1

Tröllaskagamódelið: Nám og kennsla í Menntaskólanum á Tröllaskaga


Article in English
Artiklen på dansk

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Lára Stefánsdóttir og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir

 

Þegar Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður árið 2010 var ekki fyrir séð hvernig skólinn yrði né heldur hvort og þá hvernig hann myndi ganga. Markmiðið með stofnun skólans var að efla fjölbreytta menntun í heimabyggð á norðanverðum Tröllaskaga. Þó var ljóst að á svæðinu væru vart nægilega margir nemendur á leiðinni upp grunnskólakerfið til að sá fjöldi sem kæmi í nýja framhaldsskólann nægði til að halda úti fjölbreyttri og metnaðarfullri menntun á framhaldsskólastigi. Því var farið að skoða leiðir til að tryggja það.

Árið 2008 tóku gildi ný lög um framhaldsskóla sem leiddu til vinnu við nýja námskrá fyrir framhaldsskóla sem tók gildi 2011. Með því gafst gott svigrúm til að þróa nám og kennslu í hinum nýja skóla. Þannig var hægt að flétta nútímann inn í skólastarfið með öflugum hætti og líta til þess samfélags sem biði útskrifaðra nemenda. Því þurfti að líta til mismunandi kenninga í menntunarfræði og hvað myndi styrkja sjálfstæði nemenda þannig að þeir sjálfir upplifðu eignarhald á menntun sinni.

Á þeim tíma sem skólinn hefur starfað má segja að ákveðin aðferðafræði við nám og kennslu hafi þróast sem hefur hlotið nafnið „Tröllaskagamódelið“ og einkennir skólastarfið í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Skólastarfið og módelið hafa verið kynnt víða í Evrópu og hér heima fyrir, meðal annars á Evrópuráðstefnu EcoMedia sem haldin var í skólanum árið 2018.

Leiðarljós

Fyrst var ákveðið að móta hugmynd (e. concept) eða gildi, sem skólinn starfaði eftir, yrði leiðarljós hans og stýrði honum á leið. Hugmyndin var skilgreind í einkunnarorðum skólans: frumkvæði – sköpun – áræði. Hverju hugtaki fylgir ákveðin nálgun sem mætti útleggja á eftirfarandi hátt:

Frumkvæði: Frumkvæði í kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og vinnubrögðum. Til að uppfylla þetta markmið var frumkvöðlafræði sett í kjarna allra námsbrauta skólans til að nemendur tileinkuðu sér frumkvöðlaviðhorf gagnvart úrlausnum, verkefnavinnu og nálgun að viðfangsefnum. Áfanginn skyldi tekinn helst á fyrstu önn eða eins snemma í náminu og mögulegt væri þannig að nemendur tileinkuðu sér frumkvæði og frumkvöðlanálgun í öllu náminu.

Sköpun: Skapandi kennsluhættir, námsaðferðir, skipulag og vinnubrögð. Talið var að listir þjálfuðu sköpun einstaklinga betur en flestar aðrar greinar og var því settur áfangi í kjarna um inngang að listum þar sem nemendur sköpuðu málverk, ljósmyndir og tónlist. Lögð hefur verið áhersla á að leið að lausnum er ekki ein heldur fjölbreytt, og vinnuferli og sköpun geta skipt meiru en lokaafurðin.

Áræði: Ljóst þótti að vani og hefðir myndu toga menn í að feta fornar leiðir og talsvert áræði þyrfti til að breyta námi, námsháttum, kennsluaðferðum, verkefnaskilum, námsmati og fleira. Það að þora var sett í framsætið og þó ekki gengi allt upp sem menn höfðu stefnt að, var mikilvægt að gefast ekki upp heldur læra af reynslunni, bæta það sem gert var og hafa þor til að spreyta sig á breyta vinnubrögðum, verkferlum og aðferðum.

Á þeim áratug sem skólinn hefur starfað hafa einkunnarorðin verið leiðarljós. Þótt hugðarefnin og viðfangsefnin hafi verið fjölbreytt hefur verið ljóst hvert skólinn stefnir og sameiginleg sýn hefur styrkt skólastarfið og krafturinn nýtist til að þróa skólann áfram.

Fjarnám og fjarvinna

Þar sem mannfæð í dreifbýli getur hindrað fjölbreytni náms, tækifæri og möguleika, var strax hugað að því að dreif- og fjarnám yrði fastur liður í starfsemi skólans. Þannig mætti bjóða upp á fjölbreytt nám og efla rekstrarlega hagkvæmni með því að stækka námshópa með nemendum sem ekki væru búsettir á nærsvæði skólans. Þegar ljóst var hversu margir staðnemar höfðu valið mismunandi námsgreinar voru námshópar fylltir með fjarnemum sem tryggði rekstrargrundvöll námsins. Þetta reyndist vel og hefur verið grundvöllur námsframboðsins alla tíð. Lögð er áhersla á jafnræði fjar- og staðnema með því að leitast við að veita sama aðgengi að stoðþjónustu skólans. Ekki er gerður greinarmunur í ráðningum starfsmanna skólans á því hvort þeir eru í fjar- eða nærvinnu og njóta allir sömu kjara.

Kennslufræðileg nálgun  í náminu er í anda samvinnunáms (e. collaborative learning) og á það við hvort heldur sem er um staðnám eða fjarnám. Þetta þýðir að ekkert annað er að gerast í fjarnámi en staðnámi, sömu kröfur, sömu verkefni og sömu skiladagar. Þetta hefur gefist vel og skólastarf í staðnámi ekki fipast sé ekki hægt að komast til skóla vegna veðurs og ófærðar. Einnig hefur þetta reynst mjög vel þegar ekki hefur verið hægt að bjóða upp á staðnám vegna sóttvarnareglna.

Leitast er við að gera hagkvæmar stundatöflur fyrir starfsmenn þannig að þeir þurfi að ferðast færri daga til skóla og efla fjarvinnusamstarf. Allir starfsmannafundir eru fjarfundir sem og oft fundir nefnda og ráða skólans.

Upplýsingatækni

Lögð er áhersla á að hagnýta upplýsingatækni markvisst í skólastarfinu, þá bæði til að ná markmiðum varðandi fjarnám og fjarvinnu sem og í námi staðnemenda. Vel á annað hundrað forrit, öpp og fleiri verkfæri eru notuð í skólastarfinu bæði í námi sem almennri starfsemi. Markviss þjálfun og þróun á notkun verkfæranna er stöðugt í gangi en þó þannig að sjónir beinast fremur að viðfangsefnum hverju sinni en sjálfum verkfærunum sem ekki eru aðalatriði.

Starfsþróun kennara

Til að viðhalda þekkingu, bæta við og þróa skólastarfið, tekur skólinn þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum. Verkefnin eru bæði innlend, norræn og evrópsk auk verkefna sem teygja anga sína víðar. Með því móti er stöðug starfsþróun í gangi sem bætir skólastarfið. Hluti þessara verkefna snýr að styrkjum til náms erlendis en kennarar og starfsmenn í stoðþjónustu hafa tækifæri til að fara á námskeið innanlands og erlendis. Þeir eru hvattir til þess og sóst er eftir styrkjum til að gera þeim kleift að ferðast og kynnast því besta sem gerist í Evrópu og víðar. Allir starfsmenn hafa farið til útlanda, stundað nám með kennurum frá öðrum löndum, borið sig saman við þá, miðlað til þeirra og lært af þeim. Hefur þetta reynst afar valdeflandi fyrir starfsmenn sem hafa áttað sig betur á styrk sínum í starfi.

Auk þess vinna starfsmenn að stöðugri starfsþróun innan skólans á fagfundum sem eru hálfsmánaðarlega þar sem þeir miðla þekkingu, ræða aðferðir og þróa áfram námið og skólastarfið. Því má segja að í skólanum hafi skapast gott lærdómssamfélag.

Námið

Núgildandi aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011 skapar sveigjanleika í skólastarfi og gefur framhaldsskólum gott tækifæri og sjálfstæði til að móta nám sem tekur mið af sérstöðu skóla, þörfum nemenda og samfélags. Horfið hefur verið frá miðstýringu, sem einkenndi fyrri námskrá, til dreifstýringar. Til þessa var horft þegar skólanámskrá Menntaskólans á Tröllaskaga var mótuð. Eins og áður sagði voru sett fram einkunnarorð skólans, frumkvæði, sköpun og áræði, sem hafa verið rauður þráður í gegnum allt starfið en jafnframt horft til grunnstoða menntunar sem settar eru fram í aðalnámskránni. Gert er ráð fyrir að nám til stúdentsprófs taki þrjú ár og námslok séu á 3. þrepi.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 skal hver framhaldsskóli setja sér námsbrautarlýsingar sem eru svo sendar ráðherra til staðfestingar. Námsbrautir geta því verið ólíkar milli framhaldsskóla. Í raun má segja að í Menntaskólanum á Tröllaskaga hafi orðið til ein námsbraut með mismunandi sérhæfingu. Það byggist á því að af 200 einingum eru 86 einingar í sameiginlegum kjarna sem allir nemendur ljúka. Sérhæfingin felst svo í 74 einingum í félags- og hugvísindagreinum, náttúruvísindum, íþrótta- og útivistargreinum og listgreinum. Að auki hafa nemendur 40 einingar frjálsar sem þeir geta nýtt til frekari sérhæfingar eða fjölbreyttara náms sem höfðar til þeirra. Samt sem áður er það ekki svo að námsfyrirkomulagið hafi verið staðfest sem ein braut. Við skólann eru níu staðfestar brautir þar sem kjarni, sérhæfing og frjálst val mynda braut. Auk þeirra fimm leiða sem nefndar voru hér á undan er boðið upp á kjörnámsbraut þar sem einungis kjarninn er skilgreindur og nemendur byggja upp sína eigin sérhæfingu í samráði við skólann. Þá eru grunnmenntabraut, sem er 90 einingar með námslok á 2. þrepi, stúdentsbraut að loknu starfsnámi og starfsbraut fyrir fatlaða.

Þótt lögð sé áhersla á frelsi í námsvali og sveigjanleika í náminu er starfið samt í ákveðnum skorðum og skipulagi.  Verkefni nemenda eru sett í vikulotur þar sem þeir fá verkefni og aðrar upplýsingar um nám hverrar viku á mánudagsmorgni og þurfa í öllum tilfellum að skila verkefnum sínum í síðasta lagi á sunnudagskvöldum. Ekki er mögulegt að fá frest. Á þennan hátt  er vikulegt leiðsagnarmat tryggt, ásamt því að nemandinn getur skipulagt vinnu sína á mánudagsmorgni og þar með stjórnað vinnu sinni. Ákveðnar kennslustundir eru skilgreindar sem „vinnutímar“ og ekki merktar faggrein heldur vinnu nemenda. Þeir stjórna að hvaða viðfangsefnum þeir vinna hverju sinni en hafa aðgang að kennurum til leiðsagnar. Með þessu móti færist verkstjórn á námi nemenda að stórum hluta til þeirra sjálfra.

Frá upphafi hefur hverri námsönn verið skipt upp í tvennt með svo kallaðri miðannarviku. Þá er hefðbundið skólastarf lagt af og kennarar vinna að miðannarmati en nemendur taka þátt í vikulöngum áföngum um mismunandi og fjölbreytt viðfangsefni. Oftar en ekki eru fengnir kennarar og leiðbeinendur utan skólans sem koma inn með nýja þekkingu og fjölbreytni fyrir nemendur. Þarna hefur verið um að ræða bæði innlenda og erlenda aðila. Þetta hefur reynst skólanum dýrmætt og á þennan máta hefur tekist að flétta starf skólans og samfélagsins betur saman.

Kennsluumhverfið Moodle hefur verið notað frá upphafi. Það varð fyrir valinu þar sem það gefur kost á að leysa fjölbreytt viðfangsefni, til dæmis móta prófa- og verkefnabanka, hafa lesvélar fyrir lesblinda og margt fleira. Moodle er það viðamikið kennslukerfi að það setur þróun skólastarfsins ekki stólinn fyrir dyrnar en rétt er að benda á að til eru fleiri slík kerfi.

Leikjafræðin (e. gamification) hefur verið innleidd í enskukennslu til þess að hvetja og virkja nemendur í námi (Dichev og Dicheva, 2017). Einnig hefur sú reynsla verið skoðuð og nýtt í bland við aðrar aðferðir í öðrum kennslugreinum. Mestu munar að í kennslukerfinu Moodle eru verkfæri sem styðja við leikjafræði í námi.

Námsmat er afar fjölbreytt og geta nemendur oft valið hvernig þeir leysa viðfangsefnin að því gefnu að þeir sýni þekkingu sína á því sem verið er að vinna með. Með þessu móti er reynt að koma til móts við mismunandi styrkleika nemenda og gefa þeim færi á að njóta sín sem best. Við skólann er símat og því fylgir í flestum tilvikum leiðsagnarmat. Slíkt mat fer því fram á tugum viðfangsefna í hverjum námsáfanga yfir önnina en lokapróf eru ekki nýtt sem mælikvarði. Það þýðir þó ekki að próf séu ekki í skólanum, þau eru einungis einn þáttur námsmatsins og ekki umfangsmikil.

Eins og fram hefur komið hefur verið lögð áhersla á það í skólanum að virkja sköpunargáfu nemenda, gera þá sjálfstæða og efla ábyrgð þeirra á eigin námi. Á þann hátt verði þeir best undirbúnir undir framtíðina í frekara námi og starfi. Þuríður Jóna Jóhannsdóttir (2017) gerði rannsókn á einkennum skólastarfs í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þar skoðaði hún meðal annars hvað einkenndi það skólalíkan sem mótað hefur verið í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Fram kemur að markmið skólans sé að gera nemendur sjálfstæða, skapandi og að skólinn hafi áhrif á nærumhverfi sitt innan sem utan á skapandi hátt. Hlutverk skólans sé að vera valdeflandi fyrir nemendur og samfélagið. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að skólalíkan Menntaskólans á Tröllaskaga sé til þess fallið að stuðla að jöfnum möguleikum allra nemenda til náms. Skýr umgerð um tiltekna þætti í skipulagi skólastarfs og námsmat styðji læsi nemenda á skólaumhverfið og getu þeirra til að halda áætlun og ná árangri. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa því til kynna að skólalíkanið sem varð til við stofnun skólans og hér er fjallað um hafi heppnast og skilað árangri.

Nýsköpun í námi og námsframboði

Frelsi gildandi aðalnámskrár framhaldsskóla til þróunar náms er gríðarlegt. Það hafa kennarar skólans nýtt sér afar vel og hafa þeir reynst óþrjótandi brunnur hugmynda að nýjum áföngum. Margir þeirra hafa reynst vel og eiga sér fastan stað í áfangaframboði skólans. Einnig hafa nemendur komið með tillögur að námsáföngum sem hafa verið þróaðir. Þannig þróast námið stöðugt áfram í samræmi við leiðarljós skólans. Einnig geta einstakir nemendur sjálfir mótað námsáfanga fyrir sig í samstarfi við sérfræðinga skólans sem eru þá settir á þrep og námið og námsmat mótað í samstarfi kennara og nemanda.  Þá hefur námið oft verið tengt atvinnulífi, listum og félagslífi í nærumhverfinu og innlendir sem erlendir sérfræðingar hafa komið að náminu á fjölbreyttan hátt.

Í ljósi þeirra miklu breytinga sem nú eiga sér stað í samfélaginu og á atvinnumarkaði er nauðsynlegt að hafa nám sveigjanlegt en halda samt fast í ákveðna grunnmenntun og grunngildi sem endurspeglast í kjarna námsins og útfærsluleiðum. Á sama tíma er lögð rækt við að efla metnað nemenda, því á því byggist hæfni þeirra til að lifa og starfa í nútímasamfélagi og samfélagi framtíðarinnar.

Heimildir:

Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011: Almennur hluti (2012). Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Dichev, C. og Dicheva, D. (2017). Gamifying education: what is known, what is believed and what remains uncertain: a critical review. International journal of educational technology in higher education14(1), 1-36. https://doi.org/10.1186/s41239-017-0042-5

Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir. (2017, ágúst). Skólalíkan sem stuðlar að jafnréttir til náms. Einkenni skólastarfs við Menntaskólann á Tröllaskaga í ljósi kenninga Bernsteins. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af https://www.mtr.is/static/files/Greinar/15.pdf


Ljósmyndir eru úr myndasafni skólans.


Menntaskólinn á Tröllaskaga var tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2020. Smellið á myndina til að lesa umsögn viðurkenningarráðs um skólann.


Lára Stefánsdóttir er skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga frá upphafi 2010. Hún er menntunarfræðingur M.Ed. og listljósmyndari MFA. Hún hefur starfað í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Menntaskólanum á Akureyri ásamt því að hafa kennt kennurum og veitt ráðgjöf í flestum framhaldsskólum landsins.

Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir er aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga. Hún hefur sinnt því starfi frá upphafi 2010. Hún er íslenskufræðingur M.Paed. og stjórnsýslufræðingur MPA. Hún hefur starfað sem íslenskukennari og stjórnandi í Grunnskóla Ólafsfjarðar og Menntaskólanum á Tröllaskaga.


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 12.3. 2021



Menntabúðir í starfsþróun kennara – Þær virka á netinu! 

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Höfundar ásamt Ingvari Sigurgeirssyni á vinnufundi um fjarmenntabúðir. Efst: Sólveig Zophoníasdóttir, Salvör Gissurardóttir, Sólveig Jakobsdóttir. Fyrir miðju: Ingvar Sigurgeirsson, Hróbjartur Árnason, Kristín Dýrfjörð. Neðst: Svava Pétursdóttir.

Sólveig Jakobsdóttir, Hróbjartur Árnason, Kristín Dýrfjörð, Salvör Gissurardóttir, Sólveig Zophoníasdóttir og Svava Pétursdóttir  

Upplýsingatækni í menntun, fjarnám og netkennsla hafa verið óvenju mikið í deiglunni á undanförnum misserum vegna COVID-19 faraldursins. Það er ekki bara heilbrigðiskerfið sem reynt hefur á og heilbrigðisstarfsmenn sem hafa staðið í eldlínunni heldur einnig skólakerfið og kennarar. Margir kennarar, ekki síst á framhaldsskólastiginu, hafa mikla eða töluverða reynslu af fjarkennslu (Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2020). En mjög mörgum var á hinn bóginn hent út í djúpu laugina varðandi fjar- og netnám og aukna nýtingu stafrænnar tækni þegar skólalokanir og samkomutakmarkanir skullu fyrst á nær fyrirvaralaust í mars 2020.

Stjórnendur við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands skoruðu á starfsfólk  að setja fram hugmyndir að verkefnum sem gætu stutt við skóla- og frístundastarf við þessar breyttu aðstæður og voru nokkrir sem svöruðu kallinu (sjá https://bakhjarl.menntamidja.is). Við sem þetta skrifum, starfsfólk við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, ákváðum að vinna saman að því að bjóða upp á menntabúðir á neti – eða fjarmenntabúðir – þar sem áherslan væri á jafningjafræðslu um möguleika í fjar- og netnámi (Sólveig Jakobsdóttir, 2020). Vorum við svo heppin að fá Ingvar Sigurgeirsson í lið með okkur í þessum ráðagerðum en hann reyndist lykilmaður í verkefninu og studdi það dyggilega. Við sem mynduðum þennan „fjarmenntabúðahóp“ áttum samráð við fleiri aðila við skipulagningu búðanna og birt var grein í Skólaþráðum sem fjallaði um fyrirbærið menntabúðir og möguleika þeirra í starfsþróun kennara og kennaramenntun á Íslandi frá 2012 (sama heimild). Eins og þar kemur fram eru menntabúðir óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru og læra saman til dæmis á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur geta skipst á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Ekki er um að ræða hefðbundna fyrirlestra heldur oft byggt á sýnikennslu og spjalli í smærri hópum.

Menntabúðir hafa notið sívaxandi vinsælda sem námsform hér á landi. Ýmsir faghópar kennara hafa staðið fyrir menntabúðum, til dæmis í náttúrufræði og sérkennslu (Sólveig Jakobsdóttir o.fl. 2014, 2015) eða í stærðfræði. Námsformið virðist ekki síst vera nýtt af þeim sem eru að vinna með upplýsingatækni í skólastarfi eða hafa áhuga á því. Ástæðurnar fyrir því eru margar. Í fyrsta lagi hefur verið mikil þörf fyrir símenntun á sviði upplýsingatækni og að þróa árangursríkar leiðir sem ekki eru of kostnaðarsamar til að fylgjast með örri tækniþróun. Enn fremur er mikil þekking og reynsla víða til staðar hjá kennurum en hún er dreifð. Í menntabúðum er boðið upp á tækifæri til að deila þessari reynslu og hugmyndum, sýna og ræða um tæknimöguleika og verkfæri og mynda tengsl við aðra „á sömu bylgjulengd“. Jafningjafræðsluformið hentar fullorðnum vel, þar sem þeir hafa stjórn á sínu námsferli og geta átt í samskiptum við aðra á jafningjagrundvelli. Þá hefur það sýnt sig að kennaranemar hafa verið mjög ánægðir með að nýta staðlotur að hluta í jafningjafræðslu í menntabúðum og talið það gagnlegt (Sólveig Jakobsdóttir, 2015, 2018, 2019). 

Í titli áðurnefndrar greinar í Skólaþráðum (Sólveig Jakobsdóttir, 2020) var sett fram spurningin „Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu?“ Þegar sá pistill var birtur í byrjun apríl 2020 höfðum við, höfundar þessarar greinar (ásamt ógleymdum Ingvari Sigurgeirssyni), haldið fyrstu opnu fjarmenntabúðirnar fyrir starfandi kennara. Þær voru haldnar þann 26. mars og gengu ljómandi vel. Þá höfðu tveir háskólakennarar í fjarmenntabúða-hópnum einnig fært menntabúðir kennaranema, sem  halda átti í staðlotum, yfir á netið þá sömu viku með góðum árangri. Frá því greinin í Skólaþráðum var skrifuð höfum við haldið nokkrar fleiri fjarmenntabúðir. Við héldum tvennar til viðbótar á vormisseri 2020 í apríl og maí til að styðja við kennara í faraldrinum. Þá fengum við í kjölfarið styrk til að vinna rannsóknar- og þróunarverkefni um fjarmenntabúðir á skólaárinu 2020–2021. Hópurinn er nú í þeirri stöðu að geta eindregið svarað „Menntabúðir í starfsþróun kennara – Þær virka á netinu!“ Í þessum pistli munum við fjalla nánar um fjarmenntabúðir, á hverju við byggjum þetta svar og hvað hafa þurfi í huga þegar þær eru skipulagðar miðað við þá reynslu sem við höfum aflað okkur fram að þessu.

Fjarmenntabúðir á vormisseri 2020 

Við fjöllum fyrst um skipulag, þátttöku og reynslu þátttakenda í þrennum fjarmenntabúðum sem haldnar voru á okkar vegum í mars, apríl og maí 2020.

Skipulagið 

Grunnskipulag menntabúða og þar með fjarmenntabúða byggir í byrjun á auðum dagskrárramma sem væntanlegir þátttakendur taka þátt í að fylla. Dagskrárrammann settum við upp í opnu ritvinnsluskjali (Google Docs). Allir sem höfðu áhuga á að kynna efni tengt fjar- og netnámi gátu skráð sjálfir upplýsingar um væntanleg framlög. Vísað var á sex aðskildar netfundastofur (í Zoom) þar sem hver sem var gat skráð framlag sitt. Boðið var upp á nokkrar 25-30 mínútna lotur: Fjórar í fyrstu búðunum í mars, þrjár í þeim næstu í apríl og tvær í þeim síðustu í maí. Þá buðum við upp á samverustund í lokin á hverjum búðum þar sem allir gátu komið inn og spjallað. Í aprílbúðunum prófuðum við að nota sjöttu Zoom stofuna sem kaffistofu. Nánari upplýsingar um dagskrá og skipulag má finna á https://sites.google.com/view/fjarmenntabudir.

Þátttaka í búðum og könnunum 

Þátttakendur, sem ekki ætluðu að bjóða framlag, þurftu ekki að skrá sig sérstaklega til leiks en viðburðir voru settir upp í Facebook á vegum MVS og í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Þar gat fólk gefið til kynna þátttöku eða áhuga á mætingu en hvorki var um eiginlega þátttakendalista að ræða né þátttökugjöld.

Búðirnar voru auglýstar á samfélagsmiðlum, meðal annars í vinsælum Facebook hópum skólafólks (ekki síst á Skólaumbótaspjalli Ingvars Sigurgeirssonar) en einnig var vakin athygli á þeim á ýmsum póstlistum kennara á vegum samstarfsaðila. Þótt fyrirvarinn væri stuttur var mjög góð þátttaka ekki síst í fyrstu tveimur búðunum í mars og apríl en þá voru vel yfir 200 þátttakendur í hvort skipti, sjá Töflu 1. Innan við 100 voru í þeim þriðju í maí þegar skólastarf var aftur að færast í eðlilegt horf. Fjarmenntabúðahópurinn hafði haft efasemdir um að halda þriðju búðirnar en þátttakendur skoruðu á okkur í lok búðanna í apríl að bæta við þeim þriðju því æskilegt væri að festa þetta námsform betur í sessi. Þegar upp var staðið voru  429 þátttakendur víðs vegar af landinu í búðunum þremur (einni eða fleirum). Samtals var 51 kynning haldin í búðunum þremur: 24 kynningar í búðum 1, 15 í búðum 2 og 12 í búðum 3. Kynnendur voru 22 í búðum 1, 17 í búðum 2 og 14 í búðum 3. Samtals voru 39 kennarar með framlög. Sumir voru með tvö eða fleiri framlög en í sumum tilvikum voru tveir eða fleiri með sameiginlegt framlag. 

Tafla 1. Fjöldi þátttakenda og kynnenda í fjarmenntabúðum 2020 og könnunum um þær. 

* Því miður er ekki er unnt að gefa upp alveg nákvæma tölu um þátttöku en þessar tölur ættu að vera nærri lagi miðað við skráningarlista í Zoom og talningar á fundunum. Viðbótartalan 7 vísar til okkar sjömenninganna sem skipulögðu búðirnar. Ekki er hægt að leggja saman þátttakendatölur í búðum til að fá heildarfjölda þar sem sumir voru að mæta á tvennar eða þrennar búðir.

Þátttakendum var boðið að taka þátt í könnunum um reynslu sína af fjarmenntabúðum strax í kjölfar allra búðanna þriggja. Því miður var þátttökuhlutfall í könnunum ekki mjög hátt en þó var rúmur fimmtungur (57 af 231, 22%) sem svaraði eftir fyrstu búðirnar og um þriðjungur eftir búðir 2 (70 manns, 32%) og eftir búðir 3 (21, 35%).  Hér á eftir munum við lýsa svörum þátttakenda þrátt fyrir lágt svarhlutfall.

Bakgrunnur þátttakenda sem svöruðu könnunum var fjölbreyttur en fjölmennasti hópurinn tengdist grunnskólastiginu. Talsverður hópur var einnig af framhaldsskólastiginu, háskólastiginu og tengdur fullorðinsfræðslu og nokkrir af leikskólastiginu. Mynd 1 sýnir niðurstöður varðandi bakgrunn þátttakenda í könnunum. Hægt var að merkja við fleiri en eitt svið.

Mynd 1. Bakgrunnur þátttakenda í fjarmenntabúðum á vormisseri 2020. Hlutfall sem merkir við tengsl við mismunandi starfssvið.

Um kynningarnar 

Kynningarnar voru alls 51 eins og áður hefur komið fram. Innihald þeirra var mjög fjölbreytt og spannaði það helsta sem fólk var að glíma við í tengslum við að flytja kennslu sína á vefinn. Rúmlega fjórðungur kynninganna var tekinn upp í fyrstu búðunum og næstum allar kynningar í búðum 2 og 3. Við greindum kynningarnar í fjóra flokka:

  1. Kynningar sem tengjast stofnunum og verkefnum þeirra 
  2. Skjákynningar og sýningar á verkfærum 
  3. Kynningar á þróunarverkefnum þar sem ferli er lýst og prófun með nemendum 
  4. Umræður og hugflæði 

Flokkarnir falla ágætlega að hugmyndum um menntabúðir fyrir utan flokk 1. Nokkuð mörg framlög voru á vegum stofnana en fremur fá voru kynningar kennara á þróunarverkefnum þar sem ferli með nemendum var lýst. Kynningar á vegum stofnana og verkefni þeirra voru oftast á glærum eða kynning á vefgáttum með rafrænu efni eða veflægum lausnum. Almennt voru kynningar settar fram á myndrænan hátt. 

Virkni þátttakenda gat verið mikil í kynningum í öllum fjórum flokkunum en það var með ólíkum hætti eftir því hvers eðlis framlagið var. Þar skipti máli hvernig kynnendur lögðu upp framlög sín, reynsla þeirra af að virkja þátttakendur og tæknileg umgjörð. 

Viðbrögð þátttakenda 

Viðhorfakannanir sýndu að þátttakendur sem svöruðu þeim voru flestir ánægðir með framtakið, töldu sig hafa haft mikið eða mjög mikið gagn af þátttökunni og langflestum líkaði þetta námsform mjög vel eða vel, sjá Mynd 2 og 3. 

Mynd 2. Viðhorf þátttakenda varðandi gagnsemi.

 

Mynd 3. Viðhorf þátttakenda varðandi fyrirkomulag.

Langflestir þeirra sem svöruðu könnununum töldu öruggt eða líklegt að þeir mættu aftur á sambærilega viðburði (sjá Mynd 4). Þá voru nokkrir sem höfðu áhuga á að skipuleggja sjálfir viðburði af þessu tagi. 

Myndi 4. Áhugi þátttakenda á að mæta á sambærilega viðburði í framtíðinni.

Svör þátttakenda í könnunum við opnum spurningum sýndu meðal annars ánægju varðandi skipulag, áherslur og aðgengi á neti, ekki síst meðal landsbyggðarfólks. Dæmi um svör eru eftirfarandi: 

  • Mjög gott þegar maður býr úti á landi. Eins gott þegar maður vill bara kynna sér eitt efni. Maður myndi aldrei gera sér ferð fyrir hálftíma kynningu en mjög þægilegt að geta valið kynninguna á netinu. 
  • Þetta var frábært. Ekkert vesen með stærð húsnæðis, fólk ekki að keyra út um allan bæ og ekkert mál að hlusta og spyrja. 
  • Maður deilir hugmyndum og fær nýjar hugmyndir. 
  • Rosalega gott á þessum tímum að fá smá kynningu á möguleikum í fjarkennslu, kemur manni af stað til að prófa sig sjálf áfram. 
  • Frábært aðgengi og þægindi. Myndi gjarnan vilja ítarlegri og dýpri kennslu og kynningu á verkfærum sem hægt er að nota í fjarkennslu. Mjög áhugavert. 
  • Stuttar og hnitmiðaðar kynningar. Auðvelt að koma spurningum að. Persónulegt þótt ótrúlegt sé. 

Eins og fram hefur komið var þátttökuhlutfall í könnunum ekki mjög hátt og álitamál til dæmis hvort þeir sem eru ánægðari sendi frekar inn svör heldur en þeir sem óánægðari eru. Það má þó nefna að kennaranemar við Menntavísindasvið sem tóku þátt í fjarmenntabúðum í mars 2020, með svipuðu skipulagi í Zoom og hér hefur verið lýst, voru mjög ánægðir með þá reynslu sína en mikill meirihluti þeirra (92% svarhlutfall, 36 af 39) svaraði viðhorfskönnun. Mikill meirihluti kennaranemanna (86%) taldi reynsluna hafa verið mjög áhugaverða/skemmtilega og 14% töluvert áhugaverða/skemmtilega. Jafnframt töldu 47% sig hafa lært mjög mikið, 14% mikið og 33% töluvert. Þetta eru svipaðar niðurstöður og hjá fyrri kennaranemahópum (2014–2019) varðandi viðhorf til menntabúða á staðnum.

Fjarmenntabúðir skólaárið 2020–2021 

Styrkur fékkst frá Háskóla Íslands sumarið 2020 úr sjóði til að styðja við samfélagsvirkni fyrir framhaldsverkefnið „Fjarmenntabúðir: Stuðningur háskóla við skólastarf með stafrænni tækni“. Markmiðið með verkefninu er að festa fjarmenntabúðir betur í sessi hér á landi og þróa þær áfram sem leið til starfsþróunar. Í verkefnishópnum eru nú átta manns.[1]

Við höfum nýtt hönnunarmiðaða nálgun (e. design-based) þar sem við prófum mismunandi leiðir, skoðum hvern viðburð og þau gögn sem verða til í tengslum við fjarmenntabúðirnar. Tekið verður mið af þeim upplýsingum til að sníða af hnökra og búa til góð módel um hvernig hægt er að standa að slíkum viðburðum í skólasamfélaginu. 

Stefnt er að umtalsverðri miðlun kynningarefnis og náms- og kennslugagna í stafrænu formi um fjarmenntabúðir. Við höfum komið afrakstri úr búðunum sjálfum á framfæri (upptökur úr kynningum). Við höfum skrifað um þetta námsform og reynsluna af því og kynnt á ráðstefnum. Þá er stefnt að því að gera rafræna handbók með hagnýtum upplýsingum um skipulag fjarmenntabúða (online educamps) og netráðstefna (online conferences). 

Nálgun og reynsla hópsins nýttist vel haustið 2020 þegar flytja þurfti Menntakviku – árlega ráðstefnu MVS – á netið. Jafnframt var áhugavert að fylgjast með fjölmennum fjarmenntabúðum sem Eymennt stóð fyrir í október 2020 (200+ þátttakendur). Haldnar voru fjarmenntabúðir á vegum verkefnishópsins 10. desember sl. með áherslu á fjarkennslu og netlausnir og var markhópur búðanna framhalds- og háskólakennarar. Þessar desemberbúðir þóttu takast vel. Settur var upp viðburður á Facebook í samstarfi við starfsfólk MVS og var upplýsingum um búðirnar deilt á samfélagsmiðlum og póstlistum í samstarfi við Kennarasambandið,  Félag framhaldsskólakennara og starfsfólk eða stjórnendur fjögurra háskóla. Í boði voru 12 framlög í sex Zoom stofum í tveimur lotum og voru  þátttakendur á milli 60 og 70. Sjá yfirlit um framlög og upptökur á https://sites.google.com/view/fjarmenntabudir

Tvennar fjarmenntabúðir eru á dagskrá hjá okkur á vormisseri 2021. Í fyrri búðunum í febrúar er markhópur sá sami og 10. desember sl. og sama áhersla á fjar- og netnám. Í þeim seinni er markhópur grunn- og leikskólakennarar.

Hópurinn keypti lénið https://fjarmenntabudir.is sem verður nýtt fyrir verkefnið. Þá stóðum við fyrir málstofu og hringborðsumræðu á Menntakviku (Salvör Gissurardóttir og Sólveig Zophoníasdóttir, 2020; Sólveig Jakobsdóttir, 2020b) og fjarmenntabúða-verkefnið var kynnt á European Distance og Elearning Network ráðstefnunni sem haldin var í október 2020 á netinu (Sólveig Jakobsdóttir og Hróbjartur Árnason, 2020). Einnig var verkefnið kynnt á UT-messu 2021 en það var eitt af verkefnum Háskóla Íslands sem valið var í kynningarefni skólans á ráðstefnunni.

Ábendingar til þeirra sem vilja skipuleggja fjarmenntabúðir 

Við vinnum nú að gátlista sem getur gagnast öðrum við framkvæmd fjarmenntabúða þegar þeir vilja prófa slíkt form í starfsþróun og jafningjafræðslu. Þar verða meðal annars eftirfarandi atriði: 

  • Val á tæknilegu umhverfi/netrýmum 
  • Þjálfun og færni stjórnenda, kynnenda, þátttakenda 
  • Kynningar og auglýsingar 
  • Kostnaður og vinnuframlag: tól, vefur, vinnutímar, líka þeirra sem vinna ókeypis 
  • Ytri umgjörð: lög, öryggismál, friðhelgi, aðgengi, upptökur 
  • Skráning framlaga og flokkun þeirra 
  • Góð sýnidæmi, fyrirmyndir og dæmi um virkni 
  • Aðgreining á fjarmenntabúðaframlagi og vefstofuerindi (e. webinar) 
  • Skipulag: upphaf, kynningarlotur, endir 
  • Félagslegi þátturinn: gleðistundir, kaffistofusamvera 
  • Kynning á afrakstri (upptökur) 
  • Þemu og markhópar 

Loka- og þakkarorð 

Menntabúðir eru, eins og fram hefur komið, skipulagsform fyrir starfsþróun jafningja þar sem þátttakendur kynna leiðir sem þeir hafa sjálfir nýtt í kennslu sinni. Gæði  slíkra viðburða liggja að miklu leyti í umræðum þátttakenda, spurningum, svörum og sameiginlegum vangaveltum. Þess vegna skiptir máli fyrir þann sem stýrir ferlinu í hverri netfundastofu, að laða fram þátttöku frá öllum sem eru „til staðar”. Vandinn við það liggur í að margir sem ekki þekkja til eru vanari að nýta fræðsluviðburði á netinu sem neytendur og hika jafnvel við að koma fram í mynd og grípa hljóðnemann til að spyrja eða gera athugasemdir. En þegar fundarstjórar gengu ákveðið til verks og nýttu þekktar leiðir til að fá fólk til að kynna sig, kveikja á myndavél og segja jafnvel stuttlega frá reynslu sinni af umræðuefninu, gekk iðulega mjög vel að laða fram fjörugar umræður í tengslum við þær kynningar sem boðið var upp á. 

Fjarmenntabúða-námsformið er ekki síst mikilvægt á þeim óvissutímum sem við lifum á þar sem nýting stafrænnar tækni og netlausna í skólum getur verið lykill að velgengni nemenda og þess að skólar geti áfram boðið upp á sem besta menntun og fræðslu. Verkefni eins og menntabúðir hefði ekki getað orðið að veruleika nema með samvinnu og gjafmildi þeirra sem að komu. Eins og áður er getið var fjöldi þeirra kynninga sem áhugasamir gátu nýtt sér mikill. Ekki má gleyma að á bak við hvert framlag stendur einn eða fleiri kennarar og oft nemendur þeirra sem voru hluti af þróunarferlinu. Bak við kennara eru líka samstarfsmenn og stjórnendur sem margir styðja og styrkja sitt fólk. Starfsfólk hjá MVS hefur meðal annars komið að verkinu varðandi kynningar, tæknimál og fleira. Fjarmenntabúðir hafa verið hluti af ferli í lærdómssamfélagi sem hefur náð til allra skólastiga og til ýmissa deilda innan skólanna. Sannarlega er það von okkar sem að komu að ferlið eigi eftir að dafna og þróast og jafnvel  öðlast eigið líf. Einn lærdómurinn hefur verið að hvert skólastig getur veitt öðrum skólastigum aðgengi að sérhæfingu og hugmyndum. Fyrir alla þessa samvinnu og velvilja erum við þakklát. 

Að lokum langar okkur til að þakka Ingvari Sigurgeirssyni fyrir að hafa verið með okkur í þessari vegferð. Ekki er ónýtt að hafa reynslubolta í mismunandi kennsluaðferðum, mann sem hefur verið með puttann á hinum kennslufræðilega púlsi í áratugi, sem hefur lagt sig fram um að þróa skólastarf á mismunandi skólastigum og verið óþreytandi í að deila góðum hugmyndum og iðulega vera aflvaki lífs þeirra. Öll stöndum við að lokum á tímamótum og horfum yfir farinn veg. Við, sem höfum starfað með Ingvari, værum nokkuð glöð ef okkar starfsakur væri nærri eins gefandi og hans hefur verið. 

Kæri Ingvar, við munum hiklaust taka tilboði þínu um að stökkva inn í fjarmenntabúðirnar með okkur og redda málum ef á þarf að halda – höfum þig stöðugt í huga og munum vafalaust nýta okkur það í framtíðinni. Takk fyrir samstarfið! 

Hamingjustund í lok fjarmenntabúða 10.12. 2020 nýtt til að heiðra okkar frábæra félaga Ingvar Sigurgeirsson.

 

Heimildir 

Salvör Gissurardóttir og Sólveig Zophoníasdóttir. (2020). Hvaða form og skipulag er heppilegt fyrir fjarmenntabúðir – gátlisti. Erindi á Menntakviku – árlegu þingi Menntavísindasviðs, Reykjavík. https://menntakvika.hi.is/malstofa/fjarmenntabudir-studningur-haskola-vid-skolastarf/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2015). Educamps in education: Enjoyable “over-the-shoulder learning” to show and share ICT practices. Erindi og vinnustofa á EDEN 2015 annual conference: Expanding learning scenarios, Barcelona. https://uni.hi.is/soljak 

Sólveig Jakobsdóttir. (2018). Educamps in distance education: professional development and peer learning for student teachers in ICT. Í A. Volungeviciene og A. Szucs (ritstj.), Exploring the Micro, Meso and Macro: Navigating between dimensions in the digital learning landscape – Conference Proceedings of the EDEN 2018 Annual Conference (bls. 501-507). Genoa: European Distance and E-Learning Network. http://www.eden-online.org/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2019). ICT in teacher education: Educamps and peer learning. Í E. M. Varonis (ritstj.), International conference on information communication technologies in education – proceedings (bls. 1-9). Chania, Crete: ICICTE. http://www.icicte.org/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2020a). Menntabúðir í starfsþróun kennara: Geta þær virkað á netinu? Skólaþræðir, 9/4. https://skolathraedir.is/2020/04/09/menntabudir-i-starfsthroun-kennara-geta-thaer-virkad-a-netinu/ 

Sólveig Jakobsdóttir. (2020b). Fjarmenntabúðir í starfsþróun kennara: Viðhorf og reynsla þátttakenda. Erindi á Menntakviku – árlegu þingi Menntavísindasviðs, Reykjavík. https://menntakvika.hi.is/malstofa/fjarmenntabudir-studningur-haskola-vid-skolastarf/ 

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Svava Pétursdóttir. (2014, mars). The Educamp model: experience and use in professional development for teachers. Erindi á NERA (Nordic Educational Research Association), Lillehammer.

Sólveig Jakobsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Þorbjörg Guðmundsdóttir. (2015, október). Menntabúðir með margs konar hópum: Reynsla og þróun. Erindi á Menntakviku árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Reykjavík. https://uni.hi.is/soljak

Sólveig Jakobsdóttir og Hróbjartur Árnason. (2020). Development of online educamps during the COVID-19 pandemic. Í S. K. Softic, A. Teixeira og A. Szucs (ritstj.), Enhancing the human experience of learning with technology: New challenges for research in digital, open, distance & networked education (bls. 59-63). Lisbon: European Distance and E-Learning Network. http://www.eden-online.org/wp-content/uploads/2021/01/RW11_SPB_v5.pdf 

Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir. (2020). Fjarkennsla og stafræn tækni í framhaldsskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sjónarhóll kennara og stjórnenda. Netla, Sérrit – Menntakerfi og heimili á tímum COVID-19. https://netla.hi.is


[1] Í fjarmenntabúða-verkefnishópnum eru þegar þetta er skrifað Sólveig Jakobsdóttir prófessor, Hróbjartur Árnason lektor, Salvör Gissurardóttir lektor, Svava Pétursdóttir lektor og Sólveig Zophoníasdóttir doktorsnemi og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Ingvar Sigurgeirsson prófessor starfaði með hópnum fram í nóvember en þá bættist Ingileif Ástvaldsdóttir aðjúnkt við sem samstarfsaðili ásamt Sigurbjörgu Jóhannesdóttur verkefnisstjóra við Kennslumiðstöð HÍ. Valgerður Ósk Einarsdóttir kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð Háskólann á Akureyri kom í stað Kristínar Dýrfjörð dósents í ársbyrjun 2021.


Sólveig Jakobsdóttir (soljak(hja)hi.is) er prófessor í fjarkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-prófi 1989 frá University of Minnesota og doktorsprófi frá sama skóla 1996 í kennslufræðum með áherslu á tölvunotkun í menntun. Sólveig hóf störf við Kennaraháskóla Íslands 1997 og hefur stýrt Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun frá stofnun stofunnar 2008. Rannsóknir hennar og kennsla hafa snúið að upplýsingatækni í námi og kennslu og fjar- og netnámi. Vefsíða: https://uni.hi.is/soljak

Hróbjartur Árnason (hrobjartur(hja)hi.is) er lektor í kennslufræði fullorðinna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk kandidatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1987 og stundaði í kjölfarið rannsóknir í biblíufræðum við hebreska háskólann í Jerúsalem og Otto Friedrich Háskólann í Bamberg, Þýskalandi. Árið 1997 lauk hann Aufbau Studium Andragogik  frá sama skóla. Hróbjartur starfaði við fullorðinsfræðslu og kennslustjórn við menntakerfi rafiðnaðarmanna til 2003 þegar hann hóf störf við Kennarahákóla íslands. Rannsóknir Hróbjarts hafa snúið að notkun upplýsingatækni við nám og kennslu fullorðinna, þátttöku fullorðinna í námi og sambandi sköpunar og náms svo eithvað sé nefnt. Vefsíða: https://Namfullordinna.is 

Salvör Gissurardóttir (salvor(hja)hi.is ) er lektor í upplýsingatækni við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk Cand. Oceon prófi frá Háskóla Íslands 1981, M.A. prófi frá University of Iowa í námsefnisgerð og námshönnun með áherslu á tölvur í skólastarfi árið 1990. Salvör hefur starfað sem framhaldsskólakennari í Reykjavík og sem námstjóri í tölvugreinum í grunnskólum og framhaldsskólum í menntamálaráðuneyti og sem sérfræðingur í málefnum upplýsingasamfélagsins í forsætisráðuneyti. Salvör hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1991. Rannsóknir hennar og kennsla hafa tengst upplýsingatækni í námi og kennslu, opnu menntaefni(OER), netnámi, forritun, stafrænni sögugerð og tölvuleikjum í námi.

Svava Pétursdóttir (svavap(hja)hi.is) er  lektor í yngri barna kennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og doktorsprófi frá University of Leeds 2013. Hún kenndi í 15 ár yngri bekkjum auk náttúrufræði og stærðfræði á unglingastigi í Grunnskólanum í Sandgerði og Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Rannsóknir hennar beinast að kennslufræði, sköpunarsmiðjum í skólastarfi, kennslu náttúrugreina og upplýsingatækni.

Kristín Dýrfjörð (dyr(hja)unak.is) er dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Kristín starfaði sem leikskólastjóri í um áratug og var virk í félagsstörfum fyrir Félag leikskólakennara. Hún tók þátt í að rita síðustu tvær aðalnámskrár leikskóla. Rannsóknir hennar snúa að lýðræði í starfi leikskóla, skapandi starfi í leikskólum og áhrifum stefnumótunar og hugmyndafræði á leikskólastarf.

Sólveig Zophoníasdóttir (sz(hja)unak.is) er aðjúnkt við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún lauk grunnskólakennaraprófi með áherslu á myndmennt frá kennaradeild Háskólans á Akureyri, framhaldsnámsdiplómu í tölvu- og upplýsingatækni frá Kennaraháskóla Íslands og meistaraprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Hún stundar nú doktorsnám í menntavísindum við Háskóla Íslands. Sólveig hefur hannað og stýrt starfsþóunarverkefnum víða um land og hefur um langt skeið starfað með kennurum og stjórnendum að fjölbreyttri starfsþróun í tengslum við leiðtoganám í stærðfræði, leiðsagnarmat, samræður í námi og upplýsingatækni. Rannsóknir Sólveigar snúa að gæðum kennslu í skólastarfi með sértakri áherslu á upplýsingartækni og nemendaþátttöku. 


Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 26.2. 2021