Seiður samtalsins: Umræður sem kennsluaðferð í dönskum framhaldsskóla

Mynd 1 – Greinarhöfundar hjá Det frie,: Nanna, Ármann, Óli.

Ármann Halldórsson, Nanna Kristjánsdóttir og Óli Njáll Ingólfsson

Veturinn 2024-25 tóku kennarar úr Verzlunarskóla Íslands og Det frie Gymnasium í Kaupmannahöfn þátt í starfsþróunarverkefni sem var styrkt af Nordplus. Markmið verkefnisins var að skoða kennsluhætti og námsmat í framhaldsskólum, einkum innan félagsgreina. Þátttakendur frá Versló voru höfundar þessarar greinar. Óli og Nanna eru sögu- og félagsgreinakennarar, en Ármann kennir ensku og heimspeki auk þess að vera fráfarandi alþjóðafulltrúi skólans. Frá Det frie voru þátttakendur Michael Bang Sörensen, Kevin Gjedde og Mikkel Risbjerg Nielsen, allir sögu- og félagsgreinakennarar, auk þess sem Michael starfar sem námsráðgjafi. Sameiginlega er hópurinn með áratuga kennslureynslu í farteskinu. Í þessari grein verður farið yfir það sem við upplifðum í Danmörku og dregnar af því ályktanir varðandi kennslu á Íslandi.

Verkefnið hófst með kynningu á ráðstefnu Félags áhugafólks um skólaþróun í ágúst 2024 þar sem Ármann og Michael efndu til málstofu um mismunandi námsmat í löndunum tveimur, með sérstakri áherslu á stóru stúdentsprófin sem danskir viðhafa, og alger fjarvera slíks hjá okkur. Eitt viðfangsefna verkefnisins er að yfirvega áhrif þessa starfs og árangur í framhaldsskólastarfi í Danmörku og á Íslandi. Helstu viðburðir verkefnisins voru svo gagnkvæmar heimsóknir í skólana á vorönn 2025 þar sem kennarar sátu tíma, áttu fundi og kynntu sér starfsemi samstarfsskólans. Danski hópurinn endurgalt heimsóknina og leit líka við í Kvennaskólanum og Borgarholtsskóla og skrifaði um heimsóknina grein sem mun birtast í tímariti félagsgreinakennara í Danmörku Polis haustið 2025. Við heimsóttum bara Det frie og fjallar þessi grein að mestu um upplifanir og pælingar tengdar henni.

Ólik lönd, ólíkir skólar

Lesendum Skólaþráða mun Verzlunarskólinn að einhverju leyti kunnur, en Det frie mögulega ekki. Det frie er reyndar líka „einkaskóli“ eins og Versló, en líkindum lýkur þar að mestu. Skólinn er stofnaður árið 1970 í umróti hippatímans með það að markmiði að vera lýðræðislegur menntaskóli. Í upphafi mun frelsið hafa verið meira en það er nú, en þó er það enn svo að „skólafundurinn“ hefur mikið vald, og á slíkum fundi hafa allir viðstaddir jafnt atkvæðavægi, nemendur, starfsfólk og kennarar. Dæmi um ákvörðun sem slíkur fundur hefur með að gera er ráðning rektors. Det frie er samt ekki róttækur lýðræðisskóli á borð við t.d. Sudbury-skólana, því námskrá, stundatafla og kennsluhættir eru samkvæmt almennum viðmiðum í Danmörku. Skólabragurinn hefur samt ákveðið frjálslegt yfirbragð, og það sem mest áberandi er að nemendur skreyta stofur sínar með myndverkum sínum, og stundum eru þau nokkuð sláandi. Lýsa mætti andrúmslofti skólans sem frjálslyndu og afslöppuðu, en á sama tíma rammpólitísku. Á veggjum skólans má sjá stór skilti sem sýna hamar og sigð, tákn kommúnista, og steyttan hnefa hreyfingar feminista ásamt fleiri gildishlöðnum táknum. Veggjalist sem þekur veggi skólans að innan sýnir jafnframt ýmisleg pólitísk þemu, auk annarrar tjáningar ungs fólks þar sem vísað er í ágæti grasreykinga og kynfæri af öllum stærðum og gerðum skreyta veggi skólastofa. Auk þess má nefna að mötuneytið er sameiginlegt fyrir nemendur og kennara og allur matur sem þar er fram borinn er vegan, samkvæmt ákvörðun skólafundar.

Mynd 2 – Hér má sjá einn greinarhöfunda (Ármann) og merki á veggjum skólans.

Mynd 3 – Hressilega skreytt skólastofa.

Grunnskipulag náms í framhaldsskólum í Danmörku er ólíkt því sem við þekkjum. Allt framhaldsskólanám er byggt á bekkjarkerfi og er fögum skipt í A, B og C fög. Kerfið er einfalt: A-fag er þrjú ár, B-fag er tvö ár og C-fag er eitt ár. Námi í fagi lýkur ýmist með prófi eða með mati kennara en dregið er um í hverju er prófað. Prófin eru bæði munnleg og skrifleg. Munnlegu prófin eru að jafnaði hálftími með utanaðkomandi prófdómara en skriflegu prófin 5-6 tímar. Hver nemandi fer að jafnaði í 12 próf yfir námstímann en stærstu og mest krefjandi prófin eru í lok þriðja bekkjar. Raunar er sambærilegt prófakerfi í lok grunnskóla i Danmörku og verður að segjast eins og er að þessi samræmdu próf sem við erum að rífast um hér á klakanum eru hálfgert föndur í samanburði við þetta rosalega kerfi. Ein af spurningunum sem hópurinn er að glíma við er: Hversu mikilvægt er þetta kerfi stúdentsprófa og eru danskir nemendur betri en íslenskir vegna þess? Það eru engar vísbendingar um að svo sé. Niðurstaða dönsku kennaranna í greininni sinni er að rétt sé að stokka upp prófakerfið danska að hluta með innblæstri frá íslenska módelinu.

Annar stór munur á milli landanna er að í áfangakerfinu íslenska, bæði í bekkjarskólum og hefðbundnum áfangaskólum, er hver kennari með hóp einungis í eina önn. Í Danmörku fylgir kennari bekk sem hann er með í A-fagi í þrjú ár. Kevin bendir á í samtali að þetta þýði að kennarinn kynnist nemendunum vel og geti byggt upp öruggt námsumhverfi þar sem umræður geta farið meira á dýptina. Vissulega má benda á að ef samband bekkjar og kennara er ekki gott getur þetta verið erfitt. Sú staðreynd að námsmatið kemur að hluta til að utan leiðir til þess að kennarinn og nemandinn eru saman í liði – kennarinn er jafnstressaður og nemendurnir þegar einkunnirnar koma í ljós, meðan íslenski kennarinn er alltaf einhvern veginn báðum megin við borðið og undir því líka.

Það var líka okkar upplifun að hvað prófin varðar séu danskir kennarar meðvitaðri um kröfur námskrár en íslenskir. Í samtölum við þá félaga úr Det frie kemur fram að þetta geti mótað kennsluna, t.d. er krafa um að nemendur geti nýtt sér tölfræðileg gögn á lokaprófi, auk þess sem þau þurfa að þekkja ákveðnar kenningar, sem ef til vill eru ekki þær kenningar sem hverjum einstökum kennara þykja mikilvægastar. Í samtali um þetta benti Kevin líka á að það sé sérkennilegt að námsgreinar séu með ólíkar áherslur. Þannig læra nemendur að gera ritgerð með einum hætti í ensku, öðrum í dönsku og svo enn eina nálgun í félagsgreinum. Engu að síður fannst okkar faglegt frelsi kennara í Danmörku væri umtalsvert þó að þeir séu með augun á námskránni. Kröfur námskrárinnar í félagsgreinum og t.d. í ensku eru að langmestu formlegar eða þá að það eru lagðar breiðar línur. Til að mynda er gerð krafa um að fjallað sé um jafnrétti í félagsgreinum, en þá hefur kennarinn mikla möguleika á sjálfstæðri útfærslu á efninu. Hver kennari í einstakri grein hannar sína eigin kennslu og mátti sjá óhug setja að félögum okkar þegar við lýstum hvernig áfangalýsingar festa hvað sé gert niður á hverja viku eins og við gerum en hér getum við örugglega lært eitthvað af þeim.

Það sem íslenskur framhaldsskólakennari tekur fyrst og fremst eftir við að sitja tíma í Det frie er hve viljugir nemendur eru að tjá sig. Í hvert skipti sem færi gefst rétta nokkrir nemendur upp hönd til að leggja orð í belg. Þegar nemendur fá orðið er það yfirleitt ekki til að svara spurningum kennara í stuttu máli eins og raunin er yfirleitt með íslenska nemendur, sem þarf að draga hvert orð uppúr. Nei, nemendur Det frie svara kennurum sínum í löngu máli, vísa í námsefnið eða málefni líðandi stundar og leggja svo jafnvel fram sínar eigin spurningar. Í heimsókn okkar tókum við eftir því að hver nemandi gat verið með orðið í dágóðan tíma og svo virtist sem aðrir nemendur sýndu áhuga því sem jafningi þeirra hafði til málanna að leggja. Sameiginleg upplifun okkar Verslókennara er sú að nemendur okkar séu feimnir við að tjá sig í tímum, jafnvel þó að lögð sé áhersla á að það sé hluti af náminu og að ástundunareinkunn velti á því hversu virk þau eru í tímum. Það er næstum eins og það þyki ekki nægilega flott að rétta upp hönd, að þau sem geri það, séu að reyna að trana sér fram. Þá er eins og nemendur vilji ekki taka áhættuna á því að hafa rangt fyrir sér, því er öruggast að segja ekki neitt. Yfirleitt eru í hverjum bekk nokkrir nemendur sem eru duglegir að tjá sig, þó ekki sé nema til að svara spurningum stuttlega, og er oft eins og restin af bekknum skýli sér á bak við þá einstaklinga. „Ég þarf ekki að svara, Jóna gerir það hvort eð er.“ Þetta er vandamál sem margir kennarar kannast eflaust við. Að því sögðu eru að sjálfsögðu missterkir aðilar í hverjum hóp í Det frie þegar kemur að því að tjá sig í tíma, gróf áætlun er að um 1/3 af hópnum hafi verið mjög virkur í kennslustundum. Það er þó töluvert betra en þegar einn, tveir eða þrír nemendur tjá sig í kennslustund á Íslandi.

En hvað veldur þessum mikla mun á vilja og getu íslenskra og danskra nemenda til að tjá sig í kennslustofunni? Þar hlýtur að spila inn í vægi munnlegs námsmats í Danmörku. Besta leiðin til að virkja nemendur er að þeir sjái tilgang með því sem þeir eru að gera. Ósjaldan hefur heyrst óma um kennslustofna: „Hvað gildir þetta?“, „Er þetta til prófs?“ þegar verkefni er lagt fyrir nemendur. Sú staðreynd að munnlegi þátturinn sé metinn til lokaeinkunnar hlýtur að hafa hvetjandi áhrif á þátttöku nemenda. Vissulega er það nokkuð sorgleg staðreynd enda ætti það að þjálfa sig í tjáningu og þátttöku í umræðum eitt og sér að vera nægur hvati fyrir nemendur.

Leikhús hinna frjálsu lærimeistara

Dönsku kennararnir beittu kennsluaðferðum sem vöktu okkur til umhugsunar og sem við gætum hugsað okkur að nýta að einhverju leyti í okkar eigin kennslu. Fyrsta daginn sátum við kennslustund hjá Michael. Tíminn hófst með því að hann bað nemendur um að ræða um fréttir líðandi stundar, fyrst sín á milli og svo yfir hópinn. Þetta þótti okkur skemmtileg leið til að liðka málbein nemenda á sama tíma og hún hvetur þau til að fylgjast með fréttum. Einfalt og gott. Eftir það fór fram upprifjun á efni sem hópurinn hafði farið í fyrr á önninni en sú upprifjun var í formi kynninga. Það vakti athygli okkar að það virtist vera lítið um svokallaða „farþega“ í hópunum sem fluttu erindi, allir tóku þátt blaðlaust og það sem meira var fylgdust allir bekkjarfélagarnir vel með. Engir símar voru sjáanlegir og tölvur hálflokaðar án þess að kennarinn þyrfti að minnast á það. Það er þannig greinilega mögulegt fyrir nemendur að eiga snjallsíma og hafa þá á sér án þess að freistast alltaf til að vera í þeim. Eftir kynningarnar voru umræður og spurningar. Þær tóku nánast jafnlangan tíma og kynningin sjálf! Nemendur svöruðu í löngum setningum, ekki einsatkvæðisorðum. Andrúmsloftið í kennslustundinni var afslappað, nemendur að maula mat, fara fram án þess að biðja um leyfi og ein var meira að segja að prjóna, en ekkert af þessu virðist hafa neikvæð áhrif á einbeitingu eða aga í kennslustofunni. Michael fylgdist með kynningum nemenda sinna einbeittur og alvarlegur á svip og var óhræddur við að ögra nemendum sínum, í bland við hrós og stuðning.

Í tíma hjá Kevin daginn eftir vorum við í nýrri stofu sem var þannig út búin að á veggjunum allan hringinn voru tússtöflur sem hægt er að nota í kennslu. Þetta er mjög sniðugt fyrirkomulag (sem Kevin nýtti þó ekki í þessari tilteknu kennslustund) en gallinn er sá að bekkirnir eru með heimastofur svo að það er alltaf sami hópurinn sem getur nýtt töflurnar. Svona kennslurými er eitthvað sem myndi líklega nýtast best inn á milli til uppbrots og því er e.t.v. dálítil synd að það sé alltaf sami bekkurinn í stofunni í stað þess að rótera svo að öll njóti góðs af, já, eða þá að þetta fyrirkomulag sé í öllum stofunum. Raunar má nefna að það er svona stofa í Versló og kveikti þetta hugmyndir um mögulega nýtingu á henni. Kevin sýndi myndband, sem var á dönsku og með dönskum texta, og úr gagnagrunni sem íslenskur kennari getur ekki annað en öfundað þá dönsku af. Alltaf má sjá takmarkanir hvað varðar íslensk námsgögn þegar litið er út fyrir landsteinana. Kevin virkjaði nemendur með því að glósa sjálfur jafnóðum á töfluna og undirstrika þannig áhersluatriði. Eftir það voru umræður og aftur kom í ljós að svo gott sem allir vildu tjá sig.

Síðar um daginn sátum við tíma hjá Mikkel. Tíminn hófst á því að hann skrifaði upp á töflu „matseðil dagsins“, sem var nokkuð nákvæm útlistun á því hvað átti að fara fram, allt skipulagt í þaula. Mikkel virðist vera með þá stefnu í kennslustundum sínum að takmarka skjánotkun eftir fremsta megni. Nemendur notast við alvöru bækur og hver og einn er með stílabók helgaða áfanganum til að skrifa í. Á tímum yfirþyrmandi skjávæðingar var þetta hressandi tilbreyting. Þessi kennslustund fór fram í stofunni með töflunum allan hringinn og nýting Mikkel á rýminu var mjög vel heppnuð. Áfanginn fjallaði um helförina og þjóðarmorð. Mikkel skipti bekknum upp í minni hópa og lét hvern og einn hóp skrifa á eina af töflunum í stofunni þrjú atriði sem sátu eftir í huga þeirra úr efni áfangans til þessa. Svo gekk allur bekkurinn hringinn og staldraði við hverja töflu eins og verk á listasýningu. Hver hópur útskýrði nánar punktana sem þau höfðu skrifað upp á töflu. Þetta var afar vel heppnuð nýting á rýminu, braut upp kennsluna og tilvalin leið til upprifjunar að láta nemendur í raun kenna það sem þeim þótti áhugaverðast. Þar næst umturnaðist kennslustofan því Mikkel tilkynnti að næsti liður væri að fara í dansleikinn Just Dance! Þetta er leikur þar sem leiðbeiningar um hreyfingar sem hópurinn á að gera birtist á skjá og tónlist ómar, og erfiðleikastigið hækkar með tímanum. Þetta hressti vel upp á liðið, en eftir það tók við nokkuð hefðbundinn fyrirlestur, sem var e.t.v. dálítið spennufall eftir dansinn.

Mynd 4 – Ein af töflunum í tímanum hjá Mikkel.

Síðasti tíminn sem við sátum var hjá Kevin en hann lagði fyrir alveg sérstaklega skemmtilegt verkefni. Það fólst í því að nemendur voru látnir vinna upp úr fjölbreyttum frumheimildum sem tengdust endurreisnartímabilinu, bæði texta, myndir, kort og fleira. Verkefnið fólst í því að tengja þessar heimildir við efni sem hafði komið fram áður í áfanganum og að lokum áttu nemendur að kynna afurðina fyrir bekknum. Þetta var undirbúningur fyrir munnlega hluta lokanámsmats þeirra.

Samantekt

Eins og sjá má áttu allir þeir kennarar sem við heimsóttum það sameiginlegt að leggja miklu meiri áherslu á samræður milli nemenda og kennara en vant er að sjá hér á landi. Samtalið er kjarni kennslustundarinnar og nemendur eru meðvitaðir og móttækilegir fyrir því. Hugarfarið gagnvart kennslustundinni virðist líka gerólíkt. Ætlast er til að nemendur taki þátt, hafi sinnt grunnundirbúningi fyrir kennslustundina og geti lagt sitt að mörkum þegar kennari ætlast til þess og sömuleiðis óumbeðnir. Kennslustundin verður því frekar samstarfsverkefni heldur en hin einhliða mötun sem svo oft er ríkjandi form í íslenskum skólastofum. Michael Bang orðaði þetta ágætlega, að kennslustundin og námið snerist um að gefa af sér og það ætti við bæði um kennara en ekki síður nemendur því unglingar væru oft móttækilegri fyrir því sem kæmi frá jafnöldrum og hefðu meiri áhuga og námsvilja þegar þeim fyndist að þeir ættu einhvern hlut í því sem þar fer fram. Þetta magnar seið sem verður hið frjálsa samtal um námsefnið þar sem flestir leggja eitthvað í púkkið. Umgjörð kennslunnar er samt fjölbreyttari og fallegri en bara eintómar samræður. Nýting kennslurýmis og uppröðun vakti athygli. Ekki var hikað við að breyta uppröðun og sætaskipan hvort sem var í upphafi tíma eða miðjum tíma ef það hentaði verkefnum dagsins. Nemendur virtust líka alvanir þessu og tóku viljugir til hendinni og viðruðu einnig skoðanir sínar á því hvernig væri sniðugt að nýta rýmið. Skemmtilegt fannst okkur að sjá ekki eina einustu PowerPoint-slæðu frá kennara í allri ferðinni. Hver tími var ávallt útfærður í gegnum sameiginlegt Google docs-skjal sem allir nemendur höfðu aðgang að. Í skjalinu var oftast stutt lesefni til að vinna með, myndir og/eða tenglar á myndskeið og jafnvel tenglar á ýmislegt ítarefni. Kennarar kynntu námsefnið út frá því , tengdu á myndbönd og annað sem nýtt var í kennslustundinni.

Þessa reynsla okkar og athuganir eru vissulega hvorki yfirgripsmiklar né hávísindalegar. Engu að síður rímar þessi upplifun að einhverju leyti við það sem þær rannsóknir sem til eru um efnið segja. Hér er tafla úr grein Ingvars Sigurgeirssonar og félaga (2018) um kennsluaðferðir í framhaldsskólum þar sem sett er fram greining á því sem kom fram í úttekt á kennslustundum í félagsgreinum í nokkrum íslenskum framhaldsskólum.

Mynd 5 – Tafla með yfirliti um kennsluaðferðir í íslenskum framhaldsskólum (Ingvar Sigurgeirsson o.fl. 2018).

Eins og taflan hér að ofan sýnir þá koma umræður einungis við sögu í níu prósent kennslustunda í þeim stundum sem athugaðar voru. Þetta kemur heim og saman við tilfinningu höfunda þessarar greinar. Gróflega mætti áætla að miðað við okkar upplifun þá væri þessu öfugt farið í dönskum skólum. Sambærileg gögn eru ekki fyrirliggjandi um kennsluaðferðir í dönskum framhaldsskólum en með hliðsjón af heimsókn okkar myndum við giska á að umræður séu mun algengari í dönsku framhaldsskólunum. Í umfjöllun um sögu félagsgreina í kennslu á Norðurlöndum, en þó sérstaklega í Danmörku, bendir Torben Spanget Christiansen (2017; 2023) á að það sem einkenni greinina sérstaklega sé að aðferðirnar séu bæði munnlegar og skriflegar. Sérstök áhersla sé á að draga inn fagleg einkenni fræðigreina eins og félagsfræði og stjórnmálafræði og jafnframt sé rík áhersla að vinna með viðfangsefni sem eru ofarlega á baugi á hverjum tíma. Margt er líkt með þessum einkennum í íslenskri félagsgreinakennslu. Helst mætti benda á að ekki er lögð eins mikil rækt við munnlega þáttinn, og í stað einnar greinar þar sem fjallað eru um mörg félagsleg fyrirbrigði fá fræðigreinarnar umfjöllun í sjálfstæðum áföngum. Við sáum öll þessi einkenni í okkur stuttu heimsókn til danskra. Christiansen bendir reyndar líka á að þessi námsgrein hafi legið undir því ámæli að vera kjaftafag, en okkur skoðun er sú að það eigi að teljast hrós fremur en hnjóð!

Ljóst má telja að lærdómur af þessu verkefni hafi verið ærinn á báða bóga. Viðfangsefni dönsku kennaranna varð að yfirvega og glíma við mögulega breytingu og þróun á danska prófakerfinu. Við Íslendingarnir fáum hér veganesti til að styrkja munnlega þáttinn og seið samtalsins í okkar kennslu og munum breiða þann góða boðskap út áfram. Aukin áhersla á munnlega færni og samskipti er þáttur í að styrkja siðferðiskennd og samskiptafærni nemenda og að auki liggur fyrir að með sívaxandi styrk gervigreindar þá mun munnlegi þátturinn verða stöðugt mikilvægari sem kennslu- og námsmatsaðferð.


Skólar

Verzlunarskóli Íslands: www.verslo.is

Det frie Gymnasium: www.detfrie.dk

Sudbury skólinn : https://sudburyvalley.org/



Heimildir

Aðalnámskrá framhaldsskóla. (2011). Aðalnámskrá framhaldsskóla. Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Sótt af https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Adalnamskra%20framhaldsskola_2_utg_breyt_2015_.pdf

Christiansen, T. S. (2017). Hvad er samfundsfag? Fagdidaktik i samfundsfag. Frydenlund.

Christensen, T. S. (2023). Samfundsfag i Danmark: Et overblik. Nordidactica – Journal of Humanities and Social Science Education2023 (1), 35-53. https://journals.lub.lu.se/nordidactica

Gedde, M. o.fl. (væntanlegt, 2025).  Her Stoler vi på lærerne. Polis, 5(10).

Ingvar Sigurgeirsson, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson  (2018). Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. https://ojs.hi.is/index.php/netla/article/view/3067/1806

Samfundsfag A Stx. (2017). Samfundsfag A Stx. Undervisningsminsteriet. https://www.studocu.com/da/document/kibaek-skole/samfundsfag/samfundsfag-a-stx-august-2017-ua/123494226 

Studienet.dk. (e.d.). STX – Eksamen og prøver. https://www.studienet.dk/guide-til-gymnasiet/eksamen-og-proever/stx

Þakkir

Höfundar þakka Mikchael, Mikkel og Kevin frábært samstarf. Við þökkum líka Bryndís Jóhanns, Ingvari Sigurgeirssyni og ónefndum yfirlesara góðar ábendingar um textann, en allt klúður sem eftir kann að standa er á ábyrgð höfunda. Síðast en ekki síst þökkum við Nordplus fyrir styrkinn sem gerði okkur kleift að takast á hendur þetta spennandi verkefni sem við vonumst til að framhald verði á!


Um höfunda

Ármann Halldórsson hefur starfað sem ensku- og heimspekikennari við Verzlunarskóla Íslands um nokkurt skeið auk þess að hafa stýrt alþjóðastarfi skólans. Ármann er meistaragráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands og hefur verið virkur í ýmsu starfi tengdu mennta- og skólamálum. Um þessar mundir er Ármann í námsorlofi þar sem hann leggur stund á heimspeki með sérstaka áherslu á heimspeki menntunar.

Nanna Kristjánsdóttir hefur kennt sögu við Verzlunarskóla Íslands frá árinu 2022. Nanna útskrifaðist með BA-gráðu í sagnfræði árið 2018 og vinnur um þessar mundir að lokaverkefni í MT-námi til kennslu við Háskóla Íslands.

Óli Njáll Ingólfsson hefur kennt sögu og félagsgreinar við  Verzlunarskóla Íslands frá árinu 2002. Hann lauk B.A. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og námi til kennsluréttinda frá sama skóla árið 2008.


Grein birt 25. október 2025