1

Litið yfir farinn veg 25 árum eftir flutning grunnskólans frá ríki til sveitafélaga: Hverju hefur helst farið fram og hvað er brýnast að bæta?

Ingvar Sigurgeirsson

 

Á síðasta ári voru 25 ár síðan rekstur grunnskólans var fluttur yfir til sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að Skólaþing sveitarfélaga árið 2021 yrði helgað umræðu um farinn veg og horft fram á veginn til næstu 25 ára. Óskað var eftir því að ég ávarpaði þingið og fékk erindið heitið Hverju hefur helst farið fram og hvað er brýnast að bæta? (Erindið, sem er að finna hér, var raunar ekki flutt fyrr en 21. febrúar 2022 þar sem fresta þurfti þinginu af kunnum ástæðum.)

Á undanförnum árum og áratugum hef ég unnið með mörgum skólum og sveitarfélögum að verkefnum sem meðal annars hafa tengst kennsluháttum, skólaþróunarverkefnum, námsmati, samskiptum, skólaskipan, skólabyggingum og mótun skóla- og menntastefnu. Í þessari vinnu hef ég átt þess kost að eiga samræður við kennara og starfsfólk skóla, fulltrúa í sveitarstjórnum, nemendur, foreldra og íbúa og var hugmynd mín að byggja erindið á þessari reynslu og velja dæmi um það sem vel hefur verið gert, sem og um það sem mikilvægast væri að bæta.

Fljótlega eftir að ég fór að velta efninu fyrir mér og velja dæmi fæddist sú hugmynd að leita álits fólks sem vel hefur fylgst með skólamálum á undanförnum árum og sendi ég 25 skólamönnum beiðni um álitsgjöf og bað þá að svara fjórum spurningum:

 1. Getur þú tilgreint stuðning sveitarfélags við grunnskólastarf sem þér finnst vera til fyrirmyndar? Settu gjarnan stutt rök.
 2. Koma þér í hug skólaþróunarverkefni sem sveitarfélög hafa efnt til og eru til eftirbreytni? Eru einhver framúrskarandi?
 3. Hverjar eru stærstu áskoranir sem sveitarfélög standa nú frammi fyrir gagnvart grunnskólanum?
 4. Hvaða lærdóma má helst draga af reynslunni af flutningi grunnskólans frá ríki og yfir til sveitarfélaganna?

Skemmst er frá því að segja að þegar upp var staðið hafði ég í höndum 25 svör við þessum spurningum og þó ég legði áherslu á að svörin mættu vera stutt, voru mörg ítarleg og öll vönduð. Þar sem erindi mitt á Skólaþinginu átti að vera stutt (20 mínútur) sá ég enga leið til að gera svörum álitsgjafa minna sæmileg skil og ákvað því að skrifa þessa grein í því skyni að gera svörum þeirra verðugri skil en hægt var að gera í stuttu erindi. Eins og sjá má eru álitsgjafarnir fjölbreyttur hópur sem býr yfir mikilli og margþættri reynslu. Hafi þau þökk fyrir!


Álitsgjafarnir:

 1. Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir aðjúnkt við Háskóla Íslands
 2. Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Háskóla Íslands
 3. Birna Sigurjónsdóttir fyrrverandi verkefnisstjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar
 4. Dr. Börkur Hansen prófessor við Háskóla Íslands
 5. Eiríkur Hermannsson fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjanesbæ
 6. Dr. Gerður G. Óskarsdóttir fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík
 7. Guðni Olgeirsson sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu
 8. Hafsteinn Karlsson skólastjóri Salaskóla
 9. Helgi Arnarson fræðslustjóri í Reykjanesbæ
 10. Helgi Grímsson sviðsstjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar
 11. Dr. Hermína Gunnþórsdóttir prófessor við Háskólann á Akureyri
 12. Kristrún Lind Birgisdóttir framkvæmdastjóri skóla- og ráðgjafaþjónustunnar Ásgarðs
 13. Dr. Meyvant Þórólfsson prófessor emiritus við Háskóla Íslands
 14. Ólafur H. Jóhannsson fyrrverandi skólastjóri og lektor við Háskóla Íslands
 15. Oddný Sturludóttir aðjúnkt og verkefnisstjóri við Háskóla Íslands
 16. Ragnar Þór Pétursson formaður Kennarasambands Íslands
 17. Ragnar Þorsteinsson fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík
 18. Dr. Rúnar Sigþórsson prófessor emiritus við Háskólann á Akureyri
 19. Soffía Vagnsdóttir skrifstofustjóri fagskrifstofu grunnskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar
 20. Svandís Ingimundardóttir skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
 21. Svanhildur María Ólafsdóttir fyrrverandi formaður Skólastjórafélags Íslands
 22. Trausti Þorsteinsson fyrrverandi fræðslustjóri og dósent við Háskólann á Akureyri
 23. Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar
 24. Þorsteinn Sæberg formaður Skólastjórafélags Íslands
 25. Þóra Björk Jónsdóttir sérfræðingur við mat á skólum hjá Menntamálastofnun

Stuðningur til fyrirmyndar og framúrskarandi skólaþróunarverkefni

Mörg sveitarfélög bar á góma þegar spurt var um stuðning við grunnskóla sem væri til fyrirmyndar en áberandi var að verkefni sem tengdust Reykjavík komu langoftast við sögu og má segja að borgin hafi þar algjöra sérstöðu. Fimmtán álitsgjafar nefndu fyrirmyndarverkefni á vegum Reykjavíkurborgar og sumir nefndu mörg. Næst komu Kópavogsbær og Reykjanesbær en verkefni í þessum sveitarfélögum voru nefnd í svörum átta álitsgjafa.

Flestir sem tefldu fram Reykjavík nefndu menntastefnuna, bæði þá stefnu sem nýlega hefur verið samþykkt (Látum draumana rætast), en einnig stefnumörkun um einstaklingsmiðað nám sem mótuð var undir stjórn Gerðar G. Óskarsdóttur skömmu eftir yfirfærsluna.

Einn álitsgjafanna sagði:

Ég get ekki sleppt því að nefna nýlega Menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, en undirbúningur stefnumörkunar, kynning á áherslum stefnunnar og innleiðing hennar er að mínu mati til mikillar eftirbreytni og óhætt er að nefna það verkefni sem eitt af merkilegri skólaþróunarverkefnum síðari tíma.

Um stefnumörkunina sem tengdist einstaklingsmiðaða náminu sagði annar álitsgjafi:

Hægt er að segja að sú þróunarvinna sem hófst á þessum tíma hafi leitt af sér marga vaxtarsprota og þróun í grunnskólum Reykjavíkur. Má þar m.a. nefna móðurskólana en hlutverk þeirra var að vera frumkvöðlar á sínu sviði í uppbyggingu náms og að gegna ráðgjafarhlutverki gagnvart öðrum skólum með fræðslufundum og heimsóknum. Það voru m.a. móðurskólar í náttúruvísindum, list- og verkgreinum, þróun kennsluhátta, fjölmenningu og nýsköpun.[1]

Fjórir álitsgjafar nefndu starfsþróunarverkefni sem borgin hefur staðið fyrir, sem og nýja og eflda þróunarsjóði vegna innleiðingar menntastefnunnar fyrir leik- og grunnskóla. Þrír nefndu leiðsagnarnámsverkefnið, sem á síðasta ári hlaut Íslensku menntaverðlaunin (sjá um það hér). Þá var borginni hrósað fyrir að hafa stofnað Miðju máls og læsis, Mixtúru (sköpunar- og upplýsingatækniver SFS) og Miðstöð útivistar og útináms. Eins var borginni hrósað fyrir Skrekk, verkefnið Betri borg, að hafa komið á fót nýsköpunarskóla (Víkurskóla) og uppbyggingu frístundastarfs, sem og fyrir skólabyggingar og var Norðlingaskóli tilgreindur sérstaklega.

Sjö af þeim átta sem nefndu Kópavogsbæ nefndu spjaldtölvuverkefnið og má taka þessa umsögn sem dæmi:

Spjaldtölvuverkefni Kópavogsbæjar er afar metnaðarfullt verkefni sem fór af stað árið 2015. Vel var staðið að innleiðingu þess og því hefur verið fylgt prýðilega eftir. Þetta er svo sannarlega til eftirbreytni og framúrskarandi í þeim skilningi að sveitarfélagið tók af skarið á fremur umdeildu sviði. Kennarar fengu góða fræðslu og stuðning i upphafi og fljótlega varð til mikil þekking í hverjum skóla sem kennararnir miðluðu sín á milli.

Einnig var Kópavogsbæ hrósað fyrir almennan metnað í skólastarfi.

Reykjanesbæ var hrósað fyrir menntastefnu sína, lestrarverkefni, stuðning við fjölmenningarkennslu, samstarf grunn- og tónlistarskóla og tveir nefndu byggingu Stapaskóla. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að Stapaskóli sé einhver áhugaverðasta skólabygging sem reist hefur verið hér á landi. Um þessa byggingu sagði ég í erindi mínu á Skólaþinginu:

Úr Stapaskóla. Myndin er úr myndasafni skólans.

Ég ætla að taka svo djúpt í árinni að segja að ég er enn að jafna mig eftir fyrstu heimsókn mína í Stapaskóla í Reykjanesbæ. Ég einfaldlega trúði varla eigin augum: Reykjanesbær, sem fyrir örfáum árum var undir eftirliti vegna skuldastöðu sinnar reisir nú einhverja áhugaverðustu skólabyggingu sem ég hef séð og hef þó marga skóla skoðað. Og það er ekki bara byggingin. Það er líka skólalóðin sem er einhver sú best búna og hugvitsamasta sem ég hef séð hér á landi og þó víðar væri leitað. Og ég fæ ekki betur séð en að þeir kennsluhættir sem þar er verið að þróa vísi til framtíðar. Ég giska á að Reykjanesbær hafi sett okkur ný viðmið fyrir skólabyggingar.

Næstur í röðinni var Akureyrarbær sem nefndur var af sjö álitsgjöfum. Þeir sem tilgreindu Akureyri nefndu menntastefnu bæjarins, læsisstefnu, stuðning við þróunarverkefni, en þó oftast samvinnu við Háskólann á Akureyri, en um hana sagði einn álitsgjafinn:

Akureyrarbær [er] dæmi um sveitarfélag sem hefur tekist að styðja vel við grunnskólastarf frá því að grunnskólarnir fluttust frá ríki til sveitarfélaga með grunnskólalögunum 1995. Þar hefur tekist að byggja upp öflugt menntasamfélag og freistandi að líta svo á að tilkoma Háskólans á Akureyri, kennaradeildarinnar, spili þar stórt hlutverk.

Og annar komst svo að orði um þessa samvinnu sem hann segir hafa verið gagnvirka:

Þar hefur Miðstöð skólaþróunar á Akureyri gegnt lykilhlutverki auk þess sem skólastjórnendur grunnskólanna hafa mjög opið aðgengi að ráðgjöf, handleiðslu og þjónustu frá háskólanum í raun án þess að skólarnir þurfi að greiða fyrir. Mikið er einnig um rannsóknir á vegum háskólans innan grunnskólanna sem hefur gefið skólunum ýmiss tækifæri til skólaþróunar.

Hafnarfjarðarbær var nefndur fimm sinnum og var hrósað fyrir skólabyggingar (Skarðshlíðarskóla), en einnig fyrir almennan metnað. Þrír álitsgjafar nefndu Brúna, en um það verkefni sagði ég einmitt í erindi mínu: „mér sýnist sú þverfaglega og samþætta samvinna til stuðnings börnum í vanda, sem þar er lögð til grundvallar, hafi vísað veginn við undirbúning farsældarfrumvarpsins sem margir binda miklar vonir við.“

Garðabær og Skagafjörður voru nefndir til sögunnar af fjórum álitsgjöfum. Garðabær fyrir stuðning við upplýsingatækni í skólunum og öfluga skólaþróunarsjóði en einnig fyrir skólabyggingu (Sjálandsskóla). Skagafjörður var nefndur fyrir öflugt þróunarstarf á sviði upplýsingatækni og markvissan stuðning við skólaþróun, eins og sjá má í þessu svari:

Annað verkefni sem hægt er að nefna hefur verið unnið af Skólaskrifstofu Skagfirðinga og grunnskólanna í Skagafirði, en þessir aðilar hafa unnið markvisst frá 1996 að uppbyggingu og skólaþróun með margvíslegum skólaþróunar-verkefnum og samvinnu. Þessi vinna er enn í gangi og hefur verið til fyrirmyndar svo eftir hefur verið tekið. Sérstaklega hefur verið horft til Árskóla og þeirra skólaþróunar sem hefur átt sér stað þar.

Árborg bar tvisvar á góma fyrir ýmis starfsþróunarverkefni og loks voru nokkur sveitarfélög nefnd einu sinni. Meðal þeirra má nefna Höfn í Hornafirði fyrir „uppbygging[u] heildstæðs umhverfis þar sem allt styður annað: Skólastarf, skapandi smiðjur og íþróttir til fyrirmyndar“, en hér er augljóslega verið að vísa til Vöruhússins á Höfn í Hornafirði, nýsköpunarhúss sem hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna á síðasta ári (sjá hér).

Loks voru nefnd verkefnin Sprettur í Fjarðabyggð sem byggir á snemmtækri íhlutun og samþættri þjónustu og Kveikjum neistann þróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum sem meðal annars hefur það markmið að efla læsi og bæta líðan nemenda.

Á listann komust líka Akranesbær (þróunarstyrkir), Dalvíkurbær (þróunarverkefni), Snæfellsbær (snillismiðja), Húsavík (samstarf grunnskóla og tónlistarskóla), Mosfellsbær (Krikaskóli), og Seyðisfjörður (markvisst samstarf listaskólans og grunnskólans). Og einn álitsgjafinn nefndi Tálknafjörð, Vesturbyggð, Fjallabyggð, Norðurþing, Reykhólahrepp, Strandabyggð og Skútustaðahrepp fyrir „Áhersl[u] á stuðning við fjölbreytta almenna starfshætti með börnum frekar en að einblína eingöngu á börn með sérþarfir“. Í þessari upptalningu eru þau raunar einu fámennu sveitarfélögin sem komu við sögu þegar spurt er um fyrirmyndar stuðning af hálfu sveitarfélaga og skólaþróunarverkefni sem sveitarfélög hafa efnt til og væru til eftirbreytni.

Nokkur verkefni voru nefnd án þess að vera tengd við tiltekið eða tiltekin sveitarfélög. Má þar nefna Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna, svokallað Austurlandslíkan og stuðning ótiltekinna sveitarfélaga við Byrjendalæsi. Tveir álitsgjafar nefndu Menntafléttuna sem er með áhugaverðustu endurmenntunarframboðum sem ég hef lengi séð en hún er samstarfsverkefni nokkurra aðila í menntakerfinu.

Tveir álitsgjafar nefndu Upplestrarkeppnina, aðrir tveir innleiðingu teymiskennslu, einn nefndi Starfsleikninámið[2] og annar skólaþróunarverkefni sem kennt var við aukin gæði náms, AGN (Rúnar Sigþórsson o.fl., 1999). Þrír svöruðu spurningunni almennt án þess að nefna dæmi en fóru jákvæðum orðum um áhrif flutningsins:

Almennt held ég að sveitarfélög hafi stutt vel við grunnskólastarf eftir að þau tóku við rekstri grunnskólanna. Þetta kemur meðal annars fram í átaki við skólabyggingar og einsetningu grunnskóla sem varð fljótt eftir yfirfærsluna. Þetta var vissulega lögbundið verkefni og mikill þrýstingur á það af hálfu ríkisins en flest sveitarfélög held ég að hafi gert þetta af myndarskap.

Einn af þessum þremur hafði þó fyrirvara:

Ég vil meina að flest eða í raun öll sveitarfélög landsins leggi sig fram um að styðja sem best við grunnskólastarf í sínu sveitarfélagi. Hins vegar eru burðir þeirra misjafnir og líklega ekki á færi allra sveitarfélaga að standa undir heildstæðum stuðningi við grunnskólastarf sem felur í sér faglega forystu, faglega og rekstrarlega ráðgjöf, þverfaglega skólaþjónustu, stuðning við skólaþróun og nýsköpun, skipulag sí- og endurmenntunar svo fátt eitt sé nefnt.

Eins og sjá má af þessari yfirferð beindust augu álitsgjafanna öðru fremur að öflugustu og fjölmennustu sveitarfélögunum og þar var Reykjavík í fararbroddi. Fámenn sveitarfélög komu lítið sem ekkert við sögu. Eins og fram hefur komið nefndi aðeins einn álitsgjafinn fámenn sveitarfélög. Ég gæti vissulega bætt við þann lista en það væru þá sveitarfélög sem ég hef verið að vinna með og mér finnst það varla við hæfi .

Hverjar eru stærstu áskoranirnar?

Þriðja spurningin var hverjar væru stærstu áskoranir sem sveitarfélög stæðu nú frammi fyrir gagnvart grunnskólanum.

Margir þættir voru tilgreindir og var menntun fyrir alla oftast nefnd en tíu álitsgjafar ræddu mikilvægi hennar. Einn orðaði þetta svona: „Að raunverulega breyta kennsluháttum til að veita öllum nemendum gæðamenntun í heimaskóla … með samþættum vinnubrögðum í þágu farsældar allra nemenda með alhliða þroska að leiðarljósi.“ Og annar komst svo að orði: „Vinna markvisst að skólaumbótum sem efla skólann í anda hugmyndafræðinnar um skóla fyrir alla en það kallar á meiri sveigjanleika og einstaklingsmiðun í námi, stóraukið val hjá nemendum á ýmsum aldri. Vinna meira í gegnum styrkleika hvers og eins.“

Hér mætti bæta við áhyggjum um hlutskipti nýrra Íslendinga en þrír álitsgjafanna vöktu sérstaklega máls á þessu, sbr. þetta dæmi:

Einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig tekist hefur verið á við mikla fjölgun barna af erlendum uppruna. Það er málaflokkur sem verður að stórbæta, bæði með því að efla íslensku og móðurmálskennslu viðkomandi barna og til þess að draga úr eða eyða með öllu félagslegri einangrun þeirra sem ég tel vera vaxandi vandamál.

Níu álitsgjöfum var efst í huga jöfnun aðstöðu nemenda um allt land eða jafnræði til náms og hversu mis öflug sveitarfélögin væru: „Sveitarfélög eru í mjög misjafnri stöðu að mæta þeim kröfum sem birtast þeim jafnt í lögum, reglugerðum og væntingum almennings til þjónustu. Það er ekki það sama að vera barn í Reykhólasveit og Reykjavík, Kópaskeri og Kópavogi.“

Til viðbótar má nefna að í svörum sjö álitsgjafa var efling skólaþjónustunnar talin ein helsta áskorunin og mikilvægi þess að allir sitji þar við sama borð. Bent var á að alltof mikill munur væri „á getu sveitarfélaga til að styðja skólastarf, stóru sveitarfélögin hafa aukna burði en sárlega vantar víða markvissa skólaþjónustu til að sinna stuðningi og þróunarstarfi“ og að markmiðið hljóti að vera „að skapa umgjörð um þetta hlutverk sem stuðlar að því að skilyrði til náms í grunnskólum séu með sambærilegum hætti á öllum stöðum“.

Níu álitsgjafar tilgreindu starfsþróunarmál stjórnenda og kennara sem aðal áskorunina og kváðu margir sterkt að orði. Einn orðaði það svo að takast þurfi á „við nánast kaótískt umhverfi er kemur að utanumhaldi og skipulagi starfsþróunar fagfólks í grunnskólum“ og annar sagði málaflokkinn „á hrakhólum, fræðslutilboð handahófskennd og skortur á langtímamarkmiðum og yfirsýn“.

Fimm álitsgjafar töldu kennaramenntunina áskorun og bentu m.a. á yfirvofandi kennaraskort. Fjórir töldu eflingu kennarastéttarinnar mikilvæga áskorun. Menntun til framtíðar var mikilvæg áskorun að mati fjögurra álitsgjafa og nefndu þeir loftslagsvána, fjórðu iðnbyltinguna, kröfur um persónulega lykilhæfni og heilbrigðissiðferði.

Betri aðbúnaður í skólum var tvisvar nefndur og einnig aukinn hlutur nemenda, „Að hlusta á raddir nemenda og auka aðkomu þeirra að þróun skólastarfs.“ Mikilvægi aukins stuðnings við stjórnendur og mikilvægi þess að opna skólana fleiri fagstéttum var áskorun að mati annarra tveggja. Hið sama gildir um mikilvægi þess að bæta kjör kennara.

Þessa þætti bar einnig á góma:

 • Að gera grunnskólann að aðlaðandi vinnustað.
 • Efla sjálfstæði skóla og draga úr miðstýringu.
 • Vinna að jákvæðari viðhorfum nemenda til náms.
 • Að tryggja andlega, félagslega og líkamlega heilsu og vellíðan barna í skólum og í frístundastarfi.
 • Markvissari upplýsingaöflun um skólastarf.
 • Efling Menntamálastofnunar.
 • Koma á fót námstjórn á tilteknum námssviðum.
 • Vinna gegn skólaforðun.
 • Efling læsis.
 • Móttaka flóttafólks.
 • Jafnréttismál

Og loks má nefna þessa áskorun:

Sveitarstjórnarmenn sem bera ábyrgð á skólamálum þurfa stuðning við að taka faglegar ákvarðanir um úthlutun kennslumagns, sérkennslu og stuðningsfulltrúa. Allir vilja gera sitt besta, en forsvarsmenn sveitarfélaga vita ekki hvernig birtingarmynd fyrirmyndarskólastarfs lítur út. Það er aðal vandinn.

Ekki þarf að koma á óvart að sjá svo langan lista þegar skólafólk er beðið að nefna helstu áskoranir sem blasa við á grunnskólastiginu. Upp úr stendur þó krafan um aukinn jöfnuð. Annars vegar að okkur takist að haga skólastarfi þannig að komið sé til móts við þarfir allra barna og hins vegar að nemendur, kennarar og foreldrar sitji við sama borð hvað varðar aðstöðu, stuðning og skólaþjónustu.

Taka má svo djúpt í árinni að það sé nánast óþolandi að sveitarfélög hafi komist upp með að sniðganga ákvæði laga um skólaþjónustu. Þetta sýnir vitaskuld að eftirliti með skólastarfi og rekstri skóla hefur verið ábótavant. Og það er ekki aðeins skortur á eftirliti og aðhaldi, heldur vantar sárlega ráðstafanir þegar sveitarfélag ræður ekki við rekstur skóla sinna. Ég hef komið að málum í sveitarfélagi sem var komið í fullkomnar ógöngur með skólahald sitt og komist að raun um það það er engin baktrygging, engar „björgunarsveitir“ sem hægt er að kalla út. Fyrir flutninginn voru fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum sem hægt var að leita til og menntamálaráðuneytið var þeim bakhjarl. Þessu hefur farið aftur.

Og það hefur líka verið erfitt að sjá sveitarfélög koma sér upp einhverju sem ekki er hægt að kenna við annað en málamynda skólaþjónustu, með því t.d. að semja við nágrannasveitarfélag sem hefur ekki nægilega burði til að veita hana. Dæmi um þetta sem ég fylgdist með var þegar skólastjóri í sveitarfélagi þar sem svona var háttað, sendi neyðarkall um sálfræðiaðstoð handa tveimur unglingum sem voru nánast komnir í lífsháska. Sálfræðingurinn mætti eftir þrjár vikur og þá tókst ekki betur til en svo að aðeins var tími til að ræða við annan unglinginn.

Öflug skólaþjónusta er einn af lyklunum að því að okkur takist að veita menntun fyrir alla, að skóli án aðgreiningar standi undir nafni. Vissulega hefur nokkuð miðað við að koma honum á fót og ég hef komið í marga skóla þar sem þetta hefur tekist vel en við eigum víða langt í land. Óhjákvæmilegt virðist að horfast í augu við það að líklega þarf að kosta svo miklu meira til. Okkur sárvantar fleiri sérmenntaða kennara, talmeinafræðinga, skólafélagsráðgjafa, að ekki sé minnst á iðjuþjálfa eða þroskaþjálfa sem ég hef séð vinna stórkostlegt starf í mörgum skólum, ekki síst þegar þeir starfa við hliðina á kennurum, t.d. í teymiskennslu.

Í skóla án aðgreiningar þarf vel menntað fagfólk. Það er umhugsunarvert að í viðleitni okkar við að þróa skóla án aðgreiningar höfum við ráðið starfsfólk sem í fæstum tilvikum hefur menntun til þeirra vandasömu starfa sem þeim eru fengin. Hér er ég með stuðningsfulltrúa í huga en þeim hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Vissulega eru margir stuðningsfulltrúar frábært starfsfólk en er þetta skynsamleg tilhögun? Ég veit að í nokkrum skólum er verið að endurskoða þetta og stefnan tekin á að ráða frekar kennara eða þroskaþjálfa til þessara starfa, en það er óhægt um vik hvað kennarana varðar, vegna þess að menntuðum kennurum hefur verið að fækka og þeim mun halda áfram að fækka á næstu árum vegna þess að nýliðunin er ekki næg. Það er alvarleg áskorun.

Hér hef ég mestar áhyggjur af geðfötluðum börnum. Aftur og aftur kem ég í skóla þar sem fólk er á barmi örvæntingar vegna þess að bæði menntakerfið og geðheilbrigðiskerfið hafa brugðist. Og hvernig ætli börnunum líði? Sá vandræðagangur allur, endalausir biðlistar og úrræðaleysi er samfélaginu til háborinnar skammar.

Hvaða lærdóma má helst draga af reynslunni?

Svör álitsgjafanna við þessari spurningu voru af margvíslegum toga. Átta þeirra áréttuðu að flutningurinn hafi verið framfaraspor sem hefði „skilað sér almennt í bættu skólastarfi og aukinni þjónustu við nemendur. Það að færa ábyrgðina og ákvarðanatökuna nær þjónustuþegunum jók áhuga sveitarstjórnarfólks á skólastarfinu og ýtti undir metnað fyrir bættri aðstöðu og bættum árangri.“

Þessi jákvæðu viðhorf endurspeglast vel í þessu svari:

 • Hvað það var ófyrirséð við breytinguna hversu ótrúlega miklar breytingar og kröfur á skólakerfið hafa orðið síðan og kostað mikla fjármuni sem ekki fylgdu í fjárhagslíkani við yfirfærsluna.
 • Hvað sveitarfélögin hafa þurft að vera gríðarlega skapandi og öflug í samstarfi til að mæta þeim kröfum sem sett eru á þau með lögum og reglugerðum, en þau hafa ekki haft neitt um að segja.
 • Hvað sveitarfélög hafa almennt lagt mikið á sig til að standast þær kröfur sem á þau eru sett. Í mörgum sveitarfélögum hefur langstærsti hluti tekna þeirra farið í að reka leik- og grunnskóla.
 • Það hefur þurft mikinn skilning hins almenna íbúa að sættast á það, þegar bæði viðhald fasteigna, samgöngur innan sveitarfélaga, stuðningur við atvinnulíf hefur þá ekki fengið eins mikið af fjármagni.

Aðeins einn álitsgjafi taldi að flutningurinn hefði verið ógæfuspor og skýrði sjónarmið sín svona:

Dreifstýringin hefur dregið úr nauðsyn þess að viðhalda samræmdum kröfum, ekki einungis með tilliti til náms og kennslu, heldur einnig á öðrum sviðum og þ.a.l. gert sveitarfélögum erfitt fyrir fjárhagslega, skipulagslega og stjórnunarlega. Þess vegna er full ástæða, eftir þessa aldarfjórðungs reynslu, til að álykta sem svo, að flutningur á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga hafi ekki reynst vera gæfuspor.

Helmingur álitsgjafanna lýsti þeirri skoðun sinni að flutningurinn hafi fyrst og fremst verið heillaskref í stóru sveitarfélögunum. Þetta svar er gott dæmi um þessi viðhorf:

Flutningur grunnskóla til sveitarfélaga var heillaskref. Skólastarf er grenndarþjónusta og fram hefur komið að stærri sveitarfélög hafa af miklum myndugskap lagt metnað sinn og fjármuni til að bæta grunnskólann. Áhyggjur mínar snúa að minni sveitarfélögum sem ekki hafa bolmagn til að reka skólaskrifstofu og búa ekki við nægjanlega góða skólaþjónustu. Íslenski grunnskólinn tekur til sín mikið fjármagn í alþjóðlegu samhengi og ekki að vænta að mikið verði um viðbætur. Því er mikilvægt að ráðstöfun fjármuna verði ígrunduð þannig að allir nemendur fá þá gæðamenntun sem þeir eiga rétt á.

Nokkrir kváðu fast að orði um þetta: „Skólaþjónustan og tækifæri til skólaþróunar og starfsþróunar eru hins vegar alls konar. Himinn og haf er á milli stærstu sveitarfélaganna og þeirra smæstu í því sambandi“ og „Lítil sveitarfélög hafa ekki burði til að sjá kennurum fyrir símenntun.“

Svipuð afstaða og þessi kom fram í mörgum svaranna:

Þó svo sveitarfélögum hafi fækkað umtalsvert í tengslum við yfirfærslu grunnskólans (voru ríflega 100 fleiri þá en í dag) eru þau engu að síður of mörg og fjöldi þeirra of fámenn til þess að standa undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita skv. lögum, reglugerðum og námskrám miðað við núverandi aðstæður.

Og nokkrir bættu því við að leggja „hefði þurft mun ríkari áherslu á að tryggja öllum skólum (starfsfólki, nemendum og foreldrum) áframhaldandi aðgang að (landshlutabundinni) þjónustu og ráðgjöf fræðsluskrifstofa/skólamálaskrifstofa eins og unnið var að 1995-1996 í samstarfi sveitarfélaga.“ Og spurt var: „Við sjáum það t.d. núna eftir öll þessi ár að það hallar á minni sveitarfélög hvað varðar „þjónustustig“ en við höfum ekki brugðist við. Hvað gerist ef sveitarfélög geta ekki veitt lögbundna þjónustu?“

Nokkrum álitsgjafanna var efst í huga að ekki hafi verið nægilega vel staðið að flutningnum: „Fagleg aðferðafræði var ekki notuð og mat fór ekki fram á verkefninu.“ „Kannski er einfaldast að nefna að vanda þarf betur til ákvarðana og aðgerða í tengslum við flutning á fjármagni þegar jafn viðamikil þjónusta er flutt til sveitarfélaganna.“

Til vitnis um þetta er eftirfarandi svar:

Skortur var á eftirfylgd og kostnaðarmati með nýjum verkefnum. Ríkið stóð sig ekki nægjanlega vel í eftirlitshlutverki sínu og eftirfylgd með niðurstöðum úttekta ef þær voru ekki að uppfylla viðmið um þjónustu við skóla og nemendur í formi ráðgjafar, leiðbeininga og stuðnings, og þá viðurlaga ef úrbótum var ekki sinnt.

Í þessu sambandi var einnig vísað til þjónustu sem lagðist af við flutninginn og voru þar m.a. nefnd endurmenntunarnámskeið Kennaraháskólans, námstjórar í menntamálaráðuneytinu og fræðsluskrifstofurnar. Þarna er að mörgu leyti um beina afturför að ræða. Starfsþróunarmál (endurmenntun, símenntun) grunnskólakennara hafa satt best að segja verið í ógöngum undanfarin aldarfjórðung og mætti hafa um það langt mál. Ég læt nægja hér að vísa um þetta til greinar Helga Grímssonar (2021) í Skólaþráðum, þar sem hann gerir grein fyrir stöðu þessara mála og undirstrikar mikilvægi þess að kennarar og nemendur alls staðar á landinu sitji við sama borð þegar kemur að stuðningi við starfs- og skólaþróun.

Undrast má sinnuleysið um framboð á ráðgjöf við kennara þegar kemur að einstökum námsgreinum. Þegar ég var að hefja kennslu í Vogaskóla í Reykjavík upp úr 1970 þurfti ég að kenna stærðfræði, sem var ekki mín sterkasta grein. En á þessum tíma gat ég leitað eftir aðstoð til kennsluráðgjafa hjá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og fljótlega var slíka ráðgjöf einnig að fá í sjálfu menntamálaráðuneytinu sem réði til sín sérfræðinga í öllum helstu námsgreinum grunnskólans til að styðja við bakið á kennurum. Ráðgjöf af þessu tagi, tengd faggreinum, er ekki lengur fyrir hendi nema á örfáum sviðum. Ekki einu sinni hjá stóru sveitarfélögunum.

Lokaorð

Viðhorf álitsgjafanna 25 endurspegla vel þann mikla aðstöðumun sem nemendur, kennarar og foreldrar í þessu landi búa við. Til að undirstrika þennan mun langar mig að taka dæmi um tvo kennara, annar starfar í Reykjavík, hinn í sjávarþorpi í ónefndu fámennu sveitarfélagi:

Þegar reykvíski kennarinn fær í hópinn sinn barn af erlendum uppruna getur hann leitað ráðgjafar hjá sérfræðingum Miðju máls og læsis. Sé hann að takast á við hegðunarvandamál hefur hann einnig beinan aðgang að sérfræðingum í þjónustumiðstöðvum borgarinnar á því sviði. Setjum svo að hann hafi áhuga á að nýta upplýsingatækni snýr hann sér til Mixtúru, sköpunar- og upplýsingatæknivers borgarinnar og þar getur hann hvort tveggja fengið ráðgjöf, auk þess að nýta sér Búnaðarbanka versins án endurgjalds. Og gefum okkur að þessi reykvíski kennari hafi áhuga á því með félögum sínum að ráðast í þróunarverkefni, þá getur hann sótt í sérstakan sjóð sem styrkir slík verkefni og það sem meira er – hann getur líklega líka fengið sérfræðiaðstoð við að skrifa umsóknina og hið sama gildir ef hann og félagar hans vilja leita í erlenda sjóði. Og ég giska á að við umsóknina geti hann líka notið aðstoðar sérfræðinga hjá NýMið – Nýsköpunarmiðju menntamála sem hafa það hlutverk að veita kennurum í borginni stuðning við þróun og nýsköpun í leik- og grunnskólum. Hafi reykvíski kennarinn áhuga á útinámi getur hann sótt námskeið, ráðgjöf og aðstoð til Miðstöðvar útivistar og útináms. Og á haustin sem og samhliða kennslu á skólaárinu, standa reykvíska kennaranum til boða fjölbreytt, stutt og löng námskeið auk þess sem honum er boðin þátttaka í lærdómssamfélögum og jafningjahópum um tiltekin viðfangsefni. Svona mætti lengi telja.

Reikna má með því að fátt hliðstætt þessu standi kennaranum í fámenna skólanum í sjávarþorpinu til boða. En auðvitað hafa hann og félagar hans oft einhver ráð og vitaskuld búa margir fámennir skólar yfir miklum verðmætum. Fámennið auðveldar kennurum að sinna hverjum og einum nemanda og oft er stutt í náttúruna sem margir kunna að nýta sér vel. Og ég get líka nefnt dæmi um fámennan skóla sem er svo vel mannaður að hann hefur á að skipa sálfræðingi, talmeinafræðingi, iðjuþjálfa og menntuðum sérkennara – en þessi skóli er undantekning. Líklega er engan veginn hægt að líkja þessum aðstæðum í fámenninu og borginni saman. Þessi munur er ekki verjandi og hann verður að jafna. Og öflugar jöfnunaraðgerðir þurfa einnig að ná til leikskólastigsins þar sem munurinn er enn skarpari. Leikskólastigið er að öllum líkindum mikilvægasta skólastigið og um leið það vanræktasta. Mér hefur oft sárnað að horfa upp á þá aðstöðu sem litla fólkinu okkar og starfsfólki leikskóla er sums staðar boðin. Í þessu sambandi verður að minna á að nú hrannast upp rannsóknir sem sýna fram á hversu mikilvæg fyrstu árin eru fyrir þroska og framtíðarvelferð barna, s.s. málþroska, félags-, tilfinninga- og siðferðiþroska.

Ein stærsta áskorun okkar er hvernig við jöfnum þennan mun og sköpum þeim börnum sem búa við ófullnægjandi aðstæður betri skilyrði til menntunar. Þetta er brýnasta verkefnið og til þess þarf auknar jöfnunaraðgerðir, miklu öflugri en við nú höfum.

Tilvísanir

Anna Kristín Sigurðardóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Steinunn Stefánsdóttir. (2022). Menntaumbætur og afdrif þeirra: Fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu og reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg 1996–2005. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2022 Menntaumbætur og afdrif þeirra: Fyrstu tíu ár heildstæðrar þjónustu og reksturs grunnskóla hjá Reykjavíkurborg 1996–2005. http://netla.hi.is/serrit/2022/menntaumbaetur_afdrif_teirra/01.pdf
DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.70

Helgi Grímsson. (2021). Hvert skal haldið? Hugleiðing um skipan stuðnings við markvissa skólaþróun. Skólaþræðir: Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2021/01/07/hvert-skal-haldid-hugleiding-um-skipan-studnings-vid-markvissa-skolathroun/

Rúnar Sigþórsson, Börkur Hansen, Jón Baldvin Hannesson, Ólafur H. Jóhannsson, Rósa Eggertsdóttir og Mel West. (1999). Aukin gæði náms. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Neðanmálstilvísanir

[1]Um stefnumótun fræðsluyfirvalda í Reykjavík, um og eftir flutning grunnskólans, er ítarlega fjallað í sérriti Önnu Kristínar Sigurðardóttur o.fl. (2022)  sem nýlega birtist í Netlu, sjá hér.

[2] Svokallað Starfsleikninám hófst löngu fyrir flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna.


Ingvar Sigurgeirsson er prófessor emeritus í kennslufræði við Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi skólaráðgjafi. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1985, meistaragráðu frá Háskólanum í Sussex 1986 og doktorsgráðu frá sama skóla 1992. Rannsóknir Ingvars hafa einkum snúist um kennsluhætti, kennsluaðferðir, námsmat, heimanám og skólaþróun og nú á síðustu árum um teymiskennslu. Ingvar hefur skrifað námsefni, greinar, skýrslur og bækur um kennslufræði og skólastarf.


Grein birt: 14/3/2022