Ímyndunarafl, menntun og frelsi: Hugsað með Maxine Greene á tíundu ártíð hennar
Atli Harðarson
Maxine Greene fæddist árið 1917 í New York og átti mestalla ævi heima þar í borg. Hún lauk doktorsprófi í heimspeki menntunar frá New York University árið 1955. Samhliða námi og næstu tíu ár á eftir kenndi hún meðal annars við New York University og Brooklyn College. Hún fékk stöðu við Columbia University árið 1965. Þegar hún lést árið 2014 var hún prófessor emeritus við þann háskóla og löngu víðfræg fyrir skrif sín og fyrirlestra um heimspeki menntunar. Nú í ár er sem sagt áratugur liðinn síðan hún féll frá. Lesa meira…
Leiðsagnarnám eykur þátttöku og sjálfræði nemenda í námi sínu
Hjördís Þorgeirsdóttir
Í þessari grein er fjallað um starfendarannsókn sem hefur það markmið að þróa námshætti og námsmat í anda leiðsagnarnáms og byggja upp námsmenningu um námskraft nemenda í kennslu í félagsfræði í Menntaskólanum við Sund (MS). Ég var þátttakandi í starfendarannsóknarhópi kennara MS frá 2005 til 2022 en þar hefur verið stefna samkvæmt námskrá að byggt skuli á kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu (Hafþór Guðjónsson, 2013; Hjördís Þorgeirsdóttir, 2023b, 2016). Sjá grein um starfendarannsóknarhóp MS í Skólaþráðum2023 hér.
Eftir að ný þriggja ára skólanámskrá til stúdentsprófs var innleidd í nýju þriggja anna kerfi í MS árið 2016 með megináherslu á verkefnabundið nám kom upp skýr þörf fyrir að innleiða leiðsagnarmat sem lið í símati sem viðhaft er í nýju kerfi í MS eftir að sérstakur prófatími í skóladagatalinu var lagður niður. Haustið 2017 var stofnaður þróunarhópur kennara um leiðsagnarmat í MS undir leiðsögn Sólveigar Zophoníusardóttur, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri. Ég sem félagsfræðikennari tók þátt í starfi þessa hóps og hóf að innleiða leiðsagnarmat byggt á hugmyndum Dylan Wiliam (Black og Wiliam 2009; Wiliam, 2018) og hélt ég áfram á þeirri braut skólaárin 2018 til 2022. Jafnframt innleiðingu leiðsagnarnáms byggði ég á hugmyndafræði Guy Claxton og fleiri um námskraft nemenda (2018; 2002; Glaxton og Powell, 2019) þar sem áhersla er lögð á að beina athyglinni að námsvenjum, hugsun og viðhorfum nemenda til náms en einblína ekki eingöngu á miðlun innihalds námsefnisins. Sjá umfjöllun um námskraftinn í Skólaþráðum 2023 hér og rannsóknarskýrslu 2020 um leiðsagnarnám og námskraftinn hér.
Í þessari grein lýsi ég helstu aðferðum sem ég nýtti í leiðsagnarnáminu frá 2017 til 2022 út frá fimm lykilaðgerðum leiðsagnarmats samkvæmt flokkun Wiliam (2018). Lesa meira…
Að vakna til vitundar: Um bókina World-Centred Education eftir Gert Biesta
Atli Harðarson
Undanfarinn einn og hálfan áratug hafa bækur og greinar eftir Gert Biesta haft umtalsverð áhrif á menntavísindi og heimspeki menntunar. Þessi áhrif ná langt út fyrir Vestur-Evrópu og hinn enskumælandi heim enda hafa verk eftir hann verið þýdd á um tuttugu tungumál.
Biesta hóf feril sinn í Hollandi þar sem hann fæddist og ólst upp, en hann hefur starfað víða, meðal annars í Noregi og Svíþjóð og er nú prófessor við Maynooth háskólann á Írlandi og við Edinborgarháskóla í Skotlandi. Í skrifum sínum tengir hann þekkingu á menntavísindum, menntastefnu og skólamálaumræðu samtímans við skilning á meginstraumum heimspeki síðustu aldar, einkum evrópskri tilvistarstefnu (existentialism) og amerískri verkhyggju (pragmatism).
Nýjasta bók hans (Biesta 2022), sem kom út í fyrra, heitir fullu nafni World-Centred Education: A View for the Present. Hún er fremur stutt, aðeins 113 blaðsíður, og textinn hverfist um eina meginhugmynd sem er að skólar hafi þrefaldan tilgang og menntun þrenns konar markmið. Það sem hér fer á eftir er um þessa einu bók og allt sem ég hef eftir Biesta er sótt í hana. Lesa meira…
Hvað heitir barnið? Þegar gagnsæi hugtakanna kallar fram ranghugmyndir og ólíkan skilning
Karl Hallgrímsson
Innleiðing nýrra stefna í íslenskt skólakerfi tekur langan tíma. E.t.v. liggur orsökin í því hversu fljótt sumt skólafólk er að dæma og mynda sér skoðun út frá þeirri merkingu sem það leggur í hugtökin við fyrstu kynni í stað þess að bíða þangað til það hefur kynnt sér málefnin og tryggt réttan og helst sameiginlegan skilning. Fordómarnir mynda ójafnvægi í skólaumhverfinu. Umræðan um nýju stefnuna verður skökk því skilningur þeirra sem um hana fjalla er ólíkur.
Skóli án aðgreiningar, heildstæð móðurmálskennsla, einstaklingsmiðað nám, opinn skóli, teymiskennsla, símat og leiðsagnarnám eru dæmi um stefnur og hugmyndakerfi innan menntakerfisins sem tók langan tíma að fá sameiginlegan skilning á meðal kennara og annars fagfólks, ef hann hefur þá nokkurn tíma náðst.
Hugtakasmíði virðist ósköp saklaus. Jafnvel má hafa gaman af þeim hluta innleiðinga nýrra hugmynda að gefa þeim heiti. Það er þó ekki eins léttvægt og ætla mætti að óathuguðu máli. Hugtakasmíði getur ráðið úrslitum um það hversu vel eða fljótt innleiðing nýrra hugmynda, nýrra stefna og breyttra aðferða tekur í íslensku skólakerfi.
Gagnsæi orðanna sem mynda hugtökin um stefnur og hugmyndir getur stundum þvælst fyrir okkur sem störfum í menntakerfinu. Um leið og við heyrum eða lesum orðið sem fyrst hefur verið valið fyrir nýja hugmynd, nýtt hugmyndakerfi eða nýja stefnu, myndum við okkur skoðun á fyrirbærinu. Þá skoðun myndum við okkur einungis út frá skilningi okkar á orðunum í sjálfu heiti hugmyndarinnar. Sá skilningur er oftar en ekki rangur eða ófullnægjandi og verður til þess að viðhorf okkar til nýjunganna verður neikvætt. Það er bagalegt. Lesa meira…
Náttúra, skepnur og farsælt líf
Ólafur Páll Jónsson
Mary Midgley byrjar bók sína, Skepna og maður: Rætur mannlegrar náttúru á orðunum: „Við erum ekki tiltölulega lík dýrum; við erum dýr.“ Hún heldur svo áfram og segir: „Það sem gerir okkur frábrugðin öðrum dýrum kann að vera sláandi, en samanburður við þau hefur verið, og er óhjákvæmilega, mikilvægur fyrir hugmyndir okkar um okkur sjálf“ (Midgley, 1979, bls. xiii).
Í þessari grein, sem byggð er á erindi sem ég hélt á Menntaviku 2023, fjalla ég um manneskjur sem dýr og um mannlega farsæld sem dýrslegt ástand, eða öllu heldur, sem dýrslegt hlutskipti. Nú þegar orðið „farsæld“ er nánast á hvers manns vörum er vert að staldra við og hugleiða merkingu þess. Ég lít svo á að farsæld sé ekki bara ástand, staða einhvers sem er mælanleg á tilteknum tímapunkti, heldur hlutskipti sem varðar aðstæður, sögu og væntingar einstaklingsins, og það umhverfi sem hann er hluti af, bæði náttúrulegt og manngert, efnislegt og menningarlegt. Til að skilja hverskonar hlutskipti það er í tilviki manneskja að njóta farsældar, þá verður að líta á það sem hlutskipti dýrs. En vissulega mjög sérstak dýrs. Lesa meira…
Dýrir háskólar og þjóð í vanda: Um bókina After the ivory tower falls eftir Will Bunch
Atli Harðarson
Will Bunch er bandarískur blaðamaður og samfélagsrýnir. Bók hans After the ivory tower falls: How college broke the American dream and blew up our politics—and how to fix it (Þegar fílabeinsturninn er hruninn: Hvernig háskólarnir eyðilögðu ameríska drauminn og rústuðu stjórnmálum okkar – og hvað er til ráða) kom út í fyrra og hefur vakið verulega athygli. Í þessu 320 blaðsíðna riti segir Bunch sögu háskólamenntunar í Bandaríkjunum frá miðri síðustu öld til dagsins í dag og rökstyður að margt sem aflaga hefur farið í stjórnmálum þar í landi á síðustu áratugum tengist því hve dýrt er fyrir einstaklinga að afla sér háskólamenntunar. Lesa meira…
„Í skólum þar sem áhersla er á leiðsagnarnám er rík jafningjamenning“ Viðtal við Ívar Rafn Jónsson
Ingvar Sigurgeirsson ræðir við Ívar Rafn Jónsson
Föstudaginn 13. maí 2022 varði Ívar Rafn Jónsson doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands. Ritgerðina nefndi hann: Námsmatsmenning skiptir máli: Upplifun kennara og nemenda af námsmati og endurgjöf.
Ívar Rafn stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands og lauk BA gráðu í þeirri grein 1998. Hann lauk kennsluréttindanámi frá sama skóla 2006 og meistaranámi í kennslufræðum 2010. Hann kenndi við Borgarholtsskóla 2006‒2012 en flutti sig síðan í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ 2011 og kenndi þar til 2020. Ívar Rafn réðst til Háskóla Íslands 2018 og gegndi þar aðjúnktstöðu. Hann hefur nú verið ráðinn lektor við Háskólann á Akureyri.
Ég naut þeirra forréttinda að sitja í doktorsnefnd Ívars Rafns, sem fyrst hafði vakið athygli mína þegar hann skrifaði grein í Netlu 2008 sem bar heitið „Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda“. Sálfræðikennari rýnir í sjálfan sig (sjá hér). Ég leyni því ekki að þessi grein, var og er ein af uppáhaldsgreinum mínum í Netlu, en þar segir hann frá starfendarannsókn sem hann gerði og beindist að því að kveikja áhuga nemenda á námi með fjölbreyttum kennsluaðferðum.
Ívar Rafn birti 2015 aðra grein í Netlu, sem hann skrifaði með samkennara sínum, Birgi Jónssyni, um og fjallar um aðferð sem þeir beittu til að bæta leiðsagnarmat í áföngum sínum sem þeir kenndu í FMOS með aðferðum sem þeir kenndu við Vörðuvikur og byggðust á því að taka viðtöl við nemendur þar sem áherslan er lögð á nemandi og kennari eigi samtal um námið og kennsluna.
Ívar Rafn hóf doktorsnám árið 2015 og ákvað að helga það leiðsagnarnámi. Í tengslum við doktorsverkefni sitt birti hann þrjár fræðigreinar í viðurkenndum vísindatímaritum, sjá hér.
Eftirfarandi viðtal unnum við Ívar með þeim hætti að ég sendi honum spurningar sem hann svaraði og hann fékk líka umboð til að setja fram eigin spurningar. Textann höfðum við á svæði sem báðir höfðu aðgang að og smám saman tók textinn á sig þá mynd sem hér birtist. Lesa meira…
Starfsnám eða bóknám: Aðsókn nemenda og þróun framhaldsskólastigsins
Elsa Eiríksdóttir og Sæberg Sigurðsson
Nýverið hefur skapast mikil umræða um þróun framhaldsskólastigsins – sérstaklega vegna hugmynda úr ranni mennta- og barnamálaráðuneytis um að sameina rótgróna framhaldsskóla (Alþingi, 2023; Höskuldur Kári Schram, 2023; Ísak Gabríel Regal, 2023). Í apríl 2023 var stofnaður stýrihópur um eflingu framhaldsskólans (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023b) og var hópnum falið að „móta og leggja fram tillögur að aðgerðum sem snúa að framtíðarskipulagi framhaldsskólakerfisins og mæta samfélagslegum, faglegum og fjárhagslegum áskorunum framhaldsskólanna“. Upp úr þessu starfi virðast fyrrgreindar hugmyndir um að kanna fýsileika þess að sameina framhaldsskóla hafa sprottið. Til grundvallar eru lagðar spár um þróun framhaldsskólastigsins næsta áratuginn sem birtist í greinargerð um húsnæðisþörf í framhaldsskólum 2023–2033 (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023c) en þar er gert ráð fyrir fækkun nemenda í bóknámi og fjölgun í starfsnámi. Þessi þróun er útskýrð annars vegar með vísun í fámennari árganga og hins vegar aukna aðsókn í starfsnám (mennta- og barnamálaráðuneytið, 2023a, 2023c). Lesa meira…
Er einhver að sinna hlutverki framhaldsskólans? Um fyrsta áratug starfs Heilsueflandi framhaldsskóla
Magnús Þorkelsson
Verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli fór af stað haustið 2009 þegar Flensborgarskólinn hóf undirbúning þess með Lýðheilsustöð. Formlega hófst það 1. október 2010. Hér verður fjallað er um rætur verkefnisins, sem má rekja til WHO, UNESCO og hér á landi til Lýðheilsustöðvar. Því er lýst hvernig verkefnið fór af stað, sem og þróun þess fyrsta áratuginn.
Rakin eru tildrög verkefnisins, fjallað um mikilvæga þætti sem og tengsl verkefnisins við Aðalnámskrá framhaldsskóla. Dæmi eru tekin um verkefni í forvarnarmálum og námskrármálum, varðandi heilsu, heilsusamlegt líferni, geðrækt og kynhegðun, með meiru. Greint er frá áheitahlaupi skólans þar sem safnað hefur verið til góðgerðarmála. Bent er á að í lögum um framhaldsskóla er skólastiginu veitt ákveðið hlutverk sem ekki er augljóslega uppfyllt í venjulegu eða hefðbundnu skólastarfi eða námskrárgerð. Dregið er fram hvernig þetta verkefni fór með meðvituðum hætti í að uppfylla sum hlutverka framhaldsskólans. Sýnt er fram á hversu mikilvægt það er að fá að móta skólastarf sem er ekki fyrst og síðast skorðað af með námsgreinum og stundatöflum.
Höfundur var skólameistari Flensborgarskólans veturinn 2009‒2010 og aftur frá 2013‒2022 og var því innsti koppur í búri við mótun heilsueflandi framhaldsskóla. Í þessari grein er verkefnið sett í samhengi við hugmyndafræði framhaldsskóla, daglegt skólastarf og stefnumótun. Fjallað er um hugmyndafræðilega stefnu, sem er líklega, fyrsta raunverulega tilraunin þar sem íslenskur framhaldsskóli mótar sér hugmyndafræðilega stefnu sem fjallar ekki einvörðungu um námsgreinar heldur einnig heilsueflingu, farsæld og vellíðan nemenda og starfsmanna skólans. Þessi grein er að miklu leyti unnin upp úr dagbókum og fundargerðum, auk prentaðra eða veftækra heimilda. Þá er hægt að skoða allnokkuð efni á heimasíðum Flensborgarskólans, Embættis landlæknis og ýmissa annarra skóla. Lesa meira…
Starfendarannsóknir efla starfsþróun kennara og stuðla að jákvæðum breytingum í skólastarfi
Hjördís Þorgeirsdóttir
Starfendarannsóknarhópur Menntaskólans við Sund (MS) hefur starfað í 18 ár og hér ætla ég að lýsa hópnum með áherslu á þá þætti sem styrkja hann og hafa stuðlað að því að hópurinn hefur lifað góðu lífi svo lengi sem raun ber vitni. Einnig ætla ég að lýsa þeim áhrifum sem starf hópsins hefur haft á starfsþróun kennara og grósku skólastarfs í MS. Að lokum fjalla ég um styrkleika starfendarannsókna sem og þá togstreitu sem fylgir þeim. Ég hef starfað með starfenda-rannsóknarhópnum frá upphafi, fyrst sem konrektor MS í tólf ár og síðustu fimm árin sem félagsfræðikennari, þangað til ég fór á eftirlaun fyrir ári síðan. Greinin er byggð á doktorsritgerð minni frá 2016, rannsóknarskýrslu minni frá 2020 um leiðsagnarnám og reynslu minni sem þátttakandi í hópnum. Doktorsverkefnið vann ég með starfendarannsóknarhópnum í MS og tengdum við saman starfendarannsóknir byggðar á aðferðafræði Jean McNiff (2016, McNiff og Whitehead, 2006) og starfsemiskenningu Yrjö Engestöm um útvíkkað nám (2007) til að efla starfsþróun kennara. Lesa meira…