1

Skólaumbætur í deiglu – inngangsorð Guðnýjar Helgu Gunnarsdóttur

©Kristinn Ingvarsson
Starfsmannamyndir

Guðný Helga Gunnarsdóttir

 

Ég hóf minn kennsluferil á miðstigi í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og þar var mikið að gerast á þessum tíma. Þar var unnið að þróunarverkefni sem fólst í því að draga úr heimanámi nemenda og var sérstökum heimanámstímum bætt við stundaskrá allra nemenda. Einng fór fram tilraunakennsla á nýju námsefni í samfélagsfræði fyrir yngsta stig og starfaði fólk við skólann sem vann með hópi námsefnishöfunda hjá menntamálaráðuneytinu að að endurskoðun náms- og kennsluhátta í samfélagsfræði og var gjarnan kallaður samfélagsfræðihópurinn. Mikil áhersla var lögð á hópvinnu í öllum greinum og myndræna útfærslu á verkefnum nemenda. Mýrarhúsaskóli var einnig leiðandi í kennslu sex ára barna sem ekki var lögbundin þá þessum tíma og þar fór fram öflugt starf undir stjórn bæði menntaðra grunn- og leikskólakennara. Í skólanum fór einnig fram tilraunakennsla á nýju námsefni í stærðfræði. Ég kenndi meðal annars nýtt stærðfræðinámsefni eftir Agnete Bundgaard. Við þá kennslu fengum við kennarar stuðning frá námstjóra og kennsluráðgjöfum sem á sama tíma unnu að því að þróa og prófa nýtt íslenskt námsefni í stærðfræði. Á fræðslufundum sem haldnir voru reglulega hittum við líka kennara í öðrum skólum og heyrðum hvernig þeir voru að takast á við verkefnið sem mörgum fannst erfitt. Tónmenntakennari skólans tók virkan þátt í endurskoðun og gerð námsefnis í tónmennt. Einnig má geta þess að Mýrarhúsaskóli varð 100 ára 1975 og var haldin vegleg afmælishátíð af því tilefni þar sem nemendur unnu að ýmsum þematengdum verkefnum sem tengdust sögu skólahalds á Seltjarnarnesi.

Framboð á námskeiðum á þessum tíma var gott. Hér er yfirlit yfir þau námskeið sem ég sótti fyrstu árin, sem og þróunarverkefni sem ég tók þátt í.

  • Ágúst 1975 – námskeið um dönskukennslu
  • Júní 1976 – Tvö vikulöng námskeið um líffræðikennslu á Stórutjörnum í Þingeyjarsýslu
  • Júní 1977 – Tveggja vikna námskeið um líffræðikennslu í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi
  • Ágúst 1978 – Byrjendakennsla – vikulangt námskeið í Heiðarskóla í Leirársveit
  • Þróunarverkefni um notkun spila í kennslu veturinn 1976–1977
  • Tilraunakennsla á líffræðinámsefninu um manninn, veturinn 1977–1978

Á námskeiðunum var kynnt nýtt námsefni sem var í þróun og áhersla lögð á breytingar á kennsluháttum. Í kjölfar námskeiðanna fengum við tækifæri til að prófa hugmyndir í eigin kennslu og jafnvel tilraunakenna námsefni. Þá hittum við höfunda og aðra kennara sem voru að takast á við það sama. Þetta voru gríðarlega spennandi tímar.

Júnímánuður 1976 á Stórutjörnum líður mér seint úr minni og ég veit að svo er um ýmsa aðra hér. Ég fór á líffræðinámskeið sem var fyrstu vikuna í júní. Þar var áherslan á líf í fersku vatni og farnar voru fjölmargar vettvangsferðir til að safna sýnum og dýrum sem síðan voru skoðuð og greind. Þarna opnaðist fyrir okkur algjörlega nýr heimur. Samtímis var þarna námskeið um íslenskukennslu og annað um samfélagsfræðikennslu. Þetta var allt svo spennandi og skemmtilegt að ég gat ekki slitið mig frá þessu. Ég fékk leyfi til að sækja næsta líffræðinámskeið líka og ég flaug suður og sótti Þóru dóttur mína sem þá var fjögra ára tók hana með mér. Hún undi sér þarna vel og tók þátt í að skoða náttúruna og umhverfið. Eina nóttina fékk hún reyndar hálfgerða martröð því hún hafði verið að skoða stóra humlu í víðsjá mest allan daginn.

Allt var þetta starf unnið undir stjórn námstjóranna og þess fólks sem vann í samstarfi við þá að þróun og endurnýjun námsefnis og kennsluhátta. Ýmsir eru því miður fallnir frá – sumir hverjir fyrir aldur fram. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn því þá gleymist örugglega einhver en við minnumst þeirra með virðingu og þökk.

Haustið 1978 var mér falið að vinna verkefni sem tengdist stærðfræðikennslu fyrir skólarannsóknardeild undir leiðsögn og stjórn Önnu Kristjánsdóttur námstjóra. Í kjölfarið varð ég kennsluráðgjafi og síðar námstjóri í stærðfræði. Það var ómetanlegur skóli fyrir ungan kennara að fá tækifæri til að taka þátt í því starfi sem fór fram á vegum skólarannsókardeildar, fyrst árin 1978–1983 og síðar skólaþróunardeildar 1990–1992.

Við sem tókum þátt í starfi skólarannsókna- /skólaþróunardeildanna á einn eða annan hátt erum öll komin af léttasta skeiði og því fannst okkur mikilvægt að rifja upp þetta starf núna og miðla því til skólasamfélagsins í dag.

Allt starfsumhverfi skóla og kennara er vissulega gjörbreytt frá því sem áður var en kennarar kalla eftir meiri stuðningi við starf sitt og hugsanlega má draga einhvern lærdóm af því sem gert var á þessu merkilega tímabili í íslenskri skólasögu.


Guðný Helga Gunnarsdóttir er kennari að mennt. Hún hefur skrifað námsefni í stærðfræði og lengi verið ráðgefandi um stærðfræðimenntun. Guðný hefur nýlátið af störfum sem lektor í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.


Aftur á aðalsíðu