Skóli án aðgreiningar: hugsjónin ein eða raunhæf framtíð?

Baldvin Kristjánsson

Fyrstu kynni mín af hugtakinu „skóli án aðgreiningar“ voru þegar ég, nýbyrjaður að kenna, spurði samstarfsfólkið út í hvers vegna þau hefðu litla trú á því sem fræðimenn höfðu um skólann að segja. Sem skínandi dæmi um fallega hugsjón sem virkar ekki drógu þau út „skóla án aðgreiningar“. Samkvæmt samstarfsfólki mínu var þetta illa útfærð hugsjón sem ráðuneytið hafði kynnt með miklum loforðum um stuðning og starfsþjálfun sem aldrei stóðust. Eftir sátu kennarar með námshóp sem þeir þekktu ekki, með þarfir sem þeir vissu ekki hvernig átti að sinna. Ljóst er að sitt sýnist hverjum um framkvæmdina og enn er fjallað um hvað skóli án aðgreiningar þýðir í raun.

En hvað merkir það í raun að skólinn eigi að vera án aðgreiningar? Sumir sjá fyrir sér skóla þar sem allir nemendur sitja í sama bekk eða námshóp, óháð einkennum þeirra. Aðrir leggja áherslu á að inngildandi menntun sé fyrst og fremst hugmyndafræði sem móti hvernig við hugsum um fjölbreytileika, hvort hann sé vandamál sem þarf að leysa eða auðlind sem við byggjum á.

Ég hef séð hvernig mismunandi kennarar takast á við þessa óvissu. Sumir kvarta yfir því að stjórnvöld setji fram stefnu án þess að útvega raunhæf tæki til framkvæmdar. Aðrir sjá þetta sem skapandi áskorun: hvernig getum við gert skólann að rými þar sem ólík börn dafna saman? Ljóst er að engin ein lausn er á málinu, þótt leiðir séu til. Í grein (Svanborg og Allyson, 2011) er lögð áhersla á að kennarar þurfi bæði að ígrunda eigin reynslu og bera hana saman við fræðilegar kenningar. Reynslan þarf að verða að þekkingu sem hægt er að deila, ræða og nýta til umbóta.

Kennsla er ekki einfaldlega upplýsingagjöf. Hún felst í því að storka skilningi nemenda á uppbyggilegan hátt, gefa þeim verðug verkefni sem þeir tengja við og veita endurgjöf sem leiðir til vaxtar (Ívar Jónson, 2008). Skóli án aðgreiningar snýst ekki um að „setja alla í sama boxið“ heldur að skapa verkefni og námstækifæri sem gera fjölbreytilegum hópi kleift að læra saman.

Ein leiðin er að nýta nærumhverfi nemenda (Svanborg, 2004). Þegar nemendur fá að rannsaka vandamál úr eigin umhverfi, tengdu skólagöngu, tækni eða samfélagi, þjálfast þeir í að takast á við óvissu, prófa lausnir og ígrunda eigin hugsun. Verkefnið er inngildandi því að allir nemendur geta lagt sitt af mörkum út frá eigin styrkleikum og verkefnið hentar líka þeim sem vilja meiri áskorun.

Stjórnvöld tala um skóla án aðgreiningar, en ef kennurum er ekki gefinn tími til ígrundunar eða samræðu um starf sitt þá verður ekkert af umbótum. Raunverulegur árangur felst í að skapa skipulagt rými þar sem kennarar geta speglað starf sitt í reynslu annarra, hvort sem það er í dagbókarskrifum, faglegum samtölum eða með samanburði við fræðileg líkön (Edda Óskarsdóttir o.fl., 2021; Hafdís Ingvarsdóttir, 2004).

Sjálfur hef ég orðið vitni að því að það sem virkar best er sjaldnast flókin nýsköpun eða dýr tæki, heldur breytingar í trú kennara á starfið. Kennari sem hættir að sjá „vanda“ og byrjar að sjá „manneskju“. Bekkur sem lærir að nota fjöltyngi sem styrkleika í stað hindrunar. Nemandi sem fær tækifæri til að útskýra lausn sína, þó að hún sé ekki „rétt“, og finnur að rödd hans skiptir máli. Þetta eru augnablikin sem gera skólann án aðgreiningar. Ert þú tilbúin að vera með?

Hluti forsíðumyndar á skýrslunni Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur Stefna skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur. Október 2012.

Heimildir:

Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Birna M. Svanbjörnsdóttir og Rúnar Sigþórsson. (2021). Framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi: Viðhorf skólafólks og tillögur um aðgerðir. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. https://doi.org/10.24270/netla.2021.7

Hildur Hauksdóttir, María Steingrímsdóttir og Birna M. Svanbjörnsdóttir. (2018). Mótun starfskenningar nýrra framhaldsskólakennara: Hvaða þættir ráða för? Tímarit um uppeldi og menntun, 27(2). https://doi.org/10.24270/tuuom.2018.27.7

Ívar Rafn Jónsson. (2008). „Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda“: Sálfræðikennari rýnir í sjálfan sig. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. https://netla.hi.is/greinar/2008/008/index.htm

Svanborg R. Jónsdóttir. (2004). Nýsköpun í grunnskóla: Skapandi skóli í tengslum við raunveruleikann. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. vefsafn.is/is/20201017180614/https:/netla.hi.is/greinar/2004/002/index.htm

Svanborg R. Jónsdóttir og Allyson Macdonald. (2011). Looking at the pedagogy of innovation and entrepreneurial education with Bernstein. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2011. https://netla.hi.is/serrit/2011/menntakvika2011/028.pdf

Um höfund

Baldvin Kristjánsson (bkk7(hja)hi.is) hefur starfað sem leiðbeinandi, einkum í sérkennslu í stærðfræði á unglingastigi. Hann lauk B.Ed.-prófi í grunnskólakennslu með áherslu á stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2024 og stundar nú framhaldsnám í Menntun allra og sérkennslufræði með áherslu á fjölmenningu og fjöltyngi barna og ungmenna við Háskóla íslands. Rannsóknar- og áhugasvið hans snúa að starfsþróun kennara og hvernig umbætur í kennsluháttum skila sér í daglegu skólastarfi.


Pistill birtur 23. október 2025