Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

menntabúðir

Menntabúðir í starfsþróun kennara – Þær virka á netinu! 

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Höfundar ásamt Ingvari Sigurgeirssyni á vinnufundi um fjarmenntabúðir. Efst: Sólveig Zophoníasdóttir, Salvör Gissurardóttir, Sólveig Jakobsdóttir. Fyrir miðju: Ingvar Sigurgeirsson, Hróbjartur Árnason, Kristín Dýrfjörð. Neðst: Svava Pétursdóttir.

Sólveig Jakobsdóttir, Hróbjartur Árnason, Kristín Dýrfjörð, Salvör Gissurardóttir, Sólveig Zophoníasdóttir og Svava Pétursdóttir  

Upplýsingatækni í menntun, fjarnám og netkennsla hafa verið óvenju mikið í deiglunni á undanförnum misserum vegna COVID-19 faraldursins. Það er ekki bara heilbrigðiskerfið sem reynt hefur á og heilbrigðisstarfsmenn sem hafa staðið í eldlínunni heldur einnig skólakerfið og kennarar. Margir kennarar, ekki síst á framhaldsskólastiginu, hafa mikla eða töluverða reynslu af fjarkennslu (Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2020). En mjög mörgum var á hinn bóginn hent út í djúpu laugina varðandi fjar- og netnám og aukna nýtingu stafrænnar tækni þegar skólalokanir og samkomutakmarkanir skullu fyrst á nær fyrirvaralaust í mars 2020. Lesa meira…

Menntun og nám – sameiginleg vegferð nemenda og kennara: Um menntabúðir í Menntaskólanum á Akureyri

í Greinar

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, Arnfríður Hermannsdóttir og Eva Harðardóttir

 

Umbætur í skólastarfi tengjast nú í auknum mæli  miðlun þekkingar og upplýsinga sem og samskiptum kennara og nemenda. Á tímum heimsfaraldursins COVID-19 hefur upplýsinga- og samskiptatækni fengið umtalsvert stærri sess í skólahaldi en áður og það á undraskömmum tíma. Margir kennarar og nemendur hafa nú stigið inn í nýjan veruleika náms og kennslu þar sem stafrænar lausnir, samspil og samvinna leika stærra hlutverk en öllu jafna. Kórónuveiran hefur minnt alla, sem að skólahaldi koma, á hversu mikilvægt það er að deila reynslu okkar og upplifunum á jafningagrundvelli. Læra hvert af öðru og vera óhrædd við að kanna nýjar slóðir. Í þessari grein verður rætt um nýsköpunar- og þróunarverkefni í ofangreindum anda sem unnið hefur verið í Menntaskólanum á Akureyri á undanförnum þremur árum og hefur nú skipað sér mikilvægan sess í skólahaldinu. Lesa meira…

Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu?

í Greinar


Sólveig Jakobsdóttir

 

Um langt skeið hefur verið ljóst hversu mikilvæg starfsþróun og símenntun er fyrir kennara ekki síst á sviði upplýsingatækni og í síbreytilegu stafrænu landslagi (Sólveig Jakobsdóttir, McKeown og Hoven, 2010). Leiðir og möguleikar til starfsþróunar hafa jafnframt verið að þróast í takt við tæknina (Sólveig Jakobsdóttir, 2011). Kennarar og annað skólafólk hefur til dæmis haft góð tækifæri til að gefa hugmyndir og fá ráðgjöf og ábendingar á samfélagsmiðlunum en þar hafa myndast nokkurs konar stafræn kjörlendi (e. digital habitats, sjá Wenger, White og Smith, 2009) fyrir fjölmarga faghópa sem tengjast menntun, námi og kennslu. Þá hafa svokallaðar menntabúðir notið sívaxandi vinsælda um allt land til að deila þekkingu og reynslu.

Menntabúðir eru óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru og læra saman til dæmis á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur geta skipst á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Á ensku hafa hugtökin educamp (Leal Fonseca, 2011), edcamp og unconference (Carpenter, 2016; Carpenter og Linton, 2018; Carpenter og MacFarlane, 2018) eða teachmeet (Turner, 2017) verið notuð um þessa gerð fræðslu. Hún hefur reynst vel í starfsþróun kennara. Lesa meira…

Fara í Topp