Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

leiðsagnarnám

Námskraftur eykur áhuga og ábyrgð nemenda á náminu

í Greinar

Hjördís Þorgeirsdóttir

 

Þessi grein er byggð á starfendarannsókn sem ég gerði sem félagsfræðikennari í Menntaskólanum við Sund frá 2017 til 2022 um leiðsagnarnám og námskraft nemenda. Hér beini ég athyglinni að námskraftinum sem er mjög mikilvægur til að auka áhuga og ábyrgð nemenda í fjölbreyttri verkefnavinnu sem leiðsagnarnám grundvallast á. Ég fékk rannsóknarstyrk frá Kennarasambandi Íslands, skilaði skýrslu um hana 2020 (sjá hér). Haustið 2017 var ég að hefja kennslu á ný eftir að hafa verið konrektor við MS í 15 ár.  Þá var nýbúið að taka upp nýtt þriggja anna kerfi í MS með þremur jafnlöngum önnum, haust-, vetrar- og vorönn. Hver önn hefur 50 kennsludaga og 10 námsmatsdaga sem er dreift yfir önnina. Við hættum með lokapróf og hefðbundinn prófatíma en höfum nú símat í öllum áföngum. Nemendur eru í fjórum til fimm námsgreinum á önn og aðeins þremur á hverjum degi í kennslustundum sem eru 80 til 120 mínútur að lengd. Þetta er mjög góður jarðvegur fyrir leiðsagnarnám byggt á verkefnabundnu námi. Þegar við breyttum yfir í verkefnabundið nám þá fluttist áherslan frá kennslu yfir í nám og við fórum að hugsa meira um að fá nemendur til að læra að læra. Það kom í ljós hvað það skipti miklu máli að nemendur hefðu trú á eigin getu, hefðu áhuga á náminu og gætu bæði unnið sjálfstætt og með öðrum nemendum. Þá kom hugmyndafræðin um námkraftinn sterk inn hjá okkur. Lesa meira…

Lokaverkefni byggð á hugmyndum eflandi kennslufræði

í Greinar

Helga Birgisdóttir og Sigríður Halldóra Pálsdóttir

 

Allt nám hefur mótandi áhrif á einstaklinga og í því er fólginn vegvísir.  Við Tækniskólann hefur frá hausti 2016 verið starfrækt stúdentsbrautin K2: Tækni- og vísindaleið. Á brautinni er markvisst unnið með þá hugmyndafræði að til að árangursríkt nám geti farið fram þarf að bjóða nemendum  upp á efnivið sem ýtir undir virkni þeirra og tengist daglegu lífi og áhugaverðum málefnum. Á brautinni eru alla jafna þrjár bekkjardeildir í þremur árgöngum og er námið lagt upp þannig að hverri önn er skipt upp í tvær spannir. Nám og kennsla á K2 hefur frá upphafi verið skipulagt með það að leiðarljósi að gefa nemendum tækifæri á að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum í umhverfi sem er bæði skapandi og örvandi. Á brautinni er nú, um sjö árum eftir stofnun hennar, höfuðáhersla á verkefnastýrt nám þar sem hugmyndafræði leiðsagnarnáms er í forgrunni.

Tilgangur þessarar greinar er ekki að fjalla um þá bók- og verknámsáfanga sem eru til grundvallar stúdentsprófi á brautinni, heldur að skoða sérstaklega lokaverkefni sem eru á dagskrá nemenda svo til hverja önn, þróun þeirra og framtíðarsýn. Þessi lokaverkefni eru þverfagleg og byggð í kringum grunnþætti menntunar, eins og þeir eru settir fram í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011), auk þess sem unnið er með ákveðna þætti sem tengjast lykilhæfni og hæfniviðmiðum þeirra faggreina sem tengjast hverju verkefni fyrir sig.

Hér verður gerð grein fyrir þróun, skipulagi og framtíð lokaverkefnanna og þeim kennslu- og námsaðferðum sem þar er beitt með sérstakri áherslu á það hvernig hægt er að vinna á skapandi hátt en um leið í takt við aðalnámskrána og skapa þannig vegvísa framtíðar fyrir nemendur okkar. Stiklað verður á stóru um hugmyndafræðina, fjallað um samstarfsaðila og ólík viðfangsefni, virkar náms- og kennsluaðferðir, markmið, hæfniviðmið, lykilþætti og námsmat. Lesa meira…

Umsögn um bókina Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað?

í Ritdómar

Fiona Elizabeth Oliver

Nýlega kom út bókin Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað? eftir Nönna Kristínu Christiansen. Það er ekki á hverjum degi að út kemur bók um kennslufræði á íslensku, að ekki sé minnst á bók um námsmat! Ritstjórn Skólaþráða leitaði til Fionu Elizabeth Oliver, enskukennara í Víkurskóla og bað hana að skrifa um bókina. Fiona tók þessu erindi vel enda mætti hún skrifa á móðurmáli sínu! Umsögn hennar er hér, en íslensk þýðing fylgir (sjá neðar). Lesa meira…

Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað?

í Greinar

Nanna K. Christiansen

 

Ný bók Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? er væntanleg eftir miðjan apríl. Höfundur er sú sem þetta ritar.

Eins og nafnið ber með sér er umfjöllunarefnið leiðsagnarnám. Fjölmargar erlendar bækur hafa verið skrifaðar um leiðsagnarnám og efni sem því tengist. Í bók Ernu Ingibjargar Pálsdóttur Fjölbreyttar leiðir í námsmati, að meta það sem við viljum að nemendur læri, er greinargóður kafli um leiðsagnarmat. Í nýju bókinni er fléttað saman fræðilegri umræðu, reynslu þekkingarskóla í leiðsagnarnámi, ráðgjöf og hagnýtum verkefnum með það að markmiði að styðja við einstaka kennara og skóla sem vilja stuðla að auknum framförum nemenda.

Síðustu árin hefur áhugi kennara á leiðsagnarnámi aukist verulega. Sem dæmi má nefna að námskeið og fræðslufundir um leiðsagnarnám sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur (SFS) stendur fyrir eru jafnan afar vel sótt og margir skólar bæði á grunn- og framhaldsskólastigi hafa markvisst lagt sig fram um að tileinka sér áherslur þess. Í gildandi aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla er lögð rík áhersla á leiðsagnarmat, sem er í rauninni sama orðið og leiðsagnarnám, hugmyndir um áherslur hafa hins vegar breyst. Í námskránum segir: Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011, 3.1; Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, 3.1.). Þessi orð endurspegla merkingu hugtaksins leiðsagnarmat/-nám en megintilgangur þess er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir  stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli. Þetta gæti virst einfalt er raunin er önnur. Horfa þarf til námsmenningar skólans í heild sinni, allt frá viðhorfum og væntingum kennara til skipulags náms og kennslu. Lesa meira…

Allir í bátana, gerum þetta saman – um starfendarannsóknir í Dalskóla

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Hildur Jóhannesdóttir

 

Í þessari grein segir Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla frá  starfendarannsóknum, en þær eru ein af undirstöðum þess að lærdómssamfélag hefur þróast í skólanum. Eins og hugtakið lærdómssamfélag ber með sér verður til aukin þekking ef næst að þróa starfsaðferðir sem fela í sér miðlun þekkingar og verklags á milli kennara, teyma og samstarfshópa. Tilgangur lærdómssamfélags í skólum er að auka gæði kennslunnar og alls starfs með nemendum. Starfendarannsóknir styðja við lærdómssamfélagið því hver rannsókn sem gerð er miðar að auknum gæðum kennslunnar og skólastarfsins. Ásetningur rannsakandans eða hvers rannsóknarhóps er að auka hæfni sína og þekkingu til hagsbóta fyrir nám nemenda og að hafa áhrif á þróun skólastarfs í skólanum með beinum hætti. Lesa meira…

Fara í Topp