekkja vel til. Samfélagsleg nýsköpun felur í sér samtal og samræðu sem byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir því að ólík reynsla skapi grundvöll að þróun nýrra aðferða til að leysa flókin mál (e. wicked problems). Þeir sem taka þátt í samtalinu þurfa að setja sig í spor hvers annars og leitast við að skilja sjónarhorn annarra. Samfélagsleg nýsköpun er þannig mannúðleg og sjálfbær nálgun þar sem leitast er við að leysa flóknar áskoranir í nútíma samfélagi með því að byrja á því að greina vandann, skapa tilgangsríkt samtal um lausnir og framkvæma.

Áhugavert er að skoða þessar hugmyndir í samhengi við það hvernig við þróun samstarf innan okkar eigin starfsstaða. Bent hefur verið á mikilvægi teymisvinnu og teymiskennslu en þá er gott að spyrja sig hverjir koma að því samstarfi. Hverjir taka þátt í teymisvinnunni og hverjir eru kallaðir að borðinu til að þróa lausnir og fjölbreytta kennslu- og starfshætti? Til þess að teymisvinna og teymiskennsla skili árangri fyrir barnið verður eftir fremsta megni að skapa traust á milli fagstétta og hleypa öllum þeim sem geta lagt sitt af mörkum til að bæta menntun barna inn í samtalið. Foreldrar og fjölskyldur eru þarna í lykilstöðu. Gefa þarf foreldrum skýra hlutdeild í námi barna sinna, ekki á yfirborðslegan hátt með því að segja „þið eruð alltaf velkomin“ heldur með því hvetja þá ákveðið til að stíga fram. Það þarf að ljá ólíkum röddum vængi og við þurfum að æfa okkur í að tala við þá sem tala ekki eins og við og hugsa ekki eins og við. Þetta snýst ekki um rétt eða rangt eða best eða verst heldur það að þora að tala saman, miðla málum og skapa sameiginlegan skilning.

Það er mín reynsla að um leið og við sem kennarar eða fagfólk gefum öðrum hlutdeild í viðfangsefninu — hvert sem viðfangsefnið er og hvort sem það snýr að börnum eða fullorðnum — þá fara allir að gefa af sér, og ástríðan fyrir verkefninu eykst. Mig dreymir því um samtal og samstarf innan faghópa, innan starfsstaða en líka á milli ólíkra skóla og starfsstaða því saman getum við svo miklu meira heldur en ein og sér.

Sjálfsþekking

Til þess að geta tekið þátt í samtali þar sem við setjum okkur í spor hvers annars og þróum sameiginlegar lausnir þurfum við að byrja á okkur sjálfum. Við þurfum að læra að þekkja okkur sjálf – viðhorf okkar og styrkleika um leið og við kynnumst þeim sem við störfum með alla daga. Viðhorf okkar, sýn og skilningur á því sem gerir okkur einstök skiptir máli við að brjóta niður múra innra með okkur sjálfum og skilja aðra. Strax á leikskólaaldri þurfa börn að læra að setja sig í spor annarra og skilja að með hegðun sinni, orðum og athöfnum hafa þau áhrif á umhverfi sitt. Við hin fullorðnu þurfum að muna eftir því að vera góðar fyrirmyndir, tilbúin að líta í eigin barm og endurskoða viðhorf okkar og gjörðir. Minn draumur er að skóla- og frístundastarf þróist á þann hátt að þar sé í öllum aðstæðum gert ráð fyrir fjölbreytileikanum, það sé litið á það sem eðlilegan hlut að alltaf komi inn ný börn með nýjar þarfir. Þannig verði skóla- og frístundastarfið í borginni lagað að þeim börnum sem þar eru hverju sinni fremur en að börnin séu löguð að starfinu (Edda Óskarsdóttir, 2017).

Okkar eigin sjálfsþekking, viðhorf og hæfni til að takast á við sífellt fjölbreyttari barnahópa leikur þar stórt hlutverk. Á vegg í Veröld – húsi Vigdísar er vitnað í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur sem lýsa vel hennar eigin vaxtarhugarfari: Allar skoðanir skal endurmeta um leið og ný viðhorf myndast. Gott er að hafa þetta í huga þegar við tökumst á við nýjar og stöðugt flóknari áskoranir í skóla- og frístundastarfi. Erum við tilbúin að líta fyrst í eigin barm, endurmeta eigið hugarfar og mæta framtíðinni á nýjan og skapandi hátt?

Trú á eigin getu og annarra

Það hefur löngum sýnt sig að miklar væntingar uppalenda til barna, trú fullorðinna á getu þeirra og aðferðir sem stuðla að því að þau upplifi sig tilheyra hafa grundvallaráhrif á sjálfsmynd þeirra, helgun til náms, ástríðu og viljann til þátttöku. Fræðikonan Sonia Nieto (2010) hefur bent á að jákvætt viðhorf og væntingar skólasamfélagsins til barna hafa grundvallaráhrif á möguleika þeirra til að ná árangri. „Blikið í augum barnanna,“ segir Nieto, gefur kennaranum til kynna að þau séu hæfileikarík, fær og verðug allrar athygli en til þess að kalla það fram þurfa kennarar að trúa einlæglega að öll börn geti lært. Jákvætt viðhorf og miklar væntingar til allra barna byggja á því að hinn fullorðni trúi því að þau séu fær og greind og geti lært, sama hver bakgrunnur þeirra er. Trú kennara á eigin getu hefur áhrif á trú þeirra á aðra. Talið er að kennarar með góða trú á eigin getu hafi jákvæð áhrif á þá þætti sem styrkja námsáhuga og sjálfstraust nemenda. Slíkur kennari er líklegri til þess að skapa lærdómssamfélag þar sem hann er stöðugt að endurskoða sjálfan sig, læra af nemendum sínum og þróa aðferðir sínar í starfi (Hanna Ragnarsdóttir og Fríða B. Jónsdóttir, 2016). Kennarar með góða trú á eigin getu líta svo á að hægt sé að kenna öllum nemendum og gefa þeim þau skilaboð að þeir geti lært. Um 25 grunnskólar í Reykjavík taka nú þátt í þróunarverkefni um leiðsagnarnám undir verkstjórn Nönnu Kristínar Christiansen verkefnastjóra á grunnskólaskrifstofu SFS. Þar er að finna góðar hugmyndir að verkfærum og leiðum til að vinna með aukna trú á eigin getu bæði í námi og kennslu. Vinnum að því að efla trú okkar á eigin getu og trúum á getu barna. Lítum á börn sem getumikil og tryggjum að þau verði virkir þátttakendur í að skapa sitt eigið umhverfi og samfélag og þróa menntun sem gerir þeim kleift að takast af aukinni þrautseigju á við daginn í dag og framtíðina.

Að lokum

Hér að framan hef ég dregið saman þá þrjá þætti sem ég tel einna mikilvægasta þegar kemur að aukinni fagmennsku og þróun menntakerfis.  Ég lít svo á að við stöndum á mikilvægum tímamótum, það eru spennandi tímar framundan og ég upplifi mikinn metnað fyrir því að öll börn geti látið drauma sína rætast í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi. Í tengslum við innleiðingu Menntastefnu Reykjavíkur verður lögð aukin áhersla á samstarf við háskóla um starfsþróun starfandi kennara og starfsfólks sem og samstarf um þróun á námi þeirra fagstétta sem koma að skóla- og frístundastarfi í borginni. Þessir þrír þættir þurfa að mínu mati að endurspeglast í öllu námi, bæði grunnnámi og starfsþróun. Við sem komum að skóla- og frístundastarfi í Reykjavík vinnum öll með framtíð landsins, tendrum blikið í augum okkar og um leið augum barnanna og leggjum metnað okkar í að skapa framtíðina saman.

Greinin byggir á erindi sem flutt var á málþingi Samtaka áhugafólks um skólaþróun um mótun menntastefnu til 2030 sem haldið var í byrjun nóvember 2018.

Heimildir:

Anna Kristín Sigurðardóttir (29.11. 2018). Innleiðing menntastefnu og gæði skólastarfs. Sótt af: http://menntavisindastofnun.hi.is/malstofa_29_november_innleiding_menntastefnu_og_gaedi_skolastarfs_0

Edda Óskarsdóttir. (2017). Þurfum að hætta að breyta nemendum. Sótt af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/09/25/urfum_ad_haetta_ad_breyta_nemendum/

Hanna Ragnarsdóttir og Fríða B. Jónsdóttir. (2016). Aðgengi tví- og fjöltyngdra barna að menntun á Íslandi. Í Dóra S. Bjarnason, Hermína Gunnþórsdóttir og Ólafur Páll Jónsson (ritstj.),  Skóli margbreytileikans, menntun og manngildi í kjölfar Salamanca (bls. 157-185). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Hanna Ragnarsdóttir (ritstj.). (2015). Learning spaces for inclusion and social justice: Success stories from immmigrant students and school communities in four Nordic countries. Report on main findings from Finland, Iceland, Norway and Sweden. Sótt af http://lsp2015.hi.is/sites/lsp2015.hi.is/files/sh/lsp_final_report_0.pdf.

Hargreaves, M. og Fullan, M. (2012). Professional Capital: Transforming Teaching in Every School. New York: Teachers College Press.

Nieto, S. (2010). The light in their eyes: Creating multicultural learning communities (10 ára afmælisútgáfa). New York: Teachers College Press.

Oddný Sturludóttir. (2018). Fjórða leið skólaumbóta. Frelsi til að kafa djúpt I. Sótt af: https://skolathraedir.is/2018/06/11/fjorda-leid-skolaumbota-frelsi-til-ad-kafa-djupt-i/ …

Sahlberg, P. (2017). Finnska leiðin 2.0. Hvað getur umheimurinn lært af breytingum í finnska skólakerfinu? Reykjavík: Félag grunnskólakennara.


Myndirnar með greininni eru fengnar hjá Reykjavíkurborg og eru frá stefnumótunarstarfinu.


Fríða Bjarney Jónsdóttir er deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fríða er leikskólakennari í grunninn með meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu. Undanfarin ár hefur hún sinnt starfi sem verkefnastjóri fjölmenningar hjá leikskólum borgarinnar auk þess sem hún hefur stundað doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.


[1] Sjá um þetta t.d. þessa grein Sævars Þórs Helgason í Skólaþráðum – tímariti Samtaka áhugafólks um skólaþróun.
Stefna í menntamálum – horft til Kanada

Sævar Þór Helgason

 

Það er margt spennandi að gerast í menntamálum á Íslandi og mörg tækifæri. Til þess að leggja mat á þróunina og gera sér grein fyrir því hvaða tækifæri eru áhugaverðust er mikilvægt að velta því fyrir sér hvaða augum skynsamlegast er að líta menntun og í kjölfarið meta um hvað umræða um menntamál snúist eða eigi að snúast. Páll Skúlason, heimspekingur og lengi rektor Háskóla Íslands sagði eitt sinn um íslenska menntakerfið:

Menntakerfið íslenska er fyrst og fremst réttnefnt fræðslukerfi, sem merkir einfaldlega að menntunin, sem það veitir, er fólgin í tiltekinni kunnáttu. Í skólum eiga nemendur að læra. Þeir eiga að læra að lesa, skrifa og reikna og öll önnur fræðsla byggir á þessum grunni. Og það sem er óumdeilt – en er hins vegar umdeilanlegt … – er að öll fræðslan sé og eigi að vera menntandi, þ.e.a.s. eigi að stuðla að þroska nemenda, gera þá hæfari sem manneskjur til að heyja lífsbaráttuna og njóta lífsins. (Páll Skúlason, 1987, bls. 340)

Í ljósi þessarar gagnrýnu skoðunar Páls beini ég sjónum að þremur mikilvægum atriðum. Í fyrsta lagi renna nafngiftir kerfisins stoðum undir þessa skoðun; löngum hefur verið talað um fræðslukerfi, fræðslulög og almenningsfræðslu. Í öðru lagi rennir margt í skipulagi og áherslum menntunar, einkum í prófakerfinu með áherslu á einkunnir, mat eða mælingar, stoðum undir þetta sjónarmið. Í þriðja lagi má þá spyrja, að því marki sem dómur Páls stenst, hvort hann eigi í einhverjum mæli enn við. Menntakerfið okkar sé ennþá aðallega fræðslukerfi með áherslu á tiltekna þekkingu.  Frá árinu 1987 hafa hugmyndir manna um skólastarf eða menntakerfið kannski ekki breyst svo mikið, en þó hafa vissulega verið samþykkt ný lög um grunnskóla og þrisvar sinnum hafa verið gefnar út aðalnámskrár á þessum tíma. Það er engin spurning að sú síðasta boðar talsverðar áherslubreytingar hvað varðar inntak skólastarfs sem koma til móts við það sjónarmið sem Páll er í raun að kalla eftir, það er að skólastarfið verði raunverulega menntandi.

Það er mikilvægt að hugsa um menntun og framtíð. Saga barnafræðslu í skyldunámsskóla á Íslandi er ekki löng og þær breytingar sem  orðið hafa á samfélagsháttum síðastliðna áratugi eru miklar. Þekking einstaklinga í nútímanum er ekki endilega meiri en áðurfyrr, en hún er önnur og aðgengi að upplýsingum og margskonar þekkingu er langtum auðveldara en áður. Það er meðal annars áhugavert að velta fyrir sér hvernig eða jafnvel hvort margvísleg tækni sem er í boði nýtist í skólum. Örar breytingar bæði á inntaki og starfsháttum samfélags og atvinnu, ekki síst tengt tæknimálum, fléttast inn í alla kima lífs okkar og eru oftast langt á undan breytingum í menntakerfinu.

Þess vegna er tímabært og brýnt að samfélagið spyrji sig og rifji upp: „Hver eru markmið menntunar?“ Er menntastefna á Íslandi háð duttlungum stjórnmálamanna sem vilja reisa sér bautasteina til dæmis í formi aðalnámskrár? Eða mótast menntastefna okkar af hugmyndum sem byggja á ígrundaðri umræðu um markmið annars vegar og vitneskju um alls kyns hraðar breytingar hins vegar? Getur verið að þau vandamál sem starfsfólk í menntakerfinu stendur frammi fyrir, séu mörg tilkomin vegna lausna og hugmynda fyrri kynslóða, sem kunna að vera úreltar?

Fyrirmynd frá Alberta fylki í Kanada

Það er áhugavert að horfa til annarra þjóða og velta fyrir sér hvað  vel er gert í menntamálum. Ég geri hér eitt dæmi að sérstöku umfjöllunarefni. Í Alberta fylki í Kanada hafa kennarasamtök fylkisins tekið  frumkvæði með vinnubrögðum sem eru um margt til fyrirmyndar og opna ýmsar nýjar gáttir. Innlendir og erlendir fræðimenn, sérfræðingar í menntamálum voru kallaðir til og málin krufin og nýjar áherslur lagðar. Þau sjónarhorn og viðfangsefni sem kennarasamtökin hafa sett á oddinn, beindu athyglinni að samskiptum á milli fólks, margmenningu og þeim breytileika sem henni fylgir. Einnig var lögð áhersla á að byggja á fagmennsku þeirra sem vinna í kerfinu og að því lykilatriði að þróun menntunar og skólastarfs snúist um breytingar.

Þrír rauðir þræðir í stefnu þeirra eru jöfnuður, traust og stuðningur. Þegar kemur að nánari útfærslu hugmyndanna, með tilliti til breytinga á skólastarfi, horfa þeir til þriggja sviða sem þróunin innan skólans á að miða við. Það er nám nemenda, starf skóla og kennara og þriðji þátturinn eru þau atriði menntunar sem snúa að samfélaginu og þátttöku í því. Í þessum þriðja þætti eru tengslin við samfélagið með samráði við fjölda aðila og kynningum til þeirra sérstaklega mikilvæg.

Til þess að skýra hugmyndir sínar hafa samtökin sett þessi þrjú lykilsvið fram í töflu undir heitunum: nám, kennsla og samfélag. Síðan er þríþætt eðli þróunar undirstrikað;  það verði sífellt að gera eitthvað nýtt, en samt sem áður á vitaskuld að halda áfram mörgu af því sem gert er fyrir, og að nýjabrumið krefjist þess að eitthvað verði að leggja af. Það kann að vera erfiðast. Hverju sviðanna þriggja er því skipt í þrennt undir yfirskriftinni: Haldið áfram að … Byrjið að … og Hættið að… . Sem dæmi má nefna að lagt er til að haldið verði áfram að leggja áherslu á jafnræði sem hreyfiafl opinbera menntakerfisins og að treysta mati kennara og skólastjórnenda á námi nemenda.

Áhersla er lögð á að hætt verði að líta á nemendur sem viðföng skólakerfisins, en að frekar verði litið á þá sem samstarfsaðila. Að sama skapi séu kennarar hvattir til að þróa námskrár í gegnum faglega símenntun. Stutt verði við frekari þróun sérfræðiráða innan kennarasambandsins með það að markmiði að styðja við þróun námskrár og kennsluhátta. Það má ekki gera lítið úr faglegri dómgreind kennara með innleiðingu miðstýrðs mats og annarra átaksverkefna heldur  þarf að leggja áherslu á að byggja upp faglega ábyrgð meðal kennara. Tryggja á að þróunaráætlanir skóla séu kynntar í samfélaginu og hætta að viðhalda óvissu um meginstefnu innan menntamálaráðuneytisins. Í þessu felst framsýni, raunsæi og jafnframt gegnsæi. Það er ekkert farið í felur með að breytingar geta verið erfiðar og þeim fylgja oft átök. Þetta passar ágætlega við íslenskan veruleika, við þurfum eins og allir aðrir að velja og hafna.

Lögð er áhersla á að inntak náms og kennslu sé þvert á námskrá, þverfagleg. Þegar nemendur útskrifast  úr skóla  kunni þeir: Að læra, gagnrýna hugsun, að þekkja og leysa vandamál, meta upplýsingar, vinna að nýsköpun, að skapa sér tækifæri,  fjöllæsi (e. multimodal literacy), að tjá sig og vinna með öðrum, að skýra út menningarlegan mun á heimsvísu, að þekkja hæfileika sína og lífsleikni.

Jöfnuður þarf að vera drifkraftur þróunar og framkvæmdar menntastefnu svo að nemendur með mismunandi bakgrunn fái haldbæra góða menntun. Jöfnuður er meira en jöfn tækifæri eða aðgengi að lærdómi; það þarf að einstaklingsmiða fræðsluna til að búa öllum jöfn tækifæri til náms. Í fyrstu töflunni eru fjallað um nám nemenda.

Þegar ég rýni í alla þættina í starfinu sem kynntir voru, þá tel ég að mest spennandi sé að gaumgæfa hvað eigi að fá forgang í nýjum verkum, en jafnframt er ekki síður mikilvægt að skoða og ræða hvaða verklag, viðhorf eða viðfangsefni verði að leggja af. Stuðningur við kennara er mikilvægur, byggja þarf á framlögðum gögnum og taka þannig upplýstar ákvarðanir við breytingar.

Starf allra sem að skólunum koma á að meta reglulega. Fagleg þróun, vinna skóla að námskrám og eflingu kennsluhátta, mat á færni og félagsnet innan samfélagsins styðja við nám og eru meðal lykilforsendna fyrir þróun samfélagsins og skiptir því miklu máli að vanda til þeirra verka.

Í þessari menntastefnu Albertafylkis er megináherslan á nemandann og lærdómssamfélagið, minni áhersla á efnið. Kastljósið er á lærdóm og inntak. Breytt skuli frá stífum stundaskrám eða námsáætlunum og námskrám til meiri sveigjanleika. Lögð verði  áhersla á leiðsagnarmat, mögulegt sé að minnka prentað efni og fleiri form efnis verði notuð við námið. Einnig er lögð áhersla á fjölbreytt læsi, meðal annars stærðfræði og skilning sem grunn að þróun færni. Að sanngirni og áreiðanleiki verði í fyrsta sæti og menntamál drifin áfram af gildismati sem fólk er sammála um að séu grunnatriði. Til verði menntastefna sem ekki er kvikað frá.

Menntastefna á Íslandi

Núverandi menntastefna á Íslandi byggir á sex grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun sem  koma fram í aðalnámskrá grunnskóla eru að mínu mati mjög mikilvægir (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 16). Ekkert er nýtt undir sólinni var einhvern tíma sagt. Andri Snær Magnason sagði í bók sinni Draumalandið (2006):

Hugmynd æðir yfir heiminn og sýkir menn sem leggja allt að veði. Þeir vita innst inni að ef þeir bíða fer hugmyndin annað. Eða enn verra: Líklega er hugmyndin á þeirri sömu stundu að angra einhvern annan. Hugmynd er harðstjóri, sá sem býr við ógnarstjórn hugmyndar opnar blöðin á hverjum morgni með  hnút í maganum og óttast að sjá að einhver annar hafi landað henni.

Hugmyndin að námskránni íslensku hefur ekki orðið til í einhverju tómarúmi og margt líkt var að gerast í námskrárþróun í heiminum þegar vinna við íslenska aðalnámskrá fór fram. Evrópusambandið gaf til að mynda út menntaáætlun með mikilvægum lykilþáttum árið 2006 þar sem meðal annars átti að huga að borgaravitund byggða á skilningi og virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði, auk umburðalyndis og virðingar gagnvart öðru fólki og menningarheimum. Grunnþættir eða lykilfærniþætti menntunar í Svíþjóð voru kynnt 2010 (sjá m.a. Patrick Hernwall, 2010). Þar áttu lykilfærniþættir að snúast um: móðurmál, erlend tungumál, stærðfræði og efni henni tengt, tæknikunnáttu, sérstaklega að nýta internet,tölvur og tölvutengd tól. Einnig var lögð áhersla á námstækni, að vera upplýstur og meðvitaður um samfélag sitt og heiminn, lífsleikni, frumkvæði, samhygð, virðingu og samvinnu. Að auki gagnrýnin hugsun, menning og sköpun.

En með því að nota þessi yfirgripsmiklu og mikilvægu regnhlífarhugtök sem ná yfir flest sem snertir þroska einstaklings og þátttöku hans í mannlegu samfélagi getur málið orðið flókið í framkvæmd.

Framtíðin snýst að miklu leyti um aðgengi. Nám og kennsla verður margslungið félagslegt atferli þar sem  tjáning og samskipti skipa sífellt veigameiri sess. Við vitum ekki hvaða ný tæki eða tækni verður tiltæk í framtíðinni. Það er til dæmis líklegt að línuleg sjónvarpsdagskrá heyri sögunni til innan tíðar. Segja má að svipuð staða sé í menntamálum. Nám og kennsla breytist frá því að vera línuleg í það að verða bundin aðstæðum, en samt hvorki háð tíma né rúmi. Sjónvarpið var einstefnumiðill – og á vissan hátt verður það áfram, en kennsla verður áfram og í auknum mæli styðjandi og leiðsegjandi og jafnframt sveigjanlegri. Þar verður samvinna og samræða einnig fyrirferðamikil. Í kjölfar snjallsíma- og spjaldtölvuvæðingar sem  fór á flug strax  árið 2010 hefur orðið til ný hugmyndafræði í skólastarfi sem gerir ráð fyrir að allir hafi með sér sín eigin verkfæri, einkum tölvur. Á ensku kallast þetta, „Bring Your Own Device, BYOD“. En er skólinn þá að leiða til jöfnuðar? Hafa allir nemendur aðgang að tækjum? Það er ekki ljóst, og er jafnvel ólíklegt. Þá verður að horfast í augu við það. Það er mikilvægt að fólk vinni náið saman með skýra framtíðarsýn sem allir skilja á sama hátt og geri sér grein fyrir hvað í henni felst í raun. Það skiptir máli að fólk hafi væntingar; til hvers annars, til náms og menntunar nemenda. Hafi tækifæri til að ígrunda starf sitt og ræða starfið og starfshætti við samstarfsfólkið.

Ísland í dag

Í júní 2014 gaf Mennta- og menningarmálaráðuneyti út Hvítbók um umbætur í menntun. Þar er talsvert rætt um mikilvægi samráðs þeirra sem  láta sig menntun varða og jafnvel gengið svo langt að lýsa góðri reynslu af þess háttar samstarfi í öðrum löndum.

Erlendis hafa menn víða öðlast þekkingu og reynslu í umbótum á menntakerfinu. Farsælast þykir að setja fá en metnaðarfull markmið, sem viðtæk samstaða næst um og vinna má markvisst að til langframa. (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2014, bls. 3)

Í Hvítbókinni segir jafnframt að hún eigi að skapa grundvöll til umræðu og aðgerða. Ætlunin sé að kalla alla til sem láta sig menntun varða til þess að leggja hönd á plóg. Þetta sjónarmið er að mínu mati til fyrirmyndar, ekki síst að kalla framkvæmdaraðila stefnunnar, kennarana, til virks samráðs um mótun hennar, þótt það virðist ekki hafa verið gert. Kennarasambandið bendir á þess brotalöm:

Fyrir ári gaf menntamálaráðherra út Hvítbók um umbætur um menntun með áherslu á læsi, námstíma og starfsmenntun og í kjölfarið voru stofnaðir verkefnahópar til að gera tillögur um aðgerðir á þessum þremur sviðum. KÍ óskaði eftir formlegri þátttöku í þeirri vinnu sem menntamálaráðherra varð ekki við (KÍ. Hvítbókarvinna 2015).

Þetta er mikið umhugsunarefni. Bæði OECD í sínum skýrslum og rannsóknir á starfi kennara og skóla er hamrað á miðlægu hlutverki kennara. Það er lykilatriði að treysta skólunum og kennurunum þar. Þeir eigi að framkvæma stefnuna og þeir þekkja best allra til hins daglega skólastarfs og  verði þess vegna að eiga hlutdeild í mótun hennar.

Eru margar leiðir að sama marki?

Einn þeirra sérfræðinga sem  kom að vinnu kennarasamtakanna í Alberta, Stephen Murgatroyd (2014), telur að í raun standi flest menntakerfi sem taka þátt í alþjóðlegri þróun menntunar frammi fyrir tveimur ólíkum menntastefnum; stefnum sem berjist um hylli þeirra sem ráða ferð.

Annars vegar er það sem kalla mætti á íslensku hnattræna umbótastefnuna, en á ensku hefur hún gengið undir heitinu, GERM (Global Education Reform Movement) á meðal gagnrýnenda hennar. Aðalsmerki hennar eru miklar væntingar og nám fyrir alla í gegnum internetið. Það felist í einstaklingsmiðuðu námi með grunnfögum, stöðlum, prófum og prófamiðuðu umhverfi og ábyrgð. Þar sem gerðar eru stöðugar breytingar og stefnan er byggð á  gagnasöfnun bæði um einstaklinga og skóla. Segja má að menntaumbætur sem flokkaðar eru undir þetta heiti, hafi komið fram á sjónarsviðið um 1980 og hafi náð fótfestu innan margra menntakerfa. Þær hafa  sennilega verið mest áberandi í Bandaríkjunum, á Englandi, í Ástralíu, en þó víðar. Það er ákveðin kaldhæðni í því að nota skammstöfunina, GERM eða „sýkill“, en í nafngiftinni felst hörð gagnrýni. Þær hugmyndir sem þarna eru spyrtar saman spegla saman hagsmuni alþjóðlegra stofnana og einkafyrirtækja og umbætur í menntamálum eða ákveðna stefnumótun í menntamálum. Að mati þeirra gagnrýnenda sem Murgatroyd talar fyrir er besta leiðin til að forðast „sýkilinn“ að undirbúa kennara og stjórnendur skólanna vel undir krefjandi starf. Á Íslandi og í Finnlandi verða allir kennarar að hafa meistaragráðu í kennslufræðum eða í þeim námsgreinum sem þeir kenna. Fleiri lönd, meðal annars hin Norðurlöndin fikra sig í þessa átt. Það tryggir að kennarar séu vel undir það búnir sem þeir gera í kennslustofunum og þeir skilji vel hvernig  hægt er að breyta námi og kennslu. Skólastjórnendur eru einnig sérfræðingar, þeir geta leitt breytingar í menntamálum og  verndað skóla og skólakerfið frá skaðlegum „sýklum“ (Sahlberg, 2012).

Stephen Murgatroyd kynnir hins vegar stefnu, sem hann talar fyrir, sem er byggð á jöfnuði. Jöfnuður  er drifkraftur menntakerfisins og honum fylgir breið námskrá þar sem lögð er áhersla á að rækta frumkvöðla og nýsköpun. Námsmat er öðruvísi en almennt tíðkast og er aðallega leiðbeinandi, en áhersla ekki lögð á dóm eða samanburð. Kennarinn og kennslan verða í brennidepli, frekar en fyrirmæli stjórnvalda og með því er kallað eftir trausti allra hlutaðeigandi aðila – skóla, heimila og samfélags. Í trausti felst gagnkvæmni og rík áhersla er lögð á faglega ábyrgð. Mikilvægt er talið að læra af fyrri athöfnum, þ.e. reynslunni og menntastefnan mótast þannig á grundvelli rannsókna.

Hvað á að gera? Hver eru næstu skref?

Þurfum við hér á landi að taka afstöðu og velja hvora leiðina við viljum fara? Það er að mínu mati óskynsamlegt að búa til tvo afdráttarlausa kosti. Menntamál eru alltof margslungin til þess að umræða um menntastefnu sé, eða geti verið svarthvít, þannig að maður sé annað hvort alfarið með eða á móti tilteknum hugmyndum eða útfærslum. Flestir eru á einu máli um mikilvægi menntakerfisins, en það er ekki jafn augljóst hvernig á að viðhalda því, hvað þá að endurnýja það.

Menning og viðhorf eru sterkir áhrifaþættir sem koma í ljós þegar við skoðum og ræðum verkefni skólanna og breytast ekki í einu vetfangi. Það þarf að leggja stöðuga vinnu í endurskoðun markmiðanna eins og felst í orðum Páls Skúlasonar hér að framan. Það þarf að skoða kerfið í heild og ræða af yfirvegun hvað er vel gert, hvað má gera betur og hverju við skulum draga úr eða hætta. Við eigum öll okkar sögu, persónulega og félagslega, reynslu og bakgrunn sem gerir okkur að þeim manneskjum sem  við erum. Starfsemi skólanna er í eðli sínu flókin og menntun á að efla mennsku okkar. Styrkja okkur sem einstaklinga og samfélagsborgara og búa undir fjölbragðaglímur framtíðarinnar. Það er óskandi að sameiginleg reynsla og bakgrunnur geti sameinað okkur í að taka næstu skref í átt að bættu menntakerfi. Ekki að þessari þrautargöngu ljúki nokkurn tíma. Vonandi mun  íslenskt menntakerfi og menntastefna stuðla að þroska nemenda, gera þá hæfari sem manneskjur til að heyja lífsbaráttuna og njóta lífsins í óræðri framtíð. Menntun er verkefni sem við fáumst við út lífið. Menntun þarf að byggja á trausti allra hlutaðeigandi, metnaðarfullri, framsækinni og ögrandi hugsjón með kennara og skólastjórnendur í framvarðarsveit umræðunnar um menntun og framtíð.

Heimildir

Andri Snær Magnason. (2006). Draumalandið. Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Reykjavík: Mál og menning.

ATA. The Alberta Teachers‘ Association. (2015). Renewing Alberta‘s promise: A great school for all. Sótt 5.10.15 af www.teachers.ab.ca

Evrópusambandið. (2006). Lög Evrópusambandsins. Key competences for lifelong learning. Sótt 4.12.15 af http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=URISERV%3Ac11090

Kennarasamband Íslands.  Ýmislegt, hvítbókarvinna. Sótt 6.11.15 af http://ki.is/skolamal/ymislegt/hvitbokarvinna

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013. Reykjavík: Höfundur.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2014). Hvítbók um umbætur í menntun. Reykjavík: Höfundur. Sótt 2.11.15 af http://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir/Hvitbik_Umbaetur_i_menntun.pdf

Páll Skúlason. (1987). Menntun og stjórnmál. Pælingar. Reykjavík: Ergo.

Patrick Hernwall. (2010). Mediatekniken i dag och barns forandrada vilkor.  Sótt 4.12.15 af http://www.slideshare.net/hernwall/nordsprk-20101030

Sahlberg, P. (2012). Global educational reform movement is here! Sótt 30.11.15 af  http://pasisahlberg.com/global-educational-reform-movement-is-here/

Murgatroyd, S. (2014, mars). Rethinking equity a great school for all (Myndband). Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=0jgf-gU2EkQ


Sævar Þór Helgason er skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði. Lauk B.Ed. frá KHÍ 2000 og meistaraprófi frá HÍ 2016. Varð skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði haustið 2016. Greinin var skrifuð undir handleiðslu Jóns Torfa Jónassonar prófessors á námskeiði á Menntavísindasviði.