Stuðningsefni með aðalnámskrá grunnskóla: Leiðarvísir að faglegu skipulagi náms, kennslu og námsmats

Auður Bára Ólafsdóttir og Brynhildur Sigurðardóttir

Fagleg þróun í skólastarfi er stöðugt ferli sem krefst samvinnu, stuðnings og skýrra leiðbeininga. Aðalnámskrá grunnskóla á að vera hornsteinn starfsins sem fram fer í íslenskum grunnskólum og er innleiðing hennar umfangsmikið þróunarferli. Slíkt ferli kallar á góðan stuðning við skólafólk, samræmd vinnubrögð og rými fyrir faglegt samtal.

Í þessari grein er fjallað um nýtt stuðningsefni sem hefur verið skrifað til að styðja við skólafólk í vinnu með aðalnámskrá grunnskóla á faglegan og samræmdan hátt. Efninu er ætlað að stuðla að sameiginlegum skilningi á lykilhugtökum og hugmyndafræðinni um hæfnimiðað skólastarf svo styrkja megi forsendur fyrir gæðastarfi og menntun barna í öllum skólum landsins.

Efnið er byggt á samtölum við skólafólk, námskrárfræðum (Brookhart og Nitko, 2019; Wiggins og McTighe, 2005/1998) og niðurstöðum rannsókna á kennsluháttum í íslenskum skólum (Anna Kristín Sigurðardóttir o.fl., 2025; Ingvar Sigurgeirsson o.fl. 2014). 

Af hverju stuðningsefni með aðalnámskrá grunnskóla?

Aðalnámskrá grunnskóla frá árunum 2011/2013 fól í sér áherslubreytingu varðandi framsetningu á markmiðum náms og fyrirkomulagi námsmats. Breytingin felst í því að ekki telst fullnægjandi að námsmat byggi eingöngu á mati á þekkingu nemenda eða leikni í ákveðnum athöfnum, það þarf að gera grein fyrir hæfni þeirra. Hæfni nemenda er geta þeirra til að skipuleggja, útskýra og nota hugtök um efni viðkomandi greinasviðs í fjölbreyttum aðstæðum.

Vorið 2019 gerði mennta- og menningarmálaráðuneytið könnun á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla í öllum grunnskólum landsins. Niðurstöðurnar voru birtar í skýrslu haustið 2020 (Mennta- og menningarmálaráðuneyti) og þar kom fram að skólafólk var jákvætt í garð hugmyndafræði námskrárinnar en taldi að enn væri þörf á stuðningi við innleiðingu hennar. Einnig kom fram að skortur á sameiginlegum skilningi kennara á hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár hafi leitt til of mikils ósamræmis í kennslu og námsmati milli skóla og jafnvel milli námsgreina eða aldursstiga innan sama skóla.

Í kjölfar matsins var Menntamálastofnun falið að sinna nokkrum úrbótaverkefnum. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu tók við þessum verkefnum eftir að fyrri stofnun var lögð niður. Skipaður var verkefnastjóri um málefni aðalnámskrár og settur var upp vefurinn adalnamskra.is til að auka aðgengi að námskránni. Í kjölfarið hófst vinna við endurskoðun hæfni- og matsviðmiða greinasviðanna. Endurskoðuð greinasvið voru birt haustið 2024 en samhliða því verkefni fór af stað vinna við gerð stuðningsefnis sem nú hefur verið birt á adalnamskra.is.

Nýja stuðningsefninu er ætlað að samræma túlkun skólafólks á hugmyndafræði námskrárinnar og inntaki hæfniviðmiða, hvetja til faglegra vinnubragða við skipulag náms, kennslu og námsmats og leiðbeina um hvernig hægt er að einfalda birtingu upplýsinga um stöðu nemenda í náminu.

Um hvað fjallar stuðningsefnið?

Stuðningsefni með aðalnámskrá grunnskóla er viðamikið og fjölbreytt. Annars vegar er um að ræða dæmi um námsmarkmið sem birt eru á bak við hvert hæfniviðmið á vefnum adalnamskra.is. Hópar kennara skrifuðu námsmarkmiðin sem sýna hvernig hægt er að útfæra kennslu á öllum hæfniviðmiðum námskrárinnar. Efnið er leiðbeinandi og kennurum er frjálst að nota dæmin eins og þau koma fyrir eða breyta þeim að vild og laga að áherslum skólans.

Hins vegar var unnið stuðningsefni um skipulag náms, kennslu og námsmats og hefur það nú einnig verið birt á vef aðalnámskrár, undir fyrirsögninni Stuðningsefni. Í því efni er umfjöllun um hvernig skólar geta skipulagt starf sitt á grunni aðalnámskrár, hugtakaskýringar og leiðbeiningar um áherslur og vinnubrögð (Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, 2025).

Stuðningsefnið um skipulag náms, kennslu og námsmats felst í skýringartextum, myndum og stuttum myndböndum sem draga fram aðalatriði og fylgiskjölum sem skólar geta halað niður og nýtt í eigin starfi. Efnið skiptist í þrjá megin flokka:

  1. Námskráráherslur – umfjöllun um hæfnimiðað skólastarf og lykiláherslur aðalnámskrár. Í þessum hluta er fjallað um hugtökin hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið og tengsl þeirra útskýrð. Dæmi eru tekin úr aðalnámskrá grunnskóla og þau sett í samhengi við daglegt starf skóla. Í þessum hluta má líka nálgast eldra stuðningsefni um grunnþætti menntunar og lykilhæfni.
  2. Skipulag náms og kennslu – efni sem ætlað er að styðja skólafólk í faglegu starfi. Fjallað er um það samtal sem þarf að eiga sér stað meðal þeirra svo að stefna skólans sé skýr og allir geti gengið í takt. Lagt er til að skólar skapi skýran farveg fyrir starf kennara með sameiginlegri forgangsröðun hæfniviðmiða, samræmdu verklagi við skipulagningu kennslu og framkvæmd námsmats. Einnig er lagt til að skýr viðmið um birtingu upplýsinga til nemenda og foreldra liggi fyrir. Mælt er með að kennsla sé skipulögð í styttri námstímabilum og að skipulagið fari fram í þremur skrefum, frá setningu markmiða að ákvörðunum um námsmat og að lokum skipulagningu verkefna. Efnið byggir á hugmyndafræði um hæfnimiðað skólastarf og þeirri forsendu að góðir kennsluhættir sem koma til móts við þarfir allra nemenda séu forsenda fyrir bættum námsárangri þeirra.
  3. Námsmat og vitnisburður – fjallað er um hugtökin leiðsagnarmat, lokamat og vitnisburð og hvernig hver þáttur er unninn. Í efninu eru ábendingar um hvernig skólar geta afmarkað þátt lokamats og skráningu upplýsinga í námi og kennslu. Áhersla er lögð á að námsmat sé fjölbreytt og hæfi markmiðum hverju sinni.

Hvernig geta skólar notað stuðningsefnið?

Stuðningsefni um skipulag náms, kennslu og námsmats er efni sem skólar geta notað í starfsþróun kennara og umbótastarfi til dæmis í kjölfar innra eða ytra mats. Efnið gegnir mikilvægu hlutverki til að samræma skilning skólafólks á lykilhugtökum námskrárinnar. Í stuðningsefninu er lögð skýr áhersla á samhengið milli markmiða náms, námsmats og leiða í kennslu og fjallað um mikilvægi þess að starfstími kennara sé vel nýttur til að skipuleggja gæðanám fyrir alla nemendur. Ekki er þó ætlast til að skólar fari yfir allt stuðningsefnið í einu heldur er mikilvægt að það sé notað til að styðja við faglegt samtal og lausnaleit varðandi þá þætti sem óvissa ríkir um í viðkomandi skóla.

Mikilvægt er að horft sé til stuðningsefnisins við gerð starfsþróunaráætlunar. Lögð er áhersla á að stjórnendur í hverjum skóla kynni sér allt efnið og skilgreini faglega leiðtoga sem gera áætlun um notkun á því til næstu 3–5 ára. Hlutverk faglegra leiðtoga þarf að vera skýrt, þeir leiða vinnuna, forgangsraða verkefnum og stuðla að faglegu samtali starfsfólks.

Stuðningsefnið fjallar um marga ólíka fleti í tengslum við skipulag og framkvæmd náms, kennslu og námsmats. Nokkur dæmi um hvernig skólar geta nýtt stuðningsefnið við þróun faglegs starfs eru:

  • Kennarar skoða þann greinarmun sem gerður er á leiðsagnarmati, lokamati og vitnisburði og ígrunda í kjölfarið hvernig þessir ólíku þættir námsmats birtast í starfi þeirra.
  • Kennarar og skólastjórnendur skoða saman kaflann um matsviðmið, matskvarða og matstákn og ígrunda hvernig efnið geti stutt við framsetningu námsmats í skólanum.
  • Starfsfólk les saman stuðningsefni um leiðsagnarmat og ígrundar hvernig hægt sé að styrkja hugarfar vaxtar hjá nemendum og efla samtal þeirra og kennara um námið.

Starfsfólk Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu hefur nú þegar fylgt efninu eftir með rafrænum kynningar- og samtalsfundum fyrir skólastjórnendur og faglega leiðtoga skóla. Í kjölfarið verður einnig aðgengileg leiðbeinandi innleiðingaráætlun sem skólar geta notað við innleiðingu á stuðningsefninu. Rafræn námskeið munu svo birtast í byrjun nýs árs en þau munu gefa yfirlit um allt efnið og styðja við innleiðingu með ígrundunarspurningum og ábendingum um verkefni sem starfsfólk getur notað til að meta og þróa eigið starf.

Að lokum

Innleiðing aðalnámskrár er sameiginlegt ferðalag skólasamfélagsins og útgáfa stuðningsefnis um skipulag náms, kennslu og námsmats markar mikilvægt skref í áframhaldandi þróun íslensks skólakerfis. Efnið skapar grundvöll fyrir sameiginlegan skilning, styrkir faglegt samtal og getur nýst til að efla námsumhverfi þar sem nemendur fá að vaxa.

Stuðningsefninu er ætlað að styðja skólafólk kennara og skólastjórnendur í því mikilvæga hlutverki að skapa námssamfélag þar sem faglegt samtal, skýr markmið, markviss kennsla og raunhæft námsmat mynda sameiginlegan grunn. Hvernig hver skóli notar efnið fer hins vegar eftir þörfum og aðstæðum á hverjum stað.

Við hvetjum skólafólk til að nálgast efnið á gagnrýninn og skapandi hátt, að velja þá hluta sem henta best í eigin skóla, laga hugmyndir að eigin aðstæðum og nota efnið sem grunn fyrir faglegt samtal um það sem skiptir máli í starfinu. Faglegir leiðtogar gegna lykilhlutverki í þessari vinnu, bæði við að leggja mat á stöðu skólans og að skipuleggja markvissa starfsþróun til lengri tíma.

Starfsfólk Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu mun styðja við skóla í þessu ferli. Saman getum við unnið að því að efla gæði skólastarfs og námsárangur allra nemenda. Framtíðin liggur í sameiginlegu starfi okkar allra að þróa menntun sem kemur til móts við þarfir allra barna í íslensku skólakerfi.

Heimildaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti 2011. Greinasvið 2013. https://eldri.adalnamskra.is/

Aðalnámskrá grunnskóla 2024. https://www.adalnamskra.is/grunnskoli

Anna Kristín Sigurðardóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson (ritstj.). (2025). Gæði kennslu. Námstækifæri fyrir alla nemendur. Háskólaútgáfan.

Brookhart, S. M. og Nitko, A. J. (2019). Educational assessment of students (8. útgáfa). Pearson.

Ingvar Sigurgeirsson, Amalía Björnsdóttir, Gunnhildur Óskarsdóttir og Kristín Jónsdóttir. (2014). Kennsluhættir. Í Gerður G. Óskarsdóttir (ritstjóri), Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar (bls. 113-160). Háskólaútgáfan.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2020). Mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla. Niðurstöður kannana og aðgerðir til úrbóta. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/01/28/Mat-a-innleidingu-adalnamskrar-grunnskola/

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. (2025). Stuðningsefni. Aðalnámskrá. https://www.adalnamskra.is/studningsefni/fra-adalnamskra-til-namsaaetlana

Wiggins, G. og McTighe, J. (2005/1998). Understanding by design. ASCD.


Um höfunda

Auður Bára Ólafsdóttir (audurb(hjá)midstodmenntunar.is) er verkefnastjóri í málefnum aðalnámskrár hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu en starfaði áður hjá Menntamálastofnun sem ritstjóri í námsgagnagerð og við verkefnastýringu aðalnámskrárverkefna. Hún er grunnskólakennari að mennt, kenndi við Barnaskóla Vestmannaeyja og Hamraskóla í Grafarvogi og lauk MLM gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun. 

Brynhildur Sigurðardóttir (brynhildur(hjá)midstodmenntunar.is) er sérfræðingur í málefnum aðalnámskrár grunnskóla hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Hún er grunnskólakennari að mennt og lauk M.Ed. gráðu í kennslufræði með áherslu á heimspeki með börnum frá Montclair State University í New Jersey. Hún hefur starfað sem kennari á unglingastigi í Síðuskóla á Akureyri, Stapaskóla í Innri-Njarðvík og Garðaskóla í Garðabæ þar sem hún var líka skólastjóri. Auk þess hefur hún haldið fjölmörg námskeið um heimspekilega samræðu og gildi samræðu í námi. 


Grein birt 2. desember 2025