Að þekkja uppruna sinn: Nemendur skyggnast um á síðum Íslendingabókar, á vef Landmælinga Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum
Rósa Eggertsdóttir
Þegar móður minni fannst það eiga við sagði hún: „Þriðja kynslóðin gleymir“. Henni fannst fenna fljótt í spor forfeðranna. Nýjar kynslóðir væru fáfróðar ef ekki alls ófróðar um hagi fólks fyrr á tímum. Í bréfi sem hún skrifaði frænku sinni í nóvember 1940, segir m.a.:
Einu sinni ráfaði ég úti heila jólanótt í snjó og kulda með einum kunningja mínum, vegna þess að við áttum hvergi heima – mér fannst það ákaflega broslegt, næstum því grátbroslegt. … Allstaðar þar sem við gengum framhjá húsum sáum við ljósadýrð, glöð börn sem nutu þess að jólin voru komin. Við ráfuðum úti frá kl. 9 til kl. 5 um morguninn. Það sem mér fannst ergilegast var að samferðafélagi minn var alltof „melankólskur“ hann gat ekki notið þess að vera heimilislaus flökkukind og sjá jólin koma til annarra.
Skiptir það máli fyrir afkomendur að hafa vitneskju um kjör formóður sinnar á krepputímum? Er mikilvægt að vita að langamma eignaðist tíu börn, þar af náðu sjö fullorðinsaldri? Í janúar 1907 fæddi hún tvíbura, annar dó eftir viku. Níu mánuðum síðar missti hún mann sinn þegar bátur fórst með allri áhöfn, fimm manns. Hún varð í einni svipan ekkja með fimm börn á framfæri, elsta 11 ára, það yngsta hvítvoðungur. Ekkert stoðkerfi var innan seilingar. Hún gat hvorki greitt húsaleigu né brauðfætt börnin. Fjórum börnum var komið fyrir hjá vandalausum. Það urðu örlög hvítvoðungsins að verða ómagi. Hún fékk starf sem fanggæsla[1] í verbúð og hafði hjá sér þriggja ára son sinn. Þau voru til heimilis á lofti verbúðarinnar. Á einu og sama árinu missti hún manninn, öll börnin utan eitt og heimilið sitt. Eftir þetta deildu börnin aldrei sama heimili. Það er ekki flókið að gera sér í hugarlund hvernig henni hefur liðið þegar þessi ósköp dundu yfir. Lesa meira…