1

Þróun og nýsköpun í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson

 

Menntastefna Reykjavíkur- „Látum draumana rætast“, var samþykkt í lok árs 2018 eftir tæplega tveggja ára mótunarferli með aðkomu um 10.000 aðila innan og utan borgarinnar. Í þeim hópi voru börn, foreldrar, kennarar og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi, erlendir og íslenskir sérfræðingar um menntamál og almenningur í gegnum Betri Reykjavík. Áhugaverða samantekt á opnu samráði við mótun menntastefnunnar má lesa í niðurstöðum rannsóknarinnar Crowdsourcing Better Education Policy in Reykjavik (King, 2019).

Samhliða voru samþykktar almennar aðgerðir til þriggja ára þar sem lögð er rík áhersla á að „fagfólk á vettvangi í skóla- og frístundastarfi útfæri stefnuna miðað við aðstæður á hverjum stað, í náinni samvinnu sín á milli, í samstarfi við aðra fagaðila og síðast en ekki síst með virkri þátttöku barna og unglinga.“ Ein þessara aðgerða var ákvörðun um að stofna þróunar- og nýsköpunarsjóð til að styðja við sjálfsprottin verkefni á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs (í þessari umfjöllun er yfirheitið starfsstaður notað um leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og skólahljómsveitir). Tilgangur sjóðsins var frá upphafi að stuðla að framgangi menntastefnunnar með því að byggja upp frumkvæði, faglega forystu, traust og lærdómssamfélag með aukinni samvinnu starfsfólks og stofnana, en þannig er stuðlað að samvirkni í menntakerfi borgarinnar. Fræðimenn hafa bent á að á meiri líkur séu á að samvirkni náist í þróunar- og umbótastarfi þar sem sú hugmyndafræði er lögð til grundvallar (Helga S. Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir, 2020). Um skeið hafði þróunarsjóður borgarinnar fyrir skóla- og frístundastarf verið 20 milljónir króna með hækkun í 40 milljónir árið 2018. Samþykkt var að 200 milljónum yrði úthlutað árlega fyrstu þrjú ár innleiðingarinnar.

Í almennum aðgerðum var lagt upp með að veita starfsfólki skóla- og frístundasviðs ríkari tækifæri til starfsþróunar og tryggja þeim markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Þar var sérstaklega lögð áhersla á að efla fjölbreytt samstarf, ekki síst við Menntavísindasvið HÍ og aðrar menntastofnanir, sem hefur skilað sér í margvíslegu framboði á starfsþróun. Samhliða hefur verið lögð áhersla á markvissa þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði mennta- og æskulýðsmála með því að styðja við virka þátttöku grunnskóla, leikskóla og frístundamiðstöðva í evrópskum samstarfsverkefnum. Árin 2019 og 2020 hafa fengist rúmlega 125,5 m.kr í alþjóðlega styrki fyrir 33 verkefni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu menntastefnunnar.

Önnur af almennum aðgerðum við innleiðingu stefnunnar var að setja á fót Nýsköpunarmiðju menntamála sem hefur það hlutverk að styðja starfstöðvar við innleiðingu stefnunnar, skapa vettvang fyrir þróun lærdómssamfélags og veita stuðning við þróun og nýsköpun í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Nýsköpunarmiðjan fékk jafnframt það hlutverk að leiða vinnu við að endurskoða og þróa viðmið, eyðublöð, umsóknarferli og verklagsreglur um hinn nýja sjóð. Í þeirri vinnu var leitað fyrirmynda erlendis, auk þess sem erlendir og innlendir sérfræðingar gáfu góð ráð. Finnski menntunarfræðingurinn Pasi Sahlberg, sem verið hafði ráðgjafi stýrihóps um mótun menntastefnunnar, vakti athygli á þeim áherslum sem Alberta fylki í Kanada hafði lagt til að efla traust í menntakerfinu og skapa sameiginlegan metnað fyrir nýsköpun og þróun en þær áherslur höfðu ekki síst áhrif á útfærslur þróunar- og nýsköpunarsjóðsins.

Þróunar- og nýsköpunarsjóður skóla- og frístundaráðs lítur dagsins ljós

Hinn 21. febrúar 2019 samþykkti borgarráð reglur fyrir nýjan sjóð, „Látum draumana rætast“ þróunar- og nýsköpunarsjóð skóla- og frístundaráðs. Ákveðið var að skipta sjóðnum í tvennt, A og B hluta, og móta reglur fyrir hvorn hluta fyrir sig, ekki síst til að skapa svigrúm á hverjum starfsstað til að hefja vinnu við innleiðingu menntastefnunnar í anda samstarfs og samvirkni.

Eins og segir í reglum sjóðsins er tilgangur hans að:

stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, í leikskólastarfi, grunnskólastarfi og frístundastarfi. Með verkefnum er átt við þróunar- og nýsköpunarverkefni sem stuðla að fagmennsku, auknu samstarfi og styðja við rannsóknir. Verkefnin styðji við eða stuðli að bættu fagstarfi með aukinni þátttöku barna og unglinga á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Styrkir eru veittir í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru fram í Menntastefnu Reykjavíkur „Látum draumana rætast“.

Talsverður munur er á þessum tveimur hlutum sjóðsins. A-hlutinn er fyrst og fremst ætlaður til að styrkja þróunar- og nýsköpunarstarf innan starfsstaða en í B-hluta er gerð krafa um þverfaglegt samstarf að lágmarki tveggja starfsstaða. Þá skal í umsóknum vegna B-hluta gera grein fyrir því hvernig verkefnið tengist rannsóknum eða samstarfi við háskólasamfélagið, hvers konar samstarfi eða teymishugsun verkefnið byggi á og hvernig nýta eigi hringferli stöðugra umbóta og þróunar með það að markmiði að byggja upp lærdómssamfélag. Umsóknarferlið vegna A- og B-hluta er ólíkt þar sem gerðar eru mun meiri kröfur í B-hluta umsóknum heldur en í A- hluta umsóknum, enda er þar um að ræða viðameiri samstarfsverkefni og hærri styrki. Þrátt fyrir það er byggt á samskonar spurningum og gengið út frá því að í undirbúningi umsóknar hafi verið stofnað til lýðræðislegs samtals barna og fullorðinna við að greina helstu viðfangsefni á hverjum stað. Í umsókn þarf meðal annars að gera grein fyrir eftirfarandi:

 • Hvaða áskorunum er verið að bregðast við með þessu verkefni?
 • Af hverju er verkefnið mikilvægt?
 • Hvaða aðstæður í félagslegu og námslegu umhverfi starfsstaðarins valda því að mikilvægt er að fara í þetta verkefni?
 • Hverjir tóku þátt í samtali við að greina áskoranir og mikilvægi verkefnisins eða hvaða gögn lágu til grundvallar?
 • Hvaða þætti menntastefnunnar verður fyrst og fremst unnið að í verkefninu?
 • Hver eru helstu markmið verkefnisins og hvernig endurspegla þau þætti menntastefnunnar?
 • Hver verður væntanlegur ávinningur fyrir börn í skóla- og frístundastarfi?
 • Hvernig verður árangur verkefnisins metinn?

Í A-hluta eru 150 milljónir sem skiptast á milli allra starfsstaða út frá reiknireglu sem tekur til rekstrarumfangs, starfsmannafjölda og barnafjölda sem starfsstaðir sækja um á vormisseri ár hvert. Í B-hluta eru 50 milljónir, en starfsstaðir borgarinnar geta sótt þangað um allt að 8 milljónir fyrir verkefni í samstarfi við aðra starfsstaði og stofnanir. Sjá: https://menntastefna.is/throunarsjodur/.

Samvinna um þróun og nýsköpun

Lögð var áhersla á að kynna sjóðinn og menntastefnuna vel strax í upphafi og var nálgunin styðjandi en ekki stýrandi. Haldnir voru hverfafundir í öllum borgarhlutum fyrir starfsstaði þar sem lagt var upp með samræður út frá hugmyndafræði samfélagslegrar nýsköpunar. Þátttakendur settu sig meðal annars í spor barna og ræddu brýnustu áskoranir og tækifæri í tengslum við grundvallarþætti menntastefnunnar og áhrif hennar á framtíð menntunar. Gegndu fundirnir veigamiklu hlutverki við að tryggja að allir sæju hag í því að taka strax fullan þátt í innleiðingu menntastefunnar og að styrkjafjármagnið yrði nýtt til þess að styðja við það ferli.

Auk hverfafunda buðu fulltrúar Nýsköpunarmiðju menntamála og skrifstofu SFS upp á kynningar og fræðslu á stjórnendafundum og á starfsstöðum og ráðgjöf við stjórnendur starfsstaða vegna undirbúnings umsókna og skipulags verkefna. Tvisvar hefur verið haldið stefnumót stjórnenda hjá skóla- og frístundasviði og fræðasamfélagsins í samstarfi SFS og menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Markmiðið með þeim var að skapa afslappaðan vettvang fyrir samtal hópanna þar sem stuðlað var að „fæðingu” fjölbreyttra samstarfsverkefna. Stefnumótið reyndist spennandi vettvangur fyrir samtal fræðasamfélagsins og stjórnenda og hefur leitt af sér fjölbreytt samstarf.

Kynningarfundur í Laugalækjarskóla 15. febrúar 2019.

Í öllu ferlinu við að kynna þróunar- og nýsköpunarsjóðinn hefur mikilvægi samvinnu, samvirkni og samtals um þróun menntakerfisins í nútíð og framtíð verið tíundað. Þrátt fyrir að ekki megi vanmeta gildi lítilla og stakra þróunarverkefna hafa skilaboðin frá upphafi verið þau að líta beri á þróunar- og nýsköpunarstarf sem vegferð en ekki afmarkað verkefni með upphaf og endi. Unnið er að því að þróa lærdómssamfélag þar sem leitast er við að koma auga á og styðja leiðtoga og skapa menningu sem styður við þróunar- og nýsköpunarstarf. Slík menning felur í sér að innan hvers starfsstaðar, á milli starfsstaða og í menntakerfinu öllu er leitast við að byggja upp traust til að taka áhættu, prófa, þróa, þora að mistakast, ígrunda og prófa aftur.

Valdið til breytinga liggur í höndum kennara og starfsfólks en ekki þeim stefnum eða fyrirheitum sem stjórnvöld gefa, þrátt fyrir að þau geti verið góð leiðarljós og nauðsynlegur stuðningur við útfærslu verkefna. Jón Torfi Jónasson leggur áherslu á það í nýlegri grein hér í Skólaþráðum að fátt muni breytast í menntamálum sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurunum sjálfum. Breytingar þurfa að hans mati að felast í „ásetningi þeirra, vitneskju og kunnáttu til að þróa menntunina þannig að þeir geti sinnt því flókna og margslungna uppeldis- og menningarhlutverki sem þeir eiga í raun að gegna“ (Jón Torfi Jónasson, 2020). Að hans mati þurfa stjórnendur og stjórnvöld að skilja „hve takmarkað áhrifavald þeirra er til að koma á breytingum ef ásetningur þeirra er ekki samofinn hugmyndum þeirra sem sjá um menntunina frá degi til dags“. Með þróunar- og nýsköpunarsjóðnum má segja að borgaryfirvöld hafi skapað dýrmætt svigrúm til að styðja við frumkvæði elju og framsýni stjórnenda og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi borgarinnar.

Þróunar- og nýsköpunarverkefni árið 2019 og 2020

A-hluti þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Árið 2019 bárust í A-hluta 171 umsókn um styrki og 170 umsóknir árið 2020. Öllum starfsstöðum var gert að skila inn einfaldri rafrænni umsókn þar sem gerð var grein fyrir því hvaða áskorunum væri verið að bregðast við, mikilvægi verkefnisins, tengingu þess við menntastefnuna, markmið þess og að lokum framkvæmdaáætlun. Ástæða þess að stjórnendur þurftu að skila inn umsókn frekar en að fjármagni væri einfaldlega útdeilt til starfsstaða var sú að talið var mikilvægt að allir fengu tækifæri til að máta eigið starf við áhersluþætti menntastefnunnar og greina þær áskoranir sem eru til staðar á hverjum stað. Í einhverjum tilvikum höfðu stjórnendur litla reynslu af því að sækja um styrki og fyrir þá reyndist umsóknarferlið fela í sér gagnlegt lærdómsferli. Þá hafa upplýsingarnar sem fengist hafa úr umsóknunum nýst til að fá betri yfirsýn yfir áherslur starfsstaða en þær nýtast meðal annars til að skipuleggja ráðgjöf og starfsþróun.

Mynd 1. Fjöldi umsókna í A-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs.

Eins og sjá má endurspeglar fjöldi umsókna fjölda starfsstaða. Flestir leikskólar skila inn einni umsókn í A-hluta en einstaka grunnskólar hafa kosið að skila inn fleiri en einni umsókn þegar þeir eru að nýta fjármagnið í tvö aðskilin verkefni. Í Reykjavík starfa fimm frístundamiðstöðvar, ein í hverjum borgarhluta, en mikill fjöldi umsókna frá þeim kemur til vegna þess að þar hefur fjármagninu verið úthlutað til þeirra frístundaheimila og félagsmiðstöðva sem tilheyra viðkomandi miðstöð. Þá hafa skólahljómsveitir borgarinnar skilað inn einni umsókn hvort ár og samreknir starfsstaðir (leikskóli, grunnskóli, frístundaheimili) hafa einnig skilað sameiginlegum umsóknum. Í umsóknarformi í A-hluta þurfa allir umsækjendur að svara því hvaða grundvallarþætti stefnunnar verður fyrst og fremst unnið að í viðkomandi verkefni. Með því að rýna í þær upplýsingar sem fengust úr umsóknum starfsstaðanna má t.d. bera saman áherslur í umsóknum eftir því hvort um grunnskóla, leikskóla eða frístundastarf sé að ræða.

Mynd 2. Samanburður á fyrsta vali á menntastefnuþáttum í A-hluta verkefnum skólaárið 2020-2021.

Í þeim samanburði sem sýndur er á mynd 2 má sjá að skólaárið 2020-2021 leggja margir leikskólar og frístundamiðstöðvar áherslu á félagsfærni í sínum verkefnum og þá er áhugavert að sjá hversu margir leikskólar eru að vinna með læsi. Í ár er algengast að grunnskólar leggi áherslu á fagmennsku og samstarf og ánægjulegt er að sjá fjölgun á verkefnum sem miða að því að auka virkni barna og þátttöku. Einn af kostunum við að hafa samanburðarhæf rafræn umsóknarform fyrir þróunar- og nýsköpunarverkefni yfir nokkurra ára tímabil er að þau veita mikilvægar upplýsingar um þróun yfir tíma í áherslum verkefnanna og um leið innleiðingu stefnunnar.

Mynd 3. Samanburður milli ára á fyrsta vali leikskóla í A-hluta umsóknum.

Mynd 4. Samanburður milli ára á fyrsta vali grunnskóla í A-hluta umsóknum.

Mynd 5. Samanburður milli ára á fyrsta vali frístundamiðstöðva í A-hluta umsóknum.

Það hversu margir starfsstaðir hafa lagt áherslu á sjálfseflingu og félagsfærni í verkefnum sínum hefur skilað sér inn í framboð á fræðslu og tilboðum um stuðning við þessa þætti. Boðið hefur verið upp á fjölbreytt námskeið og fræðslu um sjálfseflingu og félagsfærni og stór hluti verkfæra í verkfærakistu menntastefnuvefsins lýtur að þessum tveimur grundvallarþáttum. Jafnframt er reynt að tengja saman starfsstaði sem vinna að sambærilegum verkefnum en þannig má skapa vettvang fyrir starfsfólk til að hittast og læra með og hvert af öðru. Þá hefur öllum verkefnum og áherslum þeirra verið miðlað á vef menntastefnunnar sem gerir starfsstöðum kleift að fá innsýn inn í hverjir aðrir vinna að sambærilegum verkefnum og mynda í framhaldi eigin lærdómssamfélög.

Yfirlit á vef menntastefnunnar sýnir að mikill fjöldi áhugaverðra verkefna hefur fengið styrk síðustu tvö ár þó að samkomutakmarkanir og raskanir á skólastarfi tengdar COVID-19 hafi vissulega sett strik í reikninginn. Dæmi eru um að starfsstaðir hafi tekið sig saman til að auka umfang og áhrif sinna A-hluta verkefna líkt og verkefnið Allir blómstra sem unnið var í samstarfi leikskólanna Hólaborgar, Engjaborgar, Sunnufoldar og Funaborgar. Markmið þess var að tryggja að öll börn í leikskólunum fengju að blómstra í starfi þeirra og að valdefling allra yrði hluti af daglegu starfi. Ein leið að markmiðum verkefnisins var að útbúa myndbönd þar sem leiðbeint var um leiðir til sjálfseflingar og eru myndböndin bæði hugsuð fyrir starfsfólk leikskóla og foreldra leikskólabarna. Myndböndunum hefur verið miðlað á vef leikskólanna sem skipulögðu verkefnið og í verkfærakistu á vef menntastefnunnar. Þetta verkefni endurspeglar vel kjarnamarkmið sjóðsins. Þarna fær fagfólk í leikskólum tækifæri til að greina eigin áskoranir, taka af skarið af eigin frumkvæði og útbúa bjargir sem svo nýtast öllum leikskólum borgarinnar.

Bæði árin hefur verið leitað eftir athugasemdum frá stjórnendum og starfsstöðum vegna fyrirkomulags styrkjanna. Stjórnendur eru almennt sammála um að A-hluta styrkirnir séu mikil innspýting inn í starfið og auðveldi þeim að beina sjónum markvisst að þáttum menntastefnunnar og innleiðingu hennar. Þá kemur fram að með styrkjunum skapist betra svigrúm hjá starfsfólki til að vinna að innleiðingu stefnunnar og tengja við daglegt starf með börnunum. Stjórnendur starfsstaða SFS lögðu enn fremur áherslu á að með A-hluta styrkjunum væri tryggt jafnræði á milli starfsstaða en þannig fengju allir tækifæri til að hefja innleiðingu menntastefnunnar. Nú seinna árið höfðu margir áhyggjur af því að COVID-19 drægi úr þeim tækifærum sem væru til þróunar- og nýsköpunar í skóla- og frístundastarfinu og er ljóst að mörg verkefni hafa tafist eða farið hægar af stað en áætlað var. Samt sem áður er mikill hugur í stjórnendum sem vilja halda ótrauðir áfram og telja nauðsynlegt að njóta þeirrar hvatninga til framþróunar sem felst í styrkjunum.

B-hluti – Fjölbreytt samstarfsverkefni leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs og háskólasamfélagsins

Eins og áður segir eru B-hluta verkefnin stærri í sniðum en A-hluta verkefnin. Í B-hlutanum er gerð krafa um samstarf milli starfsstaða og að verkefni tengist rannsóknum eða sé unnið í samstarfi við fræðimenn. Í B-hluta sjóðsins fengu átján verkefni styrk 2019 en alls bárust 40 umsóknir. Í kjölfar samráðs við stjórnendur haustið 2019 var tekin ákvörðun um að fækka styrkjum og hækka styrkupphæðir í einstaka verkefnum fyrir skólaárið 2020–2021. Helstu rök fyrir því voru að árið 2019 fengu mörg verkefni umtalsvert lægri styrkupphæðir en sótt var um fyrir. 24 umsóknir bárust fyrir skólaárið 2020–2021 en tíu verkefni hlutu styrk og voru lægstu styrkir það ár fjórar milljónir og hæstu styrkir átta milljónir. Þrjú þessara verkefna höfðu einnig fengið styrk árið 2019 og hafa því alls 25 stærri þróunarverkefni fengið styrk þessi fyrstu tvö ár. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir B-hluta verkefni 2019–2021 en af verkefnunum 25 eru sextán verkefni unnin í samstarfi við fræðasamfélagið, langflest í samstarfi við Menntavísindasvið HÍ. Þá er athyglisvert að skoða hversu fjölbreytt samstarf er fyrir hendi í mörgum þessara verkefna (sjá töflu 1).

Tafla 1. Umsóknir um styrki í B-hluta

Heiti verkefnis Umsækjandi Samstarfsaðilar Skólaár
Allir með – valnámskeið Hagaskóli Laugalækjarskóli, Frosti félagsmiðstöð, Kolbrún Þ. Pálsd. HÍ 2019-2020
Betri Bústaðir – Svefn, orkudrykkir og rafrettur Kringlumýri Réttarholtsskóli, Fossvogsskóli, Breiðagerðisskóli, Þjónustum. Laugardals og Háaleitis, Víkingur íþróttafélag, Skátafélagið Garðbúar, Foreldrafélag Réttarholtsskóla, Foreldrafélag Fossvogsskóla, Foreldrafélag Breiðagerðisskóla 2019-2020
Leiðir til að efla tjáskipti Klettaskóli Aðrir grunnskólar í borginni 2019-2020
Mikilvægi gagnreyndra aðferða ífélagsmiðstöðvastarfi Kringlumýri Miðberg, Háskóli Íslands, Vinnuskólinn 2019-2020
Rafíþróttir í 110 og 113 Ársel Íþróttafélagið Fylkir, Ártúnsskóli, Norðlingaskóli, Dalskóli, Ingunnarskóli, Sæmundarskóli, Þjónustumiðstöð Árbæjar 2019-2020
Vísindaleikir – Varmi og hitastig Bjartahlíð Stakkaborg, Háskóli Íslands 2019-2020
Það þarf heilt þorp; Samstarfsverkefni um félagsfærni og sjálfseflingu Leikskólinn Borg Breiðholtsskóli, Bakkaborg, Bakkasel frístundaheimili, Bakkinn félagsmiðstöð, KVAN, Háskóli Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts 2019-2020
Draumasviðið – Tækifæri sköpunar Tjörnin 100og1, Austurbæjarskóli, Háskóli Íslands 2019-2020
Efling siðfræðikennslu í frístundastarfi Undraland Tjörnin og Háskóli Íslands 2019-2020
Föruneyti félagsmiðstöðvar Tjörnin Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Lögreglan, Barnavernd, Kringlumýri, Ársel, Gufunesbær, Miðberg 2019-2020
Markviss íslenskukennsla fjöltyngdra nemenda með áherslu á ríkan orðaforða, sterka sjálfsmynd og félagsfærni í leik og starfi Foldaskóli Hamraskóli, Húsaskóli, Frístundaheimilin Simbað, Regnboga- land, Kastali og Háskóli Íslands 2019-2020
Rafíþróttaver Tjörnin Gleðibankinn og Hlíðaskóli 2019-2020
Skólafélagsfærni PEERS Hlíðaskóli Eldflaugin frístundaheimili, Barnaskóli Hjallastefnunnar, Suðurhlíðarskóli, Gleðibankinn félagsmiðstöð, Tjarnarskóli, Landakotsskóli, Melaskóli, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða 2019-2020
Ungmennaráð sértækra félagsmiðstöðva í Reykjavík Miðberg Gufunesbær, Kringlumýri, Tjörnin og Öryrkjabandalag Íslands 2019-2020
Útivist og útinám Gufunesbær Frístundaheimilin Brosbær, Galdraslóð, Hvergiland, Kastali, Regnbogaland, Simbað, Tígrisbær, Ævintýraland, Miðstöð útivistar og útináms og Háskóli Íslands 2019-2020
Skapandi námssamfélag í Breiðholti Fab Lab Reykjavík Þjónustumiðstöð Breiðholts, Fellaskóli, Seljaskóli, Hólabrekkuskóli, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Fjölbrautarskólinn í Breiðholti, Mixtúra, RG Menntaráðgjöf og Vísindasmiðja Háskóla Íslands 2019-2021
Austur- Vestur. Sköpunar-og tæknismiðjur Ingunnarskóli Selásskóli, Vesturbæjarskóli og Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2019-2021
Leikur, styðjandi samskipti og lærdómssamfélag Reynisholt Brákarborg, Stakkaborg, Tjörn og RannUng 2019-2021
Orð eru til alls fyrst Dalskóli Geislabaugur, Ingunnarskóli, Maríuborg, Reynisholt og Sæmundarskóli 2020-2021
Lærdómssamfélag stærðfræðikennara undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga Fossvogsskóli Vesturbæjarskóli, Dalskóli, Kelduskóli og Háskóli Íslands 2020-2021
Frístundafræðingur á miðstigi Gufunesbær Foldaskóli, Engjaskóli, Hamraskóli, Rimaskóli, Klébergsskóli, Borgaskóli, Víkurskóli, Háskóli Íslands og Íslenskuþorpið 2020-2021
Vertu velkomin í hverfið okkar – viltu tala íslensku við mig Húsaskóli Foldaskóli, Engjaskóli, Hamraskóli, Rimaskóli, Klébergsskól, Borgaskólai, Víkurskóli og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 2020-2021
VAXANDI Tjörnin Menntavísindasvið Háskóla Íslandsí, Núvitundarsetrið, félagsmiðstöðvarnar Frosti, 105, 100og1, Gleðibankinn, Hofið, Hinsegin félagsmiðstöð samtakanna 78 og Tjarnarinnar, frístundaheimilin Frostheimar, Undraland, Selið, Skýjaborgir, Eldflaugin, Halastjarnan og Draumaland 2020-2021
Betra Breiðholt fyrir unglinga Skóla- og frístundadeil Breiðholts Miðberg og allir grunnskólar í Breiðholti 2020-2021
Öll sem eitt Tjörnin Háskóli Íslands, RannTóm, Samtökin 78, Ársel, Gufunesbær, Kringlumýri, Miðberg og félagsmiðstöðvar í Reykjavík 2020-2021

 

Verkefnin endurspegla vel gróskuna í þróunar- og nýsköpunarverkefnum og hvernig sjóðurinn þjónar sem hvatning fyrir fjölbreytt samstarf. Til þess að tryggja að verkefnin hafi sem víðtækust áhrif og að niðurstöður þeirra nái til sem flestra hefur frá upphafi verið lagt mikið upp úr sýnileika verkefna og víðtækri miðlun á niðurstöðum þeirra.

Sýnileiki verkefna – kynning og miðlun

Strax í upphafi var lögð rík áhersla á að hafa allar upplýsingar um sjóðinn aðgengilegar. Frá því að vefur menntastefnu Reykjavíkur www.menntastefna.is opnaði sumarið 2019 hefur allt efni tengt sjóðnum verið vistað þar. Þar er hægt að finna lista yfir þau 340 þróunarverkefni sem fengið hafa styrk í A-hluta sjóðsins fyrstu tvö árin eftir stofnun hans. Þá eiga þau 25 samstarfsverkefni sem fengið hafa styrk í B-hluta sjóðsins hvert sína síðu þar sem finna má upplýsingar um markmið verkefnisins, styrkupphæð, samstarfsaðila, skýrslur og afurðir. Áhugavert dæmi um gildi þessara heimasíðna er verkefnið Skapandi námssamfélag í Breiðholti. Auk skýrslu um verkefnið má þar finna eftirfarandi afurðir þess: vínil uppskriftarbók, leiðbeiningar um mýsli og leiðbeiningar um hvernig búa eigi til endurskinsmerki í vínilskera.

Þær afurðir sem verða til í verkefnum er einnig miðlað í gegnum verkfærakistu menntastefnuvefsins auk þess sem skapaður er vettvangur fyrir kynningar á námskeiðum, málþingum og ráðstefnum sem tengjast skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Ánægjulegt er hversu viljugir kennarar og starfsfólk eru að miðla af eigin reynslu og verkefnum með þessum hætti. Þarna er að byggjast upp dýrmætur grunnur af upplýsingum um það sem starfsfólkið sjálft telur gagnast til að efla menntun í eigin ranni.

Kynning og miðlun á verkefnum hefur ekki einungis átt sér stað á vef menntastefnunnar og á samfélagsmiðlum tengdum skóla- og frístundastarfi heldur hefur verið markvisst unnið að því að gera þróunarverkefni sýnileg bæði innan borgarinnar og á vettvangi menntamála á Íslandi. Dæmi um það eru Höfuð í bleyti, rafræn ráðstefna frístundastarfs í Reykjavík, þar sem hægt var að kynna sér yfir 20 áhugaverð verkefni. Mörg erindi á Menntakviku Háskóla Íslands fjölluðu um þróunar- og nýsköpunarstarf í borginni og þar voru meðal annars áberandi verkefni sem snúa að innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarfi og samspili list-, verkgreina og náttúruvísinda. Þá er í undirbúningi Mennta-stefnumót sem haldið verður 10. maí næstkomandi á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Þar verður boðið upp á fjölbreyttar kynningar á þróunar- og nýsköpunarstarfi í borginni, auk fróðleiks frá innlendum og erlendum sérfræðingum í menntamálum.

Aukin áhersla á starfsþróun og stuðning við starfsstaði

Frá samþykkt menntastefnunnar hefur áhersla á starfsþróun aukist verulega. Í skýrslu um innleiðingu menntastefnunnar júní – desember 2019 kemur fram að það ár hafi verið haldin hátt í 650 námskeið og fræðslufundir með þátttöku tæplega 17.000 starfsmanna SFS. Það er ígildi þess að allt starfsfólk sviðsins, 5.000 einstaklingar, hafi sótt fræðslu rúmlega þrisvar sinnum árið 2019. Einnig hefur verið lögð áhersla á að setja á fót fjölbreytt lærdómssamfélög ákveðinna faghópa þvert á skóla. Þegar eru starfandi tíu slík lærdómssamfélög með meira en 200 þátttakendum.

Unnið hefur verið að aukinni starfsþróun og fjölgun námskeiða á vegum fræðimanna og sérfræðinga af vettvangi. Stórt skref í þeim efnum var tekið með undirritun samstarfssamnings SFS við Menntavísindasvið Háskóla Íslands Samningurinn kveður á um gagnvirkt samstarf um starfsþróun sem byggir á grunni menntastefnunnar annars vegar og kynningum á starfi borgarinnar á vettvangi háskólans hins vegar. Þá felur samningurinn í sér möguleika á því að starfsstaðir fái hjá kennurum og öðru starfsfólki Menntavísindasviðs ráðgjöf og leiðsögn við þróunar- og nýsköpunarstarf.

Stuðningur við þróunar- og nýsköpunarstarf

Nýsköpunarmiðjan, sem var sett á fót 2018, samanstendur af þverfaglegu teymi tíu sérfræðinga sem hefur það meginhlutverk að fylgja eftir innleiðingu menntastefnunnar. Henni er sérstaklega ætlað að styðja við þróunar- og nýsköpunarstarf í borginni, tengja saman starfsstaði þvert á leikskóla, grunnskóla og frístundastarf og skapa farveg fyrir fjölbreytta nýsköpun sem endurspeglar áherslur menntastefnu borgarinnar. Þá hefur miðjan það hlutverk að samræma og veita yfirsýn yfir starfsþróun á sviðinu. Skipulag og framkvæmd starfsþróunar er síðan unnin þvert á deildir fagskrifstofu skóla og frístundastarfs og mannauðsdeildar auk Miðju máls og læsis og Miðstöðvar útvistar og útináms.

Í vinnu við mótun menntastefnunnar urðu til viðamikil gögn um hugmyndir og áherslur þeirra sem tóku þátt í samráðinu. Þessi gögn voru meðal annars nýtt til að þróa gátlista sem starfsstaðir nýta til að meta hvernig þeim gengur að efla grundvallarþætti menntastefnunnar. Margir skólar og margar frístundamiðstöðvar hafa nýtt gátlistana meðal annars til að skoða hversu vel sé unnið að einstökum þáttum og hvar sé svigrúm til umbóta. Þessi vinna hefur verið nýtt til að móta þróunar- og nýsköpunarverkefni.

Lokaorð og framtíðin

Þróunar- og nýsköpunarsjóður skóla- og frístundaráðs „Látum draumana rætast“ er fjöreggið í innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar. Þau verkefni sem sprottið hafa upp fyrir tilstilli hans bera þess vott að stefnan er lifandi veruleiki. Svo vísað sé aftur til orða Jóns Torfa Jónassonar í áðurnefndri grein hér í Skólaþráðum þá telur hann nauðsynlegt að byggja upp sterka faglega heild innan skóla, sveitarfélaga og annarra þar sem miðlað er þekkingu á þeim straumum og stefnum sem eru efst á baugi í menntakerfinu innanlands sem utan. Enginn einn getur haft þekkingu á öllu því sem þarf að gera og engin ein leið virkar til að tryggja framúrskarandi menntun á 21. öldinni. Með faglegum og fjárhagslegum stuðningi við þróun og nýsköpun, samvinnu, samvirkni og þann drifkraft sem býr í kennurum og starfsfólki borgarinnar er skapaður grundvöllur til athafna. Jón Torfi telur forsendu slíkrar þróunar fólgna í því að þeir sjóðir sem standi til boða séu öflugir:

En þetta verður að móta, sbr. það sem Reykjavíkurborg hefur bryddað upp á í þróunarverkefni sínu, Látum draumana rætast, og uppfyllir að mörgu leyti þau skilyrði sem ég er sannfærður um að þurfi að vera fyrir hendi. Sú leið felur í sér samráð um meginlínur, stuðningskerfi sem er nauðsynlegt og tryggir jafnframt að verulegur hluti frumkvæðis og fjármuna liggi hjá þeim sem taka ábyrgð á þróunarstarfinu sjálfu.

Hvort vel hafi til tekist, líkt og Jón Torfi bindur vonir við, verður tíminn að skera úr um. Gríðarlegar áskoranir hafa mætt starfsfólki í skóla- og frístundastarfi borgarinnar vegna COVID-19. Þessar áskoranir hafa víða tafið upphaf og framkvæmd verkefna, líkt og minnst var á hér að framan. Um leið hefur komið í ljós hversu mikil nýsköpun, þrautseigja og fagmennska einkennir starfið í borginni. Stjórnendur og starfsfólk hefur stigið fram, unnið saman þvert á starfsstaði, prófað nýja tækni, gert breytingar, gert mistök, lært af þeim og haldið áfram að leiða skóla- og frístundastarf við aðstæður sem fyrir örfáum mánuðum hefðu þótt óhugsandi. Inntak menntastefnunnar og áherslur hafa í þeim verkefnum sem öðrum verið leiðarljós og stuðlað að sameiningarkrafti sem er undirstaða þeirrar samvirkni sem hér hefur verið lýst. Hluti af því er hæfnin til að skapa nýjar lausnir til þess að bregðast við flóknum áskorunum.

Í bókinni The Innovator‘s Mindset: Empower Learning, Unleash Talent, and Lead a Culture of Creativity heldur George Couros (2015) því fram að nýsköpunarhugsun snúist ekki um efnislega hluti eða tækni heldur felist í gróskuhugarfari og þeirri trú að fjölbreytt þekking, hæfni og eiginleikar móti jarðveg þar sem ólíkir einstaklingar skapi saman nýjar lausnir. Couros telur mikilvægt að öll þau sem vinna að menntun barna tileinki sér nýsköpunarhugsun. Þau eru líklegust til að skilja og þekkja þarfir barnanna, geta sett sig í þeirra spor og vita hvað virkar og hvað virkar ekki. Drifkraftur þeirra kennara sem þróa lausnir til að bregðast við áskorunum er stærsta hreyfiaflið í þróun menntakerfisins, eins og Jón Torfi bendir einnig á. Við lifum í sífellt flóknari veröld og mögulega er það þessi nýsköpunarhugsun og samvinna sem hjálpar okkur að takast á við menntun til framtíðar fyrir fjölbreyttan barna og ungmennahóp.

Þær almennu aðgerðir sem hefur verið fjallað um hér að framan eru liður í innleiðingu Menntastefnu Reykjavíkur sem hófst 2019 en fyrsta áfanga hennar lýkur haustið 2021. Stefnan sjálf gildir til ársins 2030. Nýlega hefur skóla- og frístundaráð samþykkt að stofnaður verði Framtíðarhópur sem ætlað er að leggja grunn að nýrri aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Í þeirri vinnu verður litið til þess hvernig til hefur tekist þessi fyrstu ár.

Heimildir:

Couros, G. (2015). The Innovator‘s Mindset: Empower Learning, Unleash Talent, and Lead a Culture of Creativity Dave Burgess Consulting, Inc.

Jón Torfi Jónasson. (2020). Fátt mun breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum. Skólaþræðir 21. desember https://skolathraedir.is/2020/12/21/jon-torfi-drifkraftur-kennara/

Helga Sigríður Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir. (2020). Samvirkni og samvinna í þróunar- og umbótastarfi. Netla 26. mars https://ojs.hi.is/netla/article/download/3146/1861

 


Fríða Bjarney Jónsdóttir Fríða Bjarney Jónsdóttir er deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fríða er leikskólakennari í grunninn með meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu og starfaði um árabil sem leikskólakennari, ráðgjafi og verkefnastjóri fjölmenningar. Hún hefur unnið að rannsóknum á sviði fjölmenningarlegs skólastarfs og komið að útgáfu námsefnis og fræðigreina á því sviði auk þess að sinna kennslu og stunda doktorsnám við Menntavísindasvið HÍ.

Hjörtur Ágústsson er verkefnastjóri alþjóðasamstarfs og styrkja hjá Nýsköpunarmiðju Menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Hjörtur hefur víðtæka reynslu af umsýslu styrkja og alþjóðasamvinnu í æskulýðsstarfi og menntamálum hjá Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, fyrst hjá Evrópu unga fólksins og síðar hjá Rannís. Hjörtur er með BA gráðu í Nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómu í Evrópufræðum og Alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands þar sem hann hefur einnig sinnt stundarkennslu í tómstunda og félagsmálafræði við menntavísindasvið.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt: 20/1/2021
Fjöltyngi og leikskólastarf

Fríða Bjarney Jónsdóttir

 

Nýlega sótti ég þriðju ráðstefnu Multilingual Childhoods en það er alþjóðlegt tengslanet rannsakenda, kennara og áhugafólks um fjöltyngi ungra barna. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í Hamar í Noregi og var áhersla lögð á menntun, stefnumótun og aðferðir í tungumálanámi ungra barna. Þátttakendur komu víða að en það vakti athygli mína að fyrir utan að tengjast menntun og lífi fjöltyngdra barna, voru langflestir þátttakendur sjálfir fjöltyngdir og þá ekki einungis færir í tveimur tungumálum heldur frekar fjórum eða fleiri. Á ráðstefnukvöldverðinum sat ég til borðs með áhugaverðri ungri konu, Guzel en hún er doktorsnemi og aðstoðarkennari í rússnesku sem öðru máli, við háskólann í Kazan (höfuðborg lýðveldisins Tatarstan í Rússneska sambandsríkinu, sjá hér: https://en.wikipedia.org/wiki/Kazan). Alltaf jafn spennandi að hitta einhvern frá stað sem maður þekkir ekki.

Guzel er altalandi á rússnesku, tatarísku, tyrknesku og ensku auk þess sem hún hefur lært kínversku og getur skilið og bjargað sér á pólsku. Doktorsrannsókn hennar beinist að tungumálanámi fjöltyngdra ungra barna en hún hefur einnig sérhæft sig sem túlkur og þýðandi frá rússnesku og tyrknesku yfir á ensku. Hún vann einnig lengi í þyrlu- og flugbransanum, og kennir rússnesku sem annað mál. Að sjálfsögðu ræddum við fram og til baka um tungumál og tungumálakunnáttu en Guzel þótti afar áhugavert að við hér á Íslandi ættum okkar eigið tungumál og að menning okkar væri samofin tungumálinu, m.a. í gegnum fornsagnahandrit. Hún sagðist lítið vita um Ísland nema þekkja tónlist Bjarkar en oft hefði fólk orð á því að hún væri lík Björk í útliti, ég gat staðfest það.

Verk eftir börn í leikskólanum Hólaborg unnið í tengslum við verkefnið „Velkomin í leikskólann minn“ á Barnamenningarhátíð 2017.

Frá því að ég hóf störf sem leikskólakennari fyrir rúmum 20 árum hefur málþroski og bernskulæsi ungra barna, líðan þeirra, velferð og réttindi verið mér mjög hugleikin. Sérstaklega hafa málefni fjöltyngdra barna staðið hjarta mínu nærri. Árið 2001 fór ég að vinna að því að finna leiðir til að efla íslenskukunnáttu barnanna í leikskólanum Lækjaborg samhliða því að viðurkenna og styðja móðurmál þeirra í samstarfi við foreldra. Allar götur síðan hef ég litið svo á að með því að skapa rétta umgjörð utan um menntun ungra barna sé hægt að móta farveg fyrir ríkulega tungumálakunnáttu. Það sé bæði hægt að kenna íslensku sem annað mál og styðja og styrkja þróun móðurmálsins. Í starfi mínu sem deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur vinn ég ásamt starfsfólki og kennurum í borginni að innleiðingu menntastefnu borgarinnar „Látum draumana rætast“. Í því ferli erum við stöðugt að spyrja okkur að því hvaða hæfni, þekkingu og viðhorf séu börnum nauðsynleg inn í framtíðina. Eitt af því sem allir eru sammála um er mikilvægi félagsfærni og sjálfseflingar, en þetta eru tveir af grundvallarþáttum stefnunnar. Hluti af því er að geta átt frjó samskipti við fjölskyldu og vini og eignast rödd í því samfélagi sem maður tilheyrir.

Þátttaka í ráðstefnunni Multilingual Childhood hjálpaði mér að skerpa sýnina á það sem raunverulega skiptir máli í menntun og uppeldi fjöltyngdra barna. Um leið og við eigum að leggja okkur fram um að kenna nýjum íbúum okkar lands íslensku þá verðum við líka að styðja með öflugum og markvissum hætti við þau tungumál sem börnin í þessum hópi tala. Þetta snýst ekki um annað hvort.

Aldrei ætti að banna börnum að tala móðurmál sitt í leikskólanum

Inngangserindi ráðstefnunnar var flutt af fræðikonunni Annick De Houwer sem er vel kunn mörgum sem fylgst hafa með rannsóknum á fjöltyngi ungra barna. Annick benti á að vegna fólksflutninga og samfélagslegra breytinga á flestum stöðum í heiminum væri þróunin víðast hvar sú sama. Strax á leikskólaaldri alast sífellt fleiri börn upp við að heyra fleiri en eitt tungumál í daglegu lífi. Annick telur nauðsynlegt að strax frá fyrsta degi í leikskólanum sé hugað að þessum fjölbreytta tungumálabakgrunni barnanna, hann viðurkenndur og virtur ella sé hætta á að börn upplifi sig útundan og jaðarsett. Slík reynsla getur valdið vanlíðan og aukið líkur á félagslegri útskúfun. Um leið skapast hætta á að börn missi hvatann til að læra tungumál, bæði móðurmálið og tungumál samfélagsins og skólans á hverjum stað, hér íslensku. Annick horfir á leikskólagöngu og leikskólanám ungra barna m.a. út frá hugmyndum um félagslegt réttlæti og réttindi barna til menntunar en meðal þess er rétturinn til að viðhalda og efla eigin móðurmál eins og tekið er fram í 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Töfrandi tungumál – leikskólinn Miðborg.

Öll börn eiga að upplifa sig velkomin allt frá fyrsta degi í leikskólanum, segir Annick en til þess að svo megi verða þarf tilfinningaleg og félagsleg velferð sérhvers barns að vera miðpunktur athyglinnar. Börn sem upplifa sig útundan og á jaðrinum eru líklegri til að finna til streitu og álags sem hefur hamlandi áhrif á nám þeirra. Yngstu börnin eru sérstaklega viðkvæm fyrir slíku álagi. Börn eru hinsvegar ólík og búa við fjölbreyttar aðstæður þegar kemur að þróun máls og læsis. Sum börn hafa:

 • Heyrt einhverja útgáfu af skólamálinu (íslensku) heima hjá sér og skilja það að einhverju leyti
 • Heyrt bæði einhverja útgáfu af skólamálinu (íslensku) og annað tungumál heima
 • Ekki heyrt skólamálið (íslensku) heima og skilja ekki skólamálið þegar þau byrja í skólanum

Hverjar sem aðstæður þessara barna eru ætti það að vera hlutverk okkar sem tökum á móti þeim að skapa aðstæður sem draga úr vanlíðan, streitu eða félagslegri útilokun. Aldrei ætti að banna börnum að tala móðurmál sitt í leikskólanum, segir Annick. Mikilvægt er að leita allra leiða til að skapa samtal við foreldra og nýta fjölbreyttar aðferðir til að virkja móðurmál barna í leikskólastarfinu samhliða vinnu með skólamálið.

Tvær af bókum Annick De Houwer um máltöku og málþroska ungra tvítyngdra barna.

Neikvæð sýn á eigin tungumál og ofuráhersla á að læra skólamálið án þess að tengja á nokkurn hátt við eigið móðurmál getur haft neikvæð áhrif á tilfinningaþroska barna sagði Annick. Einnig að þegar unnið væri með fjölbreytt tungumál og lögð áhersla á jákvætt viðhorf til þeirra sem tala fjölbreytt tungumál ykjust líkurnar á því að öll börnin þróuðu með sér aukna vitund um fjölbreytt tungumál og öðluðust hæfni til að eiga í samskiptum við þá sem ekki deila sama tungumáli. Um leið eflast þau í að hugsa um orð, bera saman orð og velta fyrir sér þýðingu þeirra en þannig verður málumhverfið meira örvandi og spennandi. Í lok fyrirlesturs síns benti Annick á fjölbreyttar hagnýtar leiðir til að styðja við fjöltyngi (sjá aftast í þessari grein). Hún segir gagnlegt fyrir kennara að skoða eigin viðhorf til tungumálanáms ungra barna. Byggjast viðhorfin á hugmyndum um eintyngi (e. monolingual view) eða fjöltyngi (e. plurilingual view)? Viðhorf kennara hafa áhrif á þær aðferðir sem þeir tileinka sér í vinnu með börnum sem búa við fjölbreytt tungumál. Mikilvægast er að tryggja ríkt málumhverfi fyrir börnin strax á leikskólaaldri þar sem markvisst er unnið að því að efla skólamálið (hér íslenska) um leið og stutt er við fjölbreytt móðurmál.

Fjöltyngi í norskum leikskólum

Þær Anna Sara Romøren og Elena Tkachenko, sem báðar eru kennarar og rannsakendur við kennaradeild Oslóarháskóla, sögðu í sínu erindi frá námskeiði sem þær hafa verið að þróa fyrir leikskólakennara en hluti þess felst í rannsókn sem nemendur þeirra taka þátt í að framkvæma. Í Noregi líkt og á Íslandi er lögð megináhersla á að börn læri skólamálið (norsku/íslensku) sem allra fyrst og kemur það skýrt fram í norsku aðalnámskránni fyrir leikskólastigið. Sú aðalnámskrá er mun gagnlegri en sú íslenska þegar kemur að því að skipuleggja menntun fjöltyngdra barna. Í norsku aðalnámskránni fyrir leikskóla segir m.a.:

Starfsfólki leikskóla ber að tryggja að litið verði á tungumálafjölbreytni sem auðlind fyrir öll börnin, fjöltyngd börn séu hvött til að nota móðurmál sitt um leið og lögð er áhersla á að virkja og efla norskukunnáttu/kunnáttu í samísku (Framework plan for Kindergartens, 2017, bls. 24)

Þrátt fyrir þetta telja þær Anna og Elena að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að vinnubrögð starfsfólks í leikskólum í Noregi byggi almennt á hugmyndum um eintyngi (e. monolingual view) en það sjónarhorn geti dregið úr möguleikum barna til að verða fjöltyngd. Þetta snúist þó ekki fyrst og fremst um eintyngi eða fjöltyngi heldur mikilvægi þess að leikskólastarf byggi á hugmyndum um félagslegt réttlæti og vellíðan barna.

Rannsókn þeirra fólst í því að leikskólakennaranemendur sátu námskeið og fengu þjálfun í aðferðum sem lúta að máltöku og tileinkun annars máls og fjöltyngi. Nemendurnir fengu síðan það verkefni að þróa spurningalista fyrir starfandi leikskólastjóra og leikskólakennara sem nemarnir tóku með sér á vettvang. Á vettvangi tóku þeir viðtöl, söfnuðu upplýsingum og skráðu niður vettvangsathuganir. Meðal þess sem leitað var svara við var hversu mörg tungumál starfsfólk talaði og hversu mörg tungumál það notaði í daglegu starfi. Einnig var kannað hversu mörg tungumál börnin þekktu og hversu mörg þau notuðu og í hvaða aðstæðum í leikskólanum var verið að vinna með fjölbreytt tungumál auk norsku.

Niðurstöður sýndu að bæði starfsfólkið og börnin bjuggu yfir mun meiri tungumálakunnáttu en þau nýttu í daglegu starfi og leik. Þá var afar misjafnt hvort og með hvaða hætti leikskólarnir studdu við eða komu í veg fyrir tungumálafjölbreytileika í daglegu starfi og í hvaða aðstæðum vinna með tungumál var helst sýnileg. Þær aðstæður sem virtust helst fela í sér að unnið væri með fjölbreytt tungumál voru t.d. frjálsi leikurinn, þegar foreldrarnir voru með börnunum í fataklefanum, matartímar og söngstundir. Þá kom í ljós að oftast réðu viðhorf leikskólastjóranna áherslum skólans í þessum efnum. Og útfærslan var afar misjöfn, allt frá því að banna börnum að tala önnur tungumál en norsku og yfir í að foreldrar og fjöltyngt starfsfólk tók þátt í að styðja við tungumál barnanna á fjölbreyttan hátt (eins og mælt er með í norsku aðalnámsskránni). Rannsóknin er á fyrstu stigum og hafa þær Elena og Anna áhuga á að þróa hana áfram og fjölga þátttakendum. Greinilegt var að nemendur Elenu og Önnu höfðu öðlast nýja sýn á fjölbreytt tungumál og vinnu með þau að námskeiðinu loknu

Í báðum þessum fyrirlestrum sem ég hef rætt hér að framan var vitnað í rannsóknir og aðferðarfræði Romu Chumak-Horbatsch en hún hefur gefið út tvær bækur um það sem hún kallar á ensku „Linguistically appropriate practice“ eða LAP. Hugtakið mætti þýða sem „viðeigandi aðferðir í vinnu með tungumál“. Roma hefur rannsakað starf fjölmargra leikskóla í Kanada og víðar og er málsvari þess að unnið sé markvisst með öll tungumál barnanna í leikskólastarfinu í nánu samstarfi við fjölskyldur þeirra um leið og skólamálið er kennt. Í leikskólanum Miðborg í Reykjavík hefur verið unnið þróunarverkefnið „Töfrandi tungumál“ sem byggir á hugmyndum Chumak-Horbatsch en hægt er að fræðast nánar um það í nýlegri meistaraprófsrannsókn Sögu Stephensen. Þá hefur leikskólinn Krílakot á Dalvík unnið að því að innleiða hugmyndafræði LAP á undanförnum árum.

Töfrandi tungumál – leikskólinn Miðborg.

Klæðskerasniðinn stuðningur

Ute Limacher-Riebold, sem starfar sem tungumálaleiðbeinandi fyrir fjölskyldur í Haag í Hollandi, flutti erindi á ráðstefnunni ásamt Evu J. Daussa sem er háskólakennari í sömu borg. Ute hefur rekið þjónustu fyrir fjöltyngdar fjölskyldur undanfarin fimm ár þar sem hún nýtir þekkingu sína á málvísindum, fjölbreyttum tungumálum og málþroska barna til þess að styðja við foreldra fjöltyngdra barna. Hún vinnur samhliða að rannsóknum á málþroska fjöltyngdra barna og nýtir niðurstöðurnar til að bæta aðferðir sínar í ráðgjöf og stuðningi við fjölskyldur. Ute hittir fjölskyldurnar og klæðskerasníður stuðninginn að þörfum fjölskyldnanna, sem eru afar ólíkar. Markmið Ute er að styrkja foreldra til að vera góðar málfyrirmyndir, vera meðvituð um tungumálastefnu fjölskyldunnar, þekkja leiðir til að efla tungumálaþekkingu barnanna og viðhalda þeim tungumálum innan fjölskyldunnar sem foreldrar og börn telja mikilvæg. Þá vinnur Ute náið með skólum barnanna, leiðbeinir foreldrum í samskiptum við þá og þjónar eins og n.k. menningar- og tungumálamiðlari á milli foreldra og skóla. Til viðbótar sinnir Ute fræðslu til kennara um fjöltyngi og nýlega hafa einnig starfsmenn mæðra- og ungbarnaverndar lýst yfir áhuga á því að nýta þjónustu Ute fyrir verðandi foreldra.

Ute Limacher-Riebold tungumálaleiðbeinandi.

Eins og Ute bendir á þá þarf að byrja að undirbúa jarðveg málsþroskans strax þegar barn er í móðurkviði; það er of seint að byrja þegar skólagangan hefst. Ute fjallaði líka um mikilvægi þess að styðja foreldra við að horfa raunhæft á tungumálaþekkingu barnanna. Ekki mætti taka of hátíðlega niðurstöður málþroskaprófa sem leggja tungumálaþekkingu fjöltyngdra barna á sömu vogarskálar og eintyngdra barna. Öll börn geta orðið góð í þeim tungumálum sem þau búa við ef þau fá ríkulegt málumhverfi og æfingu. Best er að foreldrar og skóli vinni saman að því að styðja tungumálin og ákjósanlegt að börn alist upp við það viðhorf að fjöltyngi sé ekki vandamál. Háskólaprófessorinn Eva Daussa hefur rannsakað störf Ute og segir svo komið að nauðsynlegt sé að setja á laggirnar nýja námsleið í háskólanum Í Haag þar sem fólk fái þjálfun og kennslu í því að verða tungumálaráðgjafar. Báðar voru þær sammála um það að skóla- og heilbrigðisyfirvöld þyrftu í auknum mæli að ráða til sín slíka ráðgjafa en slíkt myndi auðvelda börnum tungumálanám og auka möguleika þeirra á að viðhalda og efla móðurmál sín um leið og þau ná tökum á skólamálinu.

Áhugavert er að bera störf Ute saman við störf þeirra Kriselle Lou Suson Jónsdóttur og Magdalenu E. Andrésdóttur sem starfa sem brúarsmiðir innan læsisteymis Miðju máls og læsis hjá Reykjavíkurborg. Mörg af þeim verkefnum sem Ute sinnir virðast sambærileg verkefnum Magdalenu og Kriselle sem veita kennurum, starfsfólki og foreldrum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar fræðslu og stuðning í tengslum við mál og læsi fjöltyngdra barna.

Að meta tungumálið að verðleikum

Að lokum langar mig til að minnast á erindi Lars Anders Kulbrandstad eins helsta sérfræðings Norðmanna þegar kemur að fjöltyngi og norsku sem öðru máli. Lars Anders fjallaði um sögulegt samhengi tungumála í Noregi og þróun norskunnar. Sérstaka athygli mína vakti umfjöllun hans um stöðu þeirra tungumála í Noregi sem lengst af áttu undir högg að sækja í norsku samfélagi. Þetta eru norska táknmálið og samíska (sem reyndar er yfirheiti yfir mörg ólík tungumál og mállýskur). Um áratugaskeið hafa börn í Noregi sem tala táknmál og samísku verið jaðarsett innan skólakerfisins, þeim hefur verið bannað að tala móðurmál sín ogþau hafa verið svipt sjálfsmynd sinni, tengslum við fjölskyldu og menningu. Í nafni þess að verið væri að gera það sem væri best fyrir börnin var lögð áhersla á gera „þau eðlileg“ eða með öðrum orðum „norskumælandi“. Enn í dag eru íbúar Noregs af samískum uppruna að berjast fyrir því að tungumál þeirra og menning séu metin að verðleikum. Þó að margt hafi áunnist varðandi réttindi barna sem nota norska táknmálið er víða pottur brotinn hvað varðar jafnræði þeirra og aðgengi að menntun. Erindi Lars Anders var afar góð áminning um það hversu mikilvægt það er að hafa félagslegt réttlæti, vellíðan barna og réttindi þeirra ávallt í fyrirrúmi.

—–

Ég langar að minnast aftur á ungu konuna Guzel frá Kazan sem ég nefndi hér í upphafi sem með blik í augum ber höfuðið hátt og er stolt yfir fjölbreyttri tungumálaþekkingu sinni sem veitir henni ótal tækifæri í lífinu. Það er óskandi að hér í okkar samfélagi verði framtíðin sú að stoltir Íslendingar af fjölbreyttum uppruna tali góða íslensku og hafi vald á sem flestum af þeim 100 tungumálum sem nú eru töluð hér á landi. Viðhorf okkar, sýn og tungumálastefna innan fjölskyldunnar, menntakerfisins og samfélagsins alls leggur þar grunninn.

Hér eru tenglar á efni sem er sérstaklega ætlað þeim sem vilja kynna sér málið betur og styðja við fjölbreyttar tungumálaauðlindir ungra barna:

Heimildaskrá

Framework plan for kindergartens. (2017). Sótt af https://www.udir.no/globalassets/filer/barnehage/rammeplan/framework-plan-for-kindergartens2-2017.pdf


Fríða Bjarney Jónsdóttir er deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fríða er leikskólakennari í grunninn með meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu. Undanfarin ár hefur hún sinnt starfi sem verkefnastjóri fjölmenningar hjá leikskólum borgarinnar auk þess sem hún hefur stundað doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.