1

Grunnskólakennaranámið – hvar stöndum við?

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Þuríður Jóna (t.v.) og Amalía (t.h.). Mynd: Kristinn Ingvarsson

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir

 

Tímamót urðu í menntun grunnskólakennara árið 2008 þegar sett voru ný lög um kennaramenntun (lög nr. 87/2008) sem kváðu á um að kennaranám fyrir öll skólastig skyldi vera fimm ára nám sem lyki með meistaraprófi. Þetta sama ár sameinuðust Kennaraháskóli Íslands, sem hafði verið flaggskip kennaramenntunar á Íslandi frá stofnun Kennaraskóla Íslands árið 1908, og Háskóli Íslands. Í greininni er þróun grunnskólakennaranáms til umræðu og þau áhrif sem lenging þess hafði á aðsókn og fjölda brautskráninga við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fram til ársins 2020.

Grunnskólakennaranám við Menntavísindasvið

Á Menntavísindasviði voru grunnskólakennarar fram til 2018 menntaðir í kennaradeild sem var ein þriggja deilda sviðsins. Eftir að kennaranám var lengt í fimm ár var gert ráð fyrir að þeir sem vildu verða grunnskólakennarar tækju fyrst þriggja ára B.Ed.-próf í grunnskólakennarafræðum og síðan tveggja ára meistaranám til M.Ed.-gráðu. Árið 2013 var opnuð ný námsleið í grunnskólakennaranámi ætluð fólki með BA- eða BS-gráðu í einhverjum af kennslugreinum grunnskólans eða skyldum greinum. Um var að ræða tveggja ára meistaranám til M.Ed.-gráðu í uppeldis- og kennslufræði til undirbúnings fyrir grunnskólakennslu.

Skólaárið 2018–2019 var kennaradeild skipt í tvær deildir, annars vegar deild faggreinakennslu sem menntar grunnskólakennara í faggreinum grunnskólans og hins vegar deild kennslu- og menntunarfræði sem menntar grunnskólakennara yngri barna. Sérhæfing í heimilisfræði var flutt í deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og fékk heitið Heilsuefling og heimilisfræði. Í þeirri deild fer einnig fram nám íþróttakennara. Í deild faggreinakennslu er meistaranám til M.Ed.-gráðu ætlað þeim sem lokið hafa kennaranámi til B.Ed.-gráðu, en einnig fólki með BA- eða BS-gráðu í fræðigreinum sem samsvara kennslugreinum í grunnskólum (Háskóli Íslands, 2020–2021). Námið á þessum tveimur leiðum er skipulagt með mismunandi hætti og tekur mið af fyrra námi. Í deild kennslu- og menntunarfræði er námsleiðin Kennslufræði yngri barna í grunnskóla, M.Ed. ætluð þeim sem hafa lokið bakkalárprófi (BA/BS) í greinum eða greinasviðum sem kennd eru á yngri stigum grunnskóla (Háskóli Íslands, 2020–2021). Þessi leið er aðskilin frá meistaranámi fyrir þá sem hafa B.Ed.-próf í grunnskólakennarafræðum, en sú námsleið nefnist Grunnskólakennsla yngri barna. Frá haustinu 2020 eru allar þessar námsleiðir í boði til M.Ed.-gráðu og MT-gráðu, sem er 120 eininga nám á meistarastigi án lokaritgerðar. Það hafa því orðið talsverðar breytingar á kennaranámi og skipulagi þess við Menntavísindasvið þau tólf ár sem það hefur starfað.

Aðgerðir til að fjölga grunnskólakennurum

Árið 2011 brautskráðust síðustu kennararnir sem fengu leyfisbréf til kennslu eftir B.Ed.-próf. Fimm árum síðar, árið 2016, var orðið ljóst að brautskráðum grunnskólakennurum með meistarapróf fjölgaði allt of hægt og ef ekkert yrði að gert blasti við hrun í stéttinni. Síðla árs 2016 hafði félag kennaranema við Háskóla Íslands frumkvæði að því að hrinda af stað verkefninu Komdu að kenna (Komdu að kenna, e.d.) og var meginmarkmiðið að hvetja til jákvæðrar umræðu um störf kennara og hvetja fólk til að fara í kennaranám. Verkefnið vakti athygli og fékk góðar viðtökur og varð fljótlega að sameiginlegum vettvangi þeirra háskóla sem bjóða upp á kennaranám og hefur verið notað til að auglýsa námið síðan. Þetta ásamt öðrum aðgerðum hefur orðið til þess að aðsókn í grunnskólakennaranám hefur aukist töluvert á síðustu árum. Það er þó ekki farið að skila sér enn þá í fleiri útskrifuðum grunnskólakennurum, en á árunum 2016–2018 luku um 80 kennaranemar á ári námi úr þeim tveimur háskólum sem mennta grunnskólakennara, Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands (Stjórnarráðið, 2019).

Í mars 2019 var sett af stað átakið Fjölgum kennurum á vegum Mennta- og menningarmála-ráðuneytisins (Stjórnarráðið, 5. mars 2019) til að fjölga brautskráðum grunn- og leikskólakennurum. Aðgerðirnar sem ráðist var í voru eftirfarandi:

  • Frá og með hausti 2019 bauðst kennaranemum á lokaári meistaranáms launað starfsnám sem felst í því að kennaranemar geta tekið það vettvangsnám sem tilskilið er í kennaranámi á meistarastigi (12 ECTS) í starfi sem kennarar. Kennaraneminn þarf sjálfur að ráða sig til kennslu við grunnskóla og fá samþykki háskólans til að tengja starfið og námið.
  • Kennaranemar geta valið á milli tveggja leiða til að ljúka meistaranámi, M.Ed. (30e rannsóknarritgerð) og MT (eingöngu námskeið).
  • Ný lög gera ráð fyrir að leyfisbréf kennara verði eitt og gildi fyrir öll skólastig.
  • Veittur er styrkur til kennaranema sem ljúka námi.

Grunnskólakennaranemar á B.Ed.-stigi

Í grein höfunda frá árinu 2018 er vakin athygli á því hruni sem varð í fjölda grunnskólakennaranema á tímabilinu 2011 til 2017 (Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir, 2018) og því er fróðlegt að draga upp mynd af breytingum á allra síðustu árum í kjölfar fyrrgreindra breytinga á náminu. Á mynd 1 hér fyrir neðan sést fjöldi skráðra grunnskólakennaranema og fjöldi brautskráðra úr bakkalárnámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á tímabilinu 2009 til 2020 (Háskóli Íslands, 2020b). Ekki eru taldir með stúdentar í íþróttakennaranámi, en þeir hafa fengið leyfisbréf bæði í grunn- og framhaldsskólum.

Mynd 1. Fjöldi innritaðra grunnskólakennaranema og fjöldi sem lýkur B.Ed.-gráðu.

Á mynd 1 má sjá að eftir að kennaranám var lengt í fimm ára nám fækkaði skráðum grunnskóla-kennaranemum í bakkalárnámi mikið. Á tímabilinu 2009–2020 voru þeir flestir 648 árið 2009 en fæstir 264 árið 2016. Árið 2019 fer þeim að fjölga aftur. Árið 2020 fjölgaði stúdentum í grunnnámi við HÍ um 21% en fjölgunin var talsvert meiri í kennaranámi (Háskóli Íslands, 2020b). Konur eru í meirihluta grunnskólakennaranema og hafa verið um og yfir 80% ef frá eru talin síðustu þrjú árin, þegar þær hafa verið 76–77% grunnskólakennaranema á B.Ed.-stigi.

Fjöldi kennaranema skiptir máli en ekki síður hvernig námsframvinda þeirra er og hvort mikið brottfall er úr hópnum. Ef litið er á fimm ára tímabil frá 2014 til 2018 voru að meðaltali 295 nemar skráðir í grunnskólakennaranám til B.Ed.-gráðu og 73 nemar luku námi á ári. Ef brottfall væri ekkert og allir lykju námi á þremur árum þá ætti um þriðjungur hópsins að ljúka bakkalárprófi árlega eða um 100 í stað þeirra 73 sem luku námi að meðaltali.

Í meira en aldarfjórðung hefur verið hægt að stunda grunnskólakennaranám bæði í stað- og fjarnámi og vitað er að þeir nemendur sem stunda fjarnám eru á margan hátt ólíkir þeim nemendum sem stunda staðnám (Þuríður Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir, 2020). Á síðustu árum hafa spurningakannanir verið lagðar fyrir grunnskólakennaranema til að kanna aðstæður þeirra og meðal annars til að draga fram ólík einkenni þessara hópa (Amalía Björnsdóttir o.fl., 2019; Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir, 2020a). Árin 2018 og 2019 var yfir helmingur nýnema í bakkalárnámi í staðnámi en tæpur helmingur í fjarnámi eða blöndu af stað- og fjarnámi. Um helmingur fjarnema bjó á höfuðborgarsvæðinu og árið 2019 bjuggu þrír af hverjum fjórum fjarnemum á höfuðborgarsvæðinu eða Suðurnesjum. Ef skoðuð er aldursdreifing í hópi nýnema kemur í ljós að um 75% staðnema eru undir 26 ára aldri þegar þeir hefja fimm ára kennaranám á meðan um 75% fjarnema eru eldri en 26 ára. Næstum helmingur fjarnema hafði unnið sem leiðbeinendur í grunnskóla áður en þeir hófu námið en ekki nema tæp 15% staðnema. Á fyrsta námsári var ríflega helmingur fjarnema og um 10% staðnema við kennslu sem leiðbeinendur í grunnskóla með fram námi. Athygli vekur hversu mikið fjarnemar ætla að vinna með námi en nálægt helmingur þeirra ætlar að vinna í 31 klst. eða meira á viku.

Fjarnemar eru því að stórum hluta það sem kallað hefur verið óhefðbundnir stúdentar en það eru þeir kallaðir sem hefja nám eftir 25 ára aldur, eru þá gjarnan komnir með skuldbindingar vegna fjölskyldu og vinnu og velja fjarnámsformið vegna þess að það gerir þeim mögulegt að stunda nám á öðrum tíma en hefðbundið háskólanám í staðnámi fer fram (Delaney, 2015; Þuríður Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir, 2020). Miðað við bakgrunn fjarnema, svo sem mikla vinnu með námi og börn á framfæri, má ætla að framvinda þeirra í náminu sé hægari en staðnema en þar sem kennaranemar eru ekki skráðir eftir námsformi er ekki hægt að bera saman námsframvindu þessara tveggja hópa.

Grunnskólakennaranemar á meistarastigi

Mynd 2. Fjöldi innritaðra grunnskólakennaranema á meistarastigi og fjöldi sem lýkur MEd.-gráðu.

Kennaranemum í meistaranámi hefur fjölgað umtalsvert á síðustu þremur árum eins og sést á mynd 2, úr rúmlega 200 árið 2017 í 520 árið 2020 (Háskóli Íslands, 2020a). Langmest var fjölgunin milli áranna 2019 og 2020, en þá var í fyrsta sinn hægt að skrá sig á námsleið án lokaritgerðar (MT). Haustið 2020 voru 72% grunnskólakennaranema á meistarastigi í kennslu yngri barna á hinni nýju MT-leið, hlutfallið var 80% í deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda en þar er nám í heilsueflingu og heimilisfræði, og 58% í deild faggreinakennslu. Það er því ljóst að MT-leiðin höfðar til stórs hóps grunnskólakennaranema.

Þegar skoðaður er fjöldi meistaranema í kennaranámi verður að hafa í huga að það eru tvær leiðir inn í grunnskólakennaranám á meistarastigi, B.Ed.-gráða í grunnskólakennarafræðum eða BA/BS-gráða í kennslugrein grunnskóla eða skyldum greinum. Haustið 2020 voru ríflega 60% nýnema í meistaranámi í grunnskólakennarafræðum í tveggja ára kennaranámi eftir BA/BS-próf.

Síðan námið var lengt í fimm ár hafa flestir grunnskólakennarar brautskráðst frá Menntavísindasviði árið 2020, eða 67, en á síðustu þremur árum hafa alls 163 brautskráðst. Til samanburðar brautskráðust að meðaltali 162 grunnskólakennarar árlega frá Kennaraháskóla Íslands, forvera Menntavísindasviðs, á tímabilinu 1998 til 2003 (Ríkisendurskoðun, 2003). Úr tveggja ára meistaranámi ætti um helmingur þeirra nema sem skráðir eru til náms að útskrifast árlega ef brottfall væri ekkert og námstími eðlilegur en reyndin hefur verið að nær fjórðungur nema hefur brautskráðst árlega. Það blasir því við að lítil von er til að ráða bót á kennaraskorti í stétt grunnskólakennara við óbreyttar aðstæður og ástandið hefur verið svipað síðustu ár eins og fram kemur í grein höfunda frá 2018, en þar kom fram að nýnemar í meistaranámi voru fáir og allt of fáir luku námi (Þuríður Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir, 2018).

Mynd 3. Fjöldi útskrifaðra úr fimm ára grunnskólakennaranámi og með meistarapróf að loknu BA/BS-prófi.

Á mynd 3 sést að á árunum 2013 til 2020 var nokkur hópur að brautskrást sem hafði komið inn í grunnskólakennaranám að loknu BA- eða BS-prófi í einhverri af kennslugreinum grunnskólans eða skyldum greinum. Á síðustu árum hefur orðið töluverð fjölgun í þessum hópi og voru til að mynda 28 af þeim 67 sem luku prófi til grunnskólakennara árið 2020 úr þessum hópi, eða 42%.

Áhugavert er að skoða nánar hvað einkennir þennan hóp sem hefur kennaranám að loknu bakkalárnámi í annarri grein en grunnskólakennarafræði. Haustið 2019 lögðu höfundar könnun fyrir nýnema í þessum hópi (Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir, 2020b). Þá voru 82 nemar innritaðir á fyrra árið í meistaranáminu og af þeim tóku 67 nemar þátt í könnuninni. Þátttakendur skiptust jafnt á milli námsleiða sem mennta kennara til faggreinakennslu og kennslufræði yngri barna í grunnskóla og er það í góðu samræmi við skráningu á námsleiðir. Auk bakkalárprófs höfðu 11 lokið meistaraprófi. Bakkalárprófið var af 35 mismunandi námsleiðum, flestir voru með BS-próf í sálfræði (6), og næstflestir með BA í félagsráðgjöf (5). Ef skoðaðar eru kennslugreinar grunnskólans þá voru flestir með gráðu í ensku (4) síðan þrír í hverju þessara faga, dönsku, íslensku og sagnfræði. Af þeim sem svöruðu könnuninni voru 70% yfir þrítugu og 19% yfir fertugu. Þrír af hverjum fjórum voru í sambúð eða hjónabandi og 70% með börn á framfæri sínu. Flestir unnu með námi og 60% þeirra fulla vinnu. Rúmur helmingur hafði unnið sem leiðbeinendur í grunnskóla áður en þeir hófu námið og 48% voru leiðbeinendur í grunnskóla með fram námi. Konur voru 88% nemanna, yfir 80% voru fjarnemar og fyrir þann hóp skipti það miklu máli að námið var í boði í fjarnámi.

Þetta voru sem sagt óhefðbundnir stúdentar, meirihlutinn konur og fjarnámið var lykillinn að því að þær völdu námið. En þessir nemar fundu fyrir álagi og töldu 44% að skyldur vegna fjölskyldu hefðu neikvæð áhrif á námið og 61% að álag vegna launaðrar vinnu hefði neikvæð áhrif. Gera má ráð fyrir að námstími hópsins verði nokkuð langur, tæpur helmingur var í fullu námi og fjórðungur í minna en hálfu námi. Nemar notuðu lítinn tíma í námið, aðeins 10% sögðust verja meira en 26 klst. á viku til náms.

Ætla má að sú breyting sem varð skólaárið 2019–2020, að kennaranemar sem eru við kennslu í grunnskólum geta fengið hana viðurkennda sem vettvangshluta námsins á seinna námsári, ætti að gera þeim auðveldara fyrir. Ný gráða á meistarastigi, MT, sem gerir ekki kröfur um lokaverkefni til að ljúka náminu verður líklega til þess að fleiri ljúki námi á styttri tíma. Námsleiðin var stofnuð haustið 2020 við Menntavísindasvið og þá fjölgaði skráningum umtalsvert en það ár voru 520 skráðir í meistaranám í grunnskólakennarafræðum en voru 333 árið á undan.

Samantekt og lokaorð

Það er athyglisvert sem fram kemur í niðurstöðum könnunar meðal kennaranema að stór hluti þeirra er við kennslu í grunnskólum á meðan þeir eru í náminu, eða tæpur helmingur nema í B.Ed.-námi og yfir 80% nema í meistaranámi að loknu BA/BS-prófi. Rúmur helmingur nema í grunnnámi er þó á hefðbundnum aldri háskólastúdenta og hefur kennaranám fljótlega eftir lok framhaldsskóla. Þessi hópur er jafnframt ólíklegri til að vinna við kennslu með náminu. Út frá þessu má gera ráð fyrir að það taki stóran hluta nema lengri tíma að ljúka B.Ed.-náminu en þrjú ár. En þar sem nú er gert ráð fyrir að kennaranemar á seinna ári í meistaranámi séu við kennslu í grunnskólum og að það sé hluti af náminu má ætla að það auðveldi þeim hópi sem starfar við kennslu að ljúka námi á tilsettum tíma. Síðan farið var að gera ráð fyrir að vettvangsnámið mætti taka á launum hafa um 80% kennaranema starfað við kennslu síðasta árið í námi.

Það er vandamál hve fáir hafa lokið B.Ed.-námi í grunnskólakennarafræðum síðustu ár. Þó að sá hópur héldi allur áfram í meistaranámi til kennararéttinda er það langt frá því að vera nóg, en greiningar hafa leitt í ljós að margfalda þarf fjölda útskrifaðra grunnskólakennara til að viðhalda stéttinni (Helgi Eiríkur Eyjólfsson, 2017; Helgi Eiríkur Eyjólfsson og Stefán Hrafn Jónsson, 2017; Ríkisendurskoðun, 2017; Stjórnarráðið, 2019). Það er því ánægjuefni að mikill áhugi virðist vera á hinni nýju MT-námsleið. Ef þeir grunnskólakennaranemar sem voru skráðir í MT-námið haustið 2020 ná að ljúka námi á tveimur árum þá gæti það orðið nálægt þeim fjölda sem lauk námi árlega í kringum síðustu aldamót. Breytingar á kennaranámi eru ekki bara tengdar hinni nýju MT leið. Miðað við þær tölur sem hér eru kynntar þá mun á næstu árum meirihluti grunnskólakennara fá leyfisbréf að loknu tveggja ára kennaranámi til viðbótar við BA/BS-próf.

Heimildir

Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. (2020a). Nemar í grunnskólakennaranámi á fyrsta misseri haustið 2019. Spurningakönnun meðal grunnskólakennaranema á fyrsta ári í B. Ed.-námi við Háskóla Íslands haustið 2019.  https://menntavisindastofnun.hi.is/sites/default/files/2020-11/grunnskolakennaranemar_NR3_2019_0.pdf

Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. (2020b). Nemar í kennslufræði grunnskóla að loknu BA/BS/B.Ed.-prófi: Spurningakönnun meðal nema á fyrra námsári í M.Ed.-námi haustið 2019. https://menntavisindastofnun.hi.is/sites/default/files/2020-11/Kennslufraedigrunn-2019_lokaeintak_.pdf

Amalía Björnsdóttir, Þuríður Jóhannsdóttir og Halla Jónsdóttir (2019). Nemar í grunnskólakennaranámi. Spurningakönnun meðal grunnskólakennaranema á fyrsta ári í B.Ed.-námi skólaárið 2018–2019. https://menntavisindastofnun.hi.is/sites/default/files/2020-11/grunnskolakennaranemar_2018-2019.pdf

Delaney, L. (2015). Who graduates from Irish distance university education? European Journal of Open, Distance and E-learning18(1), 99–113. doi: 10.1515/eurodl-2015-0007

Háskóli Íslands. (2020a). HÍ í tölum. Nemendur. https://www.hi.is/kynningarefni/nemendur

Háskóli Íslands. (2020b). Metfjöldi umsókna við Háskóla Íslands. https://www.hi.is/frettir/metfjoldi_umsokna_vid_haskola_islands

Háskóli Íslands. (2020–2021). Kennsluskrá.

Helgi Eiríkur Eyjólfsson. (2017). Tímaatburðagreining á ferli nýútskrifaðra grunnskólakennara (óútgefin meistararitgerð). http://hdl.handle.net/1946/29028

Helgi Eiríkur Eyjólfsson og Stefán Hrafn Jónsson. (2017). Skýrsla til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara í Reykjavík. Könnun á meðal útskriftaárganga úr kennaranámi HÍ/KHÍ og HA árin 2000–2012. Reykjavík: Rannsóknarsetur í mannfjöldafræðum.

Komdu að kenna. (e.d.) Um komdu að kenna. https://komduadkenna.is/um-verkefnid/

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008.

Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 95/2019.

Ríkisendurskoðun. (2003). Grunnskólakennarar Fjöldi og menntun Stjórnsýsluúttekt. https://rikisendurskodun.is/wp-content/uploads/2016/01/kennarar.pdf

Ríkisendurskoðun. (2017). Kostnaður og skilvirkni kennaramenntunar. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. https://rikisendurskodun.is/wp-content/uploads/2017/02/SU-kostnadur_og_skilvirkni_kennaramenntunar_HI_og_HA.pdf

Stjórnarráðið, Fjölgum kennurum: aðgerðir í menntamálum. 5. mars 2019.
https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/adgerdir-i-menntamalum/fjolgum-kennurum-adgerdir-i-menntamalum/)

Stjórnarráð Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2019). Aðgerðir í menntamálum. Nýliðun kennara. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2d8cee62-3f5b-11e9-9436-005056bc530c

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir (2018). Staðnemar og fjarnemar í grunnskólakennaranámi við Menntavísindasvið: Bakgrunnur, viðhorf og áhugi á að starfa við kennslu. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.hi.is/greinar/2018/ryn/11 DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2018.11

Þuríður Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir. (2020). Online teacher education: A way to create a more diverse teacher workforce. Í M. Brown, M. N. G. Mhichil, E. Beirne og E. Costello (ritstjórar), Proceedings of the 2019 ICDE world conference on online learning (1. bindi, bls. 476–484). Dublin: Dublin City University. doi:10.5281/zenodo.3804014


Þuríður Jóna Jóhannsdóttir (thuridur(hja)hi.is) er prófessor í menntunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í íslensku og þjóðfélagsfræði frá HÍ árið 1978, prófi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda 1990, M.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 2001 og doktorsprófi frá HÍ 2010. Rannsóknir hennar hafa snúist um fjarnám í kennaranámi og á framhaldsskólastigi, notkun upplýsingatækni í skólum, þróun framhaldsskóla, nám á landsbyggðinni og námskrárþróun.

Amalía Björnsdóttir (amaliabj(hja)hi.is) er prófessor við deild Heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.- prófi frá University of Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á sviði mælinga og prófagerðar, lestrar- og málþroskamælinga, skólastjórnunar og áhrifa félagslegra þátta á skólastarf.



Gestaritstjórn afmælisgreina Ingvars Sigurgeirssonar: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, Baldur Sigurðsson dósent og Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkur.


Grein birt 5.3. 2021